Ég horfði á þetta leiðtogabix á Rúv í gær. Ekki kannski frá byrjun til enda, heldur greip svona niður í þetta meðfram mun skemmtilegra vefvafstri. Næsta kosning til alþingis/húsfélags verður eftir minna en þrjár vikur, giggið er laugardaginn 28. okt og þá fá sirka 240.000 íslenskir ríkisborgarar tækifæri til að velja úr 12 flokkum. Þetta er nú meiri vitleysan. Er ekki hægt að hafa tvær umferðir svo það fyllist ekki allt af dauðum atkvæðum? Mér skilst að vegna offramboðs á flokkum síðast hafi 15% atkvæða hreinlega fallið dauð og ómerk. Læra þessir örflokkar aldrei neitt? Eru egóið svona uppblásið?
Jæja, í þættinum í gær lofuðu náttúrlega allir öllu fögru þrátt fyrir staðreyndir um annað og allskonar skítamix. Verkin tala, ekki satt? Nei, það virðist ekki vera.
Hér er dómur eins atkvæðis um frammistöðuna, ásamt einkunargjöf og möguleikum á að ég kjósi flokk viðkomandi.

Albaníu-Valdi
Gott komedí relíf, en vonlaust kommarugl. Það er búið að reyna þetta, Valdi og félagar, og það gekk ekki upp!!!
***
0% líkur á að ég kjósi Alþýðufylkinguna

Simmi
Ég hef nú bara einu sinni séð Simma á förnum vegi og hann heilsaði og var mjög kammó. Ég þarf að taka í hendinu á honum til að sjá hvort hann er jafn mikil ýsulúka og Halldór heitinn Ásgrímsson. Simmi fór í fýlu þegar honum var sparkað úr Framsókn og er búinn að plotta hefndina síðan. Flokkurinn sem gengur aðallega út á persónulega hefnd er ekki það sem ég þarf í augnablikinu, og líklega aldrei. Líka sjúklega óspennandi lógó. En Simmi var ágætur í spjallinu og þurfti ekkert að æsa sig (og missa þannig kúlið, sbr. Wintris).
***
0% líkur á að ég kjósi Miðflokkinn

Inga Sæland
Ágæt í að skamma Bjarna Ben (hann er aldrei of oft skammaður) en ég held að Inga sé ekki málið. Auðvitað á að gera betur fyrir gamla fólkið, blanka fólkið og veika fólkið, en það þarf samt aðallega að horfa til framtíðar og stuðla að meira kúl hlutum, frumlegri hugsun. Heimurinn er ekki 1985 lengur. Því nenni ég ekki Ingu og hennar forneskju. Svo er nú glansinn fljótur að fara af þessu endalausa „ég er nú bara venjuleg kona“-ranti. Hundleiðinlegt kjaftæði!
*
0% líkur á að ég kjósi Flokk fólksins

Sigurður Ingi
Framsókn hefur verið helsta hækja íhaldsins frá lýðveldisstofnun – og oft ekki hækja heldur síamstvíburi í helmingaskiptareglunni. En sé horft til framtíðar þarf aldrei slíka hækju aftur. Siggi er allavega fínn og fleira fólk í Framsókn, t.d. Lilja (hún er ekki pabbi sinn, sem á Orkuveituhúsið skuldlaust). Ég myndi alveg vera til í að keyra norður með Sigurði eða taka einn tvo bjóra. Geðfellt stöff en dáldil forneskja og skortur á kaldhæðni, sbr. viðbrögðin við gríninu í Þórarni í Fbl.
****
0% líkur á að ég kjósi Framsókn

Bjarni Ben
Afhverju er ekki nóg fyrir Bjarna Ben að vera vellauðugur Garðbæingur með allskonar bisness – einhver skítamix í Dubai eða hvað þetta er? Afhverju í andskotanum þarf hann að leiða Sjálfsstæðisflokkinn líka og standa í þessu pólitíska argaþrasi? Finnst honum þetta svona skemmtilegt? Varla. Hann hefur a.m.k. tvisvar verið gráti næst, út af Hönnu Birnu og pabba sínum og þessu Hjalta barnaníðingsógeði.
Ég var einu sinni að fara í spinning í World Class þegar ég sá Bjarna koma með íþróttatösku. Auðvitað er Bjarni vörpulegur á velli, eins og djokkinn sem allar stelpurnar girnast í amerískri háskólamynd, en hann minnti mig samt aðallega á veðhlaupahest þar sem hann tók fnæsandi fram úr mér. Auðvitað kann hann allt sem þarf að gera í svona sjónvarpi og missir sárasjaldan stjórn á skapinu – það mun þó væntanlega gerast æ oftar á næstu vikum. Það er þó algjört þjóðþrifamál að losa þjóðina/húsfélagið úr klóm hrægammsins. Þeir mega bara slappa af í svona eins og 12 ár. Bjarni getur bakað margar kökur á þeim tíma og grætt voða voða mikið fyrir sig og bestu vini aðal.
***
0% líkur á að ég kjósi Sjálfsstæðisflokkinn

