Sarpur | maí, 2015

Skrapp til New York í viku

30 Maí

Til að missa ekki vitið er nauðsynlegt að komast úr hinu íslenska naflakuski amk tvisvar á ári. Ég var að snúa frá NYC þar sem ég tók viku frí frá íslensku röfli um ekki neitt. Stimplaði mig út úr blaðrinu og inn í núllstillta heimsborgarsælu. Þetta var alveg frábær ferð og strax á fyrsta degi vorum við komnir til Montclair í New Jersey, sem er ríkt hippahverfi og bauð upp á tónleika með THE B52’s.

THE B52’s er aldrað nýbylgjuband sem tók stuð og 50s b-mynda-lúkkið föstum tökum. Lögin þeirra eru svaka misgóð. Flest á fyrstu plötunni (1979) er æði og svo er sumt á Cosmic Thing (1989) fínt. Annað þar á milli og seinni tíma efni er hálf leiðinlegt. Tónleikarnir urðu því kaflaskiptir en gamla fólkið stóð sig vel. Söngkonurnar Kate og Cathy og Fred söngvari eru í frontinum og mokuðu stuði í salinn af nokkrum krafti þrátt fyrir aldur (elst er Kate Pierson 67 ára, en heldur betur uppálöppuð svo hún lítur ekki deginum eldri en 47). Bandið hafði mikil áhrif á bæði Sykurmolana og Risaeðluna svo það var gaman að sjá þau á seinni hluta ferilsins – fínt partí og stuð.

Við vorum allnokkuð að vafra um í Brooklyn í ferðinni, bæði í Greenpoint og Williamsburg. Heimsóttum mína gömlu vinkonu Hrafnhildi Shoplifter og fengum gríðarlegar trakteringar á pólska veitingarhúsinu Karczma. Um kvöldið fórum við á gigg í Rough Trade þar sem söngkonan SHILPA RAY lék en gamli saxófónjálkurinn JAMES CHANGE hitaði upp með spuna í korter. Notaður er límmiði með kvóti frá Nick Cave á nýjustu plötu Shilpa til að kynna mikilfengleika hennar, en Nick segist þess fullviss að hún verði orðin stórstjarna fyrr en varir. Þetta var ágætt hjá henni. Fín söngkona og svo juðaðist hún á einhverskonar borðharmóníku út í eitt. Bandið þétt og gott. Hér er nýjasta lagið með henni:

Það voru líka pönktónleikar í skemmunni Brooklyn Bazaar, en þetta var síðasta kvöld staðarins því þarna á að opna BMW bílasala. Mikið af nútímapönki í gangi þarna, sáum BIG UPS sem voru góðir og minntu stundum á Fugazi og jafnvel S.H.Draum. Hér er lag með þeim:

Íslandsvinirnir í PERFECT PUSSY spiluðu síðast en það var sándvesen á þeim og rugl svo við yfirgáfum staðinn enda var maður alltaf á síðustu metrunum þarna í ferðinni, dauðþreyttur, syfjaður og slompaður af bjórdrykkju.

2015-05-25 11.59.55
Ferðalangarnir Trausti og Steinn ásamt Kristni Jóni Guðmundssyni flóttamanni í NYC. Þar næst kemur Jason Gross og unnusta hans Robin Cook. Jason þessi rekur músíksíðuna Perfect Sounds Forever sem hefur verið til síðan 1993 og er með elstu músíksíðum alnetsins. Hann tók okkur á asíska fuglabjargið/matsölustaðinn Jing Fong þar sem við gröðkuðum í okkur dim sum.

2015-05-25 21.03.08
Á góðu bíti duttum við á eðalstaðinn Otto’s Shrunken Head sem er rokkabillí kokteilastaður. Fékk mér einn geislavirkan og svo hlustuðum við á lókal rokkband The Thigh Highs.

2015-05-23 16.03.22
Enn meira í Brooklyn og í hina skelfilegu ruslakompu The Thing sem er alræmd. Þar eru hreinlega staflar á stafla ofan af plötum og allt grómtekið og rykfallið svo eina leiðin til að komast yfir pleisið er að gefa sér viku og mæta í ræstigalla með plasthanska og gasgrímu. Mér tókst þó að rótast í gegnum 78 snúninga hrúguna og draga nokkrar plötur í búið, þar á meðan alfyrstu útgáfu Blue Note útgáfunnar frá 1939, tveggja laga plötu með Meade „Lux“ Lewis.

