Sarpur | desember, 2011

Maður ársins 2011

30 Des


Er að sjálfsögðu Fransisca Mwansa (eins og nokkur ár þar á undan). Eitt af því sem ég er stoltastur af á blaðamannaferilinum er þetta viðtal.

Upprifjun við áramót

30 Des

Þetta var minnir mig helvíti fínt ár bara. Fyrir utan að halda andlegri og líkamlegri heilsu að mestu leiti (það sama á við um ættingja og vini) var margt skemmtilegt sem kom fyrir. Til dæmis að ég

* Hjólaði til Keflavíkur

* Gekk á Heklu

* Dvaldist í Sólskinshöllinni á Ísafirði, gekk til Súðavíkur og hjólaði til Bolungarvíkur

* Fór í verðskuldaða borgarferð til London með vinum mínum og sá The Specials

* Fann gullfallegt póstkort af Staðarskála

* Fór í frisbie-gólf á Klambratúni

* Fór all oft í hina ágætu Hörpu sem er gríðarlega erlendis

* Sá hvali öpp klós

* Fékk áritun á gamla plötu með Matthildi

* Át og drakk eins og kóngur (ítrekað)

* Hef aldrei innbirt jafnmikið magn af kirsuberjum eins og í sumar (enda hefur innflutningur aldrei verið eins mikill)

* Spilaði á Eistnaflugi með ævagömlu bílskúrsbandi (S.H.Draumi)

* Spilaði gamalt pönk með Videósílunum

* Þurfti að keyra 1.5 hringveg vegna Múlakvíslar

* Heimsótti Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum sem spilaði fyrir mig vaxhólk

* Stóð fyrir Stuðlagavali og sá um æsispennandi Popppunkt (7. serían!)

* Fann orginal Kanínuna (Ela Ela með Axis)

* Hlustaði á Sigrúna Davíðsdóttur segja rosa margar sögur af ógeðlega gráðugum skítaríkumkörlum með plott. Nú slekk ég bara þegar hún byrjar. Why bother?

2012 verður svo væntanlega alveg æðislegt líka.

(No) shit Sherlock

30 Des

Smá Sherlock Holmes í gangi hérna, ekki það að ég hafi einhvern tímann verið mega fan. Sá fyrri nýju myndina (Sherlock Holmes frá 2009) í vikunni. Þetta er ágætis mynd upp á heilar þrjár stjörnur. Fínn dampur í aksjóninni, gaman að þessari skítugu 19. aldar London og þeir Holmes og Watson Downeys og Laws ágætir.  Mér þótti því eðlilegt að bregða mér á nýju myndina í gær (Sherlock Holmes: A Game of Shadows). Ekki fannst mér nú eins gaman að henni. Bölvað hjakk eiginlega og þessi James Bond-legi niðurdömbaði Sherlock farinn að þreytast ansi mikið. Einum of mikið 3 bíó bara og voða lítið kúl. Svo veit maður auðvitað alltaf hvernig þetta endar. Ég er ekki frá því að ég hafi sofið eins og í korter í miðri mynd. Nýja myndin fær ekki nema eina stjörnu. Þetta er orðið ágætt (samt kemur örugglega ein mynd enn).

Sé Sherlock málið mæli ég frekar með ensku sjónvarpsseríunni sem gat af sér þrjá langa þætti í fyrra. Von er á þremur nýjum þáttum strax á næsta ári og verður sá fyrsti frumsýndur 1. jan.

Bestu lög ársins

29 Des

Nú keppast menn og konur (sem eru líka menn) við að birta lista yfir þetta og hitt sem hæst bar 2011. Ég hef skrollað yfir bestu lög ársins lista bæði hjá Pitchfork og Popmatters til að gá hvort ég hafi misst af einhverju. Niðurstaðan er sú að ég hef ekki misst af neinu. (Les: Ég er orðinn gamall og áhugalaus. Ætli ég fari ekki að hlusta á harmóníkutónlist bráðum).

