Sarpur | febrúar, 2012

Innlegg í umræðuna

29 Feb


Í poppmúsík á Íslandi má eiginlega segja að konur séu „komnar lengra“ en karlar, enda Björk heimsfrægasti Íslendingur í heimi og jafn mikilvæg ferðamannaiðnaðinum og sauðkindin, Laxness og Surteyjargosið til samans. Og svo eru það náttúrlega allar hinar konurnar. Konur hafa „náð þessum árangri“ í poppinu án sérstakra ráðstafana. Það hefur þó löngum verið ansi tómlegt popplega séð í kvennadeildinni, eiginlega engin kona tók þátt í Bítlinu hér og örfáar konur voru með í stuðbylgjunni seventís. Í dag myndi ég hins vegar segja að það væri 100% jafnrétti í poppinu (eða meira), svo mikið jafnrétti reyndar að fólk er eiginlega hætt að spá í því hvort kona eða karl er að gera eitthvað – það skiptir bara máli að það sé gott og skemmtilegt.

8tracks er helvíti skemmtilegt dæmi á netinu þar sem vonnabí dagskrárgerðarmenn getur búið til mix. Ég gerði 20 laga mix sem ég kalla Songs written and sung by Icelandic women af því þetta er svo internatjónal. Flest þarna er beisik og þarfnast ekki útskýringar, en ég skrifa smá extra við það sem ég tel þurfi að skýra aðeins betur.

1. Á morgun – Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen
Fyrsta popplag eftir konu sem hún syngur sjálf inn á plötu (78 snúninga, 1953)

2. Move Aside In Your Spandex Bab – Donna Mess
Hvar er Donna Mess? Afhverju er hún ekki að gera músík!!!???

3. New York boy – Gloss
Heiðrún Anna að gera mjög góða hluti!

4. Hljóma þú – Samaris
5. Biðin – Dúkkulísur
6. Operation – Magga Stína
7. Böring – Q4U
8. Beri-Beri – Tappi Tíkarrass
9. Jedi Wannabe – Bellatrix
10. The Night – Song for Wendy
11. Pretty Face – Sóley
12. Tomoko – Hafdis Huld
13. Lullaby – Vicky
14. Brostinn Strengur – Lay Low
15. I Should be Cool – Hellvar
16. Betri er limur en limlestir – Grýlurnar

17. Lost – Sigrún Harðardóttir
Af plötunni Shadow Lady frá 1976, sem er mikilsmetin hjá 70s söfnurum og selst ansi dýrt komi hún á markaðinn.

18. Í nýju húsi – Ólöf Arnalds
19. Heard It All Before – Emiliana Torrini

20. Fráskilin að vestan – Anna Vilhjálms
Þessi magnaði stuðslagari Önnu frá 1991 er eftir Kolbrúnu Hjartardóttur og hálfsystur hennar, Lindu Björk Sigurvinsdóttur. Ég veit því miður ekki mikið meira um þær, eða hvort eftir þær liggja fleiri meistaraverk. Held samt ekki og held líka að þær séu báðar látnar. Anna Vilhjálms (sem er ekkert skyld Ellý og Villa Vill) er hinsvegar sprelllifandi og verður með 50 ára afmælistónleika í Austurbæ þann 8. mars. Þangað er að sjálfssögðu algjör skyldumæting. Miði er með miðana.

Hnignun barnamenningar

29 Feb


Eitt dálítið leiðinlegt við brotthvarf McDonalds er að það var alltaf miklu skemmtilegra dót með barnaboxunum hjá McD en hjá Metro. Svona stórkapítalískt smádrasl sem oftar en ekki tengdist nýrri bíómynd. Sonur minn hafði orð á þessu í gær og saknaði gamla dótsins frá McD – t.d. lifir í minningu hans lítill Transformers karl sem hann fékk einu sinni. Hjá Metro, sem standa sig svo sem ágætlega að öðru leiti, er bara hippsumhapps hvað fylgir með, stundum fótboltakarlapakki, stundum Bangsimon-smádrasl, eða eitthvað. Ekkert fútt í þessu eins og t.d. hefði verið ef míní plast-Sveppi sem gat prumpað hefði fylgt þegar nýjasta Sveppamyndin kom út.

