Sarpur | Músík RSS feed for this section

10 x Airwaves

30 Okt

Þá er bara eftir að mynda ríkisstjórn. Sama hvernig fer verður helmingur landsmanna hundóánægður og ósáttur við þá ríkisstjórn. En nú er kominn tími til að einhenda sér í eitthvað hressara, eins og til dæmis Airwaves hátíðina sem leggur alla þessa viku undir sig. Ég hef rýnt dáldið í hið mikla framboð og fæ ekki betur séð en þetta séu atriðin sem ég ætla ekki að missa af. Tíu bestu erlendu atriðin á Airwaves. Þar til annað kemur í ljós, auðvitað. Ég get ekki sagt að ég viti mikið um þessi bönd, svo það er bara að vaða í þetta, algjörlega blint og vona það besta. Svo er náttúrlega hellingur af íslensku stöffi svo enginn ætti að fara ósáttur heim. Dagskrá og offvenue-dagskrá.

ГШ/Glintshake – Snyrtilegt nýbylgjurokk frá Moskvu. Gæti þess vegna verið hljómsveit frá 1980. Hafa verið til í 5 ár og eru að gefa út þriðju plötuna sína um þessar mundir.

Songhoy Blues – Afríkufönk frá Malí á uppleið með tvær plötur í farteskinu. Sú seinni, Résistance, kom út á þessu ári og erlend poppblöð halda vart vatni. Pottþétt stuð. 

Jo Goes Hunting – Trommandi söngvari, hollenskt nýbylgjupopp, glænýtt band. Fyrsta lag í spilun lofar góðu.

Pale Honey – Sænskar konur með tvær plötur. Heflað gítarpopp indie.

Hey Elbow – Meira sænskt, tríó frá Malmö. Þetta lag er gott.

Fai Baba – Gítarindie frá Sviss. 

Fazerdaze – Gítarindie frá Nýja Sjálandi – í beinu framhaldi af nýsjálensku indiegítarrokki eins og The Clean og The Bats.

Aldous Harding – Meira nýsjálenskt, listakonan Aldous sem er á díl hjá 4AD. 

Xylouris White – Lúturokk frá Grikkjanum George Xylouris og ástralska trommaranum Jim White, sem hefur spilað með Dirty Three.

Michael Kiwanuka er breskur og sólaður á því í gamlar ættir. Hefur gefið út tvær plötur.

ABBABABB! – Prumpulagið 20 ára

13 Okt

sedogheyrt-skapti
Í dag eru liðin 20 ár síðan Abbababb! með Dr. Gunna & vinum hans kom út. Að því tilefni fer fram afhending gullplötu (5000 eintök seld) í Smekkleysu plötubúð, Laugavegi 35. Giggið byrjar kl. 16:00.

Abbababb! var tekin upp um sumarið 1997 af Valgeiri Sigurðssyni í Gróðurhúsinu, sem þá var glænýtt í iðnaðarhúsnæði í Smiðjuhverfi, Kópavogi. Þetta var fyrsta platan sem tekin var upp í Gróðurhúsinu. Auk Valgeirs var Birgir Baldursson helsti hjálparkokkurinn við gerð plötunnar. Hann trommaði og hjálpaði til við útsetningar og pælingar. Heiða Eiríksdóttir var heldur aldrei langt undan með söng og ráðleggingar – og samdi auk þess hið tregafulla lokalag, “Kisa mín”.

Mikill gestagangur er á Abbababb! Í upphafi var Jakobi Frímanni Magnússyni boðið að vera Hr. Rokk og leika hlutverkið með “Út á stoppustöð”-röddinni. Hann hafnaði boðinu og hefur síðar sagt að það séu hans stærstu listrænu mistök á ferlinum. Í staðinn var Rúnar Júlíusson kallaður til, en hann hafði áður gert gott mót í laginu “Hann mun aldrei gleym’enni” með unun. Rúnar tók Hr. Rokk svo óaðfinnanlega að hann var allar götur síðar kallaður Hr. Rokk.

Magga Stína spilaði á fiðlu og söng bakraddir og aðalrödd í “Strákurinn með skeggið”. Páll Óskar kíkti inn og söng “Dodda draug”, en það lag er eftir Paul Caporino úr bandarísku pönkhljómsveitinni MOTO, sem spilaði með Bless í USA 1990. Skapti Ólafsson var rifinn í stúdíó í fyrsta skipti síðan 1958 og söng í “Lalla-laginu” með Steini, syni sínum.

