Sarpur | mars, 2015

Þegar Elvis sá Stalin

29 Mar

6405438267_32f44ebf57_b
Nokkuð tryllingslega mikið af bókum hafa verið skrifaðar um Elvis Presley. Eftir að hafa skoðað hvaða bækur þættu bestar tók ég að lesa tvær bækur Peters Guralnicks, Last Train To Memphis, um Elvis fram að hernum, og svo Careless Love, um hin mis-dapurlegu síðustu átján ár Elvisar. Þetta er gott stöff. Manni finnst Elvis nokkuð ljóslifandi. Þetta var hálfgert grey sem tók það rosalega nærri sér þegar mamma hans dó og var hálfgert deig í höndunum á Colonel Parker, umboðsmanni, sem er líka ljóslifandi í þessum bókum og allt öðruvísi gaur en maður hélt. Elvis var með fullt af gaurum í kringum sig sem félagsskap og partíljón og hjálparhellur og þetta gengi fékk viðurnefnið Memphis mafia.

Það varð snemma innantómt að vera á spítti, svefnpillum, sofa hjá hvaða gellu sem er, og fá allt sem maður vildi svo Elvis lagðist í mikla andlega leit. Hann kynntist allskonar andlegu rugli í gegnum hárskerann sinn Larry og þeir lásu saman andlegar bækur við litlar vinsældir mafíunnar sem saknaði gamla góða Elvisar sem hafði verið hrókur alls fagnaðar. Í einni ferðinni í gegnum eyðimörk til Las Vegas (þar sem þeir héldu til á meðan Elvis var ekki að leika í einhverri rusl-mynd) var Elvis á andlegri útopnu. Hann var orðinn leiður á að fá ekki nógu sterkt andlegt kikk þrátt fyrir allan lesturinn. Hann var alltaf að bíða eftir andlegri fullnægju, einhverskonar sönnun á „æðri mætti“ því honum var mjög hugleikin sú spurning af hverju HANN væri Elvis, þessi ofurvinsæli og frægi maður. Elvis var orðinn frústraður að fá ekki andlega kikkið af því hingað til hafði hann fengið allt sem hann vildi.

Það var farið að kvölda í eyðimörkinni og all mörg ský á himni. Elvis keyrði húsbílinn, Larry hinn andlegi var við hliðina á honum og mafían aftur í frekar fúl yfir því að helvítis hárskerinn væri með. Allt í einu rak Elvis upp gól og hnippti í hárskerann. Sjáðu skýjið þarna, Larry, það er alveg eins og Stalín! Já það var ekki um að villast, eitt skýjið var alveg eins og Stalín. Svo breyttist skýjið og líktist nú meira Jesúsi en Stalín. Þetta var þá loksins hið andlega kikk sem Elvis sagðist hafa verið að leita að.

Ekki vissi ég áður að Elvis hefði fundið Stalín í eyðimörkinni.

Trúbrot-kóver frá 1974

23 Mar

johnmiles
Orange útgáfan og hljóðverið hafði nokkur áhrif á íslenskt popplíf 1972-74. Hljómsveitin Náttúra tók upp Magic Key í þessu hljóðveri. Notast var við Orange magnara sem Björgvin Gíslason var mjög óánægður með. Magnús og Jóhann duttu inn á meðan Náttúra var að taka upp og tóku up Yakkety Yak við undirleik Náttúru. Þeir fengu samning á staðnum og Change-ævintýrið hófst.

Einn af þeim sem Orange var með á sínum snærum var John Miles. Hann kom hingað á vegum Ámunda 1973 og spilaði með tríóinuThe John Miles Set. Hann var viðloðandi Change og fleiri íslenska poppara, m.a. Magga Kjartans, sem á tímabili stóð til að mynda gefa út smáskífur hjá Orange merkinu.

