Sarpur | september, 2011

Reitt fólk er hlægilegt

30 Sep


Mér finnst reitt fólk ógeðslega hlægilegt. Sérstaklega þegar það er stjórnlaust af bræði. Þess vegna er Fawlty Towers aldrei fyndnari en þegar hann er ógeðslega reiður.

Ég verð voða sjaldan reiður enda finnst mér það ekkert skemmtilegt. Ég sé alltaf eftir öllu sem gerist þegar ég reiður. Það kemur aldrei neitt gott út úr því að vera reiður, bara eitthvað leiðinlegt sem maður þarf að fara að afsaka sig fyrir og ekki er það nú skemmtilegt, að þurfa að biðjast fyrirgefningar. Ég brjálast samt stundum og það er náttúrlega þrælfyndið. Til dæmis þegar ég dett á rassgatið. Þá verð ég alveg brjálaður. Þess vegna er ég með megna hálkufóbíu.

Í Búsáhaldabyltingunni var fullt af fólki ógeðslega reitt. Allskonar fólk snappaði. Ég var aldrei nógu reiður inn í mér til að vera brjálaður niðrí bæ, þótt hrunið hafi valdið manni sæmilega miklu hugarangri. En það kveikti líka allskonar hugsanir og maður hélt að „allt myndi breytast“. Svo breyttist náttúrlega ekki neitt.

Hey. Auðvitað tottar það biggtæm að stefna stjórnvalda og græðgi ríkukallanna skyldi fokka öllu hérna upp og að glansmyndin af „besta landi í heimi“ væri bara frauð. En þú kaust þetta lið. Þú keyptir af þessum ríkuköllum. Hverjum ættirðu þá að vera reiður? Þér sjálfum fyrir að trúa á glansmyndina?

Er hægt að sparka í punginn á sjálfum sér? Nei. Þess vegna var um að gera að fara niðrí bæ og hrækja á einhverjar láglaunalöggur, berja upptökumenn frá Stöð 2 eða bara eitthvað. Arrrrgggghhhh… ég er svo reiður!

En allavega. Við fengum Vinstri stjórn en hún er víst alveg ömurleg svo það er best að fá bara Sjalla og Framsókn aftur. „Taka 2“ – kannski gera þeir þetta betur næst.

Eða eitthvað. Allir sem sé orðnir brjálaðir aftur og ætla að taka trylling út í loftið á laugardaginn af því bara. Af því Vnstri stjórnin vinnur á hraða skjaldbökunnar, af því það er ekki búið að afskrifa skuldina af pallbílnum og/eða af því Jón Ásgeir og kó er ekki á Litla Hrauni.

Ég? Nei, ég ætla nú bara að fara í spinning eins og vanalega og reyna að vera reiður í löppunum.

Auglýsingar

Sveiflur vísitalna í gær

29 Sep


Seventís sýrurokks-vísitalan (SEVSÝR) rauk upp um heil 70% þegar ég hlustaði á hljómsveitina Módulo 1000 frá Brasilíu. Platan Não Fale com Paredes – translate.google.com þýðir það sem „Ekki tala við Walls“ (takk Google translate!) – er frá 1970 og algjör snilld. Ég mælist til þess að Zakarías Gunnarsson og félagar í Caterpillarman tékki á þessu bandi og líka strákarnir í hippasýrubandinu Eldberg. Titillagið er til að mynda sallafínt og svo eru þeir með lag sem heitir Animalia, alveg eins og HAM. Það lag er reyndar eitt af mörgum örstuttum á plötunni og er meira svona með til að búa til heild. Ég mæli frekar með fyrsta laginu, Turpe Est Sine Crine Caput, eða „Án hára það er skömm kafli“, eins og google þýðir það (sé þetta þýtt úr latínu) eða Metro Mental.

Hvenær kemur annars nýja HAM platan á vinýl?-vísitalan (HAMÁLP) stendur í stað því ég veit ekkert hvenær vinýllinn kemur.

Saktmóðígur halda útgáfutónleika-vísitalan (SAKTÚT) hefur aldrei verið hærri (99.9%) enda fara tónleikarnir fram í kvöld á Gauknum. Otto Katz Orchestra, Dys og Jakob Veigar sjá um hitun.

Rowan Atkinson-vísitalan (ROWAT) heldur áfram að lækka og hefur aldrei verið lægri, 91.15% undir markaðsvirði þegar hann var í Blackadder og 89.05% undir Mr. Bean þáttunum. Sá Johnny English Reborn sem er ófyndið drasl og Sigur Rósaraðdáandinn Gillian X-files gerir ekkert fyrir hana. Ein stjarna. Tveir átta ára strákar sem ég fór með skemmtu sér hins vegar ágætlega.

