Sarpur | janúar, 2013

Karlinn í Lillehammer

31 Jan

Lilyhammer_Steve_Van_Zandt-53738153
Lillehammer, ágætis þættir standa nú yfir á Rúv, þar sem Steven Van Zandt AKA Little Steven fer á kostum sem mafíuósa-þykkildi í Noregi. Steve hefur áður sést í Sopranos og víðar og hann er auðvitað þekktur fyrir rokkgítarleik með vini sínum og New Jersey-bróður Bruce Springsteen. Little Steven hefur lengi verið með útvarpsþætti og allskonar grill í kringum hrátt bílskúrs-rokk frá því í gamla daga. Höfuðstöðvar þessarar starfssemi er Little Steven’s Underground Garage, en til að fá þráðbeina innspítingu af gullaldar hrárokki skaltu snarast á 8tracks og tékka á þessu mixi: Little Steven’s Top 30 Garage Rock Songs of All Time. Dr.Ullu.Gott.Efni.

Ógeðisdrykkur frá Afríku

31 Jan

IMG_0280
Í Kolaportinu er mjög skemmtilegt matvælahorn þar sem allskonar er í boði á fínum prís. Þar eru frosnir furðufiskar til sölu og asískt horn þar sem ýmislegt torkennilegt ber fyrir augu. Í síðustu heimsókn fann ég Nkulenu’s Palm Drink, sem kemur alla leið frá Madina í Ghana. Ég var mjög spenntur, hafði aldrei smakkað gos frá Afríku áður og sá fyrir mér sætan  svaladrykk úr pálmatrénu. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum því þetta er því miður algjört ógeð. Smakkast eins og gambri og blóð í einu, lyktar ógeðslega og ég kom ekki niður nema þremur sopum (því ég hélt þetta myndi kannski skána smám saman). Úff. Núll stjörnur! Ég mun samt auðvitað halda áfram að kaupa torkennilegt dót í Kolaportinu, enda er það algjörlega ofmetið að læra af reynslunni.

 

2013 hið nýja 2012?

24 Jan

2013 ætlar ekkert að gefa 2012 eftir í frábærum plötum og allra handa almennilegheitum á tónlistarsviðinu. Það er nú bara janúar en strax eru fjórar plötur að mæta á svæðið með ólseigum listrænum sperringi.

Tracing Echoes_Cover
Fyrst skal nefna þriðju Bloodgroup plötuna, þá fyrstu síðan Dry Land kom út fyrir alltof löngu síðan. Platan ber nafnið Tracing Echoes og kemur út hjá Kölska á Íslandi, en erlendis á vegum Sugarcane Recordings (David Lynch, Hot Chip, Hercules & Love Affair…) og AdP, sem einnig gáfu út síðustu plötu sveitarinnar, Dry Land, eins og segir í fréttatilkynningu. Fall er fyrsta lag í spilun.

sin-fang
Nýja Sin Fang er handan við hornið. Flowers heitir platan og er tíu laga og síður en svo eitthvað minna en dúndurhress. Já, heldur betur fínasta pott, ég meina popp, sem vinnur á. Hlustaðu bara á fyrsta lagið á plötunni:
Sin Fang – Young Boys

74909_295366450566371_282382894_n
Glápa á skóna sína og vera dreymi dreym-bandið Oyama er funheitt en nokkuð syfjað en þó með 6-laga plötuna I Wanna. Hún er komin á Gogoyoko. „Everything some of the time“  er hittarinn og sándar svaka erlendis. Útgáfutónleikarnir eru annað kvöld á Faktorý.

oli_cover2_square_PRINT
Svo er það Stafrænn Hákon með Pramma, sem kom reyndar út í fyrra.  Platan inniheldur 13 stúfa sem voru tekin upp af Ólafi Josephssyni forsprakka Stafræns Hákons. Ólafur hefur frá því 2001 verið iðinn við kolan og gefið út fjöldan allan af plötum ýmist sem Stafrænn Hákon, Per:Segulsvið, Calder og er einnig meðlimur í hini frábæru sveit Náttfari sem gaf út minnistæða plötu 2011.
Hugmyndin af plötunni „Prammi“ var sú að leitast eftir togstreitu milli þungum hljóðheim og örlítið léttari hljóðheim sem greina mátti t.d á síðustu skífu Stafræns „Sanitas“ sem þótti afar vel heppnuð og var skref í átt að melódískum áhrifum með poppívafi, þó svo að hinn þykki hljóðheimur sem á undan hafði einkennt músíkina hafi aldrei verið langt undan.
Á Pramma er að finna allt frá þykkum drungalegum gítardrunum í léttleikandi poppskotið sveimrokk, ekki ósvipað ef Phil Collins myndi fara í samstarf við Sun Ra og Seal myndi sjá um hljóðblöndun. Það er gríska jaðarútgáfan „Sound in Silence“ sem gefur Pramma út í takmörkuðu númeruðu upplagi. Þegar hafa 80 eintök ratað til landsins og eru þau nú fánalega í öllum helstu hljómplötuverslunum. 
Prammi á Gogoyoko.

