Sarpur | nóvember, 2015

Hálfviti festir bíl!

28 Nóv

2015-11-28 12.03.35
Mér finnst dáldið gaman að fara í kirkjugarða og finna leiði mikilmenna og ættingja. Í morgun, í snjógeðveikinni, fékk ég þá frábæru hugmynd að skella mér í Fossvox og heimsækja ömmu Láru og Alfreð Flóka. Amma er neðst í garðinum (svæði X) en Flóki ofar. Upplýsingarnar fengust af þeim frábæra vef http://www.gardur.is.

Nú. Ég fann hvorugt leiðið og pikkfesti mig. Slapp eftir hálftíma eftir hjakk og gúmmímottutrixið. Festi mig svo aftur á leiðinni upp brekkuna. Enn fastari en áður. Gúmmímottutrix gerði ekki djakksjitt. Ég var vel búinn, í gallabuxum og með einn hanska. Niðri á skokkbraut nenntu þessir helvítis skokkaraaumingjar ekki að hjálpa mér (sögðust vera að tímataka), en fjórar konur með barnavagn réttu hjálparhönd. Gott Bechtel í gangi þar. Þær ýttu mér úr pikkinu en svo festi ég mig enn einu sinni á leiðinni upp og konurnar farnar.

Þá kom Lufsan með töfralausn í síma og Pétur, kærasti vinkonu hennar, mætti á pallbíl. Hann dró mig upp og þá var þessu rugli lokið. Að launum átum við gómsætar kótilettur á BSÍ.

Ætli ég labbi ekki bara í Fossvox næst.

2015-11-28 12.25.28

White Saturday

28 Nóv

20151128_061806
Svona virkar þetta: Í fyrra voru bara örfáir með „Black Friday“. Í ár voru allir og hundurinn þeirra með „Black Friday“. Ég fór með Dagbjarti í Kringluna til að gera góð kaup. Hann hafði brotið upp sparibaukinn sinn til að kaupa jólagjafir. Svo var þetta eintómt fúsk og frat. Enginn með almennilegt „Black Friday“ tilboð. Í Ameríku eru almennilegir afslættir, a.m.k. 50%, en hér nota kaupmenn þennan hortitt til að plata kúnnana og pranga út einhverju drasli. Aumingja drengurinn æstist upp þegar við sáum í anddyri Útilífs skilti sem á stóð 40%. Við héldum eðlilega að nú væri 40% afsláttur af öllu í búðinni. Þegar að skiltinu kom stóð með litlum stöfum neðst: „40% afsláttur af öllum svörtum úlpum“ – vantaði bara „af öllum svörtum úlpum með bilaðan rennilás“. Gif mí a foxing breik eins og kellingin sagði. Í Nettó var „Black Friday“ af sviðahausum. Er verið að kidda mann? Íslenskir kaupmenn geta troðið þessum „Black Friday“ upp í neðri hringvöðvann á sér. Þeir kunna þetta ekki. Sláið 50% af draslinu ykkar og ég skal ónáða mig yfir ykkur aftur.

Heimkaup má þó eiga það að þar var kjöt á beinunum. Þar keypti ég LIFUN LP á 2.490 kr, sem er fínt verð á meistaraverkinu.

Svo er ég orðinn drepleiður á heilarýru gjammi bókaútgefanda. Þeir gjamma bara nógu mikið og vona að einhverjir aular falli fyrir gjamminu. „Blabla Jónsson er stórfenglegur rithöfundur“, „Stórfengleg bók, Politiken (um allt aðra bók en sá sem er verið að selja)“. Gagnrýnendur Kiljunnar og Egill mega ekki opna á sér trantinn nema það sé komið í sándbæt í næstu auglýsingu: „Unaðslestur! (Egill Helgason)“, „Mér vöknaði um augun (Kolbrún Bergþórsdóttir)“ – Maður er bara alveg orðinn myglaður yfir því hvað þetta eru allt lélegar bókauglýsingar.

Bókaútgefendum er svo sem vorkun. Það eru hundruðir bóka að reyna að olnboga sig í jólapakkana og að því virðist er eina leiðin að gjamma bara utan í kaupendum eins og púðluhundar með standpínu, þessar örfáu vikur sem atið stendur.

