Sarpur | desember, 2013

Fyndið áramótauppgjör

31 Des


Charlie Brooker er helvíti fyndinn og óvæginn náungi á BBC. Hér að ofan er áramótauppgjörið hans sem er vel þess virði að eyða klukkutíma í. 

Árni Matt: Óefnisleg tónlistarflóra

30 Des

Árni Matt skrifar mikinn bálk um íslenska óefnislega tónlistarflóru ársins í Moggann í dag. Þetta er grein sem heimtar að vera á netinu, en ekki í dauðu timbri. Þar sem ég fann þetta hvergi á mbl.is tek ég mér það bessaleyfi að birta þetta hér með linkum:

Tónlistarútgáfa stendur með miklum blóma þó að ekki sé allt á föstu formi – rafrænni útgáfu hefur vaxið fiskur um hrygg og hér er fjallað um sautján íslenskar plötur sem hlusta má á á netinu.

Í fréttaskýringu í blaðinu fyrir stuttu var fjallað um útgáfu á tónlist og kom meðal annars fram að útlit væri fyrir að „færri nýir íslenskir plötutitlar verði í boði þessi jólin en í fyrra“. Má til sanns vegar færa, því vissulega koma færri titlar út á föstu formi en árið áður, en þá líta menn ekki til þess að tónlistarútgáfa hefur færst á netið að mörgu leyti.

167 plötur
Kostnaður við upptöku á tónlist er mun minni nú en forðum og svo komið að tiltölulega auðvelt er að koma sér upp litlu hljóðveri, jafnvel í stofunni heima eða svefnherberginu, sem dugað getur til að skila prýðilegum upptökum, kannski ekki eins góðum og í tugmilljónahljóðveri, en iðuleg nógu góðum til að hægt sé að nota þær til útgáfu.
Þegar svo er komið að flestir hlusta á tónlist í tölvum eða símum eða spilastokkum má sleppa þeim kostnaði sem felst í því að láta prenta og steypa og pakka og flytja og dreifa tónlistinni á föstu formi.
Ég tók þátt í því fyrir stuttu að setja saman svonefndan Kraumslista, sem tekinn er saman árlega á vegum Kraums tónlistarsjóðs. Kraumslistinn hefur að markmiði meðal annars að verðlauna og vekja athygli á því sem er nýtt og spennandi í íslenskri tónlist ár hvert á sviði plötuútgáfu. Allar plötur eru undir í upphafi, og þannig hlustaði ég á ríflega 170 plötur við vinnuna. Flestar hafði ég reyndar hlustað á eftir því sem þær bárust frá útgefendum eða tónlistarmönnunum yfir árið, en allmargar hafði ég ekki heyrt því þær voru aðeins til á rafrænu formi og sumar höfðu aldrei verið kynntar sérstaklega. Af þessum plötum sem gefnar voru út rafrænt voru 25 aðgengilegar á vefsetri Bandcamp, sem opnað var haustið 2008. Þar geta tónlistarmenn sett inn tónlist til sölu eða gefið hana ef vill. Þeir ráða líka verði tónlistarinnar, en margir hafa þann háttinn á að áhugasamir geta ákveðið verðið sjálfir. Hægt er að hlusta á alla tónlist án endurgjalds og án skráningar, eins og tíðkaðist í góðum plötubúðum forðum (og tíðkast kannski enn) – hálfa sjöundu milljón laga alls. Líka er hægt að nálgast íslenska tónlist á vefsetri íslenska fyrirtækisins Gogoyoko, en ég beini sjónum að Bandcamp í þessari samantekt og þá aðeins að þeim plötum sem eru mér eftirminnilegastar.

itcom

Áfram, í allar áttir!
Wormlust
er svartmálmssveit Hafsteins Viðars Lyngdals og platan The Feral Wisdom (3/5) var gefin út á Bandcamp í sumar. Hann fléttar sveimkenndri tilraunasýru saman við svartmálminn með góðum árangri, til að mynda í upphafslagi plötunnar, Sex augu, tólf stjörnur, þar sem grenjandi keyrsla brestur á eftir rúma mínútu af draumkenndum inngangi, en svo tekur draumurinn við aftur undir lokin. Mjög fín plata og Djöflasýra er frábært lag.