2015-05-27 17.52.34
Fyrir Stein var hápunktur ferðarinnar að sjá söngkonu dönsku hippasveitarinnar The Savage Rose á götu í Williamsburg. Annisette tók okkur fagnandi og stillti sér upp með aðdáandanum.

2015-05-26 22.19.23
Í Barcleys Center, nýlegu íþróttamannvirki, sáum við THE WHO. Á undan rokkuðu JOAN JETT & THE BLACKHEARTS (enduðu á I Love Rock N Roll – hvað annað). The Who voru drulluskemmtilegir og Pete Townshend, sem nýlega varð sjötugur, sagði bransasögur á milli laga og var hress á meðan Roger Daltrey virkaði sem sidekick og var hás á köflum. Bandið renndi sér í allflesta slagarana auk albúmtrakks, m.a. lög af Quardrophenia og Tommy, sem mér finnst ekkert sérlega skemmtileg. Maður var því dottandi á köflum en rumskaði þegar góð lög eins og I Can See For Miles and Baba O’Riley brustu á.

Þetta var þrettánda eða fjórtánda ferðin mín til NYC og alveg jafn frábær og allar hinar. Besta borgin!

Ælmundur

20 Maí

AR-150419785
Gott er að eiga góðan felubúning ætli maður að æla í flugvél.

Ég hef annars fullan skilning á gubbmáli Ásmundar. Ég hef reyndar aldrei ælt í flugvél en einu sinni í venjulegum bíl (sem var glænýr og eigandinn nýbúinn að taka plastið af) og einu sinni í leigubíl (bílsstjórinn varð vitlaus og henti öllum út). Ég var að sjálfssögðu með magakveisu í bæði skiptin og hafði bara fengið mér smá rauðvín.

Finnskir snillingar

19 Maí

Í kvöld munu Finnarnir í Pertti Kurikan Nimipäivät komast í úrslit Eurovision. Á laugardaginn munu þeir svo rótbursta keppnina. Ef þessi spá gengur ekki eftir mun ég segja mig úr EES. Á meðan beðið er snilldarinnar hví ekki að horfa á þennan skemmtilega þátt úr finnska sjónvarpinu um strákana og fleiri finnska snillinga. Ath: Það er enskur texti á þessu.

Menntaskólinn – 30 árum síðar

16 Maí

Næstu helgi ætlar árgangurinn minn úr MK að reuniona 30 ára stúdentinn sinn. Ég verð í New York og missi af gleðinni. Þetta er tilviljun, ég sver. Hefði alveg verið í stuði með þessum gamalmennum. Ég man merkilega lítið frá menntaskólaárunum og enn minna frá þremur árunum á undan þegar ég var í gaggó. Myndir hafa verið að ganga á Facebook svo eitthvað hefur rifjast upp.
11208667_10153332926689668_2290218384361145648_n
Dimmiteringarbúningurinn átti að vera Michelin karlar en ég er ekki viss um að fólk hafi almennt fattað það. Óneitanlega var nokkuð skrítið að vera blindfullur í bænum í miðri viku 1985. Ég gerði þó takmarkaðan skandal. Fór í Kirkjubúðina og spurði hundfúla kellingu hvort það væru til bækur um kynlíf Krists. „Hann hefur örugglega lifað góðu kynlífi“ minnir mig að konan hafi sagt. Svo sá ég Jón Baldvin á Austurvelli og hreytti í hann fúkyrðum. Hann var örugglega vanur svona rugli og strunsaði í burtu.

11053922_10153332919874668_8031429902624219121_o
Það var ljótupeysudagur á hverjum degi. Ekki hef ég hugmynd um hvað er í gangi þarna.

10339355_10153332932919668_6227458357814931565_o
Allir voru með asnalegt 80s hár og enginn hafði hlustað á The Fall eða The Birthday Party nema ég auðvitað. Gunnþór Hermannsson sem situr þarna við hliðina á mér og var bekkjarfélagi í máladeildinni keypti ensku fótboltablöðin í hverri viku og hafði mest gaman að The Dire Straits.

11194499_10153332921274668_6614906730667284780_o
Þorkell Ingólfsson var hinn strákurinn í bekknum (það var reyndar einn í viðbót, Hrafn Franklin Friðbjörnsson (1965-2009) aka „Hrabbi Diskó“ en hann var nú alltaf með stelpunum). Við Þorkell náðum vel saman í menntaskólasukki og almennu rugli.

hrafnar
Hér eru þau einmitt, Hrabbi og Hrafnhildur Halldórsdóttir, sem síðar átti eftir að gera garðinn frægann hjá Rúv. Sjitt, ég finn bragðið af þessari bollu í gegnum þoku áranna! Væminn appelsínusafi og kláravín eða eitthvað álíka. Dáldið öðruvísi drykkjumenning í gangi fyrir bjór.

