Sarpur | október, 2017

10 x Airwaves

30 Okt

Þá er bara eftir að mynda ríkisstjórn. Sama hvernig fer verður helmingur landsmanna hundóánægður og ósáttur við þá ríkisstjórn. En nú er kominn tími til að einhenda sér í eitthvað hressara, eins og til dæmis Airwaves hátíðina sem leggur alla þessa viku undir sig. Ég hef rýnt dáldið í hið mikla framboð og fæ ekki betur séð en þetta séu atriðin sem ég ætla ekki að missa af. Tíu bestu erlendu atriðin á Airwaves. Þar til annað kemur í ljós, auðvitað. Ég get ekki sagt að ég viti mikið um þessi bönd, svo það er bara að vaða í þetta, algjörlega blint og vona það besta. Svo er náttúrlega hellingur af íslensku stöffi svo enginn ætti að fara ósáttur heim. Dagskrá og offvenue-dagskrá.

ГШ/Glintshake – Snyrtilegt nýbylgjurokk frá Moskvu. Gæti þess vegna verið hljómsveit frá 1980. Hafa verið til í 5 ár og eru að gefa út þriðju plötuna sína um þessar mundir.

Songhoy Blues – Afríkufönk frá Malí á uppleið með tvær plötur í farteskinu. Sú seinni, Résistance, kom út á þessu ári og erlend poppblöð halda vart vatni. Pottþétt stuð. 

Jo Goes Hunting – Trommandi söngvari, hollenskt nýbylgjupopp, glænýtt band. Fyrsta lag í spilun lofar góðu.

Pale Honey – Sænskar konur með tvær plötur. Heflað gítarpopp indie.

Hey Elbow – Meira sænskt, tríó frá Malmö. Þetta lag er gott.

Fai Baba – Gítarindie frá Sviss. 

Fazerdaze – Gítarindie frá Nýja Sjálandi – í beinu framhaldi af nýsjálensku indiegítarrokki eins og The Clean og The Bats.

Aldous Harding – Meira nýsjálenskt, listakonan Aldous sem er á díl hjá 4AD. 

Xylouris White – Lúturokk frá Grikkjanum George Xylouris og ástralska trommaranum Jim White, sem hefur spilað með Dirty Three.

Michael Kiwanuka er breskur og sólaður á því í gamlar ættir. Hefur gefið út tvær plötur.

Ítrekuð mistök í Eurovision

25 Okt

952942
Það borgar sig að kjósa rétt. Þetta hefur ítrekað sannast, ekki síst þegar kosið er til Eurovision. Þar hefur röng ákvarðanataka kjósanda blasað við strax eftir undanúrslitakvöld þegar lagið sem meirihlutinn hélt að væri að fara að gera góða hluti fauk ræfilslega úr keppni og enginn skildi neitt í neinu: „En við héldum að þetta væri pottþétt lag“?

Afhverju kusuði ekki frekar lagið í öðru sæti – það var frumlegra og skemmtilegra?

Pappír Svölu fór síðast. Pottþétt lag og fumlaus flutningur alvöru poppsöngkonu. Ísland elskar Svölu sína, en Evrópa tengdi bara ekkert við þetta. Um hvað var verið að syngja? Pappír? Skrifstofuvörur í Eurovision – það er ekkert sexí við það, engin skýrskotun við evrópskt sálarlíf. Svala hefði alveg eins getað sungið „Heftari“ eða „Skrifborð“.  Lagið í öðru sæti hefði líklega gert betri hluti. Daði Freyr og brosandi krakkarnir hefðu verið á skjön við meginstrauma söngvakeppninnar – svona eins of Portúgalinn sem vann. Íslenskir kjósendur voru bara of ferkantaðir pappakassar til að fatta þetta. Það er alltaf sama sagan.