Björn Gauti Björnsson, sem kallar sig B.G. Baarregaard kallar sig líka Birth, Breath, Disco, Death (2 og 1/2 af 5), eða svo skráir hann samnefnda EP-plötu á Bandcamp. Eins og heiti skífunnar ber með sér hefur hún að geyma diskómúsík af bestu gerð, hreinræktuð skemmtun út í eitt. Mæli sérstaklega með Ease The Pain þar sem Krilla Vanilla syngur afskaplega vel.

Hljómsveitin Porquesí er skipuð þeim Skúla Jónssyni, Russell Harmon, Agli Jónssyni og Jonathan Baker. Samnefnda plötu, Porquesí (2 og 1/2 af 5) , er að
finna á Bandcamp og er önnur plata hennar. Tónlistin er metalcore-kennd, mjög metnaðarfull með síðrokkkenndum köflum, til að mynda lagið Quiet House þar sem píanó og strengir spjalla saman með ólgandi bjögun kraumandi undir þar til rokkið nær yfirhöndinni undir lokin.

In The Company Of Men er ein skemmtilegasta tónleikasveit landsins og ITCOM (3/5) er ekki síður skemmtileg – maður veit aldrei hvað er í vændum. Gott dæmi um það er upphafslag skífunnar, Captain Planet, sem byrjar með skældum kassagítarhljómum, brestur svo í frábæra skreamokeyrslu og svo í tilraunakenndan blásaraspuna áður en við snúum okkur aftur að rokkinu – magnað lag og mögnuð plata.

Fyrir áratug kom út mjög fín skífa með spunatónlist þeirra Lárusar Sigurðssonar og Ólafs Josephssonar undir yfirskriftinni Calder. Calder virðist allur / öll / allt, en samstarf þeirra félaga heldur áfram undir nafni Lárusar sem heyra má á plötunni We Are Told That We Shine (2 og 1/2 af 5). Lárus er í aðalhlutverki á skífunni, en Ólafur leggur til áhrifshljóð og drunur. Í grunninn er platan því órafmögnuð, mikið leikið á strengjahljóðfæri, en einnig heyrast raddir öðru hvoru. Þetta er lágstemmd skífa sem verður betri við hverja hlustun.

Af þeirri forvitni- og óvenjulegu íslensku músík sem finna má á Bandcamp kemur platan The Deacon of Myrká (3/5) einna mest a óvart. Heiti plötunnar vísar í þjóðsöguna, en tónlistin, sem er eftir þá Hlér Kristjánsson og Alex Cook, er hugsuð sem balletttónlist og mjög skemmtilega útfærð sem slík. Víða er vísað í íslensk þjóðlög, en þó er verkið frumlegt. Mjög vel gert.

Á Geigsgötum er sólóverkefni Akureyringsins Inga Jóhanns Friðjónssonar og er með prýðilega tregarokkskífu á Bandcamp, Verið velkomin (2 og 1/2 af 5). Þar er líka að finna aðra sveit, Deer God, sem er aukasjálf Skagstrendingsins Þórðar Indriða Björnssonar, sem á framúrskarandi plötu The Infinite Whole (3/5), ljóðræna óhljóðamúsík. Því eru þeir Ingi Jónan og Þórður taldir saman að þeir leggja svo saman í púkk í laginu Moldar að sem sameinar það besta hjá báðum.

Michael Dean Óðinn Pollock hefur marga fjöruna sopið í tónlist frá því hann tók þátt í að hrinda íslensku pönkbylgjunni af stað á sínum tíma. Þó að hann hafi fengist við ýmiskonar tónlist síðan hefur blúsinn aldrei verið langt undan og vel til fundið hjá honum að fá blúsmunnhörpuleikarann snjalla Sigurð Sigurðsson til liðs við sig á plötunni Agape (4/5). Að því sögðu er þessi plata ekki hrein blússkífa, heldur frekar það sem menn kalla rótatónlist ytra, einlæg og tær tónlist sem byggist á gömlum þjóðlegum merg. Lögin eru fín, Sigurður blæs eins og engill og söngur Michaels innblásinn, röddin eilítið hrjúf og full af tifinningu. Afbragð.

