Sarpur | ágúst, 2012

Futuregrapher og Þórir plöggaðir

31 Ágú

 Futuregrapher – Ambient spítt

Þétt rafplata er LP með Futuregrapher. Fjölbreytt og skemmtileg.

Platan LP hefur verið í mótun frá árinu 2010 og inniheldur 12 lög og er hljóðblönduð af Jóhanni Ómarssyni (b.þ.s. Skurken) og tónjöfnuð af Birgi Sigurðssyni (Bix). LP er í anda tíunda áratugs bumbu & bassa tónlistar með góðri blöndu af elektróníku og sveim (hugleiðslu tónlist). Futuregrapher er listamannsnafn hins dýrslega Árna Grétars. Hann er einn stofnanda Möller Records, ásamt Jóhanni Ómarssyni, og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir tónleikflutning á verkum sínum – en hann hefur verið að spila mikið síðastliðin 2 ár og nú undanfarið með dyggri aðstoð Einar Helgasonar, sem er í techno hljómsveitinni Bypass, og Guðjón Heiðars (umsjónarmanns Gagnauga og sonar Valla í Fræbbblunum!), en hann syngur og semur texta fyrir lagið Think sem má sjá videóið af hér

Útgáfutónleikar Futuregrapher verða haldnir á efri hæð á Faktorý í kvöld! Þar spila einnig Intro Beats, Diddi Fel & 7 Berg, Samaris, Skurken og Árni Skeng & Ewok, en Futuregrapher stígur á „stokk“ ´á milli 00:30 – 01:00 segir hann.


Á mánudaginn (3. September) mun tónlistarmaðurinn Þórir Georg koma fram á tónleikum í Nýlenduvöruverslun Hemma og Valda. Þar mun hann flytja lög af væntanlegri plötu sinni í bland við eldra efni. Plata Þóris, I will die and you will die and it will be alright, kemur út þann 8. Nóvember í Þýsklandi, Austurríki og Swiss og er stefnt á útgáfu á Íslandi í Október.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og er aðgangseyrir enginn.

Hér er lagið You know er lag af væntanlegri plötu Þóris.

Hillingar 1976

29 Ágú


Keypti mér safnplötuna Hillingar í Hjálpræðishernum á 200 kall. Hún kom út 1976 á fyrsta útgáfuári Geimsteins-útgáfunnar og er merkt GS102. Hér syngja 7 söngvarar eigin lög en Geimsteins-mafían leikur undir. Hér er margt um fína drætti.


 Rúnar Júlíusson – Hristu af þér slenið

Góður diskóköntrísmellur frá meistaranum, sem reyndar notaði listamannsnafnið G. Rúnar Júlíusson á þessum tíma. Lag og texti eftir Rúnar sjálfan.

 Magnús Kjartansson – Það skiptir engu máli

Gríðarlega harmrænn texti eftir Magga og lagið líka. Ég mæli ekki með þessu lagi ef þér þjáist af þunglyndi.


 Gunnar Friðþjófsson – Hennar tryggð er mér kunn
Gunnar var í sönghópnum Tríóla og samdi tónlist við barnaleikritið Sannleiksfestin, sem Hafnafjarðarleikhúsið setti upp 1973 (SG gaf út litla plötu með tónlistinni ári síðar). Hann gerði líka tvö lög með söngdúettnum Gunni og Dóri (Útgefandi MÓK Records 1975). Eftir þátttökuna í safnplötunni Hillingar (Gunnar syngur einnig lagið „Ungur er og skemmti mér“ á henni), poppaði Gunnar næst upp í sönglagatríóinu Bónus, en svo virðist hann hafa horfið sporlaust úr poppbransanum. „Hennar tryggð er mér kunn“ er eftir hann en textann gerði Lárus Sólberg Guðjónsson. Skemmtilegt hvernig „Selvogsgrunn“ kemur fyrir í textanum, en það grunn kom einnig eftirminnilega við sögu í sketsi með Matthildi. (Þess má svo geta að myndin hér að ofan af Gunnari rímar við spurninguna: Hvað ætlarðu að gera á 17. júní?)

Aðrir söngvarar sem koma fram á Hillingar eru Gylfi Ægisson, María Baldursdóttir, Engilbert Jensen og Björgvin Halldórsson, sem syngur reyndar bara bakraddir og leikur að auki á munnhörpu af alkunnri snilld.

Jesús í Örfirisey

28 Ágú

Frelsarinn leynist víða, líka í nytjamarkaði Hjálpræðishersins á Eyjarslóð. Þessi stórglæsilega mynd fæst ábyggilega á góðu verði.