Ég er búinn að lesa GERIL eftir Bibba í Skálmöld – „Ef Skálmöld væri bók þá væri hún Gerill“, ÖLL MÍN BESTU ÁR – „Frábær ljósmyndabók þar sem stuð og tíðarandi fyrri ára birtist ljóslifandi“, BÍTLARNIR TELJA Í eftir Mark Lewisohn – „Besta Bítlabók sem skrifuð hefur verið! og ÚTLAGA Jóns Gnarrs – „Frábær bók, las hana eins og þyrstur maður í eyðimörk sem kemur að vin“.

Næst í röðinni eru svo Syndari Ólafs Gunnarssonar, Týnd í paradís Mikaels Torfasonar, Naut Stefáns Mána, Sögumaður Braga Ólafssonar, Stríðsár Páls Baldvins, Egils saga Egils Ólafssonar og Páls Valssonar, Á Æðruleysinu eftir KK og Sjóveikur í Munchen eftir Hallgrím Helgason. Þessi listi stenst ekki Bechtel-prófið, só sorrí konur. Það myndi hjálpa mikið til að fá sándbæt frá besta bloggi landsins ef útgefendur sendu mér eintak af bókunum. Ég segi svona, bara hugmynd.

Í dag verður unaðslegur dagur. Það er búið að snjóa jafn mikið og í gær, svo það er bókstaflega allt í kafi. Í kvöld á ég miða á ÞETTA ER GRÍN, ÁN DJÓKS í sjálfri Eldborg Hörpu. Ég held að það sé algjör snilld því annars væri ég ekki að fara. Ef þú átt ekki miða skaltu fá þér hann strax.

 

Hljómar hitta Bítil

26 Nóv

Fólk hefur mikið komið að máli við mig. Ekki til að hvetja mig til forsetaframboðs (enda myndi ég ekki nenna að vera svona mikið í burtu frá fjölskyldunni) heldur til að spyrja hvort fyrstu fimm þættirnir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS komi út fyrir jólin á dvd. Málið var skoðað og niðurstaðan er NEI. Hins vegar erum við nú sveittir að búa til SJÖ þætti í viðbót sem á að byrja að sýna á Rúv í mars. Þegar upp er staðið verða því komnir TÓLF þættir af POPP OG ROKKSÖGU ÍSLANDS og poppsagan frá landnámi til okkar dags vandlega innrömmuð á TÓLF klukktímum! Og það sem betra er: Það eru allar líkur á að heildarpakkinn verði gefinn út á dvd í einhvers konar „vönduðum pakka“, sem verður auðvitað „jólagjöfin í ár“ 2016.

Kannski fylgir „aukaefni“ í pakkanum – enda heill haugur á „klippigólfinu“ eftir blóðugan niðurskurð. Þetta er ekkert dútl. Við hittum um 200 manns. Stilltum upp myndavél, töluðum við viðfangið í 1-4 tíma (suma risapoppara þurfti að tala við í tveimur sessjónum) og svo er þetta mikla efni skorið niður í sándbæt og smásögur og jafnvel dæmi um að það væri ekki einu sinni notað neitt af spjallinu vegna þess að það bætti engu við flæðið. Hrikalega blóðugt. En við erum þá allavega með 200 poppara skjalfesta og ætli þetta efni endi ekki bara á Landsbókasafninu komandi kynslóðum til notkunar.

Allavega, á „klippigólfinu“ er allskonar snilld, sem ekki passaði í flæðið og inn í þá 12 klukkutíma sem við höfðum til að segja söguna. Meðal þess er sagan af því þegar Hljómar hittu Bítil.

Árið er 1967, ágúst. Svavar Gests ætlar að gera LP plötu með Hljómum og sendir þá til London til að taka upp, enda engin almennileg aðstaða á Íslandi til plötugerðar. Strákarnir telja í, gera 12 laga plötu á einhverjum 16 tímum í Chapell Recording Stúdíós með Tony Russell. Útkoman er fyrsta „alvöru“ rokk/popp-LP plata Íslandssögunnar, fyrsta LP plata Hljóma (nú fáanleg aftur á vinýl þökk sé Senu). Í ferðinni spókuðu strákarnir sig um í London. Funheitt nýstyrni, Jimi Hendrix, er með tónleika í Saville Theatre á Shaftsbury Avenue. Eigindi tónleikastaðarins er sjálfur Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna. Tvö gigg eru með Jimi þann 27. ágúst. Þetta er eftirsótt gigg, fáir miðar eftir. Hljómar fá einn miða á fyrri tónleikana, en þrjá á þá seinni. Gunni Þórðar fer á fyrra giggið og gapir á Jimi leika listir sínar. Hinir fóru aldrei á seinna giggið vegna þess að því var aflýst. Brian Epstein hafði nefnilega étið of mikið af dópi og svefntöflum og stimplað sig út (líklega fyrir slysni, frekar en af ásetningi). Bömmer!

