Sarpur | Daglegt líf RSS feed for this section

Útstreymi fyrir tilfinningar

7 Okt

Ég á afmæli í dag (52) og fer framhjá enn einn vörðunni í átt að opinni gröf. Er dáldið tvístígandi með hvort ég eigi að brenna mig (hreinlegra – ákveðin hætta þó að ég vakni í ofninum) eða láta troða mér í kassa og grafa í mold. “Ég er ekkert of góð fyrir ormana,” sagði einhver amma eða frænka hans Kidda, og pabba fannst jarðsetning flott dæmi: “Finnst það bara notalegt að verða að einhverju gagni,” sagði hann og fannst hans dána kjöthylki þannig öðlast tilgang sem ormafæða. Hmmm… erfitt val. Vonandi verður komið svona þegar ég fer. Össs, einum of dark að vera að hugsa um þetta. Ég er á lífi, annars væri ég varla að skrifa þetta – eða hvað?!

Mikilvægt er að standa við loforð. Þegar ég varð fimmtugur ákvað ég að fá mér tattú á hverjum afmælisdegi. Og nú er ég kominn með það þriðja. Meistari Fjölnir henti þessu á í gær á svona tíu mínútum. Þetta er lógó Erðanúmúsíkur, fyrirtækis míns, og sást fyrst á prenti 1985. Ég man ekkert afhverju ég valdi hníf að skera hjarta. Örugglega áhrif frá The Birthday Party.

22345174_10215750535183274_1961216458_o
Nú er þetta komið á vinstri löppina og ég kemst ekki í heita pottinn í viku. Var alveg búinn að gleyma því þegar ég ætlaði í pottinn í gær eftir leikinn. Hafði nefnilega lofað að raka af mér skeggið ef Ísland ynni Tyrki. Staðan var 2-0 þegar þessu var lofað (á Twitter) og svona alveg séns að ég þyrfti ekki að raka mig. Svo voru þessir Tyrkja-ræflar ekki mikið að standa sig og ég myndi segja að strákarnir væru nú búnir að hefna bæði fyrir Tyrkja-Guddu og Soffíu Hansen. Og Finnarnir! Þeir sömu og unnu okkur í Helsinki fyrir svona mánuði; þeir skiluðu þeim sigri í Scandinavískum bróðurkærleika og nú er Meistari Pyry Soiri hreinlega orðin þjóðhetja hér.

Samkvæmt finnskum heimildarmanni mínum vissi Pyry ekki einu sinni að hann hefði potað boltanum inn fyrr en völlurinn þagnaði í undrun. Látum Translate.Google í málið. Athugið að upprunalegur texti er á sænsku því í Finnlandi er sænskur minnihluti, aðeins fleiri en allir á Íslandi:

“Finnland fær að huga að frumkvöðlum Pyry Soiri til þess að fá góðan árangur. „Förstås finnst það gott,“ segir Soiri eftir 1-1 gegn Króatíu.
Með um það bil tíu mínútur eftir að spila gegn Króatíu var Finnland undir með 0-1. Chefstränaren Markku Kanerva gaf Pyry Soiri skilaboð um að halda áfram með „fara inn og spila, hjálpa til í áfalli“.
Það var bara það sem debutanten gerði.

Tyst ég Rijeka
Soiri got a praise on a post that sailed over the Croatian defense line. Það þýddi 1-1 – frábær fyrir Finnland, hörmung fyrir Króatíu.
– Ég sá strax að bollen fór inn, en eftir það varð það rólegt í eina sekúndu. Það var þá sem ég vissi hvað hafði gerst, segir Soiri til Yle.

– Það var gott og síðan fékk ég útstreymi fyrir tilfinningarnar, segir Soiri.

Ef þetta verður svona í þessum nýja Google síma þá held ég að þeir ættu að kalla hann frekar Giggle Google. Hvernig á maður að geta talað við einhvern undir svona flissvænni steypu?

22292292_10215750417060321_79977653_oÉg á afmæli og lít svona út. Ekkert að því. Og skegg er bara skegg. Þetta vex svo hratt að ég verð kominn með ágætan hýjung á kosninganótt eftir 3 vikur. Verð ekki lengur Barbapabbi á sigurhátíð XS!

22323652_10215747865356530_1325972845_oSvo skruppum við Kiddi á Bessastaði á árlegt RIFF dæmi. Guðni er algjör meistari eins og alþjóð veit.  Kannski verður band úr þessu? Forsetatríóið á Katalínu?

Eliza Reid, minn gamli prófarkarlesari, þurfti því miður að fara á annað gigg, svo ég gat ekki spurt hana hvort hún væri tilkippileg í annað verkefni í vor.

Allavega. Þessi frábæri laugardagur er varla byrjaður og ég á afmæli og þarf að gera eitthvað skemmtilegt. Ætti nú ekki að vera mikið mál.

Gylfi Ægisson er bestur!

6 Okt


Ég hef nú þegar beðist afsökunar á þessum mistökum – stærstu mistökum míns listræna ferils – en nú kemur önnur afsöknarbeiðni og nú fylgir lag og myndband með.

Þetta var sem sé þarna 2013 og við að taka upp plötuna Alheimurinn! í Geimsteini, Keflavík, með Júlla og Baldri sonum Rúnna júl, en samt aðallega með snillingnum Björgvini syni Baldurs. Þarna komu allskonar snillingar, Helgi Björns, Jóhann Helgason, Steinunn Eldflaug og Haukur morðingi, Lóa í FMBelfast og svo auðvitað Frikki Dór sem söng hittarann rosalega, Glaðasta hundinn. Ég hafði beinlínis samið eitt lagið – Brjálað stuðlag – eftir að ég mætti Gylfa Ægis koma í viðtal á Rúv. Ég smitaðist af lífsgleðinni í honum og samdi lagið á leiðinni frá Rúv í World Class, Laugum, þar sem ég var að fara í spinning. Raulaði inn á símann og vann svo seinna, en hugmyndin var fædd.