Það voru nú samt einhver frábær lög sem bjuggu til sándtrakk ársins. Hér kemur því vandaður listi yfir 22 bestu lög ársins (aðallega íslensk, nokkur útlend) í stafrófsröð flytjenda.

1860 – Snæfellsnes
Berndsen & Bubbi – Úlfur úlfur
Coldplay – Paradise
Felix Bergsson – Vorljóð
Foster the People – Pumped up kids
Gímaldin & félagar – Ballaðan um íslensku gjöreyðingarvopnin
Gotye – Somebody I used to know
GusGus – Within You
Ham – Dauð hóra
Hellvar – I should be cool
Keren Ann – My name is trouble
Kvelertak – Mjöd
Lay Low – Vonin
Megas & Ágústa Eva – Lengi skal manninn reyna
Mugison – Stingum af
Ojba rasta – Jolly good
Pétur Örn Guðmundsson – Elísabet
Reykjavík! – Hellbound Heart
Snorri Helgason – Mockinbird
Song for Wendy – The Night
Sykur – Shed those tears
Valdimar & Memfismafían – Okkar eigin Osló

Mjög líklega er ég að gleyma einhverjum frábærum lögum. Maður gleymir þessu jafnóðum.

Plötur ársins 2011

28 Des

Plötur ársins samkvæmt mínum smekk eru þessar:

1. Snorri Helgason – Winter Sun
2. Lay Low – Brostinn strengur
3. GusGus – Arabian Horse
4. Hellvar – Stop that Noise
5. Ham – Svik, harmur og dauði
6. Mugison – Haglél
7. Reykjavík! – Locust Sounds
8. Sykur – Mesópótamía
9. Hljómsveitin Ég – Ímynd fíflsins
10. Saktmóðígur – Guð hann myndi gráta

Gott ár í íslensku deildinni. Heill hellingur af fínum plötum. Í erlendu deildinni á ég í mestu vandræðum með að fylla lista yfir 10 plötur og læt því nægja fimm.

1. Kvelertak – Kvelertak
2. Girls -Father, Son, Holy Ghost
3. Justice – Audio, Video, Disco
4. Bon Iver – Bon Iver
5. Timber Timbre – Creep On Creepin On

Norsku þungarokkararnir í Kvelertak gáfu reyndar sína plötu út seint árið 2010 en ég heyrði hana ekki fyrr en á þessu ári. Frábærlega æðisleg plata sem þrælvirkar bæði á bretti og til að blasta þegar keyrt er á þjóðvegum. Ekki síst í gegnum göng.

Fjórir drykkir á aðventu

26 Des


Á aðventu innbyrti ég eftirfarandi.

Cheerwine, sem Song sendi mér frá USA með Heiðu.  Cheerwine-ið er eiginlega alveg eins og Dr. Pepper, er upprunnið í Norður Karólínu og á sér mikla sögu (sjá: Wikipedia). Því miður fannst mér þetta ekki gott og gaf krökkunum með mér með glöðu geði úr hálfs lítra flöskunni. Ein stjarna.

Bryan sendi mér Sea Dog Root Beer (Heimasíða), rótarbjór frá bjórverksmiðju í Maine fylki. Ég hafði þegar drukkið flösku og tjáð mig um innihaldið á gömlu gos-síðunni.  Nokkuð traustur rótarbjór, fullt bragð og keimur fínn. Þrjár stjörnur. Engu við það að bæta.

Jen sendi mér nokkrar flöskur úr Kutztown línunni og þar á meðal Kutztown Birch beer. Drykkirnir koma frá Kutztown í Pennsylvaniu (heimasíða) og ég hef þegar smakkað hinn ágæta rótarbjór frá merkinu. Drykkir sem heita Birch beer, root beer og sarsaparilla renna í mínum munni saman í eitt og þeir hjá Kutztown búa þetta allt til. Ég gæti ómögulega sagt hvað væri hvað ef drykkirnir væru bornir í mig í ómerktum glösum. Það er þó staðreynd að Kutztown birki bjórinn var þrumugóður, fullur, sætur og hreint út sagt kostadrykkur upp á fjórar stjörnur. Slef.

