Þrír frábærir baksviðs í Silfurtunglinu í febrúar 1965. Haukur Morthens stóð fyrir innflutningi á The Swinging Blue Jeans og Hljómar hituðu upp í Austurbæjarbíói (ásamt Tempó). Giggin, alls sex, gengu vel og Haukur sást skömmu síðar á nýjum kagga á götunum.
Poppsöguleg mynd frá 1965
29 MaíFrábær hljómsveit – 30 árum síðar
22 Maí
Þau undur og stórmerki gerðust nýverið að ég keypti geisladisk í búð. Sjálfur Ási í Faco, Fálkanum, Gramminu og nú Smekkleysu afgreiddi mig með eintak af diski Fan Houtens Kókó, Gott bít. Þegar þetta var afstaðið settist ég á bekk í sólinni, reif plastið af og skoðaði diskinn og umbúðirnar. Allt þetta olli hugrenningartengslum við löngu liðinn veruleika þegar svona hegðun var reglubundin. Nú fer „neysla“ tónlistar jú að mestu fram með músasmellum, og þá helst á Spotify. Ýmsum gæti fundist það mikil afturför, sem það eflaust er.
Á geisladisknum Góðu bíti má finna lög af kassettunum Musique élémentaire og Það brakar í herra K frá 1981 og auk þess hljóðritanir frá 1982 sem sumar voru gefnar út á safnkassettunni Rúllustiganum en aðrar sem aldrei hafa verið gefnar út áður. Allar upptökurnar eru „læf“, ýmist frá tónleikum 1981 eða gerðar í æfingahúsnæði – segir Fan Houtens kókó á facebooksíðu sinni.
Kókóið var hreinlega frábær hljómsveit og þetta stöff stenst tímans tönn „eins og bringuhár Bjarna Felixsonar“. Ég var mikill aðdáandi og á kasseturnar ennþá. Hér er best off af þeim plús nokkur óútgefin lög sem eru hreinlega betri en „flíruleg rotta og hún“. Kókóið spilaði „og kremur spriklandi kjötbollu“ en var graflöxuð í því besta af póstpönkinu – stöff eins og Cabaret Voltaire, Wire, YMG, Devo og Suicide er súrrað í Breiðholtsmalbiki örlí eitísins þegar allt var allt öðruvísi en núna (eins og vill henda). Þrusugott stöff fyrir alla með eyru.
Tónlistin leggst á eins og „eyrað upp við ofninn“. Ég hef verið að raula stuðlög eins og „Matseðill Ísidórs Greifa“, „Eru kattaskins nýmóðins“ og „Samba fyrir æðarblika og skjálfani neglur (tsja – tsja – tsja)“. Og náttúrlega öll hin líka. Bæklingur er tipp topp. Allir textar. Líka fullt af myndum, skrá yfir tónleika og saga sveitarinnar, skrifuð af Trausta Júlíussyni, cand mag. Gæti varla verið betra.
Úr vöndu er að ráða við að velja stuðlag til sýnis. Sjálfir hafa þeir sett Allir vilja Bebop á Youtube. En ég bregð á það ráð að skjóta hér að meistaraverkinu Grænfingraðir morgunhanar
Glaðasti köttur í heimi
22 MaíEins og kunnugt er kom Maggi Mix með gott grín þegar hann sendi frá sér lagið Glaðasti köttur í heimi.
Nú er búið að finna glaðasta kött í heimi. Hann býr í Japan og heitir Hironeko – „Hvíti köttur“. Hér er hann í hamingjuseminni uppmálaðri.
Þú skalt endilega létta lund þína með kettinum því þetta lítur víst ekkert svo vel út fyrir okkur, homo sap. Vísindamenn hjá NASA eru nebbblega að spá því að siðmenningin, eins og við þekkjum hana, líði undir lok eftir nokkra áratugi.
Andskotans vesen!
Glæný tónlist!
18 MaíHvað er þetta glæ sem er svona nýtt? Er það sama glæið og er kastað á glæ? Og etv skylt því glæ-silega? Kannski þýðir glær bara sjór?
Jæja, ég er alltaf að fá vísbendingar um nýja tónlist. Glænýja jafnvel. Mér rennur blóðið til skyldunnar og verð að miðla þessu áfram. Byrjum á honum Línusi Orra. Hann er í Myndra, sem er ný íslensk/kanadísk hljómsveit. „Ég er þessa dagana að reyna að vekja athygli á nýrri plötu sem er að fara að koma út eftir mánuð. Ég syng í þessari hljómsveit sem er staðsett útí Kanada og hefur hingað til aðeins verið virk þar. Ég hef semsagt flogið reglulega út á síðustu tveimur árum til þess að spila á tónleikum og taka upp og nú loksins er platan tilbúin og við ætlum að halda stóra útgáfutónleika í Norræna húsinu þann 7. júní. Hægt er að hlusta aðeins á plötuna á www.soundcloud.com/myndra.“ Ljómandi fínt popp hjá Myndra.
