Sarpur | janúar, 2012

Gestahænsn

30 Jan

Ég er gestahænsn á kvikmyndasíðu Hauks Morðingja, Snobbhænsn. Þar segir m.a. frá því þegar ég þurfti rígfullorðinn maðurinn að skríða upp í á milli foreldra minna af því ég var svo skelkaður eftir að hafa séð hryllingsmynd.

Gúmmígítar

28 Jan


Sko sjáðu nú þetta! Í hinum rammíslenska bland-í-poka bar Hagkaupa má nú fá svona ljómandi töff gúmmí í laginu eins og gítar. Smakkast reyndar ekkert æðislega (frekar en annað gúmmí) en er allavega töff.

Það er eitthvað rammíslenskt er við laugardagsuppgripin í nammibarnum. Fólk svoleiðis alveg missir sig. Sumir krakkar eru að fara þarna út með kíló af sykri í pokunum sínum. Ég sýni mikla yfirvegun og kaupi aldrei meira en 200 gr og finnst eiginlega betra að fá mér úr „heilsu“-nammibarnum, sem eru súkkulaðihúðaðar hnetur og svoleiðis.

Líklega verður nammibarinn bannaður á endanum. Þá verður nammibar bara í Árbæjarsafninu.

Þögli artistinn og ólánsamir kvenmenn

27 Jan


Þá er Frönsk kvikmyndahátíð hafin í Háskólabíói og slatti af gúmmilaði þar. Fór á The Artist í gær sem er eins og fólk veit svart/hvít og þögul en ekki í 3D og með tæknibrellum (eða jú, það getur vel verið að það sé allt vaðandi í tæknibrellum í henni, en hún er allavega ekki í 3D). Mér fannst þetta fín mynd. Maður er alltaf aðeins á varðbergi þegar myndir hafa fengið jafn sláandi einróma lof, en þessi á það alveg skilið. Myndin byggir á frásagnastíl mynda frá þessum s/h-tímum en víkkar formið heldur betur út. Er ótrúlega flott og skemmtileg, algjör feel-good mynd og hvað er betra en smá fílgúdd í þessum endalaus helvítis snjóþynglsum og myrkri. Ég er næstum því að verða brjálaður út af þessu og bryð magnesium til að stemma stigu við depurð og kvíða! Pottþéttar fjórar stjörnur á Artistann.

Myndin gerist sirka 1927-1937 og svo vill til að ég hef verið aðeins á kafi á svipuðu tímabili. Ég tók törn í Chaplin-myndum og sýndi krökkunum mínum allar bestu myndirnar hans frá The Kid í Modern Times. Krakkarnir  (4 og 8 ára) voru alveg heillaðir og gaman er að sjá að töfrar snillingsins eru enn virkir. Þá hef ég verið að kynna mér tímabilið – og aðeins aftar í aldir – fyrir hinn gríðarlega dægurlagasögudoðrant sem ég er að fínpússa þessa dagana. Kemur út í haust.

Horfði líka á myndina Another Year eftir bresku raunsæjiskempuna Mike Leigh. Þar er fylgst með vonlausu fólki og ekkert vonlausu. Algjöran leiksigur vinnur Lesley Manville, sem leikur hina ólánsömu Mary. Það er týpa sem brennir sig inn í minnið á manni. Aðrar fjórar stjörnur á þessa mynd.

Önnur ólánsöm manneskja er stundum hjá manni á kvöldin í formi Amy, sem Laura Dern leikur í þáttunum Enlightened. Ágætir þættir. Svo er ég líka að horfa á þættina Homeland og þar er eiginlega ein ólánsöm kona í viðbót, CIA-konan Carrie, sem Claire Danes leikur. Hún leikur á móti rauðhærðum gaur sem lítur út eins og millistigið af Ásgeiri Kolbeins og Steingrími Joð. Gaman að sjá rauðhærðan karl í sjónvarpinu. Sjaldgæft. Homeland-þættirnir eru alveg ok, samt ekki jafn góðir og þrumustöff eins og Breaking Bad, Dexter eða Boardwalk Empire.