Kanadamenn eru nokkrir eftirbátar Ameríkana á gosdrykkjarsviðinu, en eru þó eitthvað að reyna. Í Ontario fylki er The Pop shoppe (heimasíða), sem byggir á gömlu merki og er með 10 tegundir drykkja. Heiða kom færandi hendi með The Pop Shoppe Cream Soda. Eins og með root beer/brich beer/sarsaparilla, þá eru cream soda (rjóma gos) fræðin ekki einföld (sjá wiki). Það eru sem sé til allskonar og mjög mismunandi drykkir sem þó heita allir cream soda. Ég er ekki sjóaðri í þessum fræðum en það að vita um í meginatriðum tvær tegundir cream soda: Þá amerísku, sem er dísæt með unaðslegu rjómabragði og oftast gullin á lit, og sá asísku sem er eiturgræn eða eiturrauð á lit (svona fæst stundum í asískubúðunum hér á landi á) og með dísætu en gervilegu ávaxtabragði. Kanadíski Pop Shoppe cream soda-ið er eldrautt og eiginlega mitt þarna á milli, bæði rjómaleg og ávaxtaleg. Alveg þokkalegur drykkur en ekki meira. Tvær stjörnur.

Þess má geta að cream soda hefur verið framleitt á Íslandi, bæði af Egils og hjá Sana á Akureyri. Þeir hjá Sana voru með Morgan Sparkling Cream Soda, sem ég á æskuminningu um: Ási bróðir minn gaf mér að smakka úr flösku, þetta var svo stórkostlegt bragð að ég hef ekki gleymt því síðan. Ég mundi eftir gyllta litnum og miðanum á flöskunni sem voru karlar með hatta. Fyrir nokkrum árum sá ég svona flösku á Iðnaðarsafninu á Akureyri:

Það hefur væntanlega verið lítill markaður fyrir þetta svo það fór sem fór.

Gleðileg jól!

24 Des


Það er allt reddí. Búið að skreita og troða pökkunum undir og Lucky charmsið er á sínum stað. Hvorki McIntoch né Nóa í ár heldur er búið að kaupa nokkra sekki af amerísku sælgæti í Kosti. Kóksósuhamborgarhryggur og rækjukokteill í kvöldmatinn. Er búinn að vista mig upp menningarlega. Keypti bókina A twist of Lennon e. Cynthiu í Bókinni (500 kr) og ætli ég verði mér ekki út um Hálendi Steinars Braga, sem er sirka sú skáldsaga úr jólabókaflóðinu sem mig langar mest að lesa í ár. Svo er Gullæði Chaplins og It’s a wonderful life (sem ég hef aldrei séð) á kantinum. Svona heldur maður upp á það að daginn er farið að lengja á ný. Gleðileg jól!

