Sarpur | janúar, 2014

Skemmtisaga af tollinum

31 Jan

12-130
Horrorgrein Helga Þorgils af viðskiptum sínum við DHL/Tollinn hefur verið gríðalega mikið lesin í dag og það eru margir sem hafa bráðskemmtilegar sorgarsögur að segja af Tollinum. Einu sinni voru tollverðirnir í brúnum sloppum (Stasi-legt) og svo þurfti maður að horfa á þá gramsa í pökkunum manns. Maður var kannski að skiptast á einhverjum pönk-kassettum við eitthvað lið í útlöndum og þurfti að standa í veseni og fjárútlátum út af þessu. Engin furða að niðurhal er vinsælt hér á landi hafta og geðveiki.

Einu sinni var ég að flækjast um netið og keypti nauðaómerkileg Elvis-gleraugu á Elvis.com. Hef eflaust talið mig lúkka jafn kúl og kóngurinn með svona gleraugu. Gleraugun kostuðu ekki nema 1000 kall. Leið nú og beið en loks kom bréf frá DHL. Hafði þá ekki helvítis pakkið á Elvis.com sent helvítis gleraugun í rándýrri DHL sendingu og svo voru gleraugun MEÐ sendingarkostnaði tolluð og vöskuð í bak og fyrir. Ég endaði með að borga 10.000 kall fyrir þessi ómerkileg plastsólgleraugu. 

Rothöggið var svo í Kolaportinu degi síðar þegar ég sá alveg eins gleraugu á 1000 kall!

Töff kaggi #10

31 Jan

Chevrolet Chevy Van 20 á Ægissíðunni. Megatöff svona kringlóttir gluggar.
2014-01-29 14.31.53
2014-01-29 14.32.08
2014-01-29 14.32.24

Helgi og tollsturlunin

31 Jan

Íslenskt tollalöggjöf er sturluð. Þar er leitast við að tolla og skattleggja hvaða snifsi sem eyjaskeggjum berst í pósti frá hinum vafasama og sóttargrasserandi umheimi. Það er stundum talað um að það eigi að liðka eitthvað til á þessum vettvangi en ég veit ekki hver staðan er. Myndlistamaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson fékk bók frá vini sínum og lenti í toll-stappi við DHL. Þetta er án efa það besta í blöðunum í dag og endurbirt hér því greinin birtist í Mogganum og það undergránd blað sér nánast enginn.
helgi-toll

Með móral yfir kjúklingi

30 Jan

718bfab59577c61317cbbc4aa9d8cd8c
Það er vandlifað í fyrsta heiminum og alltaf eitthvað nýtt til að hafa móral yfir. Fyrir hrun var ekki þverfótað fyrir kolefnisjöfnun. Það var nýja friðþægingar-lausnarorðið og tryggði góða samvisku í helvítis óhófinu. Svakalega var enginn að spá í kolefnisjöfnun þegar hrunið skall á.

Nýjasta nýtt (eða ekkert svo nýjasta nýtt, heldur bara mikið í umræðunni um þessar mundir) er aðbúnaður dýra, þá helst þeirra dýra sem fæðast og deyja í einskonar útrýmingabúðum svína og kjúklinga. Sá sem stígur þarna inn verður ekki samur, segir fólk, og allskonar viðurstyggileg videó sveima um veraldarvefinn. Ég er bara of mikil neyslugylta (Steini Sleggja fann þetta orð upp) til að pína mig til að horfa á svona horror. Vil ekki hafa þetta í hausnum þegar ég slafra í mig fitugum KFC kjúklingabita. Svona er ég mikill viðbjóður, hreinlega á pari við barnaníðinga, skv. Morrissey, en fáir ganga lengra en hann í fordæmingu á kjötætum.

Mér blöskraði þó þegar ég horfði á Gísla Martein og konurnar í settinu töluðu um alla vansköpuðu kjúklingana sem eru teknir frá og fara beint í hökkun og enda sem kjúklingabitar, nuggets. Ég er ekkert svo viss um að ég sé að fara að graðka í mig nuggets á næstunni.

Þær töluðu líka um að einu kjúklingarnir  á landinu, sem ekki hafa gengið í gegnum helvíti á jörð, komi frá Danmörku og fáist í Fjarðarkaupum. Ég hringdi og þar sögðu þeir mér að einn svona halelúja-kjúklingur, 1.2 kg. kosti 2.898 kr. Það hlýtur að fylgja með nafn á hænunni (Mia) og mynd af henni að vappa frjáls og glöð um danskar grundir. Tja, ég er ekkert svo viss um að ég sé að fara að flengjast í Hafnarfjörð (frábær bær samt og alltaf gaman að koma þangað) fyrir þennan díl. Ætli ég lifi ekki bara í myrkrinu áfram, óforskammaður viðbjóður.

