Sarpur | Músík RSS feed for this section

Bestu plötur ársins 2016

10 Des

bestu2016
Venju samkvæmt kemur hér persónulegur Bestu plötur ársins 2016 listi ársins. Líklega er ég að gleyma einhverju. Þetta er svona það sem ég hlustaði mest á og fílaði best. 

 1. Emmsjé Gauti – Vagg & velta
 2. Reykjavíkurdætur – RVK DTR
 3. Benni Hemm Hemm – Skordýr
 4. Bambaló – Ófelía
 5. Tófa – Teeth Richards
 6. Snorri Helgason – Vittu til
 7. Cyber is Crap – EP
 8. Suð – Meira suð
 9. Amiina – Fantomas
 10. GKR – GKR
 11. Ýmsir – Myrkramakt II
 12. Mugison – Enjoy!

Ég hlustaði líka á og fílaði eitthvað erlent – aðallega er þó gripið í hitt og þetta og ekki alveg haft tíma og athygli fyrir heilar plötur. Því get bara gert helmingi minni lista.

 1. Solange – A seat at the table
 2. The Avalanches – Wildflower
 3. Savages – Adore Life
 4. Anna Meredith – Varmints
 5. Pavo Pavo – Young Narrator in the Breakers
 6. Car Seat Headrest – Teens of Denial

Allt í allt var 2016 frekar tíðindalaust ár. Rappið náttúrlega í fínni uppsveiflu – mest að gerast þar – rokkið eins og eitthvað gamalt hjakk og lítið spennandi þar. En það eru breytingar í vændum, held ég. Ég hef fulla trú á að 2017 verði sterkt ár í músík. 

Á degi íslenskrar tónlistar

1 Des

fullveldispunk2
Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á Fullveldispönk! í Hard Rock Café í kvöld. Við erum að tala um tvöfalt kombakk Jonee Jonee og Tappa tíkarrass, klassískt popppönk Fræbbblanna og nýrokk Suðs. Verður gjörveikt. Allir eru til í tuskið og bátana og hér má sjá Jonee Jonee æfa sig á dögunum. MIÐASALA Á MIÐI.IS

******

Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á Karolínusöfnun Heiðu og plötuna hennar FAST. 

******

Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á að 12 þátta-röðin Popp og rokksaga Íslands er enn í forsölu á 5000 kall hér. 3ja diska DVD-pakki er væntanlegur á næstu dögum. Pantið hér.

Pönk hreinsar

6 Nóv

Airwaves-skýrsla 2. Ég fór ekki á svið í ár en í staðinn át ég svið. Hálfan haus og verð eiginlega að segja að svið eru ógeðsleg. Einu sinni á ári er algjört topps á þá fæðu. Sú ömurlega staðreynd blasti við að finnsku pönkararnir í PKN færu á svið á Gauknum á nákvæmlega sama tíma og Dr Spock færu á svið í glænýjum kjallara Hard Rock Café. Út undan hafði ég heyrt að gerð yrði úrslitatilraun til að fá Rotten á svið með Spock til að syngja Pistols slagara. Ég var í sambandi við umboðsmann Finnana þar sem þeir meistarar vildu ólmir hitta Rotten. Nú, það sem gerðist í þessari bóndabeygju var að ég fór á Hard og sá sett með Ensími. Þeir eru alltaf góðir og skemmtilegir, spiluðu slagara í bland og voru hressir. Næst komu Spock og gjörsamlega tættu sig í gegnum gullfallegt sett. Rotten stóð reyndar aftast en fann aldrei andann koma yfir sig til að fara á svið og þar að auki I do not do that shit. Ekkert God Save The Queen sem sé. En djöfull voru Spock góðir, algjörir yfirburðir. Þegar þessu var lokið voru Finnarnir farnir að sofa, dauðþreyttir og pönkaðir. Liðið hópaðist að Rotten í pönkselfí og hann hélt sér síðan í stuði eitthvað fram eftir en ekki of lengi því það er Arsenal-Tottenham í dag sem þeir Rambo verða að sjá (báðir Arsenal-menn).

