Siggi Johnny – Sigurður Johnny Þórðarson – er látinn og verður borinn til grafar í dag. Það var alltaf stórskemmtilegt að tala við hann, það geislaði svo af honum gamli rokkspenningurinn, eins og hann væri enn staddur á sama degi og þegar hann heyrði rokk í fyrsta skipti. Ég tók fyrst við hann viðtal 2001 fyrir bókina Eru ekki allir í stuði? (sjá hér að neðan) og þegar við gerðum Popp og rokksögu þættina fengum við Sigga með okkur upp á völl til að sýna okkur aðstæður og rifja upp gamalt stuð. Það gerði meistarinn með glæsibrag eins og sjá má hér að ofan. Því miður rataði Siggi aldrei á plötu – nema eitt lag á jólaplötu með Ómari Ragnarssyni – en þeir sem sáu hann syngja á upprifjunartónleikum gamla rokksins á Broadway og víðar geta staðfest að hér fór kraftmikil kempa á ferð. Vertu sæll, gamli rokkari.
Auðvitað var rokkið múgæsing
Siggi Johnie er rokkað nafn á gömlum rokkara. Sigurður Johnie Þórðarson heitir hann í manntalinu og er fæddur 1940. Fjórtán ára kom hann til Íslands eftir að hafa búið í Kaupmannahöfn í sjö ár með foreldrum sínum. Nú býr hann í blokk í Hátúni og á að baki skrautlega og oft erfiða ævi, samtvinnaðri drykkjuvandamálum og ástum í meinum, að ógleymdri lífsseigu kjaftasögunni um að hann hafi sést ríða rollum út á Seltjarnarnesi. Þó sagan væri hin mesta steypa og uppspuni frá rótum loddi hún fast við og þegar Siggi var búinn að heyra einum of oft jarmað á eftir sér flúði hann aftur til Danmerkur. Siggi kom sterkur inn á ný 1983 þegar fyrstu íslensku rokkararnir komu saman aftur og hefur verið iðinn við að syngja síðan. Hann vígði m.a. karókí-kerfin á Ölver og Tveim vinum, hefur komið fram í auglýsingum og á fjölmörgum skemmtunum. Hér verður aðallega staldrað við það sem má kalla gullaldarár Sigga, árin 1956-1964. Þá var hann ungur söngvari sem naut mikilla vinsælda og kom fram með nánast öllum hljómsveitum bæjarins á nánast öllum stöðum landsins.
Náði svertingjunum alveg ágætlega
„Eftir heimkomuna var ég kallaður „Siggi danski“, en svo festist „Siggi Johnny“ við mig eftir að Svavar Gests kallaði mig það á árshátíð Gaggó Vest í Sjálfsstæðis-húsinu. Ég tók nokkur lög með Svavari og það spurðist út að ég væri góður. Ég söng því á árshátíðum fleiri skóla. Þær voru oft haldnar í Sjálfsstæðishúsinu á þessum tíma og hljómsveit Svavars spilaði undir. Hann var með svaka band og í samkeppni við KK-sextettinn. Draumur allra söngvara var þó að komast að hjá KK. Á þessum tíma var hann bara með einn söngvara, Sigrúnu Jónsdóttur. Hún var frábær söngkona, kom úr Öskubuskum, sem var söngsveit í bænum. Seinna fór hún til Noregs og söng með Kjell Karlsson, sem var KK þeirra Norðmanna“
Um það leiti munaði ekki miklu að Siggi kæmist að hjá KK-sextettnum. KK ætlaði að halda tónleika með nýjum söngvurum og Siggi svaraði auglýsingu frá honum.