Helvítis hænur eru hvort sem er algjör fífl. En helvíti góðar á bragðið (rétt kryddaðar). 

Bylting í rakblöðum og skeinipappír?

28 Jan

Einokun er ríkjandi á rakvélamarkaðinum. Í nánast öllum verslunum landsins er eingöngu boðið upp á Gillette sköfur og blöð. Þetta er munaðarvara. Yfir fáu var meira kvartað á Okursíðunni en verðinu á þessu og jafnvel komu menn með sparnaðarráð, eins og að nudda rakblöðum við gallabuxur til að lengja líftíma þeirra. Blöðin eru höfð við kassana því það var svo mikið stolið af þessari munaðarvöru. Eini valkosturinn við Gillette eru hugsanlega Wilkinsons vörur sem fást einhvers staðar og svo var rakarastofan Herramenn í Kópavogi með einhver önnur blöð (samt ekki viss).

Sambland af hipsterisma og neytendavitund á sér nú stað í þessum geira las ég hér. Á Austurströnd Bandaríkjanna er fyrirtækið Harry’s með ódýrari græjur en Gillette veldið og á Vesturströndinni er Dollar Shave Club. Því miður sýnist mér að maður þurfi að búa í Bandaríkjunum til að geta keypt þessar vörur, en Dollar Shave Club sendir heim að dyrum innanlands. Auglýsingin þeirra er fyndin:

Dollar Shave Club láta sér ekki nægja að reyna byltingu í rakstri, þeir ætla líka að bylta því hvernig við skeinum okkur og selja hinar karlmannlegu blautþurrkur One Wipe Charlies – „buttwipes for men“. Það vita náttúrlega flestir karlar með loðin rassgöt að eina vitið við skeiningar er að nota blautþurrkur á „erfiðu blettina“. Ég mæli með Euroshopper, ódýrt, lyktarlaust og gerir sitt gagn. Hér er rassaþurrkuauglýsingin:

Charlies í lögsókn?

26 Jan


Lítið hefur heyrst frá Nælon-flokknum nýlega – eða The Charlies eins og þær kalla sig náttúrlega í dag – síðan Hello Luv kom út. Ábyggilega er þetta samt allt að koma hjá þeim. Næst á dagskrá verður kannski lögsókn því í Melbourne, Ástralíu, er önnur hljómsveit sem heitir The Charlies. Sú spilar frumsamda fönktónlist.

Nema náttúrlega að finnska hippahljómsveitin Charlies fari í mál við hinar tvær fyrst?

Og fyrst ég er að þessu rugli og Eurovision er að byrja, því ekki að kynnast aðeins Fredi & The Friends með Pump-Pump, framlagi Finna frá 1976.

Súrrealískt félagsstarf eldri borgara

24 Jan

Mogginn á bestu raðauglýsingu dagsins:
medusaelli
Er nú Medúsu-hópurinn kominn á elliheimili?

Góð plata og misgóðir drykkir

23 Jan

Ekki í fyrsta né síðasta skipti sem það er svínað á poppurum, en tíðindum sætir að um er að ræða Ágætis byrjun Sigur Rósar, plötu sem tvisvar sinnum hefur verið kosin besta plata Íslandssögunnar í viðamiklum könnunum.

atonalblus_kapumynd

Atónal Blús – Atónal Blús
Höfuðsynd er glæný plata með Atónal Blús. Þessi spretthraða níu laga tilraunaplata er hugarfóstur gítarleikarans Gests Guðnasonar, sem hefur m.a. spilað með  Númer Núll, Stórsveit Nix Noltes, 5tu Herdeildinni og Skátum. Þetta er dúndurgott stöff, oft allnokkur Captain Beefheart í þessu, eða bara allskonar: mjög fjölbreytt og krefjandi tónlistarmauk. Geysilega ráðlögð plata, hreint og beint. Hér er spjall við Gest (varúð: inniheldur hefí orð eins og „taktboða“):

