Sarpur | Veitingahús RSS feed for this section

Út í Eyjum

19 Jún

Var í Vestmannaeyjum í gær. Spurði á Facebook hvað ég ætti að gera. Fékk ágæt svör, sem ég vissi svo sem flest enda með Eyja appið, og helmingurinn sagði að ég ætti að drífa mig sem fyrst til baka. Einn sagði að ég ætti að láta lemja mig. Svona er fílingurinn gagnvart Vestmannaeyjum, sem er náttúrlega rugl. Allir ættu að skella sér til Eyja enda fyrna fallegur staður og allir í fíling í sæluríki Elliða. Fuglarnir voru allsstaðar með læti í klettunum svo undirliggjandi sándtrakk í Eyjum er hávaði sem minnir á másandi hunda eða einhverja perverta á fremsta hlunni. 

2015-06-18 15.58.25-3
Margt hefur breyst síðan ég kom til Eyja síðast 1998, þá sérstaklega matarkúltúrinn. Slippurinn er frábær staður þar sem ég fékk mér 3ja rétta hádegistilboð á 3.490 kr. Í forrétt geðsjúk lúðusúpa. Aðalréttur ágætis steinbítur. Eftirrétturinn hrein klikkun, skyr með hundasúrukrapi, ristuðum höfrum og marenshjúpaðri hundasúru (sjá mynd). Mesta lostæti sem ég hef fengið á árinu.
2015-06-18 16.14.44
Nytja- og antíkbúðin Vosbúð hefur verið starfandi í 2 mánuði og er þrumu verslun. Mikið úrval af allskyns spennandi dóti. Ég keypti tvær 78sn danskar plötur með exótísku havaí fíli, djassplötu með Eddie „Locklaw“ Davis Quartet og Tunglið og túskyldingurinn eftir W. S. Maugham. Tvær Disney syrpur að auki fyrir Dabba, samtals 1.800 kr. Fólkið í Vosbúð ætlar að skella best of í sendibíl og vera í Kolaportinu um helgina. Talandi um spennandi grúsk um helgina þá verður fyrsti Bernhöfts Bazaar á morgun þar sem músík verður aðalmálið. Væntanlega allt vaðandi í plötum og fíniríi.

Dabba finnst sund leiðinlegt en hann fílaði sundlaugina í Eyjum í botn enda með tveimur fítusum sem slógu í gegn: klifurvegg og rennibraut sem endaði í trampólíni. Mjög góð sundlaug þótt gufan væri lokuð.

Eftir að KR hafði rótbustað ÍBV 5-2 (Dabbi skoraði mark númer tvö) fór ég í Tangann og fékk skínandi góða fiskisúpu á 2.490 kr.
2015-06-18 19.48.54
Ég brunaði í rokið út í Stórhöfða en hafði ekki tíma til að gera ýmislegt sem ég ætlaði að gera eins og að skoða fiskasafnið og eldgosasafnið. Það verður því eflaust stutt þar til ég fer aftur til Eyja, enda er þetta ódýrasta „utanlandsferðin“ sem völ er á og mjög næs dæmi.

7000 hitaeiningar!

26 Feb

2015-02-18 19.00.56
Hér er vöffluborgarinn frá snillingunum á Roadhouse. Þessi bragðsprengjugeðveiki heitir eðlilega Hallelújah og var gerður í tilefni af 3ja ára afmæli staðarins. Því miður verður borgarinn aðeins á boðstólum í nokkra daga í viðbót.

2015-02-21 12.15.32
Það hefur lengi staðið til að fá sér kótilettur á Múlakaffi og ég lét loksins verða af því á laugardaginn. „Þú kemur svo bara aftur og færð þér meira“ sagði afgreiðslukonan og ég hlýddi. Þetta var mjög sólid og gott.

Símanúmerið hjá Hjartagátt er 543-1000.

Seylon – Vesturbær

2 Nóv

2014-10-31 12.35.12
Á Selfossi er hinn fíni veitingastaður Seylon í óhrjálegu bakhúsi (Eyravegi 15). Þar ræður ríkjum kona væntanlega frá Sri Lanka (eins og Seylon er kallað í dag) og kokkar seylonskt/indverskt gúmmilaði ofan í þakkláta Selfyssinga. Við komum þarna í hádeginu á föstudag og fengum alveg ljómandi kjúkling í rauðu karrýi með grjónum, salati og naan. Mjög gott á 1500 kall. Allir sem vettlingi geta valdið þurfa að skella sér á Seylon.
2014-10-31 12.25.11

