
Danir eru svo kúl. Nema þegar þeir byrja að tala, þá missa þeir allt kúl. Ég held að maður fengi hláturskast ef danskir vopnaðir eymingjar reyndu að ræna mann.
Ég er sem sé nýkominn frá Köben þar sem ég bjó við Nyhavn í íbúðarskiptum í gegnum Intervac. Það er alveg frábært dæmi og eina vitið ferðist maður með alla fjölskylduna. Það er ekkert smá hvað allir Danir eru ægilega myndarlegir og allir eitthvað að spá í innanhúshönnun og gourmet mat og eitthvað. Allir ljóshærðir og í stuttbuxum og með peysur um hálsinn. Mér fannst þetta allt eitthvað svo skothelt skandinavískt dæmi. Danir segjast vera hamingjusamastir allra og eru ekkert endilega að ljúga því.
Svona væri þetta kannski hérna núna ef við hefðum sloppið við þetta helvítis rugl að fá sjálfsstæði 1944. Eina sem það gaf okkur var sturluð misskipting sem leiddi til þess að nú getum við ekki einu sinni rekið almannaspítala, komið upp nokkrum almenningsklósettum fyrir kúkandi túrista eða haft tvíbreiða þjóðvegi um allt land. Allir peningarnir eru í vösunum á einhverju andlega og siðferðislega skertu liði, sem fyrst græddi á hernum og svo á fisknum. Er ég farinn að hljóma eins og Jónas hérna?
Þetta var massíf krakkaferð með krakkamösti eins og Lególandi, Tívolí, Glyptotek, Den Lille Havfrue, Tycho Brahe og Dýragarðinum. Skóflað í sig flödeskum og guf en samviskunnar vegna sleppti ég alveg flæskesvær. Í gegnum booking.com fengum við ódýrt herbergi á ægilega flottu hóteli á leiðinni frá Legolandi, Hotel Koldingfjord (mynd að neðan), sem er svo flott að ég skammaðist mín eiginlega fyrir sjálfan mig. Það var eins og ég væri óboðinn gestur þarna innan um fína fólkið. Skemmtileg tilfinning!
Fínt samt að vera kominn heim í þetta hitastig sem maður er vanur. Og tuðið og hjakkið. Maður verður náttúrlega að komast til útlanda nokkrum sinnum á ári og drekka gott kaffi til að sturlast ekki í klefasótthitanum sem er Ísland. En þegar allt kemur til alls er Ísland samt best! (Gæti samt alveg verið miklu betra)
