Sarpur | maí, 2013

Sigur Rós: Fjandsamlegasta band í heimi?

31 Maí


Allavega samkvæmt þessari grein (enda er þetta viðtal nokkuð sérstakt og strákarnir greinilega eitthvað slappir eða eitthvað (reyndar jetlagged og nýkomnir úr 14 tíma flugi)). Að sjálfssögðu er þetta þó steypa því Sigur Rós eru bæði ljúfir og góðir í viðtölum (ef þeir eru í stuði).

Fáðu þér Snarl

31 Maí

snarl
SMELLTU HÉR OG FÁÐÉR SNARL
Enginn sleppur lifandi út úr þessu ruglaði lífi
er bara eitt af fjölmörgum gullkornum sem leynist á safnkassettunni SNARL sem Erðanúmúsík gaf út árið 1987.  Ég hafði gefið út RÚLLUSTIGANN þremur árum áður, var ný kominn heim frá Frakklandi, og fannst nauðsynlegt að koma þeirri grósku sem mér fannst vera í íslenska rokkinu í fast form. Enginn annar var að gera neitt, svo ég varð að gera þetta sjálfur. Setti mig í samband við fimm bestu böndin plús Svart hvítan draum og stuttu síðar var SNARL komið út á kassettu (útgáfuform fátæka mannsins árið 1987) með gullfallegri teikningu eftir Jóa Eiríks (Reptilicus).

SOGBLETTIR spiluðu pönk með textum eftir Diddu (sem einhverra hluta vegna kallaði sig Skruggu á spólunni). Hér er frægasta lag Sogbletta, 5. gír. Skömmu síðar var bandið hætt og Ari Eldon bassaleikari farinn að spila með Bless.

MÚZZÓLÍNÍ sá ég í Músíktilraunum um vorið 1987 og fannst góðir. Þetta voru bara fermingadrengir en mjög skemmtilegir og djúpspakir í textum. Erðanúmúsík gaf skömmu síðar út heila kassettu með bandinu, Slys. Þarna voru innanborðs Doddi trommari (löngu síðar í Trabant), Henrý söngvari, Atli gítarleikari og bassaleikarinn Einar sem löngu síðar var farinn að verja Jóhannes í Bónus fyrir rétti.

GULT AÐ INNAN voru frá Ísafirði og ég held ég hafi aldrei séð þá læf eða einu sinni hitt þá. Venni gítarleikari rekur nú magnaraleiguna Stuð ehf.

S. H. DRAUMUR voru með þrjú læf lög á Snarlinu, þ.á.m. kóver af Love-lagi og lag sem kom hvergi annars staðar út, Of mörg hótel (innlegg í umræðu dagsins í dag!?)

THE DAISY HILL PUPPY FARM voru Jói (síðar í Ham, Unun, Lhooq, Apparat og sóló), Stebbi og Óli. Mér fannst þetta besta bandið á Snarlinu og gaf skömmu síðar út 7″ EP plötu með þeim í samvinnu við Lakeland í Englandi, sem var bara einn strákur sem heitir Simon Lake og ég er ennþá að reyna að finna á Facebook.

PARROR var frá Akureyri og innihélt stórmennin Kristján Pétur, Rögnvald gáfaða, Steinþór (fyrrverandi bassaleikara Fræbbblanna) og Kidda Valla trommara.

Þessi kassetta gekk vel og síðar komu út Snarl 2 og 3 (set þær hingað inn seinna á árinu). Árni Matt var byrjaður að skrifa um popp í Mogganum og var gríðarlega duglegur að plögga þessu stöffi – meinstrím popparar þessara tíma hafa ábyggilega verið drullusvekktir yfir því hvað þetta „öndergránd djönk“ fé mikið pláss í stærsta fjölmiðli landsins.

Snarl plögg í Þjóðviljanum.

Snarl plögg í Mogganum.

Snarl plögg í DV.