Dr. Gunni gat lítið fylgt plötunni eftir, enda í hörkumeiki með unun í útlöndum, eða í ástarmóki með nýrri kærustu í Bandaríkjunum. Einhver gigg voru þó tekin fyrir jólin 1997, meðal annars á uppskeruhátíð tímaritsins Æskunnar, þar sem Magnús Scheving kom einnig fram á frumdögum Íþróttaálfsins.

Pall Oscar Abbababb

Strax fór að bera á miklum vinsældum “Prumpulagsins”. Gunni hafði beðið Jón Gnarr að semja texta um prump og annan til. Niðurstaðan voru lögin “Óli Hundaóli” og “Prumpufólkið” – eða “Prumpulagið”, eins og gáfulegra hefði verið að kalla lagið. Árni Sveinsson gerði myndband við lagið, sem sló í gegn. Þarna fyrir jólin 1997 lá því prumpuský yfir landinu og ballsveitir hömuðust við að spila lagið á böllum. Krakkar víðsvegar voru með prump á heilanum og sögur bárust um siðavandar leikstjórastýrur sem hreinlega bönnuðu lagið – og jafnvel plötuna alla – á sínum leikskóla.

Abbababb! Seldist í 4000 eintökum fyrir jólin 1997 en önnur þúsund eintök hafa mjatlast út á þeim 20 árum sem liðin eru. Lengi lifir svo í góðu prumpi, eins og ég er reglulega minntur á á götum úti. Það þekkir hvert íslenskt mannsbarn Prumpulagið, enda er prump fyrsti brandari mannkynsins og líklega sá besti.

Eins og áður segir fer afhending gullplötunnar fram kl. 16 í dag, föstudaginn 13. okt – í Smekkleysu plötubúð, Laugavegi 35. Allir eru velkomnir til að samfagna, sérstaklega þeim sem finnst prump fyndið – og hverjum finnst það nú ekki?

DV-JAJ

Peningar og popp

8 Okt

Alveg er ég að drepfíla þessa ungu poppara í dag í hipphoppi. Þeir eru svo sjálfsöruggir og æðislegir að það hálfa væri nóg. Þeir vita hvers virði þeir eru og selja sig dýrt. Þannig á það að vera. Listamenn fyrri áratuga hafa alltaf verið eins og kettir í kringum heitan graut peninganna og hálfpartinn selt sig alltof ódýrt og svo vælt við hvert tækifæri að þeir séu alltaf blankir. Nú, hverjum er það að kenna? Þeim sjálfum!

Popp og önnur list verður að lúta þeim lögmálum sem í gangi eru. Og þau lögmál heita money talks og bullshit walks. Þetta lið eins og Joey Christ, Hr. Hnetusmjör, JóiPé og Króli etc hreyfa sig ekki fyrir minna en 200þ kall á gigg. Mæta svo með playback og gera góða hluti, fá borgað og end of storí. Veit samt ekkert hvort þeir séu misdýrir eftir tegund giggs. Kannski eitthvað minna ef þeir eru að spila í barnaskólum og svona.

Þetta er nú eitthvað annað en þegar ég var í S.H.Draumi og Bless og maður stökk hæð sína í loft upp af gleði ef 54 borguðu sig inn. Það var náttúrlega svo lítill áhugi á manni  þegar þetta var að gerast. Bankagjaldkerinn ég sá um uppgjör. Eftir gigg fórum við í Bless með kaffibolla fullan af cash upp í Smiðjuhverfið í Kópavogi á einhvern late night stað, átum og ég taldi og skipti, dugði allavega fyrir borgaranum og nokkrum sígarettapökkum.

Svo kom unun og maður var að fá 50kall á mann fyrir einhver menntaskólaböll 1995. Mjög næs þetta popparalíf. Einu sinni fyrir hrun fékk ég 50þ fyrir að koma og spila Prumpulagið í bæjarhátíð í Mosfellssveit. Felix var kynnir og reddaði þessu. Ég var allan tímann í bílnum í bæinn að skammast mín á því hvað þetta væri fáránlega mikið fyrir eitt lag. Mér fannst ég vera að svíkja alþýðuna eða eitthvað svoleiðis – gamalt uppeldislegt kommarugl, sem gerði ráð fyrir að listamenn væru aumingjar sem ættu að þjást peningalausir með svokallaðri alþýðu, sem er hugtak sem virkir í athugasemdum eru strax farir að tuða um. Þeir gera ráð fyrir að allt sé eins og í 1. maí göngu 1976 og að allir séu ennþá í grænum Álafossúlpum, steytandi hnefann með einhverjum Guðmundi Jaka sem er á þrefalt hærri launum en þeir.

