Sarpur | febrúar, 2015

Sjaldgæfasta plata Íslandssögunnar?

26 Feb

Ég var að fletta plötum í Notað og nýtt, hinni fínu antík/skransölu á Skemmuvegi 6, þegar eigandinn, Arnar Laufdal, kom með nokkrar plötur (sem höfðu verið „á bakvið“) og spurði hvort það væri eitthvað vit í þessu. Þarna var Fourth Reich Þeysara með íslenska umslaginu sem ég sagði að hann gæti fengið 10þús fyrir á góðum degi og svo tvær dularfullar „test pressur“ sem eigandinn sagði að væru Geislavirkir Utangarðsmanna á ensku og Þeysarar á ensku líka. Hann lánaði mér þetta heim til frekari sagnfræðirannsókna.

„Test pressa“ er nokkuð velþekkt fyrirbæri meðal plötu-safnara. Þetta eru prufu-plötur sem eru það fyrsta sem kemur úr vinýl-pressum. Oftast með hvítum miða og ekki í umslagi, heldur bara plein hvítum poka.

Dularfullu plöturnar úr Notað og nýtt eru einmitt í hvítum „nærbuxum“. Þær virðist hafa komið til Íslands með einhverjum frá Svíþjóð því önnur þeirra er merkt „Provskiva fran Grammoplast Spanga 08/761 7060“ – sem sagt plöturnar eiga uppruna sinn í Grammoplast plötupressunni í Spanga, sem er úthverfi í Stokkhólmi.

Önnur platan er As Above með Þey – enska útgáfan sem kom út hjá enska smámerkinu Shout 1982. NEMA þetta er test pressa af sænskri útgáfu sem kom aldrei út og er platan merkt „Hot-1007“ bæði á label miða og á „matrixi“ („matrix“ er svæðið á enda plötunnar þar sem nálin „fer út af“).

Hin test pressan er jafnvel enn sjaldgæfari því þetta er test pressa af plötu sem KOM ALDREI ÚT og ég vissi ekki einu sinni að væri til. Við erum að tala um einu LP plötu Utangarðsmanna „Geislavirkir“ Á ENSKU, sem sé „RADIOACTIVE“ með „THE OUTSIDERS“ eins og einhver hefur skrifað á „nærbuxurnar“:

2015-02-26 17.23.172015-02-26 14.00.20
Á label miða er skrifað „HOT-1000“ en á matrix er grafið „HIM-001“.

Ég endurtek: ÞESSI PLATA KOM ALDREI ÚT og því er auðvitað um sögulegan fund að ræða. Steinar Berg reyndi á sínum tíma að koma þessu út hjá CBS og kannski fleiri merkjum, en ég vissi ekki að það hafi farið svo langt að platan væri skorin í prufuplast. Ég hef auðvitað gert stafrænt sýnishorn fyrir sjálfan mig. Hiroshima á ensku, gjöriði svo vel:

The Outsiders – Hiroshima

Arnar (898-0100) selur plöturnar hæstbjóðanda. Sjálfur kaupi ég ekki plötur á meira en 2000 kall svo ég er úr leik!

Lögin á RADIOACTIVE með THE OUTSIDERS:
01 Hiroshima (á ensku)
02 The Big Sleep (Viska Einsteins á ensku)
03 Nuclear Reggae (Blóðið er rautt á ensku)
04 Temporary Kick + Let’s Go (Sama og á Geislavirkir)
05 Girl like you (Ég vil ekki stelpu eins og þig á ensku)
06 The Big Print (sama og á Geislavirkir)
07 Tango (á ensku)

08 Migrant Worker (Kyrrlátt kvöld á ensku)
09 Chinese Reggae (sama og á Geislavirkir)
10 It’s A Shame (sama og á Geislavirkir)
11 Popstar (Poppstjarnan á ensku)
12 915 Connection In Berlin (Samband í Berlín á ensku)
13 Sigurður var sjómaður (eina lagið á íslensku á plötunni)
14 Beware of Immitation (Rækjureggae ha ha ha á ensku)

7000 hitaeiningar!

26 Feb

2015-02-18 19.00.56
Hér er vöffluborgarinn frá snillingunum á Roadhouse. Þessi bragðsprengjugeðveiki heitir eðlilega Hallelújah og var gerður í tilefni af 3ja ára afmæli staðarins. Því miður verður borgarinn aðeins á boðstólum í nokkra daga í viðbót.

2015-02-21 12.15.32
Það hefur lengi staðið til að fá sér kótilettur á Múlakaffi og ég lét loksins verða af því á laugardaginn. „Þú kemur svo bara aftur og færð þér meira“ sagði afgreiðslukonan og ég hlýddi. Þetta var mjög sólid og gott.

