Sarpur | september, 2014

Bæjarbíó um helgina

30 Sep

Þetta verður eitthvað, eins og sagt er:
967793_10152425609180852_293597172_n

Miðasala á MIÐI.

Ég á allar kassetturnar með þeim

27 Sep

Tdkc60cassette
„Ég á allar kassetturnar með þeim“ er hnyttinn frasi frá Bo Halldórssyni. Ég heyrði hann fyrst í Popppunkti við fáránlegri spurningu um hljómsveitina Crispy Ambulance. Eins og það þýddi eitthvað að spyrja hljómsveitina Brimkló um Crispy Ambulance!

Í dag er alþjóðlegi kassettu-dagurinn. Á Íslandi er honum helst fagnað af útgáfufærirtækinu Lady Boy Records, sem eitt „fyrirtækja“ hér gefur flest sitt efni út á þessu ódýra formati. Útgáfan fagnar deginum í kvöld á Bravó.

Að auki hefur Touch Tapes gefið út Gilsbakka með Skurken og LP með Futuregrapher.

Sjálfur var ég mikið í kassettunum og gaf mikið út á þessu formati á vegum Erðanúmúsík. Ég gerði einnig þætti á Rás 2 um íslenskar útgáfur á kassettum, hina stórfínu þætti (þótt ég segi sjálfur frá) SNÆLDA, sem enn má hlusta á.

Á árum áður tók maður upp á ótal kassettur, sendi til pennavina og fékk kassettur í staðinn. Svona kynntist maður allskonar tónlist, áströlskum eðalskít, ungverskum eðal, pólskum eðal, finnskum eðal (ég er ekki frá því að eðall sé nýja uppáhaldsorðið mitt). Á ferðum mínum erlendis keypti ég oft kassettur, t.d. í CBGB’s búðinni: örlí stöff með Daniel Johnston; Bless fékk óútgefið Spiderland með Slint á kassettu og hlustaði á í vaninum, fékk líka kassettu með hljómsveitinni Couch Flambeau á þessum suddafína Bless-túr af því ég þótti minna á söngvarann í þessari hljómsveit. Þú getur dæmt um það sjálf/ur.

Í hipsterheimum er nú spurt hvort kassettan sé hin nýja vinýlplata. Sjálfur vil ég meina að 78 snúninga platan sé hin nýja vinýlplata.

PS: Heiða og kó verður í Kolaportinu um helgina. Mætið! Það verða kassettur til sölu!

Þrjár hreyfðar myndir

27 Sep

Hér koma þrjár hreyfðar myndir fyrir KJG:
2013-05-20 14.58.48
2013-05-20 15.03.07
2014-02-23 17.43.19

Fjórar fjörferskar

26 Sep

Það styttist í Airwaves og jólin svo nú fara plöturnar að koma út með vaxandi skriðþunga. Fáum funheit dæmi:

Kælir-varðhund

Stafrænn Hákon er kominn í rokkið á plötunni Kælir varðhund. Spikaðir útgáfutónleikar í kvöld á Húrra þar sem Loji og Strong Connection koma einnig fram. Heyrið Kælir varðhund hér.

palme-packshot-large
Ólöf Arnalds er að gefa út plötu númer 4, eða Íslandsvinirnir í One little indian öllu heldur. Platan heitir Palme (Olaf?) og Ólöf heldur sig við rólegan gír þar sem viðkvæma röddin hennar blómstrar sem aldrei fyrr. Patience er nýja smáskífan.

1511424_903448826348359_1029003775500863633_n
Smekkleysa hefur gefið út fyrstu sólóplötu Höllu Norðfjörð, The Bridge. Halla er frá Kópaskeri en býr nú í Kaupmannahöfn eftir því sem ég kemst næst með skæðum persónunjósnum á alnetinu. Platan er í rólegum folk-stíl og er haldið uppi af viðkunnalegri rödd Höllu og snotrum lagasmíðum. Það er sjálfur Þór Eldon sem kó-pródúseraði og mixaði plötuna. Hér er Halla læf í einhverju ítölsku eldhúsi:

10301446_10152687858954019_967437637528419640_n
Svo eru það skeggaparnir í Hjálmum sem hafa gefið út tvöfaldan safndisk með nýjum lögum og magabelti, Skýjaborgin. Þeir fagna 10 ára afmæli í kvöld í sjálfri Eldborg, Hörpunni. Nýju lögin eru 4 þar á meðal Tilvonandi vor þar sem krúsidúllan DJ Flugvélar og geimskip fer á kostum og titillagið Skýjaborgin.

Öndergránd mjólk

25 Sep

Það er alltaf sama sagan. Græðgi, ósanngirni, samráð og plott. Menn að hittast í Öskjuhlíð, skrifandi tölvupósta – eyðið að lestri loknum – ó ég gleymdi broskallinum. Vitleysingar með bindi að safnast saman og plotta plott – ekki með samfélagsleg markmið að leiðarljósi eða almannahag heldur hvernig þeir geti mokað sem mest undir terlínklædd rassgötin á sjálfum sér.