Fjölskyldan saman á sirkus-visitalan (FJÖSIR) hækkaði verulega í gær (78.8%) þegar ég tryggði mér og fjölskyldunni miða á Sirkus Íslands Kynnir Ö FAKTOR …Því X er ekki nóg!! Þetta þykir gríðarlega gott stöff fyrir „alla fjölskylduna“ og það eru tvær sýningar í Tjarnarbíói um helgina. 1900 kall á kjaft nema kjafturinn geti setið í fangi þá þarf ekki að borga fyrir hann. Síðast þegar ég fór í sirkus var það norskur sirkus sem sýndi í tjaldi við Smáralind. Það var alvöru sirkus með sígaunum og allt, en þetta var minnir mig rétt fyrir hrun og ég las einhverja örfrétt um það síðar að sirkusinn hafi farið á hausinn í kjölfar sýninganna hér.


Hjálmar – Ég teikna stjörnu
Að lokum er það Hjálma-vísitalan (HJÁLMA) sem hækkaði snögglega um 66.6% í gær þegar nýtt lag, Ég teikna stjörnu, var gert lýðnum heyrinkunnugt. Það er af plötunni ÓRAR sem kemur von bráðar út og bætast við þann myndarlega hól af gæðaplötum sem út kemur á næstu vikum. Fréttatilkynning er svona:

Ég teikna stjörnu
Lag & texti: Þorsteinn Einarsson

Ég teiknaði stjörnu á gólfið
og risti í kross
gaf því svo koss

það er einhver móða hjá þér
og byrgir mér sýn
ég næ ei til þín

en þegar sólin sest
og rökkrið smýgur inn til mín
þá hugsa ég samt alltaf til þín

ég málaði ótal myndir
myndir af þér
og setti í gler

Hjálmar lögðu í dag af stað í tónleikaferð til Finnlands, Rússlands og Eistlands þar sem þeir koma fram á 7 tónleikum og fara í hljóðver með Jimi Tenor. Staði og stundir má sjá á heimasíðu hljómsveitarinnar. Hjálmar spila meðal annars á stórri bókakaupstefnu í Turku í Finnlandi þar sem þeir verða sérstakir fulltrúar Íslands. Textar þeirra hafa verið þýddir yfir á finnsku og verða gefnir út í textahefti og varpað á tjald undir tónleikum sveitarinnar. Í Turku spila Hjálmar einnig eina tónleika með Jukka Poika sem er einn vinsælasti tónlistarmaður Finna um þessar mundir og spilar einmitt einnig reggí.

Allt morandi í músík

28 Sep

Náttfari – Sumardagurinn fyrsti
Í kringum aldarmótin var hljómsveitin Náttfari að gera góða mjög góða hluti í póst rokkinu. Bandið var næstum búið að klára fyrstu plötuna sína, en hætti áður en það hafðist. Nú er bandið komið aftur og loksins reddí með plötu, sem þeir kalla eðlilega Töf. Hún kemur út um miðjan október. Eðal ósungið (nema eitt) póstrokk með fjallahringslegum blæ.

Það er hreinlega allt morandi í góðri músík sem er að koma út núna á næstu vikum. Lovísa Lay Low kemur með plötuna Brostinn strengur um miðjan október og hefur sett titillagið á netið. Mjög flott. Síðasta platan hennar (Farewell Good Nights Sleep) var frábær svo það er mikið tilhlökkunarefni að heyra nýja plötu. Gott líka að bæði hún og Mugison syngi nú á íslensku.

Silfurdrengirnir í Hljómsveitinni Ég eru í startholum með nýja plötu, Ímynd fíflsins. Glæsilegt lag HEIMSKA er komið á netið, Róbert Örn rýnir í ástandið og spyr áleitinni spurninga. Tilhlökkunarefni að fá nýja Ég plötu!

Helsti Popppunks-spekingur Hljómsveitarinnar Ég, Steindór Ingi Snorrason, er með pródjekt og plötu. Hann kallaði verkefnið upphaflega April en kallar það Monterey núna. With your open eyes er komið á netið.

Hljómsveitin Nóra sendir frá sér nýtt lag í dag. Lagið heitir Bringsmalaskotta og er forsmekkurinn af því sem koma skal. Sveitin hefur hafið upptökur á annarri breiðskífu sinni sem áætlað er að komi út snemma á næsta ári. Lagið er hægt að nálgast á heimasíðu sveitarinnar.

Ég minni á útgáfutónleika Hellvars í kvöld á Gauknum. Nóló hita upp og byrja á slaginu 22.

Mugison mætir á svæðið!