Nú, Gylfi mætir frá Vogum í Vatnsleysuströnd í Kef og tekur þetta á nóinu og er bara hress og skemmtilegur. Þetta er maðurinn sem samdi Í sól og sumaryl, Stolt siglir fleyið mitt og Minning um mann, og það eitt og sér ætti að vera nóg til að hann væri hafinn yfir gagnrýni og á heiðurslistamannalaunum. Allir ánæðgir með teikið. Svo var bara að fá JFM með syntann og taka Mugison upp í Súðavík. Bjartmar datt nú bara inn og var gerður að sögumanni. Enginn fékk krónu fyrir, ekki frekar en ég eða Heiða, sem gerði plötuna með mér.

Svo byrjaði Gylfi að röfla um Gay pride og fyrr en varði varð hann ógeðslegur viðbjóður hjá fúla fólkinu og ég eins og aumingi fór að skjálfa og sjá fyrir mér útskúfun og hrun á plötusölu. Panikk og Sóli Hólm döbbaði Gylfa eins og snillingurinn sem Sóli er, en samt hver vill ekki frekar orginalinn frekar en eftirprentun?

Fýlustrákar og fýlustelpur þessa fríklands munu aldrei beygja mig aftur. Það er loforð!

PS. Heiða var að gera frábæra plötu, Artist Celery.

Samgöngur til eyja

29 Sep

Það er margt í skralli í okkar annars frábæra landi. Svo mikið í skralli reyndar að það er engin stjórn starfandi heldur á bara að fara að kjósa í fjórða sinn síðan eftir Hrun#1 (“Guð blessi Ísland-hrunið” 06.10.08). Nú verðum við bara að vanda okkur kæru vinir – það bara gengur ekki lengur endalaust að hér séu kosningar eins og skítaveður: Alltaf yfirvofandi. Reynum nú að hafa gott veður í allavega fjögur ár eins og lögin og lýðræðið segja til um.

Nú ætla ég ekkert að þykjast vera sérstakur vinur Vestmannaeyinga og reyna að smygla mér inn á það eflaust ágæta fólk sem þar býr, eins og einhver öllulofandi stjórnmálakall með excel skjöl á takteinum um eigið ágæti. Ég hef meira að segja stundum verið vondur við Vestmanna-fólk, í hroka mínum auðvitað og af því mér hefur aldrei verið boðið að spila á hvorki Goslokahátíð né Þjóðhátíð. Aldrei er hringt í mig þótt ég hafi bæði samið Prumpulagið og Glaðasti hundur í heimi og fullt af öðru ágætis stöffi. Mér skilst m.a.s. að Glaðasti hundurinn hafi verið aðallagið þarna á Þjóðhátíð 2013, en þá var ég bara á Ísafirði eða eitthvað en ekki upp á sviði með Frikka Dór að raka inn seðlum! Auðvitað sárnar manni svona endalaust áhugaleysi og þá verður maður fúll og fer eitthvað að nöldra um “vitleysinga í Vestmannaeyjum” og svo framvegis. Ég hef sem sagt ALDREI spilað í Vestmannaeyjum þótt ég hafi verið spilandi á sviðum í 37 ár!    

Þar að auki hef ég bara tvisvar sinnum komið til Vestmannaeyja. Fyrst sirka 1998 þegar ég var að sýna þáverandi amerískri kærustu landið okkar frábæra. Þá var það ferjan frá Þorlákshöfn, alltof löng sigling, sem gleymdist sem betur fer um leið og ævintýraleg fegurð eyja laukst upp fyrir okkur. Það var gott veður sem sagt. Við tókum allan pakkann sem var í boði þá. Bátinn og karlinn að syngja í hellinum, átum á stöðunum sem voru þá í gangi og sáum lunda á klettabrún. Þar að auki var pysjutíminn í gangi og það var hreinlega geðveikt gaman, jafnt fyrir mig og hana, því þetta var allt svo óvenjulegt og skemmtilegt. Minnir að Keikó hafi verið dauður en við sáum umtalað rúnkdekk stjörnunnar.

Í seinni skiptið fórum við Dabbi sonur minn með ferjunni frá Landeyjahöfn sirka 2015. Það var örstutt sigling og ekkert mál með bílinn og allt. Dabbi var bara með KR að hita upp og svona, hanga með strákunum, svo ég gat hreinlega tekið Heimaey alla á einu bretti á þessum sex tímum eða svo sem ég hafði fyrir sjálfan mig. Fyrst fórum við þó í sund sem Dabbi segir að sé besta sundlaug á landinu. Klifurveggir mættu vera víðar og já ég er sammála: Sundlaugin í Eyjum fer auðveldlega á topp 3. Hægt er að lesa um þessa ferð okkar hér.

Allavega, við morgunverðarborðið áðan var maður í fiskiðnaði alveg brjálaður í Morgunþætti Rásar 2 út af því að samgöngur til eyja eru í lamasessi. Hvað er eiginlega í gangi? Fyrst var þessi Landeyjahöfn alltaf ófær út af einhverjum andskotanum og eruði sem sé að segja okkur eyjaskeggjum í stóru eyjunni (eða „minni eyjunni“ ef þið viljið það frekar) að það sé ekki einu sinni til nothæf ferja til að sigla með fólk og fisk og eitthvað? What!!!

Er það sem sagt of yfirstíganlegt vandamál að kaupa einhverja flotta ferju til að nota til að sigla á milli lands og eyja – væntanlega þá annaðhvort frá Landeyjarhöfn (sé hún greið) eða frá Þorlákshöfn? Ég sem hélt að Vestmanneyjar væru alltaf “vígi Sjálfsstæðismanna” út af svona kempum eins og Árna Johnsen sem bar hag samfélagsins að sögn alltaf fyrir brjósti og var næstum farinn að grafa bílagöng sjálfur með skóflu (úr Byko væntanlega), ef ég man þetta rétt. Hvað er í gangi þarna hjá ykkur?

