Sarpur | febrúar, 2014

Gos í stríðum straumum

21 Feb

Ég á alltaf von á góðu þegar Bryan Riebeek mætir á Airwaves því hann kemur með svo mikið af rótarbjór handa mér. Nú er ég búinn að drekka gosið frá því hann kom síðast og birti eftirfarandi niðurstöður:
20131107_200323
Rocket Fizz Mud Pie er frá fyrirtækinu Rocket Fizz  sem selur allskonar gos og nammi í fransæsum út um hluta Bandaríkjanna. Boðið er upp á allskonar rugl, beikon gos og ranch dressing gos sem dæmi. Þetta er væntanlega eins óhollt og hugsast getur og uppfullt af torkennilegum bragðefnum. Mud Pie er einhvers konar sætt súkkulaði pæ og þessi drykkur smakkaðist næstum eins og útþynnt hlyns-sírop. Jafnvel má segja að þetta hafi farið yfir strikið í sætheitum. Ekki það ég hafi ekki klárað flöskuna. Gef þessu 3 stjörnur.

Moxie er ævagamalt gos og ættir að rekja til Maine, USA. Þetta las ég á wiki. Samkvæmt sömu heimild er orðið Moxie orðið að slangi yfir  hugrekki og kraft, svona eitthvað „Það vantar allt Malt í þig“ dæmi. Ég smakkað orginal Moxíið og fannst lítið til koma (sjá gömlu gossíðuna) en auðvitað eru framleidd hin ýmsu afbrigði, m.a. Moxie Blue Cream. Það smakkast sannast sagna ansi guðdómlega, eins og rjómalegið blátt Póló, dísætt og unaðslegt. Fjórar stjörnur! Eftir því sem ég kemst næst er Moxie nú framleitt af Real Soda, sem mér er algjört retro-dæmi.

Chicago Root beer kemur að öllum líkindum frá Chicago og er frábær rótarbjór. Rjómaður og með sterku karamellubragði. Algjört gúmmilað upp á 4 stjörnur.

2013-11-19 15.09.49
Duthers Black Cow Vanilla Creme Root Beer eða bara Black Cow Root Beer ætti skv. nafninu að vera eitthvað sem ég fíla. Því voru vonbrigðin nokkur því þetta var flatt, bragðlítið og óspennandi. Framleiðslan fór fram í Oglesby í Illinois. Get ómögulega gefið þessu nema 2 stjörnur.

Annar miðlungsrótarbjór er Triple XXX Root Beer, sem framleiddur er í Lafayette, Indiana. Algjörlega sérkennalaus en svo sem alveg drekkandi. 2 stjörnur.

Þriðji rótarbjórinn á myndinni er Jackson Hole Buckin’ root beer. Um hann var ég búinn að skrifa á gömlu gossíðunni og gaf þá 3 stjörnur. Núna hefði ég bara gefið þessu 2. Eru bragðlaukar mínir tómt rugl?

3xrbs
Dang! That’s good! Root beer er frá Milwaukee, Wisconsin og smakkast gríðarlega normal, eins og einhver algjör miðjumoðsdrykkur. Algjört meðaltal með 2 stjörnur.

Það sama má segja um III Dachshunds old fashioned root beer frá Oak Creek, Wisconsin, mikið miðjumoð (2 stjörnur). Það eina sem er öðruvísi er að á labelmiða er smá fróðleikur um langhundana sem drykkurinn er nefndur eftir (aka pulsuhundinn).

Killebrew frá Ramsey í Minnesota er rótarbjórnum það sem Bjarni Benediktsson er stjórnmálunum, ekki geðveikur en ber með sér fnæsandi traust, eins og blakkur veðhlaupahestur. Nei nú er ég alveg búinn að gleyma því sem ég ætlaði að segja. Nokkuð góður drykkur bara og 3 stjörnur.

2014-02-06 18.19.14
Hann Jón Sullenberger er alltaf á gostánum í bestu búðinni Kosti og flutti inn á dögunum nýjan gosdrykk sem heitir Iron Beer, sem á sér mikla sögu. Nafnið „Járn bjór“ segir ekkert til um bragðið, sem er hálfpartinn eins og kók blandað með appelsíni og karamellum. Frekar skrýtið, en venst fljótt og þú verður húkkt. Þrjár stjörnur á kvikendið.

