Sarpur | janúar, 2015

Hitti djöfulinn

31 Jan

2015-01-31 15.24.41
Þessi var að keppa í cosplay keppni uppi á Háskólatorgi. Japanskir dagar og allt í gangi. Ég var í dómnefndinni. Þessi vann samt ekkert. Mjög gaman að þessu og mikil fagmennska á ferð. Finnsk stelpa vann með gullfallegan búning upp úr einhverjum teiknimyndum sem ég veit ekkert um en álfurinn Link úr Return from Zelda var númer tvö.

Fer ég í þorrablót í kvöld. Svo horfi ég á Söngvakeppnina og kýs náttúrlega Friðrik Dór sem er með skemmtilegasta lagið. Ég hef í raun lítið „að segja“ en finnst bara óþarflega langt síðan ég bloggaði eitthvað og er eiginlega orðinn leiður á Facebook og Twitter og nenni ekki að setja þetta þar.

Íslenskt í Groningen

20 Jan

Ég var sem sé á panel um útrás íslenskra hljómsveita á hinni miklu Eurosonic ráðstefnu í Groningen. Fékk sérmerktan sixpakk af Heineken að launum.
2015-01-16 17.56.27
Við bjuggum mörg á stórum síkjabáti. Mér og Agli Tómassyni var troðið saman í káetu. Svo rölti maður um bæinn, sem er alls ekki stór, allavega ekki miðbærinn. Þarna var hellingur af allskyns þjóða kvikindum að spila, en Ísland í fókus með 19 atriði á dagskrá. Maður hékk eðlilega mest utan í íslensku dagskránni.

2015-01-15 20.52.11
Hér má sjá Ólaf Björn Ólafsson, ÓBÓ, flytja sitt lágstemmda efni með fiðlu og gítarleikara. Óbó var fyrrum trommari með Yukatan og Unun en hefur svo unnið með allskonar dóti í seinni tíð, m.a. Sigur Rós. Músíkin var dúllerí og Óbó með hálfgerðan ljóðalestur ofan á. Mjög lágt stillt svo þegar trommu-sándtékk á neðri hæðinni brast á heyrðist það full mikið á milli. Engu að síður fín músík til að loka augunum við.

Aurora var eitthvað drepleiðinlegt norskt band með Cranberrieslegri söngkonu. Ég var að deyja innilokaður út í horni en tókst að troða mér gegnum þvöguna og út. Hinds (áður Deers) eru spænskar og rokka bílskúrslega og eins og allt sé alltaf að detta í sundur. Nokkuð kjúttað.
2015-01-15 23.00.34
Júlíus Mayvant (hann heitir reyndar Unnar, aðalgaurinn) ku vera búinn að eyða miklum tíma í fyrstu plötuna sína, en almenningur þekkir bara Color Decay, sem miðað við settið í Groningen Forum er með bestu lögum. Fyrsta lagið sem hann tók, brassknúinn slagari, var reyndar mjög gott líka við fyrstu hlustun en restin þarf kannski meiri hlustun. Júlíus/Unnar er full lúðalegur á milli laga með frekar fúla brandara. Ætti kannski að taka sig á þar, kannski taka uppistandskúrs hjá Þorsteini Guðmundssyni. Samt: Held alveg að hjólin geti farið að rúlla hraðar og hraðar á þessum bæ.
2015-01-15 23.51.47
Dj Flugvél og geimskip vafði áheyrendum um fingur sér og tók þá í æsispennandi geimferð. Allt annað en leiðinlegt dót hér á ferð, enda Steinunn svo innileg og eðlileg í framkomu, atferli og hegðun. Ofsa fjör.

Smellti ekki mynd af Young Karin, en þau voru skemmtileg í kjallara djassklúbbs. Trommarinn úr Agent Fresco barði þetta áfram en söngkonan mætti aðeins vinna í framkomu, atferli og hegðun.

2015-01-17 00.38.45
Skálmöld kunna að víkingametalrokka sali og tóku Grand Theater í gíslingu af miklu öryggi. Allir stælarnir náttúrlega, fimmundarsöngur og gítarsóló.

Svo missti maður af allskonar dóti, Rökkurró voru víst snilld í kirkju, Mammút rokkaði buxurnar af liðinu og Kiasmos elektró-headbönguðu partíið.

Groningen er næs. Hjólamenningin jafn geðveik þar og annarsstaðar í Hollandi. Fékk mér djúpsteiktan músling sem ég hef einhvern veginn tengt við Holland eftir að ég var þarna endur fyrir löngu. Það undarlegasta í ferðinni var að sjá Megasar-plötur upp um alla veggi í plötu/antík-búðinni Klinkhamer. Keypti ekki, enda er Megas á Spotify!
2015-01-17 14.07.23
Það næst undarlegasta var að sjá styttu fyrir utan rakarastofu sem er alveg eins og Conan O’Brien.
2015-01-15 17.24.20

Á Eurosonic með Íslendingum

15 Jan

1421331414255

Hér er ég í Groningen á mikilli tónlistarráðstefnu sem heitir Eurosonic. Ísland er í sviðsljósinu og heil 19 íslensk atriði á dagskrá. Svo eru líka ráðstefnur og mikið plögg. Hér er verið að selja músík ekki lambakjöt en samt svipaður fílingur. Daddi Diskó ætlar að veita flatkökur með hangikjöti og brennivín á Meet og Greet fundi á eftir en nú er komið að pallborðsumræðum um undrafyrirbærið Iceland Airwaves. Engar smá silkihúfur mættar, Dagur borgarstjóri, Ragnheiður Elín, Kevin Cole frá Kexp og Grímur Atlason náttúrulega.

Allir eru á því að Airwaves sé magnað dæmi  – great economic impact eins og Ragga (eins og hún er kölluð hér) segir.

Allskonar línuritum varpað upp og allt að gerast. Meira síðar…

Pönk af sambýli í Eurovision?

13 Jan

Finnska undankeppnin í Eurovision er á dagskrá. Það eru tryllt tíðindi að þar skulu strákarnir í Pertti Kurikan Nimipäivät keppa með lagið „Aina mun pitää“ – „Ég þarf alltaf…“ Hljómsveitin er aðalmálið í hinni frábæru heimildarmynd The Punk Syndrome. Strákarnir kynntust á sambýli og finna samhljóm í groddalegu Finna-pönki. Þetta er ein albesta heimildarmynd sem ég hef séð og það væri hreinlega stórfenglegt ef þessi hljómsveit kæmist alla leið á stóra sviðið í Austurríki. Þetta er að minnsta kosti eitt minnst „eurovision-lega“ lag sem ég hef heyrt og hljómsveitin myndi síst vekja minni athygli en Lordi um árið.

Jói Daisy tekur Gylltan glóp

12 Jan

ap282435178697
Þá er „strákurinn okkar“, Jóhann Jóhannsson (Jói Daisy) búinn að fá Golden Globe fyrir músíkina í The Theory of Everything. Kannski tekur hann Bafta og Óskarinn í kjölfarið. Þetta er sannarlega frábært og meiriháttar.

Sá Jóa fyrst 1987 þegar unglingabandið hans Daisy Hill Puppy Farm spilaði með S.H.Draumi og fleirum í Hlaðvarpanum. Mér fannst þetta frábært band, mikil Jesus & The Mary Chain áhrif, melódískt og skemmtilega „slobbí“ spilamennska, enda enginn af þeim eitthvað séní á hljóðfæri. Fór svo að mitt vasamerki Erðanúmúsík gaf út 4-laga plötu með bandinu í samvinnu við enskan strák, Lakeland Records. Endaði með að John Peel spilaði kóver sveitarinnar af Heart of Glass nokkrum sinnum, sem var náttúrlega geðveikur heiður, fannst manni.

Daisy Hill gerði aðra 4-laga plötu hjá Lakeland, en í næntísinu dútlaði Jói í ýmsu. Spilaði með Ham, tók upp plötu með Páli Óskari og finnskar hávaðaplötur með mér, spilaði með Unun og prógrammaði stöff á plötunni æ og á tímabili vorum við saman með hljómsveitina Ekta. Nafnið kom þannig til að ég spurði einhverja fyllibyttu á efri hæðinni á 22 hvað bandið ætti að heita. Maður var meira og minna allt næntísið hangandi þarna uppi eða niðri á 22 þó ekki væri maður í hommaleiðangri. Gott ef maður gæti nú fengið endurgreitt alla tvöföldu romm í kókana verðtryggða.

Allavega, þetta Ekta band gerði nokkur lög. Lengst komumst við með lagið Berklahælið 47 sem var kannski spilað nokkrum sinnum í útvarpinu. Þetta er stórfurðulegt lag, Björn Jörundur raddar og sá um upptökustjórn og textinn fjallar um líf og ást á berklahæli 1947. Greinileg áhrif frá tölvutrommuknúðu indie rokki þessa tíma og Fönkstrasse bakraddir. Fríklag. Skífan gaf út á safnplötinni Bandalög 5 sumarið 1992.

EKTA – BERKLAHÆLIÐ ’47

Seinna var Jói við meik með hljómsveitinni LHOOQ sem var handvalin til að hita upp fyrir David Bowie þegar hann spilaði hér 1996. Svo stofnaði hann Apparat Organ Kvartettinn en hefur í seinni tíð samið kvikmynda-, leikhús- og ballet-tónlist og allskonar hofmóðugt stöff. Jói er aðallega sjálflærður þótt hann hafi lært klassík sem barn. Maður horfir til hans með aðdáun og virðingu. Dugnaðurinn og drifkrafturinn er til eftirbreytni. Til hamingju Jói!

Ekki tala um stríðið

10 Jan

Margt og mikið hefur nú verið röflað í framhaldi af villimannslegum morðum á góðlegum skrípóteiknurum í París (eþs hvítum viðbjóðslegum karlpungum sem níðast á minnimáttar). Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað ég ætti að segja í þessu sambandi. Það eru auðvitað ýmsir fletir og allskonar póla hægt að taka í hæðina, spá og spegúlera og benda á eitt og annað og þæfa þetta fram og aftur þangað til búið er að taka málið eitthvert langt frá því sem það snýst um.

Sem er þetta: Villimenn myrtu fólk.

Sem er svo sem að gerast út um allt alltaf enda er pabbi minn búinn að bölsótast yfir fréttatímunum síðan ég man eftir mér – talandi um „helvítis geðveiki“ og að okkar dýrategund sé hreinlega sú viðbjóðslegasta sem hér hefur gengið dregið andann.

En það sem ég ætlaði sem sagt að segja er þetta: Gott grín er betra en allt annað.

Árið 3000 veit enginn hver Paul McCartney var

6 Jan

Nokkur hneyslunaralda ríður nú yfir því einhverjir Kanye West aðdáendur vita ekki hver Paul McCartney er. Þessi staðreynd lá fyrir eftir að samstarf Palla og Kanye varð heyrinkunnugt. Mörgum finnst reyndar Paul vera að taka niður fyrir sig með því að vinna með Kanye en því er ég ósammála enda Kanye góður og gaman að Paul skuli ennþá nenna að vinna með unglömbum.

Allt verður náttúrlega tímanum að bráð, jafnvel Bítlarnir. Þetta finnst mér alltaf jafnfyndinn skets. Hann fjallar um sagnfræðilegar útlistanir á Bítlunum árið 3000. Kannski verður þetta svona…

Minnst spilaða Eurovision-vinningslag sögunnar!

4 Jan


Jæja ég hefðu átt að væla aðeins meira yfir því að Glaðasti hundur í heimi var bara númer 45 þegar mest spiluðu lögin á Rás 2 2013 voru tekin saman. Nú hef ég fengið það staðfest að barnvæn popplög eiga ekki sjö dagana sæla á pleilista Rásar 2 (og þar af leiðandi ekki sjö dagana sæla þegar kemur að STEF úthlutuninni). Sigurlag Söngvakeppninnar í fyrra, Pollapönk með Enga fordóma, er ekki nema 74. mest spilaða lagið á Rás 2 skv þessum lista. Þetta er ótrúlegt. Meira að segja lagið sem var í þriðja sæti, Eftir eitt lag með Grétu Salóme, er hærra, númer 43. Hvað er í gangi!?

Ég get eiginlega fullyrt að Engir fordómar er minnst spilaða Eurovision-vinningslag sögunnar á Rás 2. Til samanburðar má geta þess að Ég á líf var sjötta mest spilaða lagið 2013 og Is It True var í öðru sæti 2009. Eru bara bullandi fordómar í gangi hjá pleilistaráði ríkis-poppstöðvarinnar?

Uppfært: Lagið mun hafa verið miklu meira spilað þótt það sjáist ekki á listanum. Óli Palli skrifar: Þetta er ekki alveg rétt kæri doktor. Þegar báðar útgáfur lagsins, sú íslenska og þessi með enska textanum þá er lagið inni á topp 10. Í 8. eða 9. sæti ef ég man rétt. Bestu kveðjur – áfram Pollapönk. Rás 2 var líka með beina útsendingu frá heimkomugiggi Pallapönks á Torsplani í Hafnarfirði – þvílík er ástin og aðdáunin 🙂