Var ekki Bjarni Ben voða ánægður með síðustu fjárhagsáætlun og einhverja 44 milljarða isk sem áttu að fara í pott til mögru áranna eða eitthvað svoleiðis? Hvað kostar ný ferja? Eða loftpúðaferja eða eitthvað sem gengur? Varla meira en 44.000.000.000 isk? (ég er hugsanlega að skrifa þessa tölu vitlaust – kann bara á 1.000.000 isk og varla það). Hvað segir Elliði bæjarstjóri við þessu? Er hann ekki brjálaður líka? Og þá brjálaður við hvern? Sjálfan sig? Elliði er annars með bæði ágætan húmor og músíksmekk.

Æi ég veit bara ekkert um þetta. Enda er ég ekki á kaupi við að hugsa um samgöngur til eyja. Er ekki eitthvað fólk á kaupi við það? Og afhverju er þá ekki komin ferja fyrir lifandis löngu?

Úps. Það er vegna þess að það er allt í skralli hérna. Ekki bara í ferjumálum heldur eiginlega í öllum málum. Og út af hverju er það eiginlega? Kannski vegna þess að svokölluð stjórnvöld eru bara ekki starfi sínu vaxin? Það þarf að gera meira og tala minna. Eða eins og sagt var svo eftirminnilega í pönkinu: Það er ekki málið hvað maður getur heldur hvað maður GERIR!

Á endanum færðu þú svo heitu kartöfluna beint í fangið. Það varst þú sem kaust þetta vita gagnslausa lið yfir þig. Reyndu nú að muna það í næstu kosningum kæri samlandi í Vestmanneyjum og annars staðar á landinu (nema hugsanlega í Garðabæ). Það þarf eitthvað annað en einn umganginn enn af handrukkurum lýðræðisins til að koma böndum á skrallið og byrja að greiða úr þessari ömurlegu 73 ára gömlu snúruflækju íslenska lýðveldisins.

ATH: Höfundur er í baráttusæti fyrir XS í Rvk Norður, 20. sæti.

Öskra minna – Bíó meira

27 Sep

Við skulum ekki gleyma okkur. Íslendingar eru 0.000345% jarðarbúa og það er enginn nema við sjálf að pæla í þessu svokallaða stjórnmálaástandi hérna. Mér er svo sem sama hvernig þú vilt eyða dýrmætum tíma þínum. Ef þú vilt öskra allan daginn á Facebook um hvað allt sé ömurlegt og hvað allir séu glataðir og svona almennt raus, sem tekur athyglina frá því sem enginn vill sjá: Bjálkanum í eigin auga – þá máttu það að sjálfssögðu. Kannski er einhver álíka æstur sem mun svara þér eða koma með mótrök og bla bla bla, en ég er allavega ekki þarna. Og auðvitað öllum drullusama um það.

Íslenskt náttúra hefur “alltaf” verið hérna og það er hún sem dregur túrista-síldina hingað fyrst og fremst. Sama náttúra var hérna líka þegar smámenni fortíðar (aðallega XD og XB, en líka allir hinir, t.d. Steingrímur Joð) reyndu sem mest þeir máttu að eyðileggja náttúruna, því þeir komu ekki auga á neitt annað en leiðinlegar verksmiðjur til að “bjarga” hinum og þessum plássum sem eru ekki á höfuðborgarsvæðinu. Gamla Ísland voru álver, frekir kallar sem öskruðu: “Nú, hvernig vilt þú þá halda lífi í landinu?” og endalaus og geðveikur fjáraustur í vonlaus verkefni eins og lambakjöt á erlenda diska, svo ekki sé talað um endalaus “landkynningarátök”, sem voru í besta falli góður brandari.

En þetta rugl fékk allan peninginn. Áratugur eftir áratugur í rugl. Af því þrælar hugmyndaleysis og eigin ranghugmynda höfðu rangt fyrir sér en réðu samt yfir öllum peningunum. Og biddu fyrir þér, það er enn fullt af vitleysingum sem halda að “landkynning” og “lambakjöt til útlanda” séu einhver töfraorð.

Grjótharðar staðreyndir eru þessar: Listafólk í útrás hefur komið Íslandi og náttúrunni á kortið í erlendum hausum. Með þeim afleiðingum að túrismi er að síga yfir sjávarútveg sem aðalatvinnugrein þjóðarinnar. Hafðu það, álbrjálaði, hvalveiðandi, stóriðjustefnuóði fábjáninn þinn! Eða nei, það er lítilmannlegt að vera “I told you so”.

“Það er gott að vera vitur eftir á,” söngluðu heimskir milljarðagreifar með allt niður um sig 2008 og í sama kór voru XD og XB og líka XS og XV og allir bara. Líka þú með þinn flatskjá og myntkörfulán á bakinu. Hvernig væri þá núna að vera “vitur fyrirfram”? Til dæmis með því að fara ekki á límingunum í einhverri geðsturlun þegar næstu listamannalaun verða tilkynnt. Listamannalaun sem eru bara klink hvort sem er og eflaust hægt að borga þau öll með einni misheppnaðri lambakjötsferð til Kína.

Hvernig væri að hætta að eyða tímanum í tilgangslaust tuð á Facebook, rífa þig upp á rassgatinu og sjá og heyra skemmtilega og hrífandi list. Skiptir ekki máli hvað það er eiginlega. Fólk er meira en kindur. Rollur fara ekki í bíó en bændur á svokallaðri vonarvöl ættu að gera það. Netflix? Næst það ekki í Skagafirði?

Nú er að renna upp hið árlega bíóhaust. Með leyfi fundarstjóra:

hronnmarRIFF kvikmyndahátíðin byrjar á morgun. Slefandi æðisleg veisla til 8. Október. Dagskráin er hér og bara go for it. https://riff.is/dagskra/kvikmyndir-og-vidburdir/ Miðasalan er hér. https://riff.is/um-riff/midasala/ Fólk yfir 90 í greind ætti að geta klórað sig út úr þessu, enda getur fólk undir 90 bara farið áfram á Superman (reyndar æðisleg skemmtun þessi nýjasta).