2014-11-01 15.57.06
Ég hætti mér loksins inn á Kaffihús Vestubæjar. Fékk mér nú bara Café latté og croissant, sem var algjörlega til fyrirmyndar – kaffi sterkt og gott og croissantið nýtt og ferskt. Það verður ekki af hipsterum skafið að þeir kunna að búa til alvöru góðan mat. Ég er mjög spenntur fyrir matseðlinum og verð væntanlega þarna eins og sá grái hipster-köttur sem ég vissulega er.
10603548_319747844872090_6415938064537115029_n

Etið víðsvegar í hádeginu

20 Júl

Gaman er að fara út að borða, ekki síst vegna þess að þá þarf maður ekki að ganga frá eftir sig né vaska upp. Mun ódýrarar er að eta í hádeginu en á kvöldin. Þess vegna fara nískir eins og ég út að borða í hádeginu. 

Friðrik V á Laugarvegi er sannarlega fínn staður og ódýrt er að fá sér rétt dagsins í hádeginu (1.750 kr). Fengum stafasúpu sem var full mikið leikskóladæmi fyrir minn smekk og bragðgóða smálúðu með meðlæti. Lúðan var fín en svo sneisafull af beinum að ég nennti ekki borða stykkið allt. Aldrei vitað annað eins beinafargan. Þrjár stórbeinóttar stjörnum fær Friðrik V. Ég er alveg til í að prófa aftur og vona þá að ég fái ekki annað eins beinadæmi.

Rétturinn í Keflavík er Múlakaffi Suðurnesja með „heimilismat“ á boðsstólum. Fékk mér bland af purusteik og kjúklingi með meðlæti á haugaðan disk (1.800 kr). Ljómandi fínt bara. Steini fannst þó steikta ýsan sem hann valdi frekar slöpp. Tvær stjörnur sem sé.

Fresco er glænýr salatstaður á Suðurlandsbraut. Lítur út eins og erlend keðja en er það kannski ekki (?). Sama system og að panta pizzu nema maður pantar salat – bæði hægt að búa til sitt eigið eða velja forvalið salat. Sniðugt og hollt. Ég fór í forvalið, „Fresco Oriental“ (1.490 kr) sem var reglulega gott og skammturinn seðjandi. Fer þarna pottþétt aftur og prófa meira. Fjórar stjörnur.

Meze Laugavegi 42 er tyrkneskur veitingastaður. Smáréttirnir heilluðu mest. Boðið er upp á þrjá ákveðna smárétti í hádeginu á 2.190 kr. Við splæstum í þannig disk og Meze platter á 2.890 kr og vorum því komin með 6 smárétti samtals ég og Lufsan sem við skiptum á milli okkar. Allt smakkaðist vel, en mér fannst þetta nú full dýrt miðað við magn og gæði. Þrjár stjörnur.

Mikið vona ég svo að veitingahúsaflóran stækki hér enn og einhver fari að bjóða upp á líbanskan mat eða álíka Norður Afríku dæmi. Kannski verður veitingahús í nýju Moskunni – en kannski má það ekki því gæti guð orðið alveg brjálaður? 

 

Best of Westfjords vol. 1

28 Jún

CCG5IeWICNAXCwRpkyWF_PMuBYFAqRXXYRCuh1PCMq4
Túristaleysi er gott ástand. Þótt gráhærðir germanir í anorökkum séu ekki beinlínis fyrir manni er alveg eins gott að þurfa ekki að bíða á eftir þeim í sjoppu. Skárra en álver samt, hugsanlega. Fyrir túristaleysi eru Westfirðir síðasta hálmstráið. Kjálkinn er minnst spjallaður af túrhestum. Ég tala nú ekki um Hornstrandir, þar sem maður rekst ekki á útlending nema hann sé einhverfur snillingur í leit að sjálfum sér.

Þegar maður kemur niður Steingrímsfjarðarheiði og ofan í Ísafjarðardjúp skellur á djúpstæð náttúruhamingja. Þá er maður kominn „heim“. Ég ætti auðvitað ekki að vera að auglýsa þetta hér, en ég treysti því að eintómir snillingar lesi þetta blogg og ekki eitthvað hjólahýsapakk.

3o0JduQ0eLySxCLz2KeFO4GYyxBV3w_ApJB6zUyrwrM
Áður hefur maður lagt leið sína um Hólmavík, þar sem Gunni Þórðar fæddist og á nú æskuheimili sitt í miðbænum. Það er nánast ekkert af viti matarkyns alla leið úr bænum og í Hólmavík svo möst er að stoppa annað hvort á Café Riis (og fá sér hval eða lunda – þótt mér skiljist að lambakjötið sé best) eða í Galdrasafninu (sem má auðvitað skoða líka) og fá sér fiskisúpu eða kúgað fat af kræklingi (2100 kr). Fínn réttur, kryddaður með hvítlauk og jurtum úr garðinum.

