Sarpur | október, 2013

Airwaves fitubrennslan 2013

27 Okt

Það er ekki seinna vænna að kynna sér daxrána á Airwaves 2013 því eyrnaorgían hefst á miðvikudaginn. Að vanda eru þrjú þúsund hörkuspennandi atriði í boði og að fish called vanda er nú hér á blogginu  boðið upp á Airwaves fitubrennslu mix þar sem þér gefst Kostur (Dalvegi) að kynna þér brot af því besta og brenna spiki um leið. Reyndar var dáldið erfitt að gera þetta mix núna því það virðist í tísku að spila hæga og máttleysislega tónlist sem erfitt er að brenna spiki við.  Þetta hófst þó að lokum:
airwaves-fitubrennslan-2013
Airwaves-fitubrennsla-2013 <– Þú hleður þessu inn á spilarann/símann þinn og notar þetta svo á bretti, göngustíg, o.s.frv og reynir að láta takt lagsins ráða hreyfingunni. Góða fitubrennslu! 

AIRWAVES FITUBRENNSLAN 2013

Gold Panda – You
AlunaGeorge – Attracting Flies
Jagwar Ma – Come Save Me
We are wolves – As the Moon Sets
Kött Grá pjé – Aheybaró
Goat – Run to your mama
Strigaskór nr. 42 – Armadillo
Savages – City’s full
Caveman – In the City
On and on – Ghosts
Sindri Eldon & The Ways – America
Metz – Headache
Grísalappalísa – Kraut í g
The Balconies – Kill Count
Fucked Up – Queen Of Hearts
Omar Souleyman – Weli Weli
Kraftwerk – Dentaku
Nolem feat. Class B – Brot
Moon King – Only Child
Yo La Tengo – nothing to hide
Shiny Darkly – You Feel Like You Should
Snorri Helgason – Summer Is Almost Gone
Eldar – Sólskin

Besta videó ársins!

26 Okt


Hér er klikkað flott viddjó við titillag plötunnar Glamúr í geimnum með Dj. Geimskip og flugvélar. Hér er vönduð fréttatilkynning: Tónlistarkonan Steinunn Harðardóttir hefur stofnað nýja tónlistar-útgáfu til að gefa út geisladisk sem dj. flugvél og geimskip. Nýja útgáfan heitir Eldflaug Records og hefur á stefnuskrá sinni að gefa einungis út tónlist til heiðurs geimferðum. Nýji geisladiskurinn heitir GLAMÚR Í GEIMNUM og útgáfa hans er í tilefni af komu halastjörnunnar ISON sem verður einhver sú stórkostlegasta sem menn hafa séð.
Tónlistin er drauma-raftónlist. Lögin fjalla um óravíddir geimsins og furður alheimsins. Nýtt tónlistarmynband var einnig að koma út á youtube. Myndbandið er við titillag plötunnar; Glamúr í geimnum, það gerist í geimfari og var tvo mánuði í framleiðslu. Myndbandið er ódýrasta tónlistarmyndband sem gefið hefur verið út á Íslandi og er fullt af flóknum tæknibrellum. dj.flugvél og geimskip bjó til myndbandið sjálf rétt eins og tónlistina á plötunni. Dj. flugvél og geimskip tekur bara upp tónlist á fullu tungli og það tók því tvö ár að ljúka við geisladiskinn.
Þess má svo geta að Steinunn og Haukur í Morðingjunum syngja dúett í einu laginu á Alheiminum! Það heitir Besti vinur minn er geimvera og er mesta pönk sem hefur komið út á (barna)plötu.

Stór dagur hjá 12 tónum

25 Okt

2013-10-25 12.51.08
Hér er Jói í 12 tónum með fyrstu vinýlplötuna sem fyrirtækið gefur út. Þetta er algjört vanity item, tvöföld plata með Samaris, sem inniheldur fyrri útgáfur sveitarinnar, EP plöturnar Hljóma þú og Stofnar falla ásamt nýjum endurhljóðblöndunum. Eins og sést er önnur platan bleik, hin græn. Ný plata Samaris með glænýju efni kemur svo út snemma 2014. Svona hljómar Samaris:

Kjúklingabringan í ESB

19 Okt

2013-10-19 17.21.34
Undir 1000 kall kílóið! Er þetta ekki næg ástæða til að ganga í ESB!?