Hef sjálfur ekki fullskipulagt mig en nú hef ég tíma, enda ekki fastur í að bera kassa einhversstaðar á milli 09:00-18:00. Myndir sem mér sýnast vera möst: Tom of Finland / Borg vs. McEnroe / Stöff eftir Aki og Maki Kaurismaki / Stöff eftir einn heiðursgestinn, sjálfan Werner Herzog / Rock n Rollers (með krökkunum) og svo framvegis.

Sjálfur er ég víst í viðtali í myndinni Atlantis, Iceland eftir ástralska vini mína. Ég neyðist til að sjá undirhökuna á mér í þeirri mynd. Og svo er örugglega margt fleira fyndið og áhugavert en undirhakan á mér í þessari mynd.

Það skiptir eiginlega ekki máli hvað maður sér, í hvaða sal maður vafrar inn á – maður kemur alltaf betri maður út og jafnvel með einhverjar nýjar og ferskar pælingar. Þetta er ekki bara bíó, þetta er líka hugveita. Ég er að detta í gírinn og nú verður tekið á því. Takk Hrönn Marínósdóttir fyrir að nenna þessu í öll þessi ár! Þrátt fyrir þetta vanalega, fjárhagsáhyggjur og betl, af því það þarf að nota peningana í lambakjöt og landkynningu, bjarga einhverju Sjalladrasli á Suðurnesjum (Steingrímur Joð) og svo moðerfokking framvegis. En munum samt að vonin er það síðasta sem deyr. (Sjá t.d. http://www.imdb.com/title/tt0118799/)

Ef þú vilt svo drulla þér af Facebook strax í kvöld (eða seinna) þá eru það THE SQUARE í Bíóparadís og UNDIR TRÉNU sem þú átt að fjölmenna á með undirhökuna, þín andlegu og líkamlegu mein, æxlunarfærin, heilann á þér og allt heila klabbið.

Allt hér að ofan gildir líka fyrir þau ykkar sem teljið ykkur vera alheilbrigð. Þið eruð hættulegasta liðið, oftast svo kallaðir siðblindingjar, sem er víst staðreynd að er til (á eftir að gúggla). Kjósendur hljóta að vita við hverja er átt.

Yfirlýsing: XS!

26 Sep

Ég ætla að setja Xið við S þann 28. okt. Flokkurinn virðist vera eins og mjúkur barnsrass um þessar mundir – gamalt sigg og sár fortíðar dottin af, vonandi koma þau sigg og sár ekki aftur.
Sumt í öðrum flokkum er ágætt, jafnvel mjög gott, en allavega þrennt (Inga Sæland, Hrægammar og Simmi) er algjört drasl og ekki til annars en að þvæla þessari aumingja „þjóð“ í gegnum enn ein svipugöngin að exa við það helvíti. 

Ég veit ekkert hverjir verða í framboði fyrir XS – ábyggilega einhverjir bjánar líka eins og gengur – nóg er nú af þeim í öllum flokkum. Formaður XS er Logi Einarsson, sem starfar einnig sem dansari með gleðibandinu Skriðjöklar frá Akureyri. Hér að ofan má sjá meistarann í kombakki 2012, á fjölsóttustu tónleikum Akureyrarbæjar. Logi er þessi í pilsinu.

Andverðleika-þjóðfélagið og ég

11 Sep

 

Ég hef lokið störfum fyrir Fjallakofann, Laugavegi 11. Ég vann þar í 15 mánuði, síðan í byrjun maí 2016 og þótti strax gaman að vera í búðarleik (lífið er leikur, manstu). Ekkert nema fínt fólk að vinna í Fjallakofanum og allir tóku vel í að fá fríkið mig til að vinna þarna. Fjallakofinn er lang besta útivistarbúð á Íslandi en ég hef reyndar ekki skoðað úrvalið annars staðar og því dáldið að tala út um rassgatið á mér með þessari fullyrðingu. Ég hafði labbað á mörg fjöll og svona, en var auðvitað enginn sérfræðingur á þessu sviði. Samt alveg ákveðinn í að standa mig og svoleiðis – ætlaði ekkert að gera þetta með rassgatinu.

Eftir eitthvað bix var ég orðinn herra verslunarstjóri á besta stað við Laugaveginn í ágúst 2016 og enn jókst ábyrgðin. Reyndar svo mikið að ég þurfti á ítarlegu kírópraktor-ferli að halda í desember því ég gat varla skeint mig eða sest inn í bíl vegna eymsla í mjóbaki. Ég er enginn Bubbi Morthens þegar kemur að líkamlegri vinnu sko.

Jæja góður í bakinu þreyði ég veturinn og datt inn í sumarið. Eftir Gautaborgarferðina kom ég heim fullur af hugmyndum um betra Ísland og hóf vinnu á ný aðeins fyrir Verslunarmannahelgina. Ég var í hvílíku stuði eftir Svíþjóð að ég breyttist í hinn (að mínu mati) fullkomna verslunarstjóra, sem reynir að sinna öllum kúnnum eins og þeir séu gamlir vinir. Ég var “hressi kallinn í búðinni” og lék við hvern minn fingur að sinna kúnnum.

Athugið að svona 95% af kúnnum á þessum stað eru útlendingar, ferðamenn. Það fólk kemur hingað vitandi sumt alveg svakalega lítið um land og þjóð og ég fann strax að ég væri ekki bara verslunarstjóri heldur líka einskonar fóstra og/eða starfsmaður á sambýli fatlaðra (tek fram enn og aftur að ég er ekki að gera lítið úr fólki sem vinnur þau illametnu störf í okkar yfirgengilega andverðleika-samfélagi). Mjög algengar spurningar túrsita eru bara “Hvar get ég pissað og/eða kúkað” og “Hvar er apótekið?” og “Hvar er eitthvað skemmtilegt sem er ekki Blue Lagoon eða Golden Circle?” Þessu svaraði ég af fagmennsku með aðstoð Reykjavíkur-korts á borði og/eða Íslandskorts á vegg. Ég hef eins og einhverjir muna kannski verið að dæma fjöll og sundlaugar og matsölustaði áratugum saman og verið okursérfræðingur Íslands og allskonar. Stundum meira að segja verið að spá í að vera uppistandari, svo þetta rann allt saman í Verslunarstjóra Fjallakofans, Laugavegi 11.

