Sarpur | október, 2011

Varðskipið Þór, Just Another, Hrekkjusvín og Tinni

30 Okt


Varðskipið Þór má skoða í Reykjavíkurhöfn nú um helgina. Þetta er helvíti mikið flykki. Börn fá blöðru og endurskinsmerki og gestir ganga sérhannaða leið markaða borðum upp og niður skipið. Borðaklætt landhelgisgæslufólk stendur ábúðarfullt og vísar veginn. Nú er lagt kapp á að sameina landsmenn um skipið í gamaldags þjóðarstolti. Það er alveg gaman. Minnir á gamla stolt-sköpun, eins og þegar allir voru svaka þjóðarstoltir af einhverri stórri bogabrú fyrir norðan. Það er mun skárra stolt að vera stoltur yfir varðskipi en yfir því að einhverjir karlar í jakkafötum séu búnir að taka svo mikinn yfirdrátt („Landsbankinn skilaði trilljón og sjö krónum í arð fyrsta ársfjórðunginn bla bla bla“), eins og boðið var upp á fyrir nokkrum árum.


Krakkarnir mínir nenntu ekki að hanga yfir hljómsveitinni Just Another Snake Cult sem lék á Undiröldu, ókeypis tónleikum í Kaldalóni í Hörpu. Gat samt pínt þau í 5 lög. Mikið nýtt efni hjá þessu frábæra bandi. Just Another var að þessu sinni átta manna og flott. Bassaleikarinn að gera góða hluti og Þórir, aðalmaður bandsins, hafði tögl og haldir. Undiralda er dagskrá sem 12 tónar og Harpa standa fyrir tvisvar í mánuði og þar á að vera allskonar ný og fersk músík. Giggin verða alltaf ókeypis og á þessum fjölskylduvæna tíma, kl. 17:30. Maður fylgist því vel með þessu.


Hrekkjusvín er í Gamla bíói. Platan frá 1978 er náttúrlega algjör snilld og hálfgert óráð að ætla að gera söngleik upp úr henni, því þar er jú enginn söguþráður. En svona hefur nú svo sem verið gert áður. Hrekkjusvínaplatan er svo undarleg, hvorki barna né fullorðins, heldur bæði og þó. Söngleikurinn er álíka mikill bastarður. Miklu meira fullorðins en barna þó. Sveinn Dói leikur dauðan karl sem er lítið simpatískur, svona seventís braskari með gjaldfallna víxla í halarófu á eftir sér en samt alltaf með ný og ný plott um gróða (sjá Tóta í Íslenska draumnum fyrir nýrri útgáfu af þessari týpu). Atli Þór er einskonar himnarótari sem sýnir honum „glefsur úr lífi sínu“. Gestir eru svo með rauð og græn spjöld til að ákvarða eftir hverja glefsu hvort Dói eigi frekar að fara til himna eða helvítis – svona eins og í rómversku hringleikahúsi eða í mynd William Castle, Mr. Sardonicus (þar var þó miðað við þumal upp eða niður). Lögunum af plötunni er blandað inn í þetta með dans og söng og stundum er tengingin ansi langsótt.

Margt er fínt. Snilld að hafa Valgeir Guðjónsson sjálfan á kantinum með þétt og gott band. Það er svipað og ef Björn hefði alltaf spilað sjálfur á Mömmu Míu. Leikurinn er fínn og oft sem þetta komst á ágætt flug – sérstaklega eftir hlé þegar glefsurnar voru frá æskuárum braskarans. Það er helst að leikritið er ekki alveg nógu fyndið og skemmtilegt. Platan er stuð og aðeins meira stuð vantar í söngleikinn, mest vegna þess að karakter Sveins og samskipti hans við fjölskylduna er alltof hefí sjitt. Hann er dramatísk fyllibytta og misheppnaður bisnessmaður í endalausri samkeppni við einhvern Bödda og með allt niðrum sig í einkalífinu. Hrekkjusvín fær samt alveg þrjár stjörnur fyrir alla jákvæðu sprettina og er möst fyrir aðdáendur plötunnar. Svo fannst Dagbjarti sýningin skemmtileg og segir þrjár og hálfa.