Þetta heilkenni kjósenda keyrði um þverbak 2015 þegar upp úr kjörkössunum kom söngkonan María Ólafsdóttir, en eftir sat Friðrik Dór með lag sem hefur orðið einn stærsti smellur síðustu ára – Í síðasta skipti – og er sungið af börnum og gamalmennum um allt land, á meðan enginn man eftir Maríu og laginu hennar sem datt strax úr forkeppninni.

Ísland hefur ekki komist upp úr forkeppni Eurovision þrjú ár í röð. Sjáum til hvernig gengur næst, en þetta er auðvitað óviðunandi ástand. Á laugardaginn á að kjósa til alþingis í fjórða skipti síðan eftir bankahrun. Það eru flestir komnir með æluna í hálsinn út af þessu eilífa áreiti af stjórnmálamönnum, en fólk verður að þola þetta lýðræði og mæta á kjörstað og kjósa lag sem verður sungið í fjögur ár, en ekki bara í nokkra mánuði. Ég kýs að sjálfssögðu besta lagið, X-Samfylkinguna, en þú gerir bara það sem þú vilt. En plís, ekki kjósa lag sem gerir okkur að ítrekuðum viðundrum á alþjóðamarkaði. Glötuð lög verða ekkert betri þótt þau séu spiluð aftur og aftur og aftur.

 

Verum Samfó

23 Okt

Nú hefur hugsanlega eina kosningalagið í ár litið dagsins ljós. Það voru Biggi Veira í Gusgus og ég sem sömdum lagið, en textinn er eftir Hallgrím Helgason. Laginu er ætlað að fá fólk til að kjósa Samfylkinguna – XS – og er sérstaklega hannað til að höfða til jaðarsettra kjósenda og þeirra sem eru enn á báðum áttum, eða jafnvel á engum áttum. Alltof margir ætla að gefa skít í þetta allt saman, sem er kannski eðlilegt því það er óeðlilegt að þurfa að standa í lýðræðinu ár eftir ár – þegar þjóðfélagið ætti frekar að vera eins og glænýr Volvo sem bilar aldrei og þarf ekki að fara í ástandsskoðun fyrr en eftir fjögur ár. Ísland XS – Meira Svíþjóð – Minna Úganda.

Þetta er plata ársins

19 Okt

xstud-poster
Í dag er mikið Samfó-skrall á Bryggjunni brugghúsi. Boðið verður upp á skemmtiatriði (sjá plaggat). Um að gera að mæta, finna ferska kratavinda leika um heilabúið og sannfærast um að Ísland getur alveg tileinkað sér góða hluti sem hafa gefist vel í Kanada, Svíþjóð og öðrum löndum sem við ættum að bera okkur saman við. Jafnarmennskan virkar, þótt Blair-isminn hafi alveg fokkað þessu upp um tíma. X-S í dag er með best skúruðu framboðslistana og eins og skoðunarkannanir hafa verið að sýna er þetta málið í dag og það sem koma skal. Ísland úr ruslflokki íhaldsins, takk. Löngu kominn tími til að ríku kallarnir ráði ekki öllu hérna.

Páll_Ivan_frá_Eiðum_-_This_Is_My_Shit_600_600
Páll Ivan frá Eiðum á plötu ársins 2016 og 2017, This is my shit. Ég (Erðanúmúsík) var svakaspenntur fyrir að gefa þetta út á CD í janúar í fyrra. Það fór af stað, Páll valdi lögin, Albert Finnbogason masteraði plötuna og Páll fór að hugsa um hvað platan ætti að heita. Svo hlýt ég að hafa dottið í eitthvað þunglyndislegt verkleysi því mánuðir liðu og ekkert gerðist – Páll er sjálfur meira og minna í þunglyndi, svo ekki var mikið ýtt á eftir þessu úr þeirri áttinni. Listamiðstöðin og plötuútgáfan Mengi kom svo í spilið og vildi gefa plötuna út. Það tók endalausa mánuði, en núna, skilst mér, er This is my Shit, fyrsta plata Páls Ivans loksins komin út. Hallelúja! Þú verður nú bara að heyra þessa plötu, því hún er besta plata ársins, bæði 2016 og 2017. Nettari verður poppskíturinn varla. Afhverju er Tinder on the Toilet í massaspilun á öllum útvarpsrásum? Eru þessir útvarpsmenn algjörir þöngulhausar?
Brakandi ferskur vinýll ætti að vera til út í búð og svo er This is my shit á Spotify.

