Sarpur | apríl, 2015

Öreigar í Kolaportinu

30 Apr

1maisala2

Ég verð í Kolaportinu á morgun, föstudaginn 1. maí að selja plötur o.s.frv. á algjöru öreigaverði. Allskonar fínirí. Gerið góð kaup á verkalýðsdaginn.

Breytingar gerast hægt

29 Apr

Ég er að gera svaka heimildarmyndarþætti um íslenska rokk og popptónlist og tók viðtal við Hörð Torfason í gær. Hans saga er mjög áhugaverð og það hefur þurft ótrúlega þrautsegju og þor að viðurkenna eðli sitt í því miðaldarmyrkri sem lá yfir Íslandi (og reyndar heiminum öllum), vel stutt af kirkju og stjórnmálamönnum. Enda fékk hann og kenna á því.

Ég spurði hann hvernig honum liði í Gay Pride þar sem þúsundir manna fagna fjölbeytileikanum versus þær hörmungur og fordóma sem ríktu 40 árum fyrr. Hann var eðlilega glaður með þessa þróun og benti á þá athyglisverðu staðreynd að það þarf tíma til að breyta hlutunum. Fjörutíu ára þróun í þessu tilfelli.

Á sama hátt þarf líklega nokkur ár/áratugi þangað til Ísland verður sú snilld sem Ísland getur orðið. Maður hélt að fólk myndi „læra eitthvað á hruninu“ en í staðinn hleypti það börnum ræningjanna inn á sig til að ræna aðeins meira úr húsinu. Fólk sér greinilega eftir því að hafa fallið fyrir loforðaruglinu í XB og XD, a.m.k. sé miðað við nýjustu könnun MMR þar sem ræningjabörnin fá falleinkun og Katrín Jakobsdóttir er talin eina vitið.

Þetta eru ágætis niðurstöður og sýna að við Íslendingar erum ekki algjörir hálfvitar.

Auðvitað er hægt að breyta þessu landi í besta land í heimi með jafnari skiptingu auðsins og gæðum náttúrunnar, og með því að útrýma því plebbræði vitlausra gróðrapunga sem hér hafa sogið spenana frá því að landið kom út úr moldarkofunum í seinna stríði.

Það þarf almennilegt lið til að breyta þessu. Ég mæli með því að almennilegt fólk sameinist í einn almennilegan flokk sem hefur ekki annað á stefnuskránni en að gera Ísland að besta land í heimi fyrir alla íbúa þess. Ekki bara fyrir freka gráðuga kallinn. Freki kallinn heldur alltaf haus í einum eða tveimur flokkum á meðan svokallað vinstra lið röflar sig í marga flokka út af einhverjum tittlingaskít. Í síðustu kosningum féllu 18% atkvæða dauð út af því að fólk gat ekki drullast til að vera saman í einum almennilegum flokki með skýr markmið.

Bjánagangurinn á Íslandi er endalaus. Hvað varð um Símapeningana sem átti að byggja nýjan Landspítala fyrir? Afhverju er stærsti spítali eins ríkasta lands í heimi eins og eitthvað úr 3ja heiminum? Afhverju nennir einhver að beita sér fyrir því að lágmarkslaun séu EKKI 300þúsund kall? Afhverju veður Kristján Loftsson uppi með endalausa vitleysu? Afhverju er Ísland ekki rafbílavætt? Afhverju sagðist Sigmundur Davíð ætla að gera eitthvað í rafbíladæminu en svo voru keyptir bensínhákar fyrir ríkisstjórnina nokkrum vikum síðar? Afhverju kýs venjulegt fólk flokka sem eru ekki að vinna fyrir það áratug eftir áratug – flokka sem eru beinlínis að vinna gegn því?

Afhverju er enn verið að röfla um flugvöllinn í Vatnsmýri, náttúrupassann, sandinn í Landeyjarhöfn… Æ æ og ó ó.

Æi sorrí með þetta rant. Ég skal bara fara í pottinn og röfla við einhvern þar.

Addi Rokk og trommuheilinn!