 

Tveir dularfullir diskar

28 Ágú

Hin glæsilega 123 íslenskir diskar til sölu-sala gekk ljómandi vel og stöffið mokaðist út enda á hlægilegu verði. Mér er nokkuð sama þótt ég eigi þessa diska ekki lengur, enda vinýl og mp3-„maður“, en samt eru tveir titlar sem ég er smá sorgmæddur yfir að missa. Það er kannski vegna þess að ákveðið dulmagn er yfir þessum útgáfum, diskarnir eru góðir og hafa fráleitt fengið þá athygli sem þeir eiga skilið.

 Brite Light – Little 55

Þennan 6-laga disk keypti ég úr „heimabruggs“-rekkanum í 12 tónum um aldarmótin, minnir mig. Mjög fínt stöff en ég hef aldrei lesið neitt um þetta band, Brite Light, og aldrei séð mynd af því. Gúggl skilar heldur engu. Í bandinu voru þær Tinna söngur, Kolbrún bassi og Unnur trommur, og Árni á orgel. Hvaða lið er þetta eiginlega og hvað varð um það!? Fór það í einhver önnur bönd?


  Mug – Polycentric adaptor

Hljómsveitin Mug kom með diskinn Polaroid Period 1999 og hvarf svo alveg. Nokkuð djúsí lófæ Sonic Júþþað og Pavementað gáfumannarokk. Hvað varð um þessa stráka? (ps – lagið er svona „hratt“.)

123 íslenskir diskar til sölu!

27 Ágú

sæll! Eins og allir vita eru geisladiskar það sem koma skal í tónlistarhlustuninni. Þess vegna hef ég ákveðið að losa mig við 123 íslenska diska í því sem ég kalla:

123 íslenskir diskar til sölu-salan.

Margir diskanna eru brjálæðislega nýútkomnir og verðin eru engu minna geðsjúk. Bara þrjú verð eru í gangi, þ.e. 200, 500, 1.000 og 1.500 kr. Ef ég verð orðinn eitthvað desperat að losna við þetta þá verð ég ábyggilega mjög opinn fyrir prútti.

En þetta er semsagt svona. Hér eru skjöl með titlum og verði á tveimur formötum:

 

ALLT BÚIÐ!

Ef þú sérð eitthvað sem þig langar í sendirðu mér póst og ég tek þetta frá fyrir þig. Afhending eftir samkomulagi og fyrstir koma fyrstir fá.

Alles klar kommisar?

Töff kaggi #7

27 Ágú


Ef Töff kaggi #6 er konungur kagganna í Vesturbænum, þá er þessi prinsinn. Chrysler sirka 1950, veit ekki meir, en það stendur „Fluid drive“ á skottinu. Ég sá ekki betur en það væri heilt djúkbox í mælaborðinu.


Magnþrunginn bíll. Ef maður ætti svona þyrfti maður hvorki að hafa áhyggjur af framtíðinni né velta fyrir sér tilgangi lífsins.


Nei, ég segi það nú kannski ekki.

Lífsskoðunin vann

25 Ágú


…og Lífsskoðunarmenn mörðu Stóriðju. Hér er Valli að stúta gítarnum, reyndar fyrsti gítarnum sem hann stútar um dagana.

Er þá Popppunkti – Baráttu stéttanna – lokið. Horfið í hægri endursýningu hér.

Stórglæsilegur lokaþáttur!

24 Ágú


Hann er helv skemmtilegur úrslita-Popppunkturinn í kvöld kl. 19:35, þó ég segi sjálfur frá (já, það er búið að taka hann upp). Líklega bara einn af þeim allra eftirminnilegri á ferlinum og þó er þetta Popppunkts-þáttur númer 124, svo tölfræðinni sé haldið til haga.

Við erum búnir að vera með Baráttu stéttanna í sumar, fengum 14 lið í sjö leiki, sem fóru svona:

1. Útfararstjórar – Heilsunuddarar 39 – 23
2. Skátar – Tölvunördar 30 – 28
3. Lífsskoðunarmenn – Auglýsingamenn 46 – 41
4. Háskólakennarar – Leikskólakennarar 39 – 38
5. Stóriðja – Náttúra 49 – 34
6. Hamborgaraforkólfar – Heilsufæðisforkólfar 43 – 30
7. Bílamenn – Hjólafólk 39 – 31

Tvö stigahæstu liðin keppa í kvöld, sem sé Lífsskoðunarmenn á móti Stóriðju. Þetta er ÆSISPENNANDI og alveg STÓRGLÆSILEGUR þáttur! Algjört skylduáhorf myndi ég halda.