Við vorum búnir að ákveða það fyrir löngu að taka lúxus-salinn á nýju Tinna myndina. Það kostar 2500 kall í lúxus í Smárabíó og maður fær inneign á nammibarnum fyrir 750 kall og lazyboystól. Liggur svo og glápir í megalúxus. Ekki segja nokkrum frá því að ég hafi verið að splæsa í þetta. Ég – öfugt við marga aðra Tinna-aðdáendur, sem eru sumir alveg brjálaðir yfir myndinni – hef alltaf haft fulla trú á að Spielberg og Jackson gætu gert þetta almennilega og svo sannarlega gera þeir það, finnst mér. Það var hreinlega stórfenglegt að sjá rammana úr bókunum lifna við í þessum undarlega þrívíddar leik/teikniheimi sem myndin er. Tinni, Kolbeinn og allt þetta lið er sannfærandi en lítur samt undarlega út í fyrstu en venst svo. Veina Veinólína er einnig æðisleg en kannski er Tobbi ræfillinn dálítið asnalegur og gerfilegur. Hér er mixað saman stöffi úr bókunum Leyndardómur Einhyrningins og Krabbinn með gyltu klærnar, en þeir Hollywood-félagar spinna svo hressandi viðbætur við söguna, geypilega eltingarleiki og bráðfyndið atriði í flugvél. Ég keypti þetta allt saman og Dagbjartur sömuleiðis. Við segjum fjórar stjörnur, eða eiginlega fimm og sprengjum þar með stjörnuskalann. Ég get ekki beðið eftir næstu mynd, sem verður þó bara gerð ef þessi mokar inn monnípening í haugum. Tinnamyndin er snilld!

Standöpp og ska

28 Okt


Svakalegt er til þess að hugsa að hver maður gangi um bæinn með hauskúpu í hausnum. Glottandi hryllingsmyndahauskúpu. Fólk er lítið að hugsa um þetta samt, enda fær enginn séð sína eigin hauskúpu (nema í Röntgen). Eftir atburði gærkvöldsins verkjar mig í neðri kjálkann (mandibula), eða þar sem hann tengist við hitt draslið (það hljóta að vera einskonar lamir þar, svo maður geti opnað munninn). Ég hló nebbblega svo mikið á standöppgríninu Steini, Pési og gaur á trommur í Gamla bíó (blessaður/blessuð keyptu þér miða hér), jafnvel þótt ég væri lagður í svívirðilegt einelti þar sem ég sat á fremsta bekk (vondur staður á standöppi) af öllum nema gaurnum á trommunum.

Best var Steini eftir hlé. Hann tók gesti í kennslustund um óhefðbundnar lækningar, feitt fólk, fornar lækningar og fleira. Þá var ég svo mikið með opinn kjaft að ég fékk verk. Þessi sýning er alveg upp á þrjár stjörnur sko. Rosa fyndin og skemmtileg, en kannski ekki alveg algjör snilld út í gegn.

Svo var ég að klára bókina Ska’d for life eftir bassaleikara The Specials, Horace Panter. Hann segir söguna af uppgangi sveitarinnar og niðurtúr á mjög kumpánlegan og skemmtilegan hátt. Bara svona eins og maður sé með honum á barnum, ekkert mont, stælar eða töffaraskapur. Helvíti gott eiginlega og fjórar stjörnur. Þess má svo geta að 3/4 af hljómsveitinni Videósílin ætlar á The Specials tónleika í London næsta fimmtudag og er spenningurinn þegar orðinn allnokkur.

