Sarpur | Í útlöndum RSS feed for this section

Hjá bestu útvarpsstöð í heimi

25 Nóv

2015-11-13 14.21.27

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að WFMU útvarpsstöðin sé sú besta í heimi. Á ferðum mínum til NYC hef ég lengi reynt að troða mér í þátt á stöðinni til að básúna Ísland. Það tókst ekki fyrr en í síðustu ferð þegar Devon E. Levins fékk mig til að tala um íslenska kvikmyndatónlist í þættinum Morricone Island – þáttur sem sérhæfir sig í tónlist úr kvikmyndum. Útvarpsstöðin er í eigin húsi í Jersey City. Meðan ég beið fékk ég mér lasagna í Milano’s við hliðina innan um ekta Jersey löggur, iðnaðarmenn og skólakrakka. WFMU hefur verið starfandi í einni eða annarri mynd síðan 1958. Hún er rekin af algjörum músíknötturum, hver einasti þáttur er keyrður áfram af brennandi áhuga á tónlist og það eru engar helvítis auglýsingar. Þetta er stærsta og elsta „free form“ útvarpsstöð í heimi og hreinasta snilld á allan hátt. Þættir fortíðar eru þarna í haugum, það má hlusta aftur til 1995 eða eitthvað – hrein gullkista.

2015-11-13 13.14.21
Devon er með Íslandsáhuga. Hann fékk smitið á áhugaverðum stað. Hann átti heima í Kaliforníu og átti íslenskan vin í næsta húsi sem þreyttist ekki á að tala fjálglega um landið góða í norðri. Vinurinn var enginn annar en Björgólfur Thor Björgólfsson, sem þegar þarna var komið sögu var ekki orðinn athafnamaður og milljóner. Devon hefur áður verið með Ísland í brennidepli í þætti sínum, hann talaði við Jóhann Jóhannsson á dögunum og hafði áður gert þátt með íslenskri sándtrakkmúsík.

2015-11-13 12.02.44-1
En nú var sem sé komið að mér. Og ég lét gamminn geysa í klukkutíma, spilaði Ellý, Hallbjörn, Ham, Prinspóló og allt þar á milli, auk þess að röfla heil ósköp. Hér er þessi þáttur til hlustunar.

Eftir upptöku fór Devon með mig í skoðunarferð um snilldarstöðina. Hér er upptökuherbergið þar sem ýmsir listamenn og hljómsveitir hafa leikið og sungið.
2015-11-13 14.09.52

Þegar ég var þarna var bein útsending hjá Bryce. Viðkunnalegur gaur:
2015-11-13 14.14.36

Lítill tónleikastaður er á neðstu hæðinni, Monty Hall, þar sem allskonar snilld dúkkar upp. Hið heilaga gral er svo plötusafn stöðvarinnar. Það er sirka 500 fermetrar af unaði en því miður er ekki hverjum sem er hleypt þar inn, svo ég varð að láta mér nægja að slefa á rúðurnar. 
2015-11-13 14.14.54
Lengi lifi WFMU! Vinin í eyðimörk heimsku og leiðinda.

Í heimsborginni

19 Nóv

2015-11-17 05.35.14
Skrapp til NYC og gisti sem fyrr á YMCA Westside. Ódýrasta gistingin í stórborginni og alls ekkert sjabbí. Ég myndi kannski ekki bjóða fjölskyldunni upp á þetta en ef maður er einn að flækjast er þetta ókei. Trixið er að borga aðeins meira og fá herbergi á 12. eða 13. hæð. Nóttin á 105$. Klósett með sturtu á ganginum sem maður getur læst að sér (á enn ódýrari hæðum eru sameiginleg baðherbergi). Svo er gymmið þarna legendarí stöff. Tvær sundlaugar með ýkt töff mósaík-skreitingum, gufubað og sauna þar sem maður hittir fastagesti, gamla karla sem voru kannski á beisinu in ðe old deis og maður getur röflað við þá um það. Herbergin sjálf eru hrottalega beisik. Rúmið samt fínt og loftræsting. Ekkert að þessu. 