6HrrsD4VCKK5ilbX2FKZX4RZcIcHTFJTvKcewpCq9jE
Fátt er um leiðinleg dýr eins og hesta á Westfjörðum, en hins vegar séns að sjá haferni í fjörum. Jafnvel uglur. Á einum stað (á oddanum á milli Skötu- og Hestfjarðar) liggja svo alltaf selir í fjöru en á landi eru ókeypis sjónaukar til að líta á flykkin í nærmynd. Á Reykjanesi er svokölluð sundlaug, sem er í raun stærsti heiti pottur landsins (eða í heimi?). Alveg magnað að dýfa sér þarna ofan í fyrir aðeins 350 kr.

EgxprtyJrnye8rQhQ6lYYZYVT6r6mKhPYBLNRxMbEYA
Á Ísafirði er margt um fína drætti, en ef ég ætti að mæla með mesta mösti Westfjarða væri það all u can eat fiskiveisla í Tjöruhúsinu, besta veitingarhúsi í heimi (5.000 kr). Þar eru bornar fram pönnur með besta fiski sem þú hefur smakkað, en gellurnar toppa þó allt. Ætli ég  hafi ekki skellt í mig eins og þrjátíu gellum í fyrradag, en svo ömurlega vildi til að ég hafði bara pláss fyrir tvær ferðir á hlaðborðið. Á góðum degi næ ég fjórum, fimm.

Þetta er allt að byrja aftur…

3 Jún

YjyxWA2u4ziDAPlTzDXRDHby3sPRBQw1fwLw9rp7zWU
„Þetta er allt að byrja aftur…“ andvarpar nú fólk því það heldur að nýja ríkisstjórnin muni steypa öllu í gamla (góða?) 2007 farið þegar allir voru að eyða um efni fram og allt gekk út á að halda hjólum atvinnulífsins gangandi með öllum tiltækum ráðum, þeim helstum að stífla ömmu sína og láta hana sjóða ál. „Vinstri mönnum“ leiðist þetta ekki enda komnir í gamla öryggið að vera tuðandi út í horni og í kjöraðstöðuna að vera stöðugt „á móti“ og í minnihluta. Þetta er win/win.

Ég stökk á vagn bjartsýninnar (síðasti séns áður en allt sekkur í sæ eins og jarðvísindafræðingurinn  í DV var að spá) og skellti mér bæði á nýtt grill, nýjan farsíma og New York ferð. Ég var reyndar ekki að eyða um efni fram heldur hafði ég selt svo mikið af rykföllnum hljómplötum að ég hafði efni á þessu öllu. Ekki get ég þó sagt að ég hafi beinlínis spreðað úr mér lifur og lungu því ég gisti á YMCA og hef skrifað pistil um þann gistimöguleika fyrir Túrista punktur is.

Þetta var æðisleg ferð en ekkert bar beinlínis til tíðinda. Það er lífsnauðsynlegt að vera sandkorn í flæðarmáli og láta slípast til í óþekktri mannmergð. Á sama tíma sleppur maður við íslenska naflakuskið sem maður getur þó ekki verið án því við fyrsta tækifæri er maður kominn á DV eða Eyjuna að gá hvaða tittlingaskít nú er verið að velta sér upp úr. Glatað!

Ég hitti vini mína þarna úti, bæði hinn landflótta KJG og Hauk S og fór til Coney Island án þess að prófa tæki. Þar eru pylsumennirnir í Nathans með aðsetur en ég gerði þau mistök að prófa ekki djúpsteiktar froskalappir sem þeir bjóða upp á. Át tvær risastórar sneiðar af Lemon marenge (sjá mynd) á dænerunum Good Stuff Diner og Cosmic Diner (báðir góðir), prófaði loksins IHOP (ágætt), drakk ótæpilega af Starbucks, át kirsuber, vafraði stóreygður um matvörubúðir (Whole Foods á Columbus Circle er eins og hundrað Melabúðir undir einu þaki, þar fæst bæði Siggi’s skyr og Skyr.is), fór lengst inn í Brooklyn til að kynna mér alvöru soda fountain og át víðfræga pastrami samloku á Katz, en þar inni er svona seventís New York fílingur og maður er eins og rolla í fuglabjargi.

