Hitti tvö legend í heita potti Vesturbæjarlaugar áðan, Mr. Fel og Mr. Jójó. Götulistamaðurinn Jójó, sem “kann ekki á tölvu”, sagðist hafa heyrt af FB-spurningu minni um fræga á flugvöllum, og einhver sem hann þekkir sagðist ekki hafa þorað að setja inn að hann hefði séð David Bowie og Iman saman í lögreglufylgd nýgift á Schiphol.
Næst kom sagan af Bruce á Strikinu með ýmsu fróðlegu ítarefni. Bjarni var slakur á meðan en kom svo með með Olav Palme, sem sinn frægasta. Stórgóð saga í miðju Þorskastríði. Menn slökuðu og dæstu og lauguðu vambirnar í sólinni. Þetta var eldsnemma og ekkert bögg af túristum og fjölskyldufólki.
Endurnærður eftir slökun í 2 mínútur tók Bjarni nú til við að greina frá tengslum KR og Liverpool FC. Þar ytra er því mikið haldið til haga að fyrsti Evrópuleikur Liverpool hafi verið á móti KR – “It all started in Reykjavík” er upp um alla veggi í Liverpool höllinni. “Við stóðum í þeim”, sagði Bjarni, eða 1-11 (0-5 / 6-1) samanlagt úr tveimur leikjum, skv. Wikipedia. Fyrir seinni leikinn 14. Sept 1964 flaug KR-liðið til Liverpool og gisti á flottasta hóteli borgarinnar, Adelphi. Hotel Adelphi er sögufrægt pleis, mamma John Lennon starfaði m.a. þar sem gengilbeina. Svo virðist sem KR-hópurinn hafi verið einu gestirnir, auk Harolds Wilsonar, sem þarna var ekki orðinn forsætisráðherra Englands, og lubbalegrar hljómsveitar, sem enn var að stíga sín fyrstu spor, The Rolling Stones. Allra fyrsta LP-platan var reyndar komin út um vorið og hittarar sumarsins voru It’s All Over Now og Time is on my Side, Svo hafði bandið farið til USA í fyrsta skipti í kjölfar Bítlanna fyrr um sumarið. Það var þó svo mikill hiti kominn undir Rollinga að æpandi hjörð vaktaði Adelphi.
“Heimir markvörður rak nú einu sinni út hausinn og hristi,” sagði Bjarni Fel í pottinum áðan, “en var beðinn um að gera það ekki aftur eftir að ein stelpan, sem klifrað hafði upp rennu á hótelinu, datt og meiddi sig.”
En Rollingarnir, hvernig voru þeir?
“Tja, Mick Jagger var nú einna hressastur, át með okkur og vildi endilega gefa okkur áritaðar myndir af sjálfum sér. Ég bað hann blessaðan að hætta að bjóða mér mynd, hafði ekki áhuga, en þú getur getur rétt ímyndað þér skelfingarsvipinn sem kom á unglingana heima þegar þeir fréttu af þessu.”
Já þetta væri 200þ á Ebay í dag, þessi mynd, hefðirðu fengið hana. En hinir Stónsararnir?
“Maður var nú lítið var við þá, nema einu sinni var ég með Brian Jones í lyftunni, bara við tveir – manni stóð ekki alveg á sama og sá strax að hann var þarna þá þegar ekki alveg á meðal vor.”
Nú?
“Já, hann var bara… Allur einhvern veginn… syndandi…”
(Þetta blogg er fakt-tékkað: Liverpool – KR var 14. Sept 1964, The Rolling Stones spiluðu í The Liverpool Empire Theatre 13. Sept. 1964)