2015-11-15 11.41.47
Ég fór í viðtal á bestu útvarpsstöð í heimi, WFMU. Þátturinn verður sendur út á mánudaginn svo ég tala um það þá.
 Ég hitti Kidda vin minn daglega. Við fórum og fengum passport handa honum hjá meistara Hlyn í íslenska konsúlatinu. Kiddi segist nú ætla að koma heim eftir 30 ára fjarveru í janúar. Sjáum til…

Við fengum okkur Sigga skyr við hvert tækifæri. Siggi er að gera það gott, skyrið hans er út um allt. Smára skyr er annað dæmi, sem fæst ekki eins víða. Ég náði ekki að smakka það, enda er það ekki til í Wholefoods. Stærðar Wholefoods búð er rétt hjá YMCA á Columbus Circle. Hvílík snilld, þetta er Melabúðin á hestasterum.


Við fórum á ágætis mynd sem heitir Entertainment. Þar er Gregg Turkington í aðalhlutverki og leikur Neil Hamburger, standuppara sem hann er búinn að vera með í mörg ár. Hæg mynd og hrikalega þunglynd, en samt fyndin í hægaganginum og þunglyndinu. Eftirminnileg.


Ef hægt er að tala um hápunkt ferðarinnar til þessarar borgar sem er einn samfelldur hápunktur mannlegrar reisnar og sturlunar, þá er það tvímælalaust ferðin á Broadway-sýninguna The Book of Mormon, eftir þá South Park bræður. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á Broadway söngleik enda hefur mig aldrei langað áður. Leikhúsið, hið flotta og sögufræga Eugene O’Neill, var sneisafullt en við vorum á góðum stað til að njóta veiganna. The Book of Mormon er algjör unaður, fyndið, flott, skemmtilegt, hugvíkkandi – ekkert verið að hrauna um of yfir mormónatrú, þótt það bull sé reyndar með því vitlausasta af mörgum vitlausum trúarbrögðum. Við Kiddi vorum báðir á því að við værum alveg til í að fara á sýninguna strax daginn eftir og svo allavega 3-4 sinnum í viðbót, hvílík snilld sem þetta var.

Meðal þeirra hamingjusömustu

23 Júl

2015-07-16 12.35.27
Danir eru svo kúl. Nema þegar þeir byrja að tala, þá missa þeir allt kúl. Ég held að maður fengi hláturskast ef danskir vopnaðir eymingjar reyndu að ræna mann.

Ég er sem sé nýkominn frá Köben þar sem ég bjó við Nyhavn í íbúðarskiptum í gegnum Intervac. Það er alveg frábært dæmi og eina vitið ferðist maður með alla fjölskylduna. Það er ekkert smá hvað allir Danir eru ægilega myndarlegir og allir eitthvað að spá í innanhúshönnun og gourmet mat og eitthvað. Allir ljóshærðir og í stuttbuxum og með peysur um hálsinn. Mér fannst þetta allt eitthvað svo skothelt skandinavískt dæmi. Danir segjast vera hamingjusamastir allra og eru ekkert endilega að ljúga því.

Svona væri þetta kannski hérna núna ef við hefðum sloppið við þetta helvítis rugl að fá sjálfsstæði 1944. Eina sem það gaf okkur var sturluð misskipting sem leiddi til þess að nú getum við ekki einu sinni rekið almannaspítala, komið upp nokkrum almenningsklósettum fyrir kúkandi túrista eða haft tvíbreiða þjóðvegi um allt land. Allir peningarnir eru í vösunum á einhverju andlega og siðferðislega skertu liði, sem fyrst græddi á hernum og svo á fisknum. Er ég farinn að hljóma eins og Jónas hérna?

Þetta var massíf krakkaferð með krakkamösti eins og Lególandi, Tívolí, Glyptotek, Den Lille Havfrue, Tycho Brahe og Dýragarðinum. Skóflað í sig flödeskum og guf en samviskunnar vegna sleppti ég alveg flæskesvær. Í gegnum booking.com fengum við ódýrt herbergi á ægilega flottu hóteli á leiðinni frá Legolandi, Hotel Koldingfjord (mynd að neðan), sem er svo flott að ég skammaðist mín eiginlega fyrir sjálfan mig. Það var eins og ég væri óboðinn gestur þarna innan um fína fólkið. Skemmtileg tilfinning!