Kung Fu Blue

13 Feb


Hér er videóið við Kung Fu Blue, ensku útgáfuna af Lögum unga fólsins. Óskiljanlegt að þetta hafi ekki komið Unun í hæstu hæðir popp-metorðastigans. Því miður er þetta skert útgáfa úr þætti á MTV, ég finn ekki orginalinn. Enn á ný vinn ég leiksigur. Ég man að sjálfssögðu ekkert eftir þessu annað en það að þetta var tekið á Prikinu og Reynir Lyngdal er hugsanlega leikstjóri verksins. 

Ást í viðlögum

12 Feb


Hér er myndbandið við lagið Ást í viðlögum. Þetta var fyrsta lagið á plötunni æ með Unun, sem kom út 1994, eða fyrir tuttugu árum. Í því tilefni ætlar Unun að kombakka lítilsháttar, byrjar í kombakki á Eistnaflugi 12. júlí næst komandi. Ég samdi þetta lag. Textinn kviknaði þegar ég gekk einu sinni óvart inn á Rauða krossnámskeið og sá mann sýna nemendunum tæknina með því að kyssa svona dúkku. 

Leikstjóri myndbandsins er Jóhann Sigmarsson. Tökur fóru fram í Laugarásbíói yfir nótt. Þór Eldon nennti ekki að mæta svo það er lúkkalæk sem leikur hann. Meirhluti næturinnar fór í að leggja hágæða lestarteina um allt bíó sem átti að nota til að ná metnaðarfullum skotum. Svo voru þessi teinar ekkert notaðir. Þegar Jóhann skilaði myndbandinu furðuðum við okkur á því að lagið hættir í miðjum klíðum. Aðpsurður afhverju þetta væri svona sagði Jóhann að „myndbönd væru hvort sem er aldrei sýnd í heilu lagi“. Við launuðum Jóhanni með því að semja lagið „Ég hata þig“ fyrir mynd hans Ein stór fjölskylda. Það var stysta lagið með Unun.

Á morgun kemur svo enn einn leiksigur í myndbandinu „Kung Fu Blue“ (aka „Lög unga fólsins“).

Er Bubbi Morthens (löggiltur) hálfviti?

7 Feb

bubbi1980
Svo þessari smellamellulegu fyrirsögn sé svarað strax: Nei, Bubbi Morthens er langt í frá (löggiltur) hálfviti. Hann er einn af mestu listamönnum þjóðarinnar og það er aðdáunarvert hvernig hann segir alltaf það sem honum býr í brjósti. Hann er alltaf hreinn og beinn.

Vitleysingum hefur þó alltaf þótt gaman að reyna að klekkja á Bubba, enda er hann fyrirferðarmikill og margslunginn karakter sem hefur farið svo marga hringi að hægt er að fá aðsvif yfir því. Ég meina, maðurinn sem söng hið frábæra Rækjuraggí fyrir 34 árum að halda tónleika með erkióvininum Bó? Einhverjum gæti fundist það merki um snúning, sem það vissulega er, en auðvitað og sem betur fer þroskast og breytast menn í áranna rás, nema kannski einhverjir þverhausar sem eru alltaf jafn vitlausir. Bubbi að skjóta á Bó í gamla daga var eitthvað sem lá í loftinu, enda Bubbi að sparka niður fyrri kynslóð poppara til að byggja upp það sem síðar þróaðist í Sykurmolana og það allt. En Bó er fræðimaður í rokki og poppi og bara algjörlega upplagt að þessir tveir fræðimenn og meistarar haldi tónleika saman í dag. 