Gestir mínir voru ægilega hrifnir. Fólk á ferðalögum er yfirleitt glaðara en fólk heima hjá sér. Það er á nýjum exótískum stað, með öll skinfæri opin og til í nánast hvað sem er. Heldurðu að þetta fólk sé til dæmis mikið í því að kafa í Silfru eða álíka heima hjá sér, eða sjá norðurljósin eða á hestbaki etc? En hvílík er vanhæfnin á Íslandi að það er ekki enn búið að koma upp skítakömrum fyrir þessa gesti okkar – eða komugjöld eða neitt. Íslensk stjórnvöld eru hreinlega ekki hæf í annað en að moka peningum í hina ríku vini sína og frændur sína eins og öll dæmi síðustu misseri sanna. Ég nenni nú hreinlega ekki að eyðileggja þessa jákvæðu ritstjórnargrein með frekara tuði um þau ósköp en droppa samt því sem einn innmúraður missti út úr sér undir pressu: „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Úff… Jæja, aftur að einhverju skemmtilegu.

Sumir gesta minna komu aftur með gjafir til að þakka fyrir góða þjónustu. Ég er með heimboð (og nafnspjöld) út um allan heim, ógeðlega töff járndúnk af eðal sýropi frá Kanada upp á eldhúshillu og vonandi lifi ég í heilum ferðafólks heima hjá því. Ég man allavega sjálfur eftir þeim skemmtilegustu frá mínum ferðalögum. Arabanum hressa sem þóttist hella kaffi yfir Steina Sleggju á Miðjarðahafsstað í París, svo allir fóru í panik í 2 sekúndur en svo að hlæja, etc, etc.

Nú fóru brotin að raðast saman í þessari hugljómun minni. Bjarni töframaður og snillingur er með þrjá í vinnu að leiða túrista um miðbæinn og gera eitthvað skemmtilegt fyrir peninga. Ég sá þá oft með halarófuna þegar ég var að sækja kassa ofan í kjallara. Gaurinn með gítarinn að spila Bob Dylan og Tom Waits og lög eftir sjálfan sig var stundum rétt hjá mér og var að fá svipað og ég á tímann, ef ekki hreinlega miklu meira. En samt var ég svo bugaður af hlekkjum fortíðar að ég sá ekkert nema steady job og fastar mánaðartekjur, hugsaði ekki einu sinni: Fyrst Bjarni töframaður getur það þá ætti ég nú að geta það líka.

Hver heldurðu að hafi þá komið í heimsókn? Gamli verkurinn í mjóbakinu. Ó nei, ekki aftur! Svo nú var ég með bakverki að horfa á Bjarna töframann græða á túrisma á meðan ég sótti gaskassana niður í kjallara, æjandi og vælandi eins og týpískur alþýðu-Íslendingur til forna.

Svo kom annar í búðina, Kínverji sem kynnti sig sem aðalgaukurinn í músíkinni í Kína. Nú kom sér vel að ég hafði fengið að ráða kínverska stelpu sem er gift frænda mínum og náttúrlega miklu verðmætari en að fást við verslunarstörf við Laugaveginn því hún talar bæði kínversku og ensku og meira að segja “bara smá” íslensku líka. Hún gat skoðað kínverska internetið og staðfest allt sem sá kínverski sagði. Hann er ekki á vegum stjórnvalda heldur sóló og veit allt um allt og alla í Kína. Hefur þegar kynnt Kínverjum tónlistarlíf Ítala (hann býr 50/50 í Milano) og er kallaður “Marco Polo Kína” og var nú staddur hér með Blue Eyed Pop undir hendinni og hafði fengið að vita í Lucky Records að ég ynni í Fjallakofanum, Laugavegi 11 (Takk Ingvar og Gestur og kó!). Við skulum því segja að nú sé Kínamarkaður að opnast upp á gátt og þar eru peningar næstum í sama hlutfalli og vanhæfnin hér – ekki vandamál.

Lokahnykkurinn í að stóriðjustefna hugans lak loksins að fullu úr hausunum á mér var svo þegar Jón Gnarr kom og sótti Þórberg Þórðarson komplett á vinýl, en plöturnar þrjár hafði ég geymt handa honum í 9 mánuði eða svo, en hann var alltaf í Houston eða eitthvað. Hann var beisiklí fastur í sömu stóriðjustefnu hugans og hafði þegar fengið að kenna á því að á Íslandi er maður ekki metinn að verðleikum, ef verðleikinn er að reyna að gera eitthvað skemmtilegt. Einu verðleikarnir sem eru hér metnir einhvers eru að kunna að græða peninga fyrir sjálfan sig með aðstoð annarra í sömu pælingum, sem fyrir eru á fleti. Les: Allir flokkar í lýðveldissögunni eru eins, en XD og XB mest eins, því þeir hafa lengst “ráðið” með stóriðjustefnu-hugarfari svokallaðra kjósanda í svokölluðu lýðræði. Og ef einhver vill gera eitthvað annað öðruvísi er því troðið í skítinn umsvifalaust af hinum innmúruðu sem eru einhverjir tuttugu forríkir karlpungar í vikulega sauna eða eitthvað. En þetta er nú bara eitthvað sem maður “hefur heyrt” og ég vil pent takk, ekki fá einhverjar morðhótanir eins og Lára Hanna hefur fengið að kenna á. Þetta með baráttukonuna Láru heyrði ég nú bara í heitum potti í Hveragerði í gær. Maður fær aldrei frið til að hvíla sig og vinna í mjóbakinu í heitu pottunum því fólki er alltaf svo reitt þar og vill tala um það hvað það er reitt í pottunum. Jafnvel þótt það eigi að heita í hvíldarinnlögn í Heilsuhælinu í Hveragerði, sem já já, heitir eitthvað annað í dag.

