Sarpur | maí, 2012

Baksviðs með legendum

25 Maí


Svona var umhorft á tímabili baksviðs á Gauknum í gærkvöldi. Ellý fór þar fyrir Q4U sem spilaði aðallega nýtt efni, Mikki Pollock gerði frábæra hluti með The Bodies, Valli með Fræbbblunum sem hyggja á nýja plötu (eins og Q4U) en sjálfur juðaðist ég á nokkrum stórum hvellum með bandinu. Þetta var helvíti gott gigg og Gaukurinn góð búlla til að spila á.

Og nú til að eyðileggja allt, Eurovision-komment: Það verður skandall ef Loreen vinnur ekki á morgun með hinu geðveikt góða Jú-foría!

Rokk í Reykjavík 2.0 í kvöld!

24 Maí


Hið mikla Rokk í Reykjavík 2.0 er í kvöld á Gauknum (sem hét Sódóma þar til nýlega, en reyndar Gaukurinn þar áður. Meira ruglið alltaf með þessi skemmtistaðanöfn). Belginn Wim Van Hooste stendur að skrallinu í tilefni af 41 árs afmælis sjálfs síns og 30 ára afmæli Rokks í Reykjavík. Öllum framkomandi er skylt að taka lag úr myndinni en öfugt við það sem stendur í Fbl í dag tekur Dr. Gunni ekki Bruna BB heldur pöbbarokkast á Raflosti Egós. Að öðru leiti tökum við bara lög af tímamótaverkinu Stóra hvelli. Þetta verður drullustuð. Prógrammið er svona sallafínt, eða svohljóðandi:

20:00 Rimur
20:05 Sudden Weather Change
20:40 Mordingjarnir
21:15 Æla
21:50 Hellvar
22:15 Break: Video Competition Winners – Small talk by Wim Van Hooste
22:30 Mosi Frændi
23:05 Dr. Gunni
23:40 Q4U
00:15 Fræbbblarnir
01:00 End

Skyldumæting!

Óumflýjanleg færsla um Robin Gibb

21 Maí


Þá er Barry einn eftir Gibb-bræðra. Robin stimplaði sig út og Facebook fyllist af Youtube-myndböndum. Hafði þar áður fyllst af Donnu Summer. Svona er þetta á tölvuöld. Af hverjum fyllist Facebook næst?

Enn er ég ekki byrjaður á 722 bls doðranti um Bee Gees, sem ég keypti ódýrt í einhverri Lundúnarferð fyrir löngu síðan. Veit þó að Robin fór í fýlu við bræður sína í kringum útgáfu plötunnar Odessa vegna rifrildis við Barry um hvaða lag ætti að koma út á smáskífu. Þeir hættu saman um hríð. Maurice og Barry voru bara tveir í Bee Gees þegar þeir gerðu plötuna Cucumber Castle en Robin gerði sólóplötuna Robin’s Reign á sama tíma. Þarna höfðu þeir misst niður sixtís-forskot sitt og urðu ekki vinsælir á ný fyrr en nokkrum árum síðar í diskóinu. Fá bönd önnur hafa náð að toppa tvisvar jafn glæsilega.

Margir vilja meina að hin tvöfalda Odessa (1969) sé meistaraverk Bee Gees, en ég hef aldrei náð henni almennilega. Ég fýla þá vel bæði sixtís og diskó, en millibilið er ekkert sérlega skemmtilegt. Sólóplata Robins á þó ágæta spretti. Hann er með trommuheila í nokkrum lögum og þetta er voða mikið mömmupopp. Kveð ég þá hinn mjúkmála meistara með þessu.


Robin Gibb – Mother & Jack

Geðveik rýmingarsala og 3 lög!

18 Maí

Hér koma nokkur gleðitíðindi fyrir tónlistarunnendur:


Trausti, Steinn og Tóta verða með rýmingarsölu í Kolaportinu um helgina og eins og sjá má hér að ofan borgar sig að mæta með nóg af monnípening því margt flott verður í boði fyrir músíkgeggjara. Skyldumæting!


Just Another Snake Cult – Birds Carried Your Song Through The Night
Þórir í Just Another Snake Cult heldur áfram að gera góða hluti. Hans nýjasta plata er 6-laga EP þar sem hann er í minimalíska draumapoppinu og Twin Píks-aður áðí. Hann ætlar með syntann á túr um Cal þar sem hann býr. Meira á síðunni hans.


