Sarpur | desember, 2012

30 góðar íslenskar plötur frá 2012

29 Des

Samdóma álit sjálfsskipaðra spekúlanta (hvaða spekúlantar eru ekki sjálfsskipaðir?) er að 2012 hafi verið dúndur ár í íslenskri músík. Þetta er rétt og lítið mál að rúlla upp 30 platna lista af úrvals efni. Hér er minn:

ÍSLENSKT TOPP 5

1. Retro Stefson – Retro Stefson – gólandi glæsilegt poppstykki þar sem fitulaus kjötflykki lafa við hvert bein

2 Moses Hightower – Önnur Mósebók – Textabrot ársins: „Eins og næturvaktin í Nóatúni“

3 Ghostigital – Division of Culture and Tourism – Vélmennadiskó fyrir örvhenta

4 Ojba Rasta – Ojba Rasta – Gaman er að keyra hægt með „Í ljósaskiptunum“ í vangefnum botni. Að keyra hægt með íslenskt döbbpopp er vanmetið.

5 Legend – Fearless – Þunglynt og ögrandi, góður eiginleiki á kósí öld.

Aðrar fínar 25 í stafrófsröð: Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn / Biggi Hilmars – All we can be / Borko – Born to be free / Dream Central Station – Dream Central Station / Elíza Newman – Heimþrá / Gálan – Gálan / Gímaldin & Eva Hauksdóttir – Evulög / Hjaltalín – Enter 4 / Innvortis – Reykjavík er ömurleg / Jónas Sig – Þar sem himinn ber við haf / Kiriyama Family – Kiriyama Family / Lára Rúnars – Moment / M-Band – EP / Monterey – Time passing time / Nóra – Himinbrim / Pascal Pinon – Twosomenes / Pétur Ben – God’s Lonely Man / Ómar Guðjónsson – Út í geim / Skálmöld – Börn Loka / The Heavy Experience – Slowscope / Tilbury – Exorcise / Valdimar – Um stund / Ylfa Mist – Ylfa Mist / Þórir Georg – I will die and you will die and it will be alright / Þórunn Antonía – Star Crossed

Þetta var líka ágætis ár í útlöndum:

ERLENT TOPP 5


1 Dirty Projectors – Swing lo Magellan


2 Woods – Bend Beyond


3 Ariel Pink’s Haunted Graffiti – Mature Themes


4 Jack White – Blunderbuss


5 beak – beak 2

Lesið og lesið

27 Des

Ég hef verið að lesa nokkrar bækur. Hin eilífa þrá – lygadæmisaga eftir Guðberg Bergsson er ekki nógu góð. Ég þrælaði mér þó í gegnum hana. Það er alltaf glatað þegar góðir listamenn koma með eitthvað sem er langt undir fyrri getu. Mér dettur eiginlega í hug síðasta mynd Johns Waters, A Dirty Shame, til samanburðar – eitthvað sem minnir á fyrri afrek en er bara langt frá því að vera gott.

Nútíminn er trunta (e. A Visit from the Goon Squad) eftir Jennifer Egan er ágæt. Rithöfundurinn segir að þetta sé konsept albúm sem bók. Í bókinni er allt fullt af fólki og sagan er á mörgum plönum en gengur þó upp í endann (þannig). Lesendur virðast mest uppteknir af því að einn kaflinn er settur upp eins og slædsjó. Það er mikil músík í þessari bók, en hún er ekkert sérlega sterk eða eftirminnileg (finnst mér).

Það er hins vegar Sjóræninginn eftir Jón Gnarr, önnur bók uppvaxtar-þríleiksins hans. Hér er pönk og Hlemmur og einelti og rugl. Pabbi hans og mamma og Nefrennsli. Þetta er bæði skemmtileg, sorgleg og sterk bók sem maður tengist náttúrlega vel við verandi á svipuðum aldri og úr sama pönkinu. Tekur nú við eftirvæntingarfull bið eftir síðusta hluta þríleiksins, Útlaginn, sem fjallar um Núps-tímabilið.

Gúffaði svo í mig Reykjavíkurnætur eftir Arnald Indriðason. Hressandi seventís og mikið útigangsmannahark. Þetta er sólid eftir uppskriftinni og bara ljómandi fínt.

Annars er maður bara illa haldinn af hangikjöts og makkintoss-eitrun, en er á batavegi.

Engin jól án Alla Rúts!

23 Des

alli1

Alli Rúts – Lína langsokkur

Alli Rúts – Grýlugæla

Alli Rúts – Ég er jólasveinn

Alli Rúts – Grýlupopp

Í Montreal

15 Des

Ég var í Montreal á dögunum. Fór með Grími Atlasyni á þessa fínu tónlistarráðstefnu – M for Montreal. Hann er oft á svona hátíðum og bókar svo bestu böndin á næsta Airwaves. Grímur er mikill kóngur í þessum bransa og valsar um og talar við hitt bransafólkið og er með allskonar víla og díla í gangi. Þessi hátíð var langt í frá eitthvað Airwaves, allt miklu minna í sniðum og aðallega bransalið að horfa á stutt gigg með böndum frá Kanada. Giggin voru stundum í hádeginu og fram til svona 4 og svo meira um kvöldið. Maður sá þarna alveg heilan haug af böndum en þau bestu voru:


PS I LOVE YOU – Bara tveir en ægiþétt fözzrokk. Gítarleikarinn spilar á fótbassapedala.


RAH RAH – Geðþekkt poppband.


THE BALCONIES – Rokktríó með svakalætis frontkonu.

ofmonmont
Svo náttúrlega rúsínan í pylsuendanum að finna smjörþefinn af sigurgöngu Of Monsters and Men. Ég rakst nú bara fyrst á þau í glugga í miðbænum þar sem þau voru að spila fyrir æsta gesti útvarpsstöðvar. En um kvöldið spiluðu þau fyrir 2500 manns í klúbbi í miðbænum sem allir kunnu textana og sungu með og hófu síma á loft í uppáhaldslögunum sínum og tóku upp og settu á Youtube. Fólkið á tónleikunum var svokallað „venjulegt fólk“ en engir hipsterar, enda hefur t.d. aldrei verið minnst á OM&M í Pitchfork. Bandið er á miklu mainstrím flugi og ég heyrði tvisvar í þeim í útvarpinu. Allt er þetta náttúrlega bara glæsilegt og gleðilegt og enn einn opni glugginn fyrir íslenska tónlist.

190051_10151123665141783_1262388393_n
Baksviðs voru krakkarnir lítið að fá sér og bara í hálfgerðum rólegheitum enda á leið til Boston um nóttina og áttu von á böggi og leiðindum á landamærunum. Sóley var þarna líka með sinn flokk og fékk fínar móttökur fyrir sínar lágstemmdu vögguvísur. Ég spurði um næstu plötu OM&M. Hún er eitthvað farin að gerjast og mér heyrðist að menn væru almennt á því að „gera eitthvað öðruvísi næst“, eða allavega „alls ekki að endurtaka sig“.

Montreal er annars nokkuð hrímaður bær. Þarna voru allir með útigangsskegg og í hettupeysum. Ég naut þess að hjóla um á BIXI leiguhjólum sem hægt var að stökkva á út um allan bæ. Svo átum við nokkuð markvisst á Montreal-íska vísu. Fengum okkur hina frægu Schwart’z samloku, sem mér fannst nú ekkert spes, en aftur á móti stóð rétturinn Poutine undir væntingum. Hann lítur svona út:

poutine
Franskar, brún sósa og ostagums – miklu betra en það lítur út fyrir að vera.

Meðal annarra hápunkta í ferðinni var einkaheimsókn í Cirque du Soleil, hamborgari á A&W en allra mesta kikkið fékk ég út úr því að rekast óvænta á söngvara Pertti Kurikan Nimipäivät, en sú finnska pönksveit er viðfang snilldarmyndarinnar The Punk Syndrome. Myndin var sýnd á heimildamyndahátíð sem þarna stóð yfir. Um kvöldið sáum við bandið spila, sem er eitthvað sem seint gleymist. Gjörsamlega ógleymanlegt!

Bill O’Reilly dissar Ísland

15 Des

bill-oreilly
Bill O’Reilly er einn af þessum æstu öpum sem öskra og æpa á Fox og eru hálfgerðir Ingvi Hrafnar á hestasterum. Vinur minn KJG sem býr í NYC horfir mikið á Fox. Hann hefur aldrei smakkað áfengi né annað dóp (fyrir utan sopa af Malti sem var einu sinni pínt oní hann á 9. áratugnum). KJG segist halda að Fox sé eins og dóp: Hann veit að það er slæmt fyrir hann, en það er bara einum of skemmtilegt að horfa á þetta til að sleppa því.

En allavega. Bill þessi kom til Íslands í sumar og fann hér öllu til foráttu. Hann skrifaði pistil um Ísland, sem ég man ekki eftir að hafa heyrt um hér í fjölmiðlum, sem þó éta alltaf allt upp sem birtist um skerið í útlöndum (takk google alert). Ég missti allavega af þeirri umfjöllun, líklega netlaus úti á landi. Í netútgáfunni er yfirskrift pistils Bills „Iceland is hot“ en þegar sami pistill birtist í NYPost varða „Hot Iceland freezes ambition“. Hér er þetta raus.

Þarna er margt sem andstæðingar núverandi ríkisstjórnar geta tekið heilshugar undir en svo bara steypa eins og „This is the most isolated nation on earth…“

Skiptidíll við Hr. Borgó

14 Des

dr gunni og borgarstjori (2)
Jón Gnarr hefur sent frá sér miðbók uppvaxtar-trílógíu sinnar, Sjóræninginn. Fyrir er Indjánann og síðast kemur svo Útlaginn (eftir einhver ár). Í Sjóræningjanum segir frá pönkinu, eineltinu og Hlemmi og ég get ekki hætt að hlakka til að byrja að lesa. Jón fékk lítinn bækling sem ég setti saman á dögunum í skiptidílnum.

Meðal annarra embættisverka hjá Borgó  í dag var að fá Fjölni Bragason til að tattúvera upphandlegginn á sér. Mun það vera í fyrsta skipti sem Borgarstjóri Reykjavíkur lætur húðflúra sig inn á kontórnum sínum (samt ekki viss, Hanna Birna gæti hafa gert þetta). Og það sem fór á Borgó: Crass lógóið!

7010_447900625267447_1627288970_n

Snilld!!!

Gísli á Uppsölum – The Movie!

13 Des

gisliupps
Bókin um Gísla á Uppsölum er mest selda bók landsins þessa dagana. Ég ætti að vita það enda í vinnu við að koma bókinni í búðirnar. Panikástand grípur jafnvel um sig sumstaðar, enda rennur bókin svo fljótt út. Stuð vors lands er líka að fara ágætlega, þakka þér fyrir.

Ljóst er að sagan um Gísla liggur djúpt á þjóðinni. Vinsældir bókarinnar sýna það. Það kæmi mér ekkert á óvart að eftir eitt eða tvö ár yrði frumsýnd leikin mynd um Gísla á Uppsölum. Mér sýnist það sjálfgefið. Þetta yrði metsölumynd – engin spurning – ef hún væri almennilega gerð, það er að segja. Æsku og uppvexti yrðu gerð skil og allskonar dramatík í einbúðinni. Allskonar súrrealískir draumar jafnvel. Handritshöfundar fá nokkurn veginn frítt spil.

Þá erða bara spurningin: Hver mun leika Gísla?

Úr músíklífinu

12 Des

Nokkrar funheitar fréttir úr heimi tónlistarinnar:


Fyrst ber að nefna að þeir félagar Jónas Sig og Ómar Guðjónsson fóru hringinn – 14 gigg á 14 dögum – og lentu í allskyns hrakningum. Nú eru þeir komnir í bæinn og verða með tvö tvímenningsgigg á KEXINU núna á fimmtud (á morgun) og föstud (hinn). Miðasala er á Miði. Að ofan má sjá videó frá Flateyri sem Önni trommari gerði.


Strákar nokkrir sem hafa spilað með Hljómsveitinni Ég eru í hljómsveitinni Monterey. Svona er fréttatilkynningin frá þeim um fyrstu plötuna: Hljómsveitin Monterey hefur sent frá sér sína fyrstu plötu og ber hún heitið Time Passing Time. Monterey, sem m.a. er ættuð úr Breiðholti, kom fyrst fram árið 2007 undir nafninu April og hefur verið starfandi síðan með hléum og nokkrum mannabreytingum. Í fyrra var nafninu formlega breytt í Monterey, og var það gert í höfuðið á smábæ í Kaliforníu þar sem margar flottar tónlistarhátíðir hafa verið haldnar, sú frægasta sennilega Monterey Pop Festival 1967.
Forsprakki hljómsveitarinnar er Steindór Ingi Snorrason sem syngur og spilar á gítar og með honum í bandinu í dag eru Andri Geir Árnason á trommur, Arnar Ingi Hreiðarsson á bassa og Baldur Sívertsen á gítar.
Tónlist Monterey mætti lýsa sem hugljúfri og fallegri poppmúsik undir sterkum áhrifum frá síðbítlarokki sjöunda og áttunda áratugarins, en þó telur sveitin að músikin sé sniðin að hugarheimi tuttugustu og fyrstu aldar mannsins. Hljómplatan var hljóðrituð hér og þar í Reykjavík á árunum 2011-2012 og gefa strákarnir plötuna út sjálfir. Mix og mastering var í höndum Ebergs. Á Facebook.

5fb509371f1b5695f88781caa9cf8b09
Með DJ Musician er komin út  platan INSTANT CLASSIC. „Platan er fyrst um sinn eingöngu fáanleg á Gogoyoko, en restin af veröldinni fær að faðma að sér snilldina von bráðar“ – http://www.gogoyoko.com/album/Instant_Classic/ – „Og innan skamms kemur annar skammtur frá þínum uppáhalds dj, því þann 17. desember kemur út EP-platan MAYBE THE FUTURE IS ROCK’N’ROLL.“

angrybones
Mér var bent á að hljómsveitin Angry Bones var að gefa út sína fyrstu plötu sem hægt er að finna hérna http://www.gogoyoko.com/album/Lots_of_voluntary_effort og það er líka hægt að sækja hana alla hérna fríkeypis: http://soundcloud.com/gagnakureki/sets/lots-of-voluntary-effort-1/ – Þetta er ágætis nýbylgjurokk með góðri söngkonu, Fiona Cribben, sem ég veit engin deili á. Aðrir meðlimir hinna Reiðu beina eru Einar Johnson, Vonbrigði bræðurnir Tóti og Árni og Bogi Reynisson úr Sororicide og Stjörnukisa og ég veit ekki hvað og hvað. Úrvalslið, sem sé. Mæli með hlustun.

Egill Ólafs + Moses Hightower

10 Des

svikinnheri

Moses Hightower og Egill Ólafsson – Svikinn héri
Glænýtt og glæsilegt lag úr næsta Hljómskála. Enn heldur hin safaríka samgrautun áfram – svo mér þá: Ég held það hafi bara aldrei verið lélegt lag í Hljómskjálanum!

John Lennon deir. Mikið vesen.

8 Des

dagbokdes80
Úr dagbókinni 1980 – fyrir 32 ári. John Lennon „deir“. Miðað við hvað ég var mikill Bítlaaðdáandi finnst mér ég taka þessu óþarflega fálega. „Mikið vesen“!? Var ég orðinn svona andsetinn af pönkinu? Ég er samt aðeins skárri í stafsetningu núna. Fjórum dögum fyrir morðið hef ég keypt smokka á Núllinu. Til hvers í andskotanum spyr ég nú bara!