Kata Jak
Kata Jak er fín og alltaf hress þegar ég sé hana. Hún býr nú bara eiginlega í næsta húsi sko. Margir voru að skjóta á hana í þættinum enda er VG efst í öllum skoðanakönnunum. Henni tókst ekkert endilega að svara öllu almennilega og bara sorrí, það hefði mátt taka betur til á listunum í VG. Alþýðubandalagið var alltaf á móti öllu sem skipti máli fyrir fólk og VG er dáldið í því líka – „VIÐ vitum hvað ÞÉR er fyrir bestu“ – helvítis forræðishyggjan. Nátttröllið Steingrímur Joð var algjörlega á móti því að bjór yrði hér leyfður og sturlað forréttindalið eins og Hjörleifur Guttormsson var svo brjálaður út af sjómanninum á veggnum að húsvörðurinn málaði yfir myndina í skjóli nætur – hinn kostur húsvarðarins var að hengja sig því böggið af gamla kommanum var svo mikið. Það getur vel verið að VG séu eitthvað búnir að poppa sig upp, ég bara nenni ekki að kynna mér listana. Kötu tókst ágætlega upp í þættinum, en var svo sem ekki með neinar sérstakar flugeldasýningar.
***
0% líkur á að ég kjósi VG

Einhver bjáni
Drasl.
0
0% líkur á að ég kjósi Íslensku þjóðfylkinguna

Óttarr Proppé
Þetta Björt framtíð dæmi er fullreynt, sorrí Óttarr minn. Þú ert ágætur í sjónvarpinu en verkkvíðinn og vonlaus sem politíkus, allavega innan um hrægamma. Stóðst þig samt ágætlega en ég hef séð flottari jakkaföt.
***
0% líkur á að ég kjósi Bjarta framtíð

Ekki Þorgerður Katrín
Dáldil gremja í gangi hér, og er nema von? Viðreisn er að hverfa, eins og allir hverfa sem lenda í hrægammaklóm. Frekar leiðinleg kona, sorrí.
*
0% líkur á að ég kjósi Viðreisn

Logi Einarsson
Vinur minn og frábær dansari Skriðjökla. Hefði mátt vera léttari á því en stóð sig auðvitað ágætlega. XS er þriðji stærsti flokkur landsins skv. ferskustu skoðunarkönnunum og því fer að dynja á okkur spurningar eins og: Hvernig á að fjármagna nýja útidyrahurð, bla bla bla. Kratar hafa gert góða hluti í Svíþjóð og þar gengur lífið bara sinn vanagang og flestir eru saman í liði. Löngu kominn tími til að við förum að bera okkur saman við hin Norðurlöndin en ekki Uganda eða eitthvað álíka frumstætt.
****
100% líkur á að ég kjósi XS

Sunna Pírati
Ef ég væri ekki Krati væri ég líklega Pírati. Þau tala bara svo helvíti mikið og mér finnst fátt leiðinlegra en að sitja húsfundi. Svo hafa þau stundum verið að tala um hluti sem mér finnst engu máli skipta fyrir mig sem íslenskan ríkisborgara; eitthvað gegnsæi og Edward Snowden og borgaralaun og eitthvað svona óraunhæft nördarugl. Auðvitað þurfum við nýja stjórnarskrá og það er nú bara done deal ef þetta fer sem horfir og svokölluð vinstristjórn tekur við – eða “ekki-hrægamma-stjórn” eins og ég kýs að kalla það. Sunna bar af í gær, alltaf létt á því og með góðar pillur á kantinum. Fullt hús! Og besta hár þáttarins þar að auki!
*****
0% líkur á að ég kjósi Pírata

Pálmey
Minnst í loftinu og nánast skjálfandi innan um hina. Kannski veit hún ekki – frekar en ég – hvers vegna þessi örflokkur er að bjóða sig fram og dreifa þannig atkvæðum sem gætu nýst öðrum flokkum á dreif. Lifnaði þó aðeins við í valsinum. Dögun er engin dögun heldur í mesta lagi bjögun.
**
0% líkur á að ég kjósi Bjögun
Allir verða svo búnir að gleyma þessu prógrammi í kvöld þegar knattspyrnustórveldið Kosovo mætir íslensku kempunum, sem eru kannski að fara að keppa á heimsmeistarakeppninni í fótbolta karla. Say what!?