Sarpur | júlí, 2014

Á Suðurfjörðunum

30 Júl

Fórum „hina leiðina“ vestur. Sem sé ekki malbikuðu leiðina út Ísafjarðardjúp heldur hina fáfarnari Suðurfjarðarleið. Ýmislegt skemmtilegt er þar að hafa.

Við Flókalund er Hellulaug, heit náttúrulaug í fjörunni. Kósí en mætti vera heitari. Þar ofan í hitti ég sömu Þjóðverjana þrjá og ég hafði hitt í Fosslaug í Skagafirði. Rauðasandur er töff. Vöfruðum þar aðeins um og tékkuðum á stálskipinu sem er strand. Það er reyndar ekki strand á Rauðasandi, heldur hinum megin.

2014-07-28 18.01.51
Patreksfjörður er næsari. Gistum í hinu glæsilega Ráðagerði hostel (19.000 f/ 4). Kaffi í Stúkuhúsinu og matur í Heimsenda. Þar sýndist með Díana Ómel ráða ríkjum. Matseðillinn er breytilegur en við fengum steinbítskjálka (3.600 kr) og Lamba-fillet (4.600 kr). Hvort tveggja mjög fínt og þetta er mjög viðkunnalegur staður (3 stjörnur).

2014-07-28 21.06.47
Til Tálknafjarðar hef ég líklega aldrei komið áður. Þar fyrir utan bæinn er „Pollurinn“, þrír heitir og ókeypis pottar með hráu skiptihúsi og sturtu. Stærsti potturinn var svo funheitur að við gátum ekki notað hann, en hinir tveir voru meira en brúklegir.

2014-07-29 12.17.23
Þræl-tjillaður fór maður í Café Dunhaga á Tálknafirði í „Bestu fiskisúpu á Vestfjörðum“ (1.490 kr) eins og staðurinn fullyrðir. Hún var mjög góð en ég hef alveg fengið betri súpur (3 stjörnur). Café Dunhagi er mjög góður staður sem ég mæli með.

Á Bíldudal þræddum við Skrímslasetrið (1.000 kr f/ yfir 10 ára) sem er mjög gott safn og skemmtilegt. Hið stórfenglega safn Melódíur minningana var ekki heimsótt að þessu sinni en við skröltum út í Selárdal til að skoða verk Samúels Jónssonar. Þar er uppbygging í gangi á húsinu hans sem á að vera aðstaða fyrir lista/fræði-menn og búð. Alltaf frábært að koma þarna.

2014-07-29 15.52.24
Á leiðinni inn skagann til Selárdals er Hvestudalur sem hefur upp á að bjóða rauða sandströnd og glæsilegt útsýni yfir Arnarfjörðinn. Þar vildu einhverjir bandbrjálaðir „athafnamenn“ koma á fót eldspúandi olíuhreinsunarstöð fyrir rússnesku mafíuna eða eitthvað álíka. Gjörsamlega sturlaðar hugmyndir sem voru sem betur fer kæfðar í fæðingu. Þarna rákumst við á Þröst Leó sem stundar nú sjóinn og hefur gefist upp á leikhúsinu af því launin eru svo léleg.

Frá Bíldudal til Þingeyrar er ferlegur malarvegur en alveg til Bíldudals er alveg þokkalegur vegur. Ég held að meirihlutinn af fólkinu sem við sáum hafi verið útlendingar á bílaleigubílum, en þó mæli ég með þessum Suðurfjörðum fyrir alla sem vilja upplifa eitthvað nýtt og skemmtilegt, hrikalega náttúrufegurð, heita frípotta, skemmtileg söfn og góðan mat.

 

Rauða hverfið á Hvammstanga

27 Júl

„Eldur í Húnaþingi“ heitir bæjarhátíðin sem nú stendur yfir á Hvammstanga. Ég hef gúffað í mig ókeypis lambakjöti sem hér var í boði í gær, skotið af boga og keypt tvær Öldin okkar (1900-1930 / 1961-1970) í ágætum nytjamarkaði. Bærinn er skreyttur og ég er í „rauða hverfinu“. Fólk tekur þetta misalvarlega. Sumir eru „all in“:
10543654_10204897505464314_3954030960310796477_n
Á meðan aðrir sleppa með minimalískar útfærslur. Þetta er mitt uppáhalds:
1910483_10204897506264334_3084923416312591716_n
Svo var ég að vafra í fjörunni og rakst á þennan fugl/engil sem varð til fyrir algjöra tilviljun og samspil fiskbeins og smásteins sem var fastur neðan á uppþornuðu þangi:
10570553_10204890072158486_6905436362584514543_n

Haust, Börn, Kvöl…

25 Júl

haust_b
Maður er nefndur Hörður Már Bjarnason. Hann býr til rafræna popptónlist og kallar verkefnið M-Band. Það kom fín EP plata með honum 2012 og í næstu viku kemur fyrsta platan „í fullri lengd“ og kallast hún Haust. Platan verður fáanleg á stafrænu formi á bandcamp síðu Raftóna frá og með 28. júlí næstkomandi, en verður síðan fáanleg hjá öllum þeim vefverslunum sem máli skipta þann 16. ágúst. M-Band hefur verið að duglegur að koma fram á hinum viðburðum sl. ár, einsamall eða sem gestaleikari með ýmsum sveitum (t.a.m. Tonik og Nolo). 

Á sinni fyrstu breiðskífu, Haust, býður Hörður upp á átta tónverk, þar sem hann blandar saman rafrænum og lífrænum hljóðfærum – ásamt því að fullkomna blönduna með sinni sérstæðu söngrödd. Breiðskífan verður einnig fáanleg í geisladiskaformi í nokkrum vel völdum plötubúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er mjög fínt stöff, seigfljótandi rafmassi í melódískri lúxussósu. Fáum tóndæmi:

M-BAND – All is Love

a2648306987_10
Hljómsveitin BÖRN spilar drunganýbylgjupönk og hefur gefið út sjö laga 12″ EP plötuna Börn sem fæst í Lucky etc. Hér er spilað eins og verið sé að spila í áheyrnarprófi fyrir Rokk í Reykjavík, ekkert tíst og brak, sem sé, heldur kraftur og drungi. Hin ferski/gamaldags en umfram allt gerðarlegi síðdrungi er áhlustanlegur á Bandcamp-síðu Barna.    

a3635101768_10
Börn heldur upp á útgáfu plötunnar með tónleikum á Dillon í kvöld, föstudaginn 25. júlí, kl. 10. Ásamt Börnum mun hljómsveitin Kvöl stíga á svið en þau settu nýja EP plötu á netið nýlega (sem er líka til á míní-cd á völdum útsölustöðum). Kvöl gætu líka verið í Rokki í Reykjavík, spila syntavæddara drungapönk en Börn og fá gamla jálka til að slefa þegar þau telja upp áhrifavalda sína: Suicide, Kraftwerk, The Fall, Wire, The Cramps, Bauhaus… Nett stöff! Á EP plötu Kvalar má hlusta á Bandcamp-síðu sveitarinnar.

 

Skagafjörður er frábær!

23 Júl

2014-07-21 17.53.27
Við Birgir skruppum til Skagafjarðar. Þar er umhorfs eins og á plötuumslagi með Helga Björns og Reimönnum vindanna, fnæsandi hestar um allar trissur. Þetta sáum við á öðrum degi því á þeim fyrsta sáum við bara þoku. Í brauðmolasundlauginni á Hofsósi sáum við því miður ekki hið fræga útsýni yfir Skagafjörðinn heldur bara þoku. Á Sauðárkróki átum við á Kaffi Krók (ég fékk ágætan skammt af grilluðum kótilettum) og helltum aðeins í okkur á Micro Bar & Bed þar sem Hugleikur er upp um alla veggi og hægt er að kaupa 80 tegundir af bjór, þ.á.m. ýmsar tegundir af
Gæðingi, lókal stöffinu. Svo að sofa í tjaldi.

