Sarpur | nóvember, 2011

Dr. Lager

29 Nóv


Það er brjálað að gera.  Hef tekið að mér lagerstörf og útkeyrslu til jóla fyrir væntanlega útgefendur mína (íslenski tónlistardoðranturinn 2012) hjá Sögum útgáfu. Þetta er púl enda mokast stöffið út og þetta eru engin smákvikindi þessar bækur, m.a. 3.5 kílóa Þjóðvega-bók Jónasar Kristjáns (5 stk í kassa – 18 kg samtals með umbúðum). Þetta er örugglega þyngsta bókin í ár og gæti kramið lítinn hund. Maður sveiflar þessu til og frá og verður kominn með sixpakk og risavaxin bæsepp fyrir jól. Win/win.

Starfsmenn verslana reka sumir upp stór augu þegar frægur maður úr sjónvarpinu og höfundur Prumpulagsins mætir á svæðið með bókakassa, en fá svo skilning á málinu þegar ég útskýri þetta með bæsepana. Jólabrjálæðið eyskt með hverri vikunni og svo verður allt geðveikt í restina. Ég þarf eflaust að fá mér ný jólaföt til að komast í með alla þessa nýju vöðva á mér.

Ég þeysi bæjarhluta á milli og í búðir í hverfum sem ég vissi varla að væri til. Til dæmis er eitthvað til sem heitir Bónus Vellir og er á móti álverksmiðjunni í Straumsvík. Þar vinnur Denni, sem komst í feitt með höfund Prumpulagsins í búðinni hjá sér og linnti ekki látum fyrr en hann hafði spilað lagið í símanum sínum. Ég tók auðvitað mynd af honum svo ég hefði hann í mínum síma. Svona er alltaf eitthvað að gerast skemmtilegt, maður lúðast inn með kassa og þá taka unglingastrákar flisskast eða nálgast feimnislega og fá að taka mynd með goðinu.

Eftir langa törn í stól fyrir framan tölvu þá er þetta djobb alveg frábært. Alveg fínt ef maður gæti svissað lífinu svona á milli, að vera „að vinna“ og að vera „að vinna alvöru vinnu“.

2 bækur og 3 myndir

22 Nóv


Þórarinn Leifsson
gerir upp við fortíð sína á flækingi á Spáni og Marokkó í skáldævisögunni Götumálarinn. Við Tóti erum jafnaldrar svo maður kannast við flest og fílingur unglingsáranna smígur í gegn. Ég gerði aldrei neitt jafn kreisí og Tóti sem lifði hálfgerðu rónalífi á köflum, var á endalausum og algjörlega stefnulausum flækingi, prófaði að djönka sig með heróníni, betlaði og fleira miður hressandi. Maður fór í mesta lagi á Interail, en fór vissulega nokkrum sinnum á almennilegt blakkát á Spáni um miðjan 9. áratuginn.

Tóti rúllar þessum kafla ævinnar upp í forvitnilega og skemmtilega frásögn, en það er svo sem aldrei lagst á nein sérstök djúpmið til að reyna að skilja hvaða  „hvatir“ lágu á bakvið þessari eftirsókn í vosbúð og flakk. Jú, það kemur reyndar aðeins í lokin, en samt… Sjon-klád, samverkamaður Tóta á löngum kafla, skellir því framan í hann í rifrildi að hann sé bara ríkt velmegunarbarn sem geti yfirgefið flækingsheiminn þegar hann vilji, en það kemur ekki skýrt fram hvort Tóti kaupir þessa niðurstöðu eða ekki. Fín bók, flottar myndskreitingar, gott hald í framsókn sögunnar en það mætti vera aðeins meiri dýpt. Hlandstinkandi en galvanesaraðar þrjár stjörnur á hana.

Role Models er nýjasta bók John Waters, leikstjóra og meistara. Hann skrifar um ýmsar hetjur sem hann hefur dálæti á og gerir það þannig að maður fyllist áhuga á viðfangsefninu þótt það sé eitthvað sem maður hefur engan áhuga á, t.d. svæsið hommaklám („verk“ Bobby Garcia„the Almodóvar of Anuses, the Buñuel of Blow Jobs, the Jodorowsky of Jerking Off“ –  og David Hurles – VARÚÐ: Svæsið hommaklám í linkum); fatahönnun Rei Kawakubo og merki hennar, Comme Des Garcons. Svo er annað sem höfðar umsvifalaust til manns, eins og viðtöl og pælingar um tónlistarmennna Johnny Mathis og Little Richards. Þótt John Waters hafi ekki gert góða mynd síðan 1994 (Serial Mom) þá stendur hann alltaf fyrir sínu í texta. Hixtalausar fjórar stjörnur á þessa.