„Við mættum þarna nokkrir söngvarar í gamla Þórscafé og ætlum að fá að reyna okkur. Þegar ég mætti var Jón „bassi“ Sigurðsson að kenna Ragga að syngja eitthvað lag. Raggi hafði verið alveg frábær trommari en var að stíga sín fyrstu spor sem söngvari. Hann átti að vera með í þessum hópi nýrra söngvara en svo var ákveðið að taka hann inn sem fastamann hjá KK. Það varð því ekkert úr að við syngjum hjá KK í þetta skiptið. Í staðinn komu aðrir undirleikarar og hópurinn; þeir og átta söngvarar, fjórir strákar og fjórar stelpur, fór út á land að skemmta. Við stældum hver sinn stílinn og ég náði svertingjunum alltaf alveg ágætlega, stældi t.d. Louie Armstrong, Louie Prima og Harry Belafonte. Annars var Haukur Morthens alltaf fyrirmyndin mín, enda var hann mikill listamaður og heiðursmaður. Ég var staddur í Svíþjóð á Dettifossi þegar Haukur og hljómsveit Gunnars Ormslev komu með gullverðlaunin frá Moskvu. Þeir komu um borð til okkar og þáðu skyr og saltfisk og átu vel af því eftir Sóvetdvölina.“
Siggi verður nafn í Austurbæjarbíói
Eftir þetta ævintýri 1957 fór Siggi að vinna sem „pottasleikir“ í eldhúsinu á millilandaskipinu Gullfossi. Hann skemmti á skipinu með eftirhermum og söng og karlarnir tróðu honum upp á svið í búllunum sem þeir stoppuðu á, því þá fengu þeir frítt að drekka. Eftir heimkomuna fóru hjólin að snúast. Siggi var annað slagið á sjó og söng hvar sem færi gafst; með Villa Valla á Ísafirði, Hljómsveit Ingimars Eydal á Akureyri, Hljómsveit Aage Lorange í Krossinum í Keflavík, Hljómsveit Haraldar Guðmundssonar á Neskaupsstað, Hljómsveit José Riba í Silfurtunglinu, Hljómsveit Guðjóns Pálssonar í Vestmannaeyjum og hljómsveitunum Trixon, Skuggasveinum og Fjórum jafn fljótum — „Þá kölluðu gárungarnir okkur Fjóra jafn ljóta!“ –, með Neo-tríóinu, hljómsveit Karls Lillendahl, Taboo, Bambínó og Rút Hannessyni svo einhverjir séu nefndir.
„Maður söng gömlu og nýju dansana á böllum og var alls staðar bara lausráðinn. Það var hringt og ég mætti. Fyrstu alvöru rokktónleikarnir sem ég söng á voru svo þegar KK kynnti nýja söngvara í Austurbæjarbíói 1958. Árgangurinn hans Gulla Bergmann var þá að útskrifast úr Versló og þessir tónleikar voru haldnir til að safna fyrir útskriftarferðinni. Þarna slógum ég og Sigurdór Sigurdórsson í gegn og það má segja að þarna hafi ég fyrst orðið nafn í þessum bransa. Á þessum tónleikum söng ég „Only You“ með Platters, „Butterfingers“ með Tommy Steele og svo „Long Tall Sally“ með Little Richards. Í því lagi notaði ég rokkstælana sem ég hafði séð Tony Crombie bandið vera með þegar það spilaði hér.“
Siggi var öflugur handknattleiksmarkvörður með KR á þessum árum og átti síðar eftir að spila nokkra leiki með landsliðinu. Í keppnisferð með KR til Akureyrar skömmu eftir söngvarakynninguna hjá KK dró til tíðinda.
„Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar var að spila í Freyvangi. Í því voru eintómir toppmenn, m.a. Þórir Roff, sem var þá bæði söngvari og trommari. Ég tróð mér upp á svið og gerði það mikla lukku að Andrés biður mig að tala við sig þegar ég komi í bæinn. Þá var slegið til; ég verð fastráðinn söngvari og vígist fyrir alvöru inní þennan hljómsveitarbransa. Það hentaði mér mjög vel. Ég var kominn endanlega í land, farinn að læra vélvirkjun og veitti því ekki af aukapening með lærlingskaupinu.“
Sigur á Selfossi
Hljómsveit Andrésar spilaði hvar sem færi gefst. Rokkaði og poppaði kvöld eftir kvöld á skemmtistöðunum í Reykjavík. Þeir voru misjafnir eins og gengur.