29 Apr

Fegurð69016
Hér má sjá Adda Rokk að rokka með þennan forláta Futurama-gítar (líklega rauðan) og trommuheila, þann fyrsta á Íslandi. Myndin var tekin á fyrra kvöldi Fegurðarsamkeppni Íslands í Austurbæjarbíói þriðjudaginn 29. apríl 1969 (fyrir nákvæmlega 46 árum síðan), en sjálf krýningin fór fram í Klúbbnum miðvikudagskvöldið 30. apríl og var María Baldursdóttir, söngkona Heiðursmanna og unnusta Rúnars Júlíussonar valin fegurðardrottning Íslands 1969. Ég veit ekki hvað fótafagra fegurðardísin heitir.

Myndina tók Moggaljósmyndarinn Kristinn Benediktsson (1948-2012), en nú er í vinnslu ljósmyndabók sem ber nafnið „Öll mín bestu ár“ og kemur út í byrjun október 2015. Þar verða á annað þúsund myndir Kristins úr skemmtanalífinu 1966-1979 og vega þar þyngst myndir frá dansleikjum, tónleikum og fegurðarsamkeppnum, auk mynda frá útihátíðum og fjölbreyttra mynda af hljómsveitum og listamönnum sem teknar voru til kynningar. Ritstjóri bókarinnar og höfundur ítarlegra skýringar- og myndatexta er Stefán Halldórsson sem var samstarfsmaður Kristins og skrifaði um popptónlist í Morgunblaðið í 10 ár (1967-1977). Þess má geta svo ættfræðinni sé haldið til haga að Stefán er pabbi Hildar Kristínar í Rökkurró.

Þetta verður án efa frábær bók, sem manni er strax farið að hlakka til að handleika.

Addi Rokk (Arnþór Kristinn Jóhannes Jónsson, fæddur 1933) var einn rokkaðasti töffari fortíðar. Um hann skrifaði ég í bókinni Eru ekki allir í stuði?

Of mikill rokkari fyrir manntal
Arnþór Jónsson gekk (og gengur) ekki undir öðru nafni en Addi Rokk. Hann „tók“ rokkið jafn létt og að anda, kom oft upp á svið hjá hljómsveitum og söng nokkur lög með mjaðmasveiflum og stælum sem fáir léku eftir, og spilaði á gítar eftir eigin forskrift. Hann varð frægur á einni nóttu þegar löggan tók hann fastann eftir gigg á Búðinni 1962. Þá var hann að fara heim til sín með gítarinn á öxlinni og magnarann í hendinni, en löggunni fannst kauði dularfullur, læsti hann inni og spurði ítrekað alla nóttina hvar hann hafði stolið þessu. Ekki var það Adda í hag að hann var það villtur rokkari að hann hafði einhvern veginn dottið út úr þjóðskránni. Málið leystist daginn eftir þegar Pétur Pétursson, sem hafði Adda á sínum skemmtikraftalager, kom Adda til hjálpar og upplýsti allt saman. Dagblöðin sögðu frá handtökunni og Addi sjálfur skrifaði bréf í Alþýðublaðið og skýrði sína hlið á málinu: „Annars gat ég að sjálfssögðu átt gítarinn þó ég væri ekki í neinu manntali og bauð oft að sýna þeim kvittanir ef þeir vildu aka mér heim svo ég gæti sannað eignarrétt minn. Ég harma að þetta skyldi henda en erfi það ekki við lögreglumennina og er reiðubúinn að leika fyrir þá á gítarinn minn næst, þegar þeir skemmta sér. Þá gætum við t.d. sungið „Í kjallaranum…““