Eitt af því sem kom út úr þessu var að To Be Grateful, lag Magga Kjartans af Lifun, kom út sem b-hlið á smáskífu með John Miles. Ég fann einmitt eintak af smáskífunni í Kolaportinu um helgina, svo vesgú:

oas224-b

John Miles – To Be Grateful

Það er svo af John Miles að frétta að hátindur ferils hans var lagið Music, sem komst í þriðja sæti enska listans 1976.

Við erum öll hórur

19 Mar

Tónlistaráhugafólk á svo sannarlega von á góðu. Hin stórgóða norska rokksveit KVELERTAK verður á Eistnaflugi í hrottalega góðum hópi, ATP er að verða geðveikari en andskotinn með Igga gamla Popp. Mudhoney, Belle & Sebastian og Public Enemy svo helstu gamlingjar séu nefndir.

Kóróna sköpunarverksins í þessu öllu saman er svo auðvitað Iceland Airwaves sem var að tilkynna nokkur sílspikuð atriði til viðbótar í dag. Við erum til dæmis að tala um THE POP GROUP sem gríðarlega skiptar skoðanir voru um í póstpönkinu í Kópavogi á sínum tíma. Þeir voru eiginlega „einum of“ fyrir mann á þessum tíma þótt ég hafi alltaf kunnað vel við slagarann We Are All Prostitutes. Þetta gekk svo langt að ég bað Stebba bróðir að kaupa fyrir mig bol með þessari áletrun. Þessu slagorði fylgdi mynd af Margréti Thatcher – kannski var þetta einhver frasi sem kerlingin (sorrí HHG) hafði látið út úr sér þegar hún var að hampa kapítalismanum.

Svo var maður náttúrlega alltof mikil tepra til að vera mikið í þessum bol, sérstaklega ekki í bankanum, þótt það hafi reyndar oft staðið til. Veit ekki hvort það hefði verið vel liðið af samstarfsfólkinu!

En allavega. THE POP GROUP hefur síðan vaxið mikið hjá manni og þetta frídjass, póstpönk, afríkubít og rugl er nú keypt ósoðið í æð. Öllum að óvörum byrjaði bandið nýlega saman aftur og hefur komið út ágætis plötu (miðað við svipaðar tilraunir svona once legends allavega). Platan heitir Citizen Zombie og hér er titillagið:

Þetta lítur ljómandi vel út og næg vinna framundan við að kynna sér öll þessi nöfn sem maður veit minnst um. Hér er skammturinn sem kynntur var í dag.

Og þessi var kynntur þar á undan.

65 ára gamalt snapchat

18 Mar

Erum við að drukkna í kjaftæði? Gufar líf okkar upp í að fylgjast með tilgangslausu röfli á Facebook og Twitter. Fer allur okkar tími í að snapchatta á okkur rassgatinu til hvors annars?

Ég veit það ekki. En er ekki maður manns gaman? Nema náttúrlega þetta sé einhver vonlaus fábjáni og maður sé lokaður inn í lyftu með honum. Þá er það nú lítið gaman.

Þótt við lifum á tölvuöld hefur alltaf verið þörf fyrir allskonar leiðum til að skrásetja líf sitt. Stálþráður, slædsmyndir, 8mm, vhs. Fólk hefur alltaf verið að staðfesta tilveru sína með nýjustu græjum. Árið 1947 byrjaði Tage Ammendrup með þá þjónustu að fólk gæti tekið sig upp og fengið síðan 78 snúninga plötu með útkomunni. Hann auglýsti þjónustuna:

einkauppt

Þetta virðist hafa verið tekið eiginlega beint upp á plötuna, sem síðan var afhent kúnnanum og bara til í einu eintaki. Ég komst yfir eina svona plötu á dögunum – þ.e.a.s. eftir því sem ég kemst næst er þetta frá Tage og upptakan hefur því verið gerð í kringum 1950. Yfirborðið er cellulose nitrate lacquer (sellulósi nítrat lakk) sem er víst annað efni en er í venjulegum 78 snúninga plötum.

2015-03-18 17.25.07
Það eru þeir Hjörtur Eiríks og Þórður Valdimars sem eru með Stjórnmálarabb. Þetta er einskonar facebook-röfl eða snapchat frá því um 1950. Þeir eru að syngja einhver lög sem þeir kunna ekki og röfla um dagblöðin í bænum. Nokkuð skemmtileg bara!

Fréttir úr tónlistarlífinu

17 Mar

unnursara
Unnur Sara Eldjárn er 22 ára gömul tónlistarkona. Tónlistin hennar er grípandi popp með áhrifum frá ýmsum tónlistarstefnum, til dæmis jazzi, rokki og leikhústónlist. Fyrsta sólóplatan hennar er nýkomin út og ber nafnið „Unnur Sara“. Plötuna tileinkar Unnur pabba sínum Kristjáni Eldjárn en frændi hennar Halldór Eldjárn úr Sykur er henni innan handar við upptökur og hljóðfæraleik auk hópi af snörpum hljóðfæraleikurum. Fyrsta lagið á plötunni heitir Pressa:

UNNUR SARA – PRESSA

Og svo eru það OF MONSTERS AND MEN sem hafa fengið Sigga Sigurjóns til að leika í nýjasta myndbandinu við nýjasta lagið, Crystals.

Þetta er fyrsta lagið sem heyrist af nýju plötunni Beneath The Skin, sem á að koma út 8. júní. Platan verður ellefu laga, en íslenska útgáfan 13 laga með tveimur aukalögum. Næsti túr hefst í Kanada 4. maí. OMAM er búin að selja 2 milljón eintök af fyrstu plötunni og verður athyglisvert að sjá hvert hljómsveitin vex með nýjum plötunni.

Þau ráða tískunni

12 Mar

Ravage-TrendBeacons#3
Nú er Hönnunarmars að fara af stað. Í Bíó paradís er sýnd frábær heimildarmynd, TREND BEACONS eftir þá Markel-bræður, sem greinir frá störfum nokkurra „tískuvita“. Tískan veltur sem sé ekki stjórnlaust áfram heldur er þetta fólk í vinnu við að rýna fram á við og beina hönnuðum og fatamerkjum inn á vænlegar brautir. Þessir „vitar“ hugsa 2-3 ár fram í tímann og eru þegar farnir að spá í sumartískuna 2017. Vitarnir selja síðan hönnuðum og merkjum niðurstöður sínar og framtíðarspár.

Þetta er fólkið sem hefur hönd í bagga með því að eitt árið fást ekkert nema hnepptar gallabuxur (hvað er að rennilásum?), eitt árið eru ekkert nema köflóttar skyrtur í boði og eitt árið er hægt að fá Hawaii-legar skyrtur í flestum búðum, en svo það næsta er þetta allt gufað upp og eitthvað annað komið í staðinn. Það hlaut að vera að það væri eitthvað samræmi á bakvið tískuna.

Myndin er hröð og skemmtileg (sex stjörnur af fimm) og fylgist með 4 „vitum“ fabúlera og röfla um „vísindin“ sín. Allt í umhverfinu og tækniþróun hefur víst áhrif á tísku framtíðarinnar. Vitarnir virðast samstíga í framtíðarsýninni, eru með svipaða frasa „eco not ego“ og allskonar svona. Það eru ekki bara fataframleiðendur sem eru kúnnar vitanna, bílaframleiðendur, arkitektar o.s.frv eru það líka og þannig skapast einhver heildarsvipur á tísku og útliti, þótt þetta sé kannski alltaf að renna meira og meira út í eitthvað kaos.

Við kynnumst vitunum persónulega. Skemmtilegastir eru hollenskir hommar sem búa í svaka höll og eru með geithafur sem gæludýr. Þeir vinna saman undir merkinu Ravage. Aðeins er komið inn á fataframleiðsluna sjálfa (hörmungar í Bangladesh o.s.frv.) en aðallega reynir myndin að svara áleitnum spurningum um tískuþróunina. Þetta er mynd sem smellpassar við Hönnunarmarsinn og vekur einnig áhuga alstískulausra einstaklinga.