„Á Vetrargarðinum var ekki farið fram á fínan klæðnað svo sjómenn komu þar mikið beint af sjónum í duggarapeysum og vinnugöllum. Kanarnir komu þarna líka mikið, þetta var svona „notað og nýtt“-staður. Staðurinn tók um 250 manns en það var aldrei fullt. Það var mikið fyllirí en þó var ekki selt vín heldur urðu menn að smygla pitlum með sér inn. Stundum tóku dyraverðirnir flöskur af mönnum og seldu þær aftur, en pössuðu sig að vera búnir að henda þeim út sem þeir tóku flöskurnar af! Skemmtistaðir þessa tíma voru meira og minna vínlausir. Á fínni stöðum eins og Naustinu og Borginni var selt áfengi, en samt ekki á miðvikudögum. Þá var landið alveg þurrt — hvergi hægt að fá áfengi, erlendir gestir á hótelum gátu ekki einu sinni keypt sér. Við krakkarnir fengum útrás í dansi og söng og vorum góðir, glaðir krakkar sem fíluðum rokkið í botn. Auðvitað var rokkið múgæsing. Fólkið greip hljómfallið. Eftir tónleikana með Tony Crombie var t.d. haldið áfram að syngja og dansa fyrir utan. Það varð allt vitlaust og ekki nokkur maður undir áhrifum, nema af tónlistinni! Krakkar sem drukku voru alltaf útundan. Það þótti ekki fínt að drekka og alls ekki fyrir konur. Svoleiðis konur þóttu alveg síðasta sort. Þetta breyttist samt smá saman allt.“
Var einhver verulegur gróði af spiliríinu?
„Við fengjum borgað eftir því hvað kom mikið af fólki. Ef fólkið stóð og var hikandi voru ekki teknar neinar helvítis pásur, það var bara keyrt og spilað í tvo tíma til að ná fólkinu inn. Með Andrési græddi ég mest þegar við náðum einu sinni 1600 manns í Selfoss-bíói. Karlinn í bíóinu hafði leyfi til að selja 300 miða en svindlaði á skattinum og seldi sömu miðana aftur og aftur. Ég gleymi því aldrei eftir ballið þegar karlinn var með strigapoka fullann af brúnum fimmtíu köllum í kompu á bakvið. Hann fór bara ofan í pokann og rétti mér skælbrosandi handfylli og sagði mér að fá mér. Þetta var enginn smá sigur því á sama tíma var hljómsveit Óskars Guðmundssonar, sem átti flest fólkið í sveitinni, í Gaulverjabæ og KK í Hveragerði. Við rústuðum þessu algjörlega! Með okkur var hljómsveit Árna Elfar og Haukur Morthens og hljómsveit Guðjóns Pálssonar með Erling Ágústsson. Það var svo troðið að maður komst ekki á klósettið og því migum við bara á flöskur. Með Árna kom líka negrasöngvari, Nat Russell, sem Röðull hafði fengið til landsins. Hann tímdi engu og var alltaf snapandi brennivín. Hann tók góðan slurk úr flöskum sem hann fann og fannst það heldur þunnt! Hann var alveg rosalegur þessi Nat. Það var viðtal við hann í Alþýðublaðinu þar sem hann sagðist hafa haldið við Grace Kelly og að hann væri uppáhaldssöngvari Louie Armstrong – allt saman haugalýgi! Þetta var algjör prump-söngvari sem ekkert gat sungið og var svo alltaf blindfullur!“
Í eina rokkbandinu í bænum
Eftir stutta samveru með hljómsveit Andrésar Ingólfssonar tók Siggi við hljóðnemanum af Guðbergi Auðunssyni í hljómsveitinni Fimm í fullu fjöri, sem snemma árs 1959 var kölluð eina alvöru rokkhljómsveit Íslands í blöðunum. Bandið var skipað yngri mönnum en voru í hinum böndunum, var vinsælt í bænum og gerði allt vitlaust kvöld eftir kvöld hjá krökkunum í Silfurtunglinu. Siggi sá samt nýtt sóknarfæri.