Með heilann úti
Addi hélt sig við gamla rokkið þó bítl skylli á. Hann var stundum með lítil kombó með sér og réð oft bráðunga stráka til að spila með sér. Hann hafði alltaf mikinn aga á sínum mönnum og rak menn samstundis ef hann komst að því að þeir væru að djúsa við spilamennskuna. Addi kom líka fram einn. Eitt sinn fékk Pétur þulur Adda til að rokka fyrir krakkanna í blokkinni sem hann bjó í. „Við vorum svaka spennt,“ segir Jakob Frímann Magnússon, sem var einn af þessum krökkum. „Svo loksins kom Addi; stökk gaurdrullugur út úr bæjarvinnuvörubíl með rauðan gítar og tók villt rokk fyrir okkur krakkana. Þetta var fyrsta reynsla mín af rokki og það var ekki aftur snúið.“
Addi stofnaði m.a. hljómsveitina Jónsbörn sem Halli og Laddi spiluðu í á tímabili. Á hippatímanum kom Addi m.a. fram með Haukum og lék svertingja í Hárinu. Addi lenti í stórslysi á miðjum 8. áratugnum og var vart hugað líf. Hann lenti svo illilega fyrir bíl að höfuðkúpan brotnaði og heilinn lá úti. Adda var tjaslað saman en missti minnið og bragð- og sársaukaskyn. Læknarnir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við hann og tóku því til þess ráðs að setja hann, mann á besta aldri, á elliheimilið á Höfn. Þar var Addi í nokkur ár og náði sér fullkomlega aftur þvert ofan í allar spár.
Þegar Stuðmenn byrjuðu aftur um 1980 mundi Addi eftir þessum renglulega strák, Jakobi, og fór þess á leit að fá að koma fram með bandinu. Síðan hefur hann gert það gott með Stuðmönnum.
Addi skyggði á sjálfan Ringo Starr í Atlavík 1984. „Addi var baksviðs og var að koma sér í stuð fyrir ballið,“ segir Jakob. „Hann var í stígvélum og pungbindi einu fata, en spurði mig áður en hann fór á inn á svið hvernig hárið á honum væri! Svo fór hann alveg á kostum. Kom sér m.a. fyrir á milli tveggja kolla — hælinn á einn koll, hnakkinn á hinn — og svo spennti hann sig þar á milli. Þetta var ekki nóg því hann skipaði Tómasi að standa á löppunum á sér og Þórði að standa á brjóstkassanum. Svona voru þeir á meðan að lagið var spilað.“
Addi Rokk hefur hljóðritað eitt lag með Stuðmönnum (Lóa litla á brún), en nú er í bígerð heil plata. Er það ekki seinna vænna að þessi ævintýramaður komist á disk.

Þetta skrifaði ég árið 2001 en þessi Adda Rokk plata hefur því miður ekki komið út enn. Mér skilst að Addi sé á einhverju gamalmennahæli og ekki í svo miklu stuði þessa dagana, en vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Fyrsti trommuheili landsins þótti nokkuð merkilegur og var fjallað um hann á forsíðu Vísis í nóvember 1967. Hann var kallaður „róbot-trommari“ og helst talið til tekna að hann myndi ekki detta í það!

robottr
(Smelltu til að stækka)

Hér er svo sýnikennsla á Youtube á trommuheila Adda og félaga.

Sílemaður gerir allt vitlaust!

28 Apr

Marco Evaristti lét Strokk gjósa bleiku og allt varð vitlaust. Þótt matarliturinn væri með öllu horfinn úr náttúrunni eftir 4 tíma fékk sílemaðurinn á sig magnþrungið diss eins og „Þú ert ekki „listamaður“, þú ert bara heimskur glæpamaður!“ – og: „Fjögur orð: Drullaðu þér héðan strax! (sjá meira hér).“

Íslandsvinurinn góðkunni Ólafur Elíasson hefur gert álíka og sett matarlit í ár og læki en enginn bað hann um að hoppa upp í rassgatið á sér. Ef árangur er mældur í dissi er Marco mun meiri listamaður en Ólafur. Ef árangur er mældur í hatri er Marco frægasti listamaðurinn á Íslandi í dag. Sú athygli sem hann hefur fengið er eftirsóknarverð í heimi listarinnar, sem gengur ekki bara út á það að vera sniðugur heldur líka að hneyksla og vekja athygli.

art-goldfish
Ég man vel eftir öðru verki Marcos því það er alræmt. Hann setti gullfiska í blandara og bauð sýningargestum upp á þann möguleika að setja skrallið í gang.

Hann hefur sett matarlit í norskan foss í klakaböndum og steikt kjötbollur upp úr eigin fitu sem hann sýndi svo í niðursuðudósum. Hann hefur gert eftirlíkingu af hliðinu í Auschwitz/Birkenau úr gulli úr tönnum gyðinga. Og fleira skemmtilegt. Hann er gríðarlega ögrandi og eiginlega dálítið sniðugur líka. Það er mjög sjaldgæft að fólk hneykslist yfir list nú á dögum en Marco er alveg að mastera þetta form.