Midnight in Paris, e. Woody Allen, er yfirborðskennt en þokkalega skemmtilegt Parísar-rúnk fyrir miðaldra listunnendur sem gera ekki of miklar kröfur. Þokkalegar tvær stjörnur á kvikindið.

Upside Down, The Creation Records Story er fín heimildarmynd sem rekur sögu hins dúndurhressa Alans McGees frá eitís indíi til næntís Oasis megamössun með viðkomu í My Bloody Valentine, Primal Scream og allskonar. Alan sprengdi sig á dópi og brjálæði og því fór sem fór. Rosamikið af því sem maður hefur verið að hlusta á í gegnum tíðina kom út á þessum slóðum svo flest er kunnuglegt og spennandi. Þrjár stjörnur á hana.

Source Code er frekar ansalegt sæfæ. Gaur liggur í kóma og upplifir allskonar og reynir að koma í veg fyrir hryðjuverk. Svo er það bara raunveruleikinn. Ha? Alveg „skemmtilegt“ samt. Tvær stjörnur á þetta.

Fjögur gos in ðe hás

19 Nóv


Það er alltaf verið að fá sér. Fá sér gos.

Á Amerískum dögum Hagkaupa tékkaði ég á Fresca Black Cherry Citrus. Nú hefur mér aldrei þótt skólpvatnið Fresca gott en svört kirsuber eru náttúrlega englafæða, svo ég hélt kannski að þetta myndi jafnast út. Það gerðist ekki og þetta var ógeðslega vont og dósin langt í frá kláruð. Eins og Fresca með smá cherry djúsi út í. Eina sem er töff við Fresca er að það er minnst á það í HAM laginu Transilvanía. Þetta rusl fær ENGA stjörnu. Núll og hauskúpu!

Melabúðin er aldeilis að standa sig í gosdrykkjaúrvalinu. Þar hef ég fengið ástralskan Bundaberg rótarbjór (sem því miður er ekki nógu góður) og það nýjasta sem ég náði mér í þar er hinn enski Fentiman’s Ginger Beer (Heimasíðan). Gosið þeirra kemur í 275 ml flöskum sem eru útlítandi  eins og þær séu meðalaglös frá 19. öld. Mjög kúl sem sé, en dýrt, enda er þetta eðall, flaskan á tæplega 400 kall. Engifergos er oft mjög gott og þessi er fínn, sterkur og góður. Fann reyndar aðeins of mikið sápubragð til að ég geti splæst fullu húsi á þetta, en þrjár stjörnur er passlegt.

Bryan kunningi minn frá Boston kom sem áður á Airwaves og tók með sér heilar 7 flöskur fyrir mig. Ég mun sko ekki slafra þeim í mig nema til hátíðarbrigða, enda um eðalstöff að ræða og tegundir sem ég hef ekki kynnt mér fyrr. Hann keypti þetta allt hjá Leo’s Place á Harvard square, en það er dæner með óvenju góðu úrvali af gosi. Ég tékkaði á rótarbjórnum Lost Trail, sem kemur frá Louisburg í Kansas (Heimasíðan og youtube mynd um framleiðsluna). Þetta er fínt stöff, karamellað og dísætt, en smá þunnt og ekki yfirmáta „krímí“. Mjög gott, eða þrjár stjörnur.

Næst úr Bryans góssinu tékkaði ég á R&R Brothers Root Beer, sem kemur í flösku með skrýtnum miða af fljúgandi höttum. Þetta er öðruvísi rótarbjór með smá berja og kanil-keim ofan á hefðbundið rótarbjórsbragð. Ekkert stendur á miðanum hvar þetta er búið til og goggle-leit skilar engu. Kannski var þetta bara búið til í kjallaranum hjá einhverjum bræðrum, hvað veit ég? Samt ekkert hrikalega æðislegt á bragðið, en alveg tveggja stjörnu stöff samt.

