Ég var sem sé á panel um útrás íslenskra hljómsveita á hinni miklu Eurosonic ráðstefnu í Groningen. Fékk sérmerktan sixpakk af Heineken að launum.

Við bjuggum mörg á stórum síkjabáti. Mér og Agli Tómassyni var troðið saman í káetu. Svo rölti maður um bæinn, sem er alls ekki stór, allavega ekki miðbærinn. Þarna var hellingur af allskyns þjóða kvikindum að spila, en Ísland í fókus með 19 atriði á dagskrá. Maður hékk eðlilega mest utan í íslensku dagskránni.

Hér má sjá Ólaf Björn Ólafsson, ÓBÓ, flytja sitt lágstemmda efni með fiðlu og gítarleikara. Óbó var fyrrum trommari með Yukatan og Unun en hefur svo unnið með allskonar dóti í seinni tíð, m.a. Sigur Rós. Músíkin var dúllerí og Óbó með hálfgerðan ljóðalestur ofan á. Mjög lágt stillt svo þegar trommu-sándtékk á neðri hæðinni brast á heyrðist það full mikið á milli. Engu að síður fín músík til að loka augunum við.
Aurora var eitthvað drepleiðinlegt norskt band með Cranberrieslegri söngkonu. Ég var að deyja innilokaður út í horni en tókst að troða mér gegnum þvöguna og út. Hinds (áður Deers) eru spænskar og rokka bílskúrslega og eins og allt sé alltaf að detta í sundur. Nokkuð kjúttað.

Júlíus Mayvant (hann heitir reyndar Unnar, aðalgaurinn) ku vera búinn að eyða miklum tíma í fyrstu plötuna sína, en almenningur þekkir bara Color Decay, sem miðað við settið í Groningen Forum er með bestu lögum. Fyrsta lagið sem hann tók, brassknúinn slagari, var reyndar mjög gott líka við fyrstu hlustun en restin þarf kannski meiri hlustun. Júlíus/Unnar er full lúðalegur á milli laga með frekar fúla brandara. Ætti kannski að taka sig á þar, kannski taka uppistandskúrs hjá Þorsteini Guðmundssyni. Samt: Held alveg að hjólin geti farið að rúlla hraðar og hraðar á þessum bæ.

Dj Flugvél og geimskip vafði áheyrendum um fingur sér og tók þá í æsispennandi geimferð. Allt annað en leiðinlegt dót hér á ferð, enda Steinunn svo innileg og eðlileg í framkomu, atferli og hegðun. Ofsa fjör.
Smellti ekki mynd af Young Karin, en þau voru skemmtileg í kjallara djassklúbbs. Trommarinn úr Agent Fresco barði þetta áfram en söngkonan mætti aðeins vinna í framkomu, atferli og hegðun.

Skálmöld kunna að víkingametalrokka sali og tóku Grand Theater í gíslingu af miklu öryggi. Allir stælarnir náttúrlega, fimmundarsöngur og gítarsóló.
Svo missti maður af allskonar dóti, Rökkurró voru víst snilld í kirkju, Mammút rokkaði buxurnar af liðinu og Kiasmos elektró-headbönguðu partíið.
Groningen er næs. Hjólamenningin jafn geðveik þar og annarsstaðar í Hollandi. Fékk mér djúpsteiktan músling sem ég hef einhvern veginn tengt við Holland eftir að ég var þarna endur fyrir löngu. Það undarlegasta í ferðinni var að sjá Megasar-plötur upp um alla veggi í plötu/antík-búðinni Klinkhamer. Keypti ekki, enda er Megas á Spotify!

Það næst undarlegasta var að sjá styttu fyrir utan rakarastofu sem er alveg eins og Conan O’Brien.
