
Túrismi er síld samtímans. Einu sinni fylltist allt af síld og afhafnamenn komu upp síldarverksmiðjum um landið. Þá var hamagangur á síldarplönum og pöbullinn fékk djobb. Svaf jafnvel standandi í uppgripunum miklu. Nú hefur allt fyllst af túristum og athafnamenn koma upp hótelum um allt land og borg. Nú eru uppgrip og pöbullinn fær djobb í lobbíum og við herbergjaþrif. Lobbíin eru síldarplön samtímans.
Síldin hvarf og verksmiðjurnar hafa grotnað niður síðan. Í Ingólfsfirði, Djúpuvík og Hjalteyri standa verksmiðjurnar og láta tímans tönn jappla á sér. Hótelið á Djúpuvík selur inn í verksmiðjuna þar og er með leiðsögn. Á Hjalteyri hafa verið haldnar listsýningar. Þegar ég kom síðast (og í eina skiptið) í Ingólfsfjörð var ekkert að gerast í gömlu verksmiðjunni. Maður gat enn gluggað í gamalt bókhald sem lá í möppum. Svona þéttbýlishnignun – Urban decay – er heillandi. Það er fullt af liði sem gerir sér sér-ferðir til að vafra um hnignunarsvæði. Urban exploration er það kallað. Íslensku eyðibýlin eru partur af þessu, ég væri fyrir löngu búinn að fá mér allar eyðibýlabækurnar ef ég tímdi því.
Nú ætla ég ekki að vera með einhverja svartsýni, en hvað ef túristarnir hyrfu eins og síldin? Ef engir kæmu nema eldfjallaþjóðverjar í lopapeysu með sykurmola í vasanum og Westur-Íslendingar að leita upprunans? Ég býst við að nærtækast væri að leysa húsnæðisvanda almennings með aflögðum hótelum.
Margir kvarta nú sáran yfir túristatorfunum sem flæða yfir landið, í alltof miklum mæli miðað við innviði landsins. Meira að segja túristarnir sjálfir kvarta. Það er alltof mikið af túristum hérna, sagði túristinn. Ég skil ekki afhverju ekki er fyrir löngu búið að koma upp einhverri beinni tekjuöflun í sambandi við þetta. Ég þarf að borga 20$ þegar ég fer til USA (ESTA dæmið) og læt það ekki stoppa mig. Það myndi ekki nokkur maður láta 2000 krónu komugjald (eða hvað það væri) stoppa sig í að koma hingað. Milljón túristar gera tvo milljarða. Er ekki hægt að koma upp nokkrum klósettum fyrir það? Jafnvel einum, tveim göngustígum? Jafnvel breikka vegi (fáránlegt að það sé ekki tvíbreitt báðu megin frá RVK til Borgarness og RVK til Vík). Útrýma einbreiðum brúm á hringveginum. Afhverju er ekkert gert? Hvaða sinnuleysi er þetta árum saman? Er svona leiðinlegt í vinnunni hjá þeim sem eiga að sjá um þessi mál? Allir í kvíðakasti og depurð? Komugjöld strax og ekkert kjaftæði.
Frá því í maí hef ég verið með puttann á púlsinum. Ég fór að vinna í útivistabúðinni Fjallakofinn í hinu sögufræga húsi að Laugavegi 11 (útsalan byrjar á þriðjudaginn!) og er í torfunni miðri daginn út og inn. Ég er alveg að fíla þetta vel. Kúnnarnir eru sirka 90-95% túristar og flestallir mjög hressir (eins og maður er yfirleitt á ferðalögum). Allskonar fólk, allra þjóða kvikyndi. Margir að fara að hæka Laugaveginn og ef þeir spyrja hvar þeir geti verið sem mest í túristafríu umhverfi bendi ég þeim á Hornstrandir (og sel þeim kort, gaskút og sokka í leiðinni). Ísland er langt í frá sprungið þótt nokkrir staðir séu komnir að þolmörkum. Það er allt í lagi, ég er búinn að labba bakvið Seljalandsfoss, búinn að sjá G&G, Dyrhólaey, Jökulsárlón og búinn að fara nógu oft í Bláa lónið. Þegar við gengum á Seljafell á Snæfellsnesi um daginn sáum við ekki hræðu. Ísland er tómt að mestu fyrir utan nokkra bletti, sem maður skyldi forðast ef maður nennir ekki 20 rútum og 200 Kínverjum í halarófu.