Sumt kemur aldrei út því mönnum finnst það of sérkennilegt, en á netinu er allt hægt – sem betur fer. Þýska útgáfan Steak au Zoo hef gefur út samstarfsverkefni þeirra Guðlaugar Míu Eyþórsdóttur og Steinunnar Harðardóttur, sem þær kalla Sparkle Poison en Steinunn er líka þekkt sem dj. flugvél og geimskip. Tónlistin á skífunni, sem heitir líka Sparkle Poison (3/5), er óhemju fjölbreytt, sumt minnir á bilaðar Tân Có-spólur, annað á misheppnaða brúðkaupstónlist, enn annað á útsendingu utan úr geimnum. Sumt er snilld, annað gott og enn annað nánast of skrýtið til að vera til.

Naos, sem heitir annars Jóel Hrafnsson, er myndlistar- og tónlistarmaður frá Akureyrir sem hefur áður sent frá sér músík undir nafninu Hyperspaze. Músíkin sem hann gefur út sem Naos, Lack of Faith (2/5), er þó harðari en fyrri verk Jóels, hljóðheimurinn myrkari og keyrslan meiri. Jóle lýsir músíkinni sem doomcore, sem er nærri lagi. Prýðilegt techno, en sumt fullvenjulegt, til að mynda lög eins og Bite the Bullet, en Speedkrieg er aftur á móti snilld svo dæmi séu tekin – doomcore-dauðarokk.

Tvisvar verður gamall maður barn og oftar reyndar, ekki síst ef hann kemst í þá undirfurðulegu skífu Tónlist fyrir Hana (4/5) sem Per: Segulsvið býður upp á á Bandcamp og mér skilst að standi til að gefa út á föstu formi, ef hún er þá ekki þegar komin. Af þeim plötum sem ég hlustaði á í þessari Bandcamp-lotu kom engin eins skemmtilega á óvart, bæði fyrir fjörsnærða músík og ekki síður fjölskrúðuga texta. Tek undir það sem segir á síðunni: „Skífan er sneisafull af ilmandi dægurlögum og gómsætri dansmúsík sem heilla mun jafnt menn sem hænsnfugla.“ Svanur Magnús semur textann, en Ólafur Josephsson tónlistina.

Frímann Ísleifur Frímannsson er iðinn við músík, gefur út tónlist undir ýmsum nöfnum einn eða í samstarfi við ýmsa. Eitt af aukasjálfum hans er hljómsveitin Slugs sem gaf út skífuna Þorgeirsbola (2 og 1/2 af 5) í takmörkuðu upplagi, en hægt er að hlusta á Bandcamp-síðu Slugs. Tónlistin er bjagað vel súrt pönkað rokk og lögin frá því að vera frekar leiðinleg (Gat þetta, 400) í að vera frábær (Rafmagnstaflan, Barnaperrinn (ég er sjúkdómur) og Botnfiskablús).

3xamatt

Frímann rekur líka útgáfuna Lady Boy Records með Nicolas Kunysz og sú gaf út á árinu kassettu, Lady Boy Records 001 (3/5), í mjög takmörkuðu upplagi, svo takmörkuðu reyndar að hún er löngu uppseld. Það er þó hægt að hlusta á músíkina á Bandcamp (og kaupa hana til niðurhals) og þá heyra tónlist með rjómanum af íslenskri tilraunatónlist, þar a meðal Ghostigital, Krumma, LVX, Bix, Sigtryggi Berg Sigmarssyni, Rafsteini, Úlfi, Futuregrapher og Quadruplos. Músíkin er mjög misjöfn að gæðum, en ég mæli með raddæfingum Sigtryggs og stuðlagi Úlfs og framlagi Ghostigital, Bix, Quadruplos og Nicolas Kunysz.

Nicolas Kunysz er Belgi, en býr og starfar hér á landi og hefur talsverð tengsl inn í íslenskan músíkheim. Hann gaf einnig út það sem kalla má EP-plötu á vegum Lady Boy Records, eitt lag, Rainbows in Micronesia (2 og 1/2 af 5), sem er tæpar sextán mínútur og mjög vel heppnuð flétta.

Gunnar Jónsson Collider hefur fengist við sitthvað tónlistartengt á undanförnum árum og þá aðallega í tilraunakenndri raftónlist. Hann sendi frá sér tvær skífur á árinu, Disillusion Demos EP (3 og 1/2 af 5)og Binary Babies EP (3/5). Við fyrstu hlustun fannst mér síðarnefnda skífan mun betri, en eftir því sem ég hlusta oftar á plöturnar kann ég betur að meta þá fyrri. Á Disillusion Demos syngur Gunnar og kemst vel frá því í grípandi heppnuðu kassagítarknúnu indípoppi, en á þeirri Binary Babies ráða skældar raddir, þrusk, brak og rafhljómar ríkjum. Mjög forvitnilegt og gott ef ekki er vitnað í No Pussyfooting á Binary Babies (sjá: II).