Api á menningarviðburði

30 Maí

painsol
Það eina sem gerir okkur frábrugna öpum eru nokkrir litningar og menningin. Þess vegna er gáfulegt að sökkva sér í menningu. Þar er allt á fullu að vanda. Það er frábært og ég hef ákveðið að leggja mig fram í að mæta á menningarviðburði því ef enginn mætir þá verða engir menningarviðburðir.

Í Bíóparadís fer nú fram Alþjóðleg barnamenningarhátíð með fullt af myndum sem hægt er að sjá með krökkum. Við Elísabet sáum Ernest og Celestína í gær, sæta franska teiknimynd (með íslensku tali) um vináttu bjarnar og músar. Engin Hollywood væmni þar, heldur frönsk barnavæmni, sem er svo sem svipuð. 

Svo er það hann Daniel Johnston sem spilar í Fríkirkjunni á mánudaginn (3. júní). Þessi meistari spilar einn og með bandi og Árni Vilhjálms úr FM Belfast hitar upp. Örfáir miðar eftir á þetta möst!

Svo erum við að tala um All Tomorrows Parties síðustu helgina í júní. Allskonar gegt í gangi þar á gamla Kanavellinum. Frábært lænöpp á frábærum stað.

Og hvað er þetta sirkús dæmi sem ég er að sjá auglýst? Þetta virðist vera algjör snilld – heil Volcano sirkúshátíð í Vatnsmýrinni 4-14. júlí: „sex litrík sirkustjöld rísa í Vatnsmýrinni og mynda það sem við köllum sirkusþorpið.  Tjöldin hafa fengið nöfnin Eyjafjallajökull, Askja, Hekla, Katla Grímstaðavötn og Kaffi Volcano. Lifanid stemning verður allan daginn í þorpinu á meðan hátíð stendur.“ Ha? Vá! Og svo sé ég ekki betur en það verði boðið upp á 17 mismunandi sirkús-sýningar sem heita til dæmis Pluto Crazy og Pain Solution („sýning fyrir þá sem þora“)! Það má lesa um dæmið til dæmis á midi.is eða á Facebook-síðu sirkúshátíðarinnar

Mæta krakkar!!! Eða viljum við að landið sökkvi í menningarlausa lifrarkæfu doða og heimsku!?!?

Íslenskar myndasögur

21 Maí


Heimildamyndin Íslenskar myndasögur eftir Halldór Carlsson er nú komin á alnetið. Myndin var gerð árið 1999 og sýnd í sjónvarpinu. Myndin rekur sögu íslensku myndasögunnar og er þarfaþing á öll menningarheimili.

Þess má svo geta að ellefta tölublað Gisp! kemur út 24. maí. Facebook-event.

Blómey kannar Reykjanes

21 Maí

Göngu- og útivistarfélagið Blómey hóf 12. starfsár sitt í gær með nettri Reykjanes-ferð. Gengið var á tvö fjöll/fell, sem þó ná þeim árangri að komast í biblíuna Íslensk fjöll eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. Festarfjall er skreppifjall rétt fyrir ofan Grindavík. Uppi var skítaveður enda grámyglað hafið beint af augum. Sýrfell hjá Reykjanesvita er annað skreppifjall og mun betra veður þar. Það lítur svona út:

DYolPh5wSvAevOvV8P7HYPpNLqLRgFQNpfbk05IOMME
Á leiðinni upp á Sýrfell var aðallega rætt um heimildamyndina If it ain’t Stiff, sem fjallar um Stiff Records útgáfuna (gaf út Ian Dury, Elvis Costello og fleiri meistara). Myndina má nú sjá á Youtube

AWyst_ChMgtq5rZyy2vPztxRgTPM7UyJvyS8BPPuxWs
Í hinum mikla menningarbæ Grindavík rákumst við á fallegt hús með allskonar steinum og beinum í garðinum. Fórum að skoða sem endaði með því að ábúandinn Þórdís Ásmundsdóttir bauð okkur inn og í kaffi. Þórdís er gríðarlegur safnari og á m.a. 12.000 penna. Hún safnar að auki steinum sem hún hefur aðallega fundið fyrir austan (hún og hin landsfræga Petra (Steinasafn Petru) voru vinkonur og söfnuðu steinum saman), barmmerkjum, bollum og allskonar dóti. Innlitið var bæði fræðandi og skemmtilegt. 