„Ég dró bandið suður til Kanana á Rockville. Þar þénuðum við það sama á einu kvöldi og á fimm kvöldum í Silfurtunglinu og að auki var það allt svart, eða grænt öllu heldur. Á þessum tíma lágum við yfir Kanaútvarpinu með eldgamalt stálþráðarupptökutæki og um leið og nýtt lag kom vorum við komnir með það á prógrammið daginn eftir. Ég skrifaði niður textana en maður var ekki sleipur í ensku og skildi því ekkert hvað Gene Vincent, Chuck Berry, Little Richards og þessir gaurar voru að segja. Ég skrifaði bara niður hljóðin og hermdi svo eftir eins vel og ég gat. Könunum virtist alveg sama þó ég væri bara að syngja eitthvað bull – eða þeir sögðu að minnsta kosti aldrei neitt – því maður keyrði ballið áfram og það sást að við vorum í þessu fyrir ánægjuna. Það var lítil drykkja á bandinu og enginn okkar reykti einu sinni.“
Við allt þetta Vallar-spilerí gleymdu krakkarnir í Reykjavík Fimm í fullu fjöri og City sextettinn tók við sem vinsælasta bandið í Reykjavík. Seint árið 1959 hættu svo Fimm í fullu fjöri og meðlimirnir fóru í Diskó, Savanna-tríóið og hljómsveit Svavars Gests. Siggi komst hins vegar að hjá erkikeppinautunum í City.
„Við vorum tveir söngvarar í bandinu, ég og Þór Nielssen. Við spiluðum mikið á Iðnó og í Silfurtunglinu. Ég man að það lokaðist á okkur þar þegar Silfurtunglið vildi fara að selja vín. Þeir tengdu líka djúkboxið upp sem var niðri á sjoppunni fyrir neðan – Austurbar hét hún – svo í pásum gátu gestir valið lög sem hljómuðu bæði uppi og niðri. Einn daginn kom vinur okkar hann Jón Leifs og byrjaði án formála að klippa á víranna. Svo mölvaði hann bara djúkboxið með sleggju, maður! Hann mölvaði djúkboxið í Expressó-kaffi líka og það var aldrei neitt gert í málunum, hann ekki kærður eða neitt! Stef hefði aldrei orðið til án hans. Einu sinni kom hann í Landsmiðjuna þegar ég var að læra þar og klippti á hátalarana á útvarpinu. Það þurfti að borga Stef-gjöld af hverju útvarpstæki og þeir í Smiðjunni voru ekki búnir að borga. Jón Leifs var sko harður nagli!“
Konum smiglað inn, súkkulaði út
Eftir stutt stopp með City sextettnum, um vorið 1960, sigldi Siggi með Brúarfossi og kom fram í New York, m.a. með stórsveit Lionel Hampton – „ég þurfti reyndar að borga fyrir að syngja með þeim!,“ segir Siggi og hlær – og í fæðingarstað tvistsins, Peppermint Lounge. Þegar heim kom fór Siggi að gera út eigið band – The Swingers – og spilaði mikið á Vellinum næstu árin. Ýmsir komu við sögu í bandinu, en Siggi var eini karlsöngvarinn. Hins vegar voru margar söngkonur í bandinu, m.a. Fjóla Ólafsdóttir, Díana Magnúsdóttir, Astrid Jensen, Mjöll Hólm og María Baldursdóttir. Það má segja að Siggi hafi átt Völlinn á þessum árum. Bæði var um ballhald að ræða í Rockville, og á Vellinum sjálfum þar sem voru nokkrir skemmtistaðir. Þar gerðust ýmis ævintýri.