Elín Helena – Raunsæ rómantík
Frá þessu popppönkbandi kom fréttatilkynning og nýtt lag! – Pönksveitin Elín Helena hefur undanfarið verið önnum kafin við upptökur á sinni fyrstu breiðskífu, en sveitin sendi frá sér örskífuna Skoðanir á útsölu árið 2003. Fyrsta lagið sem Elín Helena sendir frá sér, Raunsæ rómantík, er þegar farið að hljóma á X-inu. Auk þess mun hljómsveitin leika vel valin lög af væntanlegri breiðskífu á Reykjavík Live Festival, Keflavík Music Festival og hinu margrómaða Eistnaflugi.


Útidúr – Grasping for Air
Allt að gerast hjá Útidúr. Það kom fréttatilkynning með nýja laginu: Hljómsveitin Útidúr sendi frá sér nýtt lag á dögunum. Það er af komandi plötu Útidúrs sem verður í hressari kantinum en stefnt er á að platan komi út í byrjun sumars. Lagið heitir “Grasping for air” en það er endurtúlkun á laginu “Grasping for thoughts” af fyrstu plötu sveitarinnar “This Mess We’ve Made” sem kom út árið 2010. Þetta er fyrsta lag hljómsveitarinnar þar sem meðlimir Útidúrs sjá alfarið um upptökur og hljóðblöndun lagsins. Mastering var hins vegar í höndum Birgis Jóns Birgissonar í Sundlauginni.
Hljómsveitin hefur upp á síðkastið staðið í upptökum á nýju plötunni og æft fyrir komandi tónleikaferðalag, en hljómsveitin heldur til Kanada í lok maí. Þar mun Útidúr fylgja kanadísku hljómsveitinni Brasstronaut þvert yfir Kanada og spila á alls 20 tónleikum á 27 dögum. Útidúr mun kveðja Ísland með tónleikum á skemmtistaðnum Faktorý 27. maí, daginn fyrir brottför. Auk Útidúrs mun hljómsveitin Úlfur Úlfur og Baku Baku koma fram.

Allir eru fávitar-væðingin

17 Maí


Það er ekki er verandi lengur á Facebook, eða netinu öllu, út af þessu forsetarugli. Mér finnst jafn leiðinlegt að lesa skítkast og gullhamra um sitjandi forseta og vildi óska að fólk væri í aðeins betra jafnvægi þegar hann ber á góma. Hann gerir svo sem lítið í því sjálfur að „lægja öldurnar“ og ljóst að ef hann sigrar kosningarnar verður hann forseti þeirrar prósentu sem kaus hann, en ekki hinna. Svaka sameiningartákn, sem sé! Eða ekki: Bara með því að minnast á hann – eða sjá hann á mynd – verður stór hluti þjóðarinnar sturlaður í geðinu. Og eins og ég segi, það er ekki verandi á netinu út af þessu.

Mér finnst Þóra og Svavar fínt fólk, þetta litla sem ég hef kynnst af þeim, en mér finnst það jafnframt bjánaleg tilhugsun að kjósa Þóru til að gerast puntudúkka á feitum launum á Bessastöðum. Mér finnst þetta forsetaembætti bara asnalegt. Það er ekki einu sinni á hreinu hvað forsetinn á að gera, heldur geta þeir sjálfir bara ráðið því. Verið gróðursetjandi punt eða einskonar æðsta vald landsins sem segir stopp þegar ríkisstjórnin er með rugl. Þetta er svo kreisí.

Mér leiðist þessi upplausn og þetta endalausa svartagall. Væri alveg til í betri fíling í þjóðfélaginu en svona er þetta bara allt eftir hrun. Allt og allir eru eiginlega viðbjóður í hausnum á fólki. Það er ekki hægt að fara í þessa búð af því eigandinn er fjárglæframaður sem holaði gullkistur þjóðarinnar að innan og ekki hægt að lesa þetta blað af því eigendurnir eru blóðsugur sem nærast á lítilmagnanum. Allir á þingi eru fávitar og soramenni og bara allir allsstaðar.

Auðvitað blasir þessi „veruleiki“ hvergi við manni nema í gegnum fjölmiðla (og netið, sem er fjölmiðill) – ég verð a.m.k. hvergi var við svartagallið á götum úti. Þar er bara sólskin og fólk að gera það sem það á sér – að passa að drepast ekki.

Nýjasta nýtt í „allir eru fávitar“-„væðingunni“ er að Besti flokkurinn sé viðbjóður af því hann bjargar ekki Nasa. Þeir sem hæst láta vilja að Borgin kaupi Nasa og reki þar skemmtistað, alveg eins og borgin er með puttana í rekstri Borgarleikhússins, Hörpunnar o.s.frv. Margir eru fúlir af því að liðið í Besta skuli ekki beita sér fyrir rokkinu heldur bara bregðast við eins og hvaða annar kerfisflokkur hefði gert í þessari sitújasjón.

