Sarpur | júní, 2012

Ísbíllinn mætir

27 Jún

Ding dong ding dong! Ísbíllinn mætti og allir krakkarnir í hverfinu og ég hlupu út. Glæsilegt framtak hér á ferð og mjög metnaðarfull útgerð. Íssalinn sagði mér að það væru átta ísbílar í umferð í sumar. Á heimasíðu Ísbílsins sést hvar bílarnir eru og verða staddir næstu dagana.

Loksins alla leið á Syðstu Súlu

27 Jún


Syðsta Súla er hæsta Botnsúlan, 1093 m.y.s., og gnæfir eins og svissnesku alparnir yfir Þingvöllum. Súlan er ekkert lamb að leika sér við. Í gær gerði ég þriðju tilraun til að komast á toppinn. Í fyrstu ferð fór ég á einhvern geðveikan fjallakamb (sem manni er sagt að fara í bókinni Íslensk fjöll), en sprakk á limminu á miðjum kambi og snéri við vegna yfiþyrmandi lofthræðslu. Í annarri ferð fór ég aðra leið, inn í hálfgerðan dal og upp á hlið. Þá var snjór yfir öllu og svo hált að ég lét hálkufóbíuna ná tökum á mér og snéri við nokkra metra frá toppnum.

Það var því að duga eða drepast í gær.

Við vorum tvo tíma að klöngrast inn í dalinn milli Syðstu Súlu og næstu súlu við hliðina. Stórgrýtt og laust í sér en bara málið að hjakkast áfram. Hlíðin sem þurfti að fara upp var allt annað en árennileg, svimandi bratt og snjór á leiðinni. Ég var eiginlega næstum því búinn að gefast upp í þriðja skiptið, en ætli það ekki verið óþekktum Rússa að þakka að ég fór alla leið. Hann kom niður af toppnum þegar við vorum að fara upp og sagði að þetta væri ekkert mál.

Svo jæja, upp helvítis hlíðina og í gríðargott útsýni til allra átta. Annað eins klöngur niður og málið dautt. Systa Zúla er komin af aumingjalistanum.

Fjallganga er náttúrlega eins og lífið sjálft. Auðvelt að gefast bara upp á miðri leið, en ef maður bítur á jaxlinn og klárar helvítis brekkuna þá verður allt í lagi og maður montnari með sig eftir á.

Ööö, eða eitthvað þannig.

Töff kaggi #6

25 Jún


Töffaðasti kagginn í Vesturbænum er án efa þessi skronster svarti Packard Ultramatic Drive frá sirka 1954. Hann kemur bara út á sumrin og er mikill vorboði. Keyri maður framhjá getur maður minnst gamalla tíma þegar mannkynið hafði mikla yfirburðarhugmyndir um hlutverk sitt á jörðinni og taldi sig geta vaðið yfir heimska náttúruna á stífbónuðum ofurbílum. Það eru reyndar risavaxnir einkabílar enn við líði, en enginn þeirra er jafn fágaður og Packardinn og hinir ofurkaggarnir frá þessum tíma.


Talandi um fágun. Sjáðu bara húddskrautið, þennan glansandi fugl, sem er að taka sig til flugs. Verður húddskraut fágaðra en þetta?

Enn meiri Popppunktur!

22 Jún


Hér má sjá glæsilegan leiksigur í kynningarmyndbandi fyrir nýja seríu af Popppunkti. Nú stefnum við saman allskonar fólki í því sem við köllum Baráttu stéttanna. Þetta verða ekki nema átta þættir í sumar – sjö undanúrslita og í áttunda þættinum keppa tvö stigahæstu liðin til úrslita.

Við verðum á föstudagskvöldum í sumar, byrjum 6. júlí. Þá keppa lið Heilsunuddara og lið Útfararstjóra!

Bestu íslensku lögin til þessa í ár

20 Jún


Jess sör. Var að drita þessu líka fína mixi á 8tracks. Nú eru það  14 bestu íslensku lögin til þessa 2012. Gjörðu svo vel!

Annað stórmenni sjötugt

20 Jún


Nei heyrðu mig nú! Er bara enginn friður fyrir sjötugum stórmennum? Hann Brian Wilson er sjötugur í dag, tveimur dögum á eftir Palla. Sá hann í Glasgow 2004 þegar hann túraði endurvakið Smile. Mikil gleði. Áhugi minn vaknaði eiginlega fyrst þegar ég las ævisöguna sem gúrúinn Landy skrifaði um Brian (þeir eru saman á mynd hérna að ofan). Hún var sterk en víst öll í ruglinu, eins og síðar kom í ljós. Brian er svona náungi (get ég ímyndað mér allavega, ekki eins og ég þekki hann eitthvað) sem lætur ráðskast  með sig. Nýjasta nýtt er að hann er að túra nýju Beach Boys plötuna, sem er, e hemm, ágæt (miðað við fornmenni).

Ef svo ólíklega vill til að þú hafir aldrei pælt í Brian og Beach Boys þá áttu gleði framundan. Hér er Vega-tables af Smile-inu og Palli að sögn í riþmasveitinni á selleri (ef ekki gulrót).