Því miður er ekki búið að opna Guðbergsstofu (það gerist um Sjómannadagshelgina). 

Homer talar íslensku

20 Maí

simphallgr
Íslenski þátturinn af Simpsons var frumsýndur í gærkvöldi og verður sýndur á Stöð 2 í kvöld ef ekki verður búið að reka alla þýðendurna. Þetta er ágætur þáttur sem Ferðamálaráð hlýtur að taka fagnandi því þetta er megabúst landkynningarlega séð. Auðvitað er gripið í allar helstu klisjurnar um land og þjóð, en meðal þess helsta sem ber fyrir augu og eyru er að Hómer talar íslensku („Ég er með frábæra hugmynd!“), (stytta af) Björk og Jóhanna Sigurðardóttir koma við sögu, ný gullfalleg Sigur Rósar músík er notuð í hljóðrásinni og svo spila strákarnir löturhæga útgáfu af titillagi Simpsons í lok þáttarins.

simpbj

Atriðin fara m.a. fram á Skólavörðuholti, í Perlunni, inni á Hressó (eða Yukki’s Grossfud eins og staðurinn heitir í þættinum), við Sólfar Jóns Gunnars Árnasonar (sem í raun er einn heitasti túristastaður borgarinnar og varla líður sú mínúta sem þar er ekki allt vaðandi í túristum), í Bláa lóninu og á ótilgreindum „úti á landi“ stöðum þar sem varla er þverfótað fyrir eldfjöllum og goshverum.

simplandsl

 

simpjoh
(Þetta á að vera Jóhanna!)

Airwaves-gestur færir rótarbjór

19 Maí

bryanrootbeer1
Bryan vinur minn frá Boston kom á Airwaves í fyrra og greip nokkra framandi rótarbjóra með handa mér. Ég hef verið að mjatla þessu í mig og hef nú lokið við að drekka þá sjö rótarbjóra sem hann kom með og ég hafði aldrei smakkað áður. Nú er ég reyndar búinn að smakka svo margar tegundir af rótarbjór að þetta er allt farið að renna í einn graut, enda er ég ekki með bragðlauka á heimsmælikvarða. Ég skal samt reyna:

Blumers kemur frá Monroe í Wisconsin og þar á bæ leggja menn mikið upp úr því að auglýsa að það sé notaður cane sugar. Corn sýropið er náttúrlega alveg í ruslinu núna og gosdrykkjaframleiðendur með sjálfsvirðingu monta sig af cane sugar. Þessi var rjómalegur og mjög góður rótarbjór upp á þrjár stjörnur.

Drive-in style Dog n Suds ku vera mið-vestur rótarbjór/hamborgarabúllu-keðja með rætur til 1952 og Champaign borgar í Illinois. Það gerir þetta strax eftirsóknarvert enda spilaði Bless eitt af fáum góðum giggum sínum í hinum alræmda 1990-USA-túr í þessum háskólabæ. Fengum góðan mat, 40 manns á tónleikana og 150$! Rótarbjórinn er alveg fínn, maður finnur alveg „drive-in“ bragðið (!) því þetta er á lúmskan hátt teiknimyndalegur drykkur. Þegar allt kemur til alls erum við að tala um þrjár stjörnur.

Olde Brooklyn Root Beer kemur frá Williamsburg og notast við ekta reyrsykur (hipp – eru starfsmenn í tvíddi og koma til vinnu á gamaldags götuhjólum?) Hann er alveg djöfulli góður, sætur, rjómaður og sprellifínn. Fjórar stjörnur! Þess má geta að sama verksmiðjan framleiðir líka Sioux City rótarbjórinn, sem er eiginlega sú tegund sem kom mér út í þessa gosdellu (eftir að ég keypti flösku einhvers staðar upstate NY 1997). Sioux City kemur fyrir í snilldarverkinu Big Lebowski og það er í raun nokkuð metnaðarleysi að samnefnd hamborgarabúlla á Laugarvegi bjóði ekki upp á þetta.

