Sarpur | ágúst, 2015

Ljóshærður rauðhaus kemur

25 Ágú

Vegoose+2007+Day+1+dkz9UoTv5UMx
Hljómsveitin Blonde Redhead er á leiðinni til Íslands í 3ja eða 4ða sinn í næstu viku, spilar í Gamla bíói á miðvikudaginn 2. sept. Skúli Sverrisson bassagúrú hefur spilað með þeim í gegnum tíðina og spilar kannski með núna, eða allavega á undan þegar hann tekur lög af plötum sínum Sería 1 og Sería 2. Ljóshærði rauðhausinn gerði fína plötu í fyrra, Barragán, sem verður eflaust hryggjastykki tónleikana, en það er svo sem af nógu að taka á þessum bænum.

Úr fréttatilkynningu: Indie rokkarana í Blonde Redhead þarf vart að kynna. Hljómsveitin var stofnuð árið 1993 af söngkonunni og gítarleikaranum Kazu Makino, gítarleikaranum Amedeo Pace og trommaranum Simone Pace, en einstakur hljómur þeirra á enn erindi við samtímann nú 22 árum síðar sem ferðast um og spila á tónleikum og tónleikahátíðum víðs vegar um heiminn. Meðal nýlegra hátíða sem þau hafa tekið þátt í má nefna tónleika í Japan, Coachella í Indio, í Kaliforníu, Zanne Festival í Cataníu, á Ítalíu og Dour Festival í Dour, í Belgíu.

Blonde Redhead halda áfram að toppa sig með útgáfu níundu breiðskífu sinnar Barragán, sem hefur farið sigurför um heiminn og leitt af sér vinsæl lög eins og „Dripping“ og „Lady M.“ Í vetur frumflutti hljómsveitin stórkostlega endurblöndu af síðara laginu með Grizzly Bear Chris Bear, en það er fyrsta lagið af væntanlegri útgáfu með endurunnum klippum af nýju plötunni. Framundan hjá þessari hugmyndaríku hljómsveit eru tónlistarmyndbönd, ný tónleikaferðalög, sérstakir viðburðir og spennandi tísku samstarfsverkefni frá andliti hljómsveitarinnar, hinni stórkostlegu grafísku listakonu, Kazu Makino.

Miðaverð er 5.000 krónur – KAUPA HÉR!

Djúsí auglýsing frá 1930

24 Ágú

13610071-page-0
Ú la la. Tímaritið Fálkinn birti þessa risaauglýsingu frá Hljóðfærahúsi Reykjavíkur 1930. Ef einhver á gólffón í mahognikassa sem hann vill losna við má hann endilega láta mig vita! (Smellið á myndina til að stækka)

Stórgóður sirkus, rigning og kandíflos

14 Ágú

2015-08-13 16.44.21
Á Klabratúni er komið sirkustjald þar sem Sirkus Ísland sýnir þrjár tegundir af sýningum: S.I.R.K.U.S. fyrir yngstu kynslóðina, Skinnsemi fyrir fullorðna (sexý tæm) og Heima er best, sem er fyrir „alla fjölskylduna“. Við krakkarnir fórum á það í gær (MIÐASALAN ER HÉR) og komu allir út með sólskinsbros og gleði í hjarta.

2015-08-13 18.38.20
Úti var ekta íslenskur dapurleiki, grenjandi rigning og grámygla, en inni ylur og hin lokkandi ilmur sem myndast þegar lykt af poppkorni og kandíflos rennur saman. Tveir trúðar hituðu salinn upp með sprelli í sal, en svo kom sirkússtjórinn Margrét Maack og setti dæmið í gang. Í starfsliðinu eru tuttugu ofurmenni (segi ég sem gæti ekki farið í kollhnís nema hryggbrjóta mig) sem sýndu nú atriði í 2 tíma (með 15 mín hléi). Íslenskir poppslagarar keyrðu undir sjóinu, öllu var tjaldað til og það tókst svona líka frábærlega upp. Áhorfendur göptu með undrun og áhuga og löptu upp sirkusævintýrið. Dabba fannst trúðarnir bestir, Elísabetu fannst allt best. Sjálfur þarf ég ekkert endilega að fá kvíðakast ef börnin segja í framtíðinni; Pabbi, ég er búinn að skrá mig í trúðaskóla í Danmörku.

2015-08-13 17.28.27
Allir í sirkus! Takmarkaður sýningarfjöldi!!! (MIÐASALAN ER HÉR)