ABBABABB! – Prumpulagið 20 ára

13 Okt

sedogheyrt-skapti
Í dag eru liðin 20 ár síðan Abbababb! með Dr. Gunna & vinum hans kom út. Að því tilefni fer fram afhending gullplötu (5000 eintök seld) í Smekkleysu plötubúð, Laugavegi 35. Giggið byrjar kl. 16:00.

Abbababb! var tekin upp um sumarið 1997 af Valgeiri Sigurðssyni í Gróðurhúsinu, sem þá var glænýtt í iðnaðarhúsnæði í Smiðjuhverfi, Kópavogi. Þetta var fyrsta platan sem tekin var upp í Gróðurhúsinu. Auk Valgeirs var Birgir Baldursson helsti hjálparkokkurinn við gerð plötunnar. Hann trommaði og hjálpaði til við útsetningar og pælingar. Heiða Eiríksdóttir var heldur aldrei langt undan með söng og ráðleggingar – og samdi auk þess hið tregafulla lokalag, “Kisa mín”.

Mikill gestagangur er á Abbababb! Í upphafi var Jakobi Frímanni Magnússyni boðið að vera Hr. Rokk og leika hlutverkið með “Út á stoppustöð”-röddinni. Hann hafnaði boðinu og hefur síðar sagt að það séu hans stærstu listrænu mistök á ferlinum. Í staðinn var Rúnar Júlíusson kallaður til, en hann hafði áður gert gott mót í laginu “Hann mun aldrei gleym’enni” með unun. Rúnar tók Hr. Rokk svo óaðfinnanlega að hann var allar götur síðar kallaður Hr. Rokk.

Magga Stína spilaði á fiðlu og söng bakraddir og aðalrödd í “Strákurinn með skeggið”. Páll Óskar kíkti inn og söng “Dodda draug”, en það lag er eftir Paul Caporino úr bandarísku pönkhljómsveitinni MOTO, sem spilaði með Bless í USA 1990. Skapti Ólafsson var rifinn í stúdíó í fyrsta skipti síðan 1958 og söng í “Lalla-laginu” með Steini, syni sínum.

Dr. Gunni gat lítið fylgt plötunni eftir, enda í hörkumeiki með unun í útlöndum, eða í ástarmóki með nýrri kærustu í Bandaríkjunum. Einhver gigg voru þó tekin fyrir jólin 1997, meðal annars á uppskeruhátíð tímaritsins Æskunnar, þar sem Magnús Scheving kom einnig fram á frumdögum Íþróttaálfsins.

Pall Oscar Abbababb

Strax fór að bera á miklum vinsældum “Prumpulagsins”. Gunni hafði beðið Jón Gnarr að semja texta um prump og annan til. Niðurstaðan voru lögin “Óli Hundaóli” og “Prumpufólkið” – eða “Prumpulagið”, eins og gáfulegra hefði verið að kalla lagið. Árni Sveinsson gerði myndband við lagið, sem sló í gegn. Þarna fyrir jólin 1997 lá því prumpuský yfir landinu og ballsveitir hömuðust við að spila lagið á böllum. Krakkar víðsvegar voru með prump á heilanum og sögur bárust um siðavandar leikstjórastýrur sem hreinlega bönnuðu lagið – og jafnvel plötuna alla – á sínum leikskóla.