Bassaleikari Bítlanna á afmæli

18 Jún


Það er ekki á hverjum degi sem Paul McCartney er sjötugur. En það gerðist þó í dag. Það er heldur ekki á hverjum degi sem ég sé Paul McCartney á tónleikum en það gerðist þó 2005 þegar ég varð sjálfur fertugur. Alveg magnað. Enda Palli magnaður gaur. þetta var draumfagurt gigg og ekki spillti magnaður félagsskapur fyrir, Grímur Atlason og trommarinn í Sonic Youth. Í tilefni dagsins ætla ég ekki að hlusta á neitt með Bítlunum. Allir aðrir dagar eru góðir til þess.

Annars er það helst að frétta að ég er um það bil að verða geðveikur á því að safna myndum í hið hnausþykka stuðverk sem kemur í haust. Það þýðir ekkert minna en að troða svona 1.500 myndum í þetta þrekvirki…

Ég var á Hvammstanga um helgina og sá sel í fjarska.

Bless á meðan!

Stórtónleikar fyrir Davíð Örn

15 Jún

Þann 21. júní n.k. klukkan 20.45 verða tónleikar í Austurbæ til styrktar Davíð Erni Arnarssyni og fjölskyldu hans. Davíð greindist með krabbamein í hálsi í janúar 2008 og hefur barist hetjulega við þennan erfiða sjúkdóm. Davíð hefur verið studdur dyggilega af konu sinni Karen Björk, saman eiga þau dótturina Hrafnkötlu Rún en fyrir á Karen Brynju Vigdísi.

Eins og gefur að skilja hefur Davíð ekki getað stundað vinnu í langan tíma. Að framfleyta sér og fjölskyldu sinni kostar sitt og því hefur verið ákveðið að blása til sóknar og halda þessa tónleika. Tryggið ykkur miða, styrkið gott málefni og sjáið frabæra tónlistarmenn.

Ef þið hafið ekki tök á að mæta á tónleikana, en langar að leggja ykkar af mörkum, er bent á styrktarreikning: 324-26-171105 kt. 171180-5549.

Tryggið ykkur miða, styrkið gott málefni og sjáið frábæra tónlistarmenn.

Þeir tónlistarmenn sem munu m.a. koma fram eru:

Björgvin Halldórsson
Bubbi Morthens
Sálin hans Jóns míns
Brimkló
Krummi
Dúndurfréttir
Sigga Beinteins
Jón Jónsson
Illgresi
1860
Kalli
Soffía Karlsdóttir, Esther Jökulsdóttir og Of The Saints og Boogie Street
Guðrún Árný Karlsdóttir
Ofl.

MIÐI ER MEÐ MIÐANA!

Kanínuplága í Ellíðaárdal

15 Jún


Hjólaði að gamni mínu upp í Moggahöll í gærkvöldi, hring og til baka. Veður var eins og best gerist erlendis – a.m.k. í þeim löndum sem við „berum okkur saman við“. Fátt merkilegt bar fyrir augu, nema tveir fullur Króatar (þeir voru allavega í króatískum fótboltabolum) sem voru með læti milli akgreina á Miklubraut. Í Elliðaárdal sá ég svo fleiri kanínur en ég hef áður séð á einum stað, örugglega tuttugu stykki sem flatmöguðu á grasbletti í kvöldsólinni. Hinn hörmulegi myndavélasími náði þeim ekkert sérlega vel. Það kæmi mér ekki á óvart ef einhver myndi tala um kanínuplágu í þessu sambandi.

Kolabrautin og Elvis

11 Jún

Fyrir Elvis fórum við á Kolabrautin, hinn fína matsölustað í Hörpu. Ég verð nú að segja alveg eins og er að Munnharpan, kaffihúsið á 1. hæð, er ósjarmerandi og óspennandi og manni langar ekkert að koma þangað. Alltof mikill mötuneytisfílingur. Ef það væri almennilegt Kaffihús í Hörpu – jafnvel bara útibú frá Kaffitári – færi maður mun oftar og fengi sér kaffi í Hörpu.

En allavega, Kolabrautin er svaka fínt eðalveitingarhús. Var nú borið í mann hvílíkt eðalfæði. Fyrst eitthvað gúrkulaxasalat og allt í froðu og listrænu smágumsi. Næst ýmis spjót stungun í trédrumb. Þá silkimjúkt lambakjöt. Allt smakkaðist þetta alveg geðveikt vel. Svo eftirréttur sem var aðallega mangó og ekki var það minna geðveikt. Kolabrautin er sem sé svona geðveikt góður froðu og smágums-staður og næst þegar ég verð sæmilega efnaður fer ég aftur.

Elvis Costello var með 7 gítara á lager sem hann strömmaði hátt í 3 tíma og tók öll sín frægustu lög og mörg önnur. Í tveimur lögum var hann með undirspil á bandi sem var flott. Hann hamraði flygil í einu og ukulele í öðru. Svo flautaði hann svona snilldarvel. Alveg í Ómars Ragnarssonar klassa. Við vorum upp á 5. hæð og Lufsan var að drepast úr lofthræðslu. Maður fékk öfugan hálsríg að horfa svona mikið niðrá við. Elvisinn stóð sig glæsilega og hélt athygli allan tímann einn á sviðinu (ef undan er skilinn rótarinn sem var alltaf að sniglast þarna) með hattinn hallandi. Mörg laganna hans eru gamaldags og McCartney-leg, eins og t.d. A Slow drag for Josephine, en það var einn af hápunktum kvöldsins þegar hann tók það. Gott gigg!