Áður fyrr vildi annar hver vitleysingur berja Bubba á böllum því hann var svo kúl og töff og gat gert usla í lókal hænsnakofanum, en nú er Bubbavarnarherinn kominn á netið og reynir að fiska fæting með því að kalla Bubba vitleysing og vindhana og svo framvegis og benda á að hann hafi svikið málstað farandverkafólks og sé orðinn góðvinur vondu ríku karlanna og eitthvað svona. Ég held maður hafi fylgst með þessu á netinu í svona 10 ár eða eitthvað, svo þetta er orðið ansi þreytt og bitlaust. Bubbi’s gotta do what Bubbi’s gotta do, ok? 

Bubbi hefur dáldið komið sér í þá stöðu að vera plaggatdrengur gamla tímans í plötuútgáfumálum. Hann reifst við pírata hjá Gísla Marteini og svo er hann í þessu viðtali við Jakob Bjarnar á Vísi. Það er rétt hjá Bubba að tími plötuútgáfu – eins og hún hefur verið sl. 60 ár eða svo – er að líða undir lok, en tímar góðrar tónlistar eru langt því frá að líða undir lok. Fólk vill enn góða tónlist eins og það vill góðar bíómyndir, gott sjónvarpsefni o.s.frv. Það er bara formatið sem er að breytast og þróast. Eins og alltaf er það hið þægilegasta sem mun sigra heiminn.

Geisladiskar í dag eru álíka eftirsóknarverðir og VHS spólur. Þetta er gömul úrelt tækni sem fólk vill ekki. Helstu pælarar eru komnir aftur í vinýl-plötur, en streymi er þægilegasta formatið og Spotify til dæmis er frábært fyrirbæri. Ég borga mína premium áskrift og hlusta á það sem ég vil. Til dæmis 45 rpm með Utangarðsmönnum akkúrat núna, enda er Bubbi í hrönnum á Spotify. Hefur væntanlega verið settur þangað inn af útgáfu- og rétthafanum Senu. „Spotify skilar engum tekjum til mín né nokkurs íslensks tónlistarmanns,“ segir Bubbi og það er súrt. Er hægt að gera eitthvað í því? Geisladiskasala mun aldrei aftur verða eins og fyrir 20 árum, svo það gagnast lítið að berja hausnum við þann stein. 

Það eru sem sé miklir óvissu- og umbrotatímar. Ekki bara í útgáfu á tónlist heldur í sjónvarpi líka. Afhverju ætti ég að borga áskrift að heilli sjónvarpsstöð ef ég get borgað fyrir þá þætti sem mig langar að sjá á Voddinu eða Netflix? Nú eða gerst samviskulaus þjófur og notað Deildu (sem ég geri auðvitað aldrei)?

Ég veit ekki hvernig þetta þróast en það er samt á hreinu að gott stöff mun halda áfram að verða til og það sem er þægilegast mun sigra heiminn.

ps. Hin stórkostlega mynd af Bubba hér að ofan er tekin í Kópavogsbíói 1980 af vini mínum trommaranum Birgi Baldurssyni.

Biggest loser got talent

7 Feb

Hef séð tvo þætti af Biggest Loser Ísland, en veit ekki hvort ég þoli meira því á köflum er  bara of óþægilegt að horfa á þetta. Allt eftir föstum skorðum fransæsins, hratt klippt og æsandi áhrifatónlist undir þegar fólkið vigtar sig (það finnst krökkunum skemmtilegast, spennan). Þetta er bara eitthvað svo ógeðfellt, að liggja sjálfur vel í holdum að úða í sig poppi og súkkulaði og sjá þjakaða offitusjúklinga „í bata“ hlussast áfram með gjammandi tálguð vöðvabúnt yfir sér. Steininn tók úr þegar fólkið fór að gráta yfir bréfum ættingja, sem voru lesin upp með leikrænum tilþrifum. Maður er ekki vanur að sjá landa sína gráta í sjónvarpinu svo þetta var gríðarlega óþægilegt. Hörkuspenna er þó að vita hvernig fólkið lítur út í þáttarlok enda er þyngdartap helsta skemmtiefni þessa fáránlega samtíma. Það er nánast ekki talað um annað, allstaðar, alltaf, en mat og offitu. Eru það kannski við sem erum illahöldnu kjúklingarnir í sláturhúsi vitundarinnar?

(Of djúpt?)