Hér er lið Stóriðju nokkrum sekúndum áður en byrjað var að taka upp.


Og hér eru Lífsskoðunarmennirnir, séð frá púltinu mínu.

Sögur af Stórval

23 Ágú


(Stórval, mynd Emil Þorsteinsson)
Flestir, allavega þeir sem eru fertugir og meira, kannast við „kvistinn í mannlífstrénu“ hann Stefán Jónsson – Stórval (1908-1994). Málverkin hans verða helst að vera til á hverju menningarlegu millistéttarheimili. Sjálfur á ég enga orginal Stórvals-mynd, en bæti kannski úr því einhvern tímann. Ég á þó tvær „falsanir“, eina eftir Ása bróður minn og aðra eftir Jón Dead Sæmundsson. Ási er með svona myndir á spottprís í Tempó innrömmun, Hamraborg.

Fyrir nokkrum árum gaf vinur Stórvals, gullsmiðurinn Sigmar Ó Maríusson, út kassettu þar sem hann sagði sögur af Stórval og hermdi eftir honum. Öðlingurinn Ásgeir S. Sigurðsson í Harmóníkusafninu á Ísafirði sendi mér nýlega kópíu af þessari kassettu og mér finnst algjör óþarfi að láta þetta eðalefni liggja í þagnargildi. Svo gjörðu svo vel!

Uppfært: Sigmar hafði samband og benti á að diskur með þessu efni er til sölu í Bókakaffinu á Selfossi eða hjá Sigmari sjálfum (s: 554 2552). Ég biðst afsökunar á að hafa sett þetta hérna inn án þess að fá leyfi, en mér datt bara ekki í hug að þetta væri ennþá fáanlegt.

Góður aukapakki um Stórval er svo þessi frásögn Gísla Helgasonar, sem endar á gullkorni, Stórvali sjálfum að syngja.

Súrmeti í trogum

23 Ágú

Tónleikaveislan heldur áfram og nóg er að bíta og brenna fram að orgíunni sjálfri 31. okt -4. nóv. Framundan er súrmeti í trogum:


Núna á föstudagskvöldið verður boðið upp á góða súrsaða kjamma á Factory – hljómsveitina Prince Rama og Kríu Brekkan.  Í fréttatilkynningu segir svo: Prince Rama er skipuð systrunum Taraka og Nimai Larson sem voru aldar upp í Hare Krishna kommúnu í Florida og skólaðar í School of Museum of Visual Art í Boston. Kann það að einhverju leyti að skýra þann eteríska sækadelíuseið sem systurnar hafa bruggað síðan. Þær hafa þó síðan komið sér fyrir í tónlistarlegu gróðrarstíunni í Brooklyn og alls sent frá sér 4 breiðskífur. Sú síðasta, Trust Now, sem kom út í fyrra var gefin út af Paw Tracks útgáfunni sem er rekin af þeim Animal Collective félögum.

Hér má streyma frítt nýjustu afurð Prince Rama, Trust Now, á gogoyoko: http://www.gogoyoko.com/album/Trust_Now

Það verður engin önnur en Kría Brekkan sem mætir með föruneyti og hitar upp samkomuna. Kristín Anna Valtýsdóttir var löngum álfur í skóginum múm en hvarf á vit annarra ævintýra um 2006 og fór að vinna að költ performans seríu Kríu Brekkan í Eplaborginni. Kristín Anna hefur spilað með hljómsveitunum Stórsveit Nix Noltes, Mice Parade og Animal Collective og gefið út tónlist á fyrrnefndri Paw Tracks útgáfu. Í vor túraði Kría Brekkan um austurströnd Bandaríkjanna með Plastic Gods og Muck.

Miðar: http://midi.is/tonleikar/1/7177 og í verslunum Brim á Laugavegi og í Kringlunni.


Þann 15. sept er svo komið að stóner dúmm sækadelíu-bandinu OM að leika á Gamla Gauknum. Það er einhver biblíufílingur í strákunum (djók?) og þeir svona líka afslappaðir, djúpspakir og næs. Nýjasta platan þeirra (fimmta platan þeirra) heitir Advaitic Songs og var bara að koma út. Tékkaðu til dæmis á laginu State of non-return af henni. Um upphitun sér íslenska hljómsveitin The Heavy Experience, sem nýlega gaf út hina fínu plötu Slowscope. Því ekki að hlýða á lagið Kingdom af henni? Fékbókar-síða um þessa tónleika er svo mikið sem nákvæmlega hér.