Ég skil annars ekki alveg þennan æsing yfir afturkræfu Strokk-verki Marcos. Er Strokkur snípur þjóðarinnar sem listamaðurinn misþyrmdi á hrottalegan hátt? Ef fólki er svona annt um náttúru landsins og útlendinga sem koma hingað til að „nauðga fjallkonunni“ mæli ég frekar með því að það skrái sig í Landvernd og hætti að kjósa flokka sem hafa stóriðjustefnu á stefnuskrá sinni með allskonar óafturkræfum afleiðingum. Mér fyndist það nærtækara.

En það er náttúrlega einfaldara að röfla bara eitthvað út um rassgatið á sér í gegnum lyklaborðið. Og kjósa svo peningalofandi spillingarbjána í næstu kosningum.

Fólk sem kann ekki íslensku

26 Apr

Í heiminum eru nú um það bil 6.913.748.299 manns sem kunna ekki íslensku. Það hefur þó ekki stoppað sumt af því í að syngja á íslensku inn á plötur. Allir kannast við bakraddasöngkonurnar sem gefa Horfðu til himins með Nýdönsk alveg sérstakan sjarma, enda er það flott og sjarmerandi þegar fólk sem kann ekki íslensku syngur samt á íslensku. Heyrum þetta góða lag:

Þetta voru nú bara einhverjar stelpur sem Nýdanskir fundu í Englandi þar sem þeir tóku plötuna upp.

Tæplega 40 árum fyrr, 1955, var Haukur Morthens út í Danmörku að taka upp með hljómsveit Jørn Grauengårds. Á b-hliðinni á „Hæ mambó“ er „Hið undursamlega æfintýri“ þar sem danskur „kór“ dúar og syngur annað slagið „á morgun“ með gríðarlegum hreim. Alveg frábært lag!


Haukur Morthens með undirleik Jørn Grauengårds kvintet og kór – Hið undursamlega æfintýri

Haukur vann mikið með Jörn og hér er grein í Tímanum frá 1959 þar sem segir frá upptökum þá.

Svo er það hin norska Nora Brocksted sem kom hingað ásamt sönghópnum Monn Keys og hélt tónleika. Hún tók upp 4 lög á íslensku fyrir hljómplötumerki Tage Ammendrup, Íslenzkir tónar. Þar af er Svo ung og blíð langfrægast. Það kom út 1955.

Á b-hliðinni er þetta lag með íslenskum texta eftir Þorstein Sveinsson:


Nora Brocksted með Monn keys og hljómsveit Egil Monn-Iversens – Æskunnar ómar

Lengstum var talið að til að sigra heiminn þyrfti að henda íslenskunni og taka upp enskuna, „tungumál rokksins“ eins og klisjan hljómaði. Þetta afsannaði Sigur Rós og því hafa þeir þurft að syngja á íslensku sem vilja kóvera Sigur Rós almennilega. Ýmsar áheyrilegar útgáfur eru til með aðdáendum Sigur Rósar að reyna sig við íslenskuna og hér er einn gríðarlega metnaðarfullur náungi, Nick Johns, að taka Svefn-g-englar.

Nýtt og brakandi

25 Apr

Íslenska senan heldur áfram að ólmast í drullugóðu stuði. Hér er gott stöff:
a0153048691_10
Goðadauðapönkbandið BÖRN er nú á túr í Bandaríkjunum (og er í viðtali hér). Hljómsveitin hefur gefið út glænýja 4-laga plötu sem hægt er að hlusta á hér. Helvíti gott efni.


Nýtt lag kom með gömlu góðu Q4U á dögunum. Þau hafa engu gleymt, eins og þar stendur.

Nýjasta lagið með gleðipönkurunum í MORÐINGJUNUM heitir Nagli og er fjórða nýja lagið sem heyrist með bandinu. Þetta hlýtur að enda með því að það komi plata.


Þá hafa hjartagosarnir Emmsjé Gauti og Friðrik Dór blastað nýju görli á Youtube. Íslenskir rapparar nútímans finna sér helst yrkisefni í fylliríi, þynnku og drykkjubömmer þessa dagana, sem er kannski ekkert nýtt, ég veit það ekki. Lagið er allavega fínt!