Á meðan Skjár einn gerir offitusjúklinga að fjárþúfu níðist dómnefnd á börnum og andlega tæpum í Ísland „got talent“ – Auddi Blö segir  „Já, nú skulum við fara og sjá hvort Ísland got talent“ eins og ekkert sé sjálfssagðara. Babú babú, einhver nái í Eið! Þátturinn er annað fransæs, og líka hraður og æsandi og allt æst upp með áhrifahljóðum. Hægt er að búa til æsispennu úr nánast engu. Þeir vita hvað þeir eru að gera, útlendingarnir sem fundu þetta upp. Enda krakkarnir mínir alveg óðir í þetta (Dagbjartur er enn að spurja hvenær Wipe Out Ísland byrjar aftur). Ég vildi kannski sjálfur vera að horfa á fræðslumynd um Páskaeyju á BBC, en maður gerir allt fyrir krakkana sína og á að gera það. Spurning samt að láta Biggest loser þáttinn feida út úr minninu – æ nei, ég verð að  vita hvernig þetta endar og eru ekki einhver verðlaun? Það er allavega 10 millur í verðlaun í Ísland „got talent“. Hann vinnur örugglega þarna dimmraddaði söngvarinn frá Dalvík.

Þannig að: Fínir þættir báðir tveir! (Þannig) Krakkarnir eru þó á einu máli um að Ísland sé betri en lúser.

Jarðálfar í kröppum dansi

6 Feb

Bengt-Grete-Dragoer 001
Bókaútgáfan Björk á Selfossi hefur gefið út „Skemmtilegu smábarnabækurnar“  frá því á fimmta áratugnum. Dönsku systkinin Bengt og Grete Janus Nielsen (1921-1988 og 1915-2002) eiga heiðurinn af tveim bestu bókunum, Stubb og Láka. Stubb gerðu þau saman, en Láka skrifaði Grete með eiginmanni sínum, listmálaranum Mogens Hertz.

d6ae53b49c95427596a70356741444341587343
Stubbur (upphaflega: Strit) er frábært listaverk og sagan greipt í huga minn. Þetta er bestseller Bjarkar, bókin hefur verið prentuð 10 sinnum frá 1947. 

Láki er um margt furðuleg bók. Hún segir af illa jarðálfinum Láka sem yfirgefur foreldra sína til að hrella danska vísitölufjölskyldu. Margar spurningar vakna við lestur sögunnar.

lakiundirsofa
1. Láki setur púður í pípu pabbans svo hún springur. Láki liggur undir sófa og sést greinilega en samt gerir pabbinn ekkert í málunum. Er pabbinn blindur eða svona rosalega meðvirkur?

lakikukaristromp
2. Láki sprautar vatni á bréfberann. Bréfberinn æðir í vitlausa átt og sér ekki Láka á strompinum. Er hann líka blindur eða meðvirkur? Og hvað er Láki að gera – kúka í strompinn? Hann er allavega þannig á svipinn.

lakiljosh
3. Að lokum, eftir 721 skammarstrik, prófar Láki að gera góðverk og finnur strax að það er málið. Þá breytist hann í ljóshærðan vísitöludreng og fær Ikea húsgögn og nýja fjölskyldu. Stóra spurningin er: Hvernig líður foreldrum Láka, þeim Snjáka og Snjáku, með þetta? Eru þau ekki alveg í losti eða er þeim kannski alveg sama af því að þau eru samviskulaus illmenni? Hefur ekki hjálparsveit  jarðálfa leitað dögum saman að Láka með óhemju kosnaði fyrir samfélag jarðálfa?
herserdusnjaka
Bæði Bengt og Grete áttu frekari afrek fyrir höndum eftir Stubb og Láka. Bengt skrifaði t.d. Kim bækurnar en Grete varð sálfræðingur og skrifaði margar fleiri barnabækur. Hún erfði réttinn af Kim-bókunum eftir dauða bróður síns, sem var barnlaus. Nokkur  spenna var í sambandi systkinina síðustu árin, líklega vegna þessara réttindamála.