Ég tilkynni því með mikilli gleði og þó nokkrum væntingum að fyrirtækið FARTING PEOPLE INC (FPI) er í farvatninu. Nafnið er auðvitað ensk þýðing á því fyrsta sem við Jón gerðum saman listrænt, lagið Prumpufólkið, sem allir kalla Prumpulagið og ég hefði betur látið heita. Það er eitt frægasta og þekktasta lag íslenskrar poppsögu, þótt ég hafi til þessa verið of bugaður af andverðleika-þjóðfélaginu til að vilja viðurkenna það fyrir sjálfum mér eða öðrum. Tuttugu ára gamalt lag (í október, þá verða liðin 20 ár síðan Abbababb! kom út), sem er enn sungið á mig út á götu af 3ju eða 4ðu kynslóð hlýtur bara að vera gott, fjandinn hafiða. Og 478K views and counting. Ég er orðinn svo sjálfs-verðmætur núna í seinni tíð að ég er löngu hættur að finnast það óþægilegt þegar krakkarnir byrja að prumpa á mig. Eða ömmurnar eða foreldrarnir að tala við mig um uppeldislegt gildi lagsins. Ég fór næstum að grenja nýlega þegar ein amman sagði að það fyrsta sem barnabarnið hafði tjáð sig svo skildist væri “ú-í-ú-í-ú”-ið í laginu. Það þekkja allir þetta meistaraverk, andskotinn hafiði. Ef ekki þá er það hér:

Að mjóbakinu er það að frétta að það er strax orðið betra eftir að ég hætti að bera alla þessa kassa handa túristunum og ég get nú bæði sest upp í bíl og skeint mig án þess að æja eins og fornmenni. Þar að auki er kona Jóns besti nuddari á landinu (að sögn Jóns) og þar á ég tíma fyrir næstu sigurgöngu – til Helsinki nk. sunnudag til að vera heiðursgestur á frumsýningu seinni heimildarmyndarinnar um finnsku fötluðu pönkarana sem fóru sigurför til Eurovision-lands 2015 og komu hingað í fyrra.

Eftir frumsýningu verður eftirpartí allra eftirpartíia því það verður sett upp einskonar “Mongos Got Talent” (afsakið þetta grín á kostnað fatlaðra) þar sem finnskir og ég keppa um atkvæði PKN (hljómsveitarinnar sem sé, sem hætti þegar aðalmaðurinn varð sextugur í fyrra) Auk mín (sem er með pottþétt siguratriði tilbúið og mun flytja það með aðstoð vinar míns Péturs Magnússonar, sem kemur að sjálfssögðu með til Finnlands og við lokum þar með hinum skemmtilega hring og ævintýri sem hófst þegar við sáum fyrri myndina saman í Bíóparadís 2012), koma fram Circle og Radiopuhelimet, sem eru gamlir þjáningabræður úr Finnlands-ævintýrum mínum 1992-1994, og tveir enn, sjá plaggat:

21151573_1542442652461270_6832409179695591666_n

Allt er gott sem endar vel en þetta ævintýri er nú vonandi varla byrjað enn þótt það hafi tekið á sig einhverja mynd. Mynd sem verður gerð opinber með oldstæl blaðamannafundi þegar þar að kemur. Þið, íslenskt blaðafólk sem eruð ekki öfundsverð af aðstöðu ykkar – nema þið vinnið á Morgunblaðinu – fáið bara boðskort og mætið þá, ef ykkur verður hleypt út úr hænsnabúrunum ykkar og eruð kannski búin að fylla upp í á milli Bónus-auglýsingana af einhverju innihaldsrýru drasli. Sorrí – Þið eruð öll ágæt en svokallaðir eigendur ykkar ættu að gera okkur öllum greiða með sitt dauða fjármagn og koma sér í burtu. Ef nýja Ísland á einhvern tímann að verða nýtt en ekki eitthvað gamalt Orkuveituhús í endalausu tjasli þá þarf að losna við óværuna, veggjatítlur Orkuveituhússins, ef þið vitið hvað ég er að meina.

Bless á meðan,
Gunni

PS: Lítið lag. Takið eftir ráðherrabílunum (svipaðar týpur og bílar handrukkara), byggingakrönunum og öllu. Mynd ársins 2017!

MANNGÆSKAN Á ÍSLANDI

29 Ágú

981706
Nú er von maður spyrji: Afhverju þarf Ísland að vera svona mikið Fasista- og Fávitaland? Er þetta lögmál sem við náum aldrei að sigrast á? Er enginn séns á breytingum?

Við erum bara 330.000 + sirka 2.000.000 ferðafólk á árs basis. Við búum við ótrúlega góð skilyrði á sjó og landi, ættum hreinlega að vera öfunduð af öllum heiminum fyrir að búa í vestrænni paradís. (Utan ramma er blessað veðrið – mér sýnist það vera ok í dag)

Auðvitað þarf fleiri hendur á dekk til að sinna öllu sem sinna þarf. Það er bullandi góðæri, krónan sterk svo við getum farið a.m.k. þrisvar til útlanda á ári með þokkalegri samvisku, keypt gott kaffi, keyrt um á glænýjum bíl og valið á milli eðalkosta í mat og drykk. Takk Costco! Takk allir þessir nýju staðir sem spretta upp eins og gorkúlur þökk sé fólksfjölguninni – Túristarnir eru vinir okkar, munið það.

En samt, SAMT, þarf alltaf allt að vera glatað. Nei nei, auðvitað ekki allt, og ekki alltaf, fólk er að gera sitt besta (skulum við vona), en samt er eins og enginn nenni í pólitík nema siðblindir skíthælar sem vilja hanga í gömlu XD/XB helmingaskiptareglunni og mata sjálfa sig við “Kjötkatlana”. Sorrí með klisjulegt orðalag, “Kjötkatlar”; en klisjur eru klisjur af því þær eru staðreynd.

