Sarpur | júlí, 2017

Bjarni Fel og Brian Jones í lyftu

30 Júl

A-5777852-1495533764-6509.png f5d80bb68e09261f652419dd589638c5
Hitti tvö legend í heita potti Vesturbæjarlaugar áðan, Mr. Fel og Mr. Jójó. Götulistamaðurinn Jójó, sem “kann ekki á tölvu”, sagðist hafa heyrt af FB-spurningu minni um fræga á flugvöllum, og einhver sem hann þekkir sagðist ekki hafa þorað að setja inn að hann hefði séð David Bowie og Iman saman í lögreglufylgd nýgift á Schiphol.

Næst kom sagan af Bruce á Strikinu með ýmsu fróðlegu ítarefni. Bjarni var slakur á meðan en kom svo með með Olav Palme, sem sinn frægasta. Stórgóð saga í miðju Þorskastríði. Menn slökuðu og dæstu og lauguðu vambirnar í sólinni. Þetta var eldsnemma og ekkert bögg af túristum og fjölskyldufólki.

Endurnærður eftir slökun í 2 mínútur tók Bjarni nú til við að greina frá tengslum KR og Liverpool FC. Þar ytra er því mikið haldið til haga að fyrsti Evrópuleikur Liverpool hafi verið á móti KR – “It all started in Reykjavík” er upp um alla veggi í Liverpool höllinni. “Við stóðum í þeim”, sagði Bjarni, eða 1-11 (0-5 / 6-1) samanlagt úr tveimur leikjum, skv. Wikipedia. Fyrir seinni leikinn 14. Sept 1964 flaug KR-liðið til Liverpool og gisti á flottasta hóteli borgarinnar, Adelphi. Hotel Adelphi er sögufrægt pleis, mamma John Lennon starfaði m.a. þar sem gengilbeina. Svo virðist sem KR-hópurinn hafi verið einu gestirnir, auk Harolds Wilsonar, sem þarna var ekki orðinn forsætisráðherra Englands, og lubbalegrar hljómsveitar, sem enn var að stíga sín fyrstu spor, The Rolling Stones. Allra fyrsta LP-platan var reyndar komin út um vorið og hittarar sumarsins voru It’s All Over Now og Time is on my Side, Svo hafði bandið farið til USA í fyrsta skipti í kjölfar Bítlanna fyrr um sumarið. Það var þó svo mikill hiti kominn undir Rollinga að æpandi hjörð vaktaði Adelphi.

“Heimir markvörður rak nú einu sinni út hausinn og hristi,” sagði Bjarni Fel í pottinum áðan, “en var beðinn um að gera það ekki aftur eftir að ein stelpan, sem klifrað hafði upp rennu á hótelinu, datt og meiddi sig.”

En Rollingarnir, hvernig voru þeir?

“Tja, Mick Jagger var nú einna hressastur, át með okkur og vildi endilega gefa okkur áritaðar myndir af sjálfum sér. Ég bað hann blessaðan að hætta að bjóða mér mynd, hafði ekki áhuga, en þú getur getur rétt ímyndað þér skelfingarsvipinn sem kom á unglingana heima þegar þeir fréttu af þessu.”

Já þetta væri 200þ á Ebay í dag, þessi mynd, hefðirðu fengið hana. En hinir Stónsararnir?

“Maður var nú lítið var við þá, nema einu sinni var ég með Brian Jones í lyftunni, bara við tveir – manni stóð ekki alveg á sama og sá strax að hann var þarna þá þegar ekki alveg á meðal vor.”

Nú?

“Já, hann var bara… Allur einhvern veginn… syndandi…”

(Þetta blogg er fakt-tékkað: Liverpool – KR var 14. Sept 1964, The Rolling Stones spiluðu í The Liverpool Empire Theatre 13. Sept. 1964)

Breytingar og byltingar

16 Júl

costco
Costco kvöldverður var á boðstólum í gærkvöldi. Ágætis ódýrt sushi, stórfínn kjúklingur (sem smakkast helst eins og kalkúnninn sem hefur hingað til bara verið hátíðarmatur, og kostaði það sama og pínulítill sveittur og ofsteiktur kjúklingur í Melabúðinni), og sticky pudding í eftirrétt. Vá, bara, vá. Costco-sticky pudding (sirka 1þ fyrir tvo – einn nægði vel f/4, hinn fór í frystinn) er algjörlega unaðslegur, alveg á pari við það besta sem maður hefur fengið á veitingahúsum erlendis. Ég var sendur í Hagkaup, Eiðistorgi, til að sækja vanillu-ís til að hafa með. Sá þar kirsuberjadollur og kippti einni með, enda verðið fínt, 469 fyrir 500g. Berin litu bara vel út sýndist mér, dökkrauð og stökk, en ég var svo sem ekkert að gegnumlýsa dolluna.