„Einu sinni var ég spurðir hvort ég hafi ekki „female-singers“, sem gætu dansað við hermennina líka. Ég segist auðvitað geta reddað því og komi bara næst með heilan kór. Svo mæti ég með heila rútu. Við vorum náttúrlega að spila á miðvikudagskvöldum á Vetrargarðinum, þar voru Kanarnir og maður þekkti þessar stelpur, sem voru kallaðar kanamellur en voru nú ekkert verri en gengur og gerist. Það fréttist að ég sé á leiðinni með tólf-manna dansflokk og ég verð að gjöra svo vel að gefa upp nöfnin á þeim öllum til að komast í gegnum hliðið. Nú vandaðist málið því maður þekkti stelpurnar ekki undir öðrum nöfnum en uppnefnum. Þetta varð svo all svakalegt. Ég man eftir Böddu svörtu að hossa sér skellihlæjandi ofan á einum hermanninum. Svo datt hún af og þá var vinurinn bara beinstífur út í loftið beint fyrir framan hljómsveitina! Þessi dansflokkur kom aldrei aftur með okkur! Einu sinni kom líka pínulítil frönsk nektardansmær í Silfurtunglið og til að krydda prógrammið tókum við hana með upp á völl. Sigurgeir sem rak Silfurtunglið kom með okkur, það þótti ægilegt sport að komast í bjórinn upp á Velli. Ég sagði þeirri frönsku að hún megi alls ekki fara úr botninum. Svo byrjar hún að dansa, ekkert nema karlar auðvitað á staðnum og hringurinn í kringum hana þrengist eftir því sem hún fækkar fötum. Hún hefur greinilega ekki skilið mig nógu vel og fer úr öllu. Þá byrja hermennirnir, sem höfðu ekki séð nakta konu svo mánuðum skipti, að grípa í hana og eru loks komnir í eina hrúgu ofan á henni. Við Sigurgeir komum henni til bjargar og hlaupum með hana inn í eldhús. Þá kemur bara hnefi fljúgandi framan í mig og ég sé stjörnur og stórann durg taka þá frönsku undir handlegginn og hlaupa burtu. Löggan mætti auðvitað og okkur var sagt að koma ekki með nektardansmær aftur!“
Þið hafið ekki verið í þeim bransa að smygla bjór og búsi út af vellinum?
„Nei, það var fylgst rosalega vel með okkur. Einu sinni smigluðum við þó súkkulaði út, vorum með fullt skottið af Hersleys og Baby Ruth, sem okkur þótti svo gott. En lögreglan kom á eftir okkur. Í sakleysi mínu datt mér í hug að múta þeim með Baby Ruth, en þá verður allt vitlaust; mér er stungið í steininn, bíllinn er kyrrsettur og allt, maður! Þú getur ímyndað þér hvað hefði gerst ef við hefðum nú verið með vín eða sígarettur!
Það hefur náttúrlega bara verið til íslenskt súkkulaði eða Prins Póló í búðunum þá?
„Já, einmitt, en í söluturninum sem Pétur Pétursson þulur átti og stóð í Arnarhólsbrekkunni gat maður oft fengið smyglað súkkulaði, enda var Pétur umboðsmaður og hafði sín sambönd. Hann var umboðsmaðurinn minn á tímabili og sendi mig út um allt land til að syngja. Einu sinni þegar ég var sem mest í rokkinu sendi hann mig á Austfirði en mér lýst ekkert á bandið sem ég á það syngja með. Það eru engir rokkkarlar heldur bara gamlingjar á harmóníku, píanó og sneril, og ég átti að syngja í gegnum segulband! Ég átti ekki orð svo ég hringdi í Örn Ármannsson og fékk hann austur til að rokka þetta upp. Hann var alveg frábær gítarleikari en er nú orðinn öryrki og býr í Hveragerði.“
Fimm flöskur í æfingatöskunni
Eftir mörg góð ár í góðu stuði á Vellinum á böllum sem gáfu feitt af sér hvarf glansinn snögglega af góssentíðinni á Vellinum árið 1964.