Já já ég veit, við búum í örríki, en ef við værum ekki svona sturluð og raunveruleikafyrrt værum við jafn leiðinleg og Lúxemburg.

Þessu smádrasli var gert hátt undir höfði í fínni stuttmynd, Small fry, sem fylgdi á undan The Muppets um daginn. Og svo eru auðvitað safnarar á þessu sviði og eflaust hægt að selja gamalt svona drasl á okurprís.

Illugi Jökuls dregur gömlu góðu 3-bíóin í svaðið með því að líkja þessu egósentríska rugli í honum forseta við það. Fyrirbærið, 3-bíó, er auðvitað dautt þannig séð. Í gamla daga, þ.e.a.s. þegar ég mætti í 3-bíó, voru 3-bíó bara á sunnudögum og ekki eins fansí og í dag. Oft var nóg að bjóða upp á teiknimyndasafn og norsk animation-mynd sem hét Álfhóll (minnir mig, ég held ég hafi samt ekki séð hana) gekk árum saman. Eins og Conwoy (sem ég sá – topp mynd!)

Ahhh… ég finn styrk í nostalgíunni, eins og konan í Sigga Hlö videóinu.

Kúl Færeyingar koma

28 Feb

Eitt af því sem ég þarf að gera „áður en ég dey“ er að fara til Færeyja og Grænlands. Það er glatað að gera það ekki, en smá bögg að það skuli vera svona helvíti dýrt að fljúga þangað. Ef það er jafn dýrt að fljúga til New York og Nuuk eða Þórhafnar vill maður freistast til þess að fara frekar til nafla alheimsins en í tánögl alheimsins. En allavega, það hlýtur að koma að þessu einn daginn, eins og allt hitt sem ég þarf að gera „áður en ég dey“ – keyra Ford Mustang, prófa Segway o.s.frv. (ef einhver vill lána mér Ford Mustang eða Segway má hann hafa samband!).

Nú eru tveir mega artistar frá Færeyjum að fara að spila hérna. Þetta eru þau Högni Reistrup, sem virðist hafa komist í búningakistu Jónsa í Sigur Rós, a.m.k. samkvæmt þessari prómómynd:

og Guðrið Hansdóttir, sem lítur svona út:

Þetta eru hinir áheyrilegustu listamenn eins og má heyra á Youtube. Hér er Meditations on salt af nýjustu plötunni hennar Guðrið og hér er Hvor segdi hetta var endin með Högna. Hér er svo fréttatilkynningin:

Færeysk tónlistar innrás!
Frá og með fyrsta mars til þriðja mars næstkomandi mun færeyski
tónlistarmaðurinn Högni Reistrup ásamt hljómsveit troða upp á þrennum
tónleikum bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta verða fyrstu tónleikar
Högna hér að landi. Hann fær til liðs við sig færeysku söngkonuna
Guðrið Hansdóttir sem hefur verið búsett á íslandi síðan í haust og
hefur verið að gera það gott bæði heima og erlendis.

Högni Reistrup sendi í byrjun árs frá sér sína þriðju stúdíóplötu
„Samröður við Framtíðina“ sem hefur fengið gríðargóða dóma bæði í
færeyskum og dönskum fjölmiðlum og einnig vakið athylgi á Gogoyoko.
Gaffa.dk segir Högna vera best geymda leyndarmál Færeyja og fer fögrum
orðum um tónlist hans. Á plötunni blandar Högni popp, raf og rokk tónlist á einstakan hátt.

Janus Rasmussen úr hinni vinsælu hljómsveit Bloodgroup, stjórnaði
upptökum og útsetti plötuna hans Högna. Hún var unnin bæði í Færeyjum
og Íslandi. Styrmir Hauksson, sem áður hefur unnið með
hljómsveitum á borð við Hjálma og Retro Stefson sá um
hljóðblöndunina.