Í þessari upptalningu beini ég sjónum að Bandcamp.com, eins og getið er, en mikið af ofangreindri tónlist er fáanlegt á Gogoyoko.com, nokkuð á Tónlist.is og sumt á Soundcloud.com.

Árni Matthíasson / arnim@mbl.is

 

Menningarumfjöllun

30 Des

GALLERIES2ALT-articleLarge
Fór með krakkana og konuna á sýningu Ragnars Kjartanssonar The Visitors í Kling og Bang á Hverfisgötu 42. Ókeypis er inn svo ég var strax kominn í plús. Ragnar er mikilsvirtur því verkin hans seljast nú dýrum dómi í útlöndum. Söluverð og innkoma er besti mælikvarði á list eins og allir vita, allavega íslenskir fjölmiðlar sem æsast upp þegar einhver á von á innleggi á bankabókina sína. Ragnar fékk vini til að spila lag með sér í einhverju svaka stóru húsi í Bandaríkjunum. Þarna mátti sjá múm tvíburana Gyðu og Kristínu, Dodda í Trabant, Kjartan úr Sigur Rós og fleira fagfólk úr poppinu. Sjálfur lá Ragnar í baði með gítar. Hver spilari var á sér risaskjá með headfón og lúppast tónlistarflutningurinn út í hið óendanlega. Þetta er mjög næs tæknilega séð og flott og fínt og allt það, en ég get ómögulega sagt að það sé einhver sammannleg  dýpt í þessu verki eða að það „segi eitthvað um samtímann“ – bara ágætis síð-nýhippalag flutt á allferskan „djöf er gaman að vera kenndur Íslendingur út í sveit í Bandaríkjunum“-hátt. Ég get svo auðvitað hallast að því að verkið segi „eitthvað um samtímann“ með því að segja „ekkert um samtímann“, enda er allt meira og minna komið í andlegt þrot í listum sem og öðru. Það bjargar þessu ekkert nema ný heimsstyrjöld eða hugsanlega nýr byltingarkenndur snjallsími.

Auðvitað lá ég í menningarefni um jólin. Heimildarmyndin A band called Death fjallar um löngu gleymda rokksveit svartra bræðra í Detroit snemma á sjöunni. Bandið var ágætt og það tókst að nurla í sjö laga plötu hjá undergránd merkinu Drag City eftir að bandið uppgötvaðist nýverið. Myndin er nú full teigður lopi á köflum en alveg ágætis dæmi fyrir utan það. 3/5 (nýtt kerfi í einkunargjöf til að samræmast kerfinu hjá Goodreads, sem ég er byrjaður að nota til að halda utan um það sem ég les).

Good ol’ Freda er heimildarmynd um  Fredu Kelly, skrifstofustúlku Bítlanna, sem hefur ekki viljað segja sögu sína fyrr en nú. Myndin er fín fyrir okkur Bítlafríkin. 4/5.

Anchorman 2 er ágætis fóllóöpp. Afgerandi slappari en fyrri myndin náttúrlega, en oft alveg fyndin.  3/5.

Nakin kæfa á Paloma

30 Des

???????????????????????????????
Tónleikar verða í kvöld á PALOMA, Naustinni 1 til 3, Efri hæð. Fyrir ofan gamla Organ. Þar koma fram eftirtalin atriði:

Markús & The Diversion Sessions, sem „skaust upp á stjörnuhimininn“ með Megasíska stuðlaginu Ég bisst assökunar í ár. Lagið varð víst til fyrir tilviljun en til að svara kalli vinsældanna vinnur Markús nú að „plötu í fullri lengd“ sem kemur út á næsta ári. Gott mál.

Loji er fjölhæfur og spilar líka með Prins póló (plata frá Prins póló á næsta ári líka, en gullhúðað nýtt stuðlag mun heyrast von bráðar sem titillagið í nýrri mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar). Loji hefur gert tvær sólóplötur með mylsnu-indíi sem má hlusta á hér.

