Sarpur | júlí, 2013

Besti ís á Íslandi

17 Júl

Mikið Valdísar-æði hefur gripið um sig í sumar þrátt fyrir rað-rigninguna – eða kannski vegna hennar: F’ólk er að bæta sér sólarleysið með ísáti. Á öllum tímum (ísbúðin er opin á milli 11:30-23:30 út á Granda beint á móti Sjóminjasafninu) er bókstaflega röð út úr dyrum. Þó hefur verið tekið upp númerakerfi. Við vorum númer 07 í gærkvöldi en það var númer 60 þegar við komum. Þessi 46 á undan okkur voru ekki nema svona 20 mínútur að fá sinn ís og okkur bar öllum saman um að biðin hafi verið þess virði þegar við loksins réðumst á ljúffengan Vald-ísinn okkar. Ég man ekki eftir annarri eins velgengni, allavega ekki í ís-bransanum. Maður hálfvorkennir öðrum ísbúðum sem standa tómar á meðan brjálæðið skellur á Valdísi. Þegar fólk vandar sig uppsker það greinilega eins og til er sáð. Valdís er skínandi dæmi um það, enda hrottalega fínn ís í boði – sá langsamlega besti á stór-Reykjavíkursvæðinu.

2013-07-10 14.31.27
Fara þarf til Akureyrar til að finna sama íslega háklassann. Mörgum finnst Brynju-ísinn of mikið vatns-sull, en ekki mér. Ég get hesthúsað heilu gámunum án teljandi vandræða, enda æðisgenginn ís, Brynjuísinn.

_7s1a7ptliE4c3VPWj7CAU3-zBZk0R1yP8RgRKQ4jho
Ekki skemmir fyrir að við hliðina er hin skemmtilega forngripabúð Fröken Blómfríður. Þar fann ég tvær spennandi poppminjar, sjötommuna með Skapta og Konna og stílabók með Flowers framan á. Sigurjón Sighvatsson vantar á Flowers-myndina svo ég sleppti stílabókinni, enda einum of dýr á 2.300 kr (samt ekkert dýr náttúrlega). Skapti og Konni eru komnir í hús á kr. 2.500, enda ekki til á Spotify. Ilmandi mp3 hér að neðan.

2013-07-10 13.58.17
Ekki er hægt að heimsækja Akureyri án þess að keyra inn í Eyjafjörðinn í Jólagarðinn (nú er kominn rosa fínn Eplakofi á lóðina sem selur nammiepli og framúrstefnulegar vöflur) og svo Holtsel þar sem fæst besti ís á Íslandi, sjálfur Skyrís með íslenskum bláberjum. Hægt er að lækna skæðasta þunglyndi með dollu af þessum ís (sölustaðir). Ath fyrirvari: Ekki er tekin ábyrgð á virkni íssins við þungyndi.

Einnig má lækna ýmsa kvilla með Konna og Skafta, sjö tommu sem HSH gaf út 1959. Konni hafði þá þegar gefið út a.m.k. tvær plötur með Alfreð Clausen.

konni og skafti
Konni og Skapti – Í sveitinni
Konni og Skapti – Konni flautar

Hvíl í friði Jóhann G.

16 Júl


Jóhann G. Jóhannsson – Jói G – er látinn. Hann varð 66 ára. Jóhann var alltaf frábær í viðkynningu og tók manni alltaf sem jafningja. Þannig man ég eftir honum allar götur síðan 1982 þegar hann stóð fyrir fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar og Svart hvítur draumur spilaði á fyrsta kvöldinu. Á svipuðum tíma var hann með plötubúð á Lækjartorgi þar sem maður kom stundum.

Undir það síðasta var hann með aðstöðu út á Granda þar sem ég heimsótti hann nokkrum sinnum. Í eitt skiptið til að taka viðtal við hann og Gunnar Þórðar. Þetta var í desember 2009 og þeir voru báðir að gefa út nýjar sólóplötur, höfðingjarnir. Í annað skipti keypti ég af honum Sun-útgáfuna af Óðmanna albúminu. Ég man að hann hrósaði kótilettunum í Melabúðinni í hástert.

Jóhann skilur eftir sig magnaðan lagabálk. Frábært er Óðmanna-stöffið frá 1970, sólóplöturnar og öll lögin sem hann gerði fyrir aðra. Hér að ofan er Spilltur heimur. Jóhann talaði í lausnum og því kom Betri heimur út á tvöföldu Óðmanna-plötu síðar sama ár. Hvíl í friði Jóhann G.

Besta íslenska músíkin 2013 2/3

9 Júl

best13-2w

Í kauphöll poppsins er allt að verða vitlaust nú sem endranær, enda góðæri, uppgrip og vertíð. Þegar línuritin sleikja loftið er gott að tappa af í gott mix á mix-síðunni 8tracks. Þar hef ég mixað ýmis mix, enda gaman að mixa. Glænýjasta mixið er það besta af nýrri íslenskri músík 2013, 2. hluti af samtals 3. Síðasta mix kemur í desember, en það fyrsta er þetta hér. Í nýjasta mixinu, mixi númer tvö, er bara kúl stöff frá gasalega töff aðilum eins og sörf-hljómsveitinni Bárujárni, sem var að gefa út plötuna I (hjarta) Bárujárn og 20 aðilum í viðbót. Þetta hér er beintenging í gúmmilaðið en svo má bara smella á myndina hér að ofan.

Grísalappalísa komin

8 Júl

artwork1_limmidar_bak_og_fyrir
Grísalappalísa – Hver er ég?
ALI með Grísalappalísu er komin út, en Grísalappalísa er sem kunnugt er ein mest spennandi hljómsveit landsins um þessar mundir. Þarna eru sjö lög:
Kraut í g 5:51
Allt má (má út) 6:04
Lóan er komin 3:53
Fjallkirkjan 9:43
Brost’ ekki of bjart 3:39
Hver er ég 1:52
Skrítin birta 4:39

Stykkorð: Grísalappalísa, íslenskir textar, Ali, pönk & kraut
UM HLJÓMSVEITINA:
Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af þeim Gunnari Ragnarssyni (áður: forsöngvari hljómsveitarinnar Jakobínurínu, sem vann Músíktilraunir árið 2005 og gaf út breiðskífuna, The First Crusade, árið 2007 undir merkjum 12 Tóna og plöturisans EMI í Bretlandi) og góðvini hans Baldri Baldurssyni, en félagarnir syngja og semja báðir texta sveitarinnar. Gunnar og Baldur hópuðu saman tónlistarmönnum úr vinahópi sínum, en allir eru þeir rótfastir í grasrót íslensk tónlistarlífs. Það eru þeir Bergur Thomas Anderson & Rúnar Örn Marínóson (Oyama), Tumi Árnason & Albert Finnbogason (The Heavy Experience) og Sigurður Möller Sívertsen (Jakobínarína). Hugmyndin við stofnun sveitarinnar var að blanda saman hnífbeittum íslenskum textum sem sækja innblástur í íslenska bókmenntahefð og minni úr rokksögunni við hráan og frjálslegan rokkkokteill hljóðfæraleikarana. Upp úr þessari hugmynd varð til breiðskífan ALI sem kemur í helstu plötuverslanir landsins miðvikudaginn 10 júlí undir merkjum 12 Tóna. Platan var hljóðrituð seinni hluta árs 2012 af Alberti Finnbogasyni en hljóðblönduð (af Alberti) og hljómjöfnuð (af Finni Hákonarsyni í Finnlandi) á fyrsta ársfjórðungi ársins 2013.

Það má kalla ALI svokallaða þemaplötu (e. concept-album) þar sem textalegur þráður milli laganna er mjög sterkur; platan er nokkurs konar rússíbanaferð þar sem hlustandi fylgir örvæntingafullum og svolítið hættulegum sögumönnum í dimm húsaskot borgarinnar í leit að tilgangi, ástinni og fyrst og fremst LÍSU sem þeir ákalla í hvívetna á leið sinni. Sveitin gaf landsmönnum forsmekk af plötunni nú á vordögum með laginu Lóan er komin sem vakti mikla athygli í netheimum og hlaut þónokkra spilun á Rás 2 og X-inu 977. Samhliða plötunni gefur sveitin úr fyrsta tónlistarmyndbandið sitt við lagið „Hver er ég?“ sem þykir líklegt til vinsælda á útvarpsstöðvum landsins. Í myndbandinu er öllu til tjaldað og einkenni Grísalappalísu samþjappaðar í blóðheitar tvær mínútur. Gerð myndbandsins, líkt og upptökur á ALI, önnuðust meðlimir hljómsveitarinnar sjálfir og er því leikstýrt af trommara sveitarinnar, Sigurði Möller Sívertsen, sem nýverið lauk kvikmyndanámi við FAMU í Prag. Grísalappalísa temur sér starfsreglur pönksins, að gera hlutina sjálfur á frumlegan og beinskeittan hátt í þeim tilgangi að fá íslenska þjóð til að íhuga veruleika sinn og brosa kannski aðeins í leiðinni. Á útgáfudegi ALI, miðvikudaginn 10. júlí, munu Grísalappalísa og 12 Tónar efna til hátíðar á Kex Hostel kl. 20 þar sem tónlistarmyndbandið við „Hver er ég?“ verður frumsýnt og boðið upp á veigar og skemmtiatriði til þess fagna útgáfu plötunnar.

Mynd

Tillaga að lausn

8 Júl

vedr
Tja, eða:

vedr2

10 leiðir til að lifa daginn af

6 Júl

Ég reyni að gera helst bara það sem hefur eitthvað upp á sig. Til dæmis nenni ég ekki að kvarta yfir þessu hundleiðinlega veðri í sumar af því það breytist ekki neitt þótt ég kvarti yfir því. Sama með spillingarmál eins og það sem Gamli Góði og Séra Bleia eru sokknir í eða stjórnmálin. Þetta er það sem fólkið kaus. Alveg eins og hrunið var „fólkinu í landinu“ að kenna (af því það kaus alltaf eins og asnar) þá er ástandið núna „fólkinu í landinu“ að kenna. Ég hreinlega nenni ekki að æsa mig yfir því sem ekkert hefur upp á sig nema einhvern pirring. Sumu fólki finnst gaman að vera pirrað og ok, fínt. Ekki að ég sé fylgjandi algjöru fljótandi að feigðarósi dæmi, ég nenni bara ekki að vera í sífelldum pirringi út af því sem breytist ekki neitt þótt ég sé pirraður yfir því.

En allavega. Enn einn rigningardagurinn (ekkert pirr!). Ég lagði á stað í langa hjólareisu en snéri strax við, hjólaði út í Hagkaup og keypti mér matvinnslurjóma. Bestur í kaffi (Starbucks House blend þessi í grænu pokunum frá Kosti, lang besta stöffið). Þetta er bara svona dagur, eitthvað helvíti gott flatmag og kósí og dandal í bænum (þar er nóg að ske: T.d. eru Steinn og Trausti að selja tónlistarstöff í Kolaportinu, Flóamarkaður númer 2 er í Bíóparadís, er svo ekki eitthvað matarmarkaðsdæmi á Lækjartorgi, sirkus í bænum og allskonar stuð).

Vilji maður ekki fara út úr húsi, eru hér 10 leiðir til að lifa daginn af:

Hlusta á glænýtt viðtal Marc Marons við Nick Cave. (Skemmtilegt viðtal þótt Marc sé dálítið vitlaus)

Hlusta á bestu útvarpsstöð í heimi (læf eða af lager)

Hlusta á íslenska veðurfréttakonu prumpa í beinni (klassík)

Horfa á Oil City Confidential, skemmtilega heimildarmynd um Dr. Feelgood (e. Julian Temple)

Horfa á Buddy Holly í mjög góðu stuði hjá Ed Sullivan (sem var leiðindagaur)

Horfa á teiknimyndina The Murry Wilson Show (um pabba Beach Boys (og Lennons og Jacksons) – í 4 hlutum!)

Lesa um mann sem fann sér eitthvað  fáránlegt að gera (eða er það kannski ekkert fáránlegra en hvað annað?)

Horfa á heimildamynd um Stiff Records (heimili Madness, Elvis Costello etc – í nokkrum hlutum)

Skoða frekar krípí myndir af barna/fullorðinstenntum hauskúpum (ég sagði að þetta væri krípí)

Hlusta á ótrúlegt magn af pönki og nýbylgju sungnu af kvenfólki (frá öllum heiminum!)

Já, eða bara hanga á Facebook í allan dag.

Ok bæ.

Gaman í Rvk

5 Júl

gG4CqcEzfVlvjCqALs3ZF0Q9HwTgbRoLPXX5Nk63c-Y
Finnski sirkusinn Pluto Crazy var þrumugóður í gærkvöldi og stappað tjald glápti stjarft á snilldina og óaði og æaði þegar stelpan sveif í loftinu eða skeggjaða konan sérist um á risastórri gjörð. Nú heldur sirkus-stuðið áfram til 14. júlí. Sumir klóra sér í hausnum yfir miklu framboðinu en þetta var allt saman brotið niður í góðum þætti Margrétar Erlu Maack á Rúv í gærkvöldi. Til dæmis eru það Kallo trúðarnir, vilji fólk trúðagrín, Bastard fyrir smákrakka og upp úr, fakírasirkusinn Pain Solution , fötugrínið Betti Combo og Burnt out Punks sem verða með ókeypis sjó á sirkus-svæðinu kl. 23 í kvöld og annað kvöld.

tonlistarsalatjss
Steinn og Trausti taka dótið sitt í Kolaportið á morgun. Kostakaup þar í uppsiglingu ef ég þekki þá rétt.


Bandaríska alt-kántrí poppsveitin Lambchop mætir á skerið um helgina. Aðalgiggið er í Iðnó á sunnudagskvöldið (Lay Low spilar líka þar), en Lambchop spilar líka á Köntrí festivali á KEX Hostel laugardagskvöldið 6. júlí kl. 21 (ókeypis inn!)

Lambchop kemur frá Nashville í Tennessee fylki Bandaríkjanna og hafa verið starfandi í um 20 ár. Hljómsveitin er leidd af lagahöfundinum og gítarleikaranum Kurt Wagner og hefur hún gefið út 11 breiðskífur og fjöldan allan af stuttskífum og tónleikaplötum. Síðasta breiðskífa þeirra, Mr. M, kom út á síðasta ári og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda víða um heim. Tónlist Lambchop hefur verið lauslega skilgreind sem jaðarkántrí enda sækir þeir fast í hefðir heimafylkis síns.

Glaðasti hundur í heimi

4 Júl


Jösssssööörrrr!!! Gríðarlega metnaðarfullt myndband hér á ferð, sem ég bjó til sjálfur með teikningum frá Rán Flygenring. Hugsanlega verður næsta myndband jafnvel enn metnaðarfyllra.

Glaðasti hundur í heimi er fyrsta lagið sem fer í spilun af (barna)plötunni ALHEIMURINN! með Dr. Gunna og vinum hans. Glaðasti hundur í heimi er sungið af Friðriki Dór og er sumarsleiktur dúndurslagari um hund sem fer sínar eigin leiðir, enda er hann glaðasti hundur í heimi.

ALHEIMURINN! „fylgir eftir“ (barna)plötunni ABBABABB! sem kom út 1997.

Geimsteinn í Keflavík gefur út ALHEIMINN! í október 2013. Upptökur fara nú fram í Geimsteini þar sem andi Hr. Rokks, Rúnars Júlíussonar, svífur yfir vötnum. Barnabarn Rúnars, Björgvin Ívar Baldursson, tekur plötuna upp og Baldur Guðmundsson, pabbi Björgvins og sonur Rúnars, spilar á hljómborð á plötuna. Þá er María Baldurs aldrei langt undan með ráð og hvatningu. Hún býr sko á efri hæðinni.

Auk Dr. Gunna er Heiða Eiríks mikilvirk á ALHEIMINUM! Hún semur lög og texta með Gunna og syngur, eins og Gunni. Gítarleikarinn Elvar Sævarsson (kærasti Heiðu) er í Dr. Gunna og vinum hans, auk Kristjáni Frey Halldórssyni, trommuleikara. Fjöldi mikilsvirtra gesta kemur fram á ALHEIMINUM! Gestalistinn opinberast smátt og smátt. Til dæmis má greina frá kórnum sem tekur undir í laginu Glaðasti hundur í heimi. Þar heyrist í: Jóhanni Helgasyni, Heiðu, Steinunni Harðardóttur, Fríðu í Klassart, Erni Eldjárn, Smára klára og hugsanlega einhverjum fleirum.

Dagurinn fer í plögg (m.a. í Virkum morgnum á Rás 2 kl. 11:10). Glaðasti hundur í heimi kom í blöðin í dag:

gladasti-monitor

gladasti-fbl

Sirkusinn kemur!

3 Júl

en5Y6froPWLZnoDwiOHg7RyQJzFpWU8J3iTv5nBEuPA
Á morgun fer fyrsta lagið í spilun af (barna)plötunni ALEIMURINN! (með Dr. Gunna og vinum hans – útg: október). Lagið heitir Glaðasti hundur í heimi og verður kynnt á morgun.

Fyrir algjöra tilviljun byrjar líka sirkus í Vatnsmýrinni (hjá Norræna húsinu) á morgun. Ekki bara einn sirkus heldur heilt sirkus-þorp með mörgum sirkusum og sýningum – VOLCANO Sirkushátíð í Reykjavík hvorki meira né minna. Ég á ekki von á öðru en að ég verði gjörsamlega sirkusaður á því til 14. júlí þegar þetta er búið. Boðið er upp á allskonar sýningar, eða eins og segir á facebooksíðunni Sumarið 2013 rís upp stórfenglegt sirkusþorp í Vatnsmýrinni. Þar verða 6 sirkustjöld, urmull af sýningum, töfrum og leikjum í anda sirkusheimsins. Það eru Norræna húsið í Reykjavík og Cirkus Xanti sem standa að þessari einstöku hátið. Meginsýning hátíðarinnar og aðalviðburður er sýning Cirkus Cirkör, Wear it like a Crown, sem sýnd verður í samstarfi við Borgarleikhúsið.

7BL8U5P4weuETJXtcT5nwdNhY_dafpOtwnlgwOd0gDs
Ég á miði á Pluto Crazy, eina af sýnungum, annað kvöld. Hellingur af öðru spennandi er í boði. Sirkus Íslands býður upp á fjórar sýningar, m.a. dónasýninguna Skinnsemi. Pönksirkusinn Burnt out Punks verður með tvær ókeypis sýningar (gott pönk í því) og þarna er eitthvað sem heitir Pain Solution og gæti verið ógnvekjandi. Svo er annað fyrir smábörn og bara allskonar – Sirkus fyrir alla. Lesa má um sýningarnar á heimasíðu Norræna hússins.

Það er auðvitað ekki á hverjum degi sem sirkusar koma hingað. Líklega síðast árið 2008 sem hafði skelfilegar afleiðingar: 
agoragjaldthrota

Sirkus og flink dýr er eitthvað sem oftast fer saman, en við búum við svo strangar reglur að við fáum aldrei að sjá sirkusdýr. Er ekkert hægt að hrófla við því? Fá ekki dýr sem kunna að djöggla að sleppa við hreisunareldinn í Hrísey? Meira ruglið. Eins og trúðar geti ekki verið með riðuveiki undir nöglunum eins og sæljón?

Þetta var ekki alltaf svona. Sérstaklega ekki í eldgamla daga (fiftís). Þá var alltaf að koma eittvað kreisí sjitt hingað, líklega var hápunkturinn þegar Circus Zoo kom 1951 með fíl og ljón og 10 ísbirni og allskonar þrælflink sirkusdýr. Ég bloggaði um það fyrir nokkru.

Afríka og Bellstop

2 Júl

Það eru alltaf að koma út allskonar plötur. Hér er smá um tvær:

Einar-Afrika
Einar Þorgríms – Afríka
Einar Þorgríms hefur gert þema barnaplötuna Afríka – Söngur dýranna, þar sem hann nýtur liðsinnis útsetjarans Gímaldins. Beðinn um að kynna sjálfan sig, Einar skrifaði eftirfarandi:

Ég er fæddur í Norðurmýrinni 1949. Við hlið okkar – á Mánagötunni bjó Árni Ísleifs tónlistarmaður með fjölskyldu. Dóttir þeirra – Soffía – var og er jafnaldri minn og því lékum við krakkarnir okkur saman á götum hverfisins. Gott samband myndaðist sérstaklega milli Soffíu og eldri systir minnar Sigríði Önnu – sem endaði með því að stofnað var tvíeykið Anna Sigga og Soffía – sem sungu nokkur barnalög inn á plötu. Þekktast er líklega “Komdu niður”. Líklega hefur sá atburður orðið til þess að allir okkar fjölskyldumeðlimir fengu mikinn áhuga á dægurtónlist. Litli bróðir minn, sem lést 2009  – Ragnar L.Þorgrímsson – lærði píanóleik og píanóstillingar og gat sér gott orð á þeim vettvangi. Hann fluttist síðar að Litlu Laugum í Reykjadal sem tónlistarkennari og síðar til Húsavíkur – þar sem hann bjó seinni hlutar æfi sinnar. Á báðum stöðunum stjórnaði hann kórum – lék sem undirleikar hjá ýmsum söngvurum – ferðaðist tvisvar á ári um Norðurland og stillti flygla og píanó. Synir hans tveir hafa getið sér gott orð í tónlistinni – þeir Snæbjörn og Baldur í Skálmöld og Ljótu hálfvitunum.

Það er frá mér sjálfum að segja – að 16 ára fór ég að glamra á píanó heimilisins og setja saman lög. Aldrei nennti ég þó að læra píanóleik – eða læra á önnur hljóðfæri enda slæ ég einungis hljómaganginn á gamlan orgelskrjóð sem ég á – undir laglínurnar sem ég er að semja í það og það skiptið.

Litli bróðir, Ragnar, setti upp tvo söngleiki eftir mig með samkennurum sínum og nemendum í samkomuhúsinu að Litlu Laugum – við góðar undirtektir hjá heimamönnum. Söngleikirnir hétu “Hæ, hæ og hó, hó – Tröll erum við” og Gorri galdramaður”.  Ef til vill set ég þá einhvern tíma á diska eða kem þeim á fjalirnar.

16 ára skrifaði ég mína fyrstu barna- og unglingabók “Leynihellirinn” sem ég gaf út sjálfur 1970 og náði að selja fyrir kostnaði.

Bækurnar urðu fimm – og ein þeirra náði hæstu hæðum unglingabóka árið 1971. Hún bar titilinn “Leyndardóma eyðibýlisins”og seldist gríðarvel.

Ýmsir leggja Einari lið á Afríku, m.a. söngvararnir HEK, Hermann Stefánsson, María Einarsdóttir og Hjalti Þorkelsson. Það er HEK sem syngur titillagið (hér að ofan).

bellstop_karma_cover
Bellstop – Landið mitt
Bellstop hefur nú gefið út plötuna sína Karma en lagið Trouble hefur hljómað víða sl. vikur og myndbandið við lagið hefur vakið mikla athygli og fengið gríðarlega góðar viðtökur.Bellstop samanstendur af tvíeykinu Elínu og Rúnari sem hafa spilað saman sl. 8 ár um víða veröld m.a í Asíu.Bellstop hefur einstakan “indie” stíl sem sameinar sérstaka raddbeitingu og hráan gítarhljóm í afar frumlegt og kröftugt þjóðlagarokk sem þau kalla Folk&Roll!  “Of Monsters and Men á reifi”, er skemmtileg samlíking, höfð eftir ónefndum útvarpsmanni. Karma iniheldur 12 frumsamin lög eftir Bellstop og er tekin upp hjá Halldóri Björnssyni í Studio Neptunus,  Hafnarfirði.
Við dreifingu Karma hefur verið bryddað uppá nýbreytni.   Í nokkrum eintökum, bæði rafrænum og órafrænum hefur verið komið fyrir óvæntum glaðningum frá Bellstop: póstkortum, veggspjöldum, handskrifuðum textum við lögin og síðast en ekki síst, acoustic tónleikum með Bellstop sem hinn heppni kaupandi fær í gegnum skype beint heim í stofu.