27 Sep

 Mugison – Áfall

Haglél, nýja platan hans Mugisons er komin út. Ég keypti hana á smotterí sem download á Mugison.is (700 kall – nógu gott til að setja á Okursíðun, sem „ekki-okur“) og svo mættu þeir Öddi og Jón Þór heim til mín með eintak vegna gagnrýnendastarfsins. Ég kveð upp minn dóm í Fréttatímanum á föstudaginn, en get þó sagt það núna að umslag er frábærlega hannað. Mér sem fannst það svo ljótt þegar ég sá framhliðina fyrst. Haglið er upphleypt  sem gerir gæfumuninn, umslagið er í rosa spes broti og með litlum bæklingi haganlega stungið inn í. Ekki í fyrsta skipti svo sem Mugison kemur með skemmtilega hönnuð umslög. Hver man ekki eftir saumaskapnum?

Bestu áströlsku plöturnar

27 Sep


Nýlega rakst ég á lista yfir 100 bestu plötur Ástralíu á Wiki. Listinn var fyrst birtur í bók sem kom út í fyrra. Ég tel ekki ólíklegt að ég reyni að verða mér úti um þessa bók, enda á ég engar yfirlitsbækur yfir ástralska poppið og veit ekki einu sinni hvort slíkar bækur séu til. Öfugt við samskonar bók um íslenskar plötur eftir Arnar Eggert og Jónatan sem kom út 2009 er ástralski listinn ekki settur saman með aðkomu almennings heldur er bara föndurverkefni þriggja höfunda. Ég er nú sæmilega að mér í áströlsku poppi, enda búinn að vera með væga Ástralíu-maníu síðan snemma á 9. áratugnum, en samt þekki ég ekki nema brot af plötunum á þessum lista. Topp 10 svona:

1. Midnight Oil – Diesel and Dust (1987)
2. AC/DC – Back in Black (1980)
3. Crowded House – Woodface (1991)
4. Cold Chisel – Circus Animals (1982)
5. The Triffids – Born Sandy Devotional (1986)
6. The Easybeats – The Best of the Easybeats (1967)
7. Paul Kelly and the Coloured Girls – Gossip (1986)
8. You Am I – Hi Fi Way (1995)
9. Skyhooks – Living in the 70’s (1974)
10 The Avalanches – Since I Left You (2000)

Skellti Midnight Oil plötunni á fóninn og er bara ekki að fílana nú frekar en þegar hún kom út. Mér skilst að Midnight Oil hafi einkennilegt tangarhald á áströlsku þjóðarsálinni – eitthvað svona Bubba/Stuðmanna-dæmi – sem skýrir kannski hvers vegna platan er talin best.


Ég er náttúrlega svo anal að ég þarf að koma með minn eigin topp 10 lista yfir bestu áströlsku plöturnar:

1. The Birthday Party – Prayers on Fire (1981) *
2. The Triffids – Treeless Plain (1983)
3. The Scientists – Blood Red River 1982 – 1984
4. The Birthday Party – Junkyard (1982)
5. The Lighthouse Keepers – Tales of the Unexpected (1984)
6. The Saints – Eternally yours (1978) #
7. The Triffids – In the Pines (1986)
8. The Beasts of Bourbon – The Axeman’s Jazz (1984)
9. The Go-Betweens – Before Hollywood (1983)
10. Ýmsir – Wasted Sausage / Leather Donut (1987/88)

* Platan sem kom mér á ástralska sporið eftir að ég keypti hana í Safnarabúðinni.
# Þessi plata er ekki á lista Ástralanna þótt hinar tvær plötur Saints séu þar, ekki eins góðar plötur að mínu mati.

Eins og sést er þetta ekki mjög „marktækur“ listi, heldur gríðarlega sjálfhverfur og bara með plötum sem ég fílaði á móttækilegustu árum mínum. Helvíti góður listi, sem sé!

(Hér er eitthvað um ástralska rokkið á 9. áratugnum)

Hallgrímspulsa

26 Sep


Pulsuvagnar spretta upp. Einn kominn við enda Hvalfjarðarganganna (Akranes megin) og nú er þessi kominn við Hallgrímskirkju. Sniðug staðsetning. Þarna er alltaf allt vaðandi í túristum – að sjálfssögðu eingöngu komnum hingað vegna átaksins Inspired by Iceland – mænandi á kirkjuna og Leif. Nú með pulsu í hönd.

Skv. Valtý B. Thors býður Hallgrímspulsa upp á grillaðar Pólskar pylsur í brauði. Hann fékk sér svoleiðis um daginn –  „Þetta bragðaðist svona eins og bjúgnapylsublendingur, það er alls ekki eins slæmt og það hljómar,“ vill hann meina.

Regnbogi yfir Akurey

25 Sep


Ég kýs að kalla þessa mynd annað hvort Regnbogi yfir Akurey eða Djöfull þarf ég að fara að fá mér síma með betri myndavél.