Leiðinlegasta Bítlalagið á íslensku

18 Jan


Eins og einhver man kannski var ég með dagskrárliðið Bítlarnir á íslensku á blogginu mínu fyrir allnokkru. Ég hélt ég væri búinn að klára öll íslensku Bítlalögin en þá fékk ég sent eitt nýtt um daginn – Takk Helgi Jónsson! Þetta er reyndar eitt leiðinlegasta „Bítlalagið“ (auðvitað væri nær að segja Paul McCartney lag því hinir koma hvergi nærri), sjálft Yesterday – mest kóveraðasta lag í heimi (það hlaut að vera til á íslensku!) Og ekki verður það skemmtilegra þegar reynt er að gera það að jólalagi!

Í einhverri svona bjánalegri Facebookdellu sem gekk um daginn kom í ljós að Yesterday var einmitt á toppi Bandaríska vinsældarlistans þegar ég fæddist (7. okt 1965). Því ætti lagið að vera mér kært. Það er það alls ekki og ég gekk út til að míga þegar Palli tók það á Madison Square þarna þegar ég sá hann í kringum afmælið mitt 2005.

En jæja. Hér er Helena og Hljómsveit Ingimars Eydal með Yesterday á íslensku. Horfðu á er texti eftir Birgi Marinósson. Lagið er síðasta lagið á jólaplötu sem Tónaútgáfan á Akureyri gaf út árið 1969 (T 02). Kirkjukór Akureyrar syngur jólasálma við undirleik Jakobs Tryggvasonar á A-hlið, en B-hliðin er í höndum Hljómsveitar Ingimars Eydal og þar syngja þau Helena og Þorvaldur samtals sex jólalög.

 Helena Eyjólfs með Hljómsveit Ingimars Eydal – Horfðu á mig

Skeggið á Mugison

12 Jan


Það geysar Mugison-æði og trilljónir króna streyma verðskuldað inn á reikning listamannsins (eða svo skilst mér á fréttum. Meira hvað þessar blöðrur á fjölmiðlum eru alltaf uppteknar af peningum – „hafa þær ekkert lært á hruninu?“). Mugison-æðið hefur nú breiðst út í tribjút-lag, sbr. lög eins og We love the Beatles með The Vernons Girls. Hinn dularfulli en mjög svo vinalegi flytjandi Sockness hefur gefið út EP-plötuna The Angriest  Radio Station og þar má heyra lagið Skeggið á Mugison. Afburða lag og skemmtileg plata! Tékkið á þessu gæðadóti á Gogoyoko. Sjálfur er Mugison ánægður með framtakið og segir „frábært stöff“ um það á Facebook.

Júró-vertíðin hafin

11 Jan


Þrátt fyrir lokkandi von um ókeypis ferð til Azerbadjan sendi ég ekkert lag inn í Eurovision í ár. Fimmtán lög, sem eflaust eru hvort öðru betri, munu þó keppa um flugmiðana og hóteldvölina glæsilegu í þessu dularfulla landi. Fyrstu fimm lögin berjast til síðasta blóðdropa  á laugardaginn. Dýrðina má heyra hér. Usual suspekts eins og Heiða „Idol“ og Sveinn Rúnar Sigurðsson (hann er víst með 3 lög í ár) eru með fyrsta kvöldið, en þá eru líka óhefðbundnari keppendur eins og Varði úr Varði fer á vertíð (hinni frábæru mynd Gríms Hákonarsonar), sem semur og flytur lagið Rýtingur (óvenjulegt lag, smá folk-teknó (eða eitthvað)) ásamt Gesti Guðnasyni.

Mér finnst þetta umstang allt saman nokkuð skemmtilegt og krökkunum finnst það líka. Við verðum límd við kassann alveg fram í maí.

Alveg tímanlega er svo komin út nótna- og söngbókin Gleðibankabókin, sem er mikill kostagripur eftir Gylfa Garðarson. Þar er ýmiss fróðleikur um hlut Íslands í keppninni og nótur og gítargrip fyrir öll 24 íslensku sigurlögin. Gríðarlega vönduð og flott bók sem fæst í hljóðfærabúðum og í Eymundsson. Nánari upplýsingar um Gleðibankabókina má finna hér.