Í dag er svo stíf dagskrá sem hefst kl. 13 þegar PKN koma í opinbera heimsókn í Pönksafnið. Það mega allir fjölmenna þangað. Svo eru þeir með offvenue fyrir Þroskahjálp í Iðnó frá kl. 17 – allri velkomnir, ókeypis inn. Auk þeirra mun norska hljómsveitin Make Dreams Concrete koma fram, en hún ku skipuð utanveltu krökkum sem finna styrk í pönki. Allir geta fundið styrk í pönki, spurðu bara Óttarr Proppé sem öskrar úr sér stjórnarmyndunartrega og hreinsast og endurfæðist í gegnum pönk. Sumir íhuga, aðrir pönka. Hér er tóndæmi með Make Dreams Concrete.

Kassettur Pönksafnsins

2 Nóv

2016-10-31-10-34-15
Pönksafnið opnar í dag kl. 18:30. Og verður svo opið um næstu framtíð. Tvær safnkassettur koma út í dag og verða eingöngu til sölu í safnabúð Pönksafnsins. Download kóðar fylgja svo það er engin ástæða til að þú gerir dauðaleit að kassettutæki í Góða hirðinum (þó það sé í sjálfu sér ekki slæm hugmynd). Ég setti þessar kassettur saman og er gríðarlega ánægður með þetta. Hér er innihaldið:

(SOÐIÐ) PÖNKSAFN
Hljóðversupptökur / Studio Recordings

A:
01 Bubbi Morthens – Jón pönkari (af Ísbjarnarblús LP 1980)
02 Fræbbblarnir – Bíó (af Viltu nammi væna? LP 1980)
03 Taugadeildin – Hvítar grafir (af EP 1981)
04 Purrkur Pillnikk – Gluggagægir (af Ekki enn LP 1981)
05 Jonee Jonee – Helgi Hós (af Svonatorrek LP 1982)
06 Megas – Krókódílamaðurinn (af The Boys From Chicago LP 1983)
07 Kamarorghestar – Rokk er betra (af Bísar í banastuði LP 1981)
08 Án orma – Dansaðu fíflið þitt dansaðu (af 7″ 1981)
09 Sonus Futurae – Myndbandið (af Þeir sletta skyrinu… Mini-LP 1981)
10 Grafík – Videó (af Út í kuldann LP 1981)
11 Fan Houtsens kókó – Grænfingraðir morgunhanar (af Musique Elementaire kassetta 1981)

B:
01 Þeyr – Rúdolf (af Mjötviður mær LP 1981)
02 Q4U – Böring (af Q1 Mini-LP 1982)
03 Utangarðsmenn – Hírósíma (af Geislavirkir LP 1980)
04 Grýlurnar – Betri er limur en limlestir (af Mávastellið LP 1983)
05 Tappi Tíkarrass – Skrið (af Miranda LP 1983)
06 Baraflokkurinn – Catcher Coming (af Mini LP 1981)
07 Spilafífl – Playing Fool (af 3 – 30. júní 7″ 1982)
08 Chaplin –Teygjutwist (af 7″ 1981)
09 Vonbrigði – Ekkert (af Kakófónía Mini-LP 1983)
10 Bodies – Lonely (af 12″ EP 1982)
11 Oxsmá & Bubbi – Me & My Baby (af Biblía fyrir blinda kassetta 1983)


(HRÁTT) PÖNKSAFN

Óútgefið – læf & demó

A:
01 Halló & Heilasletturnar – Amma spinnur galið (Læf á Kjarvalsstöðum 8. ágúst 1978)
02 Snillingarnir – Kids (Demó að Rauðalæk 1980)
03 F/8 – Bölvun fylgi þeim (Í bílskúr í Kópavogi haust 1980)
04 Taugadeildin – Íslandi allt (Læf í Kópavogsbíói 22. maí 1981)
05 Allsherjarfrík – Lögbrot (Læf í Uppsölum, Ísafirði, nóvember 1982)
06 Utangarðsmenn – Leiðinlegt lag (Læf í Kópavogsbíói 21. febrúar 1981)
07 Fan Houtsens kókó – Þriggja stúlkna rúmba (Læf í Kópavogsbíói 21. febrúar 1981)
08 N.A.S.T. – Anarkisti (Læf í Kópavogsbíói 22. maí 1981)
09 Sjálfsfróun – Allir krakkar (Læf í N.E.F.S. 16. des 1981)
10 Stífgrím – Dansskóli Heiðars Ástvaldssonar (Læf á Rútstúni 17. júní 1980)
11 Q4U – Menn (Læf í Háskólabíói 30. mars1983)
12 Fræbbblarnir – Bjór (Læf á Hótel Borg vor 1981)
13 Geðfró – Stundum (Læf í N.E.F.S. 21. okt 1981)
14 Vonbrigði – Holdleg atlot (Læf í Safarí 9. ágúst 1984)