Abbababb! Seldist í 4000 eintökum fyrir jólin 1997 en önnur þúsund eintök hafa mjatlast út á þeim 20 árum sem liðin eru. Lengi lifir svo í góðu prumpi, eins og ég er reglulega minntur á á götum úti. Það þekkir hvert íslenskt mannsbarn Prumpulagið, enda er prump fyrsti brandari mannkynsins og líklega sá besti.

Eins og áður segir fer afhending gullplötunnar fram kl. 16 í dag, föstudaginn 13. okt – í Smekkleysu plötubúð, Laugavegi 35. Allir eru velkomnir til að samfagna, sérstaklega þeim sem finnst prump fyndið – og hverjum finnst það nú ekki?

DV-JAJ

Baksviðs á Woodstock

12 Okt

Rona Magical Woodstock headshot
Ég hitti Rona Elliott í gær og gerði smá viðtal við hana – Poddkast. Hún er ein af þeim sem skipulagði Woodstock hátíðina og hefur verið innan um allskonar stórstyrni bæði sem vinur og viðmælandi. Ágætis poddkast þótt ég segi sjálfur frá.

Í KASTI MEÐ DR. GUNNA Á ALVARPI NÚTÍMANS

rona-george

 

 

Heilbrigði þjóðarsála

11 Okt

naktirkarlar
Mér finnst íslenska þjóðarsálin mjög heilbrigð. Ég dreg þá ályktun af því hversu létt við eigum með að vera allsber. Fólk sem fer í sund – og eru það ekki næstum allir? – er ekkert að spá í því þótt miðjan á næsta manni eða konu blasi við í sturtunni. Það er enginn að spá í þessu nema kannski einhverjar teprur, sem fara þá bara ekkert í sund heldur hanga með sitt millifótakonfekt vandlega falið heima hjá sér. Og hafa þannig tíma til að vera endalaust reið af því þau þora ekki í sund, kallandi alla fávita og fífl í þessum bergmálsklefum gremjunnar (einnig þekkt sem kommentakerfi) sem þau hanga í.

Frændur okkar í hinum Norðurlöndunum eru svipað þenkjandi. Finnarnir eru hálfgerð strípiþjóð í sínum endalausu ísböðum og saunum og jafnvel í unisex-fílingi og enginn er neitt að spá í typpinu eða píkunni. Við fæddumst allsber og það er beinlínis fíflalegt að vera eitthvað að gera mál úr þessu. Undanþágu frá almannareglu fær fólk sem telur sig eitthvað bæklað þarna niðri og þá ber að hafa aðgát í nærveru sláturs.

En það eru náttúrlega ekki allir svona líbó. Ég hef ekki kynnt mér þessi mál hjá Kínverjum og Indverjum, en Bandaríkjamenn (þriðja fjölmennasta landið) eru alveg snar í þessu. Auðvitað eru 52 Bandaríki og ekki öll vitleysan eins. Vitlausustu Kanarnir kvarta yfir konum að gefa brjóst og eru bældir og heimskulegir með þetta, en eiga svo líklega átta byssur undir koddanum af því þeir eru alltaf á nálum og þurfa að verja sig fyrir einhverju. Óskiljanlegt lið.

saudi-arabia-women
Annað óskiljanlegt lið er fólk í löndum á milli Evrópu og Afríku. Þar er heilbrigðum þjóðarsálum sjaldan til að dreifa. Þar er einhver mannfjandsamleg túlkun á Kóraninum notuð til að klæða konurnar í svarta ruslapoka á meðan karlarnir mega vera í sundskýlu þess vegna, nema sumstaðar þar sem karlar verða að safna skeggi og vera í asnalegum mussum. Allt saman er þetta helvítis bull og vitleysa eins og annað sem kemur úr eldgömlum og lélegum skáldsögum. Nú ætla ég ekki að þykjast hafa kynnt mér þessi mál mikið og ég hef ekki gúgglað mismunandi tegundir búrkna. Mér finnst það bara sjálfgefið að þjóðir sem verða að hylja andlit kvenna eru bara ekki alveg í lagi. Og ef einhver últra pésé ætlar nú að byrja að mjálma um að “sinn er siður í hverju landi” þá getur hann bara skroppið í næsta bergmálsklefa og mjálmað þar.

