Sarpur | apríl, 2013

Dagpassar á ATP!

30 Apr

Það væri hreinlega sturlun að láta festivalið ALL TOMORROWS PARTIES fara framhjá sér í júní. Nú er búið að raða böndum niður á daga og setja í umferð takmarkað magn dagspassa. Hér kemur fréttatilkynningin:

Boðið verður upp á takmarkað magn dagpassa á ATP Iceland á Ásbrú í sumar en eins og kunnugt er munu Nick Cave & The Bad Seeds ásamt fjölda erlendra og innlendra sveita koma fram helgina 28. og 29. júní.  Einnig verður einni erlendri hljómsveit bætt við á föstudeginum á næstu vikum.

Miðaverð á dagpössum er 9.900 kr. en miðaverð fyrir báða daga er 16.900 kr. Hægt er að kaupa miða á miði.is. Einnig er hægt að kaupa miða með gistingu á Ásbrúarsvæðinu kjósi fólk að gista en rútuferðir verða á milli Reykjavíkur og Ásbrúar.

Hljómsveitirnar sem spila föstudaginn 28. júní eru:

The Fall (UK)
Thee Oh Sees (US)
The Notwist (DE)
Múm
HAM
Apparat Organ Quartet
Ghostigital
Kimono
Æla
Snorri Helgason

Hljómsveitirnar sem spila laugardaginn 29. júní eru:

Nick Cave & The Bad Seeds (UK)
Chelsea light moving (US)
Deerhoof (US)
Squrl (US)
Mugison
Dead skeletons
Hjaltalín
Valgeir Sigurðsson
Amiina
Puzzle Muteson (UK)

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

Staðsetning:
All Tomorrows Parties verður haldin á Ásbrú, fyrrum varnarliðssvæðinu, sem á sér sögu sem rekur aftur til ársins 1941 en bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Svæðið er staðsett í fimm mínútna aksturfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanesbæ, um korter frá Bláa Lóninu og hálftíma frá höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðarsvæðinu verða tvö svið sem bæði eru innandyra, auk annars konar skipulagðrar dagskrár sem felur meðal annars í sér kvikmyndasýningar, Popppunkt, fótboltamót þar sem hljómsveitir etja kappi við gesti hátíðarinnar o.fl. Á hátíðina verða aðeins seldir fjögur þúsund miðar.

Tegundir aðgöngumiða og verð:
Það eru tvenns konar miðar fáanlegir á hátíðina – með og án gistingu:

Tegund 1 – án gistingar:
Miði á hátíðina sem veitir aðgang að öllum viðburðum hátíðarinnar. Engin gisting er innifalin í verði miðans. Miðaverð: 16.900 kr fyrir báða daga og 9.900 kr. fyrir dagpassa.

Tegund 2 – með gistingu:
Miði á hátíðina ásamt herbergi. Takmarkað magn miða er í boði sem fela í sér 2ja nátta gistingu í herbergjum hjá Bed & Breakfast Keflavík sem staðsett er á Ásbrú í göngufjarlægð frá hátíðarsvæðinu. Herbergin hafa aðgang að sameiginlegu eldhúsi (borðbúnaður og tól til eldunar á staðnum). Lín er innifalið í verðinu og því óþarfi að koma með sængur eða svefnpoka.

Tvenns konar pakkar eru í boði sem fela í sér gistingu:

2ja manna – Innifalið í pakkanum eru tveir miðar á hátíðina og herbergi fyrir tvo fyrir föstudags- og laugardagskvöld. Tvö herbergi deila einu baðherbergi; sem annaðhvort hefur sturtu eða bað og auðvitað vask og salerni. Í þessum herbergjum eru tvö aðskilin einstaklingsrúm. Verð fyrir tvo: 69,800 kr (2 miðar og gisting)

4ja manna – Innifalið í pakkanum eru fjórir miðar á hátíðina og herbergi fyrir fjóra fyrir föstudags- og laugardagskvöld. Í þessum pakka eru tvö samliggjandi herbergi sem aðskilin eru með baðherbergi sem annaðhvort hefur sturtu eða bað og auðvitað vask og salerni. Annað herbergið er með einu ,,queen-size”-rúmi sem tveir geta sofið í og hitt með tveimur einstaklingsrúmum. Verð fyrir fjóra: 139,600 kr (4 miðar og gisting)

Aldurstakmark á hátíðina er 20 ár.