2014-07-21 10.28.21
Þokan farin um morguninn. Morgunmatur í bakaríinu og svo litið í Verslun H. Júlíussonar þar sem Bjarni Har ræður ríkjum. Búðin  hefur verið starfandi síðan 1919 og þar er stórglæsilega fornlegt innandyra. Tveir lókal meistarar voru á svæðinu, bara til að rabba um daginn og veginn sýndist manni, og var þessi upplifun öll hin stórfenglegasta. Birgi bauðst m.a.s. vinna við að tala ensku við erlenda gesti og ég var næstum búinn að kaupa gúmmískó, en þeir voru bara til í 44.

2014-07-21 15.37.13
Yfirlýst markmið ferðarinnar var að labba á Mælifellshnjúk (1147 m), eitt besta útsýnisfjall landsins að sögn. Leiðin er stikuð og sóttist vel. Á leiðinni fundum við Finn Ingólfsson, sem var að koma niður í ferðahópi. Við gleymdum umsvifalaust að við hötum Finn Ingólfsson og buðum góðan daginn. Birgir hafði á orði hvað hann væri orðinn massaður, líklega til að geta varið sig í eftirköstum hrunsins. Helvítis þokan var lögst á aftur svo við sáum ekki þetta magnaða útsýni, sjö jökla og 70 sýslur eða hvað þetta er, en frábært labb engu að síður.

2014-07-21 18.36.53
Við vorum með lókal skúbb um leynilaug á bakvið foss, Fosslaug, sem var hreinlega unaðsleg. Þetta er svo mikil öndergránd laug að hennar er ekki getið í heitu lauga bókinni sem ég á. Rétt hjá er líka Reykjafoss sem er glæsilegur foss. Grettislaug er víst orðin of kommersíal, búið að byggja við hana og byrjað að selja inn, svo þessi var málið. Átum síðan á Bakkaflöt (Tómatsúpu), en þarna gengur allt út á river rafting, að flengjast niður gráar og straumþungar Jökulsárnar, sem er eitthvað sem ég mun aldrei þora.

2014-07-21 21.43.31
Næst lengst inn í dal til að tékka á Bakkakoti, torfbæ sem pabbi ólst upp á í rafmagns- og þægindaleysi. Þar voru ræturnar vökvaðar og reynt að lífða staðinn við í huganum; fara aftur um 80 ár og ímynda sér krakka á hlaupum og stritandi fólk.

2014-07-21 22.00.15
Rétt hjá rennur Jökulsá vestri. Þar á bakkanum er heit uppspretta þar sem amma og kó þvoði fötin. Það var allt eitthvað svo mikið mál í gamla daga, engin þægindi, en á móti kom að fólk virðist ekki hafa verið að stressa sig neitt á einhverju kjaftæði. Geðlyfjanotkun því minni en nú.

2014-07-21 22.07.18
Gamall Chesterfield sófi er þarna líka og má muna fífil sinn fegurri (þótt fíflarnir í honum hafi reyndar verið mjög fagrir).

Sauðárkrókur og Skagafjörður er alveg hreint frábært stöff (þrátt fyrir hesta og Skagfirðinga (sem voru reyndar allir mjög elskulegir)) og maður er endurnærður og upprifinn eftir þessa fínu ferð.

Horfnir áfangastaðir

20 Júl

eden
Fór í bíltúr til Selfoss í gær. Í sæmilegum nytjamarkaði fann ég þetta póstkort af Eden (50 kr). Fyrir á ég póstkort af Staðargamla (þeim gamla). Kannski má því segja að ég eigi „safn“ af póstkortum af horfnum áfangastöðum á landsbyggðinni.

Stadarskali
Bestir þóttu mér spilakassarnir í kjallara Staðarskála, pinball og allskonar fínerí. Víðsvegar voru svo spilakassar Rauða krossins sem reyndu á puttafimi notenda. Hér má rifja upp gamla takta og spila í svona kassa onlæn.