Þvaður

10 Jan


Ég hamast hér við að klára hinn ódauðlega poppdoðrant sem kemur út í haust. Ég veit ekki ennþá hvað bókin á að heita. Ætlaði að hafa það Stuð stuð stuð, en er farinn að finnast það ekki nógu góður titill. Undirtitillinn verður þó líklega Saga íslenskrar dægurtónlistar, eða eitthvað slíkt. Ertu með einhverja góða hugmynd að nafni? Mátt alveg skjóta á mig hugmyndum í kommentakerfinu.

Get því eðlilega ekki eytt dýrmætum tíma í eitthvað bloggvesen, en verð þó að þvaðra smá um þrjár myndir sem ég sá og eina bók sem ég las, af því ég er svo anal.

30 Minuetes or less er skítþokkaleg grínmynd um misheppnaða náunga sem pína pízzasendil til að ræna banka fyrir sig. Ágætis grínarar þarna á ferð,  Aziz Ansari úr  hinum fínu Parks and Recreation þáttum og Danny McBride úr hinum rosafínu Eastbound & Down þáttum þar fremstir í flokki. Þeir fá reyndar ekki mjög djúsí stöff til að vinna úr. Þetta er bara sirka tveggja stjörnu mynd og það má lafa yfir henni.

Puss in Boots er fín og skemmtileg teiknimynd. Ég sofnaði ekkert yfir henni. Þrjár stjörnur.

The Guard er írsk mynd um vitlausa lögga. Eða er hún snjöll? La la stöff, hefði líklega verið betri ef ég hefði skilið aðeins meira í henni (írskur framburður er hefí). Tvær stjörnur.

Svo las ég bókina Secret Lives of Great Filmmakers e. Robert Schnakenberg. Þar er reynt að finna undarlegan skít á gommu af frægustu leikstjórum sögunnar auk þess sem farið er yfir feril þeirra. Alveg ágætis snakk, þrjár stjörnur.

Hreystikaffi

8 Jan


Nýjasta nýtt í Hagkaup – Fitness Coffee. Kemur í kjölfar Vitamin Water. Ku vera fullt af „andoxunarefnum“ sem er nýlegt gimmikk í heilsubransanum. Held ég kaupi þetta ekki, bara einum of skrýtið og óviðeigandi að sjá íþróttafólk framan á kaffipakka. Hvað ætli komi næst? Detox tannkrem?

Uppstoppuð með jólasveinahúfur

2 Jan

Í hinni frábæru Náttúrufræðistofu í Kópavogi (opið á sama tíma og bókasafnið – ókeypis inn!) ríkir svo gríðarleg jólastemming að sum uppstoppuðu dýrin (og nokkrar skeljar meira að segja) eru komin með jólasveinahúfur. Þetta er frábært grín – ég hló og hló!
Ævisaga Alans Partridges

2 Jan


Eitt fyndnasta fyrirbæri heimsgrínmenntanna er útvarps- og sjónvarpsmaðurinn Alan Partridge, sköpunarverk grínistans Steves Coogans. Hann „sá um“ Hemma Gunn-lega þætti sem heita Knowing me, knowing you, en svo voru framleiddar tvær seríur um hann (I’m Alan Partride I og II) þar sem fylgst er með honum fóta sig í daglega lífinu eftir sjónvarpsþættina. Allt saman ótrúlega gott stöff. Í fyrra kom út „ævisaga“ hans, I, Partridge – we need to talk about Alan, sem ég var að lesa um jólin. Þetta er alveg sprenghlægileg bók (4 stjörnur!).

Það er víst bíómynd um „kappann“ á „teikniborðinu“, en fyrir áhugasaman má benda á að Youtube er nokkuð pakkað af nýlegu efni með honum: Hér ræður hann um ævisöguna og Mid Morning Matters voru „læf úr útvarpsstúdíóinu í Norwich“-smáþættir sem voru sýndir fyrst á heimasíðu Fosters bjórtegundarinnar. Það eru heilir 12 þannig til.