Það er svo auðvitað annað mál að ég get lítið gert í því hvernig farið er með kvenfólk í Saudi Arabíu og fjallahéruðum í Afganistan, eða hvað þetta heitir. Konur eru helmingur íbúafjöldans og verða að hafa kjark til að breyta þessu, en ætli það sé nú svo auðvelt eftir margar kynslóðir af karlföntum í helsjúkum karlrembusamfélögum.

Nun Runs Tractor On Farm
Því minni áhrif sem biblíur og kóranar hafa á daglegt líf því heilbrigðari eru samfélög. En það er svo sem ekki við bækurnar sjálfar að sakast – oft alveg ágætis stöff í þeim á svona sam-mannlegum nótum – heldur karlpunganna sem nota þær sem afsökun fyrir eigin gremju og kvenhatur. Þeir eru sikk!

Pönk til Akureyrar

10 Okt

Það styttist í stórafmælin. ABBABABB! og Prumpulagið verður 20 ára nk. föstudag, 13. október. Að því tilefni fer fram gullplötuafhending og tónlistarflutningur í Smekkleysu plötubúð kl. 16 sama dag (föstudaginn 13.  okt). Allir velkomnir. Komið með krakkana!

Í janúar 2018 verða liðin 30 ár síðan GOÐ með S.H.Draumi kom út. Því verður fagnað en nánar auglýst síðar.

Það sem má hinsvegar auglýsa núna er að Dr. Gunni leikur á Græna hattinum, Akureyri, fimmtudagskvöldið 26. október. Í bandinu eru auk mín þeir Birgir Baldursson (lang besti trommari á landinu), Grímur Atlason kenndur við Airwaves og nýjasti meðlimurinn, Valtýr Björn Thors. Æfingar eru hafnar og þetta verður vonandi þétt og kraftmikið. Á efnisskránni verða bestu lögin frá og með Bensín skrímslið skríður með S.H.Draumi. Hljómsveitin LOST með þeim Rögga gáfaða og Kristjáni Pétri hitar upp. Þetta verður algjörlega meiriháttar og miðasala er hafin.

Leiðtogar lofa öllu fögru!

9 Okt

Ég horfði á þetta leiðtogabix á Rúv í gær. Ekki kannski frá byrjun til enda, heldur greip svona niður í þetta meðfram mun skemmtilegra vefvafstri. Næsta kosning til alþingis/húsfélags verður eftir minna en þrjár vikur, giggið er laugardaginn 28. okt og þá fá sirka 240.000 íslenskir ríkisborgarar tækifæri til að velja úr 12 flokkum. Þetta er nú meiri vitleysan. Er ekki hægt að hafa tvær umferðir svo það fyllist ekki allt af dauðum atkvæðum? Mér skilst að vegna offramboðs á flokkum síðast hafi 15% atkvæða hreinlega fallið dauð og ómerk. Læra þessir örflokkar aldrei neitt? Eru egóið svona uppblásið?

Jæja, í þættinum í gær lofuðu náttúrlega allir öllu fögru þrátt fyrir staðreyndir um annað og allskonar skítamix. Verkin tala, ekki satt? Nei, það virðist ekki vera.

Hér er dómur eins atkvæðis um frammistöðuna, ásamt einkunargjöf og möguleikum á að ég kjósi flokk viðkomandi.