Allavega: Þrátt fyrir allar forsendur fyrir paradísarlegri góssentíð er alltaf einhver viðbjóður á herðum okkar, og ef það er ekki rugl, augljós spilling og Mannanafnanefnd (eða það nýjasta: Hestanafnanefnd!) þá er það Útlendingastofnun, sem er eins og ríki í ríkinu. Og þá meina ég The Third Reich.

Nýjasta ógeðið sem Útlendingastofnun er nú að bjóða upp á hefur blaðamaður Moggans, Ingileif Friðriksdóttir, skrifað um á síðustu dögum. Síðast í gær, FJÖLSKYLDAN VERÐUR SEND ÚR LANDI og áður á föstudaginn, SEGJA DAUÐANN BÍÐA SÍN Í HEIMALANDINU.

Í stuttu máli segir tölva Útlendingastofnunar NEI og bætir við ÞIÐ VERÐIÐ AÐ DEYJA EÐA ÞJÁST ÞVÍ TÖLVAN SEGIR BARA NEI. Kannski veit ég ekki allt sem Hugo Boss-dressaðir starfsmenn Útlendingastofnunar vita. Kannski er pabbinn Sunday Iserien einhver voðalegur ISIS-öfgamaður og jafnvel morðingi, og mamman, sem heitir því kaldhæðnislega nafni Joy Lucky, einhver ægilegur skúrkur, en Hey! Dóttirin Mary er bara átta ára og hefur, að því ég best veit, ekki verið staðin að því að mæta með sprengjubelti í skólann.

Já auðvitað, hvernig læt ég. Þau eru dökk. Og kannski gyðingar líka? Íslandssagan sýnir að Kjötkatla-siðblindingjar fortíðar hafa alltaf gert sitt besta til að þvo hendur sínar af blökkumönnum, sent gyðinga út í opinn dauðann og síðast en síst, níðst á erlendu farandverkafólki, sem er að hjálpa til við að rústa landinu og svona, svo einhver kokteilapartí-kunningi græði aðeins meira – “Ekkert að sjá hér: Haldið bara áfram að taka myndir af matnum ykkar og grínast. Útlendingastofnun er með þetta undir kontról.”

Eitthvað hlýtur það að vera. Ég bara trúi því ekki að hjá þessari bévítans Útlendingastofnun starfi svo sálarlaust og siðblint fólk að það ætli bara sí svona að draga fólkið á náttfötunum út um miðja nótt til þess eins að rústa lífi þess enn og aftur. Kannski með fulltingi undirborgaðra og undirmannaðra lögreglumanna sem skammast sín fyrir land og þjóð og þurfa örugglega áfallahjálp eftir að hafa horft upp á aðfarirnar – og staðið fyrir þeim.

En (svo ég endi þetta alvörumál á kaldhæðnislegan máta): Sunday, Joy Lucky og Mary, átta ára, eru náttúrlega hvorki heimsmeistarar í skák, góð í handbolta (þá skipti litarhaft ekki máli) eða ruglaður maður frá Georgíu sem lærði skiljanlega íslensku upp á sitt einsdæmi og fékk því VIP meðferð með einu pennastriki Davíðs Oddssonar (eða hver sem það var) og urðu Íslenskir ríkisborgarar over night.

Ég er Íslendingur. Ég skammast mín fyrir þetta allt saman. Ef þú ert ekki algjör fáviti ættir þú að skammast þín líka.

PS: Nenni ekki að hlusta á “E gamla fólkið á Íslandi, geðveika fólkið og atvinnulausa fólkið (ef það er þá eitthvað atvinnulaust fólk ennþá til í góðærinu?)”-”svör”. Það er önnur umræða, önnur lota í verkefninu ÍSLAND BEST Í HEIMI 2020.

Ítarefni: Angela Markel er alvöru manneskja, ekki sálarlaust nasískt vélmenni – þótt hún sé þýsk.

Pink Hjöll – The Wall

17 Ágú

pinkhjoll-thewallPINK HJÖLL – THE WALL (2017 Redux)
Written by Hjörleifur Guttormsson
Produced by einhver gufa
Engineered by Bæjarvinnan

Tölvutækni Levono blús

12 Ágú

menu-2017-Baejarlind
Mér þykir fyrir því að vera að bögga ykkur, lesendur, með þessu röfli. Það er Gleðigangan mikla í dag og öll athyglin ætti að vera á því að njóta þess, sem mér finnst, Æðislegasti dagur ársins. Ég verð vonandi með tárin í augunum í mannfjöldanum á eftir (Gangan leggur af stað frá sirka Stjórnarráðinu kl. 14). Tárin í augunum því allt þetta húllumhæ og mannfjöldinn sem mætir, er að mínu mati stórkostlegasta sönnun þess að vér Íslendingar erum ekki algjör fífl (þótt margt annað sanni hið gagnstæða). Gleðin er líka sigurganga fólks sem hefur þurft að ganga þyrnum stráðan veg til þess eins að vera það sjálft. Baráttuandi hinsegin fólks hefur dregið aðra bælda og bugaða út úr sínum skápum; hvort sem það eru geðveikir eða offitusjúklingar o.s.frv. Miklu betra þjóðfélag er niðurstaðan og enginn þyrfti lengur að þurfa að bera harm sinn í hljóði. Við erum öll bara einhver slysaskot á leið í algleymið aftur. Njótum á meðan lífið varir.

Allavega. Röflið. Tölvutækni er eflaust ágætis fyrirtæki í „Kópavogi“, sem ég átti ágætis viðskipti við fyrir sirka 10-15 árum. Fékk alltaf toppþjónustu þar. Ég hef hinsvegar alfarið snúið mér að Tölvutek, en bara vegna þess að þeir eru ekki eins langt í burtu og frændi minn, Halldór Hrafn Jónsson, er þar einn af innstu koppum í búri. Tengdapabbi keypti hins vegar fartölvu hjá Tölvutækni og lenti í ömurlegri þjónustu sem varð á endanum til þess að hann strunsaði út skellandi hurðum og henti hinni ónýtu tölvu í mig. Þegar mitt gamla hlussudrasl gaf upp öndina fyrir viku fór ég loksins að nota Levonoið. Það var ekkert að fartölvunni og ég afskrifaði þetta hjá tengdó bara sem eitthvað rugl í gömlum manni (Tengdapabbi er 9 árum eldri en ég). Svo var það í gær að þetta ónýta fartölvuhelvíti neitaði að starta sig upp sama hvað ég hamaðist. 