B:
01 Jonee Jonee – Brot (Rúv 2007)
02 Haugur  – Skuld (Æfingahúsnæði í Garðabæ, vorið 1983)
03 Þursaflokkurinn – Jónarnir í skránni (Demó 1981 fyrir kvikmyndina Jón Oddur og Jón Bjarni)
04 Baraflokkurinn – It’s All Planned (Demó úr Stúdíó Bimbó vor 1981)
05 Oxsmá – Rokkum og poppum (Læf í Tívolí í Hveragerði 17. júní 1985)
06 Purrkur Pillnikk – Flughoppið (Læf í Austurbæjarbíói 12. sept 1981)
07 Tappi Tíkarrass – Beri-Beri (Læf í Safarí 28.11.1985 – kombakk)
08 S. H. Draumur – Gryfjan (Læf í Hjáleigunni 24. nóv 1985)
09 Bruni BB – Dr. Rúnkbor (Tekið upp á Bala í Mosfellsveit 1981)
10 Þeyr – Life Transmission (Læf á Hótel Sögu 28. janúar 1981)

Æðislegt lænöpp, þótt ég segi sjálfur frá. Hér kemur hljóðdæmi:

Umfjöllun í Mogga dagsins:

mbl-ps-efi

Gott stöff að Westan

28 Okt

mugison-enjoy
Enjoy!, nýja platan með Mugison er tilbúin og listamaðurinn stefnir á að koma henni út í næstu viku, á fimmtudaginn. Enjoy! fylgir eftir hinni ofutvinsælu plötu Haglél sem seldist geðveikislega mikið 2011, svo mikið að Mugison var maður ársins eftir ókeypis tónleika í Hörpu og viðamikla tónleikaröð um allt land.

Enjoy! er á ensku og er níu laga rólegheitaplata þar sem lögin vinna á við hverja hlustun og skríða inn í taugaendana á þér eins og feitur köttur sem leggst í bæli með rjómaskál. Kötturinn rís þó upp við dogg við og við, eins og í lögunum Hangover og I’m a Wolf. Hin lögin heita Deliver, Please, Who Would I Be Holding Tight, Tipsy King, Pissing In The Wind, Climbing Up a Dream og Lazing On. Pottþétt plata hjá Mugison = Þú kaupa.

a0909601015_10
Rythmatik hafa gefið út Waves, fimm laga plötu, sem m.a. má nálgast á Bandcamp. Þetta er önnur platan þeirra, Epilepsy kom út í fyrra. Á Waves halda strákarnir áfram að þróa sitt enskusungna gítarrokk með sannfærandi árangri. Á dögunum var bandið læf á Rás 2 og tóku þar Óla Hundaóla af Abbababb. Salóme Katrín Magnúsdóttir söng með. Hér er frábær rokk-Óli:

Nick Cave á Íslandi 30 ára

19 Okt

cave3
Í dag eru liðin 30 ár síðan Nick Cave & The Bad Seeds spiluðu í Roxzý, sem nokkru áður hafði heitið Safarí og átti enn síðar eftir að heita Casablanca. Þetta var aðalpleisið í Áttunni og tók við af Hótel Borg sem musteri öðruvísi liðsins. Þetta var bölvuð hola á Skúlagötu, við hliðina á þar sem Kex Hostel er í dag (dyrnar til vinstri). 

Ég var sem sé kominn til Lyon í Frakklandi þarna í október 1986 og heyrði fyrst í fréttunum af leiðtogafundinum í Höfða. Allt í lagi að missa af því, hugsaði ég. Skömmu síðar komu stórtíðindin, Nick Cave var að koma og átti að spila. Ég var auðvitað eyðilagður að missa af þessu, að vera fastur í Frakklandi með baguette og „Mónakó“ á kantinum. Mér fannst bjór svo vondur að ég lét setja grenadín út í og sú blanda heitir Mónakó. Þá loks kom ég þessu niður.

Ég heyrði af þessu síðar. Að Cave hefði verið geðveikur læf og að einhver hefði brotist inn í skip til að redda honum morfíni svo meistarinn hefði eitthvað. Hann var náttúrlega í bullandi rugli á þessum tíma, heróín og svona. Grammið átti glæsilega innflutningsþrennu 1986. Einsturzende Neubauten og Crime & The City Solution höfðu báðar spilað í Roxzý og S. H. Draumur hitað upp á báðum tónleikum. Við hefðum líklega hitað upp fyrir Cave líka ef ég hefði ekki verið þessi fáviti að fara til Frakklands. En hvernig átti ég að vita að Nick fokking Cave væri á leiðinni?

