Björk á geimöld

1 Nóv


Ef H.G. Wells hefði mætt í Hörpuna í gær á Biophilia-tónleika Bjarkar myndi hann halda að spádómar sínir í Tímavélinni væru réttir. Ég fékk a.m.k. smá svona Tímavélin 1960 útgáfan fíling út úr sjóinu í bland við pagan ritual á geimöld atriði úr einhverri annarri mynd frá svipuðum tíma. Það er þetta hvernig Björk notast við Graduale Nobili kórinn í sjóinu. Allar í svipuðum mussum/kjólum og samtaka í dansi og söng. Það er eitthvað sixtís framtíðarmyndarlegt við það.

Sjóið er auðvitað ansi flott, eiginlega alveg æðislega flott, en ég myndi samt segja að giggið hafi verið 50/50 æðislegt og ekki svo æðislegt. Rólegu lögin og þessi ofurerfiðu af nýju plötunni reyna á innri nennu, en þegar Björk spilaði góð stuðlög með góðu bíti var það gæsahúð og megakikk.

Allskonar skraut bar fyrir á skjáum. Mest fútt var í neðansjávarmyndum af krossfiska- og sjóorma-haug að gæða sér á dauðum og undarlega loðnum sel. Þetta tók nokkuð á fólk, sumir héldu fyrir augun og æjuðu sig. Rimlatunna með rafmagnsblossum seig niður í tveimur lögum en gerði ekki mikið fyrir mig þaðan sem ég stóð og risapendúll fór í gang í einu lagi og bjó til malimbalegt undirspil. Dálítið mikið vesen fyrir eitthvað sem hægt hefði verið að spila út úr tölvu, heyrðist mér. Bara þrír voru með Björk og kórnum, brjálaður trommari sem fór á kostum, einhver gaur sem stóð bakvið tækjastæður og Jónas Sen, sem hamraði af sér rassgatið í Vertebræ by Vertebræ, einum af mörgum hápunktum kvöldsins.

Í uppklappinu tók Björk m.a. Náttúra og Declare Independance, tvö rosa páverfúl lög sem fengu mig til að langa í heila Bjarkarplötu með svoleiðis lögum. Það yrði nú frábær plata og eitthvað sem Björk á „eftir að gera“. Engar plingplong Atla-Heimis-ballöður heldur bara geðveikt stuð. Björk er svo svakaleg að það þarf alltaf að koma eitthvað ennþá geðveikara frá henni næst. Hún gæti náttúrlega líka tekið Loutallica á þetta og gert plötu með Gylfa Ægis – það gæti orðið sturlgott samstarf af því ólíkari verða tónlistarmenn varla.

Eftir því sem ég kemst næst eru bara tvö Bjarkar-gigg eftir í Rvk. Eitt á sama stað á fimmtudaginn og svo verður allt havaríið flutt yfir í Eldborgarsalinn þar sem lokagiggið fer fram á mánudaginn. Að sjálfssögðu algjör skyldumæting fyrir alla sem telja sig vettlingi geta valdið í menningarlífinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: