Var í Vestmannaeyjum í gær. Spurði á Facebook hvað ég ætti að gera. Fékk ágæt svör, sem ég vissi svo sem flest enda með Eyja appið, og helmingurinn sagði að ég ætti að drífa mig sem fyrst til baka. Einn sagði að ég ætti að láta lemja mig. Svona er fílingurinn gagnvart Vestmannaeyjum, sem er náttúrlega rugl. Allir ættu að skella sér til Eyja enda fyrna fallegur staður og allir í fíling í sæluríki Elliða. Fuglarnir voru allsstaðar með læti í klettunum svo undirliggjandi sándtrakk í Eyjum er hávaði sem minnir á másandi hunda eða einhverja perverta á fremsta hlunni.
Margt hefur breyst síðan ég kom til Eyja síðast 1998, þá sérstaklega matarkúltúrinn. Slippurinn er frábær staður þar sem ég fékk mér 3ja rétta hádegistilboð á 3.490 kr. Í forrétt geðsjúk lúðusúpa. Aðalréttur ágætis steinbítur. Eftirrétturinn hrein klikkun, skyr með hundasúrukrapi, ristuðum höfrum og marenshjúpaðri hundasúru (sjá mynd). Mesta lostæti sem ég hef fengið á árinu.
Nytja- og antíkbúðin Vosbúð hefur verið starfandi í 2 mánuði og er þrumu verslun. Mikið úrval af allskyns spennandi dóti. Ég keypti tvær 78sn danskar plötur með exótísku havaí fíli, djassplötu með Eddie „Locklaw“ Davis Quartet og Tunglið og túskyldingurinn eftir W. S. Maugham. Tvær Disney syrpur að auki fyrir Dabba, samtals 1.800 kr. Fólkið í Vosbúð ætlar að skella best of í sendibíl og vera í Kolaportinu um helgina. Talandi um spennandi grúsk um helgina þá verður fyrsti Bernhöfts Bazaar á morgun þar sem músík verður aðalmálið. Væntanlega allt vaðandi í plötum og fíniríi.
Dabba finnst sund leiðinlegt en hann fílaði sundlaugina í Eyjum í botn enda með tveimur fítusum sem slógu í gegn: klifurvegg og rennibraut sem endaði í trampólíni. Mjög góð sundlaug þótt gufan væri lokuð.
Eftir að KR hafði rótbustað ÍBV 5-2 (Dabbi skoraði mark númer tvö) fór ég í Tangann og fékk skínandi góða fiskisúpu á 2.490 kr.
Ég brunaði í rokið út í Stórhöfða en hafði ekki tíma til að gera ýmislegt sem ég ætlaði að gera eins og að skoða fiskasafnið og eldgosasafnið. Það verður því eflaust stutt þar til ég fer aftur til Eyja, enda er þetta ódýrasta „utanlandsferðin“ sem völ er á og mjög næs dæmi.