Sarpur | júlí, 2015

Nördar í Popppunkti

25 Júl

Staðan í sérstökum sumar-Popppunkti á Rás 2 er nú þannig að eftir undanúrslitaleiki eru eftir tvö lið sem keppa til úrslita á laugardaginn eftir viku. Þetta eru liðin ÍST’ON (Íslensku tónlistarverðlaunin, Eiður Arnarsson og María Rut Reynisdóttir) og BÍL (Bandalag íslenskra listamanna, Kolbrún Halldórsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason). Ekki missa af æsispennandi úrslitaleik!!!

2015-07-06 15.44.08
Til að brjóta þetta upp verður sérstakur „nördaþáttur“ í dag (kl. 17:00). Þá keppa „Nördar af Rás 2“ (Andri Freyr og Hulda Geirs) við „Nörda af götunni“ (Frosti Jón Runólfsson og Anna Lea Friðriksdóttir). Eins og sést verður Bjarni Töframaður á svæðinu líka. Svokallaður eðall framundan.

Meðal þeirra hamingjusömustu

23 Júl

2015-07-16 12.35.27
Danir eru svo kúl. Nema þegar þeir byrja að tala, þá missa þeir allt kúl. Ég held að maður fengi hláturskast ef danskir vopnaðir eymingjar reyndu að ræna mann.

Ég er sem sé nýkominn frá Köben þar sem ég bjó við Nyhavn í íbúðarskiptum í gegnum Intervac. Það er alveg frábært dæmi og eina vitið ferðist maður með alla fjölskylduna. Það er ekkert smá hvað allir Danir eru ægilega myndarlegir og allir eitthvað að spá í innanhúshönnun og gourmet mat og eitthvað. Allir ljóshærðir og í stuttbuxum og með peysur um hálsinn. Mér fannst þetta allt eitthvað svo skothelt skandinavískt dæmi. Danir segjast vera hamingjusamastir allra og eru ekkert endilega að ljúga því.

Svona væri þetta kannski hérna núna ef við hefðum sloppið við þetta helvítis rugl að fá sjálfsstæði 1944. Eina sem það gaf okkur var sturluð misskipting sem leiddi til þess að nú getum við ekki einu sinni rekið almannaspítala, komið upp nokkrum almenningsklósettum fyrir kúkandi túrista eða haft tvíbreiða þjóðvegi um allt land. Allir peningarnir eru í vösunum á einhverju andlega og siðferðislega skertu liði, sem fyrst græddi á hernum og svo á fisknum. Er ég farinn að hljóma eins og Jónas hérna?

Þetta var massíf krakkaferð með krakkamösti eins og Lególandi, Tívolí, Glyptotek, Den Lille Havfrue, Tycho Brahe og Dýragarðinum. Skóflað í sig flödeskum og guf en samviskunnar vegna sleppti ég alveg flæskesvær. Í gegnum booking.com fengum við ódýrt herbergi á ægilega flottu hóteli á leiðinni frá Legolandi, Hotel Koldingfjord (mynd að neðan), sem er svo flott að ég skammaðist mín eiginlega fyrir sjálfan mig. Það var eins og ég væri óboðinn gestur þarna innan um fína fólkið. Skemmtileg tilfinning!

Fínt samt að vera kominn heim í þetta hitastig sem maður er vanur. Og tuðið og hjakkið. Maður verður náttúrlega að komast til útlanda nokkrum sinnum á ári og drekka gott kaffi til að sturlast ekki í klefasótthitanum sem er Ísland. En þegar allt kemur til alls er Ísland samt best! (Gæti samt alveg verið miklu betra)

2015-07-19 10.34.40

Ónýtir staðir vegna túristaplágu

13 Júl

Túristminn er sveitt dæmi. Hvar á allt þetta fólk að kúka? Á það að kúka í garðinum þínum? Nú er svo komið að túristamagnið hefur „eyðilegt“ nokkra staði fyrir heimamönnum. Það er líklega allt í lagi og bara fórnarkostnaður fyrir hagvöxt. Ef maður nennir ekki að taka þátt í að pimpa landinu í gin gapandi ferðamanna hefur maður ekkert að gera

* Í Bláa lónið – Fáránlegt okur í sjúskaðan drullupoll
* að Gullfossi og Geysi – eins og að vaða hráka
* á Þingvelli – fjallkonan vafin í blautan klósettpappír
* í Jökulsárlón – klaki í flugnageri

Nú vil ég ekki hljóma eins og að ég hafi einhvern meiri rétt á að spóka mig á þessum stöðum en hver sem er, en maður bara nennir þessu ekki ef það er allt að drukkna í blautum klósettpappír, reykspúandi rútum og gapandi túristum.  Það verður bara að hafa það. Allir að græða (megnið á svörtu) og uppgrip. Maður verður að spila með.

Það verður erfiðara um vik á sífellt fleiri stöðum. Til dæmis var hvergi hægt að fá mat á Höfn því túristar stóðu allstaðar í röðum og borð var laust eftir í mesta lagi 90 mín. Þetta var á þriðjudegi. Við hefðum getað sagt okkur að eitthvað væri að þegar það var fullt af lausu á stað sem heitir Nýhöfn. Hann lúkkar vel en maturinn var algjört okur og rugl. Sex grillaðir humar-bitar með 2 litlum brauðsneiðum og litlu salati á 5900 kall. Við Gummi erum enn í sjokki yfir þessu og beisíklí getur Höfn hoppað upp í humarinn á sér. Ónýtur staður.