Í London fóru Hljómar „all in“ í Bítlamenningunni. London var svo sem ekkert ný fyrir þeim, þeir höfðu komið hérna oft áður, m.a. þegar þeir tóku upp lögin á Umbarumbamba 2 árum áður. Aðal pleisið er Bag O’Nails í Soho. Þarna hanga poppararnir. Þarna kynntist Paul McCartney Lindu sinni. Jimi Hendrix, Keith Moon og Reg Presley kannski í góðum gír á mánudegi, fullt af skvísum í mínípilsum. Bjór á barnum. Glaumbær hvað?

Erlingur Björnsson og Engilbert Jensen eru að fá sér. Kannski að ræða bömmerinn yfir því að missa af Jimi Hendrix. Það eru fullt af frægum poppurum þarna, en Hljómadrengir fljúga inn, enda partur af geiminu. Þeir kippa sér ekki upp við frægu popparana, hnippa kannski í hvorn annan þegar trommarinn í Animals gengur í salinn. En þegar sjálfur Paul McCartney birtist með dömu upp á arminn (Lindu?) og eitthvað fylgdarlið þá rjátlast kúlið af Erlingi og Engilbert. Þeir nálgast básinn þar sem goðið situr og kasta vingjarnlegri kveðju á bassaleikara Bítlanna. Hann er þó eins og afundinn hundur og með tóma stæla við sveitamennina, flissar kannski og segir eitthvað snappí við vini sína, sem flissa líka. Erlingur og Engilbert eins og illa gerðir hlutir við bás-endann.

Gítarleikari Hljóma, Erlingur Björnsson, er ljúfur og einlægur gaur. Hann er nýorðinn 23 ára og kann ekki við svona stæla í goðinu. Hann reiðist ekki heldur tekur einlæga svipinn. Segir bassaleikara Bítlanna að þeir séu nú bara aðdáendur Bítlanna og meðlimir í besta og frægasta Bítlabandinu á Íslandi og að það sé nú leiðinlegt að fá svona móttökur.

Hann Palli minn er líka góður gaur og það hreinlega sviptist af honum töffheitin og hrokinn undir ræðu Erlings. Hann verður allt annar maður, biður Hljóma afsökunar og segir rössum í básnum að færa sig svo víkingarnir fái sæti. Erlingur og Engilbert sitja við hlið Pauls McCartney, sem spjallar um daginn og veginn, spyr út í Hljóma og segir að Bítlarnir séu að taka upp efni fyrir Magical Mystery Tour og hvort strákarnir vilji ekki kíkja í stúdíóið á Abbey Road? Hripar niður símanúmerið í stúdíóinu og segir þeim endilega að mæta bara daginn eftir.

Af því varð því miður ekki því Hljómarnir áttu bókað flug heim daginn eftir. Maður hefði breytt flugmiða fyrri minna, en það voru aðrir tímar og erfiðara að breyta flugmiðum. En Erlingur á miðann góða og er búinn að ramma hann inn:

12295216_10205042009186747_330223714_o

Ps. Meistari Mark Lewisohn áritar meistaraverk sitt Bítlarnir telja í í Eymundsson, Skólavörðustíg kl. 17 í dag, fimmtudag.

 

 

Hjá bestu útvarpsstöð í heimi

25 Nóv

2015-11-13 14.21.27

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að WFMU útvarpsstöðin sé sú besta í heimi. Á ferðum mínum til NYC hef ég lengi reynt að troða mér í þátt á stöðinni til að básúna Ísland. Það tókst ekki fyrr en í síðustu ferð þegar Devon E. Levins fékk mig til að tala um íslenska kvikmyndatónlist í þættinum Morricone Island – þáttur sem sérhæfir sig í tónlist úr kvikmyndum. Útvarpsstöðin er í eigin húsi í Jersey City. Meðan ég beið fékk ég mér lasagna í Milano’s við hliðina innan um ekta Jersey löggur, iðnaðarmenn og skólakrakka. WFMU hefur verið starfandi í einni eða annarri mynd síðan 1958. Hún er rekin af algjörum músíknötturum, hver einasti þáttur er keyrður áfram af brennandi áhuga á tónlist og það eru engar helvítis auglýsingar. Þetta er stærsta og elsta „free form“ útvarpsstöð í heimi og hreinasta snilld á allan hátt. Þættir fortíðar eru þarna í haugum, það má hlusta aftur til 1995 eða eitthvað – hrein gullkista.