Hvernig tónlist er þetta?
„Tónlistin fer frá því að vera frekar létt og melódískt acoustic popp með þjóðlagaáhrifum yfir í að vera níðþungt og rafmagnað rokk með viðkomu í eletróník. Hún sveiflast frá því að vera falleg og melódísk yfir í að vera drungaleg og ómstríð og frá því að vera hæg og epísk yfir í að vera villt og hröð. Blandað er saman dauðarokki, nútímaklassík og blús, dans og balkantónlist, klassísku rokki, raf og heimstónlist ásamt því sem platan inniheldur dreymandi hugljúfar ballöður og 80s poppmetal.
Textar eru sungnir bæði á íslensku og ensku og stundum er tungumálunum blandað saman.
Ég er að nota töluvert af ritmum sem koma úr Balkanskri þjóðlagatónlist. Taktboðar eins og 11/8 og 7/8 eru algengir í tónlist frá Balkanskaganum en heyrast annars sjaldan nema í samtímadjassi eða klassík. Balkantónlistin sem notast við þessa taktboða er hinsvegar þjóðlagatónlist með grípandi laglínum, skýr í formi og keyrð áfram af ólgandi takti. Ég hef reynt að halda í þessi einkenni hennar á plötunni. Þessir ritmar eru yfirleitt mjög hraðir í hefðbundinni Balkantónlist þannig að ég geri tilraunir með að hægja þá niður svo að þeir verða mjög „grúví“. Umgjörðin eða hljóðheimurinn er líka annar og töluvert rafmagnaðari.
Ég er líka að nota eitthvað af klassískum tónsmíðaaðferðum í bland við að semja tónlistina eftir eyranu (veiða eitthvað sem fellur eyranu í geð upp úr undirmeðvitundinni) sem er kannski algengasta nálgunin við lagasmíðar í popp/rokk/þjóðlaga stíl. Þessar aðferðir leiða til nýrra hugmynda án þess að tapa einkennum upprunalegu hugmyndarinnar. Ákveðinn heildarhljómur helst ásamt því að efniviðurinn þróast. Með þessum aðferðum nota ég einnig spuna til að auka enn á blæbrigði og fjölbreytileika. Þannig vonast ég til að tónlistin losni úr viðjum þess að vera stíf og fyrirfram ákveðin en jafnframt að hún öðlist innsæi, íhugun og auðgi þess sem hefur verið vel ígrundað. Þarna verður því einhverskonar samruni menningarheima og tímaskeiða býst ég við. Áhrif frá forneskjulegri þjóðlagatónlist færð yfir í nútímalegan hljóðheim samin með klassískum aðferðum í bland við eðlisávísun.“

Hverjir spila á hvað?
„Þorvaldur Kári Ingveldarson vil ég meina að sé óuppgvötað afl í íslenskum trommuleik. Þorleifur Gaukur Davíðsson spilar á munnhörpu en hann er einn af fáum í heiminum sem hafa á valdi sínu að spila krómatísk á díatóníska munnhörpu. Jesper Pedersen spilar á þeremín en það er hljóðfæri sem þú kemur ekki við þegar spilað er á það. Páll Ívan Pálsson og Guðjón Steinar Þorláksson spila með boga á kontrabassa og draga fram óvenjuleg „óhljóð“ úr hljóðfærinu. Ég spila á kassagítara og rafmagnsgítara en markmiðið var að láta rafmagnsgítarinn hljóma á köflum meira eins og synthesiser en gítar.“

Hvað þýðir Atónal Blús?
„Atónal þýðir tónlist sem er ekki í neinni tóntegund eins og t.d. c-dúr eða a-moll. Blús er hinsvegar oftast bara í einhverri einni tóntegund eins og t.d. E-dúr. Þannig að þetta eru gjörólíkir stílar sem eiga lítið sem ekkert sameiginlegt (fyrir utan að vera jú hvort tveggja tónlist). Atónal Blús er því nokkurskonar þversögn.“

PLATAN Á BANDCAMP!

2014-01-12 13.24.04
Bónus selur nú drykki frá Cawston Press í Berkshire Englandi. Neytendinn ég smakkaði eftirfarandi:  Brilliant Beetroot safi er algjör viðbjóður enda er rauðrófusafi ógeðslegt moldarsull. Hvað var ég að spá? 0 stjörnur. Epla 99% og engifer 1% safinn er ok, full sætur kannski og það hefði mín vegna mátt stækka engifer hlutfallið. 2 stjörnur. Tvær gosflöskur: Epla og rabbabara er ágætur og mjög hlutlaus einhvern veginn, 3 stjörnur. Sparking ginger er góður, hinn fínasti engifer-safi, 4 stjörnur af fimm. Allt í allt hið fínasta mál hjá Bónus. 

