Sarpur | Gos RSS feed for this section

Það er byrjað að gosa

30 Okt

Manni hefur svoleiðis verið haldið uppi á nýju gosi upp á síðkastið að marr er kominn langt aftur úr í að blogga um þetta allt. Best að taka sig á:
2014-09-30 19.01.20
Mikill meistari, Smári, sendi mér flösku af Haji cola alla leið frá Berlín. Haji cola er kóla drykkur frá Indónesíu sem kynnir sig svo á heimasíðu sinni: „Soft drinks were yesterday, today there is haji: pure enjoyment for the senses, an oasis in the desert. A powerful soft drink fighting the power of the soft drink industry“ – sem sé, einskonar byltingargos. Flaskan minnir bæði á gamla góða spurið og á lava-lampa og Haji kóla smakkast ágætlega, smá karamella í kólanu, hinn fínasti drykkur upp á 3 stjörnur.

Melabúðin er leiðandi í gosi. Þar fékk ég Rose Lemonade frá enska merkinu Fentimans. Það er á 7up línunni með vægum keimi af rósavatni. Ekkert geðveikt (**). Í Melabúðinni einnig: Rhubarb og ginger Posh Pop frá enska merkinu Breckland Orchard. Engiferið og rabbabarinn renna saman í karmellaðan unað svo úr verður hinn fínasti drykkur (***).

Ég var í gróðrarstíu gossins, USA og bragðaði sitthvað.
2014-10-12 22.06.43
Tower root beer er einn aðalrótarbjórinn á New England svæðinu. Hann er barasta alveg fínn (***), klassískur rótarbjór og í fínu lagi.

2014-10-14 11.31.37
Fyrir Hrekkjavöku verða Kanar alveg graskers-óðir. Einn angi þess er Pumpkin Pie Soda frá Maine Root Handcrafted Soda (gæði). Bragðist þetta spes og spennandi (***).

2014-10-18 15.36.14
Gos frá Stewart’s er víða að fá á Austurströndinni. Gæða efni. Birch beer segja þeir að sé ólíkt Root Beer og Sarsaparilla, en ég er með svo vanþróaða bragðlauka að mér finnst þetta allt svipað. Fínasta stöff, sem sé (***).

2014-10-20 09.26.21
Jones er annað austurstrandargos sem víða fæst. Tékkaði á Strawberry Lime Soda sem er handónýtt (*), þungt í maga og bragðvont. Hellti þessu niður.

2014-10-24 15.37.33
Þegar heim var komið var gosveislan enn í fullum gangi á Amerískum dögum í Hagkaupum. Nú í fyrsta sinn bjóða þeir upp á nokkrar tegundir frá Jones, þar á meðal Jones Cream Soda, sem er eins og að drekka sykurpúða, rjóma og kandýflos í einu. Hreinasta sykursæla auðvitað (****). Aldrei áður hafa Amerískir dagar verið eins goslega sinnaðir því úrvalið hefur aldrei verið eins gott. Ekki bara var boðið upp gamla kunningja, Mug og IBC rótarbjór, heldur einnig nýja tegund, Natural Hansen’s creamy root beer. Því miður er þessi tegund alls ekkert spes, dáldið þunnt og flatt, en alveg nógu gott að maður nenni að klára dósina, svo tvær stjörnur.

Rabarbarasaft frá Kvíkví

15 Júl

rabarbara
Keypti Rabarbarasafn frá Kvíkví Kvíaholti í beint frá býli búðinni Ljómalind í Borgarnesi. Ljómandi góður og svalandi drykkur með smá karamellu-eftirbragði. Tvímælalaust þess virði að skutlast eftir þegar keyrt er um Borgarnes – 4 stjörnur!

Kók í Paradís

1 Apr

Eins og komið hefur fram hefur verið uggvænleg þróun í kóladrykkju innanlands þar sem bæði bíó og matsölustaðir hafa hent út Coca Cola og bjóða í staðinn upp á hið miklu-síðra Pepsi Cola. Nú berast þau gleðitíðindi að besta bíóið í bænum, Bíó Paradís sé komið með Coca Cola og geti því boðið upp á hina klassísku tvennu og ekkert kjaftæði! Enn ein ástæðan til að fara í Bíó Paradís, segi ég nú bara!

PS – Þetta er ekkert aprílgabb!

