Ég á alltaf von á góðu þegar Bryan Riebeek mætir á Airwaves því hann kemur með svo mikið af rótarbjór handa mér. Nú er ég búinn að drekka gosið frá því hann kom síðast og birti eftirfarandi niðurstöður:
Rocket Fizz Mud Pie er frá fyrirtækinu Rocket Fizz sem selur allskonar gos og nammi í fransæsum út um hluta Bandaríkjanna. Boðið er upp á allskonar rugl, beikon gos og ranch dressing gos sem dæmi. Þetta er væntanlega eins óhollt og hugsast getur og uppfullt af torkennilegum bragðefnum. Mud Pie er einhvers konar sætt súkkulaði pæ og þessi drykkur smakkaðist næstum eins og útþynnt hlyns-sírop. Jafnvel má segja að þetta hafi farið yfir strikið í sætheitum. Ekki það ég hafi ekki klárað flöskuna. Gef þessu 3 stjörnur.
Moxie er ævagamalt gos og ættir að rekja til Maine, USA. Þetta las ég á wiki. Samkvæmt sömu heimild er orðið Moxie orðið að slangi yfir hugrekki og kraft, svona eitthvað „Það vantar allt Malt í þig“ dæmi. Ég smakkað orginal Moxíið og fannst lítið til koma (sjá gömlu gossíðuna) en auðvitað eru framleidd hin ýmsu afbrigði, m.a. Moxie Blue Cream. Það smakkast sannast sagna ansi guðdómlega, eins og rjómalegið blátt Póló, dísætt og unaðslegt. Fjórar stjörnur! Eftir því sem ég kemst næst er Moxie nú framleitt af Real Soda, sem mér er algjört retro-dæmi.
Chicago Root beer kemur að öllum líkindum frá Chicago og er frábær rótarbjór. Rjómaður og með sterku karamellubragði. Algjört gúmmilað upp á 4 stjörnur.
Duthers Black Cow Vanilla Creme Root Beer eða bara Black Cow Root Beer ætti skv. nafninu að vera eitthvað sem ég fíla. Því voru vonbrigðin nokkur því þetta var flatt, bragðlítið og óspennandi. Framleiðslan fór fram í Oglesby í Illinois. Get ómögulega gefið þessu nema 2 stjörnur.
Annar miðlungsrótarbjór er Triple XXX Root Beer, sem framleiddur er í Lafayette, Indiana. Algjörlega sérkennalaus en svo sem alveg drekkandi. 2 stjörnur.
Þriðji rótarbjórinn á myndinni er Jackson Hole Buckin’ root beer. Um hann var ég búinn að skrifa á gömlu gossíðunni og gaf þá 3 stjörnur. Núna hefði ég bara gefið þessu 2. Eru bragðlaukar mínir tómt rugl?
Dang! That’s good! Root beer er frá Milwaukee, Wisconsin og smakkast gríðarlega normal, eins og einhver algjör miðjumoðsdrykkur. Algjört meðaltal með 2 stjörnur.
Það sama má segja um III Dachshunds old fashioned root beer frá Oak Creek, Wisconsin, mikið miðjumoð (2 stjörnur). Það eina sem er öðruvísi er að á labelmiða er smá fróðleikur um langhundana sem drykkurinn er nefndur eftir (aka pulsuhundinn).
Killebrew frá Ramsey í Minnesota er rótarbjórnum það sem Bjarni Benediktsson er stjórnmálunum, ekki geðveikur en ber með sér fnæsandi traust, eins og blakkur veðhlaupahestur. Nei nú er ég alveg búinn að gleyma því sem ég ætlaði að segja. Nokkuð góður drykkur bara og 3 stjörnur.
Hann Jón Sullenberger er alltaf á gostánum í bestu búðinni Kosti og flutti inn á dögunum nýjan gosdrykk sem heitir Iron Beer, sem á sér mikla sögu. Nafnið „Járn bjór“ segir ekkert til um bragðið, sem er hálfpartinn eins og kók blandað með appelsíni og karamellum. Frekar skrýtið, en venst fljótt og þú verður húkkt. Þrjár stjörnur á kvikendið.