Tilgangur lífsins

23 Jan

Nú er janúar og annar hver maður glímir við skammdegisdoða og depurð, ef þá ekki skammdegisþunglyndi eða þaðan af verra. Maður veltir fyrir sér allskonar kjaftæði – ef ekki beinlínis veltir sér upp úr því – t.d. hvað verð ég að gera eftir tíu ár? Mun ég einhvern tímann eignast Ford Mustang og komast til Tonga? Og svo auðvitað: Hver er tilgangur lífsins? Þá er nú aldeilis gott að Monty Python gerðu heila mynd um þessa spurningu og svöruðu henni í lok myndarinnar (sjá að ofan). Meira þarf nú varla að velta því fyrir sér.

Annars er bara gott að gúggla því hvað maður á að éta til að fá serotonin (sem ku gera mann glaðari) og fara eftir Geðorðunum tíu.

Og sjá: Áður en þú veist af verður komið vor, allar þessar spurningar einhvern veginn ferlega óþarfar og maður spyr sig: Þetta er nú meira vælið – hvað var ég eiginlega að spá?

Þegar ég smakkaði fyrst túnfisk

17 Jan

tuna

Skrýtið hvað maður man. Ég man varla neitt en samt man ég glögglega eftir því þegar ég smakkaði túnfisk í fyrsta skipti. Það var sumarið 1981 og ég hafði fengið vinnu í gegnum Atvinnumiðlun stúdenta við að grafa fyrir rotþró við einhvern sumarbústað þarna í flotta hverfinu við Þingvallavatn. Það var annar strákur ráðinn til verksins, Kristján Franklin, síðar leikari. Mér fannst það hneyksli að hann hafði aldrei heyrt í Fan Houtens Kókó og aldrei farið á sýnginu í Skruggubúð.

Við vorum þarna og grafa í nokkra daga og fína frúin sem keyrði okkur á staðinn var í bústaðnum. Einn daginn bjó hún til túnfisksalat og gaf okkur ofan á brauð. Þetta var í fyrsta skipti sem ég smakkaði túnfisk því foreldrar mínir voru allt annað en framsæknir í matargerð. Ég hef aldrei smakkað svona salat fyrr né síðar. Í minningunni er það rautt, kannski var tómarsósa í því?

Þetta varð til þess að ég varð túnfisks-sinnaður. Á Interrain nokkrum árum síðar neytti ég allra færa til að panta mér túnfisk í olíu ofan á brauð á börum. Þegar ég lifði á horriminni í Lyon veturinn 1986 borðaði ég eina dós ofan á baguette á hverjum degi.

Ég hef smakkað allar tegundir af túnfisksalati sem fást í íslenskum búðum. Sumar eru vondar, aðrar ágætar, en ég get bara ómögulega munað hvort er hvaðan. Kannski er besta túnfisksalatið sem hægt er að kaupa úr búð frá Fylgifiskum á Suðurlandsbraut. Það er mjög gott.

Á Café Valný á Egilsstöðum búa þau til allsérstakt túnfisksalat og selja manni á ristuðum beyglum. Ég kóperaði þetta salat eftir að ég smakkaði það og geri það stundum heima. Það er sirka svona: ein dós túnfiskur í olíu + 2/3 krukka af fetaosti í olíu + slatti af niðurskornum rauðlauk og slatti af maísbaunum. Öllu hrært saman. Þetta er mun betra en lýsingin segir til um.