Uggvænleg þróun í kólanu

21 Jan

coca19
Vífilfell missir Subway, segir DV. Subway er sem sé hætt með Coca Cola og fer að selja Pepsi í staðinn. Þetta er uggvænleg þróun sem hófst með því að bíóin duttu út eitt af öðru og er nú svo komið að aðeins Laugarásbíó býður upp á Coca Cola með poppinu. Starfsfólk er alltaf afsakandi við mann þegar það segir „Við erum með Pepsi, er það í lagi?“ Auðvitað er það ekki í lagi enda frekar augljóst fyrir fólk með sæmilega bragðlauka að Coca er miklu betra en Pepsi – it’s the real thing, eins og sagt er. Líklega er til eitthvað fólk sem finnst Pepsi betra en Coca, en það er minnihlutahópur, hálfgerð frík. Frík sem þeir aðilar sem selja Pepsi en ekki Coca eru að taka fram yfir meirihlutann vegna þess að Ölgerðin býður betri díla en Vífilfell. Pepsi-aðilarnir eru sem sagt ekki að hugsa um kúnnann og velferð hans í gosinu heldur bara að spara aurinn. Þetta er slappt. Menn reyna eflaust að afsaka sig eitthvað, eins og Gunnar Guðjónsson hjá Subway, sem segir: „„Ölgerðin var með betra tilboð og er með góðar vörur. Þeir eru miklu sterkari í diet- og vatnsdrykkjunum. Þó að þetta rauða kók sé alltaf mjög vinsælt, þá eru þeir sterkari í öðrum drykkjum.“ É ræt!

Hér eru nokkrir aðilar sem selja Coca Cola. Ég mæli með að Coca-istar beini viðskiptum sínum þangað.

Laugarásbíó
Roadhouse
Búllan
American Style
Dominos
Eldsmiðjan
Bæjarins bestu
Borgarbíó á Akureyri
Culiacan, Suðurlandsbraut 4
Hamborgarafabrikkan
Gamla Smiðjan í Lækjargötu 8
Saffran
Hamborgarasmiðjan á Grensásvegi
Noodle Station

Þetta er langt í frá tæmandi listi. Það má bæta við í skilaboðum.

(Myndin hér að ofan er auglýsing úr Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar (útgefið í Vesturheimi 1919). Íslendingar á Íslandi fengu ekki að lepja drykkinn fyrr en 1942. Eftir því sem ég kemst næst kom Sanitas með Pepsi árið eftir og varð Ísland þar með fyrsta Evrópulandið til að selja Pepsi.)

Nammi fortíðar

21 Jan

Nammi fortíðar er vinsælt umræðuefni þegar tveir eða fleiri sem eru „eldri en tvævetur“ (hallærislegt orðalag) hittast. Þá ligna menn aftur augum og nostalgísk upptalning hefst. Manstu eftir, manstu eftir..? Þetta hefur verið svona lengi og fyrirbærið var fyrst skjalfest í meistaraverkinu Sódómu Reykjavík þegar fólk taldi upp gostegundir í nostalgískri nautn.

princepolo
Framleiðendur hafa að nokkru mætt namminostalgíunni, en það mætti vera mun meira gert af því. Hið gos-sagnakennda Valash á Akureyri var endurgert fyrir nokkrum árum í takmörkuðu upplagi og fyrir jólin seldi Kaffitár endurgert Krembrauð á uppsprengdu verði (hverrar krónu virði auðvitað). Í búðum hér er enn selt nammi sem er orðið hundgamalt. Kókosbollan er forn. Líka Conga, Malta, Rommý, Lindubuff og Prins póló náttúrlega – þótt þetta „nýja“ sé  langtum verra en þetta „gamla“.

blackcat
Ýmsar tegundir eru horfnar með öllu. Black cat „Kisutyggjó“ var lakkrís-tyggjó sem margir fá unaðshroll við að heyra minnst á.

Smakk var hálfgert Prins póló vannabí en Pops var miklu betra súkkulaði. Mikið væri ég til í eitt Pops núna.

Gospillur voru unaðslegar. Maður setti þær sjaldnast í vatn heldur saug þær og lét freyða upp í sér. Það voru einhver eiturefni í þeim svo bann var sett á söluna. Forsjárhyggja! Ég hef smakkað nútíma gospillur sem enn fást í útlöndum, heita Fizzies. Auðvitað var ekkert varið í þær. Erfitt að meta hvort það sé vegna þess að þessar nýju gospillur eru verri og öðruvísi en þær gömlu, eða vegna þess að nostalgían hefur byggt upp væntingar sem ekki er hægt að uppfylla. Ef ég kæmist í tímavél núna og fengi Spur og Pops og allt þetta dót fyndist mér það ábyggilega ekkert merkilegt. Það er vegna þess að maður kann ekki að lifa í núinu heldur er alltaf í fortíðinni eða framtíðinni.