Hjálmar eru klikk

18 Nóv


Hjálmar eru alveg klikk og hlæja framan í efasemdir um „framtíð tónlistarútgáfu“. Þeir rokka (les: raggíea) eins og það sé 1990 og kýla út nýju afurðinni (Órum) á CD, skítþéttum VINÝL og síðast en alls ekki síst á KASSETTU! Bara einu sinni hefur afurð frá mér fengið svona trakteringar (þ.e. verið gefin út á CD, LP og KS), en það var platan Gums með Bless. Er as ví spík að hlusta á KASSETTUNA af ÓRUM, en það er eins og allir vita besta sándið á kassettum.

Skammdegisdoði miðaldra

13 Nóv


Skammdegisdoðinn læðist að manni. Maður sefur til hálf átta eins og eitthvað meðalmenni í staðinn fyrir að spretta á fætur klukkan fimm eins og alvöru maður. Allt í myrkri og best að hanga undir sæng og veltast um í restunum af draumaruglinu. Sjitt, fimm mánuðir af þessu í viðbót áður en það kemur vor og fuglar byrja að syngja?

Svo þessi merki um að maður sé að verða hundgamall. Grá hár í eyrunum, í skegginu, allt farið að slappast á manni, hálf heyrnarlaus og ég keypti mér nærsýnisglerauga í Tiger í gær (500 kr) af því ég er farinn að missa skerpu. Ömurlegt! Erum við að tala um einhverja strekkingu á slapandi andlitshúð í nánustu framtíð? Á ég að fara að sprauta mig með sterum og bótoxi? Öss.

Hvaða hvaða, þegar allt þetta þunglamalega drasl sækir á mann – myrkrið, doðinn, hin óumflýjanlega hnignun – þá fer maður að sjálfssögðu bara í ræktina (World Class, Laugar, best) og tekur eins og klukkutíma í svitakasti í spinning eða eitthvað álíka almennilegt. Maður pumpast upp af allskonar gleðiefnum sem sprautast um hauskúpuna af manni (adrenalín og endorfín og hvað þetta heitir, mér gæti ekki verið meira sama eins lengi og þetta gerir sitt gagn) og kemur út, enn í svitakasti en hlæjandi framan í ömurlegheitin. Þetta klikkar aldrei.

Þetta er ekkert flókið. Maður ræður sjálfur hvernig manni líður og kann trikk til að redda sér. Ekkert er eins ömurlegt og að dvelja við ömurlegheitin.

Svo enn í góðu stuði, enn pumpaður upp, fer maður á kaffihús og góðlátleg eldri kona spyr hvort ég sé ekki Gaui litli.

Sko!

Á Bítla- og matarslóðum í London

10 Nóv


Við Abbey Road stúdíó á Abbey Road er hin fræga gangbraut sem Bítlarnir ganga yfir framan á Abbey Road plötunni. Klukkan 10:40 á sunnudagsmorgni var þegar slatti af túristum mættur á svæðið til að taka myndir af sér að labba yfir á sama gps-punkti.  Ég og Steinn gátum auðvitað ekki verið eftirbátar í þeim efnum. Við gláptum nokkuð í áttina að Abbey Road hljóðverinu, en þar tóku ekki bara Bítlarnir upp sín helstu verk heldur hafa bæði Sigur Rós og Rabbi tekið þar upp líka, og jafnvel einhverjir fleiri Íslendingar.


Eins og sést hafa túristarnir krotað á veggina. Við slepptum því.  Það er svona 5 mín  labb að þessum túristastað frá St. John’s Wood öndergránd-stöðinni. Þar er Bítla kaffi, smá hola með Bítlaminjagripum, en ekki nægu plássi til að hægt sé að drekka inni. Of hráslagalegt í veðri til að nota borð og stóla utandyra.


Áður fyrr í svona London-skreppitúrum lét maður sér nægja að kaupa samlokur og kókómjólk í sjoppum, en nú, með aukinni áherslu fullorðinsáranna á mat og drykk, eru samlokur og kókómjólk ekki alveg málið. Var blessunarlega búinn að athuga smá á netinu hvar spennandi væri að éta. Hin stórfenglegi líbanski smáréttabakki sem ég fékk í Babel í Berlin (Kastanienallee 33) lifir enn í minningunni svo ég hélt ég fengi annað eins í London. Slatti af Lebanon-stöðum eru í gangi og mér leist vel á einn sem heitir Comptoir og er á nokkrum stöðum um borgina. Við keyptum okkur allskonar gúmmilaði á bakka, mest allskonar grænmeti og baunadót og drukkum með Laziza hindberja gos (einnig var til Laziza epla gos). Þetta var bragðlítið, en hressandi og svo sem ókei (2 stjörnur), og líklega búið til í Pakistan.