Um All Tomorrow’s Parties:
All Tomorrow’s Parties-hátíðin dregur nafn sitt af laginu All Tomorrow’s Parties með hljómsveitinni Velvet Underground. Tónlistarhátíðin og viðburðir á hennar vegum hafa verið haldnir um allan heim í næstum fjórtán ár. Hátíðin var stofnuð í kjölfarið á tónlistarhátíðinni Bowlie Weekender sem hljómsveitin Belle and Sebestian stóð fyrir árið 1999 á frekar óhefðbundnum stað, á sumarleyfisstaðnum Pontins í bænum Camber Sands á suðurströnd Englands. Á fyrstu All Tomorrow’s Parties hátíðinni árið 2000 í Camber Sands var hljómsveitin Mogwai fengin til að vera listrænn stjórnandi (e. curator) og valdi allar þær hljómsveitir sem komu fram á á hátíðinni – eins og Belle and Sebastian höfðu gert á Bowlie Weekender árið áður. Allar götur síðar hefur hátíðin verið haldin árlega.

Umfang hátíðarinnar fer sífellt stækkandi en hún hefur ávallt haft það að leiðarljósi að aðgreina sig frá stórum hátíðum sem fjármagnaðar eru af stórum styrktaraðilum.  Það gerir hún með því að halda hátíðum sínum smáum í sniðum þannig að nándin sé mikil en hátíðin er einkar „fan-friendly” eins og lýst er á heimasíðu hátíðarinnar. Yfirleitt er tónlistardagskráin í höndum ákveðinnar hljómsveitar eða listamanns. Barry Hogan, stofnandi ATP, lýsir hátíðinni þannig: „ATP er eins og gott mixtape”. Hljómsveitirnar sem spila á hátíðinni geta komið úr hvaða tónlistarstefnu sem er (eða jafnvel öllum!).

Á meðal þeirra sem hafa verið listrænir stjórnendur á hátíðinni eru Nick Cave & The Bad Seeds, Mike Patton, My Bloody Valentine, Portishead, Sonic Youth, Slint og Tortoise.

Afsprengi ATP eru allmörg og þar má helst nefna systurhátíðina „I’ll be your mirror” (sem nefnd eftir B-hliðinni á singlinum All Tomorrow’s Parties með Velvet Underground),  tónleikaröðina „Don’t Look Back”, plötuútgáfuna ATP Recordings og útgáfu heimildarmyndar í fullri lengd sem ber einfaldlega heitið „All Tomorrow’s Parties”. Þá stýrir hátíðin sínu eigin sviði á hverju ári á Primavera Sound-hátíðinni í Barcelona og á árunum 2007 og 2008 stýrði hún sviði á Pitchfork Magazine-tónlistarhátíðinni í Chicago.

Tíkarlegir bílar eru allt sem ég þrái

29 Apr


Hér er lagið Aheybaró með Kött Grá pjé. Ég veit eiginlega ekkert um Kött, nema að hann er frá Akureyri. Þetta er mjaðmahríslandi ofurstuðlag og ef ég væri daxrárstjóri myndi ég spila þetta í spað. Því miður er ég ekki daxrárstjóri.

Þegar Rás 2 byrjaði var ég brjálaður. Mér fannst þetta svo mikil blaðra. Ég hafði búist við almennilegri músík en svo voru þetta bara gamlir kallar (sixtís lið!) að spila blöðrupopp. Ég var svo brjálaður að ég skrifaði í Velvakanda Moggans. Þetta var 1984 og ég notaði leyninafnið Birtingur svo ég gæti komið að smá plöggi á S.H.Draum:

birtingur-ras2

Arid er augl-Stor

Í dag er Rás 2 auðvitað allt önnur stöð og oft alveg frábær. Ég hlusta lang mest á Rás 2 þótt ég taki alveg Xið, Rás 1 og FM957 líka. Rás 2 heldur upp á þrítugsafmælið í ár og m.a. með 2ja tíma sérþáttum um öll árin 30, sem Gunnlaugur Jónsson sér um. Þetta verða án efa nákvæmir, massífir og ítarlegir þættir. Hér er kynning:

Fyrsti þátturinn, í útvarpsþáttaröðinni Árið er …. Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum, fer í loftið á Rás 2 laugardaginn 4. maí kl. 16.05. Í þáttunum eru helstu straumar og stefnur í íslenskri tónlist til umfjöllunar og eitt ár tekið fyrir í einu, auk þess sem drepið er á helstu dægurmálum samtímans hverju sinni. Í tilefni af 30 ára afmælisári Rásar 2 í ár, er fyrsti þátturinn helgaður árinu 1983.

Meðal viðmælenda í fyrsta þættinum eru Eyþór Gunnarsson, Björgvin Gíslason, Valgeir Guðjónsson, Eyjólfur Jóhannsson, Jakob Smári Magnússon, Þór Freysson, Ragnhildur Gísladóttir, Bubbi Morthens, Ásmundur Jónsson, Guðlaugur Kristinn Óttarsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og Jakob Frímann Magnússon.

Boðið verður upp á tóndæmi með Mezzoforte, Björgvini Gíslasyni, Björk Guðmundsdóttur, Gunnari Þórðarsyni, Tappa Tíkarrassi, Q4U, Jóhanni Helgasyni, Grafík, Baraflokknum, Grýlunum, Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni, Bubba Morthens, Kukli, Íkarus, Áhöfninni á Halastjörnunni, Stuðmönnum, Magnúsi Eirikssyni, Dúkkulísum, Lólu, Ladda og fjölmörgum öðrum flytjendum sem lituðu íslenska tónlistarárið 1983.

Árið er …. Íslensk dægurlagasaga í tali og tónum verður á dagskrá á laugardögum á Rás 2 næstu mánuði og þættirnir eru endurfluttir á sunnudagskvöldum. Umsjónarmaður er Gunnlaugur Jónsson og honum til aðstoðar eru Ásgeir Eyþórsson, Jónatan Garðarsson og Sigríður Thorlacius.

Svo ég haldi áfram að plögga atriði á Rás 2:

Mosa frænda vantar texta og þú getur hjálpað!!!

Jæja Sigmundur Davíð

28 Apr

IMG_0354
Ég er búinn að kaupa grillið. Er ekki tékkinn örugglega á leiðinni?

Best of bad lúsers á Fb

28 Apr

1. Guð blessi Ìsland…..here we go again!

2. Maður er eiginlega orðlaus yfir því hvernig þjóðin kaus. Hvernig dettur einhverjum í hug að þeir sem leiddu þjóðina fram af hengibrúninni séu þeir sem eru heppilegastir til að koma henni til bjargar? Jæja, búið og gert.

3. Megi þessi „þjóð“ uppskera það sem hún sáir þegar hún kýs yfir sig glæpagengi í von um að endurheimta 2007.

4. Til hamingu islendingar nú getiði farið að breiða uffyrir haus og vælt næstu fjögur árin.

5. Ísland hefur aftur snúist á sveif peningaguðs og tilbiður slefandi á altari græðginnar, minnimáttarkenndarinnar, óþolinmæðinnar, skammsýninnar og sjálfsvorkunarinnar.

6. Þessari þjóð er ekki við bjargandi. Hvar skilar maður inn ríkisborgararétti?

7. Vill segja við þá sem kusu Framsóknar og Sjástæðis pakkið aftur yfir sig, að Erlendir fréttamiðlar hlæja og fræðimenn gapa af heimsku kjósenda, helmingur þjóðarinna séu greinilegir Hálfvitar!

8. Einsog Dylan sagði í All along the watchtower: There must be some way out of here“ said the joker to the thief…

9. Þangað leitar klárinn…

10. Veður dagsins er við hæfi miðað við kosninga úrslit 😦

Sunnudax

28 Apr

554659_168486649981059_1838805226_n
(Hér að ofan má sjá geimverurnar í laginu Grænir frostpinnar)
Kosningar smosningar. Ég vil óska fólkinu í landinu til hamingju með skjaldborgina sem það hefur nú án efa kosið sér. Ef þetta verður eitthvað megaklúður þá skuliði bara berja pottana heima hjá ykkur næst. Annars sá ég ekki betur á nýjustu tölum en að Óttarr Proppé sé orðinn háttvirtur þingmaður sem er frábært og því er ég nú að hlusta á Eggjahommann á góðu blasti.