Gos frá karabíska hafinu

27 Mar

2014-03-21 20.36.27
Sá einstaki atburður gerðist á dögunum að bláókunnugur maður (Kristinn Viggóson) færði mér tvær flöskur af súper exótísku gosi. Hann hafði verið á siglingu um Karabíska hafið, pikkað upp tvær flöskur og dröslað þeim í gegnum svaðilfarir sínar alla leið til mín. Ég er svoleiðis gapandi hissa og ánægður með þessa vinsemd. Gosið er frá Sparkle Tropical Magic verksmiðjunni sem gerir út frá eyjunum St. Kitts & Nevis. Þar búa 53.000 manns og eru ábyggilega aldrei að hugsa um skuldaniðurfellingu. 

Nú nú. Flöskurnar eru úr plasti og rúma 590 ml af gosi. Fyrst var tékkað á „Cream Soda“. Það smakkaðist eins og vatnsþynnt goslaust Póló. Hitt heitir „Sorrel“ og smakkaðist eins og einhvers konar kirsuberjagos, sætt, eldrautt og freyðandi. Það var mun skárra. Krakkar fengu að smakka og einn sagði að „Sorrel“ væri besta gos sem hann hefði smakkað á æfinni. 

Eflaust er þetta mun betra í brakandi blíðviðri í Karabískahafinu. Mér sýnist þó að þeir þarna í St. Kitts & Nevis séu ekkert á leiðinni að hljóta alþjóðlegar viðurkenningar á sviði gosframleiðslu. Cream Soda fær eina stjörnu og Sorrel þrjár, en atvikið sjálft fær auðvitað fimm stjörnur, enda ekki á hverjum degi sem maður fær svona svimandi exótískt gos.

Gos í stríðum straumum

21 Feb

Ég á alltaf von á góðu þegar Bryan Riebeek mætir á Airwaves því hann kemur með svo mikið af rótarbjór handa mér. Nú er ég búinn að drekka gosið frá því hann kom síðast og birti eftirfarandi niðurstöður:
20131107_200323
Rocket Fizz Mud Pie er frá fyrirtækinu Rocket Fizz  sem selur allskonar gos og nammi í fransæsum út um hluta Bandaríkjanna. Boðið er upp á allskonar rugl, beikon gos og ranch dressing gos sem dæmi. Þetta er væntanlega eins óhollt og hugsast getur og uppfullt af torkennilegum bragðefnum. Mud Pie er einhvers konar sætt súkkulaði pæ og þessi drykkur smakkaðist næstum eins og útþynnt hlyns-sírop. Jafnvel má segja að þetta hafi farið yfir strikið í sætheitum. Ekki það ég hafi ekki klárað flöskuna. Gef þessu 3 stjörnur.

Moxie er ævagamalt gos og ættir að rekja til Maine, USA. Þetta las ég á wiki. Samkvæmt sömu heimild er orðið Moxie orðið að slangi yfir  hugrekki og kraft, svona eitthvað „Það vantar allt Malt í þig“ dæmi. Ég smakkað orginal Moxíið og fannst lítið til koma (sjá gömlu gossíðuna) en auðvitað eru framleidd hin ýmsu afbrigði, m.a. Moxie Blue Cream. Það smakkast sannast sagna ansi guðdómlega, eins og rjómalegið blátt Póló, dísætt og unaðslegt. Fjórar stjörnur! Eftir því sem ég kemst næst er Moxie nú framleitt af Real Soda, sem mér er algjört retro-dæmi.

Chicago Root beer kemur að öllum líkindum frá Chicago og er frábær rótarbjór. Rjómaður og með sterku karamellubragði. Algjört gúmmilað upp á 4 stjörnur.

2013-11-19 15.09.49
Duthers Black Cow Vanilla Creme Root Beer eða bara Black Cow Root Beer ætti skv. nafninu að vera eitthvað sem ég fíla. Því voru vonbrigðin nokkur því þetta var flatt, bragðlítið og óspennandi. Framleiðslan fór fram í Oglesby í Illinois. Get ómögulega gefið þessu nema 2 stjörnur.

Annar miðlungsrótarbjór er Triple XXX Root Beer, sem framleiddur er í Lafayette, Indiana. Algjörlega sérkennalaus en svo sem alveg drekkandi. 2 stjörnur.