„Þetta breyttist allt þegar sjóherinn tók við af flughernum á öllum kúbbunum. Þá varð allt að fara eftir föstum reglum, m.a. var böndunum skipað að taka pásur. Maður vildi náttúrlega ná upp sem bestri stemmingu, en nei nei; í miðju lagi slökkti karlinn bara á okkur og setti djúkboxið á. „You have to take a break,“ sagð’ann og við störðum bara á hann. Þegar við komum úr pásunni þurftum við að vinna stemminguna upp aftur. Í pásunni misstum við líka konurnar út. Það komu stundum konur sem voru að vinna upp á velli í klúbbana til að dansa og til að halda þeim inni varð að kýla upp stuðið.“
Því fleiri konur sem voru á stöðunum, því betri stemming hjá ungu hermönnunum, því meira stuð og ánægja með Sigga og félaga. Konur komust þó aldrei inn á Rockville og klúbbarnir á Vellinum sjálfum voru misgóðir.
„Í Offisera-klúbbnum litu þeir á okkur Íslendingana sem moldarkofabúa, töluðu við okkur sem slíka og kölluðu okkur “Mo-jacks”. En ég gat sungið og þeir virtu mig fyrir það. Það voru engir negrar á vellinum, ekki nema þegar þeir komu hér stundum á leiðinni heim til sín og stoppuðu kannski í nokkra daga. Svertingjarnir fengu ekki að vera hér út af samningi sem Bjarni Ben gerði og því varð allt vitlaust þegar „flibbarnir“ komu með sjóhernum. Þeir voru gulir, Filippeyjingarnir, og það slapp. En þeir fóru líka fljótlega. Þeir voru allt annar þjóðflokkur og þetta fólk gat bara ekki skemmt sér saman; sjóherinn og flugherinn og „flibbarnir“ og þeir hvítu. Á einu ballinu endaði allt í slagsmálum, herlöggan mætti með gúmmíkylfurnar sínar og hermennirnir hrundu niður eins og hænur. Airmens-klúbburinn var lokaður í hálft ár eftir þetta og „flibbarnir“ voru sendir heim. Þetta sama ár byrjaði líka hljómsveit Svavars Gests að spila suðurfrá. Þá varð lítið gaman að spila á Vellinum því kaupið lækkaði svo. Svavar fór nefnilega að láta borga eftir íslenskum FÍH-taxta og þá tók því ekki að fara suðureftir. Maður gat alveg eins spilað í bænum og ég gerði það. Söng m.a. gömlu dansana með hljómsveit Árna Ísleifs í Breiðfirðabúð.“
Mest allann tímann í rokkinu hafði Siggi verið bindindismaður, en m.a. vegna erfiðra einkamála fór hann að sturta í sig. Það byrjaði þó sakleysislega upp á Velli.
„Málið var að við fengum senda bjórkassa upp á svið þegar við spiluðum óskalög. Ég fór lengi fram og skipti fjórum bjórum í fjórar kók — það kostaði það sama – og hafði kók handa mér á sviðinu. Svo hætti ég að nenna fram til að skipta og drakk bara bjór þó það hafi tekið mig smá tíma að þykja hann góður. Smá saman ágerðist þetta. Ég var kominn í handknattleikslandsliðið og eftir landsleiki voru veisluhöld á vegum menntamálaráðuneitisins. Þar var allt á kafi í brennivínsflöskum – ómerktum og tollfrjálsum auðvitað – og fréttaritarnir voru að taka sér flösku og flösku. Fyrst þeir gátu tekið eina fannst mér nú að ég gæti tekið fimm og stungið í æfingartöskuna. Ég skyldi það ekki þá að ég hafði auðvitað tendensa til alkóhólisma og það átti heldur betur eftir að sýna sig síðar.“