Óplöggað með Hellvar

15 Des
Föstudaginn 16.desember mun hljómsveitin Hellvar halda tvenna tónleika á Dillon við Laugaveg. Þar verður bryddað upp á þeirri nýbreiytni að spila tvenna tónleika sama kvöldið. Fyrri tónleikarnir verða órafmagnaðir og hefjast klukkan 21:30 . Síðan verður gert stutt hlé, en talið aftur í með rafmagnið á klukkan 22:30.
Ástæða þess að verið er að halda svona „double feature“ eða tvöfalda tónleika, er útkoma akkústísks geisladisks sem hljómsveitin réðst í að gera í nóvember. Sá diskur heitir Noise that stopped og inniheldur órafmagnaðar útgáfur af nýjasta geisladiski Hellvar , sem kom út í september og ber heitið Stop That Noise.
„Við vorum búin að vera að spila tvennar útgáfur af mörgum laga okkar í smá tíma, og var bara farið að langa til að eiga upptökur af lágstemmdu, órafmögnuðu útgáfunum,“ segir söngkona og gítarleikari Hellvar, Heiða Eiríksdóttir. „Stop That Noise var tekin upp hratt en svo nostrað við bæði útsetningar, mix og masteringu, þannig að allt hljómaði nú sem best. Noise that stopped er alveg hrá, beint af kúnni, en það er bara svo auðvelt að ná að taka upp stemmningu þegar hljóðfærin eru öll meira og minna órafmögnuð. Við erum mjög ánægð með þær andstæður sem við náðum að fanga með þessum tveimur geisladiskum, og það er það sem við vonumst til að sýna á Dillon föstudagsvöldið 16. desember.“Þess má geta að Elvar Sævarsson, gítarleikari Hellvar, lærði sérstaklega á Banjó til að nota á órafmögnuðu plötunni, og þess fá áhorfendur að njóta á Dillon. Ekkert kostar inn, en báðir geisladiskar sveitarinnar verða til sölu á sérstökum 16.desembers-afslætti.

Fjölmargar gæsahúðir

14 Des


Hljómsveitin Ég – Ímynd fíflsins
Hljómsveitin Ég (Róbert Örn Hjálmtýsson aðallega) gaf út fjórðu plötuna á dögunum, Ímynd fíflsins. Að vanda eru gagnrýnendur sammála: Snilld. Jafnvel meiri snilld en áður, því um er að ræða konseptplötu um heimsósóma og risastórar spurningar, samhangandi verk sem hangir saman á textaþemu og Spilverks/Bítla-poppinu sem Róbert spinnur úr eigin sarpi. Hljómsveitin Ég heldur útgáfutónleika í kvöld (miðvikud. 14/12) á Dillon sem byrja kl. 21. Það kostar þúsara inn. Veitingar í boði og fjölmörgum gæsahúðum lofað. Nánari upplýsingar fást hér

RVK! og Reptilicus!

10 Des

Reykjavík! halda tónleika í kvöld á Dillon:

 Reykjavík! -You Are a Sensitive Man and Your Feelings Are Easily Hurt

Hér er eitt lag af þrususkífunni Locust Sounds með Reykjavík!, sem er ein af bestu plötum ársins. Sérstakur leynigestur í laginu er mikilsvirtur sjónvarpsstöðvareigandi. Rvk! ætla að gera heiðarleg tilraun til að rústa DILLON með rokki og tilheyrandi brölti. Tónleikarnir hefjast kl. 22:20 og með Reykjavík! spila Ofvitarnir og Loji. Hljómsveitin hefur nú myndgert megahittarann Hellbound Heart og má sjá þá háloftasnilld hér.

Reptilicus – Initial Conditions

Hinir gömlu industrial-gránar í Reptilicus (hvar man ekki eftir Okkar heili er innsiglaður?) hafa snúið aftur og voru að spila á Gauknum í gær. Fyrsta útgáfan í 13 ár leit dagsins ljós í Toronto 18. nóvember: 7″ gagnsær, blár vínýll í takmörkuðu upplagi titlaður Initial Conditions – R öðru megin, og remix eftir hinn þýska raster-noton músíkant Senking á hinni hliðinni. Platan fæst í 12 tónum. Í ferðinni stakk bandið sér í tvo daga í hið sögufræga Grant Avenue Studio í Hamilton (helgistaður margra þekktra hluta), umkringt safni af analóg syntasafngripum og tók upp fleiri klikkustundir af efni.

Um þetta má m.a. lesa á eftir farandi þráðum:
Frétt á Raftónum um heimsókn R í Grant Avenue Studio:
http://www.raftonar.is/reptilicus-og-grant-avenue-studio/

Frétt á Raftónum um útgáfu 7″ Intitial Conditions:
http://www.raftonar.is/reptilicus-initial-conditions/