2015-11-13 13.14.21
Devon er með Íslandsáhuga. Hann fékk smitið á áhugaverðum stað. Hann átti heima í Kaliforníu og átti íslenskan vin í næsta húsi sem þreyttist ekki á að tala fjálglega um landið góða í norðri. Vinurinn var enginn annar en Björgólfur Thor Björgólfsson, sem þegar þarna var komið sögu var ekki orðinn athafnamaður og milljóner. Devon hefur áður verið með Ísland í brennidepli í þætti sínum, hann talaði við Jóhann Jóhannsson á dögunum og hafði áður gert þátt með íslenskri sándtrakkmúsík.

2015-11-13 12.02.44-1
En nú var sem sé komið að mér. Og ég lét gamminn geysa í klukkutíma, spilaði Ellý, Hallbjörn, Ham, Prinspóló og allt þar á milli, auk þess að röfla heil ósköp. Hér er þessi þáttur til hlustunar.

Eftir upptöku fór Devon með mig í skoðunarferð um snilldarstöðina. Hér er upptökuherbergið þar sem ýmsir listamenn og hljómsveitir hafa leikið og sungið.
2015-11-13 14.09.52

Þegar ég var þarna var bein útsending hjá Bryce. Viðkunnalegur gaur:
2015-11-13 14.14.36

Lítill tónleikastaður er á neðstu hæðinni, Monty Hall, þar sem allskonar snilld dúkkar upp. Hið heilaga gral er svo plötusafn stöðvarinnar. Það er sirka 500 fermetrar af unaði en því miður er ekki hverjum sem er hleypt þar inn, svo ég varð að láta mér nægja að slefa á rúðurnar. 
2015-11-13 14.14.54
Lengi lifi WFMU! Vinin í eyðimörk heimsku og leiðinda.

Dr. Gunni og Dr. Eldjárn kryfja Bítlana

24 Nóv

2015-11-24 12.53.07
Nýtt Í kasti með Dr. Gunna!!!

Í þessum þætti af Í kasti með Dr. Gunna er spjallað við Bretann Mark Lewisohn, sem er líklega mesti Bítlafræðingur heimsins um þessar mundir.

Hann skrifar nú sögu Bítlanna í þremur bindum og er fyrsta bindið komið út á íslensku og heitir Bítlarnir telja í. Fyrirhugað er að næstu bindi komi út 2020 og 2028.

Þetta er fyrsta þýðingin sem gerð er af bókinni, sem er nú alveg sturluð staðreynd. Bókin er algjört æði, bæði á ensku og íslensku, og stútfull af nýjum atriðum um sögu Bítlanna, bestu hljómsveitar í heimi (staðreynd!!!)

Bítlaaðdáandinn Ari Eldjárn er aðstoðarspyrill Dr. Gunna að þessu sinni og saman fara þeir með Mark í djúpspaka ferð um Bítlagresurnar þar sem bæði innvígðir, innmúraðir og skemmra komnir fá margt fyrir sinn snúð.

Athugið: Viðtalið er á ensku!

Mark Lewisohn kynnir bókina í hádeginu (12) á morgun, miðvikudag, Í IÐNÓ! Svo verður útgáfuteiti og áritun á fimmtudaginn í Eymundsson, Skólavörðustíg, kl. 17. Bítlaaðdáendur látið sjá ykkur í hrönnum!

Úr poppvélinni

21 Nóv

Poppið vellur úr vélinni sem aldrei fyrr. Hér er glænýtt efni:

Singapore_Sling_Henrik_1024x1024 (1)
Henrik í Singapore Sling hefur sett út sjöunda ásinn, plötuna Psych Fuck. Þar er trallað á svölunum með krumlurnar í poka. Plötuna má sötra hér.