Þannig er þetta nú aldeilis ekki lengur á frábærri öld internetsins. Og þetta veit nýjasta kynslóð poppara sem gæti ekki verið meira sama um eldgömul hugtök og kommarugl. Ég er búinn að komast að því að Joey Christ er bestur af þessum strákum. Platan hans, Joey, sem kom út í sumar er ein af allra bestu plötum ársins og full af frábærum lögum. Hér er dæmi.

Hér er rappið kynjaskipt eftir því sem ég kemst næst. Ég er auðvitað ekkert tuttugu ára lengur og hangandi með þessum krökkum, enda væri það bæði sorglegt og krípí. Stelpur eru að gera frábæra hluti en bara ekki eins poppaða og þessir hnakkarapparar allir. Kvarnast hefur úr Reykjavíkurdætrum, eða svona það eru komin afbrigði. Cyper er frábært dæmi og Fever Dream er Vigdís Howser Harðardóttir og er að koma með drullunetta plötu, Nom De Guerre. Ég veit ekkert hvað hún er að fá fyrir gigg.

Gylfi Ægisson er bestur!

6 Okt


Ég hef nú þegar beðist afsökunar á þessum mistökum – stærstu mistökum míns listræna ferils – en nú kemur önnur afsöknarbeiðni og nú fylgir lag og myndband með.

Þetta var sem sé þarna 2013 og við að taka upp plötuna Alheimurinn! í Geimsteini, Keflavík, með Júlla og Baldri sonum Rúnna júl, en samt aðallega með snillingnum Björgvini syni Baldurs. Þarna komu allskonar snillingar, Helgi Björns, Jóhann Helgason, Steinunn Eldflaug og Haukur morðingi, Lóa í FMBelfast og svo auðvitað Frikki Dór sem söng hittarann rosalega, Glaðasta hundinn. Ég hafði beinlínis samið eitt lagið – Brjálað stuðlag – eftir að ég mætti Gylfa Ægis koma í viðtal á Rúv. Ég smitaðist af lífsgleðinni í honum og samdi lagið á leiðinni frá Rúv í World Class, Laugum, þar sem ég var að fara í spinning. Raulaði inn á símann og vann svo seinna, en hugmyndin var fædd.

Nú, Gylfi mætir frá Vogum í Vatnsleysuströnd í Kef og tekur þetta á nóinu og er bara hress og skemmtilegur. Þetta er maðurinn sem samdi Í sól og sumaryl, Stolt siglir fleyið mitt og Minning um mann, og það eitt og sér ætti að vera nóg til að hann væri hafinn yfir gagnrýni og á heiðurslistamannalaunum. Allir ánæðgir með teikið. Svo var bara að fá JFM með syntann og taka Mugison upp í Súðavík. Bjartmar datt nú bara inn og var gerður að sögumanni. Enginn fékk krónu fyrir, ekki frekar en ég eða Heiða, sem gerði plötuna með mér.

Svo byrjaði Gylfi að röfla um Gay pride og fyrr en varði varð hann ógeðslegur viðbjóður hjá fúla fólkinu og ég eins og aumingi fór að skjálfa og sjá fyrir mér útskúfun og hrun á plötusölu. Panikk og Sóli Hólm döbbaði Gylfa eins og snillingurinn sem Sóli er, en samt hver vill ekki frekar orginalinn frekar en eftirprentun?

Fýlustrákar og fýlustelpur þessa fríklands munu aldrei beygja mig aftur. Það er loforð!

PS. Heiða var að gera frábæra plötu, Artist Celery.

Bestu plötur ársins 2016

10 Des

bestu2016
Venju samkvæmt kemur hér persónulegur Bestu plötur ársins 2016 listi ársins. Líklega er ég að gleyma einhverju. Þetta er svona það sem ég hlustaði mest á og fílaði best. 

  1. Emmsjé Gauti – Vagg & velta
  2. Reykjavíkurdætur – RVK DTR
  3. Benni Hemm Hemm – Skordýr
  4. Bambaló – Ófelía
  5. Tófa – Teeth Richards
  6. Snorri Helgason – Vittu til
  7. Cyber is Crap – EP
  8. Suð – Meira suð
  9. Amiina – Fantomas
  10. GKR – GKR
  11. Ýmsir – Myrkramakt II
  12. Mugison – Enjoy!