Fínt samt að vera kominn heim í þetta hitastig sem maður er vanur. Og tuðið og hjakkið. Maður verður náttúrlega að komast til útlanda nokkrum sinnum á ári og drekka gott kaffi til að sturlast ekki í klefasótthitanum sem er Ísland. En þegar allt kemur til alls er Ísland samt best! (Gæti samt alveg verið miklu betra)

2015-07-19 10.34.40

Skrapp til New York í viku

30 Maí

Til að missa ekki vitið er nauðsynlegt að komast úr hinu íslenska naflakuski amk tvisvar á ári. Ég var að snúa frá NYC þar sem ég tók viku frí frá íslensku röfli um ekki neitt. Stimplaði mig út úr blaðrinu og inn í núllstillta heimsborgarsælu. Þetta var alveg frábær ferð og strax á fyrsta degi vorum við komnir til Montclair í New Jersey, sem er ríkt hippahverfi og bauð upp á tónleika með THE B52’s.

THE B52’s er aldrað nýbylgjuband sem tók stuð og 50s b-mynda-lúkkið föstum tökum. Lögin þeirra eru svaka misgóð. Flest á fyrstu plötunni (1979) er æði og svo er sumt á Cosmic Thing (1989) fínt. Annað þar á milli og seinni tíma efni er hálf leiðinlegt. Tónleikarnir urðu því kaflaskiptir en gamla fólkið stóð sig vel. Söngkonurnar Kate og Cathy og Fred söngvari eru í frontinum og mokuðu stuði í salinn af nokkrum krafti þrátt fyrir aldur (elst er Kate Pierson 67 ára, en heldur betur uppálöppuð svo hún lítur ekki deginum eldri en 47). Bandið hafði mikil áhrif á bæði Sykurmolana og Risaeðluna svo það var gaman að sjá þau á seinni hluta ferilsins – fínt partí og stuð.

Við vorum allnokkuð að vafra um í Brooklyn í ferðinni, bæði í Greenpoint og Williamsburg. Heimsóttum mína gömlu vinkonu Hrafnhildi Shoplifter og fengum gríðarlegar trakteringar á pólska veitingarhúsinu Karczma. Um kvöldið fórum við á gigg í Rough Trade þar sem söngkonan SHILPA RAY lék en gamli saxófónjálkurinn JAMES CHANGE hitaði upp með spuna í korter. Notaður er límmiði með kvóti frá Nick Cave á nýjustu plötu Shilpa til að kynna mikilfengleika hennar, en Nick segist þess fullviss að hún verði orðin stórstjarna fyrr en varir. Þetta var ágætt hjá henni. Fín söngkona og svo juðaðist hún á einhverskonar borðharmóníku út í eitt. Bandið þétt og gott. Hér er nýjasta lagið með henni:

Það voru líka pönktónleikar í skemmunni Brooklyn Bazaar, en þetta var síðasta kvöld staðarins því þarna á að opna BMW bílasala. Mikið af nútímapönki í gangi þarna, sáum BIG UPS sem voru góðir og minntu stundum á Fugazi og jafnvel S.H.Draum. Hér er lag með þeim:

Íslandsvinirnir í PERFECT PUSSY spiluðu síðast en það var sándvesen á þeim og rugl svo við yfirgáfum staðinn enda var maður alltaf á síðustu metrunum þarna í ferðinni, dauðþreyttur, syfjaður og slompaður af bjórdrykkju.

2015-05-25 11.59.55
Ferðalangarnir Trausti og Steinn ásamt Kristni Jóni Guðmundssyni flóttamanni í NYC. Þar næst kemur Jason Gross og unnusta hans Robin Cook. Jason þessi rekur músíksíðuna Perfect Sounds Forever sem hefur verið til síðan 1993 og er með elstu músíksíðum alnetsins. Hann tók okkur á asíska fuglabjargið/matsölustaðinn Jing Fong þar sem við gröðkuðum í okkur dim sum.

2015-05-25 21.03.08
Á góðu bíti duttum við á eðalstaðinn Otto’s Shrunken Head sem er rokkabillí kokteilastaður. Fékk mér einn geislavirkan og svo hlustuðum við á lókal rokkband The Thigh Highs.