valdi
Albaníu-Valdi
Gott komedí relíf, en vonlaust kommarugl. Það er búið að reyna þetta, Valdi og félagar, og það gekk ekki upp!!!
***
0% líkur á að ég kjósi Alþýðufylkinguna

simmi
Simmi
Ég hef nú bara einu sinni séð Simma á förnum vegi og hann heilsaði og var mjög kammó. Ég þarf að taka í hendinu á honum til að sjá hvort hann er jafn mikil ýsulúka og Halldór heitinn Ásgrímsson. Simmi fór í fýlu þegar honum var sparkað úr Framsókn og er búinn að plotta hefndina síðan. Flokkurinn sem gengur aðallega út á persónulega hefnd er ekki það sem ég þarf í augnablikinu, og líklega aldrei. Líka sjúklega óspennandi lógó. En Simmi var ágætur í spjallinu og þurfti ekkert að æsa sig (og missa þannig kúlið, sbr. Wintris).
***
0% líkur á að ég kjósi Miðflokkinn

inga
Inga Sæland
Ágæt í að skamma Bjarna Ben (hann er aldrei of oft skammaður) en ég held að Inga sé ekki málið. Auðvitað á að gera betur fyrir gamla fólkið, blanka fólkið og veika fólkið, en það þarf samt aðallega að horfa til framtíðar og stuðla að meira kúl hlutum, frumlegri hugsun. Heimurinn er ekki 1985 lengur. Því nenni ég ekki Ingu og hennar forneskju. Svo er nú glansinn fljótur að fara af þessu endalausa „ég er nú bara venjuleg kona“-ranti. Hundleiðinlegt kjaftæði!
*
0% líkur á að ég kjósi Flokk fólksins

sigurðurkingi
Sigurður Ingi
Framsókn hefur verið helsta hækja íhaldsins frá lýðveldisstofnun – og oft ekki hækja heldur síamstvíburi í helmingaskiptareglunni. En sé horft til framtíðar þarf aldrei slíka hækju aftur. Siggi er allavega fínn og fleira fólk í Framsókn, t.d. Lilja (hún er ekki pabbi sinn, sem á Orkuveituhúsið skuldlaust). Ég myndi alveg vera til í að keyra norður með Sigurði eða taka einn tvo bjóra. Geðfellt stöff en dáldil forneskja og skortur á kaldhæðni, sbr. viðbrögðin við gríninu í Þórarni í Fbl.
****
0% líkur á að ég kjósi Framsókn

bjarniben
Bjarni Ben
Afhverju er ekki nóg fyrir Bjarna Ben að vera vellauðugur Garðbæingur með allskonar bisness – einhver skítamix í Dubai eða hvað þetta er? Afhverju í andskotanum þarf hann að leiða Sjálfsstæðisflokkinn líka og standa í þessu pólitíska argaþrasi? Finnst honum þetta svona skemmtilegt? Varla. Hann hefur a.m.k. tvisvar verið gráti næst, út af Hönnu Birnu og pabba sínum og þessu Hjalta barnaníðingsógeði.
Ég var einu sinni að fara í spinning í World Class þegar ég sá Bjarna koma með íþróttatösku. Auðvitað er Bjarni vörpulegur á velli, eins og djokkinn sem allar stelpurnar girnast í amerískri háskólamynd, en hann minnti mig samt aðallega á veðhlaupahest þar sem hann tók fnæsandi fram úr mér. Auðvitað kann hann allt sem þarf að gera í svona sjónvarpi og missir sárasjaldan stjórn á skapinu – það mun þó væntanlega gerast æ oftar á næstu vikum. Það er þó algjört þjóðþrifamál að losa þjóðina/húsfélagið úr klóm hrægammsins. Þeir mega bara slappa af í svona eins og 12 ár. Bjarni getur bakað margar kökur á þeim tíma og grætt voða voða mikið fyrir sig og bestu vini aðal.
***
0% líkur á að ég kjósi Sjálfsstæðisflokkinn