2013-10-19 17.24.55
Og osturinn er álíka hagstæður. Ég er svo mikill plebbi og finnst gaman að gaman ad vafra um matvörubúðir erlendis, týnast í sturluðu úrvaldinu og slefa yfir verðinu. Eitt skil ég ekki, í nánast hverri einustu matvörubúö hérna á Spáni er svona svaka fiskframboð á sliguðum hlaðborðum, á meðan útgerðarþjóðin mikla á Íslandi getur ekki einu sinni boðið upp á svona í fiskibúðum. Hvernig ætli standi á þessu?
2013-10-19 14.57.54

Snarl 2

14 Okt

snarl2

Áfram heldur stafræn endurútgáfa af afurðum Erðanúmúsíkur. Nú er komið að safnkassettunni Snarl 2 – Veröldin er veimiltíta þar sem 15 atriði komu fram með 2 lög hvert. Fyrsta Snarl-spólan hafði gengið vel svo það var um að gera að koma með aðra spólu. Ég man náttúrlega mest lítið um þessi bönd öll en þó þetta:

* Sogblettir eru þekkt stærð og pönkast hér hresst.
* E-X spiluðu gáfumannarokk í anda R.E.M. Innanborðs voru m.a. Pétur Hallgrímsson og Davíð Magnússon. Hljómsveitin kallaði sig fyrst Professor X og lét framleiða smáskífu í Svíþjóð sem kom aldrei til landsins og er því líklega týndasta plata Íslandssögunnar.
* 16 Eyrnahlífabúðir. Reykjavíkurband held ég.
* Daisy Hill Puppy Farm með tvö lög í viðbót úr upprunalegu Jói, Stebbi, Óli-útgáfunni.
* Yesminis Pestis. Annað Rvk-band.
* Óþekkt andlit frá Akranesi. Orri Harðar, Pétur Heiðar o. fl.
* Múzzólíni. Unghressir að vanda.
* Sykurmolarnir voru funheitir þegar þetta var og í samningaviðræðum. Hitti Einar Örn í miðbænum og hann sagði að ég mætti nota þessar tvær læftökur (Káboj og Veik í leikföng) ef ég breytti nöfnunum í Mykjan og Skalli. Eitthvað samningsatriði.
* Blátt áfram innihélt hálfsystur Bjarkar, Ingu, sem var vitanlega stórt sellingpoint erlendis. Því miður kom ekkert meira frá þessu ágæta eitís-indie popp bandi.
* Bleiku bastarnir í hressum fíling.
* Qtzjí Qtzjí Qtzjí komu frá Keflavík og áttu rætur í sveitinni Vébandið.
* Balli og Blómálfarnir frá Reykjavík í miklum bílskúrsgír.
* Gult að innan frá Ísafirði.
* Mosi frændi níðist á Bubba. Mig minnir jafnvel að það hafi þótt „ferskt“ 1987.
* S. H. Draumur með átteiks. Glæpur gegn ríkinu var tekið upp á sama tímu og Helmút á mótorhjóli (Drap mann með skóflu-útgáfan) í Stúdíó Stöðinni með Axel Einarssyni. Ég man ekki margt en man þó að honum fannst bandið ekki ósvipað Icecross sem hann hafði verið í 1972-73. Á þessum tíma vissi ég ekkert hvað Icecross var svo ég tók þessu lofi með fálæti.

Viðtökurnar voru fínar, sérstaklega eftir að sjálft Rolling Stone skrifaði um spóluna í sambandi við forsíðugrein um Sykurmolana. Fólk var að panta þetta erlendis frá. Einn af þeim sem skrifaði og vildi frítt eintak var Kim Fowley, sem ég vissi náttúrlega ekkert hver var á þessum á tima heldur. Held ég hafi samt sent honum eintak.

Hér er Snarl 2 – Veröldin er veimiltíta í allri sinni bjöguðu dýrð.