11181228_10153334086079668_7759908858597775415_o
Hér má sjá hina föngulegu máladeild MK við útskrift 1985. Þrjátíu ár – það er nú ekki neitt!

Á slóðum æskunnar

15 Maí


Þann 18. mæ verða liðin heil 35 ár síðan Ian Curtis söngvari Joy Division kálaði sér. Ekki man ég til þess að hafa heyrt af þessu á sínum tíma, enda örugglega ekki sagt frá þessum tíðindum í fréttum Gömlu Gufunnar. Í tilefni af þessu ætlar alíslenskt Joy Division kóverband að heiðra bandið í kvöld á ELLEFUNNI. Hljómsveitin virðist ekki heita neitt en hún er skipuð þessum meisturum:

Magnús Þór Magnússon (Morgan Kane) Söngur.
Elvar Geir Sævarsson (Hellvar) Gítar.
Flosi Þorgeirsson (Ham) Bassi.
Guðjón Guðjónsson (Q4U) Trommur.
Árni Daniel Júlíusson (Q4U) Hljómborð.
 
Úr fréttatilkynningu: Joy Division er ein áhrifamesta nýbylgju-rokkhljómsveit síðari tíma og lagði grunninn að mótun nýrra tónlistarstefna með ferskri nálgun á bæði upptökuferli og lagasmíðar.
Myrkur hljóðheimurinn, ásamt angurværum textum Ian Curtis, hefur í áranna rás heillað og skelft tónlistaráhugafólk og tónlistarmenn um allan heim. Áhrif hljómsveitarinnar hefur skilað sér í sköpun banda eins og Bauhaus, U2, The Cure, Inerpol og Editors. Einnig hafði Joy Division áhrif á mótun þyngri hljómsveita, en ótal undirflokkar „Goth rokksins“ hafa orðið til á þessum 35 árum sem liðið hafa frá dauða Curtis.
 
Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 en upphitun er í boði Antimony. Joy Division tribute-bandið hefur svo leik klukkan 23:00. FRÍTT INN!


soley_-_ask_the_deep_-_cover

Sóley
hefur gefið út plötuna Ask The Deep sem er góð og aðeins poppaðri en fyrri plötur. Sóley er nú á Evróputúr. Halloween videóið er með því flottara sem maður hefur séð. Enn er unnið með íslenskt landslag en á alveg nýjan og ferskan og gotneskan hátt. Mega stöff:

Hver er Sturla Atlas? Hann er allavega leynigaur en Logi Petro gerir nýju plötuna hans. Hér er ágætis lag:

Finnarnir vinna Eurovision

14 Maí


Eurovision er í næstu viku. Finnarnir í PKN eru númer fimm í röðinni á þriðjudagskvöldið. Þeir komast í úrslitaþáttinn á laugardaginn og munu þá vinna Eurovision með miklum yfirburðum, enda eru öll hin lögin ömurleg við hliðina á því finnska. Þú last þetta fyrst hér.

Rúv sýndi heimildarmyndina frábæru The Punk Syndrome á mánudaginn. Þetta er möst sí áður en keppnin byrjar. Það má horfa á hana í Sarpinu.

Felix og Baldvin Þór Bergssynir eru hér með hlaðvarpsþátt og ræða m.a. um Finnana.

Ég er búinn að panta nýjan PKN bol.

Hvert var fyrsta íslenska popplagið?

13 Maí

Ég hef búið til nýjan hlaðvarpsþátt. Nú hef ég hafið samstarf við ALVARPIÐ á NÚTÍMANUM og verð með hlaðvörp þar framvegis, þegar ég nenni. Þátturinn heitir Í kasti með Dr. Gunna og að þessu sinni er ég í kasti með Ólafi Þór Þorsteinssyni, eða Ólafi 78 snúninga eins og ég kýs að kalla hann.

http://nutiminn.is/hvert-var-fyrsta-islenska-popplagid/

78snúninga plötur voru það format sem gekk hér á landi frá 1910 til 1958. Þá höfðu 45snúninga plötur og LP plötur tekið við. Ég hef að undanförnu fyllst áhuga fyrir 78snúninga plötum, bæði íslenskum og erlendum, enda er tónlistin forn og spennandi. Ólafur er mestur safnara á þessu sviði á Íslandi, hefur safnað í 28 ár og á nú 680 af þeim 740 78 snúningaplötum sem komu út á Íslandi.