Steini gítarleikari var allavega mættur. Hæ Steini:
cave2

Myndirnar hér að ofan eru skjáskot úr kvikmyndaefni sem tekið var upp á tónleikunum. Þetta er til og vonandi verður það sett á netið sem fyrst. Auk tónleikaefnis er viðtal sem aumingja Skúli Helgason tók við snubbóttann Nick. Skúli spyr ýmsra gáfumannapopplegra spurninga sem Nick Cave hefur engan áhuga á að svara og flissar og snýr út úr öllu. Frekar óþægilegt á að horfa. En gott í sögulegu samhengi að sjá poppara gefa skít í dauðan og djöfulinn – það er eitthvað svo sjaldgæft í dag þegar popparar eru meira og minna auglýsingastofur fyrir sjálfan sig, alltaf „eager to please“. Sæl að sinni.

cave1

Tíu heitustu böndin á Airwaves

17 Okt

Já Gurra mín, nú styttist í gleðina. Tvær vikur í Airwaves og ekki seinna vænna en að reyna að átta sig á „möst-síunum“ sem Grímur og kó bjóða upp á í þetta skiptið. Hér eru 10 heitustu erlendu atriðin, skv. Greiningardeild bloggsins.

The Sonics. Ævagamalt bílskúrspönk frá Washington-fylki. Allir ættu að fíla gamla slagara eins og Strychnine og Psycho, en svo snéri bandið aftur í fyrra og gerði eina bestu kombakk plötu sögunnar (því almennt eru nýjar plötur með gömlum goðsögnum algjört drasl). The Sonics verða í Silfurbergi á fimmtudagskvöldið.

Pertti Kurikan Nimipäivät (PKN). „Sérstöku“ finnsku meistararnir eru eins og komið hefur fram á leiðinni og ætla að pönka úr þér líftóruna; á Gauknum á laugardagskvöldið og í Iðnó á sunnudaginn á milli 17-18:30 (frítt inn þar – ekkert armband nauðsynlegt).

Julia Holtier. Amerísk tónlistarkona sem sló í gegn í fyrra með fjórðu plötunni sinni, Have You in my Wilderness. Flott gáfukvennapopp. Spilar í Listasafninu á fimmtudagskvöldið.

Kate Tempest. Enskt skáld og rappari. Let Them Eat Chaos er fyrsta platan. Mjög gott stöff. Kemur fram í Gamla bíói á laugardagskvöldið.

Fews. Krautað rokk frá Svíþjóð/Ameríku. Fyrsta platan kom út í sumar. Spila á Gauknum á föstudagskvöldið.

Warpaint. Frá LA og hafa gert þrjár plötur, sú nýjasta Heads Up kom út fyrr á árinu. Spila á föstudagskvöldið í Silfurbergi.

Santigold. Strax á eftir Warpaint mætir Santigold á svið Silfurbergs. Hún hefur alltaf minnt mig á poppaðri útgáfu af M.I.A., svona kraftköggull með „heimstónlistar“-áhrif í smurðu poppinu.

Pavo Pavo. Þokukennt skýjapopp frá yfirskeggjuðum hipsterum frá Brooklyn. Kunna alveg að búa til fín lög svo þeir mega vera hipsterar með skegg mín vegna. Spila í Iðnó á föstudagskvöldið.

PJ Harvey. Eitt stærsta númerið á Airwaves í ár. Sló í gegn 1992 með fyrstu plötunni sinni, Dry. Var stillt upp með Björk og Tori Amos sem bjargvætti poppsins. Stundum kölluð kvenkyns Nick Cave. Ellefta platan The Hope Six Demolition Project kom út fyrr á þessu ári. Spilar í Valshöllinni á sunnudagskvöldið. 

Idles. Enskir drullupönkarar sem hafa gefið út nokkrar EP. Lofa góðu sjói. Spila á eftir PKN á Gauknum á laugardagskvöldið.

Die Nerven. Bullandi níhilistar frá Stuttgard. Þrjár plötur komnar. Svartklæddir og syngja á þýsku. Póstpönka á Húrra á fimmtudagskvöldið (Hörkulænupp þar, Pink Street Boys, Ham, Dr. Spock).