Ég auglýsti eftir góðum túnfisksalatsuppskriftum á facebookinu áðan og fékk nokkrar:

Sigurður Hjaltested: Hér er ein frá Spáni.  Túnfiskur, skinka, grænn aspas, laukur, olivur, egg (harðsoðin), majo. Blandar þessu saman og svo salt og pipar. Ekki mikið af majo. Þetta er alger snilld.

Sigurbjörg María Jósepsdóttir Dalek: Ég kaupi venjulega eina dollu af tilbúnu túnfisksalati, því hingað til hef ég ekki fundið nógu litla dollu af majonesi. Treð svo 1-2 dósum af túnfiski í vatni með, 2-3 harðsoðin egg, hellingur af rauðlauk, smátt niðurskornar svartar ólífur eftir smekk bara og þá er þetta bara komið gott. Kannski smá salt eða pipar.

Björn Kristjánsson: Mér finnst best að gera með túnfiski, rauðlauk, eggjum, chilli, ólífum, capers og stundum rifnum gulrótum. Svo geri ég subbu með majó ef ég er í þannig stuði, heilsu með kotasælu ef ég er í þannig stuði og og með grískri jógúrt eða sýrðum rjóma ef ég er í svona mitt á milli stuði.

Magga Örnólfs: Ég mæli með að setja bæði kapers og smátt skorna sólþurrkaða tómata, þá skiptir varla máli hvað restin er, alltaf gott.

Magnús Wolfgang Hreggviðsson: Túnfiskur, gróft skorið avocado, rauðlaukur, chili, lime, kotasæla, kóríander, salt & pipar.

Frú Guðrún Lilja Hólmfríðardóttir: Einfalt er yfirleitt best! Majó eftir smekk í skál, krydd eftir smekk, fínsaxaður laukur eftir smekk, 1 dolla túnfiskur í vatni og 2-3 harðsoðin egg, klikkar ekki.

Kristín Ólafsdóttir: Túnfiskur í vatni, 1/2 dós kotasæla, smá rauðlaukur smátt saxaður, paprika smátt söxuð, smá sólþurrkaðir tómatar og ólífur svartar og grænar. Öllu blandað saman. Geymist í ísskáp í nokkra daga. Geri oft þessa uppskrift og geri hana tvöfalda. Ef ég nenni ekki að elda á kvöldin þá geri ég heita samloku úr þessu úr glútenlausu og hollu brauði og rista hana. Set vel af jukkinu á milli og oft magran ost með. Kotasælu on the side sem sósu… Voila: holl og góð samloka á mettíma.

Siggi Bach: Gera hefðbundið salat! Mæjó, Túnfiskur og Egg, í staðinn fyrir lauk hafa Relish og setja smááá Chili tómatssósu. Besta ever!

Kannski er þetta síðasta það sem fína frúin á Þingvöllum gaf okkur Kristjáni Franklín? Gott ef ekki!

Góðkunningjar í Eurovision

8 Jan

Á FTT fundi á laugardaginn kom fram að það stæði til að hækka verðlaunaféð í Eurovision til að fleiri „alvöru“ músíkantar myndu taka þátt. Ég veit ekki hvort þessi keppni verði eitthvað ferskari fyrir vikið. Það virðist bara sem ferskir straumar séu ekki endilega að fara að leika um keppnina, hvorki hér né annars staðar, hverju svo sem verðlaunafénu áhrærir. Fyrir flestan nýliðan er það einskonar koss dauðans að láta spyrða sig við fyrirbærið.

Auðvitað ætti það ekki að vera þannig. Sé fólk að búa til popp sem það vill að annað fólk heyri erða auðvitað rakin leið að setja lag í keppnina. Keppnin þýðir instant aðgengi að nánast öllum á landinu og ef maður kemst yfir höfnunartilfinninguna, sigri lagið manns ekki, þá er þetta bara ágætis flipp. Það ætti ekki að gera mann holdsveikann að fara þarna inn. Kannski er þetta þó ekki spurning um að teljast hallærislegur, heldur bara það að fólk vill ekki keppa með tónlistina sína. Finnst það ekki rétt.

Eitthvað er þó allavega í veginum og við erum ekki að sjá þá tónlistarmenn sem heitastir þykja í dag taka þátt (Engilbert Humpferdink, halló?) Ekkert Retro Stefson, Ásgeir Trausti, Moses Hightower o.s.frv. Í staðinn eru það góðkunningjar Eurovision sem taka þátt, eina ferðina enn – Læknirinn Sveinn Rúnar Sigurðsson (höfundur Hugarró o.fl laga, m.a. tveggja sigurlaga) mætir með 3 lög og Hallgrímur Óskarsson (Open your heart o.s.frv.) er með tvö. María Björk, Birgitta, Örlygur Smári eru þarna líka. Eitt lag með og eftir Elízu Newman er kannski það ferskasta Eurovision-lega séð.