Tók þátt í Karólínafund og fékk að launum sellerí-brakandi ferskan disk með Meisturum dauðans. Ekki láta dúllulegt útlit barnatrommarans villa yður sýn, hér er skrölt í grugguðu þungarokki og engir fangar teknir í linnulausu rallinu. Mjög flott plata hjá strákunum og miklir hæfileikamenn á ferð sem verður gaman að sjá blómstra og þróast.


Sölvi Jónsson er Dölli. Fyrsta plata Dölla var að koma út og heitir Viltu vera menn? og er plata fyrir 2-150 ára. Dölli gæti verið skyldur Megasi raddbeitingarlega séð og dúllar sér í gegnum 17 hittara á plötunni, sem er á leiðinni að verða költ-hitt as ví spík.

a2055750530_16
Ladyboy hefur gefið út splitt-fimmtommu í 50 eintökum með Pink Street Boys og Godzilla. Platan er uppseld en hægt er að hlusta á rjómalagt sandpappírspoppið hér.

Það er alltaf eitthvað til að hlakka til. Ef það eru ekki jólin þá er það næsta ATP sem á að halda á beisinu 1-3. júlí. Þessi þriðja ATP gefur fyrri hátíðum ekkert eftir og dagskráin er þegar orðin mangólassígóð þótt ekki sé búið að tilkynna nema hluta af jömminu. Spennu og hryllingsgaurinn John Carpenter ætlar að flytja tónlist sína í fyrsta skipti opinberlega. Eftir hann er t.d. þetta:


Þá koma fram hljómsveitirnar Sleep, Thee Oh Sees (aftur – komu fyrsta árið), TY SEGALL and THE MUGGERS (Ty átti eina af betri plötum síðasta árs, Manipulator),  Angel Olsen, Les Savy Fav, Tortoise, Anika, Yasmine Hamdan, Blanck Mass, Mueran Humanos, Örvar Smárason & Gunnar Tynes (múm) spila undir Menschen am Sonntag og Stewart Lee verður með uppistand og grín. Stewart Lee er þessi gaur hér:

Björk @50

21 Nóv

0516-BjörkíVeru1986
Björk Guðmundsdóttir er fimmtíu ára í dag. Til hamingju Björk! Það er óþarfi að hafa mörg orð um snilli Bjarkar, áhrif hennar og vægi – allt er það augljós fakta: Hún opnaði dyrnar upp á gátt með Sykurmolunum og Debut og síðan er Ísland og íslensk tónlist ekki lengur aðhlátursefni á bransamessum heldur sífersk uppspretta kúls og hipps. 

Björk hefur aldrei nennt að endurtaka sig og aldrei viljað dvelja í fortíðinni. Hún er alltaf kominn með puttann á púlsinn á einhverju sem er varla orðið til ennþá, á meðan aðrir eru fálmandi á púlsinum á því sem Björk snerti í fyrradag. Hún er „öllu“ íslensku tónlistarfólki skínandi fyrirmynd, gulrótin á stönginni. Hvernig á ég að orða þetta eiginlega? – Já, Björk er æðisleg!

Í tilefni dagsins kemur hér súperdúper sjaldgæfi, framlag Bjarkar til ljóðakassettunar Lystisnekkjan Gloría (Gramm 1986 – 200 eintök). Björk fær aðstoð frá Sigtryggi Baldurssyni í flutningi ljóðanna sem heita Djúp fyrir mig / Lungu / Lifað í vatni (eða: Þið takið frið framfyrir sannleika) / Sálmur 323.

Fyrir sömu jól kom fyrsta smáskífa Sykurmolanna (Ammæli / Köttur). Björk var 21. árs og nýorðin móðir.

Í heimsborginni

19 Nóv

2015-11-17 05.35.14
Skrapp til NYC og gisti sem fyrr á YMCA Westside. Ódýrasta gistingin í stórborginni og alls ekkert sjabbí. Ég myndi kannski ekki bjóða fjölskyldunni upp á þetta en ef maður er einn að flækjast er þetta ókei. Trixið er að borga aðeins meira og fá herbergi á 12. eða 13. hæð. Nóttin á 105$. Klósett með sturtu á ganginum sem maður getur læst að sér (á enn ódýrari hæðum eru sameiginleg baðherbergi). Svo er gymmið þarna legendarí stöff. Tvær sundlaugar með ýkt töff mósaík-skreitingum, gufubað og sauna þar sem maður hittir fastagesti, gamla karla sem voru kannski á beisinu in ðe old deis og maður getur röflað við þá um það. Herbergin sjálf eru hrottalega beisik. Rúmið samt fínt og loftræsting. Ekkert að þessu. 