Sýnd í Bíóparadís svona:

Fimmtudagur 12. mars kl 20
Föstudagur 13. mars kl 18
Laugardagur 14. mars kl 16
Sunnudagur 15 mars kl 20

Kolaportið á morgun!

6 Mar

Aðal stuðið verður í KOLAPORTINU á morgun, laugardag, þegar Steinn og Trausta mæta í bás 26A. Hér er auglýsing þar sem sjá má brot af úrvalinu:11044600_10153657591033012_5504034804273183890_o
Og svo fleiri brot hér að neðan, franskt, Bubbi og klassík og djass. Og allt auðvitað að fínu verði. Allir að mæta!
11016112_10153657910443012_6978869754596607498_n
10392279_10153657656368012_7336096455819585895_n
11026250_10153660252398012_1317791465024371851_n

Fréttir úr tónlistarlífinu

5 Mar

10440281_885695521476438_6869007492349424607_n
GÓÐUR SÖNGUR og vel framborinn er söngur RAKELAR MJALLAR sem syngur í HALLELUWAH dúettnum. Hljómsveitarstjórinn er SÖLVI BLÖNDAL, áður aðalsprauta Quarashi kómbósins. HALLELUWAH heitir glænýr diskur dúettsins og eru þar 9 dægurlög á ensku. Að minnsta kosti 2 laganna hafa heyst opinberlega en restin er í sama stíl, snyrtilegt tölvupopp. Hér er opnunarlagið:

HALLELUWAH – MOVE ME

*

Hljómsveitin ELDBERG hefur hinn hársíða EYÞÓR INGA innanborðs og spilar ómengað hipparokk sem SG eða Fálkinn hefði getað gefið út 1971. Fyrsta platan kom út fyrir nokkrum árum en nú hyllir undir næstu plötu því fyrsta lagið er komið fyrir almenningshlustir. Hér kemur það:

ELDBERG – NÆTURLJÓÐ

*

Tónlistakonan SASHA SIEM hefur dvalið á Íslandi að undanförnu og tekið upp fyrstu plötuna sína MOST OF THE BOYS í Gróðurhúsinu með aðal grasafræðingnum sjálfum, Valgeiri Sigurðssyni. Sasha á ættir til Noregs og Englands en nefnir Andrew Bird og PJ Harvey til áhrifavalda. Nýjasta lag „í spilun“ á plötunni heitir SO POLITE:

SASHA SIEM – SO POLITE

*

Hellvar
Hljómsveitin HELLVAR með Heiðu og Elvar innanborðs er komin heim úr Englandstúr þar sem sveitin lék á tíu tónleikum og fékk góðar undantektir. Til að slá botnin úr þessu skeiði í lífi sveitarinnar heldur hún tónleika á Dillon annað kvöld (föstudagskvöld). Þeir byrja stundvíslega kl. 23. Svo fer bandið að taka upp næstu plötu.

*

Hér er gott lag frá 1967 með bresku bíthljómsveitinni THE EXCEPTATION. Er að hlusta á safndisk frá þessu bandi sem er gefinn út af RPM international, sama leibeli og gaf út PELICAN komplett á dögunum. Gott lag…
https://www.youtube.com/watch?v=eVkRGZ1NOsc

Þegar ég féll fyrir snákaolíu

4 Mar

Eftir hið steikta Kastljós í gærkvöldi hefur athygli landsmanna náttúrlega beinst að svokölluðum snákaolíusölumönnum. Útbreiddasta dagblað landsins er stútfullt af snákaolíu á hverjum degi. Alltaf kemur eitthvað nýtt. Einn daginn er það heilsugerilinn frá Balkanskaga, hinn daginn rauðrófur, þann næsta túrmerik.

Í dag voru í snákaolíukálfi Fréttablaðsins til dæmis auglýsingar fyrir eitthvað sem er „allt að fimmtíu sinnum áhrifameira en hefðbundið túrmerik! Tilvalið fyrir þá sem vilja styrkja liðamótin, auka liðleika, bæta andlega líðan, auka orku ásamt því að losna við langvarandi liðverki, bólgur, gigt og magavandamál“ og einhverjar töflur sem eiga að „stuðla að líflegra hári“.