Englendingar eru náttúrlega hálf glataðir þegar kemur að hamborgaragerð en hafa verið að hisja upp um sig buxurnar með keðjunni Ed’s og nú annarri keðju sem heitir einfaldlega The Diner. Hann er fínni en Ed’s og bíður upp á geðveika borgara (segir Trausti allavega). Ég gerði þau mistök að kaupa mér slappa rækjusamloku sem ég hélt að væri eitthvað voða fínt New Orleans dæmi. Fékk þá allavega með tegund af rótarbjór, sem ég hafði aldrei fengið áður; Goose Island. Þetta er kommersíal rótarbjór frá Chicago, alveg fínn og upp á 3 stjörnur.


Ed’s var tekinn líka eftir að við átum frekar glataðan og sálarlausan Full English Breakfast  á Angus Steakhouse, sem er leiðindarpleis sem ber að varast. Það eina sem gat bjargað deginum var að fá sér banana peanut butter sjeik á Ed’s – og hafa hann „malted“ að sjálfssögðu – og gekk sú viðleitni eftir.

Römbuðum líka inn á sæmilegan indverskan stað í Soho (eða vorum reknir þangað inn eins og kindur af ákveðnum karli), en vorum því miður ekki svangir þegar við vorum á Brick Lane, aðal indverjagötu borgarinnar. Þar tróðum við okkur hins vegar út af exótísku sælgæti, svokölluðu sweetmeats:


Annars voru því miður sálarlausar kaffihúsakeðjur mikið styrktar í ferðinni. Starbucks náttúrlega með sitt svakalega karamellu frappóstjínó og kaffisull, Café Nero eitthvað (þeir eru ódýrari en Starbucks) og Pret a Manger kom sterkt inn. Það eru allir alltaf með kaffi í máli eins og fífl í þessum stórborgum og maður smitast af þessu. Á Pret fékk ég ágætan engiferdrykk staðarins, hressandi og góður og upp á 3 stjörnur.

Skinnhedds, nuddfiskar og vatnspípa

7 Nóv

Skrapp til London. Nauðsynleg hvíld frá Djöflaskerinu og fínt að henglast eins og algjört nóboddí í þessu marglita kjötflóði sem allsstaðar mætir manni. Svokallaður tilgangur ferðarinnar var að sjá hina frábæru hljómsveit The Specials leika fyrir 10.000 manns í N-London. Karlarnir gerðu eina af 10 bestu LP plötum sögunnar árið 1979 og hafa verið í sannfærandi kombakki síðan 2009. Höllin (Alexandra Palace) var smekkpökkuð af skinnheddum, 30 árum eldri en á præm tæm, og allir klæddir í eins föt frá Ben Sherman eða Fred Perry og/eða Specials/ska bol. Gríðarleg stuðbylgja fór um salinn þegar Specials hófu leik og ég var viss um að ég yrði skallaður af einhverjum eldri skinnhedd í æsingnum. Ég skrapp þó við skrámur, enda Specials-skinnhedds friðarskinnhedds, og kom út sveittur eins og svín á pönnu eftir allan dansinn. Að sjálfssögðu keypti ég allt sem mig vantaði á vinýl í Specials-safnið en sleppti því að kaupa Specials-bol.

Giggið er meira og minna komið á Youtube og hér má t.d. sjá intro myndband (sem rekur sl. 30 ár) og svo fyrsta lagið, Gangsters.

Margt kom á óvart í London og var eftirtektarvert. Á Leicester Square er komin risavaxin M&M búð á þremur hæðum. Emm og emm kúlur og allt sem hægt er að ímynda sér að hægt sé að tengja við M&M. Sjaldan hefur útkynjun/fyllkomnun tegundarinnar blasað eins við. Á Camden markaðinum getur maður keypt sér fótabað og aðgang að sérstökum nuddfiskum sem hópast um lúna fætur ferðamannsins og éta af þeim húðflögur og táfýlusveppi. Ég hefði betur tékkað á þessu (10 Pund 15 mín), en tók allavega mynd úr leyni:

Við Trausti fórum og reyktum vatnspípu á sérstökum vatnspípupöbb í nágrenni við okkur á Clapham South. „Pöbbinn“ bauð ekki upp á annað en vatnspípur og allskonar gúmmilaði til að reykja í pípunum; einnig súkkulaðistykki og mjólkurhristing. Við fengum okkur eina feita vatnspípu með vanillu/kókosbragði:

Þetta lítur vissulega ekki vel út. Nokkuð skemmtileg engu að síður og spes. Þarna voru gengjalegir blökkumenn að spila myllu og alveg að mökka sig á fullu úr þessum pípum, sem var dálítið furðulegt því „áhrifin“ voru svona eins og af einni Salem lights. Nema þeir hafi verið með eitthvað aðeins sterkara.