Ég vil minna þá sem ekki þurfa að sofa í allan dag á barnamenningarstuð í Laugardalslauginni á eftir. Það er frítt inn og dagskráin er nokkurn vegin svona:

14:00-14:05        Kynnir kynnir
14:05-14:20        Rokkhljómsveit Íslands spilar nokkur lög
14:20-14:40        Sirkús Íslands
14:50-15:20        Dr Gunni og vinir flytja lög af plötunni Abbabbbabb og væntanlegri plötu
15:20-15:30        Sirkús Íslands
15:30-16:00        White Signal spilar í hálftíma

xdrl
X-DR! Vinýl-plötusalan í Kolaportinu tókst svona svimandi vel. Menn svoleiðis þustu inn kl. 11 svo það myndaðist örtröð við kassana. Ég hafði borgið inn 12 kassa kl. 10:30, en fór með 5 heim kl. 17:15. Þetta var mjög fín sala. Það seldust reyndar ekki allir feitustu bitarnir svo maður verður að mjatla þeim út í rólegheitum á Ebay og svona.  Takk fyrir peninginn. Nú get ég verið í premium áskrift á Spotify í 40 ár. Það ætti að duga!

Svo fór ég á Iron Man 3 í bognu tjaldi og 3d. Ágætis sprengjurugl. Þrjár stjörnur!

Skilaboð til kjósanda

27 Apr

Plís, ekki vera fáviti.

Annars er það bara X-DR! VINÝL-PLÖTUSALA DR. GUNNA Í KOLAPORTINU í dag. Hefst stundvíslega kl. 11. Hér er smjörþefur:

kolaportid16lps

Allt þetta plús heilu haugarnir af öðru eðalefni. Á vönduðum vintage vinýl! BARA Í DAG! Ath: Bara eitt eintak til af hverri plötu og því er bara hægt að selja sömu plötuna einu sinni!

ps. Ding Ding!

Gigg í sundi

25 Apr

drg-sundgigg
Gleðilegt sumar! Ég vona að það snjói ekki meira í bili. Hvað var eiginlega í gangi þarna í gær?

Hljómsveitin Dr. Gunni og vinir hans æfir nú á fullu fyrir upptökur á glænýrri (barna)plötu sem kemur út í október. Það fara eflaust að heyrast lög af plötunni í sumar – þau verða „sett í spilun“ eins og sagt er. Platan er „óbeint framhald“ af metsöluplötunni ABBABABB! sem kom út fyrir 16 árum. Ekki er ennþá búið að finna nafn á nýju plötuna. Dóttur minni fannst ISSPISS! ekki nógu gott og DINGALING þykir gefa of mikið annað í skin og minna þar að auki á plötuna My Dingaling með Lipstick Lovers.

En það er samt vitað að þetta verður nokkuð rosalega góð plata. Fullt af rosa skemmtilegum lögum.

Við spiluðum á Aldrei fór ég suður um páskana en nú er komið að giggi númer 2 í þessari lotu. Það er á lokahátið Barnamenningarhátíð og fer fram á sundlaugarbakkanum í Laugardalslauginni núna á sunnudaginn. Ég hef aldrei spilað á sundlaugarbakka áður. Ég held ég verði samt ekki í sundskýlu af því það er einum of kalt. Við ætlum að spila lög af nýju plötunni og líka af ABBABABB! Það kostar ekkert ofan í og það verður dúndurstuð. Sjáumst!

ps – Allskonar fínt og skemmtilegt er í gangi á Barnamenningarhátíðinni. Í gær opnaði t.d. sýning barnanna í Sæborg á Kjarvalsstöðum, en verkin unnu þau með Daða Guðbjörnssyni.

Kúgast yfir augum

23 Apr

john_waters
Margir hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina. Einn þeirra er leikstjórinn John Waters, sem ég var með æði fyrir einu sinni og átti allar vhs-spólurnar með honum. Mér fannst myndirnar hans æðislegar og hann sjálfur, í viðtölum og bókum, alveg toppnæs. Ég var undir slíkum áhrifum að ég reyndi að safna yfirskeggi eins og hann er með, en hafði ekki skeggvöxtinn í það. Það var löngu síðar að ég fattaði að hann væri hommi. Ég var eitthvað svo ótrúlega blindur á slíkt. Ég var líka heillengi að fatta að Páll Óskar væri hommi. Þegar maður hitti hann í Aðalvideóleigunni (og lánaði honum John Waters á VHS auk hinna tveggja höfuðsnillinga költsins í kringum 1990, leikstjóranna Russ Mayer og Herschell Gordon Lewis) var maður aldrei eitthvað að spá í þessu.

John Waters kom á Kvikmyndahátíð í Rvk 1984 og sýndar voru helstu myndir hans fram að þeim tíma. Formaður hátíðarinnar Hrafn Gunnlaugsson vildi auðvitað reyna á þolrif „viðbjóðs-meistarans“ og gaf honum svið. John segir frá þessu í einni bóka sinna og segist hafa kúgast yfir augunum.

Því miður var Serial Mom (1994) síðasta verulega góða mynd meistarans. Þetta fór dalandi og náði botninum í hinni ömurlegu A Dirty Shame frá 2004, sem er álíka hugmynda-flopp í höfundaferli Johns eins og Hin eilífa þrá er í ferli Guðbergs Bergssonar (annars meistara og áhrifavalds).

Ekki veit ég hvort það  komi einhvern tímann ný John Waters mynd, en ég veit þó að meistarinn varð 67 ára í gær og að því tilefni tók Flavorwire saman þessi 67 bráðskemmtilegu kvót í meistarann.

AUKAEFNI:
Fúlu kommarnir á Þjóðviljanum hnýta í Hrafn Gunnlaugsson og John Waters e. kvikmyndahátíð 1984.
kommawaters

Geðveiki í Gálgahrauni

22 Apr

hjola1
Hjólavertíðin hófst í gær í góða veðrinu. Tók helvíti góðan hring. Úr 107 í Hafnarfjörð, þaðan gegnum Heiðmörk og Garðabæ og Kópavog og Öskjuhlíð og heim. Ég þreytist ekki á að hrósa þessum frábæru hjólastígum um allan bæ. Ég hef aðeins kíkt á Gálgahraun í þessum ferðum mínum. Ekki mikið samt því þetta svæði er ekki mjög aðgengilegt. Það er t.d. enginn stígur í gegnum hraunið sem hægt er að hjóla, sem væri þó snilld. Ég þarf þó að taka svæðið út asap og það gerir maður gangandi.

Fyrir hrun var endalaust talað um Kárahnjúka. Nú er nýjasti núningurinn um Gálgahraun. Ég gat aldrei tekið einarða afstöðu um Kárahnjúkadótið á sínum tíma. Fólk á Austfjörðum bar sig illa og álverið og þessi framkvæmd öll átti að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og gefa fólki ástæðu til að vakna á morgnanna. Vakna, vinna í álinu, koma heim, horfa á sjónvarpið, kaupa dót, fara til útlanda, sofna og dreyma dót. Svona eru hjólin. Og er maður ekki seldur inn á þetta þótt maður vinni ekki í álverksmiðju? Ég náði líka alveg hinu sjónarmiðinu að vernda óspillta náttúru á viðsjárverðum tímum o.s. frv. Sama hvað ég reyndi var ég alltaf 50/50 í þessu máli. Ekki drepa mig.

Þessi vegur um Gálgahraun virðist hins vegar vera algjört rugl og sóun á almannafé. Fyrir það fyrsta hélt ég að Álftanes væri skuldugasta bæjarfélag á landinu enda búið að eyða langt um efni fram, m.a. í manndráps-öldulaug í dýrustu sundlaug í heimi m.v. höfðatölu. Væri ekki nær að eyða þessum milljarði sem vegurinn á að kosta í að borga eitthvað af sundlaugarhýtinni niður? Spyr ég eins og sú hagsýna húsmóðir sem ég er.

Ég get ómögulega séð að nýr vegar sé algjört möst. Má ekki steypa upp þann gamla? Hraunavinir eru með undirskriftasöfnun til að mótmæla þessu rugli. Ég er búinn að kvitta.

hjola2
Ef myndin prentast vel sést glitta í Helgafell.

hjola3
2007 bygging og gapandi gin hjóls atvinnulífsins.

hjola4
Önnur 2007-bygging. Ísland er fullt af svona, leyfum síðasta góðæris og þess stjórnarfars sem fólk ætlar að fara að kjósa aftur á laugardaginn. Ég segi það enn og aftur: (hið svokallaða) hrun var þér að kenna.

En kannski ha, verður þetta allt öðruvísi og miklu betra núna?

Insanity: doing the same thing over and over again and expecting different results. Albert Einstein.

Sushi og Lemon

21 Apr

Þótt nútíminn sé e.t.v. trunta þá er a.m.k. miklu meira hægt að éta í dag heldur en fyrir svona eins og 30 árum. Ég er svo forn að ég man eftir því þegar ég smakkaði pítsu fyrst, líka „kínarúllu“ og börrítos.

Einu sinni þótti svaka nýjabrum í því að borða sushi. Eins og vanalega var ég lengi að sættast á að þetta væri eitthvað sérstakt. Ég er alltaf svo lengi að go við ðe fló (les: hoppa um borð í brunandi lest kapítalismans til heimsendis), er til dæmis ennþá með aumingjasíma og ekkert 3G. Svo opnaði einhver nýr staður og gott ef ekki Beta Rokk fékk mig og fleira lið til að eta sushi og síðan skrifaði hún grein um málið. Þetta þótti svona merkilegt þarna um 2000. Nokkru fyrr man ég eftir sushi-stað á móti Gamla bíói en ég fór aldrei þangað, enda fannst mér fáránlegt rugl að éta hráan fisk á okurprís.

Eftir plöggmáltíðina með Betu Rokk komst ég á bragðið og varð ólmur sushikarl. Át þetta hér á landi á og í utanlandsferðum, af færiböndum og hvar sem færi gafst. Ég er ekki með neina sushi-fordóma, skófla í mig hrognum, álum, strýtum, flugfiskum og sæbjúgum eins og ég fái borgað fyrir það. Ef boðið væri upp á augu lúsifers á hrísgrjónabeði rynni það niður efra meltingaropið á mér án frekari umhugsunar.

Í dag lítur ný kynslóð á sushi eins og nokkurs konar skyndibita, enda enginn hörgull á sushi-stöðum hér. SuZushii í Kringlunni hefur löngum verið eitt besta sushipleisið og hefur nú opnað delúx útgáfu af sjálfum sér í Iðu-húsinu, Lækjargötu. Þar getur maður ekki valið af matseðli heldur verður að gangast undir það sem kokkarnir reiða fram. Um er að ræða 16 bita dæmi á 3.750 kr. Maður fékk allskonar öðruvísi sushi og þetta var alveg skothelt.

Nokkru áður höfðum við farið á Rub 23 í kjallara Geysis-hússins. Vorum fjögur saman og báðum bara um sushi mix fyrir 5000 kall á kjaft. Komu nú svoleiðis sushibreiðurnar og maður stóð fljótlega á blístri. Ekki það mikið á blístri að maður gæti ekki rutt í sig eins og einum gríðargóðum eftirrétti líka.

En að öðru. Um daginn sóttu að sögn 300 manns um vinnu á nýjum stað, Lemon á Suðurlandsbraut. Þetta er heilsu-skyndibita (en samt ekki skyndibita) pleis, nýkreistir safar, djúsí samlokur o.s.frv. Hef farið þarna tvisvar á síðustu dögum og fékk mér kombó í bæði skiptin, ss. safaglas og samloku á 1.890 kr. Ég mæli eindregið með Spicy Tuna samlokunni og Good Times djúsinu. Þetta er „erlendis“ staður og ekki svo ósvipaður keðjum eins Jamba Juice og kannski Pret-a-porter – nema bara mun meira „heilsu“. Lemon opnar kl. 7 á hverjum degi, sem er auðvitað snilld.