Meira pönk! (soft og hart)

27 Okt


https://drgunni.files.wordpress.com/2011/10/the-validators-wrong-time-wrong-place.mp3 The Validators – Wrong Time Wrong Place

Það er ekki fyrr búið að standa yfir megapönk í Kópavoginum að meira pönk brestur á núna á föstudagskvöldið. Þá ætlar nebbblega hljómsveitin The Validators (Löggildingjarnir?) frá Englandi að spila á Faktorý með Fræbbblunum, Taugadeildinni og kóverpönkbandinu Five Bellies (Júlli úr Silfurtónum, bræðurnir úr Vonbrigði og fleiri meistarar). Það má lesa allt um The Validators á Facebook-síðu atburðarins og tékka á fleiri lögum með bandinu á Reverbnation síðu sveitarinnar og sjá myndbönd á Facebook-síðu hennar. The Validators er svo ekkert geðveikt pönk heldur líka ska og reggae og allskonar rugl. Nákvæmar upplýsingar: Verð 1500 kr / Kl. 21:00 – Miðasala opnar, DJ Lighthouse leikur sérvalið efni (ska, punk, reggae) /Kl. 22:00 – FIVEBELLIES / Kl. 22:50 – TAUGADEILDIN / Kl. 23:30 – FRÆBBBLARNIR / Kl. 00:10 – THE VALIDATORS

 Vafasöm síðmótun – Arðrán hinnar nýju valdastéttar

Paunkhljómsveitin Vafasöm síðmótun úr Breiðholti (Facebook síðan þeirra) hefur sent frá sér þriðju plötuna. Hún er því miður bara fimm laga EP og heitir Byltingin og étin börn EP (platan á Gogoyoko). Fyrirliggjandi á lager sveitarinnar eru tvær plötur frá 2007, (VS!) (á Gogoyoko) – þar má finna lög eins og Sérnám herfunnar og Of mikið pönk! – og Paunkkk (á Gogoyoko) – en þar má finna lög eins og Bobby Fucking Fisser og Setu þetta í spilun sleikjuhóran þín!

Vafasöm síðmótun sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu: Þaddna Vafasöm Síðmótum var stofnuð árið 2006 eða 2007 eða eitthvað. Og hljómsveitin spilar pönk en er búin að gefa út tvær plötur og núna þrjár. Níja platan sem kom út í dag er besta platan og er rétt stafsett og svoleiðis því við létum tékka á því platan heitir ,,Bylting og étin börn EP“ og er ekki plata heldur EP sem er stittra. Platan fjallar um fokking kreppunna og á henni er lag sem við gerðum sem vann keppni á RÁS 2 þegar einhver fáviti vildi gera söngleik um pönk svo hann gerði söngleik og lét pönkhljómsveitir gera lag við texta sem hann samdi sem var ekki pönk. Við spiluðum í Kastljósið og lagið okkar fór í söngleikin í Þjóðleikhúsið en þeir breittu því svo það varð lélégt og síðan var söngleikurinn ömurlegur og allir voru sammála. Lagið okkar var gott sammt. Lagið hét ,,Ísland er fokk“ en heitir núna ,,Arðrán hinnar nýju valdastéttar“ sem er gott nafn og rétt stafstett. Lagið heitir það sem það fjallar um og er með nýjum texta sem er pönk. Allaveganna við viljum helst að þið spilið lagið og talið um plötuna sem er á http://www.gogoyoko.com/album/Bylting_og_etin_born_EP og hjálpið okkur að verða frægari en við erum akkúrat núna. Ekki það að við ætlum að verða mikið frægir bara nægjanlega frægir til að gera okkar eiginn söngleik sem verður góður í alvöruni Vafasöm Síðmótun.

Vafasöm Síðmótun:
h8people – trommur
Osama Bin Laden – gítar
(lochness) Monster – bassi
Tourette Hostage – söngur

Ísland er fokk (með lélégur texti) í Kastljósinu.


Að lokum skal bent á þetta góða mál: UNDIRALDA, tónleikaröð 12 tóna og Hörpu,  í Kaldalóni Hörpu, tvisvar í mánuði. ÓKEYPIS tónleikar með öpp n komming tónlistarfólki. Fyrsta skipti núna á föstudaginn kl. 17:30 (góður tími). Þá spilar hin frábæra sýrupopphljómsveit Just Another Snake Cult og Sonus Futurae þessarar aldar, hljómsveitin Sykur, sem var að gefa út plötu #2, Mesópótamíu. Nánar á Facebook-síðu viðburðarins.