Í viðtalinu, sem er kryddað með fornum og skemmtilegum lögum, ræðum við ýmislegt. Söfnunaráráttuna, hræðsluna við jarðskjálfta og síðast en síst ekki tónlistina og tónlistarfólkið.

EinarHjaltested
Spurningunni: Hvert var fyrsta íslenska popplagið sem kom út á plötu? er erfitt að svara því fyrst þurfum við að skilgreina hvað er popp og hvað er ekki popp. Við komumst þó niður á að ef till vill hafi Einar Hjaltested sungið fyrstu popplögin ásamt hljómsveit í New York árið 1917.

Atli Olafs
Ef Það var ekki Einar þá er það kannski Atli Ólafsson, sem söng 5 lög á plötur árið 1936 út í Kaupmannahöfn með tívolí hljómsveit Elo Magnússon. Mamma Atla, Frú Anna Friðriksson. rak Hljóðfærahúsið og sendi soninn úr landi til að taka upp popp. Eitthvað babb kom í þann bát því plöturnar komu út undir dulnefninu Guðmundur Þorsteinsson. Þetta var frekar illa sungið – semir vilja jafnvel meina að Atli hafi verið fyrsti „hamfarapopparinn“.

Íslensk poppútgáfa hófst svo ekki almennilega fyrr en 1953. Þessi saga er rakin í viðtalinu, en lögin sem leikin eru af brakandi góðum 78 snúninga plötum eru þessi:

Einar Hjaltested – Vorgyðjan (1917)
Atli Ólafsson (aka Guðmundur Þorsteinsson) – Top hat (1936)
Atli Ólafsson (aka Guðmundur Þorsteinsson) – Í Ríó Banba (1936)
Hallbjörg Bjarnadóttir – Jeg har elsket dig, så længe jeg kan mindes (1938)
Elsa Sigfúss – På en Bænk ved Bækken (1938)
Björn R Einarsson og hljómsveit – Christofer Columbus (1948)
Ragnar Bjarnason – Í faðmi dalsins (1954)
Ingibjörg Þorbergs – Nótt (1954)

Ólafur er með HEIMASÍÐU ÍSLENSKU 78 SNÚNINGA PLÖTUNNAR þar sem má t.d. sjá lista yfir allar útgefnar íslenskar 78 snúninga plötur. Ólafur skrifaði ritgerð til B.A.-prófs um þetta mál sem má hlaða niður hér í pdf formi: „Íslenzkar Gramóphón-plötur“ Upphaf hljóðritunar og saga 78 snúninga plötunnar á Íslandi 1910-1958.

KÓP @60

10 Maí

DrGunni-Erpur-Salka
Besti og fjölmennasti bær landsins fagnar 60 ára afmæli sínu í dag. Ég er að tala um Kópavog. Í dag kl. 16 verða stórtónleikar í KÓRNUM í Kópavogi sem mundu fá áróðursmeistari Norður Kóreu til að svitna, hvílíkur er glæsileikinn. Allir sem Kópavogs-vettlingi hafa valdið mæta og syngja og spila sín ljúfustu lög. Hér að ofan má sjá tríóið KÓPCO sem kemur fram á tónleikunum. Frekara samstarf á nýjum vettvangi er í kortunum.

11255826_10207365276997060_5133420455227006762_n
Að sjálfssögðu koma FRÆBBBLARNIR fram og taka stórfenglega best of syrpu. Hér má sjá hljómsveitina bíða eftir sándtékki, en á myndina vantar séníið Rikka pönk.

Sjáumst í KÓRNUM! Ókeypis inn, hestaferðir fyrir krakka og veitingar!

Meira pönk í Rvk

9 Maí

Nú eru jafnaldrar manns að detta í fimmtugt. Fáránlegt alveg. Júlli Ólafs sem var í Silfurtónum ætlar að halda almennilega upp á sitt 50. afmæli og flytur inn gamlan pönkara að því tilefni.

Lesbian Lighthouse Promotions kynna með stolti
TV Smith til Íslands
Helgina 12.-13. júní mætir TV Smith til tónleikahalds í Reykjavík en hann telst í hópi þeirra sem voru hve mest áberandi í upphafi pönkbylgjunnar bresku seint á áttunda áratug síðustu aldar. Tim var einn af stofnendum pönksveitarinnar The Adverts en hún meðal þeirra sveita sem ruddu pönkbrautina í Roxy klúbbnum í London snemma árs 1977. Lagið One Chord Wonders vakti fyrst athygli á sveitinni.