Per: Segulsvið er að mestu Ólafur úr Stafrænum Hákoni í góðu stuði. Á þessu ári kom út platan Tónlist fyrir Hana og bókin Smiður finnur lúður. Afurðirnar hafa að miklu leiti farið fyrir ofan garð og neðan því þær voru eingöngu auglýstar í Bændablaðinu. Þetta er hins vegar þrælfínt stöff og það myndi nú ekki drepa þig að tékka á því hér.

Að auki verður um að ræða Árslistkvöld DJ Benson is Fantastic en það er DJ nafn Benedikts Reynissonar sem „hefur verið málsmetandi tónlistarrýnir um langt skeið á Íslandi. Árslistakvøld med honum svíkur fáa , en vonandi nokkra, annars erum við øll eins,“ eins og segir í fréttatilkynningu.

Katla María í rokkið

29 Des

LunainfeaKatlaHausmannSinglePhoto_zps3cc67508
Langt er um liðið, ein 30 ár, síðan Katla María var að gera góða hluti sem barnastjarna á Íslandi. Síðustu árin hefur hún verið að syngja með „alternatífa“ rokkbandinu Lunainfea, sem mér sýnist gera út frá Ítalíu. Katla kemur nú fram sem Katla Hausmann. Fyrsta EP plata Lunainfea var að koma út og hér má lesa viðtal á ensku við Kötlu.

Plata dagsins: Celsius

27 Des

celsiu2s
Celsius – Queen of my life (lag og texti Kristján Guðmundsson)
Út er kominn samnefndur diskur með hljómsveitinni Celsius, 36 árum á eftir áætlun. Celsius var eitt heitasta bandið 1976, stofnað af nokkrum þungavigtarpoppurum; Jóhanni Helgasyni, Sigga Karls trommari og Birgi Hrafnssyni gítarleikara, en saman höfðu þeir gefist upp á meikævintýrum Change skömmu áður. Þarna var Pálmi Gunnars (á þessum tíma að stíga fyrstu sporin með Mannakorni), Birgir Guðmundsson gítarleikari, Kristján Guðmundsson hljómborðsleikari og spáný söngkona á þessum tíma, Helga Möller, sem þreytti frumraun sína við plötuupptökur með Celsius.

Celsius spilaði léttfönkað seventís-rokk, tróð upp á öldurhúsum og á miklu „Rock n roll festivali“ sem Óttar Felix hélt í Laugardalshöll í lok sumars 1976. Þar spiluðu öll hin mid-seventís rokkböndin líka, Cabaret, Eik, Fresh og Paradis. Tónleikarnir voru teknir upp og hér er myndbrot af Celsíus á Youtube. Þetta lag, Love your mother, er því miður ekki á nýja diskinum. Það var fyrst flutt af Change og átti að vera á annarri plötu Change sem aldrei kom út en væri gaman að fá á disk!

Plötugerð Celsius fór fram í Hljóðrita. Karl Sighvatsson kom inn sem hammond-leikari og Halldór Pálsson blés í saxófón. Þegar platan var loks tilbúin var bandið hætt og fólk komið í annað: Helga í flugfreyjuna, Biggi Hrafns búinn að stofna hljóðfæraverslunina Tónkvísl o.s.frv. Það þótti ekki taka því að gefa plötuna út því Ríkisútvarpið hafði tekið upp þá stefnu að spila bara íslenskt popp á íslensku og því útséð um að þessi plata (sem öll var sungin á ensku) fengi spilun. Hún lá því í salti þar til núna þegar hún er loksins komin út með 4 aukamixum. Þetta er mjög ánægjuleg endurútgáfa og ætti að vera hvatning til annarra sem etv liggja á einhverju óútgefnu gulli úr fortíðinni.

Kvikmyndadómar Haraldar Jóhannssonar

26 Des

Bestu kvikmyndadómar sem birst hafa á Íslandi voru eftir Harald Jóhannsson (1926 – 2002), hagfræðing og kvimyndaáhugamann. Þeir birtust í Alþýðublaðinu á 10. áratugnum þegar Hrafn Jökulsson ritstýrði blaðinu. Þegar maður sá Harald á götu tók maður eftir því enda var hann svo auðþekkjanlegur: beinvaxinn og broddaklipptur í gráum rykfrakka. Þegar maður sá hann á bókasafni vakti hann athygli manns með því að lesa í gegnum stórt stækkunargler. Hér er nokkrir dómar eftir Harald:
dd
diehard
fargo

Skrípaárið 2013

25 Des

2013 var skrípaár. Hér er smá best off, bæði almenn atriði og persónuleg:

Hundur ársins: Glaðasti hundur í heimi
Listrænn sigur ársins: Að eiga tvö lög á nýju Strumpaplötunni og komast á vinsældarlista FM957
554659_168486649981059_1838805226_n
Frostpinni ársins: Grænn
Farsi ársins: Rúv (ath: fréttaskýring Þorsteins Guðmundssonar)
Biðröð ársins: Valdís
Landnemi ársins: Brjósttittlingurinn

Óvænt ársins: Að hitta Megas í Kringlunni með spánýjar tennur

1072542_10201923739562025_1780524563_o
Óvænt ársins 2: Þegar Reynir Pétur bankaði upp á í sumarbústaðnum
Menningarpostuli ársins: Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum
Köttur ársins: Sá sem slapp frá ríku konunni á Reykjavíkurflugvelli
Bleyta ársins: Sumarið 2013 í Reykjavík
Sumarstuð ársins: Sirkusinn í Vatnsmýri
Klúður ársins: Keflavík Music Festival
Fall ársins: Nick Cave á ATP

1044152_10201769741552171_173393478_n
Daunill kaffistofa ársins: Kommentakerfi DV
Drykkjubolti ársins: Mark E Smith á Paddy’s

Sökkerar ársins: Kjósendur
Lúserar ársins: „Vinstrimenn“ daginn eftir kosningar
Klöngur ársins: Hornstrandaklöngur Blómeyjar
Vigdís ársins: Vigdís Finnbogadóttir (það er bara ein Vigdís í mínum huga)
Tískusteitment ársins: Skópar Sigmundar Davíðs
Hraun ársins: Gálgahraun
Nammi ársins: Typpasleikjó
Næstum því ársins: Íslenska karlalandsliðið í fótbolta
Gjaldeyrissköpun ársins: Ben Stiller
Nasa ársins: Broadway
Seðill ársins: 10.000 kr
Snilld ársins: Snjallsíminn minn
Hápunktur menningarsögu þjóðarinnar ársins: Simpsons fara til Íslands
Ritdeila ársins (eða ekki): Bubbi vs Leoncie
Ræða ársins: Óttarr Proppé um rónann og íkornann
Dýr ársins: Lemúrinn (t.d. fyrir Hljóma á Barmúda og pungígræðslu)
Dr. Gunni ársins: Krabbakjöt

Jólamix Dr. Gunna – í þágu heimilanna

25 Des

jolamixx
Jæja, er nú ekki komið nóg af þessum klassísku jólalögum sem eru búin að dynja á þér, eins og stigmagnandi bumbuslög í þrælaskipi kapítalismans, síðan í nóvember? Ó jú! Hér kæri vinur er jólamix til að létta þér lífið í eftirleik jólanna, tólf óklassísk, óvenjuleg en þrælskemmtileg jólalög… (þetta mix er endurgerð af jólamixi sem ég gerði 2007).