Enn með á nótunum

25 Okt


Hljómplötum íslenskum rignir nú yfir landsmenn í aðdraganda jóla. Margt bitastætt ber á síhungraða góma enda framþróun rokktónlistar orðin slík á geimöld að undrun má sæta. Vér skulum skunda á Þingvöll og strengja vort heit:


https://drgunni.files.wordpress.com/2011/10/lay-low-vonin.mp3 Lay Low – Vonin

Ég lét rigna heilum fimm stjörnum á þriðju meginplötu Lay Low (í gagnrýni í Fréttatímanum), enda um hvílíka eðal poppsnilld að ræða. Hér er annað lag plötunnar (ljóð: Elín Sigurðardóttir), en það er eiginlega sama hvar maður ber niður, allsstaðar mætir manni eðal efni. Útgáfutónleikarnir verða í Fríkirkjunni 18. nóv.

 Reykjavík! – Black Out

Þessir snarvitlausu andskotar eru mættir með plötu 3, sem er án nokkurs vafa þeirra bestasta plata. Þeir arga og garga og riðlast á hljóðfærunum eins og vangefin naut í flagi en útkoman er eins og best verður á kosið. Mikið gaman. Mikið fjör.


https://drgunni.files.wordpress.com/2011/10/barcelona.mp3 Immo – Barcelona

Það er lítið gaman að láta brjálaðan mann bíta af sér neðri vörina í Barcelona, en það er það sem Ívar Schram lenti í. Hann var einu sinni í Original Melody, en er nú sóló sem Immo og fyrsta lagið sem hann sendir frá sér fjallar um fólskuverkið á Spáni. Hann hefur líka búið til videó við lagið sem er á Youtube.

Á fullu í menningarlífinu

24 Okt


(Hjálmar Næst besti Hjálmarsson kynnir Videósílin á svið í Molanum. Mynd: Hamraborgin á Facebook)

Ég var á fullu í menningarlífinu um helgina. Kom náttúrlega fram á Pönk 2011 með Videósílunum. Tókum Bölvun fylgi þeim og Númer með hljómsveitinni F/8, Anarkistar með Nast, So What með Crass (Stefán) og Boredom með Buzzcocks/Magazine (Stefán) og það tókst eins og til var sáð. Gaman var af því sem ég sá á Pönkinu. Fræbbblarnir góðir (hér er nýtt lag, Immortal, sem lofar mjög góðu fyrir nýju plötuna) og gaman að sjá hina frábæru hljómsveit Taugadeildina taka alla sjötommuna sína. Af yngra dóti voru Buxnaskjónar bestir, drulluþéttir eftir harkið á Akureyri. Videósílin koma saman að nýju á Pönk 2012 sem verður að sjálfssögðu haldin aftur í Kópavogi, enda á pönkið hvergi betur heima en þar.

Valdi Bunuel-myndina Háttvísir broddborgarar fyrir Alliance Francaise. Hún var sýnd í stóra salnum í Bíóparadís í gærkvöldi, sem var sem betur fer ekki alveg vandræðalega tómur. Myndin stóð fyllilega undir væntingum minninganna. Það er ekki gert svona stöff í dag, enda Bunuel alveg spes.

Fullt er framundan í menningunni. Uppistandssjó Steina, Pésa og gaurs á trommur (frumsýning á fimmtud í Gamla bíói) og Hrekkjusvín á föstud (einnig í Gamla bíói) og enska ska-bandið The Validators + góðir gestir á Faktory sama kvöld.  Nýja Tinna myndin í lúxus sal asap og svo Björk í Hörpu! Svo er möst að taka dagskrá Bíóparadísar enn fastari tökum. Það er gríðarlega metnaðarfullt starf í gangi þarna og gaman að sjá hversu margir voru í bíóinu í gær, enda margt í gangi fyrir utan Bunuel: Páll Óskar var að sýna Tomma og Jenna myndir í einum sal, nýja vinsæla Woody Allen myndin var í öðrum og svo seinna um kvöldið var verið að sýna sýrusúrrealismann The Holy Mountain eftir Alejandro Jodorowsky.

