Sarpur | Uncategorized RSS feed for this section

Breytingar og byltingar

16 Júl

costco
Costco kvöldverður var á boðstólum í gærkvöldi. Ágætis ódýrt sushi, stórfínn kjúklingur (sem smakkast helst eins og kalkúnninn sem hefur hingað til bara verið hátíðarmatur, og kostaði það sama og pínulítill sveittur og ofsteiktur kjúklingur í Melabúðinni), og sticky pudding í eftirrétt. Vá, bara, vá. Costco-sticky pudding (sirka 1þ fyrir tvo – einn nægði vel f/4, hinn fór í frystinn) er algjörlega unaðslegur, alveg á pari við það besta sem maður hefur fengið á veitingahúsum erlendis. Ég var sendur í Hagkaup, Eiðistorgi, til að sækja vanillu-ís til að hafa með. Sá þar kirsuberjadollur og kippti einni með, enda verðið fínt, 469 fyrir 500g. Berin litu bara vel út sýndist mér, dökkrauð og stökk, en ég var svo sem ekkert að gegnumlýsa dolluna.

En auðvitað, þegar átti að éta berin og ég beit í fyrsta berið kom gamla einokuninn og viðbjóðurinn yfir mig af fullum þunga. Berið var ónýtt – suddalega ógeðslegt, grautlint og andstyggilegt – og ég spýtti því út úr mér. Ég setti upp lesgleraugun og sá sull í botninum og að allavega 3 ber voru komin með gráan myglublett.

Í staðinn fyrir að leggja á mig ferð til að tala við ung kassagrey og fá sennilega á endanum endurgreitt ákvað ég að skrifa þetta. Það breytir kannski einhverju hjá gömlu myglukaupmönnunum, en ég stórefast um það. Breytingar þurfa meira en nokkur úldin kirsuber til að eiga sér stað. Byltingar þurfa hinsvegar Costco.

Nennekki

10 Júl

Nennekki (held ég) að blogga meira. Ég get alveg sagt það sem ég þarf að segja á Facebook. Takk fyrir.

Gleðileg jól!

24 Des

20161224_075010
Kæru vinir – Hugheilar óskir um gleðileg jól til sjávar og sveita.

Poppsagan á DVD!

18 Des

15418351_953819338051894_3246524175458615467_o

Allir þættirnir 12 fást nú saman á þremur dvd – glæsipakki sem er til sölu á eftirtöldum útsölustöðum: Heimkaupum (frí heimsending), Hagkaupum, Penninn-Eymundsson, Lucky Records, Smekkleysa Plötubúð og Tólf tónum. Skyldueign á hvert menningarheimili!

Bestu plötur ársins 2016

10 Des

bestu2016
Venju samkvæmt kemur hér persónulegur Bestu plötur ársins 2016 listi ársins. Líklega er ég að gleyma einhverju. Þetta er svona það sem ég hlustaði mest á og fílaði best. 

 1. Emmsjé Gauti – Vagg & velta
 2. Reykjavíkurdætur – RVK DTR
 3. Benni Hemm Hemm – Skordýr
 4. Bambaló – Ófelía
 5. Tófa – Teeth Richards
 6. Snorri Helgason – Vittu til
 7. Cyber is Crap – EP
 8. Suð – Meira suð
 9. Amiina – Fantomas
 10. GKR – GKR
 11. Ýmsir – Myrkramakt II
 12. Mugison – Enjoy!

Ég hlustaði líka á og fílaði eitthvað erlent – aðallega er þó gripið í hitt og þetta og ekki alveg haft tíma og athygli fyrir heilar plötur. Því get bara gert helmingi minni lista.

 1. Solange – A seat at the table
 2. The Avalanches – Wildflower
 3. Savages – Adore Life
 4. Anna Meredith – Varmints
 5. Pavo Pavo – Young Narrator in the Breakers
 6. Car Seat Headrest – Teens of Denial

Allt í allt var 2016 frekar tíðindalaust ár. Rappið náttúrlega í fínni uppsveiflu – mest að gerast þar – rokkið eins og eitthvað gamalt hjakk og lítið spennandi þar. En það eru breytingar í vændum, held ég. Ég hef fulla trú á að 2017 verði sterkt ár í músík. 

Mikið hjólað í á árinu

7 Des

04142014pennyfarthing
Miðað við dv.is og vísi.is var gríðarlega mikið um að einhver hjólaði í einhvern á þessu ári. Það mætti halda að 2016 væri hjól ársins, svo mikið voru menn og konur að hjóla í einhvern. Til upprifjunar eru hér nokkrar íhjólanir-ársins.

Björn Bjarnason hjólaði í Fréttablaðið (í dag)
Ingó hjólaði í Iceland Airwaves
Höskuldur hjólaði í Sigmund Davíð
Donald Trump hjólaði í allt og alla
Eiginkonan úr King of The Queens hjólaði í Vísindakirkjuna
Piana hjólaði í Söru Heimis
Guðjón Þórðarson hjólaði í KR
Einar Mikael töframaður hjólaði í Listamannalaunin
Páll Óskar hjólaði í Franklin Graham predikara
Helgi Hrafn hjólaði í Gústaf Níelsson
Karl Th hjólaði í Jónas Kristjánsson
Karl Th hjólaði líka í Gunnar Smára, Illuga og Eirík Jónsson
Vilhjálmur Birgisson hjólaði í Gylfa Arnbjörnsson
Kári Stefánsson hjólaði í ýmsa, þar á meðal Dag og Bjarna
Benedikt Viðreisn hjólaði í Frosta á Xinu
Árni Johnsen hjólaði í Ragnheiði Elínu
Sértakur hjólaði í Glitni
Sigurður Einarsson hjólaði í Eirík Jónsson
Skúli í Subway hjólaði í Fríhöfnina
Jón Gnarr hjólaði í Davíð Oddsson
Logi Bergmann hjólaði í „fýlupoka“
Benedikt Bóas hjólaði í umfjöllun Símans
Björgólfur hjólaði í Stundina
Þórunn Antónía hjólaði í Bubba
Heimspressan hjólaði í Sigmund Davíð
Forstjóri SS hjólaði í næringafræðinga
Sema Erla hjólaði í Bítið á Bylgjunni
Ásmundur hjólaði í Þórð Snæ
Björn Valur hjólaði í Ólaf Ragnar

Þetta er nú bara brot af þeim íhjólunum sem DV og Vísir buðu upp á í ár, en einnig má geta þess að Guðni Th hjólaði í leikskólann og ung stúlka hjólaði fyrir bíl.

Á degi íslenskrar tónlistar

1 Des

fullveldispunk2
Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á Fullveldispönk! í Hard Rock Café í kvöld. Við erum að tala um tvöfalt kombakk Jonee Jonee og Tappa tíkarrass, klassískt popppönk Fræbbblanna og nýrokk Suðs. Verður gjörveikt. Allir eru til í tuskið og bátana og hér má sjá Jonee Jonee æfa sig á dögunum. MIÐASALA Á MIÐI.IS

******

Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á Karolínusöfnun Heiðu og plötuna hennar FAST. 

******

Á degi íslenskrar tónlistar bendi ég á að 12 þátta-röðin Popp og rokksaga Íslands er enn í forsölu á 5000 kall hér. 3ja diska DVD-pakki er væntanlegur á næstu dögum. Pantið hér.