Símanúmerið hjá Hjartagátt er 543-1000.

Guð og fleira smotterí

19 Feb

Ég man hvað Jón Gnarr var leiðinlegur þegar hann var kaþólskur og var alltaf með einhverja helgislepju og „það-er-svo-erfitt-að-vera-manneskja“-væl aftan á Fréttablaðinu. Jú jú, það er ægilega erfitt að komast í gegnum þetta líf án þess að missa tökin á leiðinni og stundum er ágætt að velta sér upp úr því hvað þetta sé nú erfitt (sérstaklega í janúar og febrúar), en líkt eins og Jón Gnarr nú þá hef ég aldrei getað trúað á guði og útskýringar trúarbragða. Ég veit bara ekkert um þetta og hallast helst að því að rétt eins og silfurskottan skilur ekkert í nanótækni, þá hafi ég bara ekki andlega burði til að skilja alheiminn.

Fátt er eins leiðinlegt (og hættulegt) og lið sem heldur sig hafa fundið sannleikann og vill troða honum upp á aðra í tíma og ótíma. Þegar svona kemur saman við testósterónvellandi og dýrslega karlmennsku er fjandinn laus. Við heyrum um það daglega í fréttunum.

Á meðan trúaðar górillur riðlast á lífi annarra með ofbeldi eru stórfenglegar fréttir um afrek vísindanna ekki nema sjöunda frétt eða svo. Svo verður aðalmálið einhver skyrta með léttklæddum konum, sem var nú alveg frábært innlegg í vitleysuna. .

Mér þykir þægilegt að máta mig saman við óravíddir alheimsins. Nasa hefur sent frá sér stærstu mynd sem um getur:

Og hér er annað um stærðir stjarna (mætti nú vera skemmtilegri tónlist með þessu…)

Ég verð að „trúa“ því að þetta séu réttar upplýsingar, en sorrí, ég get bara engan veginn trúað því að þúsund ára gömul trúarrit geti á einhvern hátt útskýrt orsök og tilgang þessa alls.

Silfurskottan kveður að sinni.

Jói á hjólinu stendur sig

17 Feb

2015-02-17 15.39.21
Jói á hjólinu lætur ekki veðrið aftra sér í hjólreiðunum heldur setur bara upp sækadelísk sólgleraugu. Kempan er komin yfir sjötugt en er enn tákn um Kópavog og hjólreiðar. Gott að einhver er að standa sig!

kanínu
Hér ræðum við Magga Örnólfs við Dag Gunnarsson í Mannlega þættinum á Rás 1 um Lísu í Undralandi sem LA frumsýnir 27. febrúar.

Lísa í Undralandi

16 Feb

Lísa
Hér er lögin sem ég hef samið fyrir Lísu í Undralandi ókeypis fyrir þig!
Frumsýningin er þann 27. febrúar hjá Leikfélagi Akureyrar. Allt um málið og miðasala hjá Leikfélaginu.

Ég samdi tónlistina, Magga Örnólfs og ég textana (saman eða í sitt hvoru lagi), Þórir Bogason (aka Just Another Snake Cult) tók þetta upp og pródúseraði frábærlega, Kristján Freyr trommaði og leikararnir sungu. Ég hvet alla til að skella sér á sýninguna því hún er stórsnjöll og bráðfyndið sjónarspil með a-hemm, frábærri tónlist!

Nico á Íslandi í bíó

14 Feb

Þýska söngkonan Nico er frægust fyrir eintóna drungasöng sinn á banana-plötu Velvet Underground („The Velvet Underground & Nico“). Hún gerði nokkrar þyngslalegar sólóplötur, fór illa með sig og lést 1988, 49 ára. Nico lifði auðvitað bóhemalífi og brasaði í ýmsu, m.a. að leika í alvarlegum listamyndum, sem voru gerðar í kringum 1970 þar sem fólk vafraði um og leit út fyrir að vera að segja eitthvað með táknum. Ein þeirra er Sárið inní okkur (La cicatrice intérieure) sem var tekin upp í eyðimörkum hér og þar um heiminn fyrir rúmum 40 árum síðan – þar á meðal á Íslandi.

Myndin verður sýnd á Stockfish, líklega í fyrsta skipti á Íslandi. Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars 2015. Á hátíðinni verða sýndar 30 kvikmyndir sem hlotið hafa mikla athygli á hátíðum víða um heim. Von er á þekktum verðlaunaleikstjórum og öðru alþjóðlegu kvikmyndagerðarfólki hingað til lands, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði, fyrirlestra og vinnustofur fagfólks í tengslum við hátíðina.