Þetta er hálf pínlegt, segi ég án þess að í því felist eitthvað diss á þetta fólk. Það er ekki því að kenna að fleiri vilji ekki demba sér í keppnina. Eurovision hefur svona eiginlega málað sig út í horn og það virðast bara allir sáttir við þá stöðu. Eurovision er „bara Eurovision“ og ekki glæta að keppnin sýni það ferskasta og besta hverju sinni. Manni fannst kannski Loreen með Euphoria væri að fara að breyta þessu eitthvað, en það eru nú allir búnir að gleyma henni greyinu. Það kom út plata með Loreen í október, Heal heitir hún, en það að þú sért að lesa það fyrst hér sýnir kannski hversu hátt sú plata fór.

Stuð á ensku

7 Jan

Stuð vors lands gekk vel, þakka þér fyrir. Það seldust eitthvað á annað þúsund eintök, en svo er gert ráð fyrir að restin mjatlist út á næstu misserum.

Og þá er það næsta karríer-múv og það er að skrifa bók upp úr Stuðinu á ensku. Þar verða efnistökin allt önnur (til dæmis líklega ekki þrír kaflar um Bubba) og allt minna í sniðum – bókin verður bara 10″ eða 7″ að stærð, en við ætlum samt að reyna að hafa hana jafn kúl útlits og Stuðið.

Fyrsta mál á dagskrá er titill bókarinnar. „Stuð“er óþýðanlegt – „Fun“ nær þessu einhvern veginn ekki. Our Nation’s Fun væri til dæmis bara rugl. Ég lýsi því eftir titli á bókina. Undirtitill er sjálfgefinn „The History of Pop and Rock in Iceland“, eða eitthvað slíkt. En  aðaltitillinn er sem sé höfuðverkurinn.

Það eru nokkuð skondin nöfnin sem safnplötumeikbrölti íslensku hafa verið gefin. Fyrst var það safnplatan NORTHERN LIGHTS PLAYHOUSE, sem kom út 1981 með pönki og nýbylgju. Það er reyndar ágætis nafn. Næst kom safnplatan GEYSIR 1986 minnir mig, sem er rugl nafn. WORLD DOMINATION OR DEATH var safnplata Smekkleysu, nefnd eftir mottói Sykurmolanna og ICEBREAKERS var meikplata Steinars sem kom 1991. FIRE og ICE hétu tvær sanfplötur sem komu 1998. Það hafa sem sé oft verið ansi klisjukenndar hugmyndirnar sem menn hafa fengið þegar íslenska poppið hefur verið sett í útflutningsgírinn.

Svo ekki hafa fyrir því að koma með titilinn PUFFINS, VIKINGS AND WHALES fyrir nýju bókina – bara kúl nöfn takk!

Þrjár seinar

7 Jan

Árið 2012 var svaka fínt í íslensku músíkinni, eins og ítrekað hefur komið fram. Það komu svo margar góðar plötur út að nokkrar – og þá helst þær sem komu seint – féllu í skuggann. Hér eru þrjár sem voru með síðustu skipunum.

stofnarfalla
Samaris – Stofnar falla
Önnur plata Samaris, Stofnar falla, er sex laga (eitt lagið er remix). Áfram er haldið með fljótandi draumapopp og sérkennin tálguð. Fínt stöff.

Gálan
Gálan – Glöggt er gests augað
Júlíus Guðmundsson er Gálan og Gálan að þriðja Gáluplatan. Að vanda gerir Júlli allt sjálfur, nema textana að þessu sinni, sem eru flestir eftir föður hans heitinn. Allskonar fínt stöff í gangi hér.

evolög
Gimaldin – Hrafn og dúfa
Evulög er heimabruggaður diskur með tónlist Gímaldins (Gísla Magnússonar) við texta Evu Hauksdóttur, bloggara. Ýmsir syngja lögin, m.a. Megas og Lára Sveinsdóttir. Hér er það Karl Hallgrímsson sem syngur. Allskonar fínt hér.