Ég sendi því eftirfarandi á Tölvutækni á Facebook og cc á Facebook vegg minn með cc á fjölmiðlafólk sem ég mundi eftir og cc á fleiri sem gætu haft áhuga á þessu. Ath að skilaboðin voru skrifuð á LG G6 síma og því lítið skeytt um stafsetningu. Bein útsending á Facebook-vegg mínum hefst svo klukkan 11-11:30 og verður gaman að sjá hvernig Tölvutæknimenn begðast við. Svo sem týpískt eitthvað að það væri „Lokað vegna Gaypride“.

„Í ágúst 2016 keypti Therapi Ehf, kt 670xxx-xxxx, af ykkur Levono Yoga 3.14. Þessi fartölva er ónýt. Þegar hún kom úr 2ja vikna „viðgerð“ frá Nýherja fór tengdafaðir minn (eigandi Therapi ehf) með hana til Hvammstanga þar sem hann á heima og hélt að tölvan væri loksins i lagi. Eftir nokkra daga datt allt i sama girinn og þetta mánudagseintak sem þið selduð honum kveikti ekki á sér. I staðinn fyrir að láta þjakaðan manninn fá nýja tölvu af sömu tegund reif eigandi Tölvutækni bara kjaft sem endaði með því að tengdafaðir minn strunsaði út og mun aldrei aftur stiga fæti inn i verslun ykkar.

Nylega eignaðist ég þessa hormungar Levono fartölvu og hafði notað i viku þar i dag þegar hun bara ræsir sig ekki.

Eg kem þvi til ykkar á morgun laugardag um kl 12 með þessa onytu tolvu sem þið rukkuðuð 99.900 kr fyrir. I stað hennar fæ eg samskonar tolvu að fullu uppsetta. Munu þá ekki verða fleiri eftirmalar ut af þessu mali að minni hálfu. Ef þið ætlið hins vegar að vera með einhvern skæting og senda tölvuna í enn eina gagnslausa 2ja vikna yfirhalningu þá eruði jafnvel enn vitlausari en þið hafið þegar sýnt fram á að vera.

Se ykkur kl. 12, 
Dr. Gunni fv. Neytendafrömuður.

Ps. Afrit af þessum skilaboðum eru send á alla stærstu fjölmiðla landsins. Heimsókn min til ykkar verður send ut beint á facebbok live.“

Jón smákrimmi < Séra jón nauðgari

10 Ágú

Out-of-Thin-Air-police-lineup
Sá OUT OF THIN AIR í gær. Stórgóð heimildarmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ég hef aldrei sökkt mér djúpt í það svarthol/mál, en myndin er skýr og skorinorð og „skemmtileg“ – hélt vel og er virkilega vel gerð. Aðdáendur Making a Muderer fá hér mikið fyrir sinn snúð í lókal bakaríinu. Auðvitað er þetta allt eitt megaklúður, hvernig staðið var að málum. Ég heyrði einhvern tímann eftir Sævari Ciesielski að á fylliríum játaði hann hálfpartinn að hafa verið nálægt drápi á Guðmundi, en Geirfinn hafði hann aldrei heyrst minnst á. Þetta er eflaust eitthvað kjaftasögurugl því enginn sekur maður myndi leggja á sig það erfiði sem Sævar gerði til að fá sín mál út af borðinu.

Sævar rakst ég stundum á. Man eftir honum þegar Bless eða S.H,.Draumur var að æfa í Duus-húsi í Fischersundi og þá var hann bara fullur eða skakkur og vildi djamma með okkur. Ekkert ofbeldisrugl, en auðvitað var maður dáldið hræddur við hann. Svo þegar ég snapaði að fá að sitja í einum af köggum Ólafs Gunnarssonar með Dabba 5 ára eða svo, þá keyrðum við í Bæjarins bestu og Sævar rakst á okkur og var bara almennilegur þótt hann væri orðinn verulega sukkaður þá. Sem sé, bara hinn fínasti maður. OUT OF THIN AIR er þó meira um Erlu en Sævar og það helvíti sem á hana var dempt, nánast barn að aldri og með nýfætt barn.

Staðreyndir eru þessar: Engin lík hafa fundist. Enginn morðingi hefur fundist. Ungt fólk var beitt stjarnfræðilegu ofbeldi af fangelsishrottum Síðamúlafangelsis, sem voru ekki bara svona vegna þess tíma sem þeir lifðu í, heldur voru bara siðblindir og/eða fávitar. Það er líklega of seint að hundelta þessa ömurlegu menn uppi, þeir geta bara úldnað sig í hel og vonandi, þeirra vegna, skammast sín.

Hin staðreyndin er þessi: „Kerfið“ hleypur upp til handa og fóta til að veita barnaníðingi „uppreisn æru“ til að hann fái „sjálfssögð réttindi sín aftur“, en skellir áratugum saman skollaeyrum við bænum fólks sem á unga aldri var beitt áralöngu harðræði til að kreista út úr því játningar á einhverju sem það vissi ekkert, eða a.m.k. lítið, um. Bænum þessara fórnarlamba um endurupptöku málsins, eða „uppreisn æru“ hefur aldrei verið almennilega svarað af „Kerfinu“.

Það er ekki sama Jón eða Séra Jón? Nei, það er ekki málið. Við búum bara ennþá í Fávitalandi með fávitum og gagnslausum aumingjum sem við fávitarnir og aumingjarnir kjósum yfir okkur trekk ofan í fokking trekk.

(Myndin er komin í sýningar í Bíó Paradís)