Iron Horse Root beer var fjandi góður, eða fyrsti sopinn það er að segja. Rjómakenndur og góður. Því miður uppfyllti restin úr flöskunni ekki þær væntingar sem fyrsti sopinn hafði gefið, en engu að síður fínn drykkur hér á ferð – framleiddur í Edina, Minnesota og ég fann enga heimasíðu, bara facebook-síðu. Þrjár stjörnur.

bryanrootbeer2

River City er frá Sacramento í Kaliforníu og frá Blue Dog verksmiðjunni. Hér er allt við sama keip, rjómakeimur og ágætis bít. Þrjár á kvikindið.

Frostop er rótarbjór og veitingahús. Menn eru alltaf stoltir af fortíðinni í þessum bransa og segjast hafa byrjað 1926. Þetta er ansi hefðbundið kornsýrops-drull og ekki nema upp á tvær stjörnur. Þokkalegt en of kommersíal og svipað og margt annað.

Baumeister Root Beer er frá Lakeshore bottling í Green River í Wisconsin fylki. Þeir eru með þessa fínu heimasíðu. Mjöðurinn er ágætur en án sterkra einkenna (svo ég grípi til klisjulags orðalags). Alveg skotgekk niður kokið á mér svo við erum að tala um heilar 3 stjörnur.

Hápunktur íslenskrar menningarsögu

18 Maí

sigurrosposter
Fyrstu 10 (eða svo) árgangarnir af The Simpsons eru mesta snilld sem hefur verið framleidd fyrir sjónvarp. Að besta hljómsveit Íslandssögunnar skuli semja tónlist í nýjasta þáttinn (hann er númer 529) er ekkert annað en hápunktur íslenskrar menningarsögu. Jæja ok einn af þeim, aðrir geta verið Björk að syngja á Olympíuleikunum og Addi rokk með Stuðmönnum í Atlavík 84.

Þátturinn verður frumsýndur á sunnudagskvöldið, en á Youtube eru komnar þrjár klippur. Þátturinn er eins og áður hefur komið fram um för Homers og félaga til Íslands eftir að hálf-Íslendingurinn Carl stingur af með lottóvinning sem þeir félagarnir eiga saman. Til hamingju Ísland!

Smá um alvöru tónlist

17 Maí

Það var þá aldrei að okkur yrði ekki veitt brautargengi meðal Evrópuþjóða með hið stórkostlega lag Ég á líf. Ég var alltaf viss um að við kæmumst áfram. Alltaf! Já, nú verður sko grillað og veittir afslættir af grillum, bensíni og flatskjám. En að öðru:

johannkristinssonheadp
Jóhann Kristinsson – Typewriter
Jóhann Kristinsson hefur gefið út sína þriðju plötu en þrjú ár eru síðan síðasta plata hans, Tropical Sunday, kom út. Nýja platan ber nafnið Headphones og inniheldur 9 frumsamin lög. Headphones var að mestu leyti tekin upp í kjallaranum heima hjá Jóhanni og einnig í Stúdíó Sýrlandi og í tæplega 600 ára gömlum kastala í Engelsholm í Danmörku. Fyrri plötur hans komu út um leið og þær voru tilbúnar og þar var ekkert hikað. Headphones er búin að vera tilbúin, í nokkrum mismunandi myndum, í eitt og hálft ár. Jóhann ákvað hinsvegar að vanda enn betur til verka í þetta skiptið og vera duglegur að henda í ruslafötuna, ef svo má að orði komast, við gerð þessarar nýju plötu.
Hér er á ferðinni persónuleg Indie/Folk plata með rafmögnuðu ívafi en fyrsta smáskífa hennar, lagið „No Need to Hesitate“ hefur fengið að hljóma í úvarpinu í þó nokkurn tíma. Það var auk þess valið á lista yfir 20 bestu lög ársins 2012 hjá veftímaritinu Rjóminn.is og útvarpsþættinum Straum.is.
Headphones kemur út í takmörkuðu upplagi, eða í aðeins 200 númeruðum eintökum. Myndlist Þóris Arnar Sigvaldasonar prýðir umslag plötunnar sem Jóhann setti svo sjálfur saman í höndunum. Platan verður fáanleg í öllum helstu plötubúðum og á internetinu. Typewriter (hér að ofan) er annað lag í spilun.