FM Jói Helga

1 Nóv


FM Belfast & Jóhann Helgason – Feel so Fine

Hljómskálinn, ofur metnaðarfullur tónlistarþáttur í umsjón eintómra meistara, hóf göngu á Rúv síðasta fimmtudag og verður á dagskrá eitthvað fram á vetur. Ef þú misstir af þessu má horfa á netinu. Fastur liður er að tveir ólíkir aðilar geri saman lag, ekki ósvipað og í þætti Dóru Takafúsa á 10. áratugnum. Þar tókum við Helgi Björns einmitt lagið Eldhúsverkin. Um frumsamin lög er þó að ræða í Hljómskálanum. Í fyrsta þættinum, sem var með dansáherslu, gerðu Jói Helga og FM Belfast saman helvíti töff lag. Vesgú.

Björk á geimöld

1 Nóv


Ef H.G. Wells hefði mætt í Hörpuna í gær á Biophilia-tónleika Bjarkar myndi hann halda að spádómar sínir í Tímavélinni væru réttir. Ég fékk a.m.k. smá svona Tímavélin 1960 útgáfan fíling út úr sjóinu í bland við pagan ritual á geimöld atriði úr einhverri annarri mynd frá svipuðum tíma. Það er þetta hvernig Björk notast við Graduale Nobili kórinn í sjóinu. Allar í svipuðum mussum/kjólum og samtaka í dansi og söng. Það er eitthvað sixtís framtíðarmyndarlegt við það.

Sjóið er auðvitað ansi flott, eiginlega alveg æðislega flott, en ég myndi samt segja að giggið hafi verið 50/50 æðislegt og ekki svo æðislegt. Rólegu lögin og þessi ofurerfiðu af nýju plötunni reyna á innri nennu, en þegar Björk spilaði góð stuðlög með góðu bíti var það gæsahúð og megakikk.

Allskonar skraut bar fyrir á skjáum. Mest fútt var í neðansjávarmyndum af krossfiska- og sjóorma-haug að gæða sér á dauðum og undarlega loðnum sel. Þetta tók nokkuð á fólk, sumir héldu fyrir augun og æjuðu sig. Rimlatunna með rafmagnsblossum seig niður í tveimur lögum en gerði ekki mikið fyrir mig þaðan sem ég stóð og risapendúll fór í gang í einu lagi og bjó til malimbalegt undirspil. Dálítið mikið vesen fyrir eitthvað sem hægt hefði verið að spila út úr tölvu, heyrðist mér. Bara þrír voru með Björk og kórnum, brjálaður trommari sem fór á kostum, einhver gaur sem stóð bakvið tækjastæður og Jónas Sen, sem hamraði af sér rassgatið í Vertebræ by Vertebræ, einum af mörgum hápunktum kvöldsins.

Í uppklappinu tók Björk m.a. Náttúra og Declare Independance, tvö rosa páverfúl lög sem fengu mig til að langa í heila Bjarkarplötu með svoleiðis lögum. Það yrði nú frábær plata og eitthvað sem Björk á „eftir að gera“. Engar plingplong Atla-Heimis-ballöður heldur bara geðveikt stuð. Björk er svo svakaleg að það þarf alltaf að koma eitthvað ennþá geðveikara frá henni næst. Hún gæti náttúrlega líka tekið Loutallica á þetta og gert plötu með Gylfa Ægis – það gæti orðið sturlgott samstarf af því ólíkari verða tónlistarmenn varla.

Eftir því sem ég kemst næst eru bara tvö Bjarkar-gigg eftir í Rvk. Eitt á sama stað á fimmtudaginn og svo verður allt havaríið flutt yfir í Eldborgarsalinn þar sem lokagiggið fer fram á mánudaginn. Að sjálfssögðu algjör skyldumæting fyrir alla sem telja sig vettlingi geta valdið í menningarlífinu.