‪Guðríð Hansdóttir sendi frá sér sína þriðju plötu á síðasta ári sem‬
‪ber titilinn „Beyond the Grey“. Platan fékk mikla lof gagngrýnandi.
‪Morgunblaðið útnefndi plötuna ein af plötum ársins 2011.
‪Guðrið er búin að spila mikið hérna heima á íslandi og einnig út um
allan heim við gríðar góðar undirtektir‬ ‪og ætlar að fylga plötunni eftir með tónleikaferðalagi um Evropu í vor.‬

Tónleikar verða á :
‪Græni Hattnum á Akureyri þann 1. Mars‬
Gaukur á Stöng‬ þann 2. Mars
‪Kex Hostel‬ þann 3. Mars

Einstakt tækifæri að sjá það ferskasta í Færeysku tónlistarlífi!

Hitler vill ekki pungsítt rokk

27 Feb

Að leggja Hitleri brjálaðum í bönkernum orð í munn er vinsælt grín á Youtube. Um daginn var Hitler brjálaður vegna listamannalaunanna í boði Hugleiks, en nú er hann brjálaður yfir því hversu sterk gamalmennalykt er af þeim pungsíðu rokklistamönnum sem von er á hingað. Arnar Eggert er líklega höfundurinn:

[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=yLKTT30vMVk]

Viltu að Hilter brjálist yfir einhverju öðru? Þá er þetta tengillinn.

Þorsteinn Eggertsson sjötugur!

25 Feb


Meistari Þorsteinn Eggertsson er sjötugur í dag og er óskað brjálæðislega til hamingju með það. Meistarinn var sá alsvalasti á frumárum rokks á Íslandi – „Hinn íslenski Presley“ var hann kallaður af sjálfum Hauki Morthens. Hann tróð upp með ýmsum, m.a. KK Sextett og hljómsveitinni The Beatniks, en myndin hérna að ofan er af því uggvænlega ballbandi. Eins og sést drýpur rokkið sjálft af Þorsteini (hann er þessi sem stendur í miðjunni). Meðlimir hljómsveitarinnar eru frá vinstri talið: Eggert Kristinsson trommur (síðar í Hljómum), Eiríkur Árni Sigtryggsson kontrabassi, Þorsteinn, Björn Jónsson Haukdal gítar, Gudrun S Frederiksen söngkona og bróðir hennar Edward Jóhann Frederikssen.

Þorsteinn hætti svo að syngja að mestu, fór að vinna á auglýsingastofu og byrjaði að semja texta. Hann varð svo náttúrlega textaskáld íslenska poppsins númer eitt, tvö og allavega fimm, sex líka. Frá honum hefur runnið ódauðleg snilld á þeim vettvangi og mörg fræg lög, sem ég er viss um að verða spiluð í hengla og ræmur í útvarpinu í allan dag. Hér að neðan eru eftir á móti þrjú lög, sem eru ekkert fræg, en eiga það sameiginlegt að vera með textum eftir Þorstein og komu út 1976 – 1978.

 Lónlí Blú Bojs – Atvinnulaus
Af síðustu plötu Lónlí, Á ferð (1976). Texti Þorsteins smellpassar náttúrlega við stemmninguna í dag. Lagið er eftir Gunna Þórðar.

 Lúdó og Stefán – Brenninetla
Af seinni seventís plötu Lúdó frá 1977. Íslenskur texti Þorsteins við lagið Poison Ivy eftir Lieber og Stoller (þekktast með The Coasters). Reffilegt hjá Stebba og kó!

 Linda Gísladóttir – Eftirsjá
Af Linda, sólóplötu Lindu frá 1978, þegar hún var búin að meikaða með Lummunum. Tíu erlend lög, öll með texta af olíubornu færibandi Þorsteins. Þetta er auðvitað Abbalagið víðfræga.

Nektardans á Íslandi til forna

24 Feb

Ég fór á réttarball upp í sveit, á ballinu var stórgóð hljómsveit, ég held hún hafi verið frá Keflavík, og nektarpían fór úr hverri flík… söng Engilbert Jensen 1976 í texta Jóhanns G. og var hér vísað til sannra atburða.