Ég hlustaði líka á og fílaði eitthvað erlent – aðallega er þó gripið í hitt og þetta og ekki alveg haft tíma og athygli fyrir heilar plötur. Því get bara gert helmingi minni lista.

  1. Solange – A seat at the table
  2. The Avalanches – Wildflower
  3. Savages – Adore Life
  4. Anna Meredith – Varmints
  5. Pavo Pavo – Young Narrator in the Breakers
  6. Car Seat Headrest – Teens of Denial

Allt í allt var 2016 frekar tíðindalaust ár. Rappið náttúrlega í fínni uppsveiflu – mest að gerast þar – rokkið eins og eitthvað gamalt hjakk og lítið spennandi þar. En það eru breytingar í vændum, held ég. Ég hef fulla trú á að 2017 verði sterkt ár í músík. 

Á degi íslenskrar tónlistar

1 Des

fullveldispunk2
Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á Fullveldispönk! í Hard Rock Café í kvöld. Við erum að tala um tvöfalt kombakk Jonee Jonee og Tappa tíkarrass, klassískt popppönk Fræbbblanna og nýrokk Suðs. Verður gjörveikt. Allir eru til í tuskið og bátana og hér má sjá Jonee Jonee æfa sig á dögunum. MIÐASALA Á MIÐI.IS

******

Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á Karolínusöfnun Heiðu og plötuna hennar FAST. 

******

Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á að 12 þátta-röðin Popp og rokksaga Íslands er enn í forsölu á 5000 kall hér. 3ja diska DVD-pakki er væntanlegur á næstu dögum. Pantið hér.

Pönk hreinsar

6 Nóv

Airwaves-skýrsla 2. Ég fór ekki á svið í ár en í staðinn át ég svið. Hálfan haus og verð eiginlega að segja að svið eru ógeðsleg. Einu sinni á ári er algjört topps á þá fæðu. Sú ömurlega staðreynd blasti við að finnsku pönkararnir í PKN færu á svið á Gauknum á nákvæmlega sama tíma og Dr Spock færu á svið í glænýjum kjallara Hard Rock Café. Út undan hafði ég heyrt að gerð yrði úrslitatilraun til að fá Rotten á svið með Spock til að syngja Pistols slagara. Ég var í sambandi við umboðsmann Finnana þar sem þeir meistarar vildu ólmir hitta Rotten. Nú, það sem gerðist í þessari bóndabeygju var að ég fór á Hard og sá sett með Ensími. Þeir eru alltaf góðir og skemmtilegir, spiluðu slagara í bland og voru hressir. Næst komu Spock og gjörsamlega tættu sig í gegnum gullfallegt sett. Rotten stóð reyndar aftast en fann aldrei andann koma yfir sig til að fara á svið og þar að auki I do not do that shit. Ekkert God Save The Queen sem sé. En djöfull voru Spock góðir, algjörir yfirburðir. Þegar þessu var lokið voru Finnarnir farnir að sofa, dauðþreyttir og pönkaðir. Liðið hópaðist að Rotten í pönkselfí og hann hélt sér síðan í stuði eitthvað fram eftir en ekki of lengi því það er Arsenal-Tottenham í dag sem þeir Rambo verða að sjá (báðir Arsenal-menn).

Í dag er svo stíf dagskrá sem hefst kl. 13 þegar PKN koma í opinbera heimsókn í Pönksafnið. Það mega allir fjölmenna þangað. Svo eru þeir með offvenue fyrir Þroskahjálp í Iðnó frá kl. 17 – allri velkomnir, ókeypis inn. Auk þeirra mun norska hljómsveitin Make Dreams Concrete koma fram, en hún ku skipuð utanveltu krökkum sem finna styrk í pönki. Allir geta fundið styrk í pönki, spurðu bara Óttarr Proppé sem öskrar úr sér stjórnarmyndunartrega og hreinsast og endurfæðist í gegnum pönk. Sumir íhuga, aðrir pönka. Hér er tóndæmi með Make Dreams Concrete.

