Bandaríski leikstjórinn Ani Simon-Kennedy frumsýnir mynd sína, Days of Gray, á RIFF núna á föstudaginn 4. okt. Myndin var tekin upp á Íslandi og er þögul. Henni er lýst svona:
Days of Gray er tímalaus uppvaxtarsaga ungs drengs. Hetjan okkar hittir stelpu með skringilega stökkbreytingu í andlitinu sem lifir í einangrun. Er þau yfirvinna ótta sinn gagnvart hvoru öðru myndast óvenjuleg vinátta á milli þeirra.
Öll tónlistin í myndinni er frumsamin af Högna og félögum í hljómsveitinni Hjaltalín, að sögn sem virðingarvottur við tíma þöglu myndanna. Hjaltalín ætlar einmitt að spila undir myndinni læf núna á föstudaginn og verður það í fyrsta og líklega eina skiptið sem það verður gert. Sýningin/giggið verður í Gamla bíó þar sem þessi háttur var einmitt hafður á fyrir tíma talmyndanna. Þá voru tveir hljóðfæraleikarar eða svo í gryfjunni og notuðu spegil til að sjá hvað var að gerast á tjaldinu.
Hér má kaupa miða á þetta einstaka gigg (2900 kr / 2400 kr fyrir passahafa) og hér er komið lag frá Hjaltalín úr þessu verkefni, At the Amalfi.
Eftir giggið verður RIFF-fögnuður á Borginni þar sem meðlimir Hjaltalín sjá um skífuþeytingar. Days of Gray verður svo sýnd einu sinni enn, í Háskólabíói á laugardaginn kl. 16 þar sem leikstjórinn svarar spurningum úr sal eftir sýninguna.