Ég er mjög ánægður með lífið á Laugaveginum núna. Það er iðandi af fólki, nánast eins og stórborg erlendis. Ég man vel eftir því þegar enginn var þarna. Stemmingin á sunnudegi: Maður kom af mynd í MÍR, blaðadrasl fauk um eins og tumbleweed í kabbojmynd, eina lífið var í bílum sem silaðist niður rúntinn, doðinn eins og á auðu bílastæði við moll. Ég sé ekkert eftir þessari stemmingu þótt nostalgían sé fín.
Steinþór Helgi Arnsteinsson spurði nýlega á Facebook: Getið þið nefnt einhverja hluti sem eru afleiðing túristavæðingarinnar sem eru actually beneficial fyrir íbúa miðborgarinnar og Reykvíkinga almennt? KEX, matarmarkaður á Hlemmi, lokun Laugavegsins, Snaps, happy hour á öllum stöðum, uppbygging á Granda… hvað fleira?
Hér eru nokkur svör:
Fleiri veitingastaðir. Fleiri verslanir. Uppbygging miðborgarinnar. Aukin störf. Fjölbreyttari störf.
Það er skemmtilegra og áhugaverðara að fá sér göngutúr um miðbæinn.
Lokun Laugavegs gengur ekki upp sem jákvæð afleiðing nema honum yrði actually lokað, a.m.k. frá Barónsstíg. Það er bókstaflega ekki pláss til að ganga Laugaveginn frá Baróns upp að Vatnsstíg eins og sakir standa.
* Svokallad turista-svig!
Líf kviknar í úthverfunum því lókallinn heldur sig frá átroðningnum í miðborginni. Í framtíðinni fáum við vonandi litla skemmtilega „miðbæi“ víðar og góð kaffihús, pöbba og veitingastaði þar.
* Hugsanlega það besta við þetta alltasaman, Íslendingar eru farnir að sjá möguleikana í öðrum hverfum en 101.
* Algerlega. Lífið sem hefur kviknað í kringum Hlemm og upp í Hlíðar í austurátt og allt gúmmelaðið við höfnina í vesturátt hefur teygt verulega á bænum og heldur vonandi áfram að gera það í báðar áttir.
Fleiri tækifæri fyrir tungumálafólk.
Íslensk hönnun selst betur og þar af leiðandi er betri grundvöllur fyrir því að starfa sem hönnuður (vöru og fata serstaklega)
Fleiri gestir á öldurhúsum borgarinnar, miðvikudagskvöld og sunnudagskvöld eru að virka betur fyrir eventa t.d.
Nauðsynlegt viðhald á allskonar húsum fær loks spark í rassinn. Pirrandi núna en verður nice þegar það er búið. Þangað til bólan springur og húsin byrja að drappast niður aftur.
Betra mataræði. Enginn getur borðað bæjarins bestu pylsur lengur útaf röðinni.
Fólk á öllum hornum að taka myndir og njóta – og það lætur mann líta oftar upp og njóta þess sem fyrir augum ber. Auðvelt að gera homeexchange ! Hærra íbúðarverð – ef maður vill selja.. Væri óskandi að almenningssamgöngur væru að lagast, bílar væru á leið út og það væri aukin samkeppni í vöruverði….
Auðveldara að selja upp miða á viðburði… Auðveldara að halda úti veitingastöðum… Raunverulega betri gæði í flestu..
Eftir nokkur ár getur maður farið til útlanda án þess að heyra „Wow, you’re from Iceland?!“.
Helvítis túristar! Þeir eru búnir að eyðileggja gömlu góðu draugaborgina mína.