Það má segja að báðar „fylkingar“ hafi nokkuð til síns máls. Það er glatað og ömurlegt að frábær staðar með mikla sögu skuli leggjast af fyrir hótel og það væri skrýtin heimtufrekja fyrir hönd stuðsins að nota fé úr sameiginlegum sjóðum til að leysa úr þessu máli.

Vonandi kemst frumlegur botn í málið. Það vantar almennt meiri frumlegheit í lífið á þessu gvöðsvolaði skeri. Meiri frumlegheit og stuð – Minna svartagall og tuð, segi ég.

Annars er það helst að frétta að ég fór á Manfred Mann’s Earth Band í Háskólabíói í gærkvöldi eftir að hafa snætt úrvals borgara í Silfurtunglinu (hörkudílar í gangi, m.a. nautaborgari og bjórglas á 1.500 kr). Þetta er undarlegt progg popp og einu lögin sem ég þekkti voru þessi fjögur í restina. Manfred sjálfur er furðu hress miðað við að vera 71 árs og stökk annað slagið fram frá hljómborðsstæðunni og spilaði á syntharinn eins og gormur með hatt. Lögin voru öll svipuð, fyrst erindi viðlag erindi viðlag, svo heillangur sólókafli þar sem gítarinn og hljómborðið sólóuðu eins og berserkir en Dressman-legur söngvarinn fór og faldi sig. Á undan léku un ung-proggararnir í Eldberg, sem voru þéttir og fínir en sándið ekki alveg nógu gott.

Iceland er þegar komið

10 Maí


Ég var að enda við að kaupa mér 900 gr af frostnu spínati merkt ICELAND í Krónunni. Pokinn kostaði 265 kr en enska verðið er prentað stórum stöfum á pokann, 1 Pund. Er þetta nú bara ekki eðlileg hækkun í hafi miðað við flutning og bla bla bla? Það var til fullt af öðru dóti frá Iceland í Krónunni, aðallega frosið dót sýndist mér.

Nú ætlar Jóhannes í Iceland að byrja með Iceland á Íslandi. Er það ekki allt í lagi? Er Jóhannes svo mikill viðbjóður að maður geti ekki keypt af honum frosið spínat ef út í það er farið? Sérstaklega ef hann getur toppað Krónuna í verði.

Verst að það sem maður þekkir af þessari Iceland keðju frá ferðum sínum til Bretlands, er að þetta eru nú bara engar sérstakar gæðaverslanir. Bara svona la la.  Fullt af bæði verri, svipuðum, betri og miklu betri búðum til að velja úr.

George Harrison

10 Maí


(George Harrison gerðist ukulele unnandi í seinni tíð. Ég á ukulele-kennslubók þar sem hann skrifar formálann.)
Kláraði loksins að horfa á Living in a material world, heimildamynd Martins Scorsese um Bítilinn Gogga Harr. Hér fær Georg sviðið og á það í þrjá tíma. Helvíti fín mynd bara (4 stjörnur!) og svo vel gerð að manni finnst maður þekkja listamanninn að áhorfi loknu – eða að minnsta kosti vita „hvernig hann var“. Eftirlifandi Bítlar eru meðal annars talandi hausar og Ringo klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Hann tárast í lokin yfir endalokum Georgs og spyr hvort þetta sé Barbara fokking Walters!

Mugison samdi einu sinni lag sem heitir George Harrison. Hér er það læf í Hollandi 2008.

Notað og nýtt á Skemmuvegi 6 er með gott úrval af notuðum vinýl (Drífðu þig!) Gerði ágætis kaup þar í gær á All Things Must Pass, þrefaldri sólóplötu Georgs (3000). Ég átti reyndar eintak fyrir en Heiðu vantaði eintak svo þetta fór þangað. Fyrir mig tók ég Fly, tvöfalda plötu Yoko Ono frá 1971 í topp standi (2000), næstum því óspilað eintak. Við göntuðumst með það eigandinn og ég að líklega væri erfitt að finna mikið spilað eintak af plötum Yokoar. Þarna fann ég líka plötuna John Lennon for President með David Peel & The Super Apple Band frá 1980 (1000). Þetta er rugl plata (David Peel er einhver New York hasshaus) en Yoko og John eru eitthvað smá á henni svo það er pláss fyrir hana í rekkanum.

Maður verður að hafa eitthvað haldreipi í lífinu, er það ekki? Mitt er Bítlatrúin.

Áríðandi uppfærsla af Sigur Rós!

9 Maí


Áríðandi uppfærsla úr innsta hring Sigur Rósar!!! –> Kjartan SPILAR á VALTARI. Kjartan er EKKI hættur í hljómsveitinni. ENGIN ÖNNUR plata er tilbúin og bíður útgáfu.

„Allt“ annað í „fréttinni“ á sér þó stað í raunveruleikanum 😉

Allt er að ske nú um stundir hjá bestu og vinsælustu íslensku hljómsveitinni í heimi, Sigur Rós. Fyrst ber að nefna að nýja platan VALTARI verður gefin út þann 28. maí. Mér skilst að Kjartan Sveinsson spili ekkert á plötunni, enda sé hann hættur í sveitinni. Allavega í bili. Hann nennti víst ekki að taka þátt í frekari hljómleikaþeytingi út um allan heim.

VALTARI er önnur tveggja platna sem Sigur Rós hefur lokið við. Hin, sem ku allt öðru vísi og stærra stökk í þróunarferli sveitarinnar, á að koma út á næsta ári. VALTARI hljómar „eins og snjóflóð sem veltur yfir þig“.

Túrinn hefur verið lænaður upp, þ.á.m. lokar bandið Airwaves í nóv.

Ekki múkk, videó.

Uppfært: Kreppunni ekki lokið!

6 Maí

Þrátt fyrir opnun Bauhaus er kreppunni auðvitað ekki lokið. Það segir sig sjálft. Fólk verður að kunna að taka því sem það les með fyrirvara og tungu í kinn.

Hér var löngum núll komma eitthvað atvinnuleysi og alltaf hægt að fá vinnu. Núna í mars var atvinnuleysið á landinu 7.5% = Ennþá kreppa. Kannski verður kreppunni lokið þegar atvinnuleysið fer niður í svona 2%.

Semsagt þegar Bjarni Ben og Sigmundur Davíð verða búnir að ríkja í einn mánuð. Muna: Tunga í kinn.

Annar ágætur mælikvarði er gengið. Kreppunni lýkur ekki fyrr en íslenska krónan verður aðeins meira virði en 1€ = 163 isk / 1$ = 124 isk / 1£ = 201 isk!

Bauhaus opnar – kreppunni lokið

5 Maí


Leiðinlegustu búðir í heimi eru byggingavörubúðirnar svokallaðar. Verandi með þumalputta á öllum þegar kemur að iðnaðarmennsku sortnar mér fyrir augum þegar ég kem þarna inn. Ég dey innan í mér við rekkana. Ég efast því um að ég eigi eftir að standa í biðröðinni á Lambhagavegi þegar Bauhaus opnar loksins á eftir.

Opnun keðjunnar hér er auðvitað ævintýri líkast og eiginlega einskonar vottorð upp á að „kreppunni sé lokið“. Húsið er búið að standa eins og opin gröf í nærri því 4 ár til minningar um flatskjáinn og pallbílinn sem þú keyptir þér. Nú, þegar búðin opnar loksins, er það skýrt dæmi um að hið ægilega hjól atvinnulífsins sé farið að snúast á ný.

Þýsk dólgasamkeppni er auðvitað ekki að fara vel í Byko og Húsasmiðjuna, sem hafa engst í taugaveiklunarkasti og mengað alla útsendingatíma með rembingslegum og örvæntingafullum auglýsingum. Byko og Húsasmiðjan hefðu betur okrað aðeins minna á landsmönnum í gegnum tíðina og komið sér upp meira gúddvilli þannig. Á Okursíðunni er allt krökt af dæmum af okrinu í þessum búðum. Sjáðu bara: Leitað eftir Húsasmiðjan / leitað eftir Byko.

Einu sinni var Bauhaus ein uppáhaldshljómsveitin mín. Þeir nefndu sig eftir þýska arkitektúrnum (eins og keðjan líklega) og voru goth en samt rokkkúl, jafvel döbb líka. Allt fullt af þeim á Youtube, t.d. She’s in parties.

Þótt ég verði ekki sperrtur í biðröðinni við Bauhaus í leit að loftpressu á 16.995 verð ég sperrtur í biðröðinni við Nexus frá kl. 13. Í dag er nebblega ókeypis myndasögudagurinn og hátíð í bæ. Ókeypis blöð í boði! Ég sá The Avangers í gær. Hún er nú kannski ekki eins æðisleg og menn vilja meina, en samt alveg ok. Allar eins þessar bardagasenur þó. Þetta var eiginlega alveg eins og í Transformers – tölvugerð yfirþyrming. Samt glitti í smá skemmtilegan húmor og það var minna hernaðarrúnk en vanalega svo 3 stjörnur. Líklega fleiri ef ég væri ofurhetjunörd. Það hef ég aldrei verið, en mér finnst Spiderman myndirnar það langbesta sem hefur verið gert í þessari deild.