Nektardans var bannaður á Íslandi árið 2009. Lengi vel áður en sveittir klúbbar Geira komu til sögunnar höfðu þó innfluttar nektardansmeyjar skemmt á böllum. Margir halda kannski að hin danska Susan („Susan baðar sig“) hafi verið sú fyrsta, en svo er nú öldungis ekki. Hún varð reyndar mjög fræg í þennan tíma sem hún var hérna og baðaði sig í pínulitlum bala. Hér er auglýsing úr Mogganum 1977:

Allskonar hljómsveitir brugðu á það ráð að draga með sér útlendar stelpur sem dönsuðu naktar í pásum. Hinað voru dansmeyjarnar komnar á vegum íslenskra umboðsmanna eins og Ámunda. Hér er plaggat frá 1967 með lítt þekktu bítlabandi, Nesmönnum (Jóhann Helgason, Magnús Þór og fleiri góðir), sem hafði með sér dansmey:

Dansmeyjarnar skemmtu á dansklúbbum í bænum, hér er stuð á Lídó 1966:

Á meðan Ulla Bella var á Lídó 1966 var Trixi Kent með Roof Tops í Stapa 1969:

Trixi var líka listakona á öðru sviði. Hér má sjá hana sprengja upp bíl og mála á partana.

Sigmar í Sigtúni bauð oft upp á nektarpíur. Nokkur fréttaflutningur var af einni sem þurfti að leggjast á spítala:

Þetta er Sabina sem dansaði hjá Sigmari 1969. Athugið að kona Sigmars er til vinstri á mynd.

Hljómsveit Ólafs Gauks lét ekki sitt eftir liggja og fór með Lisu til Grímseyjar 1977. Þar voru tvær flugur slegnar í einu höggi, fyrsta ballið og fyrsta (og eina?) nektardansmærin dansaði í Grímsey. Eins og sést var aðbúnaður til nektardans fremur slakur, bara gólfið á félagsheimilinu:

(Klikkið á myndirnir til að stækka þær – þessar úrklippur eru teknar úr Mogganum og Vísi, sem sé, engum sorasneplum!)

Svona var þetta nú einu sinni, krakkar mínir.

Ingo og Veðurguðirnir og Zaza nektardansmær í pásu – glætan!

Brjálaður maður í Bankastræti

24 Feb


Brjálaður maður – líklegast til af erlendu bergi brotinn, liðlega þrítugur – heldur nú til á  gatnamótum Bankastrætis og Lækjargötu. Þegar rautt ljós kemur á bílana sem eru að koma niður Bankastrætið ryðst hann fremst og byrjar að henda þremur keilum á loft og „djögglar“ þeim svo til og frá. Ekki er maðurinn að þessu til að safna peningum og ekki heldur til að auglýsa fyrirhugaða skemmtun, svo allt lítur út fyrir að hann sé bara í svona góðum fílingi. Gott framtak hjá brjálaða keilukallinum.

Ekki bara gamalmennagigg framundan!

23 Feb


Eins og allir vita er hér allt að fyllast af útúrsúrum útlendum gamalmennum sem ætla að halda tónleika fyrir okkur – sjá lista hér aðeins neðar í blogginu. Það er ekkert nema gott um það að segja og vonandi að enginn fari á hausinn við að standa í þessu. Margir ólívusmurðir hippsterar kvarta sem von er yfir gamalmennalyktinni af þessum giggum öllum. Þeir geta nú aldeilis hætt að væla því ein ferskasta, fínasta og mest hipp og/eða kúlasta listakonan í dag er á leiðinni.

Jábbs. Þetta er hin mega næs Azealia Banks, tvítug söngkona og snillingur frá NYC, sem  ætlar að troða upp í Vodafone-höllinni 6. júní nk. Miðasala er hér, en miðarnir renna víst út svo best er að tryggja sér miða asap.

Ég er nú svo suddalega út úr því að ég vissi ekki hver þessi gella væri fyrr en í gær. Það er nebblega stundum verið að spila lag í spinning-tímum, sem mér fannst alveg frábært en vissi ekki með hverjum væri. Datt kannski í hug að þetta væri eitthvað nýtt með Ríhönnu. Fann hvergi þetta lag svo ég spurði vini mína á Facebook hvort þeir könnuðust við lagið þarna Ayo Ayo. Ég á svo þaulsvala vini að staðreynd málsins lá ljós eftir hálfa mínútu og um leið var ég skammaður smá fyrir gamalmennaskap því þetta æðislega lag kom víst út fyrir nokkrum mánuðum og allt.