d-higgs
Dúndrrr gigg í kvöld: Daniel Higgs og Just Another Snake Cult spila á tónleikum á Faktorý föstudagin 17. maí. Frítt er inn á tónleikana og þeir hefjast klukkan 20:00.
Daniel Higgs er tón- og myndlistarmaður frá Baltimore í Maryland fylki Bandaríkjanna. Á níunda áratugnum spilaði hann í harðkjarna sveitinni Reptile House og stofnaði síðan tilraunarokkbandið Lungfish sem er starfandi enn þann dag í dag. Lungfish hafa alla tíð gefið út tónlist sína á Dischord útgáfunni og eru löngu orðnir goðsagnakenndir fyrir tónleika sína og plötur. Hann hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum öðrum verkefnum og söng til að mynda inn á síðustu plötu sænsku sveitarinnar The Skull Defekts.
Einn síns liðs hefur hann búið til tónlist undir eigin nafni og einnig listamans nafninu Cone of Light. Hann býr til sveimkennda þjóðlagatónlist þar sem hann leitar mikið til trúarlegrar tónlistar og vinnur með spuna. Tónleikar hans þykja mikil upplifun og er aldrei hægt að ganga að því vísu hvað hann mun bjóða uppá að hverju sinni.
Just Another Snake Cult koma einnig fram en þau spila nokkurskonar seventís popp í bland við þjóðlagatónlist.

11066_287169441411907_911354034_n
Mér barst bréf frá Valda í Lundi: Má ég kynna fyrir þér þrjá unga menn sem eru að sleppa frá sér tveimur breiðskífum undir tveimur nöfnum. Samnefnarinn er Freyr Flodgren (Rögnvaldsson), sem er hálfíslenskur en býr í Umeå í Sviþjóð. 
Freyr och vinur hans Ludvig Söderström spila under nafninu  „Lärkträdet“ (Lerkitréð) og voru rétt í þessu að sleppa myndbandi með laginu „Lugnet„.  Myndbandið er framleitt af nemendum af fjölmiðlunarbraut tónlistarháskólans í Piteå í Sviþjóð, og það er nemandi af hljóðtæknibrautinni sem stendur að upptökunni, sem og nemendur af tónlistarbraut sem spila undir. Meiri tónlist er að finna á Soundcloud og upplýsingar á Facebook síðu. Fyrsta platan er með sænskum textum, en næsta plata verður með enskum textum.
Freyr og vinur hans Lucas Enqvist spila under nafninu „Brother North“ og voru að gera opinbert fyrsta lag af komandi skífu á  Soundcloud: https://soundcloud.com/brothernorth. Báðar plötur eru nánast fullunnar og ættu að koma út á næstu vikum.

56 eðalplötur til sölu!

16 Maí

16-lps-netsala2
Kolaports-salan gekk glimrandi vel um daginn, en það varð samt eitthvað eftir, þar á meðal nokkrir eðalmolar. Ég hef safnað saman 79 af bestu restunum, dömpað verðinu umtalsvert síðan í Kolaportinu, og bíð nú upp á 79 56 EÐALPLÖTUR netsöluna. Þetta er bara klassískt fyrirkomulag: Þú nærð í Excel-skjalið, pantar í emaili, ég svara, þú leggur inn og nærð svo í þetta heim til mín við tækifæri. ATH PLATAN ER TIL SÖLU EINS LENGI OG ÞAÐ ER EKKI BÚIÐ AÐ GREIÐA FYRIR HANA, svo það er fyrstur borgar, fyrstur fær-reglan sem gildir. Alles klar kommisar? Já, ég hélt það.

79-eðalplötur EXCEL-SKJAL  56 eðalplötur Excel

PANTA MEÐ EMAILI