Ef það væri ekki menning værum við bara maurar.

Háttvísir broddborgarar

22 Okt


Þá er komin helgin og því verður nú gert hlé á umræðu vikunnar. Í vikunni bar margt á góma, stönt Stóru systranna, litli bjór Óla Palla, Rolex-ræningjarnir og eitthvað fleira, sem ég er alveg að fara að gleyma því allt þetta fer í gleymskusarpinn. Þegar ný vika byrjar á mánudaginn (ekki á sunnudaginn eins og sumir halda) byrjar umræðuhakkavélin aftur að dæla út einhverju rugli sem svo hakkast hér og þar á netinu og öðrum fjölmiðlum um nokkra hríð, er svo gert upp „í vikulokin“ í sérútbúnum fjölmiðlauppgjörum, og þar með er rýmt til fyrir nýrri viku af fersku fréttahakki.

Sjaldan eru hlutir kláraðir heldur liggja hálfhakkaðir hjá grindverki gleymskunnar. Hvernig var það nú aftur með ríka golf-Kínverjann með harðfiskinn – má hann kaupa eða ekki? Ætlar Karl Sigurbjörnsson bara að hanga í starfi? Er Harpan að ryðga í sundur eða ekki? (Íslensk umræðuhefð: Einn segir já, hinn segir nei, og þá þarf ekki að ræða það meir). Ég man eðlilega ekki fleiri dæmi um hálfhakkaðar fortíðarfréttir svona í svipinn, enda með ónýtt skammtímaminni eins og allir aðrir. Bráðum man ég ekki lengur eftir hruninu og íhuga að kjósa Sjálfstæðisflokkinn af því mér finnst fulltrúar flokksins svo áreiðanlegir.

Íslensk umræðuhefð/atburðarrás er að því leitinu ekki svo ósvipuð söguþræðinum í myndinni Háttvísir broddborgarar (Le charme discret de la bourgeoisie), sem Luis Bunuel fékk Óskarinn fyrir 1972, að hún er súrrealískt grín og ekki með neinni niðurstöðu. Allt getur gerst og mun gerast – eintómt sprenghlægilegt rugl alla leið.

Í myndinni flækjast broddborgararnir um og reyna að borða saman. Það gengur vægast sagt erfiðlega. Á einhvern djúpspakan hátt kveikir þessi mynd á ýmsum neðansjávartilfinningum og tilvísunum í meiningar sem maður hefur til tilverunnar. Allience Francaise fékk mig til að velja eina mynd og tala smá á undan henni. Þetta er hluti af prógrammi þeirra, Stefnumóti við franskar kvikmyndir. Ég valdi þessa frábæru mynd, Háttvísa broddborgara, og verður hún sýnd í Bíóparadís kl. 20 annað kvöld (sunnud). Ég myndi kalla þetta skyldumætingu, ekki síst til að skilja íslenska atburðarrás, en aðallega þó til að hafa gaman því þetta er ógeðslega skemmtileg mynd.

Ég minni svo á PÖNK 2011 í dag frá 14-17 í Molanum og frá kl. 22 á Spot. Nánar hér. Videósílin spila og allt!

Pönkið aftur í Kópavoginn – Fræbbblarnir

21 Okt


(Fræbbblarnir í Kópavogsbíói 14. júní 1980 – smellið á myndina til að fá hana stærri. Mynd: Birgir Baldursson)

Eins og ég hef verið að tala um verður PÖNK 2011 á morgun, laugardag. Þá kemur pönkið aftur í Kópavoginn á tvennum tónleikum, í Molanum á milli 14 og 17 og á Spot um kvöldið, frá kl. 22. Boðið er upp á gríðarlegan fjölda pönksveita sem leika eigið efni og pönklög eftir aðra. Videósílin verða þarna, en í hásæti eru vitaskuld Fræbbblarnir.