Þriðji rótarbjórinn á myndinni er Jackson Hole Buckin’ root beer. Um hann var ég búinn að skrifa á gömlu gossíðunni og gaf þá 3 stjörnur. Núna hefði ég bara gefið þessu 2. Eru bragðlaukar mínir tómt rugl?

3xrbs
Dang! That’s good! Root beer er frá Milwaukee, Wisconsin og smakkast gríðarlega normal, eins og einhver algjör miðjumoðsdrykkur. Algjört meðaltal með 2 stjörnur.

Það sama má segja um III Dachshunds old fashioned root beer frá Oak Creek, Wisconsin, mikið miðjumoð (2 stjörnur). Það eina sem er öðruvísi er að á labelmiða er smá fróðleikur um langhundana sem drykkurinn er nefndur eftir (aka pulsuhundinn).

Killebrew frá Ramsey í Minnesota er rótarbjórnum það sem Bjarni Benediktsson er stjórnmálunum, ekki geðveikur en ber með sér fnæsandi traust, eins og blakkur veðhlaupahestur. Nei nú er ég alveg búinn að gleyma því sem ég ætlaði að segja. Nokkuð góður drykkur bara og 3 stjörnur.

2014-02-06 18.19.14
Hann Jón Sullenberger er alltaf á gostánum í bestu búðinni Kosti og flutti inn á dögunum nýjan gosdrykk sem heitir Iron Beer, sem á sér mikla sögu. Nafnið „Járn bjór“ segir ekkert til um bragðið, sem er hálfpartinn eins og kók blandað með appelsíni og karamellum. Frekar skrýtið, en venst fljótt og þú verður húkkt. Þrjár stjörnur á kvikendið.

Góð plata og misgóðir drykkir

23 Jan

Ekki í fyrsta né síðasta skipti sem það er svínað á poppurum, en tíðindum sætir að um er að ræða Ágætis byrjun Sigur Rósar, plötu sem tvisvar sinnum hefur verið kosin besta plata Íslandssögunnar í viðamiklum könnunum.

atonalblus_kapumynd

Atónal Blús – Atónal Blús
Höfuðsynd er glæný plata með Atónal Blús. Þessi spretthraða níu laga tilraunaplata er hugarfóstur gítarleikarans Gests Guðnasonar, sem hefur m.a. spilað með  Númer Núll, Stórsveit Nix Noltes, 5tu Herdeildinni og Skátum. Þetta er dúndurgott stöff, oft allnokkur Captain Beefheart í þessu, eða bara allskonar: mjög fjölbreytt og krefjandi tónlistarmauk. Geysilega ráðlögð plata, hreint og beint. Hér er spjall við Gest (varúð: inniheldur hefí orð eins og „taktboða“):

Hvernig tónlist er þetta?
„Tónlistin fer frá því að vera frekar létt og melódískt acoustic popp með þjóðlagaáhrifum yfir í að vera níðþungt og rafmagnað rokk með viðkomu í eletróník. Hún sveiflast frá því að vera falleg og melódísk yfir í að vera drungaleg og ómstríð og frá því að vera hæg og epísk yfir í að vera villt og hröð. Blandað er saman dauðarokki, nútímaklassík og blús, dans og balkantónlist, klassísku rokki, raf og heimstónlist ásamt því sem platan inniheldur dreymandi hugljúfar ballöður og 80s poppmetal.
Textar eru sungnir bæði á íslensku og ensku og stundum er tungumálunum blandað saman.
Ég er að nota töluvert af ritmum sem koma úr Balkanskri þjóðlagatónlist. Taktboðar eins og 11/8 og 7/8 eru algengir í tónlist frá Balkanskaganum en heyrast annars sjaldan nema í samtímadjassi eða klassík. Balkantónlistin sem notast við þessa taktboða er hinsvegar þjóðlagatónlist með grípandi laglínum, skýr í formi og keyrð áfram af ólgandi takti. Ég hef reynt að halda í þessi einkenni hennar á plötunni. Þessir ritmar eru yfirleitt mjög hraðir í hefðbundinni Balkantónlist þannig að ég geri tilraunir með að hægja þá niður svo að þeir verða mjög „grúví“. Umgjörðin eða hljóðheimurinn er líka annar og töluvert rafmagnaðari.
Ég er líka að nota eitthvað af klassískum tónsmíðaaðferðum í bland við að semja tónlistina eftir eyranu (veiða eitthvað sem fellur eyranu í geð upp úr undirmeðvitundinni) sem er kannski algengasta nálgunin við lagasmíðar í popp/rokk/þjóðlaga stíl. Þessar aðferðir leiða til nýrra hugmynda án þess að tapa einkennum upprunalegu hugmyndarinnar. Ákveðinn heildarhljómur helst ásamt því að efniviðurinn þróast. Með þessum aðferðum nota ég einnig spuna til að auka enn á blæbrigði og fjölbreytileika. Þannig vonast ég til að tónlistin losni úr viðjum þess að vera stíf og fyrirfram ákveðin en jafnframt að hún öðlist innsæi, íhugun og auðgi þess sem hefur verið vel ígrundað. Þarna verður því einhverskonar samruni menningarheima og tímaskeiða býst ég við. Áhrif frá forneskjulegri þjóðlagatónlist færð yfir í nútímalegan hljóðheim samin með klassískum aðferðum í bland við eðlisávísun.“