Margt annað er horfið. Botnsskáli og Essoskálinn í Hvalfirði hurfu þegar göngin opnuðu en Ferstikla stendur enn vaktina. Hvalfjörðurinn er okkar Route 66. Brú í Hrútafirði tók upp á því að gufa upp einn daginn. Svo snyrtilega var gengið frá að við föttum aldrei hvar staðurinn var þegar við keyrum framhjá.

fornihvammur
Fornihvammur er staður sem mig rámar í á Holtavörðuheiði. Þar er flest horfið. Ætli það sé virkilega ekki markaðurinn fyrir nýja og spennandi áfangastaði við þjóðveg 1? N1-sjoppurnar drepa náttúrlega alla úr leiðindum.

 

Etið víðsvegar í hádeginu

20 Júl

Gaman er að fara út að borða, ekki síst vegna þess að þá þarf maður ekki að ganga frá eftir sig né vaska upp. Mun ódýrarar er að eta í hádeginu en á kvöldin. Þess vegna fara nískir eins og ég út að borða í hádeginu. 

Friðrik V á Laugarvegi er sannarlega fínn staður og ódýrt er að fá sér rétt dagsins í hádeginu (1.750 kr). Fengum stafasúpu sem var full mikið leikskóladæmi fyrir minn smekk og bragðgóða smálúðu með meðlæti. Lúðan var fín en svo sneisafull af beinum að ég nennti ekki borða stykkið allt. Aldrei vitað annað eins beinafargan. Þrjár stórbeinóttar stjörnum fær Friðrik V. Ég er alveg til í að prófa aftur og vona þá að ég fái ekki annað eins beinadæmi.

Rétturinn í Keflavík er Múlakaffi Suðurnesja með „heimilismat“ á boðsstólum. Fékk mér bland af purusteik og kjúklingi með meðlæti á haugaðan disk (1.800 kr). Ljómandi fínt bara. Steini fannst þó steikta ýsan sem hann valdi frekar slöpp. Tvær stjörnur sem sé.

Fresco er glænýr salatstaður á Suðurlandsbraut. Lítur út eins og erlend keðja en er það kannski ekki (?). Sama system og að panta pizzu nema maður pantar salat – bæði hægt að búa til sitt eigið eða velja forvalið salat. Sniðugt og hollt. Ég fór í forvalið, „Fresco Oriental“ (1.490 kr) sem var reglulega gott og skammturinn seðjandi. Fer þarna pottþétt aftur og prófa meira. Fjórar stjörnur.

Meze Laugavegi 42 er tyrkneskur veitingastaður. Smáréttirnir heilluðu mest. Boðið er upp á þrjá ákveðna smárétti í hádeginu á 2.190 kr. Við splæstum í þannig disk og Meze platter á 2.890 kr og vorum því komin með 6 smárétti samtals ég og Lufsan sem við skiptum á milli okkar. Allt smakkaðist vel, en mér fannst þetta nú full dýrt miðað við magn og gæði. Þrjár stjörnur.

Mikið vona ég svo að veitingahúsaflóran stækki hér enn og einhver fari að bjóða upp á líbanskan mat eða álíka Norður Afríku dæmi. Kannski verður veitingahús í nýju Moskunni – en kannski má það ekki því gæti guð orðið alveg brjálaður? 

 

Úldið (Myglað) í Nóatúni

18 Júl

2014-07-18 12.42.39
Ég er svaka sólginn í svona kleinuhringja-ferskjur (eða hvað þetta heitir). Þetta er árstíðarbundin vara eins og kirsuberin (annað uppáhald) og bara til í 1-2 mánuði á sumrin. Framvegis mun ég þó muna að kaupa þetta ekki í forpökkuðum umbúðum heldur þukla hvern ávöxt í lausu. Það er fáránlega svekkjandi eftir að hafa étið 2 ferskur (sem voru frekar vondar) að restin sé orðin svona daginn eftir að maður kaupir þetta. Nóatún bauð upp á þennan viðbjóð. Líklega best að hætta bara að eiga viðskipti við Nóatún – rándýr búð og léleg.