Geisp. Svo hvað annað er nýtt? Ekki neitt. Bankadrasl, geðveikislega massíft bankadrasl sem sér ekki fyrir endann á, grænmetisdrasl, bensíndrasl og nú mjólkurdrasl. Svo kemur þetta með bindin og rífur kjaft við Helga Seljan eða segir eins og Georg Bjarnfreðarson: Þetta er misskilingur. Og við förum náttúrlega og kaupum af þessu liði af því það er ekkert annað í boði, eða allavega ekkert sem við nennum að eltast við. Spilling er vond, tuðum við, nema þegar spillingin rennur í minn vasa, þá er hún ok. Láttu mig þekkja það.

Er ekki MS og KEA það sama? Því verður ekki neitað að þetta eru ágætis framleiðendur en það er ekki bindaköllunum að þakka heldur starfsmönnum á plani, harðduglegum mjólkurfræðingum og ostagerðarmönnum. Grísk jógúrt hjá MS og Vanilluskyr frá KEA er alltaf í ísskápnum. Svarti Maruud brauðosturinn er bestur oná brauð.

2014-09-23 18.33.03
Talandi um ost þá fór ég á stórskemmtilegt og fræðandi – og ljúffengt! – ostanámskeið hjá henni Eirnýju í Búrinu. Mæli með því, hreinlega frábært.

Ég hef reyndar verið að temja mér öndergránd innkaup á mjólkurvörum. Ég hef áður minnst á ÖRNU á Bolungarvík. Eðalstöff sem kemur þaðan, ekki láta þetta „laktósafrítt“ hafa áhrif á ykkur, skyrið þeirra og rjóminn eru hreinn unaður. Svo er það Bíóbú. Þaðan kaupi ég hina frábæru jógúrt með kókos. Dós af því í boostið er eðall. Nýlega hef ég svo byrjað að kaupa lífrænu mjólkina frá þeim. Algjör eðall, feit og góð, en helmingi dýrari en önnur mjólk svo krakkarnir fá bara MS. Það getur svo sem vel verið að MS mafían sé með fituga puttana í þessu öllu saman, hvað veit ég. Ég er bara eins og beljurnar sem standa nauðugar viljugar í sínum básum og láta mjólka mig.

ps. Mun nokkur hætta að versla við þrælakistuna Amazon þótt vinnuaðstaðan sé helvíti á jörð eins og sást í heimildarþætti sem Rúv sýndi nýlega?

Ballaða tileinkuð Vilborgu pólfara

23 Sep


Hér er þjóðlagaballaða tileinkuð Vilborg pólfara. Listamaðurinn Wizard Elio (Elio Ferrari) er ítalskur og meira veit ég eiginlega ekki. En svona er textinn um afrek Vilborgar:

She had a beautiful dream
led by a moonbeam
maybe it will come true
the best dream for you

Vilborg the plane is gone,
Vilborg the plane’s far away,
you’ll go forward in some way,
but now you’re really alone

But you’ll get there, you’ll get there
you don’t lack the courage
and you’ll get there, you’ll get there
the glory will write a new page

The frost and fury of the tempest
have prevented your repose
now the cold is severest
and another headwind blows

The sun never went down
then began the countdown
the sun on the sixtieth day
suddenly will cry „Hooray“

What will remain down there
Vilborg, is your heart
but it’ll be back at every start
to stay with you everywhere

On the summit of a mountain,
along the way of an enterprise
everything that you’ll gain
comes from your faith in every sunrise

Gunnar Nelson á topp vinsældarlistans

22 Sep


Gunnar Nelson komst á topp bandaríska vinsældarlistans 29. september 1990 með lagið „(Can’t Live Without Your) Love And Affection“. Gunnar og bróðir hans Matthew skipuðu dúettinn Nelson. Þeir eru synir Ricky Nelsons. Þetta er náttúrlega alveg hræðilegt lag og ég vona að ég hafi ekki skemmt daginn fyrir þér.

Þetta blogg er svokölluð beita til að fá græskulausa lesendur til að klikka á hlekk því þeir halda að hér sé eitthvað um barsmíðamanninn góðkunna. Svona vinnubrögð eru stunduð á lélegum síðum sem eru með auglýsingar. Þannig geta síðuhaldarar sýnt fram á aðsókn við væntanlega auglýsendur. Eins og stendur er enginn að kaupa auglýsingar á þessari síðu en ég er opinn fyrir öllu. Sérstaklega ofsóttum fjárglæframönnum sem eru að reyna að snúa almenningsálitinu sér í hag.

Raggi @80

22 Sep

raggs
Raggi Bjarna, hinn mikli meistari og fjörbolti, er áttræður í dag. Enginn er eins hress og hann eins og sannaðist þegar hann var að syngja fyrir fullri Hörpu nú um helgina. Af „gamla genginu“ er hann sá sem enn er í mesta fjörinu.