Á Youtube er brot úr myndinni. Ég sé ekki betur en að þetta sé tekið á Íslandi:

Bestu umslögin og myndböndin

11 Feb

Ég, Goddur og Dögg Mósesdóttir vorum í nefnd sem tilnefndi fimm umslög og fimm myndbönd fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin. Hátíð verður haldin föstudaginn 20. febrúar og þá kemur í ljós hver skaraði fram úr.

Plötuumslag ársins:
ggus-mex
Gus Gus – Mexico – Hönnuður: Alex Czetwertynski
kippi-cover
Kippi Kanínus – Temperaments – Hönnuðir: Inga og Orri
mybubba-goes abroader
My Bubba – Goes Abroader – Hönnuður: My Bubba
sorri
Prins Póló – Sorrí – Hönnuður: Svavar Pétur Eysteinsson
55105c12cb6838b83ef762015c2fe090
Úlfur Kolka – Borgaraleg óhlýðni – Hönnuður: Maria Herreros og Úlfur Kolka

Tónlistarmyndband ársins


Dísa – Stones – Leikstjóri: Máni M. Sigfússon


FM Belfast – Brighter Days – Magnús Leifsson


Mammút – Þau svæfa – Leikstjórar: Sunneva Ása Weisshappel og Katrína Mogensen


Rökkurró – The Backbone – Leikstjórar: Sunneva Ása Weisshappel og Anni Ólafsdóttir


Úlfur Úlfur – Tarantúlur – Leikstjóri: Magnús Leifsson

Hvað er best?

Undraland

11 Feb


Lísa í Undralandi, ný leikgerð Möggu Örnólfs með tónlist eftir mig, verður frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar þann 27. febrúar. Hér er komið fyrsta lag „í spilun“, titil- og opnunarlagið sjálft, Undraland. Ég samdi slatta af músík fyrir leikverkið. Músíkin verður sett á netið í heilu lagi von bráðar. Frábær pródúser að músíkinni var Þórir Andersen, kenndur við hljómsveitina Just Another Snake Cult. Kristján Freyr spilaði á trommur en við Þórir spiluðum rest. Hér syngur „Lísa“ sjálf, Thelma Marín, sem er annars í hljómsveitinni East of My Youth. Aðrir leikarar eru Benedikt Gröndal, Pétur Ármannssson og Sólveig Guðmundsdóttir auk ungra leikara fyrir norðan. Leikstjóri er Vignir Rafn Valþórsson.

Fréttir úr tónlistarlífinu

5 Feb


Gangly á dúndurlag í umferð sem heitir Fuck with Someone Else. Ég heyri þetta nú alveg gera rósir á markaði. Einhver leynd hvílir yfir meðlimaskipan Gangly, en það var þó ekki ætlun meðlima, þeim finnst kannski bara töff að þetta sé leyndó fyrst þetta varð óvart leyndó. Nú verð ég að skemma þetta allt fyrir þeim því eftir því sem ég kemst næst er Gangly samvinnuverkefni þriggja úr þremur góðum hljómsveitum: Úlfs úr Oyama, Jófríður úr Samaris og Sindra úr Sin Fang.

Gríalappalísa eru komin með nýtt viddjó við lagið Sambýlismannablús. Það er lélegur díll að vaska upp þótt einhver láti renna í bað.

Antimony eru Siggi (úr Knife Fights), Rx og Birgir. Tónlistin kuldarokk og vidddjó komið á netið:

Cheddy Carter er tilraunakennt hipphopp band með þeim Fonetik Simbol, IMMO og Charlie Marlowe, sem áður hafa unnið saman, m.a. í Original Melody. Laugardaginn 7. febrúar ætlar bandið að frumflytja nýtt efni á Kex Hostel. Tónlistarmaðurinn Vrong mun mýkja hljóðhimnur gesta frá kl. 21:00, áður en Cheddy Carter stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.


Bang Gang er ein þeirra sveita sem ætlar að gefa út plötu í ár. Fyrsta lag er komið í spilun:

Já og svo er Björk búin að gefa út plötuna Vulnicura, sem margir hafa hreinlega verið að missa sig yfir. Henni var lekið svo það er ekki komið viddjó eða neitt, en það sem ég hef heyrt er dúndur-Björk.

Ég á Lady Boy safnkassettu

2 Feb

a2692150830_10
Lady Boy útgáfan, sem aðallega gefur út kassettur í laserskornum lúxus-hulstrum í litlu magni, hefur gefið út safnkassettuna Lady Boy Records 009. Það má hlusta á hana á netinu og kaupa líka. Þetta er gríðarlega experimental og noisað, en ég þarna með eitt lag sem heitir Læðist læðist. Tékk it át sökker.