Sarpur | febrúar, 2013

Vinýl-perrar athugið!

27 Feb

Stanslausar fréttir berast af fjölgun vinýl-perra. Nú er enginn maður með mönnum nema hann eigi plötuspilara. Gamli vinýllinn er sjóðheitur en diskar eru að verða jafn glataðir og VHS spólur. Nema VHS eigi kombakk í nánustu framtíð („miklu lífrænni myndgæði í VHS-inu bla bla“)…

Lucky Records er á leiðinni að flytja í nýtt húsnæði við Hlemm (úr 67 fm2 í 300 fm2) og nú get ég glatt ykkur perrana með því að Trausti Júlíusson vinur minn er enn að selja vinýlplöturnar sínar. Þetta er funheitt eðalefni upp til hópa. Trausti hefur útbúið gríðarlega vandaðan lista sem áhugasamir geta velt sér upp úr. Listann má sjá hér. Neðst er svo emailið hans Trausta til að kaupa brakandi ferskt plast. Og það er sko alvöru plast en ekkert soya plast.

Ný okursíða!

26 Feb

Þá hefur ASÍ sett upp einskonar okursíðu: VERTU Á VERÐI. Loksins loksins, segi ég nú bara. Þegar ég stóð í þessu neytendaströggli með Okursíðuna fannst mér alltaf hálf furðulegt að ég, einhver rokkari út í bæ, væri að standa í þessu, en ekki einhver opinber aðili, þ.e. fólk á launum. Nú hefur það gerst og bara gaman að því.

Ekki það að eitthvað muni breytast (nú byrjar þunglyndistuðið): Stundum finnst mér eins og þetta sé alveg vonlaust hérna og að við höfum gert herfileg mistök með að slíta okkur frá Dönum. Ég meina, vegakerfið í henglum, heilbrigðiskerfið í rugli, allir einhverjir láglaunahamstrar í hjóli að hamast við að borga einhver lán sem hækka bara sama hvað borgað er o.s.f.frv.

En jæja, þetta gæti verið verra. Ég gæti verið einhver heilaþveginn aumingi í Norður Kóreu. Er einmitt að lesa núna Engan þarf að öfunda, stórgóða bók um lífið í þessu fáránlega en átakanlega spennandi landi.

Ekki frumlegt, bara fínt

19 Feb

Hey, ég er búinn að vera að hafa gaman af einhverju dóti, eins og gerist.


Kristján Hrannar var í 1860 en er nú kominn í sóló. Lausamjöll er fyrsta lagið en hann ætlar sér að koma plötunni Anno 2013 út í vor. Hef heyrt tvö önnur lög (hitti hann í apóteki og hann lét mig fá disk. Mig minnir að ég hafi verið að kaupa K-Y jelly, en sko ekki fyrir það sem þú heldur, heldur fyrir reiðhjólatengd núningsvandræði í nára. Veit ekkert hvað hann var að kaupa) og þetta er gott rólegheita-popp.

Oddur er með Flöskuást, Belle & Sebastian-að stuðpopp, sem lofar góðu – „Flaskan orðin tóm / ástin: orðin tóm“ er góð opnunarlína (hver man ekki eftir laginu Orðin tóm með Unun?) Oddur var örugglega í einhverri hljómsveit einu sinni (man það ekki, en minnir að ég hafi heyrt eitthvað um það) og hann segist vera með plötu á leiðinni. Alveg ljómandi.


Warm Soda er band frá Kaliforniu sem er dálítið Strokkað á því, en samt allskonar annað líka. Fyrsta platan heitir Someone for you og er búinn að vera á góðu blasti hér í höfuðstöðvunum. Ekkert frumlegt kjaftæði hér, bara heimilislegt.


Ekkert frumlegheitarugl heldur á Foxygen, sem voru að koma með plötuna We are the 21st century ambassadors of peace and magic þar sem gömul ilmvötn svífa yfir vötnum.

Sko, ég er samt alveg til í eitthvað frumlegt eins lengi og það er ekki eitthvað leiðindarugl.

Flottustu myndböndin/umslögin 2012

15 Feb

Ég var í nefnd með Goddi og Dögg Mósesdóttur að velja bestu myndböndin og umslögin í ár fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin. Hér eru niðurstöðurnar:


Úlfur – Black Shore – Máni Sigfússon


Sykur – CURLING – Addi Atlondres / Þorgeir F. Óðinsson / Einar Bragi Rögnvaldsson


FM Belfast – DELOREAN – Magnús Leifsson


Retro Stefson – GLOW – Magnús Leifsson


Björk – MUTUAL CORE – Andrew Thomas Huang

Þetta voru bestu myndböndin. Þetta eru svo bestu umslögin:

theboxtree
Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson – The Box Tree – Ingibjörg Birgisdóttir og Orri Jónsson

sigur-ros-valtari-608x5231
Sigur rós – Valtari – Ingibjörg og Lilja Birgisdætur

borkoborn
Borko – Born To Be Free – Bobby Breiðholt

retroretro
Retro Stefson – Retro Stefson – Halli Civelek

Ojba_Rasta-hires
Ojba Rasta – Ojba Rasta – Ragnar Fjalar Lárusson

Það kemur svo í ljós í Hörpu á miðvikudaginn hvað af þessu er langbest.

Kótilettur í 101

14 Feb

Mynd1392

Sá skelfilegi atburður átti sér stað í byrjun árs að Mathús Mömmu Steinu (Steinku Bjarna) á Skólavörðustíg var lagt niður. Ég komst að þessu þegar ég vatt mér þarna inn og ætlaði að fá minn mánaðarlega (eða svo) skammt af íslenskum kótilettum í raspi með þjóðlegu meðlæti. Í staðinn er kominn fiskistaður og Vala Matt var að fá sér fisk við eitt borðið. Ég strækaði á fisk og snaraðist dauðspældur út.

Í dag fékk ég loks kótilettur, reyndar svona ekkert svaka þjóðlegar og ekkert rasp. Atburðurinn átti sér stað á hinu fína Balkanika Kitchen á Vitastíg, gengt Geisladiskabúð Valda.   Þetta var alveg ágætt en næst þegar ég fer á þennan stað ætla ég að fá mér eitthvað annað og meira Balkanskag-ískt eða Miðjarðahaf-ískt. Þarna er fullt að spennandi réttum í boði og verðin vel ásættanleg.

Ég veit af BSÍ en hvar annars staðar í bænum fær maður ekta kótilettur í raspi með þjóðlegu meðlæti? Þetta klikkaði alveg þegar ég ætlaði að elda mér svona sjálfur og ég verð að koma mér upp kótilettu-díler til að svala þessari mánaðarlegu (eða svo) þörf. BSÍ er svo sem ok, en gott að hafa smá fjörbreytni.

Hér kemur svo mynd af ís-karli sem ég sá á glugga í Skipholti. Ætli það hafi ekki verið sjoppa þarna einu sinni en nú er ís-karlinn það eina sem minnir á forna frægð.
Mynd1389

Nick Cave is a mean Motherfucker

13 Feb

tumblr_ly5s9kgZBI1qhu9bno1_1280
Einu sinni var ég gjörsamlega sturlaður í Nick Cave og félaga hans í áströlsku sveitinni The Birthday Party. Átti allt með þeim, bæði eldgamla stöffið sem þeir gerðu undir nafninu Boys Next Door og svo nýrra efni. Þetta æði hófst þegar ég keypti plötu Birthday Party Prayers on Fire í Safnarabúðinni (1982 líklega) og hélst eitthvað frameftir sólóferli Nicks. Platan Your Funeral My Trial kom t.d. út þegar ég bjó í sárri fátækt í Frakklandi, en ég keypti hana samt og át því ekkert í þrjá daga. Líklega ekki þess virði, en góð saga samt.

Seinna varð ég eiginlega fráhverfur Nick. Fannst hann beinlínis leiðinlegur og allar þessar plötur hans eins. Ég er svona meira að taka hann í sátt núna og glænýjasta platan hans, Push the sky away, er til að mynda hið fínasta stöff. Á plötuna má nú hlusta í streymi hjá bandarísku gufunni. Svo er Rás 2 með þann metnaðarfulla dagskrárlið í kvöldsenda út beint frá tónleikum Nicks og hinna vondu fræja í Berlín. Gleðin hefst kl. 19:30.

Egill Ó 60

8 Feb


Egill Ólafsson verður sextugur á morgun og því spilaður í spað á öllum útvarpsstöðvum um helgina. Ég er samt ekkert svo viss um að þetta lag verði spilað mikið (of mikill metall!), en þetta er það fyrsta sem afmælisbarnið söng inn á plötu. Egill og Júlli Agnars og fleiri höfðu verið í unglingahljómsveitinni Scream (líklega var Scream undir áhrifum frá Cream), en Andrew-dæmið kom síðar, eða árið 1974 og voru þá Júlli og Andri heitinn Clausen aðalmennirnir. Platan seldist lítið og fékk afleitan dóm („einhæfur söngur“), en síðan þá hefur margt breyst og platan orðin gulls ígildi. Þetta er gasaskæs harðrokk, smá Sabbath í þessu og vitanlega mjög langt frá því sem síðar kom hjá Agli, helstu gersemar íslensku tónbókmenntanna með Stuðmönnum, Spilverki og Þursum. Heill sé meistara Agli sextugum!

Bítlarnir – Betri eftir hlé

4 Feb

bootlegbea
Bítlarnir voru í Hörpu í gær, Bootleg Beatles þ.e.a.s. Það var fín mæting og fólk ánægt með þetta. Maður var hálfgert unglamb þarna. Kóver og tribjútbönd eru greinilega það sem koma skal, enda rokkið komið á endastöð. Fyrst sinfóníusveitir víða um heim spila aðallega verk eldri meistara í dag má sjá fyrir sér að eftir 50 ár verði ríkisreknar rokkhljómsveitir að spila klassíska poppið og rokkið.

Bootleg Beatles fyrirbærið er búið að vera til síðan 1980 og allskonar lið búið að spila með í gegnum árin. John Lennon t.d. bara frá 2011 samt var hann einna bestur. Ringo var eiginlega ólíkastur fyrirmyndinni en trommaði vel. Þeir reyndu að herma sem best eftir karaktereinkennum og voru í ýmsum búningum svo þetta var bæði gigg og leikrit. Fyrir hlé tóku þeir elsta dótið, eða fram að Help, og gerðu það ágætlega. Það hefði samt alveg mátt vera blast á þessu. Eftir hlé kom Sgt. Peppers og annað seinni tíma stöff og höfðu þá fimm aukahljóðfæraleikarar bæst við. Þetta var vel gert hjá þeim og ef maður lokaði augunum mátti svona næstum því ljúga því að sér að þetta væri í raun Bítlarnir sjálfir. Sem er kannski ekki hægt því þeir hættu jú að spila læf 1966.

Bara hin ágætasta skemmtun held ég. Dálítið hallærisleg kannski en það skiptir litlu því Bítlarnir eru bestir!  Ég er ekkert svo viss samt um að ég sé að fara að mæta á öll tribjút-sjó sem í boði verða á næstunni.

 

Anddyri helvítis

1 Feb

anddyrihel
Þessi mynd heitir Anddyri helvítis. Það er bara eitthvað við stemmninguna þarna og þetta með að skulda þarna endalaust án þess að sleppa nema við andlátið. Borga borga hjakka hjakka. Samt er nú starfsfólkið í skattinum alltaf voða almennilegt.  Uss, maður má ekki vera svona neikvæður.

En að allt öðru. Plötur Retro Stefson og Ásgeirs Trausta eru tilnefndar til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Hér er netkosning og hægt að hlusta á brot af öllum plötunum.