Hverjir spila á hvað?
„Þorvaldur Kári Ingveldarson vil ég meina að sé óuppgvötað afl í íslenskum trommuleik. Þorleifur Gaukur Davíðsson spilar á munnhörpu en hann er einn af fáum í heiminum sem hafa á valdi sínu að spila krómatísk á díatóníska munnhörpu. Jesper Pedersen spilar á þeremín en það er hljóðfæri sem þú kemur ekki við þegar spilað er á það. Páll Ívan Pálsson og Guðjón Steinar Þorláksson spila með boga á kontrabassa og draga fram óvenjuleg „óhljóð“ úr hljóðfærinu. Ég spila á kassagítara og rafmagnsgítara en markmiðið var að láta rafmagnsgítarinn hljóma á köflum meira eins og synthesiser en gítar.“

Hvað þýðir Atónal Blús?
„Atónal þýðir tónlist sem er ekki í neinni tóntegund eins og t.d. c-dúr eða a-moll. Blús er hinsvegar oftast bara í einhverri einni tóntegund eins og t.d. E-dúr. Þannig að þetta eru gjörólíkir stílar sem eiga lítið sem ekkert sameiginlegt (fyrir utan að vera jú hvort tveggja tónlist). Atónal Blús er því nokkurskonar þversögn.“

PLATAN Á BANDCAMP!

2014-01-12 13.24.04
Bónus selur nú drykki frá Cawston Press í Berkshire Englandi. Neytendinn ég smakkaði eftirfarandi:  Brilliant Beetroot safi er algjör viðbjóður enda er rauðrófusafi ógeðslegt moldarsull. Hvað var ég að spá? 0 stjörnur. Epla 99% og engifer 1% safinn er ok, full sætur kannski og það hefði mín vegna mátt stækka engifer hlutfallið. 2 stjörnur. Tvær gosflöskur: Epla og rabbabara er ágætur og mjög hlutlaus einhvern veginn, 3 stjörnur. Sparking ginger er góður, hinn fínasti engifer-safi, 4 stjörnur af fimm. Allt í allt hið fínasta mál hjá Bónus. 

Uggvænleg þróun í kólanu

21 Jan

coca19
Vífilfell missir Subway, segir DV. Subway er sem sé hætt með Coca Cola og fer að selja Pepsi í staðinn. Þetta er uggvænleg þróun sem hófst með því að bíóin duttu út eitt af öðru og er nú svo komið að aðeins Laugarásbíó býður upp á Coca Cola með poppinu. Starfsfólk er alltaf afsakandi við mann þegar það segir „Við erum með Pepsi, er það í lagi?“ Auðvitað er það ekki í lagi enda frekar augljóst fyrir fólk með sæmilega bragðlauka að Coca er miklu betra en Pepsi – it’s the real thing, eins og sagt er. Líklega er til eitthvað fólk sem finnst Pepsi betra en Coca, en það er minnihlutahópur, hálfgerð frík. Frík sem þeir aðilar sem selja Pepsi en ekki Coca eru að taka fram yfir meirihlutann vegna þess að Ölgerðin býður betri díla en Vífilfell. Pepsi-aðilarnir eru sem sagt ekki að hugsa um kúnnann og velferð hans í gosinu heldur bara að spara aurinn. Þetta er slappt. Menn reyna eflaust að afsaka sig eitthvað, eins og Gunnar Guðjónsson hjá Subway, sem segir: „„Ölgerðin var með betra tilboð og er með góðar vörur. Þeir eru miklu sterkari í diet- og vatnsdrykkjunum. Þó að þetta rauða kók sé alltaf mjög vinsælt, þá eru þeir sterkari í öðrum drykkjum.“ É ræt!