En auðvitað, þegar átti að éta berin og ég beit í fyrsta berið kom gamla einokuninn og viðbjóðurinn yfir mig af fullum þunga. Berið var ónýtt – suddalega ógeðslegt, grautlint og andstyggilegt – og ég spýtti því út úr mér. Ég setti upp lesgleraugun og sá sull í botninum og að allavega 3 ber voru komin með gráan myglublett.

Í staðinn fyrir að leggja á mig ferð til að tala við ung kassagrey og fá sennilega á endanum endurgreitt ákvað ég að skrifa þetta. Það breytir kannski einhverju hjá gömlu myglukaupmönnunum, en ég stórefast um það. Breytingar þurfa meira en nokkur úldin kirsuber til að eiga sér stað. Byltingar þurfa hinsvegar Costco.

Lífsgæði

14 Júl

Helstu kostir þess að búa á Íslandi tengjast vatni. Sundlaugarnar eru snilld og hitaveitan. Að fá kalt vatn úr krönum, sem er jafn gott og hreint og okkar, eru gæði sem fáir í heiminum í dag eiga kost á. Fátt er því sorglegra en túristi að kaupa kippu af 2L vatnsflöskum.

Vatn kólnar mishratt í húsum, eða jafnvel á milli vaska. Hjá mér er t.d. miklu hraðar að kólna á baðinu en í eldhúsinu. Ég veit ekki um þig, en ég vil hafa vatnið eins kalt og hægt er.

Þetta gætu fasteignasalar nýtt sér þegar auglýsa á íbúð til sölu. Til dæmis:

Baðherbergið er með sturtu. Búið er að endurnýja blöndunartæki í sturtu og vaski. Vaskur og vaskaskápur er nýlegt.
Vatn er ískalt strax og skrúfað er fyrir. Ferskt og gott og algjörlega saurgerlalaust.

Þessi lífsgæði hefðu að sjálfssögðu áhrif á íbúðarverðið.

Neytendamál

12 Júl

Vegna fjölda áskorana (tveggja) gefst ég upp á að hætta að blogga. 

Ég var einu sinni neytendafrömuður og fékk m.a.s. verðlaun frá Björgvini G. (leir-egg og 300þ). Okursíðan var „barn síns tíma“ og ég lagði hana niður því það var of tímafrekt að halda henni úti. Nokkrar síður á Facebook hafa tekið við og er Costco-grúppan þeirra frægust. Tilkoma Costco hefur aukið til muna áhuga (eða a.m.k. sýnileika) áhuga fólks á neytendamálum, verðsamanburði, o.s.frv.

Önnur skemmtileg FB-síða (en kannski ekki eins gagnleg) er Sögur af tollinum. Íslenski tollurinn er algjör skandall. Hér er maður böggaður yfir allskonar tittlingaskít ef maður kaupir eitthvað frá útlöndum, eða fær sendar gjafir. Þarf að sýna nótur og standa í hössli svo ríkið fái sinn vask, toll og gjöld. Segjum, kassetta sem kostaði þúsund kall kostar nú 2000 kall. Ég hef hvergi heyrt um annað eins rugl annars staðar í heiminum. Það hefur verið talað um að breyta þessu árum saman, að starfsmenn séu ekki að standa í þessu fyrir sendingar undir 15 þúsund kalli eða svo, en þetta er allt við það sama. Alveg séríslenskur fávitaháttur og blöðruskapur að ekkert gerist í þessum málum.

Þar að auki virðist algjört slembiúrtak ráða því hvaða pakkar eru teknir í meðferð. Einn daginn er það kasetta á þúsund kall í bögg, þann næsta tíu plötur frítt heim að dyrum.

Einu sinni átti svo að gera mig að formanni Strætó (eða hvað starfsheitið var). Það fór eins og það fór. Í sumar hef ég tekið strætó eftir vinnu heim til mín (leið 12). Tímatöflur standast aldrei, eða nánast aldrei. Einn föstudaginn beið ég í 50 mín á Hverfisgötu þegar ættu að hafa komið 3 tólfur. Engin kom. Ég gafst upp og tók leið 11. Það vantar sárlega svona „costco-grúppu“ fyrir þjónustu strætós. Ég nenni ekki að stofna hana.

Ég veit ekkert hver er „vondi kallinn“ í þessu Ólafur vs. Neytendasamtökin dæmi. Veit bara að ég hef aldrei séð pointið í því að vera meðlimur í þessum samtökum.

Nennekki

10 Júl

Nennekki (held ég) að blogga meira. Ég get alveg sagt það sem ég þarf að segja á Facebook. Takk fyrir.