Ef Nýhöfn var botninn var Skriðuklaustur toppurinn. Fallegur staður og sligað hádegishlaðborð á 2900 kr. Þarna fékk ég tvær bestu súpur í heimi, lerkisveppasúpu og hvannasúpu. Ekki ónýtur staður!

Ég sá ekkert hreindýr. Eru túristarnir búnir að skemma það líka?

Eistnaflug

13 Júl

2015-07-09 21.34.39
Ákvað að taka nokkuð massífan Austfjarðarpakka þar sem ég var hvort sem er að spila á Eistnaflugi. Giggið tókst vel, þetta var svona best of, Heiða kom fram og söng þrjú Ununarlög, svo var þarna S.H. og Bless og meira að segja Prumpulagið sem fékk þungarokkarana til að brotna saman í gleðivímu. Að öðrum hápunktum má nefna flutning The Vintage Caravan á Lifun með Magga Kjartans (rosa gott og flutt af trukki en ekki músóplebbaskap eins og stundum vill vera með svona tribute), Börn (mynd að ofan) voru góð á Blúskjallara og Kælan mikla á Egilsbúð. Bubbi og Dimma voru þéttur hnífur og Sólstafir voru þungur hnífur með Hrafninn flýgur. Þá var norska hljómsveitin Kvelertak eins konar ástæða þess að ég nennti að hanga svona lengi á svæðinu og stóð algjörlega undir væntingum. Enn ein snilldar hátíðin hjá Stebba og kó.

Popppunktur á fullu

7 Júl

Popppunktur í júlí 2015 stendur nú yfir á Rás 2. Fyrsti þátturinn var á laugardaginn en á hann má hlusta hér í Sarpinum. Við erum með átta gallhörð lið að keppa. Í fyrsta þættinum kepptu 4 lið:
2015-06-29 10.11.55
Halli og Alli mættu frá stórveldinu Record Records
2015-06-29 10.12.00
og kepptu við Stelpur rokka, þær Birtu og Hildi Völu.

2015-06-29 11.20.34
Í seinni leiknum kepptu Fyrrverandi menntamálaráðherrar, Þorgerður Katrín og Katrín Jakobsdóttir sem við fórum að sjálfssögðu með út að borða og fengum til að bjóða sig fram til forseta.
2015-06-29 11.20.38
FVM mættu BÍL (Bandalagi íslenskra listamanna), sem tefldu fram Braga Valdimar og Kollu Halldórs.

Nú, ég ætla ekkert að segja hvaða 2 lið komust áfram til að skemma ekki fyrir ef einhver vill hlusta og vera spenntur.

Í næsta leik, nk. laugardag, koma svo 4 lið í viðbót og keppa í dúndurleikjum:
2015-06-29 14.07.17
Íslensku tónlistarverðlaunin (ÍSTON), Eiður og María Rut keppa á móti
2015-06-29 14.08.29
fulltrúum frá KÍTON (Konum í tónlist), þeim Ölmu Rut og Hafdísi Huld.

2015-06-29 15.04.39
Í seinni leiknum mætast tveir læf-staðir í Rvk. Rósenberg keppir við 

2015-06-29 15.04.35
Mengi!

Nýtt nýtt nýtt!

7 Júl

vestana trubo
Gummi Jóns er marglaga þessa daga. Hann er ekki bara að gera það gott sem fyrr með Sálinni og nýja Þjóðhátíðarlaginu heldur hefur hann komið nálægt tveimur plötum á síðustu mánuðum. Með Vestanáttinni spilar hann fölskvalaust íslenskt sveitapopp með söngkonunni Ölmu Rut í forgrunni. Platan heitir einfaldlega Vestanáttin, 10 laga vöruflutningabílstjóragæðagripur sem bæði er á töff gallabuxnaefnislínum og ég-er-þunnur-gemmér-grið ballöðugír.

Með Trúboðunum kemur Gummi minnst að lagasmíðum heldur spilar „bara“ á gítar. Karl Örvarsson ala Stuðkompaní er í forsvari í pönksvörnu rokkbandi sem „stingur á kýlum“ í textagerð. Hér eru þeir kampakátir í stúdíó 12 og Óttarr Proppé hefur villst inn af alþingi til að ljá laginu „Vantrúarboð“ ilmandi þokka:



Sveppi og Róbert „Ég“ eru Spilagaldrar og vinna „hörðum höndum“ að plötu. Vísir fullyrðir það.

Controlling the world from my bed KOVER
Casio Fatso er hljómsveit sem hefur gert plötuna Controllign The World From My Bed. Þeir hafa nú orðið: Platan tók 2 ár í smíði og var ekki einföld fæðing. Upptökur týnast, pólskir verkamenn á nærbuxum og fleiri klisjur sem töfðu ferlið umtalsvert. Við erum þessir hér

Casio Fatso spilar Modnine rokk sem dregur áhrif sín frá níunda áratugnum þegar bönd eins og The Pixies, Nirvana og Smashing Pumpkins voru að leika sér með Loud/quiet/loud konseptið. Modnine stendur fyrir modern nineties og er eins og gefur að skilja áðurnefnd áhrif en með nútíma hægri snú.
Meðlimir bandsins eru fjórir vinir sem komu saman árið 2012 til að sigra heiminn, drepa popptónlist og mýkja harðkjarnann. Okkur finnst nefnilega vanta miðjuna í landslagið í dag. Rokkið!“
Controlling the world from my bed inniheldur 12 lög og það voru gerð myndbönd við öll lögin. Þau má skoða hér: http://www.casiofatso.com/videos.html

Hér er hægt að streyma plötunni: http://www.casiofatso.com/music.html
Platan fæst keypt á Amazon, iTunes, Google Play, Deezer og loudr.com