Kassettur Pönksafnsins

2 Nóv

2016-10-31-10-34-15
Pönksafnið opnar í dag kl. 18:30. Og verður svo opið um næstu framtíð. Tvær safnkassettur koma út í dag og verða eingöngu til sölu í safnabúð Pönksafnsins. Download kóðar fylgja svo það er engin ástæða til að þú gerir dauðaleit að kassettutæki í Góða hirðinum (þó það sé í sjálfu sér ekki slæm hugmynd). Ég setti þessar kassettur saman og er gríðarlega ánægður með þetta. Hér er innihaldið:

(SOÐIÐ) PÖNKSAFN
Hljóðversupptökur / Studio Recordings

A:
01 Bubbi Morthens – Jón pönkari (af Ísbjarnarblús LP 1980)
02 Fræbbblarnir – Bíó (af Viltu nammi væna? LP 1980)
03 Taugadeildin – Hvítar grafir (af EP 1981)
04 Purrkur Pillnikk – Gluggagægir (af Ekki enn LP 1981)
05 Jonee Jonee – Helgi Hós (af Svonatorrek LP 1982)
06 Megas – Krókódílamaðurinn (af The Boys From Chicago LP 1983)
07 Kamarorghestar – Rokk er betra (af Bísar í banastuði LP 1981)
08 Án orma – Dansaðu fíflið þitt dansaðu (af 7″ 1981)
09 Sonus Futurae – Myndbandið (af Þeir sletta skyrinu… Mini-LP 1981)
10 Grafík – Videó (af Út í kuldann LP 1981)
11 Fan Houtsens kókó – Grænfingraðir morgunhanar (af Musique Elementaire kassetta 1981)

B:
01 Þeyr – Rúdolf (af Mjötviður mær LP 1981)
02 Q4U – Böring (af Q1 Mini-LP 1982)
03 Utangarðsmenn – Hírósíma (af Geislavirkir LP 1980)
04 Grýlurnar – Betri er limur en limlestir (af Mávastellið LP 1983)
05 Tappi Tíkarrass – Skrið (af Miranda LP 1983)
06 Baraflokkurinn – Catcher Coming (af Mini LP 1981)
07 Spilafífl – Playing Fool (af 3 – 30. júní 7″ 1982)
08 Chaplin –Teygjutwist (af 7″ 1981)
09 Vonbrigði – Ekkert (af Kakófónía Mini-LP 1983)
10 Bodies – Lonely (af 12″ EP 1982)
11 Oxsmá & Bubbi – Me & My Baby (af Biblía fyrir blinda kassetta 1983)


(HRÁTT) PÖNKSAFN

Óútgefið – læf & demó

A:
01 Halló & Heilasletturnar – Amma spinnur galið (Læf á Kjarvalsstöðum 8. ágúst 1978)
02 Snillingarnir – Kids (Demó að Rauðalæk 1980)
03 F/8 – Bölvun fylgi þeim (Í bílskúr í Kópavogi haust 1980)
04 Taugadeildin – Íslandi allt (Læf í Kópavogsbíói 22. maí 1981)
05 Allsherjarfrík – Lögbrot (Læf í Uppsölum, Ísafirði, nóvember 1982)
06 Utangarðsmenn – Leiðinlegt lag (Læf í Kópavogsbíói 21. febrúar 1981)
07 Fan Houtsens kókó – Þriggja stúlkna rúmba (Læf í Kópavogsbíói 21. febrúar 1981)
08 N.A.S.T. – Anarkisti (Læf í Kópavogsbíói 22. maí 1981)
09 Sjálfsfróun – Allir krakkar (Læf í N.E.F.S. 16. des 1981)
10 Stífgrím – Dansskóli Heiðars Ástvaldssonar (Læf á Rútstúni 17. júní 1980)
11 Q4U – Menn (Læf í Háskólabíói 30. mars1983)
12 Fræbbblarnir – Bjór (Læf á Hótel Borg vor 1981)
13 Geðfró – Stundum (Læf í N.E.F.S. 21. okt 1981)
14 Vonbrigði – Holdleg atlot (Læf í Safarí 9. ágúst 1984)

B:
01 Jonee Jonee – Brot (Rúv 2007)
02 Haugur  – Skuld (Æfingahúsnæði í Garðabæ, vorið 1983)
03 Þursaflokkurinn – Jónarnir í skránni (Demó 1981 fyrir kvikmyndina Jón Oddur og Jón Bjarni)
04 Baraflokkurinn – It’s All Planned (Demó úr Stúdíó Bimbó vor 1981)
05 Oxsmá – Rokkum og poppum (Læf í Tívolí í Hveragerði 17. júní 1985)
06 Purrkur Pillnikk – Flughoppið (Læf í Austurbæjarbíói 12. sept 1981)
07 Tappi Tíkarrass – Beri-Beri (Læf í Safarí 28.11.1985 – kombakk)
08 S. H. Draumur – Gryfjan (Læf í Hjáleigunni 24. nóv 1985)
09 Bruni BB – Dr. Rúnkbor (Tekið upp á Bala í Mosfellsveit 1981)
10 Þeyr – Life Transmission (Læf á Hótel Sögu 28. janúar 1981)