Raggi fékk popp í vöggugjöf. Pabbi hans Bjarni „Bö“ Böðvarsson var helsti bandleaderinn frá sirka 1930 til sirka 1950 og mamma hans Lára Magnúsdóttir ein fyrsta poppsöngkona landsins.

Raggi fylgdist með hljómsveit pabba síns æfa, fylgdi með og seldi inn á böll, byrjaði að spila á trommur og svo að syngja. Árið 1954 gripu þeir Svavar Gests og Kristján Kristjánsson Ragga og gáfu út fjórar 78 snúninga lakkplötur með honum. SG og KK ráku á þessum tíma plötu- og hljóðfærabúðina Músikbúðin og plötuútgáfuna Tónika. Þetta var reyndar ekki langlíft dæmi hjá þeim. Raggi var fyrsta platan sem Tóníka gaf út í júlí 1954, tvö lög: Í faðmi dalsins og Í draumi með þér. KK Sextett lék undir. Við skulum hlusta á meistarann stíga sín fyrstu spor.

Ragnar Bjarnason – Í faðmi dalsins (Bjarni Gíslason)

Ragnar Bjarnason – í draumi með þér

Til hamingju með daginn Raggi Bjarna!

raggi54
(
Blaðaúrklippa frá 1954 segir frá fyrstu útgáfu Ragga. Mynd efst: Raggi í stórgóðu flippi með Sumargleðinni á síðustu öld)

Hnignun brandara

19 Sep

Í gamla daga voru dagblöðin full af teiknimyndasögum. Nú er þetta ekki eins gott. Halldór Baldursson er reyndar kóngurinn í Fréttablaðinu, Lóa Hjálmtýsdóttir er með vikulega snilld í Fréttatímanum, Henrý Þór er með póltískt grín í DV og einhverjir eru með grautfúlt grín í Mogganum. Mogginn í dag er líka með traust númer á síðu: Hrólf hræðilega, Ferdinand, Ást er…, Gretti, Hermann og eitthvað sem heitir Í klípu. Í Fréttablaðinu hefur brandarasíðan skroppið saman í þrjú volg: Pondus, Barnalán og Geljan.

Förum til 1976. Sigmund er á sínum stað í Mogganum á bls. 6 ásamt Ást er…
sigmund76
Bls. 40 er undirlögð af Tinna, leynilögreglustrippinu X-9, Sherlock Holmes, Ljósku, Ferdinand og Smáfólki (Peanuts). Á bls. 44 heldur þetta áfram með Cosper og grínhorninu Með morgunkaffinu.
cosper

medmorgun

Á bls. 45 er svo enn meira: Högni hrekkvísi og Sigga Vigga og tilveran eftir Gísla Ástþórsson:sigga viga

Sem sé: Heill haugur í Mogganum. Og ekki bara brandarar heldur nokkrar geirvörtur líka:
folkifr

Og hlið við hlið: ítalskt kvennafangelsisporn og ha ha með Bugs Bunny:
haha
Börnin börnin! Ætlar enginn að hugsa um börnin!?

Á þessum tíma var allt vaðandi í dagblöðum og börn og meistarar að selja þau á götum úti með köllum og hrópum og slagsmálum um bestu staðina. Dagblaðið var stútfúllt: Var með Hvutta, Flækjufót, Modesty, Fúsa, Stjána bláa, Gissur gullrass, Dick Tracy, Jóa Jóns, Mumma meinhorn, Lalla og Línu, Vesalings Emmu, (hinn íslenska) Bogga og hinn súra Adamson:

adamson
Erkiféndur Dagblaðsins á Vísi (sameining 1981) voru með karlrembugrín: Sigga sixpensara og ljóskuna Bellu, og þar að auki Rip Kirby, Tarzan, Hroll, Lísu og Láka, Andrés önd, Fredda (Fred Flintstone) og drykkjumanninn Móra.
mori

Flokksblöðin voru slöpp. Alþýðublaðið með þrjá nafnlausa brandara, Tíminn með Hvell-Geira, Kubb og Dreka, og Þjóðviljinn með Peter Simple og Klunna.

Nýupptekið eðalefni

18 Sep

Psst, varstu búin/nn að tékka á þessu?


Death of a Scooba Fish er Aðalheiður Arna Björgvinsdóttir. Hún gerir allt sjálf en hefur ekki gefið neitt út ennþá. Er þetta næsta megastjarnan okkar?


Godchilla er besta stóner-doom bandið á Flúðum. Fyrsta platan Cosmatos kemur út á morgun. Viðtal.


Skerðing frá Akranesi er hress popppönksveit sem hefur gefið út plötuna Músagildran. 30 krónur er gullinn smellur með texta sem steinliggur. Álíka beint í unglingamarkið og Teenage Kicks með The Undertones.