Hér er þetta geðveikt frábæra lag, 212, á Youtube, lag sem er ferskara en allt rokk sl. 20 ára eða svo, enda þokkalega augljóst að rokk með hefðbundnum aðferðum er þokkalega staðnað í dag. Ekkert að stöðnun svo sem, ef það má hafa gaman að því.


Annað í útlendum músíkpælingum hérna megin er að náungi sem heitir Willis Earl Beal er ágætur. Þetta er strákur sem hljómar eins og blúsaður blökkumanna-Daniel Johnston (ekki geðveikur þó), eða indie-Skip James. Hann er búinn að gera samning við XL recordings og er að koma með fyrstu plötuna sína fljótlega (Acousmatic Sorcery). Tékkaðu á laginu Take me away á Youtube.

Önnur yfirmáta h&k stelpa frá NYC kallar sig Grimes og er með ágætis plötu í svona rafpopp Lykki Lu stíl sem heitir Visions. Hér er lag sem heitir Genesis.

Svo er hérna ágæt plata sem kom út í fyrra en ég gleymdi að hafa með í top10 uppgjöri ársins, platan is growing faith með einstaklingsbandinu White Fence frá SF eða LA. Aðalið heitir Tom. Platan hljómar reyndar eins og The Kinks eða Love á rítalíni, en er bara nokkuð skemmtileg. Tékkaðu á opnunarlaginu And as always.

Bítlagangbrautarvefkamera

22 Feb


Frægasta gangbraut í heimi er án efa gangbrautin sem Bítlarnir gengu yfir framan á Abbey Road. Á svæðið hópast aðdáendur í þúsundavís vikulega.  Hér er vefmyndavél af gangbrautinni sem hlýtur að vera einhver Bítlalegasta vefmyndavél í heimi. Hér má sjá túristana pósa daginn út og inn allan ársins hring. Ég ætti að þekkja það, enda „tók ég“ Abbey Road „pakkann“ sl. haust (sjá mynd að ofan)

Hér er svo ágætis grein um plötuna og umslagið.

Vita lesendur um aðrar popptengdar vefmyndavélar? Hvar ætti að setja upp popptengda vefmyndavél á Íslandi?

(Viðbót):

Áríðandi fréttir af Retro Stefson

21 Feb

Hef heyrt nýju lögin fimm með Retro Stefson, en eins og alkunna er var platan þeirra Kimbabwe besta platan 2010. Lagið Qween er eitt af þessum nýju og hin standa því ekkert að baki. Dúndur plata á leiðinni þar.

Ég var að fá áríðandi fréttaskeyti frá þeim:

La Blogotheque, sem þekktir eru fyrir að gera svokölluð Take away show með tónlistarmönnum, dvöldu á Íslandi yfir Iceland Airwaves tónlistarhátíðina 2011. Nú fyrir helgina var afrakstur samstarfs þeirra með Retro Stefson opinberaður á veraldarvefnum. Um er að ræða hálfórafmagnaða útgáfu af laginu Qween sem er eitt vinsælasta lagið á Íslandi í dag. Take away show gengur út á að taka allt upp í einni töku – bæði tónlist og mynd. Take away show eru oftar en ekki tekin upp á „sérstökum“ stöðum og var engin breyting þar á í tilfelli Retro Stefson sem spiluðu í flugskýli á meðan flugvirkjar sinntu viðhaldi flugvélaga. Sjón er sögu ríkari!

http://www.blogotheque.net/2012/02/17/retro-stefson/
http://www.youtube.com/watch?v=vnkNK8C3TYM

Aðrar fréttir af Retro Stefson eru þær helstar að hljómsveitin er í hljóðveri að vinna að nýrri plötu sem kemur út síðar á árinu. Hljómsveitin mun koma fram á SXSW tónlistarhátíðinni í Austin í mars og heldur síðan í lengri tónleikaferð með vorinu þar sem hún mun m.a. spila í Englandi, Póllandi og Þýskalandi. Í sumar verða síðan helstu tónlistarhátíðir Evróðu sóttar heim.