Jólamixteip Dr. Gunna

Innihaldslýsing:
1. El Vez – Feliz navidad  
Byrjun með blasti. El Vez, hinn mexíkóski, blandar saman Ég fæ jólagjöf og Public Image Ltd. Hverjum hefur dottið það í hug? Þetta er hress gaur sem hékk svolítið með Sykurmolunum í gamla daga. 
2. The Go-Bang’s – Rock n roll santa claus 
The Go-Bang’s var japanskt kvennatríó sem spilaði poppað tyggjórokk með örlitlu pönkbragði. Þær nutu vinsælda í kringum 1990 og einhverra hluta vegna á ég allar plöturnar með þeim. Hér er hressandi jólalag frá þessu frábæra, en algjörlega óþekkta utan heinalandsins, bandi.
3. Shonen Knife – Space Christmas
Annað japanskt kvennatríó með annað frumsamið jólalag.
4. Hybrid Kids – O, Come all ye faithful
Hybrid Kids var leyninafn fyrir Morgan Fisher. Hann er líklega þekktastur fyrir að hafa verið hljómborðsleikarinn í Mott the Hopple. Í kringum 1980 var hann að taka allskonar lög og gera svona sniðugar ábreiður af þeim. Hann gerði m.a. plötuna Claws sem eru bara jólalög. Hún er alveg ljómandi fín.
5. The Residents – Santa Dog ’78
Í flipp tilraunagír slá fáir bandarísku leynihljómsveitina The Residents við. Eitt þeirra fyrsta lag var jóla. Auka hugmynd: Gott nafn á íslenska hljómsveit væri „Aðilarnir“, jafnvel „Aðilar vinnumarkaðarins“.
6. The Frogs – Here comes Santa’s pussy 
Þegar sungið er um pussuna á Jóla hringja allar viðvörunarbjöllur í Jólaþorpinu. The Frogs er fyndið, dónalegt og eldgamalt amerískt band sem ég sá einu sinni á CBGB’s. Ég man að einn var með vængi á bakinu og þetta var flippað og skemmtilegt.
7. Alli Rúts – Ég er jólasveinn
Það eru engin jól án Alla Rúts. Skemmtikraftur, bílasali en rekur sveitahótelið og barinn Áslák í Mosfellssveit í dag. Umslag 7″ plötu Alla frá 1973  er einstaklega vel heppnað (og notað hér að ofan aðeins breytt).
8. The Fall – (We wish you) A protein christ 
Líklega er fátt ójólalegra en amfetamínbryðjandi skáldjöfurinn Mark E Smith og taumlaus og endalaus snilldarferill hans. Hann gerði nú samt 4-laga jólaplötu árið 2003. Af henni heyrum við titillagið. Hin lögin eru jafnvel enn ójólalegri en þetta.
9. Bit shifter – Let it snow
Á netsíðunni http://8bitpeoples.com/koma saman listamenn sem gera tónlist á fornar tölvur. Þetta er fyndið og skemmtilegt og öll tónlistin býðst ókeypis í niðurhali. Þetta lag með Bit shifter (Bandaríkjamaðurinn Joshua Davis) er tekið af átta laga jólaplötunni The 8bits of christmas.
10. Big Star – Jesus Christ 
Alex Chilton og félagar voru hljómsveitin Big Star, band sem gerði tvær magnaðar plötur sem allir verða að heyra (#1 Record 1972 og Radio City 1974). Þetta lag er af þriðju plötunni, Third/Sister Lovers, sem kom 1978. Lagið er um gaurinn sem allur gauragangurinn er víst tileinkaður. Gullfallegt lag sem hefði átt að vera „klassískt jólalag“ í dag en er það ekki.
11. Megas & Senuþjófarnir – Ég sá pabba krassa á jólatréð
Megas og Senuþjófarnir blúsa jólin inn með þingeyskan júða í eftirdragi.
12. Yogi Yorgesson – I yust go mad at christmas
Löngu áður en Prúðuleikararnir komu með Sænska kokkinn gerði Harry Stewart grín að Svíum sem „Yogi Yorgesson“.
12 1/2. Paska – Merry christmas 
Paska er finnskur sköllóttur pönkari sem hefur öskrað inn á þónokkuð margar plötur. Ég hitti hann einu sinni þegar hann var með pönk-karókí í Turku. Einu sinni öskraði hann inn á símsvarann minn en því miður er sú spóla týnd. Paska endar við mixteipið í sönnum jólaanda.

 

Jólabörnin eldast

24 Des

jolin2013
Hallijúha! Gleðileg jól elsku sammannskepnur. Frábært að vera á lífi og ekki dauður (ath: reyna að muna) og frábær dagur í dag, aðfangadagur jóla. Hjá krökkum er jólaandinn hreinn og tær en lífsreyndir gamlingar tengja við „barnið í sjálfum sér“ og sjúga jólaanda úr börnunum eins og gráðugar blóðsugur á holdi. Hallijúha! Ég hef haft það fyrir sið í mörg ár að mynda börnin mín á aðfangadagsmorgun. Efsta myndin er síðan áðan en hér kemur öll súpan í aldursröð.
2012
jola2012
2011
jolin2011
2010
jola2010
2009
jolin09
2008
jola08adf
2007
jola07
2006
jol06
2005
jol2005
2004
jol2004
Ég tók enga mynd 2003 þegar Dagbjartur var 3ja mánuða, en ég keypti hins vegar eins Hawaii skyrtur handa okkur feðgunum það ár:
jola03
Við Lufsan sungum inn jólalög í nokkur ár til að senda með jólakortunum. Þá var metnaðurinn á hærra plani en núna. Besta jólalagið er það síðasta sem við gerðum. Það er frá 2006 og hægt var að nýta Dagbjart (varúð: krúttuð yfirhleðsla).
Lufsan og Lalli – Nú eru að koma jól