2015-11-15 11.41.47
Ég fór í viðtal á bestu útvarpsstöð í heimi, WFMU. Þátturinn verður sendur út á mánudaginn svo ég tala um það þá.
 Ég hitti Kidda vin minn daglega. Við fórum og fengum passport handa honum hjá meistara Hlyn í íslenska konsúlatinu. Kiddi segist nú ætla að koma heim eftir 30 ára fjarveru í janúar. Sjáum til…

Við fengum okkur Sigga skyr við hvert tækifæri. Siggi er að gera það gott, skyrið hans er út um allt. Smára skyr er annað dæmi, sem fæst ekki eins víða. Ég náði ekki að smakka það, enda er það ekki til í Wholefoods. Stærðar Wholefoods búð er rétt hjá YMCA á Columbus Circle. Hvílík snilld, þetta er Melabúðin á hestasterum.


Við fórum á ágætis mynd sem heitir Entertainment. Þar er Gregg Turkington í aðalhlutverki og leikur Neil Hamburger, standuppara sem hann er búinn að vera með í mörg ár. Hæg mynd og hrikalega þunglynd, en samt fyndin í hægaganginum og þunglyndinu. Eftirminnileg.


Ef hægt er að tala um hápunkt ferðarinnar til þessarar borgar sem er einn samfelldur hápunktur mannlegrar reisnar og sturlunar, þá er það tvímælalaust ferðin á Broadway-sýninguna The Book of Mormon, eftir þá South Park bræður. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á Broadway söngleik enda hefur mig aldrei langað áður. Leikhúsið, hið flotta og sögufræga Eugene O’Neill, var sneisafullt en við vorum á góðum stað til að njóta veiganna. The Book of Mormon er algjör unaður, fyndið, flott, skemmtilegt, hugvíkkandi – ekkert verið að hrauna um of yfir mormónatrú, þótt það bull sé reyndar með því vitlausasta af mörgum vitlausum trúarbrögðum. Við Kiddi vorum báðir á því að við værum alveg til í að fara á sýninguna strax daginn eftir og svo allavega 3-4 sinnum í viðbót, hvílík snilld sem þetta var.

Rokksögulegar ljósmyndir

12 Nóv

oll_min_bestu_ar_forsida_bok_12083
Nokkuð er um nýjar íslenskar bækur fyrir músíkáhugafólk í ár. Ein þeirra er hin bráðskemmtilega ÖLL MÍN BESTU ÁR sem inniheldur ljósmyndir Kristins Benediktssonar og texta Stefáns Halldórssonar. Kristinn (1948-2012) vann á Mogganum og var sendur á vettvang þegar eitthvað var í gangi fyrir unga fólkið á velmektarárunum 1966-1979. Myndirnir (um 1000 samtals í bókinni) lýsa horfnum heimi poppara, ballspilamennsku, fegurðasamkeppna og Led Zeppelin! Stefán (1949) var poppblaðamaður Moggans á sama tíma, en textarnir í bókinni eru nýjir. Þetta er hreinlega æðisleg bók, uppfull af stemmingu og stuði og veröld sem var. Möst á hverju menningarheimili!

kvartett
Valgeir fyrir Stuðmenn.

hljomar-runni

Rúnni Júl tryllir lýðinn.

skapti72a
Söguleg mynd: Skapti Ólafs á barnaballi 1972. Einn hinna ungu gesta er átta ára Óskar Jónasson, síðar saxófónleikari Oxsmá og leikstjóri. Og talandi um: Þessa metnaðarfullu bíóstyttu sá ég í Smárabíói í gær. Grínmyndin Fyrir framan annað fólk væntanleg í febrúar 2016!
2015-11-11 21.35.39

Risaeðlan snýr aftur!

10 Nóv

2015-11-07 15.55.04
Airwaves búin og þá er bara að fara að hlakka til næstu hátíðar. Aldrei fór ég suður verður um páskana á nýjum stað á Ísafirði (í miðbænum). Hér er Kristján Freyr, einn skipuleggjanda, með plaggat. Og sjá: RISAEÐLAN snýr aftur í fyrsta skipti fullmönnuð í langan langan tíma. ÍÍÍÍÍ-HA!!!!