Myndbönd með S.H.Draumi

18 Júl

Hefi framleitt S.H.Draums myndbönd á færibandi eftir að ég kom gamalli VHS spólu á stafrænt form í Myndbandavinnslunni. Við vorum alltaf að skjóta strákarnir, fyrst með VHS upptökuvél (Bensín skrímslið videóið) og svo með 8mm tökuvél sem gefur þessa fallegu áferð. Það var alltaf markmiðið að búa til myndbönd og fá þau sýnd í Skonrokki. Bensín skrímslið videóið (E-6) kláruðum við aldrei. Hið metnaðarfulla myndband við Öxnadalsheiði (E-13) kláruðum við ekki fyrr en safnplatan Allt heila klabbið kom út 1993, sex árum á eftir áætlun.
Myndband við Græna frostpinna (E-18) kláruðum við og fengum sýnt í sjónvarpinu. Síðan notuðum við myndefni úr sama sessjóni til að gera myndband við lagið Bimbirimbirimbamm og fengum það líka inn í Skonrokk.

Konni rokkar!

17 Júl

10436038_10204469743930543_8914748510085106494_n
Hér eru þeir Baldur og Konni að trylla lýðinn 1953. Baldur er eini búktalarinn sem hefur gert það gott hér á landi á og voru þeir félagar hott ætem í Tívolí. Eitthvað fór síðan að halla undan fæti og það hefur verið sagt mér að Baldur hafi verið á vertíð einhversstaðar örlí 80s og þá hafi Konni legið í tösku undir rúminu hans. Nú berast fréttir af nýju lagi með Stuðmönnum sem heitir einfaldlega Baldur og Konni og bíð ég auðvitað spenntur eftir því.

0213-Þrír góðir að skemmta, Baldur, Konni og Ómar Ragnarsson
(Á þessari mynd hefur Ómar Ragnarsson slegist í hópinn)
Þeir kumpánar Baldur og Konni gáfu út nokkur lög á seinni hluta fiftís, öll á vegum HSH, Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur. Sex 78 sn plötuhliðar komu með Konna og stórsöngvaranum Alfreð Clausen (Allir krakkar /Allir krakkar // Hurðaskellir og Konni 1/ Hurðaskellir og Konni // Búkolla í Bankastræti /Konni rokkar (syrpa) – allt 1957). 

Konni_og_Skapti_-_Í_sveitinni_-_A-hlið_-_umslag_-100p
Ári síðar kom þessi 45 sn þar sem Skapti Ólafsson var orðinn besti vinur aðal í lögunum Í sveitinni og Konni flautar. Þá var líka 2 lögum af 78sn smellt á 45sn, Búkolla og Allir krakkar.

Ég  keypti nýlega 2 af þessum 78sn plötum í Háaloftinu á Akureyri; Hurðaskellis-plötuna sem ég mun blogga þegar jólin koma og svo hið mikla meistaraverk Búkolla í Bankastræti og Konni Rokkar. Gjössovel:
0203-Konni og Alfreð Clausen. Baldur Georgs að öllum líkindum ekki langt undan
Alfreð og Konni – Konni rokkar

Alfreð og Konni – Búkolla í Bankastræti

Felix syngur Í kvöld

17 Júl

felix-borgin
Felix Bergsson hefur gefið út plötuna BORGIN, sína aðra plötu. Hann syngur 10 lög eftir Eberg, Ottó Tynes, Jón Ólafsson, Sigurð Örn Jónsson, Karl Olgeirsson og eitt eftir mig, Í kvöld; lag sem ég samdi í þeim tilgangi að búa til páverballöðu. Strákarnir héldu í sándið af demóinu, hrátt keyrandi bassatrukk og syntadútl. Flott útkoma, finnst mér, og hin fínasta poppplata hjá Felixi vini mínum.

Svo er það Popppunkturinn: Það hefur ekkert verið ákveðið um framhald, en mér finnst nú gráupplagt að fara að huga að endurkomu, enda fullt af nýjum hljómsveitum komnar upp sem hægt væri að bjóða í þáttinn. En allavega, hér er Í kvöld:
FELIX BERGSSON – Í KVÖLD