katajak
Kata Jak
Kata Jak er fín og alltaf hress þegar ég sé hana. Hún býr nú bara eiginlega í næsta húsi sko. Margir voru að skjóta á hana í þættinum enda er VG efst í öllum skoðanakönnunum. Henni tókst ekkert endilega að svara öllu almennilega og bara sorrí, það hefði mátt taka betur til á listunum í VG. Alþýðubandalagið var alltaf á móti öllu sem skipti máli fyrir fólk og VG er dáldið í því líka – „VIÐ vitum hvað ÞÉR er fyrir bestu“ – helvítis forræðishyggjan. Nátttröllið Steingrímur Joð var algjörlega á móti því að bjór yrði hér leyfður og sturlað forréttindalið eins og Hjörleifur Guttormsson var svo brjálaður út af sjómanninum á veggnum að húsvörðurinn málaði yfir myndina í skjóli nætur – hinn kostur húsvarðarins var að hengja sig því böggið af gamla kommanum var svo mikið. Það getur vel verið að VG séu eitthvað búnir að poppa sig upp, ég bara nenni ekki að kynna mér listana. Kötu tókst ágætlega upp í þættinum, en var svo sem ekki með neinar sérstakar flugeldasýningar.
***
0% líkur á að ég kjósi VG

bjani
Einhver bjáni
Drasl.
0
0% líkur á að ég kjósi Íslensku þjóðfylkinguna

ottarr
Óttarr Proppé
Þetta Björt framtíð dæmi er fullreynt, sorrí Óttarr minn. Þú ert ágætur í sjónvarpinu en verkkvíðinn og vonlaus sem politíkus, allavega innan um hrægamma. Stóðst þig samt ágætlega en ég hef séð flottari jakkaföt.
***
0% líkur á að ég kjósi Bjarta framtíð

viðreisn
Ekki Þorgerður Katrín
Dáldil gremja í gangi hér, og er nema von? Viðreisn er að hverfa, eins og allir hverfa sem lenda í hrægammaklóm. Frekar leiðinleg kona, sorrí.
*
0% líkur á að ég kjósi Viðreisn

logi
Logi Einarsson
Vinur minn og frábær dansari Skriðjökla. Hefði mátt vera léttari á því en stóð sig auðvitað ágætlega. XS er þriðji stærsti flokkur landsins skv. ferskustu skoðunarkönnunum og því fer að dynja á okkur spurningar eins og: Hvernig á að fjármagna nýja útidyrahurð, bla bla bla. Kratar hafa gert góða hluti í Svíþjóð og þar gengur lífið bara sinn vanagang og flestir eru saman í liði. Löngu kominn tími til að við förum að bera okkur saman við hin Norðurlöndin en ekki Uganda eða eitthvað álíka frumstætt.
****
100% líkur á að ég kjósi XS

þórhildur sunna
Sunna Pírati
Ef ég væri ekki Krati væri ég líklega Pírati. Þau tala bara svo helvíti mikið og mér finnst fátt leiðinlegra en að sitja húsfundi. Svo hafa þau stundum verið að tala um hluti sem mér finnst engu máli skipta fyrir mig sem íslenskan ríkisborgara; eitthvað gegnsæi og Edward Snowden og borgaralaun og eitthvað svona óraunhæft nördarugl. Auðvitað þurfum við nýja stjórnarskrá og það er nú bara done deal ef þetta fer sem horfir og svokölluð vinstristjórn tekur við – eða “ekki-hrægamma-stjórn” eins og ég kýs að kalla það. Sunna bar af í gær, alltaf létt á því og með góðar pillur á kantinum. Fullt hús! Og besta hár þáttarins þar að auki!
*****
0% líkur á að ég kjósi Pírata  

palmey
Pálmey
Minnst í loftinu og nánast skjálfandi innan um hina. Kannski veit hún ekki – frekar en ég – hvers vegna þessi örflokkur er að bjóða sig fram og dreifa þannig atkvæðum sem gætu nýst öðrum flokkum á dreif. Lifnaði þó aðeins við í valsinum. Dögun er engin dögun heldur í mesta lagi bjögun.
**
0% líkur á að ég kjósi Bjögun

Allir verða svo búnir að gleyma þessu prógrammi í kvöld þegar knattspyrnustórveldið Kosovo mætir íslensku kempunum, sem eru kannski að fara að keppa á heimsmeistarakeppninni í fótbolta karla. Say what!?


