Varðskipið Þór má skoða í Reykjavíkurhöfn nú um helgina. Þetta er helvíti mikið flykki. Börn fá blöðru og endurskinsmerki og gestir ganga sérhannaða leið markaða borðum upp og niður skipið. Borðaklætt landhelgisgæslufólk stendur ábúðarfullt og vísar veginn. Nú er lagt kapp á að sameina landsmenn um skipið í gamaldags þjóðarstolti. Það er alveg gaman. Minnir á gamla stolt-sköpun, eins og þegar allir voru svaka þjóðarstoltir af einhverri stórri bogabrú fyrir norðan. Það er mun skárra stolt að vera stoltur yfir varðskipi en yfir því að einhverjir karlar í jakkafötum séu búnir að taka svo mikinn yfirdrátt („Landsbankinn skilaði trilljón og sjö krónum í arð fyrsta ársfjórðunginn bla bla bla“), eins og boðið var upp á fyrir nokkrum árum.
Krakkarnir mínir nenntu ekki að hanga yfir hljómsveitinni Just Another Snake Cult sem lék á Undiröldu, ókeypis tónleikum í Kaldalóni í Hörpu. Gat samt pínt þau í 5 lög. Mikið nýtt efni hjá þessu frábæra bandi. Just Another var að þessu sinni átta manna og flott. Bassaleikarinn að gera góða hluti og Þórir, aðalmaður bandsins, hafði tögl og haldir. Undiralda er dagskrá sem 12 tónar og Harpa standa fyrir tvisvar í mánuði og þar á að vera allskonar ný og fersk músík. Giggin verða alltaf ókeypis og á þessum fjölskylduvæna tíma, kl. 17:30. Maður fylgist því vel með þessu.
Hrekkjusvín er í Gamla bíói. Platan frá 1978 er náttúrlega algjör snilld og hálfgert óráð að ætla að gera söngleik upp úr henni, því þar er jú enginn söguþráður. En svona hefur nú svo sem verið gert áður. Hrekkjusvínaplatan er svo undarleg, hvorki barna né fullorðins, heldur bæði og þó. Söngleikurinn er álíka mikill bastarður. Miklu meira fullorðins en barna þó. Sveinn Dói leikur dauðan karl sem er lítið simpatískur, svona seventís braskari með gjaldfallna víxla í halarófu á eftir sér en samt alltaf með ný og ný plott um gróða (sjá Tóta í Íslenska draumnum fyrir nýrri útgáfu af þessari týpu). Atli Þór er einskonar himnarótari sem sýnir honum „glefsur úr lífi sínu“. Gestir eru svo með rauð og græn spjöld til að ákvarða eftir hverja glefsu hvort Dói eigi frekar að fara til himna eða helvítis – svona eins og í rómversku hringleikahúsi eða í mynd William Castle, Mr. Sardonicus (þar var þó miðað við þumal upp eða niður). Lögunum af plötunni er blandað inn í þetta með dans og söng og stundum er tengingin ansi langsótt.
Margt er fínt. Snilld að hafa Valgeir Guðjónsson sjálfan á kantinum með þétt og gott band. Það er svipað og ef Björn hefði alltaf spilað sjálfur á Mömmu Míu. Leikurinn er fínn og oft sem þetta komst á ágætt flug – sérstaklega eftir hlé þegar glefsurnar voru frá æskuárum braskarans. Það er helst að leikritið er ekki alveg nógu fyndið og skemmtilegt. Platan er stuð og aðeins meira stuð vantar í söngleikinn, mest vegna þess að karakter Sveins og samskipti hans við fjölskylduna er alltof hefí sjitt. Hann er dramatísk fyllibytta og misheppnaður bisnessmaður í endalausri samkeppni við einhvern Bödda og með allt niðrum sig í einkalífinu. Hrekkjusvín fær samt alveg þrjár stjörnur fyrir alla jákvæðu sprettina og er möst fyrir aðdáendur plötunnar. Svo fannst Dagbjarti sýningin skemmtileg og segir þrjár og hálfa.
Við vorum búnir að ákveða það fyrir löngu að taka lúxus-salinn á nýju Tinna myndina. Það kostar 2500 kall í lúxus í Smárabíó og maður fær inneign á nammibarnum fyrir 750 kall og lazyboystól. Liggur svo og glápir í megalúxus. Ekki segja nokkrum frá því að ég hafi verið að splæsa í þetta. Ég – öfugt við marga aðra Tinna-aðdáendur, sem eru sumir alveg brjálaðir yfir myndinni – hef alltaf haft fulla trú á að Spielberg og Jackson gætu gert þetta almennilega og svo sannarlega gera þeir það, finnst mér. Það var hreinlega stórfenglegt að sjá rammana úr bókunum lifna við í þessum undarlega þrívíddar leik/teikniheimi sem myndin er. Tinni, Kolbeinn og allt þetta lið er sannfærandi en lítur samt undarlega út í fyrstu en venst svo. Veina Veinólína er einnig æðisleg en kannski er Tobbi ræfillinn dálítið asnalegur og gerfilegur. Hér er mixað saman stöffi úr bókunum Leyndardómur Einhyrningins og Krabbinn með gyltu klærnar, en þeir Hollywood-félagar spinna svo hressandi viðbætur við söguna, geypilega eltingarleiki og bráðfyndið atriði í flugvél. Ég keypti þetta allt saman og Dagbjartur sömuleiðis. Við segjum fjórar stjörnur, eða eiginlega fimm og sprengjum þar með stjörnuskalann. Ég get ekki beðið eftir næstu mynd, sem verður þó bara gerð ef þessi mokar inn monnípening í haugum. Tinnamyndin er snilld!