Sarpur | júní, 2012

Ísbíllinn mætir

27 Jún

Ding dong ding dong! Ísbíllinn mætti og allir krakkarnir í hverfinu og ég hlupu út. Glæsilegt framtak hér á ferð og mjög metnaðarfull útgerð. Íssalinn sagði mér að það væru átta ísbílar í umferð í sumar. Á heimasíðu Ísbílsins sést hvar bílarnir eru og verða staddir næstu dagana.

Auglýsingar

Loksins alla leið á Syðstu Súlu

27 Jún


Syðsta Súla er hæsta Botnsúlan, 1093 m.y.s., og gnæfir eins og svissnesku alparnir yfir Þingvöllum. Súlan er ekkert lamb að leika sér við. Í gær gerði ég þriðju tilraun til að komast á toppinn. Í fyrstu ferð fór ég á einhvern geðveikan fjallakamb (sem manni er sagt að fara í bókinni Íslensk fjöll), en sprakk á limminu á miðjum kambi og snéri við vegna yfiþyrmandi lofthræðslu. Í annarri ferð fór ég aðra leið, inn í hálfgerðan dal og upp á hlið. Þá var snjór yfir öllu og svo hált að ég lét hálkufóbíuna ná tökum á mér og snéri við nokkra metra frá toppnum.

Það var því að duga eða drepast í gær.

Við vorum tvo tíma að klöngrast inn í dalinn milli Syðstu Súlu og næstu súlu við hliðina. Stórgrýtt og laust í sér en bara málið að hjakkast áfram. Hlíðin sem þurfti að fara upp var allt annað en árennileg, svimandi bratt og snjór á leiðinni. Ég var eiginlega næstum því búinn að gefast upp í þriðja skiptið, en ætli það ekki verið óþekktum Rússa að þakka að ég fór alla leið. Hann kom niður af toppnum þegar við vorum að fara upp og sagði að þetta væri ekkert mál.

Svo jæja, upp helvítis hlíðina og í gríðargott útsýni til allra átta. Annað eins klöngur niður og málið dautt. Systa Zúla er komin af aumingjalistanum.

Fjallganga er náttúrlega eins og lífið sjálft. Auðvelt að gefast bara upp á miðri leið, en ef maður bítur á jaxlinn og klárar helvítis brekkuna þá verður allt í lagi og maður montnari með sig eftir á.

Ööö, eða eitthvað þannig.

Töff kaggi #6

25 Jún


Töffaðasti kagginn í Vesturbænum er án efa þessi skronster svarti Packard Ultramatic Drive frá sirka 1954. Hann kemur bara út á sumrin og er mikill vorboði. Keyri maður framhjá getur maður minnst gamalla tíma þegar mannkynið hafði mikla yfirburðarhugmyndir um hlutverk sitt á jörðinni og taldi sig geta vaðið yfir heimska náttúruna á stífbónuðum ofurbílum. Það eru reyndar risavaxnir einkabílar enn við líði, en enginn þeirra er jafn fágaður og Packardinn og hinir ofurkaggarnir frá þessum tíma.


Talandi um fágun. Sjáðu bara húddskrautið, þennan glansandi fugl, sem er að taka sig til flugs. Verður húddskraut fágaðra en þetta?

Enn meiri Popppunktur!

22 Jún


Hér má sjá glæsilegan leiksigur í kynningarmyndbandi fyrir nýja seríu af Popppunkti. Nú stefnum við saman allskonar fólki í því sem við köllum Baráttu stéttanna. Þetta verða ekki nema átta þættir í sumar – sjö undanúrslita og í áttunda þættinum keppa tvö stigahæstu liðin til úrslita.

Við verðum á föstudagskvöldum í sumar, byrjum 6. júlí. Þá keppa lið Heilsunuddara og lið Útfararstjóra!

Bestu íslensku lögin til þessa í ár

20 Jún


Jess sör. Var að drita þessu líka fína mixi á 8tracks. Nú eru það  14 bestu íslensku lögin til þessa 2012. Gjörðu svo vel!

Annað stórmenni sjötugt

20 Jún


Nei heyrðu mig nú! Er bara enginn friður fyrir sjötugum stórmennum? Hann Brian Wilson er sjötugur í dag, tveimur dögum á eftir Palla. Sá hann í Glasgow 2004 þegar hann túraði endurvakið Smile. Mikil gleði. Áhugi minn vaknaði eiginlega fyrst þegar ég las ævisöguna sem gúrúinn Landy skrifaði um Brian (þeir eru saman á mynd hérna að ofan). Hún var sterk en víst öll í ruglinu, eins og síðar kom í ljós. Brian er svona náungi (get ég ímyndað mér allavega, ekki eins og ég þekki hann eitthvað) sem lætur ráðskast  með sig. Nýjasta nýtt er að hann er að túra nýju Beach Boys plötuna, sem er, e hemm, ágæt (miðað við fornmenni).

Ef svo ólíklega vill til að þú hafir aldrei pælt í Brian og Beach Boys þá áttu gleði framundan. Hér er Vega-tables af Smile-inu og Palli að sögn í riþmasveitinni á selleri (ef ekki gulrót).

Bassaleikari Bítlanna á afmæli

18 Jún


Það er ekki á hverjum degi sem Paul McCartney er sjötugur. En það gerðist þó í dag. Það er heldur ekki á hverjum degi sem ég sé Paul McCartney á tónleikum en það gerðist þó 2005 þegar ég varð sjálfur fertugur. Alveg magnað. Enda Palli magnaður gaur. þetta var draumfagurt gigg og ekki spillti magnaður félagsskapur fyrir, Grímur Atlason og trommarinn í Sonic Youth. Í tilefni dagsins ætla ég ekki að hlusta á neitt með Bítlunum. Allir aðrir dagar eru góðir til þess.

Annars er það helst að frétta að ég er um það bil að verða geðveikur á því að safna myndum í hið hnausþykka stuðverk sem kemur í haust. Það þýðir ekkert minna en að troða svona 1.500 myndum í þetta þrekvirki…

Ég var á Hvammstanga um helgina og sá sel í fjarska.

Bless á meðan!