 

 

Peningar og popp

8 Okt

Alveg er ég að drepfíla þessa ungu poppara í dag í hipphoppi. Þeir eru svo sjálfsöruggir og æðislegir að það hálfa væri nóg. Þeir vita hvers virði þeir eru og selja sig dýrt. Þannig á það að vera. Listamenn fyrri áratuga hafa alltaf verið eins og kettir í kringum heitan graut peninganna og hálfpartinn selt sig alltof ódýrt og svo vælt við hvert tækifæri að þeir séu alltaf blankir. Nú, hverjum er það að kenna? Þeim sjálfum!

Popp og önnur list verður að lúta þeim lögmálum sem í gangi eru. Og þau lögmál heita money talks og bullshit walks. Þetta lið eins og Joey Christ, Hr. Hnetusmjör, JóiPé og Króli etc hreyfa sig ekki fyrir minna en 200þ kall á gigg. Mæta svo með playback og gera góða hluti, fá borgað og end of storí. Veit samt ekkert hvort þeir séu misdýrir eftir tegund giggs. Kannski eitthvað minna ef þeir eru að spila í barnaskólum og svona.

Þetta er nú eitthvað annað en þegar ég var í S.H.Draumi og Bless og maður stökk hæð sína í loft upp af gleði ef 54 borguðu sig inn. Það var náttúrlega svo lítill áhugi á manni  þegar þetta var að gerast. Bankagjaldkerinn ég sá um uppgjör. Eftir gigg fórum við í Bless með kaffibolla fullan af cash upp í Smiðjuhverfið í Kópavogi á einhvern late night stað, átum og ég taldi og skipti, dugði allavega fyrir borgaranum og nokkrum sígarettapökkum.

Svo kom unun og maður var að fá 50kall á mann fyrir einhver menntaskólaböll 1995. Mjög næs þetta popparalíf. Einu sinni fyrir hrun fékk ég 50þ fyrir að koma og spila Prumpulagið í bæjarhátíð í Mosfellssveit. Felix var kynnir og reddaði þessu. Ég var allan tímann í bílnum í bæinn að skammast mín á því hvað þetta væri fáránlega mikið fyrir eitt lag. Mér fannst ég vera að svíkja alþýðuna eða eitthvað svoleiðis – gamalt uppeldislegt kommarugl, sem gerði ráð fyrir að listamenn væru aumingjar sem ættu að þjást peningalausir með svokallaðri alþýðu, sem er hugtak sem virkir í athugasemdum eru strax farir að tuða um. Þeir gera ráð fyrir að allt sé eins og í 1. maí göngu 1976 og að allir séu ennþá í grænum Álafossúlpum, steytandi hnefann með einhverjum Guðmundi Jaka sem er á þrefalt hærri launum en þeir.

Þannig er þetta nú aldeilis ekki lengur á frábærri öld internetsins. Og þetta veit nýjasta kynslóð poppara sem gæti ekki verið meira sama um eldgömul hugtök og kommarugl. Ég er búinn að komast að því að Joey Christ er bestur af þessum strákum. Platan hans, Joey, sem kom út í sumar er ein af allra bestu plötum ársins og full af frábærum lögum. Hér er dæmi.

Hér er rappið kynjaskipt eftir því sem ég kemst næst. Ég er auðvitað ekkert tuttugu ára lengur og hangandi með þessum krökkum, enda væri það bæði sorglegt og krípí. Stelpur eru að gera frábæra hluti en bara ekki eins poppaða og þessir hnakkarapparar allir. Kvarnast hefur úr Reykjavíkurdætrum, eða svona það eru komin afbrigði. Cyper er frábært dæmi og Fever Dream er Vigdís Howser Harðardóttir og er að koma með drullunetta plötu, Nom De Guerre. Ég veit ekkert hvað hún er að fá fyrir gigg.