Og hér er svo fyrsta Snarl kassettan.

Enskt pönk og ska á Gauknum

14 Okt

Laugardaginn 26. október verða haldnir tónleikar á Gamla Gauknum. Þar koma fram sveitirnar The Activators, Kill Pretty, Caterpillarmen, Fivebellies og Dýrðin. Tvær þær fyrsttöldu koma frá Englandi og ættu áhugamenn um ska og punk ekki að missa af þessum viðburði.


The Activators eru 10 manna sveit sem kemur frá Lincoln. Sveitin hét áður The Validators og heimsótti reyndar Ísland fyrir 2 árum og spilaði við góðar undirtektir á Faktory. Síðar mátti hún skipta um nafn af ástæðum sem ekki verður farið út í hér. Sveitarmeðlimir nutu Íslandsferðarinnar svo að strax var farið að ræða endurkomu sem nú er orðin að veruleika. Tónlist The Activators er bráðskemmtileg blanda fjölmargra stílbrigða þó svo ska stíllinn sé ef til vill mest áberandi. Sveitin hefur spilað á fjölmörgum tónlistarhátíðum í heimalandinu, sem og á smærri stöðum, og ávallt fengið góðar viðtökur enda kröftug og þétt. Það má líka ávallt búast við einhverju óvæntu og skemmtilegu á tónleikum The Activators.


Kill Pretty er frá Salford í Manchester. Þeir spila hrátt rokk og svífur andi pönksins yfir. Meðlimir eru vel sjóaðir og skila sínu fantavel á tónleikum. Sveitin hefur vakið töluverða athygli að undanförnu, ekki síst fyrir smáskífu sína sem inniheldur lögin Rob A Bank og Raining Blood. Kill Pretty er nýkomin úr hljóðveri og næsta plata er væntanleg snemma árs 2014. Salford sándið hjá Kill Pretty leynir sér ekki en þaðan hafa komið margir merkilegir tónlistarmenn. Nægir að nefna John Cooper Clarke, Peter Hook, Shaun Ryder og síðast en ekki síst Mark E. Smith. Trommari Kill Pretty lék einmitt með The Fall á upphafsárum þeirrar sveitar. Það er óhætt að mæla með Kill Pretty, og segja má að hún sé sérlega vænlegur kostur fyrir aðdáendur sveita á borð við The Fall og Captain Beefheart.

Íslensku sveitirnar CaterpillarmenFivebellies og Dýrðin koma einnig fram á tónleikunum.

Tónleikarnir hefjast upp úr kl. 22:00 og kostar 1500 kr inn.

Hér er viðburðarsíðan á Facebook.

Þrjú flott gos

10 Okt

luscombe
Ég datt niður á LUSCOMBE COOL GINGER BEER í Melabúðinni. Þetta er enskt engifergos, blandað sítrónu frá Sikiley (segja þeir) og sykrað með reyrsykri. Alveg fínt, en ekki alveg laust við sápubragð. Ég bind vonir við HOT útgáfuna sem þeir framleiða en ég hef reyndar ekki séð í Melabúðinni ennþá. Þrjár stjörnur!tassoniwahahakvass
Kvass er austantjaldsdrykkur, sem maður fær stundum í pólsku búðunum hér. Þetta er nokkurs konar Malt, bara miklu verra – ég hef eiginlega aldrei fengið almennilegt kvass. Hjalli frændi kom með kínverskt kvass, sem er vægast sagt frábrugðið því pólska. Það heitir WAHAHA KVASS og er dísætt. Bragðið er   2/10 malt, 2/10 Sprite og 6/10 ananasdjús. Ég kom nú alveg flöskunni í mig, en ekki var það nú æðislegt – alveg 2 stjörnur samt!

Heiða færði mér TASSONI CEDRATA, ítalskt gos sem hún keypti í Berlín. Þetta er ekki nema 18 cl og kemur í rosa töff rifflaðri flösku, sem ég er búinn að vaska upp og mun eflaust nota undir smáblóm. Ekki skemmir fyrir að þetta er rosa fínt á bragðið, einhvers staðar á milli sprite og cream soda, dísætt og ljúffengt. Fjórar stjörnur!

Nýtt íslenskt!

10 Okt


Drangar er stórskotalið með Mugison, Jónasi Sig og Ómari Guðjóns. Bál er fyrsta lagið og lofar góðu, smá kafli þarna sem minnir á Hurdy Gurdy Man með Donovan (og Butthole Surfers). Platan á leiðinni.


Nykur er annað stórskotalið: Davíð Þór Hlinason (Dos Pilas) söngur og gítar, Guðmundur Jónsson (Sálin hans Jóns míns) gítar, Birgir Jónsson (Dimma) trommur og Jón Ómar Erlingsson (Sóldögg) á bassa. Nykur heitir platan og er komin út.


Lengi er von á einum: Strigaskór nr. 42 éru komnir með nýja plötu (Armadillo). Svaka fínt tilraunaþungarokk. 


Er allt að verða vitlaust? Barði í Bang gang lítur nú út eins og Dr. House og hann og annar kallinn úr Air eru saman Starwalker.  Engin plata enn, en bandið vinnur að stuttskífu.


See You In the Afterglow er fjórða plata Leaves og alveg að fara að koma út.

Brjálað stuðlag!

7 Okt

Brjálað stuðlag heitir nýtt lag sem í dag er sett í spilun af væntanlegri (barna)plötu Dr. Gunna og vina hans, Alheimurinn! Lagið kemur í kjölfar lagsins Glaðasti hundur í heimi með Friðriki Dór, en það lag hefur verið gríðarlega vinsælt í sumar og haust.

Saga Brjálaðs stuðlags er frekar furðuleg. Hún hefst á því að ég mætti Gylfa Ægissyni í móttöku RÚV í vor. Ég var að fara út, Gylfi að koma inn. Á þessum tíma vantaði enn eitt gott lag á plötuna. Það eitt að sjá Gylfa kveikti svo ærlega upp í lagahöfundar-ofninum í mér að ég samdi útlínur lagsins í bílnum á leiðinni frá RÚV í World Class í Laugum. Í laginu hittir Gylfi (í eigin persónu) Fýlustrákinn, en Fýlustrákurinn var sem kunnugt er á fyrri (barna)plötu Dr. Gunna og vina hans, Abbababb! sem kom út 1997. Þar söng Fýlustrákurinn á móti Rúnari heitnum  Júl (sem var Hr. Rokk), en nú var sem sé komið að Gylfa að reyna að hressa Fýlustrákinn við.

Þegar ég hafði fullsamið lagið var það tekið upp í Geimsteini í Keflavík þar sem platan Alheimurinn! var tekin upp í sumar og haust. Að sjálfssögðu kom Gylfi sjálfur og söng á móti Fýlustráknum. Á þessum tíma var viðlag lagsins svona: „Ég heiti Gylfi Ægisson, ég er í stuði lon og don“. Auk Gylfa söng Jakob Frímann Magnússon og spilaði hljómborðs-sóló í laginu, Bjartmar Guðlaugssyni var gripinn glóðvolgur í Geimsteini og látinn tala fyrir sögumanninn í laginu og Mugison var heimsóttur í Súðavík og látinn syngja sinn part.

Þetta var með öðrum orðum orðið rándýrt lag.

Skömmu síðar uppgötvaði Gylfi Ægisson internetið og fór í „hommastríð“. Er óhætt að segja að útgáfa Brjálaðs stuðlags sem næsta lag í spilun á eftir Glaðasta hundinum hafi komist í talsvert uppnám og staðan orðið verri og verri með hverjum bardaga Gylfa í „hommastríðinu“. Textinn var jú „Ég heiti Gylfi Ægisson, ég er í stuði lon og don“ og gúddvill þjóðfélagsins í garð Gylfa í lágmarki. Mér finnst Gylfa reyndar frábær sama hvað hver segir (fyrir utan „hommastríðið“ sem ég játa að ég skil bara ekkert í), en svona stríðsmaður er bara einum of vafasamt dæmi til að hægt sé að bera það á borð fyrir æsku landsins. Það ber vott um jákvæða siðferðisafstöðu þjóðarinnar að miklu betra hefði verið fyrir lagið ef Gylfi hefði komið út úr skápnum.

Nú voru góð ráð dýr en lausnin þó skammt undan. Með fullu samþykki Gylfa – sem enn er í „hommastríði“ og finnst allt húllumhæið í kringum lagið sprenghlægilegt – var Sólmundur Hólm, eftirherma og ævisagnaritari Gylfa sjanghæaður um borð og látinn syngja yfir það sem Gylfi var búinn að syngja. Allt var eins nema að viðlagið var nú orðið: „Ég heiti Villi Stuðmundsson, ég er í stuði lon og don…“

Þannig kemur lagið út í dag og á Alheiminum! eftir 2-3 vikur.

BRJÁLAÐ STUÐLAG
Nei, situr ekki Fýlustrákurinn í strætóskýlinu og er auðvitað grautfúll. Þegar hann sér karl með kaskeiti koma labbandi fer hann strax að kvarta og kveina:

Ég vild ég væri forríkur
og ætti kagga, höll og tvær snekkjur.

 Svona svona ræfillinn
hertu upp hugann, elsku kallinn minn.

 Ég segi það satt, ég hef það skítt
mig vantar peninga og vil fá þá frítt. 

Uss, það er sumar og úti heitt
og blómin og sólin kosta ekki neitt.

Ég heiti Villi Stuðmundsson
ég er í stuði lon og don
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag! 

Ég heiti Villi Stuðmundsson
og þetta er Mugison – Halló!
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag!

Gjörsamlega, algjörlega, meiriháttar brjálað stuðlag!

 Já, en Fýlustráknum fannst lítið til koma og hélt áfram að kvarta og kveina:

 Mér finnst sólin vera leiðinleg
og allir hafaða miklu betra en ég. 

Hva, voðalega ertu súr
viltu ekki skreppa og fara í göngutúr?

Hva, ertu alveg snarklikkó?
Sérðu ekki að ég er að bíða eftir strætó! 

Nú er nema von þú sér gugginn og grár 
Hér hefur enginn strætó komið í sautján ár! 

Ég heiti Villi Stuðmundsson
og ég heiti Mugison.
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag! 

Ég heiti Villi Stuðmundsson
Og ég heiti Mugison
og ég heiti Jakob Frímann Magnússon…
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag!

Gjörsamlega, algjörlega, meiriháttar, gasalega
dúndurfjörugt, hrikalega, svakalega brjálað stuðlag! 

SÓLÓ!

Við heitum Villi, Son og Kobb.
Stuð og fjör er okkar djobb.
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag! 

Við heitum Villi, Son og Kobb
Stuð og fjör er okkar djobb.
Hér er gleði og gaman
og við syngjum saman
brjálað stuðlag!

Gjörsamlega, algjörlega, meiriháttar, gasalega
dúndurfjörugt, hrikalega, svakalega, rosalega,
ægilega, þægilega, tryllingslega, villingslega,
gebbað kúl og einfaldlega algjörlega brjálað stuðlag!

Alheimurinn! nálgast

6 Okt

alheimurinnjpg500
Þá fer að styttast í útgáfu (barna)plötunnar ALHEIMURINN!  Ætli það séu ekki svona 2-3 vikur í hana. Þetta er vægast sagt rosalega nett plata með 14 lögum. Þau heita:

1. Alheimurinn!
2. Glaðasti hundur í heimi
3. Sófinn gleypi mömmu og pabba
4. Krummi á staur
5. Brjálað stuðlag 
6. Gubbuhesturinn
7. Ræ ræ ræ
8. Besti vinur minn er geimvera
9. Boltinn minn
10. Ég elska flugur
11. Gluggaveður
12. Frekjudósin
13. Tærnar
14. Ljúfsárt lokalag 

Á morgun verður næsta lag sett „í spilun“ í kjölfar Glaðasta hunds í heimi, sem hefur verið sjúklega vinsælt í sumar. Lagið heitir BRJÁLAÐ STUÐLAG.

Sjáumst á morgun!

(Rán Flygenring gerði umslagið og annað sem tengist plötunni)