Hér eru nokkrir aðilar sem selja Coca Cola. Ég mæli með að Coca-istar beini viðskiptum sínum þangað.

Laugarásbíó
Roadhouse
Búllan
American Style
Dominos
Eldsmiðjan
Bæjarins bestu
Borgarbíó á Akureyri
Culiacan, Suðurlandsbraut 4
Hamborgarafabrikkan
Gamla Smiðjan í Lækjargötu 8
Saffran
Hamborgarasmiðjan á Grensásvegi
Noodle Station

Þetta er langt í frá tæmandi listi. Það má bæta við í skilaboðum.

(Myndin hér að ofan er auglýsing úr Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar (útgefið í Vesturheimi 1919). Íslendingar á Íslandi fengu ekki að lepja drykkinn fyrr en 1942. Eftir því sem ég kemst næst kom Sanitas með Pepsi árið eftir og varð Ísland þar með fyrsta Evrópulandið til að selja Pepsi.)

Nammi fortíðar

21 Jan

Nammi fortíðar er vinsælt umræðuefni þegar tveir eða fleiri sem eru „eldri en tvævetur“ (hallærislegt orðalag) hittast. Þá ligna menn aftur augum og nostalgísk upptalning hefst. Manstu eftir, manstu eftir..? Þetta hefur verið svona lengi og fyrirbærið var fyrst skjalfest í meistaraverkinu Sódómu Reykjavík þegar fólk taldi upp gostegundir í nostalgískri nautn.

princepolo
Framleiðendur hafa að nokkru mætt namminostalgíunni, en það mætti vera mun meira gert af því. Hið gos-sagnakennda Valash á Akureyri var endurgert fyrir nokkrum árum í takmörkuðu upplagi og fyrir jólin seldi Kaffitár endurgert Krembrauð á uppsprengdu verði (hverrar krónu virði auðvitað). Í búðum hér er enn selt nammi sem er orðið hundgamalt. Kókosbollan er forn. Líka Conga, Malta, Rommý, Lindubuff og Prins póló náttúrlega – þótt þetta „nýja“ sé  langtum verra en þetta „gamla“.

blackcat
Ýmsar tegundir eru horfnar með öllu. Black cat „Kisutyggjó“ var lakkrís-tyggjó sem margir fá unaðshroll við að heyra minnst á.

Smakk var hálfgert Prins póló vannabí en Pops var miklu betra súkkulaði. Mikið væri ég til í eitt Pops núna.

Gospillur voru unaðslegar. Maður setti þær sjaldnast í vatn heldur saug þær og lét freyða upp í sér. Það voru einhver eiturefni í þeim svo bann var sett á söluna. Forsjárhyggja! Ég hef smakkað nútíma gospillur sem enn fást í útlöndum, heita Fizzies. Auðvitað var ekkert varið í þær. Erfitt að meta hvort það sé vegna þess að þessar nýju gospillur eru verri og öðruvísi en þær gömlu, eða vegna þess að nostalgían hefur byggt upp væntingar sem ekki er hægt að uppfylla. Ef ég kæmist í tímavél núna og fengi Spur og Pops og allt þetta dót fyndist mér það ábyggilega ekkert merkilegt. Það er vegna þess að maður kann ekki að lifa í núinu heldur er alltaf í fortíðinni eða framtíðinni.

Þrjú flott gos

10 Okt

luscombe
Ég datt niður á LUSCOMBE COOL GINGER BEER í Melabúðinni. Þetta er enskt engifergos, blandað sítrónu frá Sikiley (segja þeir) og sykrað með reyrsykri. Alveg fínt, en ekki alveg laust við sápubragð. Ég bind vonir við HOT útgáfuna sem þeir framleiða en ég hef reyndar ekki séð í Melabúðinni ennþá. Þrjár stjörnur!tassoniwahahakvass
Kvass er austantjaldsdrykkur, sem maður fær stundum í pólsku búðunum hér. Þetta er nokkurs konar Malt, bara miklu verra – ég hef eiginlega aldrei fengið almennilegt kvass. Hjalli frændi kom með kínverskt kvass, sem er vægast sagt frábrugðið því pólska. Það heitir WAHAHA KVASS og er dísætt. Bragðið er   2/10 malt, 2/10 Sprite og 6/10 ananasdjús. Ég kom nú alveg flöskunni í mig, en ekki var það nú æðislegt – alveg 2 stjörnur samt!