En segja má að hún hafi slegið í gegn með næsta lagi sínu, Gary Gimore´s Eyes.

No Time To Be 21 komst einnig á vinsældalistana og hafði sveitin nóg að gera í spilamennsku, túraði meðal annars með The Damned og Iggy Pop. 1978 kom út stóra platan Crossing the Red Sea with The Adverts og er hún almennt talin til klassískra pönkplatna. Henry Rollins valdi hana til dæmis á sinn lista yfir 20 bestu pönkplötur allra tíma. The Adverts gáfu út aðra plötu, Cast Of Thousands, en hætti svo árið 1979. Gagnrýnendur fóru hörðum orðum um plötuna en þegar hún var endurútgefin löngu síðar urðu viðtökurnar allt aðrar og betri.

Eftir að Adverts hætti stofnaði Tim TV Smith‘s Explorers. Sú sveit náði töluverðri athygli árið 1980 með laginu Tomahawk Cruise.

Ári síðar kom svo út eina plata sveitarinnar, Last Words Of The Great Explorer, platan seldist illa og í kjölfarið hætti sveitin. TV tók sér hlé en 1986 birtist hann aftur með hljómsveitina Cheap.
Það var svo upp úr 1990 að TV Smith fór að spila einn síns liðs og fyrsta sólóplatan, The March Of The Giants, kom út 1992. Margar aðrar sólóplötur fylgdu í kjölfarið og hefur Tim verið mjög duglegur að spila opinberlega. Auk þess hefur hann átt í samstarfi við ýmsa tónlistarmenn, þeirra á meðal þýsku rokkarana í Die Toten Hosen. Síðla árs 2014 kom út sólóplatan I Delete og er það sextánda sólóplata kappans. Henni hefur verið vel tekið af gagnrýnendum og fjölmörgum aðdáendum.
TV Smith fer ávallt sínar eigin leiðir. Aðdáendum fer stöðugt fjölgandi enda þykja tónleikar hans einstök upplifun. TV er aldrei með lagalista til stuðnings á tónleikum heldur spilar eftir því sem vindar blása hverju sinni. Hann er yfirleitt með yfir 120 tónleika árlega og hefur spilað víðs vegar um Evrópu, Bandaríkin, Ástralíu og Suður Ameríku. Frá ferðalögum sínum og spilamennsku segir hann í stórskemmtilegum dagbókum sínum, Tour Diaries, en fimmta bókin í þeirri ritröð kom út á síðasta ári. Þar segir hann frá ferðum og uppákomum tengdum þeim 130 tónleikum sem hann hélt árið 2013.
Það er afar ánægjulegt að fá TV Smith til landsins. Hann kemur fram á Dillon föstudaginn 12. júní og á Gauknum laugardaginn 13. júní en þá munu Fræbbblarnir og Gímaldin einnig stíga á svið.Netsíðan ALBUMM birtir viðtal við Jónbjörn úr PINK STREET BOYS. Strákarnir þokkafullu halda útgáfutónleika þann 22. maí á Kaffistofunni, Hverfisgötu 42. Einnig koma fram Seint, Godchilla, Singapore Sling og Russian.Girls.

Baugur Monaco Party

8 Maí

Afhverju er Ísland svona mikið rugl? Afhverju er ekki hægt að borga fólki almennilegt kaup? Afhverju er einn daginn allt í blússandi góðæri og hinn daginn allt í bölvuðu basli?

Muniði þegar á Íslandi var „offramboð af peningum“? Muniði þegar bankarnir skiluðu trilljón skrilljón í hagnaði á fyrsta ársfjórðungi? Muniði þegar einhver kona var keypt út úr FL grúpp fyrir klikkaða upphæð? Muniði þegar Lárus Welding fékk 300 milljónir fyrir að byrja í vinnunni?

Var hægt að láta eitthvað af þessu offramboði peninga í að pimpa upp Landsspítalann? Nei, ertu kreisí maður.

Samfylkingin var of upptekin við að koma Íslandi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Vinstri grænir voru of uppteknir við að smala klikkuðum köttum. Svo fengu bara allir heilaæxli og krabbamein.

Yljum okkur við hina gullnu gleðidaga góðærisins. Í þetta fóru peningarnir:

Skemmtileg tilviljun að þetta er sama lagið og þetta:

Við erum bara einfaldlega best.