Mér sýnist ég aðallega hafa verið að ryðja í belginn á mér, en fór reyndar líka í bíó á Film Forum kl. 13:20 á mánudegi á franska gamla mynd (La traversée de Paris – alveg ágæt). Slíkt er menningarstig borgarinnar að salurinn var nánast fullur af listrænum gamlingjum svona snemma. Svo hékk ég nokkuð í bókabúðum og keypti mér nokkrar bækur (m.a. Just Kids Patti Smith, sem allir hafa verið að segja að sé svo æðisleg; Shell Shocked: My Life with the Turtles, Flo and Eddie, and Frank Zappa, etc. og Every Night’s a Saturday Night: The Rock ‘n’ Roll Life of Legendary Sax Man Bobby Keys – Nóg að gera hjá mér í sumar). Skrapp líka í Metropolitan safnið á sýninguna Punk: Chaos to Couture. Þar er búið að troða inn eftirlíkingum af þeim tveimur stöðum sem pönkið rann frá, klósettunum í CBGB’s og búð Malcolm McLarens og Vivian Westwood í London. Svo hékk þarna fullt af pönkfötum sem mér fannst svo sem ekki merkilegra en að hitta Frikka pönk á bensínstöð (sem er reyndar mjög merkilegt). 

Öss… ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar!

Sushi og Lemon

21 Apr

Þótt nútíminn sé e.t.v. trunta þá er a.m.k. miklu meira hægt að éta í dag heldur en fyrir svona eins og 30 árum. Ég er svo forn að ég man eftir því þegar ég smakkaði pítsu fyrst, líka „kínarúllu“ og börrítos.

Einu sinni þótti svaka nýjabrum í því að borða sushi. Eins og vanalega var ég lengi að sættast á að þetta væri eitthvað sérstakt. Ég er alltaf svo lengi að go við ðe fló (les: hoppa um borð í brunandi lest kapítalismans til heimsendis), er til dæmis ennþá með aumingjasíma og ekkert 3G. Svo opnaði einhver nýr staður og gott ef ekki Beta Rokk fékk mig og fleira lið til að eta sushi og síðan skrifaði hún grein um málið. Þetta þótti svona merkilegt þarna um 2000. Nokkru fyrr man ég eftir sushi-stað á móti Gamla bíói en ég fór aldrei þangað, enda fannst mér fáránlegt rugl að éta hráan fisk á okurprís.

Eftir plöggmáltíðina með Betu Rokk komst ég á bragðið og varð ólmur sushikarl. Át þetta hér á landi á og í utanlandsferðum, af færiböndum og hvar sem færi gafst. Ég er ekki með neina sushi-fordóma, skófla í mig hrognum, álum, strýtum, flugfiskum og sæbjúgum eins og ég fái borgað fyrir það. Ef boðið væri upp á augu lúsifers á hrísgrjónabeði rynni það niður efra meltingaropið á mér án frekari umhugsunar.

Í dag lítur ný kynslóð á sushi eins og nokkurs konar skyndibita, enda enginn hörgull á sushi-stöðum hér. SuZushii í Kringlunni hefur löngum verið eitt besta sushipleisið og hefur nú opnað delúx útgáfu af sjálfum sér í Iðu-húsinu, Lækjargötu. Þar getur maður ekki valið af matseðli heldur verður að gangast undir það sem kokkarnir reiða fram. Um er að ræða 16 bita dæmi á 3.750 kr. Maður fékk allskonar öðruvísi sushi og þetta var alveg skothelt.

Nokkru áður höfðum við farið á Rub 23 í kjallara Geysis-hússins. Vorum fjögur saman og báðum bara um sushi mix fyrir 5000 kall á kjaft. Komu nú svoleiðis sushibreiðurnar og maður stóð fljótlega á blístri. Ekki það mikið á blístri að maður gæti ekki rutt í sig eins og einum gríðargóðum eftirrétti líka.

En að öðru. Um daginn sóttu að sögn 300 manns um vinnu á nýjum stað, Lemon á Suðurlandsbraut. Þetta er heilsu-skyndibita (en samt ekki skyndibita) pleis, nýkreistir safar, djúsí samlokur o.s.frv. Hef farið þarna tvisvar á síðustu dögum og fékk mér kombó í bæði skiptin, ss. safaglas og samloku á 1.890 kr. Ég mæli eindregið með Spicy Tuna samlokunni og Good Times djúsinu. Þetta er „erlendis“ staður og ekki svo ósvipaður keðjum eins Jamba Juice og kannski Pret-a-porter – nema bara mun meira „heilsu“. Lemon opnar kl. 7 á hverjum degi, sem er auðvitað snilld.