Grænland rokkar

25 Apr

Fáránlega lítill samgangur er á milli okkar og Grænlendinga, þótt þeir séu næsta byggða ból við okkur. Við erum líka oft rasistar þegar við tölum um „fulla Grænlendinga“ og eitthvað kjaftæði sem við vitum ekkert um. Mér finnst kominn tími til að breyta þessu og sé fram á tíma þegar Grænland verður hipp og kúl og jafn auðvelt að fara þangað eins og til Ísafjarðar. Sjálfur hef ég aldrei komið til Grænlands en er ævinlega á leiðinni.

Þjóðin er að slefa í 56 þúsund manns og býr um víðan völl í þessu risavaxna landi. Flestir búa í Nuuk, 17þúsund manns, svona aðeins minna en Akureyri. Ég hef að undanförnu kynnt mér aðeins tónlistarlíf Grænlands. Ég fór á frábæra mynd um hljómsveitina Sumé á dögunum. Þetta var ágætis hipparokk með miklum pólitískum boðskap um aðskilnað og frjálst Grænland. Myndin fjallar meira um pólitíkina en músíkina en er fín. Sumé var gríðarlega vinsælt band í Grænlandi og það fyrsta til að syngja á grænlensku.

311745_10150282030140974_509164550_n
Með því að skrifa fólki sem kom að þessari mynd hef ég komist að fleiru um músíklífið. Hávaðasamasta og pönkaðasta bandið heitir Uané og er með söngkonuna Maaliaaraq Engell í fararbroddi. Bandið hefur verið í pásu því söngkonan var að eignast sitt annað barn, en ætlar að fara að telja í. Stórfyrirtækið Erðanúmúsík hefur sýnt áhuga á að gefa út litla plötu með hljómsveitinni.

Rafsólóbandið Uyarakq er að gera góða hluti. Á MixtapeQ er unnið með eldra popp Grænlands.


Angu Motzfeldt er mikill hæfileikamaður, þótt tónlistin hans sé kannski dáldið meinstrím og ekki mjög „grænlensk“. Hann syngur vel og gerir gott popp og hefur gert eina plötu. Hér að ofan syngur hann Bowie-slagarann góðkunna. Angu er líka fantagóður ljósmyndari og er með þessa Tumblr-síðu: http://motzfeldt.tumblr.com/


Nanook er líklega vinsælasta grænlenska bandið í dag. Full meinstrím fyrir minn smekk en greinilega klárir gaurar. Bandið hefur spilað á Airwaves.


Nive Nielsen er líka þekkt stærð og hefur spilað á Airwaves. Hún er nú að fara að koma með sína aðra plötu og sá nýlega um að velja lög á Nordic Playlist dæmið.

Grænland er málið krakkar!

Davíð Oddsson var aldrei rokkari!

23 Apr

11182273_900328366695870_824871796892973588_n
Þessa mynd birti ég á Facebook með textanum: Það eru fáir sem vita það en í kringum 1970 var Davíð Oddsson í hljómsveitinni Fönix. Eina lagið sem kom út með gítarleik og söng Davíðs var hið frumsamda „Rauðir hundar“ á safnplötunn Pop Festival 1970 (útg. Tónaútgáfan T-14)

Því miður er þetta algjör uppspuni og lýgi. Gítarleikarinn – sem vissulega er sláandi líkur Davíð – heitir Arlen Roth.

Eins og alltaf þegar Davíð Oddsson ber á góma urðu menn fljótir til að æsast upp í röfli. Meðal kommenta voru þessi:

– Oj
– Mannfjandinn er með Gibson Les Paul goldtop með P90 pickuppum. Þessi gítar er örugglega verðmætari en hann í dag.

En það komu jákvæð viðbrögð líka frá nafntoguðum mönnum:

– Davíð Oddsson er fínn rithöfundur, sjall textasmiður og tekur sig vel út með gitarinn (Bubbi Morthens)
– Ætli hann lumi enn á þessum flotta Les Paul? (Magnús Eiríksson)

Svo það sé endurtekið einu sinni enn: DAVÍÐ ODDSSON VAR (því miður) ALDREI ROKKARI!

Hann var og er hins vegar mikill Bob Dylan aðdáandi og gaf út eina plötu með félögum sínum í Matthildi. Um það hef ég þegar skrifað.

Að vera kúl og eiga von

23 Apr

thefallrektor
Hér er nýkjörinn Háskólarektor, Jón Atli Benediktsson, í Íslandi í dag veifandi bestu plötu The Fall, 10-tommunni Slates. Það er ekki annað hægt en að fyllast von á framtíðina þegar slíkur meistari er sestur á rektorsstól, án þess þó að það hafi skipt mig miklu máli hingað til hver er rektor. Bara gott að vita af rokk og pönk-aðdáanda á góðum stað.

Það er í tísku að „tala niður“ Ísland og Íslendinga og jafnvel ala þá von í brjósti að Norðmenn hirði okkur eða aðrir úitlendingar af því við erum of vitlaus til að ráða fram úr okkar málum á ábyrgan hátt. Vissulega lítur þetta oft þannig út. Eins og bjánar kjósum við bjánalega flokka sí og æ eftir að hafa fallið fyrir sturluðum loforðum, oftast um monnípening í vasann. Alltof oft veljum við vitlaust lag í Eurovision og gerum allskonar bjánalega hluti sem hjörð – af því þannig er stemmningin.

Sem betur fer erum við þó stundum ekki algjörir bjánar og gerum eitthvað kúl. Við vorum kúl sem þjóð þegar við kusum Vigdísi sem forseta. Við erum kúl sem hjörð þegar við fjölmennum á Gay pride og samgleðjumst með fólki sem var kúgað og lagt í einelti áratugum saman. Mér fannst það kúl þegar Besti flokkurinn tók Borgina. Og mér finnst það líka kúl að Píratar skuli stöðugt vera að bæta á sig fylgi.

Því lífið er ekkert flókið. Alltaf skal gera það sem er meira kúl heldur en það sem er bjánalegt.


Já og GLEÐILEGT SUMAR! Hér er lagið Það er komið sumar með Mannakornum af plötunni Samferða (1990). Menn voru í miklu stuði þegar lagið var tekið upp. Pálmi öskrar þetta næstum því. Saxófónleikarinn Rúnar Georgsson var eitthvað illa fyrirkallaður þegar hann mætti og spilaði þetta inn. Magnúsi og Pálma fannst sólóið líflaust svo Magnús brá á það ráð að bregða sér aðeins frá með Rúnari. Þegar þeir komu til baka og búnir að fá sér var allt annað hljóð í strokknum og þá kom þetta líka snarsturlaða saxófónsóló – eitt það villtasta í poppsögunni!

HEIMA í HFN

22 Apr

heimass
Eins og allir vita er Hafnarfjörður nettasti bærinn á höfuðborgarsvæðinu. Í kvöld fer þar fram tónlistarhátíðin HEIMA sem hamhleypurnar Kiddi Kanína og Óli Palla standa fyrir að færeyskri fyrirmynd. Þetta er rakið dæmi – 13 tónlistaratriði koma fram tvisvar í hinum ýmsu heimahúsum í miðbæ Hafnarfjarðar. Ætli maður þurfi að fara úr skónum? 4900 kall kostar á haus að berja dýrðina augum og verður byrjað að afhenda armbönd í Hafnarbíói klukkan 16 í dag.

Þeir sem koma fram hafa lagt sig fram í að búa til eitthvað nýtt fyrir HEIMA. Hver tónleikur er um 40 mínútur. Þetta eru atriðin:

Eivör Pálsdóttir ásamt hljómsveit
KK
Lúðrasveit Þorlákshafnar ásamt leynigesti (Jónas Sig)
Berndsen
Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson
Dimma
Herbert Guðmundsson og Hjörtur Howser
Langi Seli og Skuggarnir
Jón Jónsson og Friðrik Dór
Margrét Eir og Thin Jim
Emmsjé Gauti & Agent Fresco
Ragga Gísla & Helgi Svavar
Þórunn Antonía og Bjarni (Mínus)

HEIMA markað upphaf Bjartra daga í Hafnarfirði. Miðasalan er á MIDI.IS og dagskráin er á Facebook.