Til að setja Pönkið í gang og í samhengi ætla Fræbbblarnir og Snillingarnir að leika örfá lög í „gamla Kópavogsbíói“, sem í dag er víst bæjarstjórnarsalurinn. Þetta hefst kl. 12:30. Pönkið hófst á sama sviði í nóvember 1978 þegar Fræbbblarnir pönkuðu allt í kaf á Myrkramessu, hámenningarlegri skemmtun MK. Ég var ekki svo heppinn að sjá það (of ungur), en sirka ári síðar sá ég Fræbbblana og Snillingana taka sándtékk í Kópavogsbíói og hef ekki verið samur maður síðan. Það verður því væntanlega nánast trúarleg upplifun fyrir mig að sjá Fræbbblanna og Snillingana aftur á sama stað.

Hér eru Fræbbbla-tónleikar frá 22.05.1981 í Kópavogsbíói. Þetta er svaka laust í reipunum og menn djammandi lög sem verið er að semja, en taka svo góðar pönkkeyrslur á milli. Mikið stuð í salnum og krakkarnir syngja með. Lögin eru:

1. Bjartar vonir? (á frumstigi)
2. Bjór
3. Masturbation music for the future
4. Smákóngur
5. Bílskúrsreggí (?)
6. Í nótt
7. Rebellion of the dwarfs
8. Critical bullshit
9. No friends
10. FÍH
11. Lover please
12. Bíó
13. 20. september ’97
14. Hippar
15. Æskuminning
16. Nekrófíll í paradís
17. Message to you Rudy
18. Í nótt (aftur, hálft – kassettan klárast)

Fræbbblarnir í Kópavogsbíói 22.05.1981

Pönkið aftur í Kópavoginn – T42

21 Okt


T42 – 3 lög í Kópavogsbíói 22.05.81 

Jú víst. T42 var líka á kassettunni. Hljómsveitin tók bara 3 lög og eins og eins og heyrist er þetta í svipuðum anda og hjá Q4U enda Ellý söngkona í T42 og mikið til sama liðið að spila (ekki alveg með það á hreinu hverjir eru þarna á sviðinu með henni).

HAM og Þór

20 Okt


Nýja Ham platan er loksins komin út á íðilfögrum og hnausþykkum vinýl í „Crass“-umslagi. Hljómar eins og naut í flagi og lúkkar eins og fífill að vori. Fæst í öllum alvöru plötubúðum.

Fór á teiknimyndina Þór. Hún er næs, en eins og almennt á svona teiknimyndum sofnaði ég bæði fyrir og eftir hlé og svaf af mér sirka 50% af myndinni. Það er orðum aukið að segja hana lúkka jafn vel og það sem best gerist í þessum bransa, bakgrunnar og áferð er langt í frá jafn æðisleg og í stærstu Hollywood-myndunum, skárra væri það líka. Það sem ég sá var fyndið og sannfærandi (gaman að heyra í leikstjóranum Óskari) og því segi ég gó gó gó fyrir allt fjölskyldufólk. Þarf að sjá hana alla asap. Þrjár stjörnur (af fjórum).

Pönkið aftur í Kópavoginn – Taugadeildin

20 Okt

https://drgunni.files.wordpress.com/2011/10/taugadeildin-hvitargrafirdamagedgoods.mp3 Taugadeildin – Hvítar grafir / Damaged Goods (læf)

1981 var alveg sjúklega gott ár fyrir íslenska rokkið. Þeysarar gerðu sínar bestu plötur, sem og Purrkurinn, Fræbbblarnir komu með Bjór smáskífuna og Fan Houtens Kókó með kassetturnar sínar. Besta rokkár ever, segi ég gamall maðurinn. Hin frábæra Taugadeild kom einnig með sína 4-laga plötu, en bandið var hætt þegar platan kom loksins út í október. Taugadeildin snéri aftur fyrir nokkrum árum og verður á Pönkinu á laugardaginn, gallfersk og meiriháttar. Upptakan hér að ofan er frá gigginu í Kópavogsbíói 22. maí 1981, en einhverra hluta vegna tók Taugadeildin bara tvö lög, Hvítar grafir af Ep-inu og Damaged Goods eftir Gang of Four.