Vélmenni á Akranesi

2 Feb

1604686_10201730206597097_706619759_n
Frábær Antíkmarkaður er á Akranesi, í bílskúrnum að Heiðarbraut 33. Opið í dag á milli 13-17. Heimsótt í gær. Við keyptum rauðan lampaskerm í eldhúsið, keramík-blómavasa og ég keypti 50 smáskífu-rekka á 200 kr. Það eru mjög hagstæð verð og rosalega mikið til. Langbesti svona heimahúss flóamarkaður sem ég hef komið í. Okkur var boðið inn til að skoða eintakt safn leikfangaróbóta frá 1950-1980. Einhver 500 stykki. Því miður var fingrafar á linsunni þegar ég tók þessa mynd:
velmenniaakranesi

Fríða frænka verður kaffihús

1 Feb

Hin frábæra antíkverslun Fríða frænka hættir starfssemi í byrjun apríl. Í staðinn opnar kaffihús í þessu gamla húsi við Vesturgötu 3. Sá sami og nú rekur kaffihúsið Stofuna á Ingólfstorgi mun reka nýja kaffihúsið.

Fríða frænka hóf antík-starfssemi í húsinu í apríl 1981 og því verður búðin 33 ára þegar hún hættir. Ég man vel eftir sjónvarpsauglýsingu búðarinnar frá fyrstu árum hennar því slagorðið var mjög pönkað og gott: „Gamalt drasl á okurverði!“

Nú er 30% „útrýmingarafsláttur“ á öllu í Fríðu frænku.  Ég reyni að standa mig í stykkinu sem listaverkasafnari og gerði mjög góð kaup:

freym
Lituð ljósmynd af Ólafsfirði eftir Freymóð Jónsson, aka 12. september, listamann, lagahöfund og bindindismann. Listaverksafn mitt einkennist að nokkru af svokölluðum naive málurum, en einnig „sérhæfi“ ég mig í verkum poppara og Freymóður fellur í þann hóp. Meðal annarra poppara sem ég á verk eftir má nefna Megas og Gylfa Ægisson. Og vantar þá bara Rúnar Þór upp á til að eiga GRM komplett. Myndina eftir Freymóð fékk ég á 700 kr.

dynjandisfoss
Þessi sækadelíska mynd af Dynjandisfossi í Dynjandisá er eftir „B. Þorlákss“. Fékk hana á 3.500 kr. Hef ekki hugmynd um hver „B. Þorkákss“ er, en það er væntanlega einhver minni spámaður en sá frægi Þórarinn B. Þorláksson. Gaman væri að vita ef einhver veit hver „B. Þorlákss“ er!

thingv
Nú hafa verk „naivista“ verið í tísku sl. ár. Næsta tískufaraldur tel ég vera „kitsch“ málverk svokallaðra frístundamálara/alþýðumálara sem máluðu aðallega íslenskt landslag. Myndir þeirra þóttu góðar tækifærisgjafir á síðustu öld og hanga eflaust uppi víða. Ég er ekkert sérlega vel að mér í þessum kitsh meisturum en þeir bera sumir viðurnefni eins og „blankalogn“ og „metramálari“ af því það er alltaf logn í myndunum þeirra eða þeir máluðu myndir í „metratali“.

Helsti meistarinn í þessum bransa er Jóhannes Frímannsson, sem merkti myndirnar sínar einfaldlega “Jóhannes”. Ég á eina gullfallega mynd af Herðubreið eftir Jóhannes og keypti þessa af Þingvöllum í Fríðu sem innflutningsgjöf fyrir vini. Þess vegna gef ég ekki upp verðið en það var hagstætt. Þess má geta að það eru svona 6-8 myndir eftir Jóhannes til í Fríðu frænku núna, bæði málaðar á plötu og striga – frábær fjárfesting til framtíðar, segi ég.
joh-herd
Ég veit eiginlega ekkert um Jóhannes og hef ekkert fundið um hann á netinu nema eitt svar við Spurningu dagsins. Ég væri til í að heyra eitthvað um hann ef einhver veit eitthvað – og eins um aðra í sömdu deild. Hér er költ í uppsiglingu!
945838_10201618891901024_1777004889_n