2015-05-23 16.03.22
Enn meira í Brooklyn og í hina skelfilegu ruslakompu The Thing sem er alræmd. Þar eru hreinlega staflar á stafla ofan af plötum og allt grómtekið og rykfallið svo eina leiðin til að komast yfir pleisið er að gefa sér viku og mæta í ræstigalla með plasthanska og gasgrímu. Mér tókst þó að rótast í gegnum 78 snúninga hrúguna og draga nokkrar plötur í búið, þar á meðan alfyrstu útgáfu Blue Note útgáfunnar frá 1939, tveggja laga plötu með Meade „Lux“ Lewis.

2015-05-27 17.52.34
Fyrir Stein var hápunktur ferðarinnar að sjá söngkonu dönsku hippasveitarinnar The Savage Rose á götu í Williamsburg. Annisette tók okkur fagnandi og stillti sér upp með aðdáandanum.

2015-05-26 22.19.23
Í Barcleys Center, nýlegu íþróttamannvirki, sáum við THE WHO. Á undan rokkuðu JOAN JETT & THE BLACKHEARTS (enduðu á I Love Rock N Roll – hvað annað). The Who voru drulluskemmtilegir og Pete Townshend, sem nýlega varð sjötugur, sagði bransasögur á milli laga og var hress á meðan Roger Daltrey virkaði sem sidekick og var hás á köflum. Bandið renndi sér í allflesta slagarana auk albúmtrakks, m.a. lög af Quardrophenia og Tommy, sem mér finnst ekkert sérlega skemmtileg. Maður var því dottandi á köflum en rumskaði þegar góð lög eins og I Can See For Miles and Baba O’Riley brustu á.

Þetta var þrettánda eða fjórtánda ferðin mín til NYC og alveg jafn frábær og allar hinar. Besta borgin!

Í útöndum í fyrsta skipti

7 Maí

Mér var hugsað til fyrstu utanlandsferðarinnar minnar þegar ég rakst á þennan lista yfir bestu goth plötur allra tíma. Við kölluðum þetta reyndar ekki goth á sínum tíma, heldur bara „nýbylgju“. Svona er þetta með hin ýmsu heiti á tónlist. Það er oftast eftir á sem dótið fær skilgreiningar og nöfn. Til dæmis heyrði maður aldrei bönd eins og Butthole Surfers og Big Black kölluð „Pigfuck“ eins og nú virðist vera gert.

Allavega, ég, Trausti og Sigvaldi lögðum af stað 3. ágúst 1983 og þá hafði ég aldrei komið til útlanda áður (var 17 ára). Mapa datt náttúrlega ekki í hug að taka mig með þegar þau fóru í sólarlandaferðir til Búlgaríu eða „Sjö landa sýn“ sem var skipulögð hópferð til sjö Evrópulanda. Í þeirri ferð var mamma næstum því búin að fá aðsvif yfir látunum í metróinu í París.

Það var auðvitað gríðarlegur spenningur í manni. Hafði púlað allt sumarið í hellusteypu sem stóð í miðri auðn fyrir neðan Kópavog. Nú er Smáralindin þar sirka. Vann með bjánum sem lögðu mig í einelti lite en maður lét sig hafaða enda vel borgað. Þetta var hörkupúl. Maður þurfti að rogast með 50 kg sementspoka og sturta í hrærivél og síðan að steypa blýþungar hellur og eitthvað helvítis kjaftæði. Ég var farinn að fara létt með sementspokana eftir nokkrar vikur svo maður hafði bara gott af þessu. Varð reyndar hellaður í bakinu í lok júlí en náði mér á sterkum verkjalyfjum í heita pottinum í Kópavogslauginni.

1983-1
Við sigldum með MS Eddu, sem var í gangi þetta sumar. Fjör og bjór og Blue Monday á fullu á diskótekinu. Ekki gott að vera þunnur á skipi, sérstaklega þegar maður er á ódýrasta farrými (í svefnpoka á ganginum). Þetta var interail ferð. Fórum í land í Newcastle og beint í plötubúðirnar í London. Það var ekkert Visa upp á að hlaupa, bara cash og ferðatékkar. Við ætluðum á goth-böndin Virgin Prunes og Alien Sex Fiend. Fyrir utan staðinn var löng röð af uppstríluðu gothliði og maður stakk í stúf í anorakknum. Það var uppselt svo við skelltum okkur á ástalska industrial bandið SPK og Howard Devoto úr Magazine, sem var með sóló. Á undan var eitthvað hallærisband að spila. Söngvarinn veifandi blómvendi og eitthvað kjaftæði. Áhorfendaskarinn var alveg að missa sig yfir þessu en við héngum á barnum og fannst lítið til koma. Þetta voru The Smiths í startholum meiksins og ég átti eiginlega aldrei eftir að fíla bandið.

1983-2
Ég lét sjá mig í þessari múnderingu á ströndinni í Brighton. Föt hafa aldrei verið stórt áhugamál hjá mér!

París, Zurich og endað í Amsterdam. Nú var allur peningurinn búinn en í staðinn komin nokkur kíló af brakandi nýbylgjuvinýl. Verst að við gistum á húsbáti og vorum neyddir til að yfirgefa pleisið á milli 9 og 17. Þá vafraði maður um Amsterdam í rigningu og hékk undir búðarmarkísum. Ég át fría morgunmatinn á skipinu og átti fyrir einni pulsu úr sjálfssala á dag. Held það hafi verið allt að því vika sem fór í þetta rugl. Svona var þetta bara, að kaupa plötur skipti meira máli en matur. Og ekkert Visa.

1983-3
Í lok ferðar var brotist inn í klefann okkar og vegabréfunum stolið. Héngum á löggustöð í heilan dag en fengum bráðabirgðarvegabréf og komumst heim. Seinna var ég boðaður á löggustöðina í Kópavogi og endurheimti vegabréfið. Stórfengleg ferð í alla staði!

(Þetta blogg var skrifað með Bauhaus og The Birthday Party á Spotify).

Íslenskt í Groningen

20 Jan

Ég var sem sé á panel um útrás íslenskra hljómsveita á hinni miklu Eurosonic ráðstefnu í Groningen. Fékk sérmerktan sixpakk af Heineken að launum.
2015-01-16 17.56.27
Við bjuggum mörg á stórum síkjabáti. Mér og Agli Tómassyni var troðið saman í káetu. Svo rölti maður um bæinn, sem er alls ekki stór, allavega ekki miðbærinn. Þarna var hellingur af allskyns þjóða kvikindum að spila, en Ísland í fókus með 19 atriði á dagskrá. Maður hékk eðlilega mest utan í íslensku dagskránni.

2015-01-15 20.52.11
Hér má sjá Ólaf Björn Ólafsson, ÓBÓ, flytja sitt lágstemmda efni með fiðlu og gítarleikara. Óbó var fyrrum trommari með Yukatan og Unun en hefur svo unnið með allskonar dóti í seinni tíð, m.a. Sigur Rós. Músíkin var dúllerí og Óbó með hálfgerðan ljóðalestur ofan á. Mjög lágt stillt svo þegar trommu-sándtékk á neðri hæðinni brast á heyrðist það full mikið á milli. Engu að síður fín músík til að loka augunum við.

Aurora var eitthvað drepleiðinlegt norskt band með Cranberrieslegri söngkonu. Ég var að deyja innilokaður út í horni en tókst að troða mér gegnum þvöguna og út. Hinds (áður Deers) eru spænskar og rokka bílskúrslega og eins og allt sé alltaf að detta í sundur. Nokkuð kjúttað.
2015-01-15 23.00.34
Júlíus Mayvant (hann heitir reyndar Unnar, aðalgaurinn) ku vera búinn að eyða miklum tíma í fyrstu plötuna sína, en almenningur þekkir bara Color Decay, sem miðað við settið í Groningen Forum er með bestu lögum. Fyrsta lagið sem hann tók, brassknúinn slagari, var reyndar mjög gott líka við fyrstu hlustun en restin þarf kannski meiri hlustun. Júlíus/Unnar er full lúðalegur á milli laga með frekar fúla brandara. Ætti kannski að taka sig á þar, kannski taka uppistandskúrs hjá Þorsteini Guðmundssyni. Samt: Held alveg að hjólin geti farið að rúlla hraðar og hraðar á þessum bæ.
2015-01-15 23.51.47
Dj Flugvél og geimskip vafði áheyrendum um fingur sér og tók þá í æsispennandi geimferð. Allt annað en leiðinlegt dót hér á ferð, enda Steinunn svo innileg og eðlileg í framkomu, atferli og hegðun. Ofsa fjör.

Smellti ekki mynd af Young Karin, en þau voru skemmtileg í kjallara djassklúbbs. Trommarinn úr Agent Fresco barði þetta áfram en söngkonan mætti aðeins vinna í framkomu, atferli og hegðun.

2015-01-17 00.38.45
Skálmöld kunna að víkingametalrokka sali og tóku Grand Theater í gíslingu af miklu öryggi. Allir stælarnir náttúrlega, fimmundarsöngur og gítarsóló.

Svo missti maður af allskonar dóti, Rökkurró voru víst snilld í kirkju, Mammút rokkaði buxurnar af liðinu og Kiasmos elektró-headbönguðu partíið.

Groningen er næs. Hjólamenningin jafn geðveik þar og annarsstaðar í Hollandi. Fékk mér djúpsteiktan músling sem ég hef einhvern veginn tengt við Holland eftir að ég var þarna endur fyrir löngu. Það undarlegasta í ferðinni var að sjá Megasar-plötur upp um alla veggi í plötu/antík-búðinni Klinkhamer. Keypti ekki, enda er Megas á Spotify!
2015-01-17 14.07.23
Það næst undarlegasta var að sjá styttu fyrir utan rakarastofu sem er alveg eins og Conan O’Brien.
2015-01-15 17.24.20

Haustlitaferð

22 Okt

Að baki er eðalferð. Flaug til Boston þar sem ég gisti hjá Bryan vini mínum. Á sunnudegi var stíft keyrt í túristapakka. Sigldum út á haf til að vafra um á Georges eyju, fyrrum fangelsis- og geðsjúkrahúss-eyju. Það var stuð.
2014-10-12 14.02.51
Í miðbænum fórum við á Frostbar, túristagildraðan ísbar til að drekka lélegan kokkteil í ískulda í úlpu. Kíktum í eðalbúðina Newbury Comics. Megastuð á matarmarkaði. Svo var þetta bara gott labb um alla borg. Líst vel á Boston. Hafði ekki komið þarna almennilega áður, en svo allri sanngirni sé gætt þá er New York ennþá uppáhaldsborgin mín. Þangað fór ég einmitt næst til að gista á kakkalakkabúllunni Westside YMCA og vafra um borgina. Flóttamaðurinn KJG var auðvitað fastur liður. Átlega séð var Serenipity 3 áhugaverðasti staðurinn. Þar er boðið upp á sjálfsmorðs-skammta af eftirréttum, t.d. þessum sem heitir „Can’t Say No“ Sundae:
2014-10-14 17.51.17
Auk þess að vafra stóreygður um borgina fór ég í heil þrjú skipti í bíó, enda hið ágæta listabíó Lincoln Center við hliðina á kakkalakka-Ymca. Boyhood, nýjasta mynd Richard Linklater er ansi skemmtileg og ferskt að sjá alla eldast um 12 ár (þetta er leikin mynd tekin yfir 12 ára tímabil). Söguþráðurinn kannski ekkert dýpri og inntakið ekkert byltingakenndara en í einhverri sjónvarpsmynd, en samt mjög eftirminnileg ræma (4). The Skeleton Twins með Bill Hader og Kristin Wiig er alveg fín framan af, en mér fannst hún alveg kála sér á síðustu mínútunum í allt-endar-vel blöðruskap (2). Svo fór ég á frönsku myndina La Chambre Bleue (The Blue Room), en svaf svo harkalega að ég er ekki dómbær. Sýndist þetta samt vera alveg fínt.

Aðaltilgangur ferðarinnar var að troða upp á miklum Íslendinga-fögnuði í Connecticut, Iceland Affair. Þetta er algjört sólóatriði Gerri Griswold, sem er gríðarlegur Íslandsnöttari og orkubolti. Íslendinga-dagurinn skiptist í tvennt. Um daginn voru fyrirlestrar í einskonar félagsheimili í Winchester þar sem ég m.a. hélt tölu um sögu ísl. poppsins. Íslenskir hestar og hundar vöfruðu um tún, lopapeysur og bolir voru til sölu og í kjallaranum var hægt að fá pulsur með öllu, hraun, harðfisk og ég veit ekki hvað. Góður var stemmarinn og fyrirlesturinn hitti í mark hjá fullum kofa. Hér erum við Gerri á vettvangi:
10403371_10205010390678115_512268027578152744_n
Um kvöldið var svo gigg í Infinity Hall í Norfolk. Á efnisskránni: Björn Thoroddsen, Lay Low og Agnes, Kristjana Stefáns, Myrra Rós og Júlíus, Snorri Helgason og Svavar Knútur. Troðfullur kofi og allir að spila með öllum. Ekki þótti gott að láta mig sleppa við Prumpulagið svo ég fór upp á svið í uppklappinu og stjörnufans renndi í prump-epík:
10451701_10204437357885336_266462729018045110_n
Nýja England er hreinlega stórfenglegt á þessum tíma árs, haustlitirnir sturlað töff og náttúrufegurð mikil. Á búgarði Gerríar má finna ýmis hress kvikindi, t.d. svínið Abe R Ham, sem stillti sér upp með okkur Snorra Helgasyni.
10698478_10204297738458064_6541423740991253496_n
Frábær ferð!

Amsterdam er æði

9 Sep

2014-09-07 17.56.10
Ég hafði nú bara tvisvar áður komið til Amsterdam, á Interrail 1983 og 1985. Í fyrri ferðinni hafði ég eytt öllum peningunum í plötur svo í heila viku hafði ég ekki efni á örðum mat en einni pylsu á dag úr svona sjálfssala. Það gladdi mig að sjá að þessir sjálfssalar eru enn við lýði í þessari æðislegu borg.
2014-09-08 09.40.12
Holland er ábyggilega með best heppnuðustu löndum heims. Þeir senda skárstu lögin í Eurovision, allt er afskaplega chillað í borginni og þeir eru frjálslyndir og no bullshittaðir á því (hér er enn verið að rífast yfir því hvort megi selja léttvín í búðum – dæs). Þarna eru allir á hjóli og maður þarf að passa sig miklu meira á hjólum en bílum. Samtals sá ég tvo með hjálm en aðra hjálmlausa, m.a. kornabörn. Herdís Storegaard myndi missa vitið að vera þarna.

Þetta var bísna beisik ferð, labb og sötr, síkjasigling, en engin nenna í söfn eða túristadrasl. Við reyndum að vera meira þar sem var ekki allt vaðandi í túristum (borgin sem telur milljón fær víst 10 milljón túrista á ári). Í rauða hverfinu og þar um kring var svínslega mikið af fullum Bretum í steggja eða svallferðum og fullir Bretar eru verstu ferðamenn í heimi, nokkru aftar en myndavélaðir Kínverjar í hóp, sem er næst versti túristahópurinn.

Búið var að undirbúa kvöldverð og panta á matsölustöðum. Fyrst varða Sama Sebo, indónesískur staðar, Þar átum við „Rijssttafel“, gott bland af allskonar fínirrí. Næst varða Garlic Queen, staður sem hefur hvítlaukinn í öndvegi. Heill hvítlaukur í forrétt, hvítlaukslegnir lambaskankar í aðal, og hvítlauksís í eftirrétt. Allt frábærlega gott, en smá fylgifiskur að allir ráku gríðarlega mikið við eftur þessa máltíð og langt fram á næsta dag. Það er því áríðandi að fara ekki þarna daginn fyrir flug.

2014-09-07 21.13.07
Þriðja kvöldið tók steininn úr í æðislegheitum þegar við fórum á arabíska staðinn Nomads, sem við höfðum lesið um í Man blaðinu. Hér að ofan er mynd af forréttunum en við vorum auðvitað of æst til að taka mynd af aðalréttunum eða eftirréttunum en þetta var allt algjörlega geðveikt. Ekki er maturinn bara æði á þessum stað heldur aðstaðan og lúkkið. Við lágum og sátum í risastórum sófa og gátum hvílt okkur á milli. Það hefur löngum verið mitt markmið að borða á stað sem má leggja sig á. Svo kom magadansmær og hrissti sig fyrir gesti, hægt var að fá axlarnudd og svo kláruðum við dæmið með ilmandi góðri jarðarberja-vatnspípu. Stórfenglegur staður!

Það er svo sem ágætt að koma heim í ruglið, skítaveðrið og hjakkið, en ég hefði samt alveg verið til í að vera aðeins lengur í Amsterdam. Það líður allavega ekki svona langur tími þar til ég fer þarna næst.

Svartnættið á bakvið ærslin

13 Ágú

robin500
Maður verður alltaf jafn hissa þegar einhver deyr sem maður á ekki von á að sé á útleið. Ég man hvar ég var þegar ég heyrði um andlát George Harrison (NYC), Michael Jackson (Akureyri), en ég var nú bara heima í tölvunni þegar ég las á Facebook að Robin Williams hefði tékkað sig út. Maður hafði svo sem aldrei pælt mikið í þessum mistæka leikara (þ.e.a.s. myndirnar sem hann lék í voru misgóðar), og í því að á bakvið allan ærslaganginn væri svartnætti.

Grín og Poddkast-maðurinn Marc Maron er mikill meistari sem hefur tekið fjölmörg áhugaverð og öðruvísi viðtöl við allskonar skapandi fólk í gegnum árin. Þetta má hlusta á á www.wtfpod.com, t.d. viðtöl við Nick Cave, Iggy Pop, Leonard Maltin og Lena Dunham. Mjög gott stöff. Eftir sviplegt brotthvarf Robins setti Marc gamalt viðtal við Robin á netið. Þeir sem vilja minnast hans er bent á það. Þar kemur hann til dyranna eins og hann er klæddur (eins og sagt er).

Eitt samviskubit í viðbót

9 Júl

UKI3y2i
Það er ekki tekið út með sældinni að vera vestræn neyslugylta. Eina leiðin til að stökkva á neyslu-hamstrahjólið er að hugsa ekkert út í það þegar þú byrjar að hlaupa. Annað hvort það, eða sleppa því að vera vestræn neyslugylta. Ég meina, þú ert ekki að hugsa út í það að kjúklingabitinn sem þú ert að slafra í þig var einu sinni lifandi hæna í alltof litlu og illa þefjandi búri; að ódýru fötin sem þú færð í H&M voru framleidd af nánast-þrælum í þriðja heiminum; að fíni Ipaddinn þinn var framleiddur í láglauna þunglyndi í Kína og svo fokking framvegis.

Nú geturðu bætt enn einu samvikubitinu við. Þegar þú kaupir eitthvað frá Amazon skaltu hafa hugfast að sá eða sú sem tók dótið til og pakkaði því inn var langþreyttur og þunglyndur vinnumaur í versta djobbi í heimi. Öfugt við það sem ætla mætti, eru það helst miðaldra konur sem vinna þessa vinnu. Þær eru með einskonar klukku um hálsinn sem segir þeim í hvaða gangi risastóra vöruhússins (staðsetning Amazon vöruhúsa er haldið tryggilega leyndri) pöntunin er. Svo er byrjað að hlaupa því klukkan byrjar að telja niður. Maurarnir hafa ákveðinn tíma til að sækja dótið sem þú varst að panta og henda þeim á færibandið. Ef sá tími næst ekki í nokkur skipti er maurinn rekinn. Svo er ætlast til að einn maur í pökkunardeild pakki inn 500 smápökkum á klukkutíma (CD eða bók). Öfugt við íslensk síldarplön til forna, þegar fólk þrælaði og svaf standandi við tunnurnar (svona þrældómur er jafnan talinn mjög göfugur á Íslandi) er Amazon-djobbið náttúrlega hörmulega illa borgað og tryllingslega taugatrekkjandi.

Amazon er ekki rekið af góðum hippum með „hjartað á réttum stað“. Og ég sem hélt að  Dósagerðin hefði verið slæm!

Viljirðu vita meira lestu þá t.d. þetta, eða gúgglaðu „Amazon workers abuse“. Eða ekki. Það er miklu auðveldara. Enda bestu verðin hjá Amazon.