Svo er það Steinunn Ósk Axelsdóttir sem er í hljómsveit í Los Angeles sem heitir In the Key of Earth. Þetta er nýaldar-rokkband og fyrsta platan komin út. Spreðlandi sveimrokk! In The Key Of Earth – The Cold
Þá er það öfgastöff frá Ladyboy Records: KRAKKBOT – AMATEUR OF THE YEAR. CRAMMED WITH COCK Krakkbot er tónslistarmaður sem flytur dómsdags-raftónlist. Hann vinnur einkum með drunur, takta og hávæða. Hann lýsir tónlist sinni sem síþróandi skrýmsli, og daðrar við þungarokk, hipp-hopp, heimatilbúin raftæki, feedback og hreinar hljómtíðnir í tilraunum sínum til að skapa martraðarkenndt draumalandslag. Þú getur sótt stafræna eintakið þitt HÉR. Þetta er fimmta útgáfa umboðsins, og tekur form sitt sem 50 kassettur í sægrænum, bleikum, bláum og gráum geislaígröfðum umbúðum. Hvert eintak er einstakt og byggt á teikningum listamannsins. Útgáfuhóf verður haldið á Húrra föstudaginn 30. maí. Dj. Flugvél & Geimskip og Pyrodulia hita upp.
Gímaldin – Allir eru gordjus
Gímaldin var að koma með nýja og netta blúsplötu, Köttur á heitri steypu. Hann kynnir hana á morgun á Café Rosenberg – útgáfutónleikar sem sé. Hér er facebook-eventinn.
Að lokum er það Freyr Flodgren sem býr í Svíþjóð. Kósí.
Streymdu Prins pólói
14 Maí
Á morgun 15. maí kemur út þriðja plata Prins Póló. Hún heitir Sorrí og inniheldur 12 lög. Sum splunkuný, önnur aðeins eldri. Smíði plötunnar hefur staðið yfir frá ársbyrjun 2012 og hafa sum lögin komið út áður einsömul. Má þar nefna lög eins og Bragðarefi, Tipp Topp, og Landspítalann. Ný lög eins og Hamstra sjarma, Ég kem með kremið og Kosmós hafa ekki áður litið dagsins ljós.
Platan fæst í gegnum heimasíðuna www.prinspolo.com en þar er jafnframt hægt er að streyma henni ókeypis. Platan mun svo innan skamms fást á geisladiski í öllum betri hljómplötuverslunum.
Í tilefni dagsins fverður myndband við lagið Hamstra sjarma frumsýnt á prinspolo.com.
Til hvers að kjósa?
7 Maí
„‘Ég kaus VG en ég hefði rétt eins getað exað við D því það er ekkert að ske“ – segir Úlfur Kolka í laginu Til Hvers að kjósa? Hann er í reiðiham á plötunni Borgaraleg óhlíðni sem hann var að gefa út og hægt er að hlusta á á Spotify. Önnur lög á þessari ágætu plötu eru til dæmis „Mótmælandi Íslands“ um hann Helga Hós, „Við munum öll…“ og „Svínin þagna“. Þetta er sem sé ekkert voðalega mikið stupid sumarpopp heldur reiði og uppreisn. Var ekki einhver að biðja um svoleiðis?
Hér er kynningartexti frá höfundi: Um er að ræða fyrstu pólitísku rappskífu Íslandssögunnar og ber hún nafnið Borgaraleg Óhlýðni. Þetta er jafnframt fyrsta platan mín á íslensku en áður var ég forsprakki rappsveitarinnar Kritikal Mazz. Með Kritikal Mazz gaf ég út samnefnda plötu árið 2002 í gegnum Smekkleysu og var platan m.a. tilnefnd sem ‘Hiphop plata ársins’ það ár á Tónlistarverðlaunum Radíó X & Undirtóna. Eftir að Kritikal Mazz platan kom út lenti tónlistin á hillunni í þónokkurn tíma þar sem ég var að einbeita mér að B.A. námi í grafískri hönnun, sem ég útskrifaðist úr vorið 2008. Þegar ég áttaði mig á því hversu litlu búsáhaldabyltingin svokallaða skilaði og hversu lítið þjóðin ætlaði sér að gera í því, gat ég ekki annað en tekið blað og penna í hönd. Þar með varð lagið ‘Til hvers að kjósa?’ til, sem fékk ágætis viðtökur á YouTube, og ekki aftur snúið. Nú rúmlega 3 árum seinna er platan svo tilbúin og ólíkt mörgum öðrum rappskífum kom enginn annar að gerð hennar, þ.e. hvorki gestarappari né annar taktsmiður en ég sjálfur. Borgaraleg Óhlýðni er komin út á CD og er gefin út af nýrri útgáfu sem heitir Vesturbær. Platan er einnig fáanleg í stafrænu formi á iTunes, Amazon og fleiri síðum (kemur á gogoyoko og tonlist.is fljótlega). Annars er ég nýkominn heim til Íslands aftur eftir nokkurra mánaða dvöl í Los Angeles þar sem ég bjó í Inglewood. Þar var ég aðallega að pródúsera (smíða takta) fyrir aðra rappara. Ég er svo nýbúinn að stofna production teymi sem nefnist Sin Pausa ásamt Gnúsa Yones (í reggae-sveitinni Amaba Dama) og er fullt af skemmtilegum hlutum framundan hjá okkur, þ.á.m. mánaðarleg hiphop kvöld.
Skeggjaðir menn borða banana
5 Maí
Cheddy Carter er nýtt íslenskt hip-hop band sem inniheldur rapparana IMMO, Charlie Marlowe og producerinn Fonetik Simbol. Bandið hefur gefið út sitt fyrsta lag sem nefnist „Saturday Session“…