Nú er mér alveg sama þótt ég sé sköllóttur en ég hef oftast verið alltof feitur og það er ekkert sérlega eftirsóknarvert. Í stað þess að éta minna og hreyfa mig ennþá meira þá hef ég viljað auðvelda lausn, eitthvað sem kallar á lágmarks framlag af minni hálfu. Því lét ég einu sinni glepjast af einhverjum megrunartöflum sem heita Zotrim. Það er oft verið að auglýsa þetta og hér eru reynslusögur. Skammturinn kostaði hátt í 5000 kall og ég þurfti að fela þetta fyrir Lufsunni því hún hefði snappað. Svo gleymdi ég náttúrlega alltaf að éta pillurnar fyrir mat eins og á að gera (af því ég gleymi því alltaf hvað ég er feitur) og nú eru þær útrunnar. Líklega væri ég núna með sixpakk hefði ég bara étið þetta.

Herbalæf var einu sinni aðal málið. Þá fór ég leynilegan Herbalæf-fund og skrifaði um hann í DV. Mjög góð grein þótt ég segi sjálfur frá. Eru ekki annars allir hættir á Herbalæf í dag? Er ekki „Herbalæf-sölumaður“ tákn um lúser og svindlara?

Einu sinni fór ég í búð þar sem sölumaðurinn var mikill áhugamaður um svokallað „Power Balance“ gúmmíarmband. Hann sagðist yfirleitt vera mjög skeptískur en væri alveg viss um að þetta armband væri málið. Með það á sér væri maður í meira jafnvægi, væri liðugri og sterkari. Til að sýna mér töframáttinn gerði hann á mér „test“ og viti menn, með armbandið var ég í miklu meira jafnvægi. Ef ég hefði nú keypt armbandið og verið með það síðan væri ég án efa í miklu betri málum, en ég var svo vitlaus að fara heim og gúggla þetta. Það er nú einmitt kosturinn við nútímann, netið kemur upp um alla vitleysuna, en mér er svo sem nákvæmlega sama hvað annað fólk gerir og trúir á. Það er þó botninn þegar lagst er upp á langveika og dauðvona með svona rugli.

Við erum öll klikkuð hérna

4 Mar

Auðunn Níelsson Ljósmyndari // www.audunn.com
Ég fór norður á föstudaginn og var við frumsýningu Leikfélags Akureyrar á Lísu í Undralandi (leikgerð: Margrét Örnólfsdóttir / Tónlist: Ég). Skemmst er frá því að segja að þetta er æðisleg sýning, hröð, fyndin, spennandi og skemmtileg. Alveg til fyrirmyndar hvað hægt er að gera með fjórum leikurum, sex aukaleikurum, hring-leikmynd og allskonar trixum. Eiginlega miklu betri sýning en ég hafði þorað að ímynda mér. Mæli heilshugar með henni!

Auðunn Níelsson Ljósmyndari // www.audunn.com
„Þessi sýning hefur upp á að bjóða allt það sem skemmtileg fjölskyldu-ævintýraleiksýning þarf að hafa; hetju, sem í þessu tilfelli er tíu ára kvenhetja, fullt af skrítnum og spaugilegum persónum sem koma og fara með miklu hraði, litskrúðuga og kúnstuga búninga, fjöruga og grípandi tónlist, vel útfærðar sviðshreyfingar og dans, listileg farartæki sem stundum eru vélknúin tryllitæki og oftar þó drifin með handaflinu einu saman“
– segir í 4 stjörnu dómi Kristjáns E. Hjartarsonar í FBL í dag.

Verkið verður ekki sýnt (í bili) nema til 11. apríl (panta hér). Nú, og svo er tónlistin ókeypis hér. Já og líka á Spotify.
Auðunn Níelsson Ljósmyndari // www.audunn.com