Heiða færði mér TASSONI CEDRATA, ítalskt gos sem hún keypti í Berlín. Þetta er ekki nema 18 cl og kemur í rosa töff rifflaðri flösku, sem ég er búinn að vaska upp og mun eflaust nota undir smáblóm. Ekki skemmir fyrir að þetta er rosa fínt á bragðið, einhvers staðar á milli sprite og cream soda, dísætt og ljúffengt. Fjórar stjörnur!

Airwaves-gestur færir rótarbjór

19 Maí

bryanrootbeer1
Bryan vinur minn frá Boston kom á Airwaves í fyrra og greip nokkra framandi rótarbjóra með handa mér. Ég hef verið að mjatla þessu í mig og hef nú lokið við að drekka þá sjö rótarbjóra sem hann kom með og ég hafði aldrei smakkað áður. Nú er ég reyndar búinn að smakka svo margar tegundir af rótarbjór að þetta er allt farið að renna í einn graut, enda er ég ekki með bragðlauka á heimsmælikvarða. Ég skal samt reyna:

Blumers kemur frá Monroe í Wisconsin og þar á bæ leggja menn mikið upp úr því að auglýsa að það sé notaður cane sugar. Corn sýropið er náttúrlega alveg í ruslinu núna og gosdrykkjaframleiðendur með sjálfsvirðingu monta sig af cane sugar. Þessi var rjómalegur og mjög góður rótarbjór upp á þrjár stjörnur.

Drive-in style Dog n Suds ku vera mið-vestur rótarbjór/hamborgarabúllu-keðja með rætur til 1952 og Champaign borgar í Illinois. Það gerir þetta strax eftirsóknarvert enda spilaði Bless eitt af fáum góðum giggum sínum í hinum alræmda 1990-USA-túr í þessum háskólabæ. Fengum góðan mat, 40 manns á tónleikana og 150$! Rótarbjórinn er alveg fínn, maður finnur alveg „drive-in“ bragðið (!) því þetta er á lúmskan hátt teiknimyndalegur drykkur. Þegar allt kemur til alls erum við að tala um þrjár stjörnur.

Olde Brooklyn Root Beer kemur frá Williamsburg og notast við ekta reyrsykur (hipp – eru starfsmenn í tvíddi og koma til vinnu á gamaldags götuhjólum?) Hann er alveg djöfulli góður, sætur, rjómaður og sprellifínn. Fjórar stjörnur! Þess má geta að sama verksmiðjan framleiðir líka Sioux City rótarbjórinn, sem er eiginlega sú tegund sem kom mér út í þessa gosdellu (eftir að ég keypti flösku einhvers staðar upstate NY 1997). Sioux City kemur fyrir í snilldarverkinu Big Lebowski og það er í raun nokkuð metnaðarleysi að samnefnd hamborgarabúlla á Laugarvegi bjóði ekki upp á þetta.

Iron Horse Root beer var fjandi góður, eða fyrsti sopinn það er að segja. Rjómakenndur og góður. Því miður uppfyllti restin úr flöskunni ekki þær væntingar sem fyrsti sopinn hafði gefið, en engu að síður fínn drykkur hér á ferð – framleiddur í Edina, Minnesota og ég fann enga heimasíðu, bara facebook-síðu. Þrjár stjörnur.

bryanrootbeer2

River City er frá Sacramento í Kaliforníu og frá Blue Dog verksmiðjunni. Hér er allt við sama keip, rjómakeimur og ágætis bít. Þrjár á kvikindið.

Frostop er rótarbjór og veitingahús. Menn eru alltaf stoltir af fortíðinni í þessum bransa og segjast hafa byrjað 1926. Þetta er ansi hefðbundið kornsýrops-drull og ekki nema upp á tvær stjörnur. Þokkalegt en of kommersíal og svipað og margt annað.

Baumeister Root Beer er frá Lakeshore bottling í Green River í Wisconsin fylki. Þeir eru með þessa fínu heimasíðu. Mjöðurinn er ágætur en án sterkra einkenna (svo ég grípi til klisjulags orðalags). Alveg skotgekk niður kokið á mér svo við erum að tala um heilar 3 stjörnur.