Æðislegt lænöpp, þótt ég segi sjálfur frá. Hér kemur hljóðdæmi:

Umfjöllun í Mogga dagsins:

mbl-ps-efi

Gott stöff að Westan

28 Okt

mugison-enjoy
Enjoy!, nýja platan með Mugison er tilbúin og listamaðurinn stefnir á að koma henni út í næstu viku, á fimmtudaginn. Enjoy! fylgir eftir hinni ofutvinsælu plötu Haglél sem seldist geðveikislega mikið 2011, svo mikið að Mugison var maður ársins eftir ókeypis tónleika í Hörpu og viðamikla tónleikaröð um allt land.

Enjoy! er á ensku og er níu laga rólegheitaplata þar sem lögin vinna á við hverja hlustun og skríða inn í taugaendana á þér eins og feitur köttur sem leggst í bæli með rjómaskál. Kötturinn rís þó upp við dogg við og við, eins og í lögunum Hangover og I’m a Wolf. Hin lögin heita Deliver, Please, Who Would I Be Holding Tight, Tipsy King, Pissing In The Wind, Climbing Up a Dream og Lazing On. Pottþétt plata hjá Mugison = Þú kaupa.

a0909601015_10
Rythmatik hafa gefið út Waves, fimm laga plötu, sem m.a. má nálgast á Bandcamp. Þetta er önnur platan þeirra, Epilepsy kom út í fyrra. Á Waves halda strákarnir áfram að þróa sitt enskusungna gítarrokk með sannfærandi árangri. Á dögunum var bandið læf á Rás 2 og tóku þar Óla Hundaóla af Abbababb. Salóme Katrín Magnúsdóttir söng með. Hér er frábær rokk-Óli:

Nick Cave á Íslandi 30 ára

19 Okt

cave3
Í dag eru liðin 30 ár síðan Nick Cave & The Bad Seeds spiluðu í Roxzý, sem nokkru áður hafði heitið Safarí og átti enn síðar eftir að heita Casablanca. Þetta var aðalpleisið í Áttunni og tók við af Hótel Borg sem musteri öðruvísi liðsins. Þetta var bölvuð hola á Skúlagötu, við hliðina á þar sem Kex Hostel er í dag (dyrnar til vinstri). 

Ég var sem sé kominn til Lyon í Frakklandi þarna í október 1986 og heyrði fyrst í fréttunum af leiðtogafundinum í Höfða. Allt í lagi að missa af því, hugsaði ég. Skömmu síðar komu stórtíðindin, Nick Cave var að koma og átti að spila. Ég var auðvitað eyðilagður að missa af þessu, að vera fastur í Frakklandi með baguette og „Mónakó“ á kantinum. Mér fannst bjór svo vondur að ég lét setja grenadín út í og sú blanda heitir Mónakó. Þá loks kom ég þessu niður.

Ég heyrði af þessu síðar. Að Cave hefði verið geðveikur læf og að einhver hefði brotist inn í skip til að redda honum morfíni svo meistarinn hefði eitthvað. Hann var náttúrlega í bullandi rugli á þessum tíma, heróín og svona. Grammið átti glæsilega innflutningsþrennu 1986. Einsturzende Neubauten og Crime & The City Solution höfðu báðar spilað í Roxzý og S. H. Draumur hitað upp á báðum tónleikum. Við hefðum líklega hitað upp fyrir Cave líka ef ég hefði ekki verið þessi fáviti að fara til Frakklands. En hvernig átti ég að vita að Nick fokking Cave væri á leiðinni?

Steini gítarleikari var allavega mættur. Hæ Steini:
cave2

Myndirnar hér að ofan eru skjáskot úr kvikmyndaefni sem tekið var upp á tónleikunum. Þetta er til og vonandi verður það sett á netið sem fyrst. Auk tónleikaefnis er viðtal sem aumingja Skúli Helgason tók við snubbóttann Nick. Skúli spyr ýmsra gáfumannapopplegra spurninga sem Nick Cave hefur engan áhuga á að svara og flissar og snýr út úr öllu. Frekar óþægilegt á að horfa. En gott í sögulegu samhengi að sjá poppara gefa skít í dauðan og djöfulinn – það er eitthvað svo sjaldgæft í dag þegar popparar eru meira og minna auglýsingastofur fyrir sjálfan sig, alltaf „eager to please“. Sæl að sinni.

cave1