Ísafjörður um páska

3 Apr

 

iso1
Stemmningin var svona á Steingrímsfjarðarheiði.

iso2
Á Suðureyri er hálft hús og frábær sundlaug og ef mér skjátlast ekki, gagnrýnandinn Jón Viðar á vappi.

iso3
Besta veitingarhús landsins lætur ekki fara mikið fyrir sér.

iso4
Ég búinn að hreinsa af öllum pönnunum, m.a. 30 gellur og hálfan skötusel. Oll jú kan ít fyrir 5000 kall er náttúrlega hagstæðasta tilboðið á landinu.

iso5
Maggi kokkur ræðir við Ylfu Mist, stórsöngkonu. Hún átti einnig þátt í því að fæða mig með englafæði á meðan á þessari ferð stóð.

iso6
Gamla bakaríið selur stærstu kleinuhringa landsins. Þeir eru á stærð við köku. Meira að segja ég lagði ekki í að prófa.

iso7
Frábært veður á Reykjanesi. Enginn hafði rænu á að taka myndir af Dr. Gunna og vinum hans leika fyrir Aldrei gesti á laugardaginn, en það var sem sagt alveg frábært.

 

 

Kótilettur í 101

14 Feb

Mynd1392

Sá skelfilegi atburður átti sér stað í byrjun árs að Mathús Mömmu Steinu (Steinku Bjarna) á Skólavörðustíg var lagt niður. Ég komst að þessu þegar ég vatt mér þarna inn og ætlaði að fá minn mánaðarlega (eða svo) skammt af íslenskum kótilettum í raspi með þjóðlegu meðlæti. Í staðinn er kominn fiskistaður og Vala Matt var að fá sér fisk við eitt borðið. Ég strækaði á fisk og snaraðist dauðspældur út.

Í dag fékk ég loks kótilettur, reyndar svona ekkert svaka þjóðlegar og ekkert rasp. Atburðurinn átti sér stað á hinu fína Balkanika Kitchen á Vitastíg, gengt Geisladiskabúð Valda.   Þetta var alveg ágætt en næst þegar ég fer á þennan stað ætla ég að fá mér eitthvað annað og meira Balkanskag-ískt eða Miðjarðahaf-ískt. Þarna er fullt að spennandi réttum í boði og verðin vel ásættanleg.

Ég veit af BSÍ en hvar annars staðar í bænum fær maður ekta kótilettur í raspi með þjóðlegu meðlæti? Þetta klikkaði alveg þegar ég ætlaði að elda mér svona sjálfur og ég verð að koma mér upp kótilettu-díler til að svala þessari mánaðarlegu (eða svo) þörf. BSÍ er svo sem ok, en gott að hafa smá fjörbreytni.

Hér kemur svo mynd af ís-karli sem ég sá á glugga í Skipholti. Ætli það hafi ekki verið sjoppa þarna einu sinni en nú er ís-karlinn það eina sem minnir á forna frægð.
Mynd1389

Út um gluggann á lest

28 Nóv

Það er hægt að flækjast um öll Bandaríkin í lestum á vegum Amtrak. Ég flúði íslenska naflakuskið (sem maður verður að gera einu sinni á ári til að drepast ekki úr leiðindum) og fór í nafla alheimsins (NYC). Þar hafði ég ekki efni á öðru en kitru á YMCA á 63. stræti. Dvaldi í 3 nætur, hitti vin minn KJG, gekk eins og óður maður upp og niður Manhattan og át á tveimur matsölustöðum. Delta Grill, sem segist vera með svona Louisana mat (Gumbo, Jambalaya o.s.frv. sem ég hafði aldrei smakkað). Þetta reyndist allt vera sæmilegar kássur en fokdýrar. Át líka á aðalpleisinu í Harlem, Sylvia’s, sem býður upp á „Soulfood“. Þar var fínasta kjúklingastöff í gangi og myndir af Obama að borða þar upp á vegg. Á leiðinni sá ég hinn sögufræga stað Apollo.

Frá NYC með lest til Montreal (Adirondack leiðin). Þeir segja á heimasíðu Amtraki að þetta sé „One of the Top 10 Most Scenic Train Rides in the World“, en nú hafði Sandy skolað öllum haustlitum út á hafsauga og allt var dálítið grátt og guggið. Þetta var samt alveg stórfenglega skemmtilegt og hér koma myndir sem ég tók út um gluggann: