Sarpur | september, 2016

Blökkumenn á Borginni

25 Sep

Úr „Verkamanninum“ 27. maí 1930:
verkamadurinn2

„Siðaðir blökkumenn“, ókei… En það er nú gott til þess að vita að það hafa bara verið 19 hálfvitar á meðal þeirra 357 gesta sem gistu á Hótel Borg í maí 1930. Og líka gott til þess að vita að forverar okkar voru ekki fávísir heimskingjar.

Ríó tríó og Halli

25 Sep

riotrio
Þetta þykir mér skemmtileg mynd. Held ég hafi örugglega fengið hana frá Skjalasafninu í Kópavogi. Við sjáum Ríó tríó leika við Kópavogsskóla, barnaskólann minn. Á bakvið standa Óli Kr., yfirkennari (og síðar skólastjóri) og Halli sonur hans. Mér sýnist Halli vera sirka 3-4 ára svo þetta er 1968-1969. Halli var einn besti vinur minn í Kópavoginum. Hann bjó á Auðbrekkunni og við vorum mikið þar. Hann átti eldri bróður sem átti progg-kassettur með Genesis og eitthvað sem ég fílaði aldrei. Þarna voru líka litlar plötur í hrönnum, ég man að ég varð fyrir sterkum hughrifum þegar ég heyrði Reach Out, I’ll be There með The Four Tops af einni þeirra. 

Ég man að ég hugsaði að við ættum ranga pabba. Ég var fyrir blöð og heftara á meðan Óli var fyrir trésmíði, en ég er með þumalputta á öllum og var alltaf rekinn í burtu þegar ég bauðst til að hjálpa pabba mínum, húsasmíðameistaranum. Þá var ég búinn að skemma kíttissprautuna eða eitthvað. Óli Kr. var rólegur og yfirvegaður og vel liðinn af okkur krökkunum. Anna Mjöll Sigurðardóttir kenndi mér allan barnaskólann (D-bekkurinn) og var æðislega góður kennari. Ég sá hana löngu löngu síðar á pósthúsinu í Kópavogi og hefði átt að þakka henni fyrir, en kom ekki upp orði. Óli Kr. hlýtur að hafa kennt mér eitthvað líka því ég man eftir því þegar hann útskýrði muninn á Móngóla og Mongólíta. Það voru aðrir tímar þá.

Við Halli dunduðum ýmislegt. Eftir skóla fórum við heim til hans og mamma hans ristaði brauð oní okkur, eins og „heimavinnandi“ mömmur gerðu á þessum tíma. Við sömdum saman teiknimyndasögur, rótuðum í ruslahaugunum, urðum óðir í flugelda um áramótin, brutumst inn í bakarí með öðrum óþekkari strákum. Ég stóð nú bara fyrir utan á vakt, enda gunga. Stórir strákur píndu okkur og við renndum okkur á snjóþotu niður brekkuna frá Álfhólsvegi og niðrá Löngubrekku. Það náðist meira að segja mynd af því. Halli er á þotunni, ég stend fyrir ofan og það má sjá glitta í KRON.
hallirenna

Þennan yndislega barnatíma reyndi ég að syngja um í laginu Komdu út að leika á Abbababb! Svo kom pönkið. Halli var aldrei mjög spenntur fyrir því svo það skildust leiðir.

Ísland er besta land í heimi

24 Sep

Ísland er besta land í heimi samkvæmt könnun sem Bloomberg hefur birt. Fast á hælana koma Svíþjóð og Singapore. Er það ekki þar sem fólk er fangelsað fyrir að hrækja tyggjói á götuna, eða er það kannski bara flökkusaga (nenni ekki að gúggla)?

Þessar niðurstöður eru svo sem í anda þess sem maður hefur ímyndað sér. Ísland er alveg fínt sko, og það getur meira að segja orðið betra. Bara laga það sem vantar upp á: Að fólk lepji ekki dauðann úr skel, að heilbrigðiskerfið sé gott, að menntun sé á parti við það besta og það að fara í nám sé ekki þrautarganga fátæktar og basls. Síðari tíma mál eru að malbika alla þjóðvegi, tvöfalda leiðina í báðar áttir frá Rvk til Ak og Hafnar, uppræta frændhygli og kvótakónga, o.s.frv. Nú og fá nýja stjórnarskrá. Mér sýnist upplagt tækifæri til að leggja lóð á þessa vigt eftir mánuð þegar þú kýst Pírata. Eða VG eða Viðreisn ef þú endilega vilt. Mér lýst svo sem ágætlega á allt þetta dót, en best á Pírata. Mér finnst svo Sigurður Ingi ágætur líka og gamla Framsóknar-línan, ef ekki væri fyrir mafíósana sem sett hafa ljótan blett á gömlu sveitarómantíkina. Allavega allt annað en status quo, sem var reyndar fínt band í sexunni og snemma í sjöunni. En svo misstu þeir það og komu með In the army now.

Karlar í maníu drepa börn

23 Sep

Heimurinn sökkar. Það er bara staðreynd. Hvað er að? Karlar í maníu og brundfyllisgremju að karlast eitthvað, drepandi, nauðgandi, græðandi: Það er fábjánast út um allt. Sýrland, Putin, ISIS, Trump, Sýrland, flóttafólk, vesen, leiðindi, Sýrland, bögg og tráma.

Til að verða ekki sturluð tökum við flest þá (ómeðvituðu) ákvörðun að stinga hausnum í sandinn, hugsa um eitthvað annað, rassgatið á okkur sjálfum – ég lifi í kringum eigin nafla. Hvað er í sjónvarpinu? Er komin ný sería af Líf mitt er drasl? Hey, vá, nýr sími frá Iphone. Einhver sem ég hef aldrei heyrt minnst á áður léttist um 30 kg! Hvað fæ ég mörg læk á myndina mína? Ég er með ADHD. Ég er með bla bla bla.

Hvað er svo sem annað hægt að gera? Vera með mánaðarlega innborgun í (góðgerðasamtök að eigin vali). Skrifa grein (nú eða blogg). Skrifa undir rafræna kröfu um bætt ástand. Þeir, sem þetta brennur heitast á, gerast sjálfboðaliðar og mæta á staðinn til að vera hands on að bjarga því litla sem ein manneskja kemst yfir. Hetjur.

Svo eru það blessaðir poppararnir sem annað slagið eru slegnir baráttuanda og koma með heimsósómatexta innan um ælofjúið og hvað þetta er sem popparar syngja um.

„Bisness-menn þeir vilja stríð svo seljist þeirra vopn. Af þeirra völdum er heimurinn sem skíðlogandi ofn,“ söng Jóhann G. Jóhannsson heitinn með Óðmönnum alveg brjálaður 1970 (þá sökkaði heimurinn líka). Jóhann bætti við ásakandi: „Við Íslendingar erum þjóð sem þolir ekki blóð. Látum hundrað kall í sjóð og teljum okkur góð“.

Á sama tíma söng Pétur Kristjánsson heitinn „Vitskert veröld“, hið frábæra lag Einars Vilbergs.

Björgvin Halldórs var líka brjálaður á þessum tíma og fleiri. Ég nenni ekki að gúggla hvað var í gangi 1970, en ætli það hafi ekki verið þetta vanalega: Graðir karlar í maníu að apast eitthvað og börn að deyja.

Spólum þá áfram um 46 ár. Það er ekki eins og karlar í maníu séu ekki lengur að drepa börn. Við göngum því miður ekki í hvítum hippamussum og elskum hvort annað. Nei nei nei, heimurinn hefur aldrei sökkað jafn stíft (Heimurinn hefur reyndar alltaf sökkað stífast á öllum tímum). 

Tarnús Jr. er listamannsnafn Grétars Magnúsar Grétarssonar og honum er ekki sama. Hér að ofan er flott lag og ömurlegt myndband, sem þú skalt ekki horfa á nema þú sækir í að líða illa. Svona er þetta bara ennþá, því miður: Karlar í maníu að drepa börn. Lagið heitir WWIII, enda vilja margir meina að þriðja heimsstyrjöldin sé skollin á. Ég gef Tarnúsi orðið:

Lagið heitir WW III (The truth is out there) og fjallar lagið og myndbandið um flóttafólk frá Sýrlandi, ástandið þar. Myndbandið er frekar átakanlegt og hefur það birst á síðu Save Syrian Children og víðar.  Lagið hefur vakið mikla athygli á Facebook.

Upprunalega ætlaði ég ekki að semja textann um flóttafólk en það gerðist ómeðvitað, en í framhaldi tók stefnan þangað. Mér fannst lagið dáldið dramatískt og vildi gera myndband í andstæðu við dramatíkina (eða hálfgert grín myndband í léttara kanntinum), en hætti svo við það vegna þess að mér fannst ég vera að gera grín af flóttafólki. Þannig að ég fór alla leið með þá hugmynd að vekja athygli á hvað er að gerast í Sýrlandi og víðar.

Sú athygli sem ég hef fengið og skilaboð frá fólki er rosalega sterk, og í sumum tilfellum er eins og fáir viti hvað er að gerast í heiminum, eða vita það en hafa ekki tekið mikið eftir því. Fólki hryllir við myndbandinu, en mér finnst það nauðsynlegt svo almenningur sjái sannleikann.

Grétar Maggi Tarnús Jr.hefur gefið út tvær breiðskífur (Original Cowboy og My God is Mad). Hann tók sér frí frá tónlistinni 2013 og kláraði nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Hann hefur gert fimm stuttmyndir og eina heimildarmynd „Meistari Tarnús og Hús“ sem fjallar um föður hans. Sú mynd komst inn á kvikmyndahátíðina Skjaldborg 2015. Núna er hann byrjaður aftur að semja tónlist í bland við kvikmyndagerð.

The Clash í Rvk 1980

20 Sep

Pabbi Justins Bieber var sex ára þegar ég fór á fyrstu útlendu tónleikana mína, laugardagskvöldið 21. júní 1980 (ég átti 3 og 1/2 mánuð í að verða 15 ára). Þetta var í stappaðri Laugardalshöll og Utangarðsmenn hituðu upp. Það var mikil spenna enda The Clash eitt af aðalböndunum, en við Kópavogspönkarar vorum þó fúlir af því Fræbbblunum hafði verið lofað að hita upp, en „helvítis kommafíflin“ hjá Listahátíð hætt við að leyfa þeim að spila af því textarnir voru ekki nógu mikið verkamanns eins og hjá Bubba. Valli í Fræbbblunum varð eðlilega alveg brjálaður og mætti ekki á giggið. 

clash-or
Ljósmynd náðist af mér á tónleikunum. Örin bendin á mig. Þarna eru líka Björn Gunnarsson, sem var með mér í F/8 á þessum tíma (þessi með steytta hnefann) og Ari Einarsson, gítarleikari Fræbbblanna á þessum tíma (þessi ljóshærð sem snýr með opinn munn frá sviðinu). Það eina sem ég man frá þessu giggi er að mér fannst það æðislegt og á leiðinni heim fullyrti ég við félaga mína að „maður þyrfti ekki að vera fullur til að skemmta sér“. 
clash-eg

Meira af The Clash: Nú er að koma „coming-of-age“ bíómyndin London Town þar sem Joe Strummer er í burðarhlutverki í túlkun Jonathan Rhys-Meyers (The Tudors, Dracula etc). Maður gefur þessu séns.

Pönksafn, Atvik, Nýló

16 Sep

Nýló sendi mér skilaboð og kom málum á hreint varðandi Núllið. Þau voru með plássið í frírri leigu í heilt ár og þar fóru fram nokkrar sýningar. Í sjálfboðavinnu komu þau plássinu í viðundandi ástand, sem við í PÖNKSAFNI ÍSLANDS tökum auðvitað fagnandi. Hér má lesa um aðkomu Nýló að Núllinu.

PÖNKSAFN ÍSLANDS mjakast áfram hægt en örugglega. Það eru sjö vikur í opnun. Það verður sem sé nóg að gera næstu vikurnar því auk þess að koma upp pönkinu mun ég opna mína fyrstu sýningu í MOKKA þriðjudaginn 1. nóv kl. 17-18. Þess vegna er ég búinn að vera vakandi núna síðan kl. 01:30. Svefn er bara fyrir vesalinga. Trixið er að taka eitt, tvö pávernöpp yfir daginn – þá lafir maður með meðvitund til kl. 21-22.

Á MOKKA sýni ég 18 akrýl-málverk á hvítgrunnuðum plötuumslögum. Sýningin heitir ATVIK og sýnir svipmyndir beint úr minningum heilans. Í hverri mynd verður 18 laga plata (eitt lag fyrir hverja mynd). Platan verður aðeins framleidd í 18 eintökum og músíkin verður ekki sett á netið í heild sinni (af mér allavega). ATVIK er því hreinræktað multimedia (myndlist/tónlist/safngripur). Verkin verða til sölu á uppsprengdu en sanngjörnu verði, 45.000 kr stk. Ég var ógeðslega lengi að mála þessar myndir, byrjaði 2014, en aðeins fljótari að búa til tónlistina. Hverju eintaki fylgir blað með myndum af öllum myndunum. 

PÖNKSAFN og ATVIK í Airwaves vikunni. Fúff, vinna vinna!

RIFF yfirvofandi

15 Sep

Fór í bíó í gær, á What happened to Baby Jane á Svörtum september Svartra sunnudaga. Stórfín mynd og Bette Davis og Joan Crawford að gera góða hluti. Ég var spenntur fyrir myndinni, enda búinn að vera að hlusta á poddcastið You must remember this sem hefur í sumar verið með sex þátta seríu um Joan Crawford. Alltaf gaman af gullaldarárum Hollywood.

En nú er bíóveislan mikla framundan, Riff 2016. Hér eru nokkrar myndir af Riff, sem hljóma spennandi.

RAVING IRAN – Heimildarmynd um teknóstráka í Íran, sem teknóast í skugga alræðisríkisins.

SONITA – Meira Íran. Nú er það Sonita, stelpa sem dreymir um að verða rappari, en á yfir höfði sér að vera gift einhverjum gömlum pungi.

BUGS – Hvað varð um íslensku pödduframleiðsluna sem var stoppuð um daginn? Var það ekki súkkulaði? Snakk? Skammtímaminnið svíkur á tækniöld upplýsingaöld. Bugs fjallar um það sem koma skal til að fæða heiminn, pödduát. Ég veit ekki um þig en ég er tilbúinn í pöddurnar. Hvenær ætli fyrsti íslenski pöddu-veitingastaðurinn opni? Og er ekki hægt að nota eitthvað af íslenskum pöddum? Skosk maðka-pylsa. Hrossaflugu risotto. Súkkulaðihúðaðar köngulær.

RISINN – Vanskapaðan meistara dreymir um sigra í kúlukasti (eða hvað svona henda kúlu-leikur heitir). Án efa upplífgandi mynd þar sem lítilmagninn stendur uppi sem sigurvegari.

KOMMÚNAN – Ný mynd eftir Thomas Vinterberg (Festen, Jagten). Millistéttarfólk stofnar kommúnu 1970. Grín og glens og tregi: Hvað gerist þegar nautnir skarast á við hugsjónir? Vinterberg alltaf traustur. 

CHASING ASYLUM – RIFF er alltaf með puttann á púlsinum. Nokkrar myndanna fjalla um flóttamannavanda heimsins í dag, þar á meðal þessi heimildarmynd sem fjallar um ástralska hluta vandans.

Þetta er auðvitað algjört brot af veislunni sem framundan er. Það eru frábærir tímar í vændum – veislan hefst 29. sept og stendur til 9. okt.

Brakandi ferskt x3

14 Sep

Hljómsveitin Fufanu hefur sent frá sér nýtt lag, Sports. Þetta er besta lagið þeirra til þessa og ég hef ekki séð flottara myndband í ár. Bravó!

Júlía Hermannsdóttir & Loji Höskuldsson eru WESEN. Þau hafa sent frá sér nýtt lag og myndband eftir Þóri Illmenni, eþs Just Another Snake Cult.

Hljómsveitin Gangly er einnig búin að senda frá sér nýtt lag, Holy Grounds. Hlustið á lagið á heimasíðu Gangly.

Í Skagfirska efnahagssvæðinu

12 Sep

Fyrir okkur félagana í gönguhópnum Blómey er Mælifellshnjúkur Moby Dick. Ég og Biggi fórum reyndar þarna upp á topp fyrir 2-3 árum. Þá var þoka á toppnum og við sáum ekki rassgat. Í fyrra fórum við með Trausta og ætluðum að sjá hið magnþrungna útsýni sem á að sögn að blasa við. Þá var ömurlegt veður, rigning og rok, þrátt fyrir að veðurspárnar sem við höfðum legið yfir spáðu heiðríkju og sól. Núna skoðuðum við engar veðurspár (því þær ljúga) og drifum okkur bara. Og sjá: Ömurlegt veður, rigning og þoka.

Þótt Moby Dick liggi enn ósigraður (útsýnislega séð) var ferðin stórfín. Við gerðum gott úr þessu og tókum einn risavaxinn sunnudagsbíltúr. Á laugardaginn átum við gríðargóða lambaskanka í Ólafshúsi (4500 kr). Gistum á Microbar & bed, sem er upplagt dæmi. Fyrst djúsuðum við á Microbarnum sem er hliðardæmi frá bjórframleiðslunni Gæðingi. Hvað er hentugra en bjór og bed? Microbarinn býður upp á 150+ tegundir, en mér finnst bjór vondur og var kominn í romm og kók eftir annað glas. Svo gafst ég upp um 12, svefninn sótti svona stíft á mig, enda er ég extreme A-maður, en strákarnir duttu í belgískar veigar til 2. Herbergið mitt (9000 nóttin) er undir súð og með stórglæsilegt útsýni yfir í Verslun H. Júlíussonar, sem meistari Bjarni sér nú um. Því miður var alltaf lokað í versluninni á meðan við vorum á Sauðárkróki.
2016-09-11-09-15-16

Sunnudagur: Morgunmatur í bakaríinu og ennþá þoka og súld. Fyrsta stopp Hólar. Á afleggjaranum runnum við fram á réttir í Hjaltadal. Við borgarbörnin höfðum aldrei séð svona og gláptum á fótforugt stígvélað sveitafólkið reka í réttir. Mikið meee og fjör. Eins og aumingjar með skanka í maganum fórum við auðvitað að röfla um útrýmingabúðirnar í Auschwitz. Réttirnar eru harmrænar á þann hátt að dauði rollanna er yfirvofandi. Þetta er þeirra síðasta sprikl.

holar
Á Hólum rennur Íslandssagan um veggi. Kanadískur gestaprófessor leiddi okkur í allan sannleikann um innviði Hólakirkju, veggskreytingarnar og jesústöffið. Prófessorinn er með þetta klassíska lúkk. (Hér er próf: Prófessor eða róni?) Tilkomumest var fyrsta eintakið af fyrstu bókinni sem var prentuð á Íslandi (1584), Guðbrandsbiblíu. Ég tel mig nú kominn á þann stað í lífinu að ég sé tilbúinn til að fá áhuga á Íslandssögunni fyrir 1900. Fyrsta skrefið, segir Biggi, er að leggjast yfir þríleik Einars Kárasonar um Sturlunga.

braudmola
Sundlaugin á Hofsósi (700 kr) er rosalega flott og útsýnið það besta sem um getur. Við sáum reyndar ekki nógu vel vegna þokunnar og það mætti skerpa á heita pottinum. Þessi sundlaug er skínandi dæmi um brauðmolahagfræðina. Tvær efnaðar konur láta byggja sundlaug og gefa svo sveitafélaginu. Ef einhver annar hefði gert álíka þegar peningarnir láku hér um alla veggi í vösum örfárra, væri kannski hægt að kaupa þessa brauðmolakenningu. Staðreyndin er hins vegar sú að ríku karlarnir notuðu auðinn undir rassgatið á sjálfum sér til að bóka Elton John og fara í kappakstursleiki. Hafðu það Hannes Hólmsteinn! (Hér er ég viljandi að gleyma listamannasjóðum Ólafs í Samskipum).

biggisaab
Áfram hélt skagfirska ævintýrið í Samgönguminjasafninu í Stóragerði. Við gleymdum okkur í afrekum mannkynsins á sviði hönnunar og glæsileika. Kaggar og bílar, sem eru víst fornbílar en við mundum eftir á götunum. Það segir bara hvað við erum orðnir ógeðslega gamlir. Þetta bílasafn er hreinlega stórkostlegt og ég ætla aftur sem fyrst! Fá þá kannski að leggjast aftan í Skoda Octavia 1963 módel og reyna að kreista fram gamlar minningar þegar ég lá í svona sæti sem barn og grét yfir því að ferðinni til Akureyrar var lokið. Til að auka áhrifamáttinn mun ég syngja „Unnusta sjómannsins“ með Tónasystrum, en það lag söng ég alltaf inn í mér til að auka trega og söknuð.

trakt2
Ekki minnkaði fjörið þegar við komumst í bílakirkjugarðinn bakvið safnið. Annað hvert S.H.Draums videó var búið til í bílakirkjugarði. Þar sem náttúran og maðurinn renna saman í eitt er gaman að vera.

Tókum Þverárfjallsveg suður á bóginn og lentum í massasmölun  og komumst ekki fet í hálftíma. Rollurnar runnu eftir malbikinu eins og loðin á. Aðeins meira meee og Auschwitz hjá borgarbörnunum og jafnvel grín um að gerast grænmetisætur. Hamborgarinn í Hraunsnefi (2590) var þó stórfínn.

Pönksafn Íslands

8 Sep

steinthor-og-gunnthor-gantast-vid-midasolu-kopavogsbios
Í gamla daga vorum við stundum að gantast með það strákarnir að í framtíðinni yrði það sem við vorum að gera og pæla í sett á safn. Ekki það að við værum svona sjálfsöryggir að halda að það sem við værum að gera væri svona merkilegt að það myndi enda á safni, heldur fannst okkur hugmyndin fáránleg og fjarlæg. Söfn væru bara fyrir „æðri listir“. Samt fabúleruðum við um þetta, og tókum „Maður er nefndur“-viðtöl við hvorn annan.

Nú hefur tímans tannhjól hjakkast fram um 35 ár og PÖNKSAFN ÍSLANDS / THE ICELANDIC PUNK MUSEUM er að verða að veruleika. Og það á svalasta stað sem hægt er að hugsa sér, gamla Núllinu (konumegin), Bankastræti 0 (ætli þetta sé eina húsnúmer landsins sem er núll?). Almenningssalernin voru tekin í notkun í ársbyrjun 1930, sama dag og Hótel Borg opnaði 19. janúar. Það var mikill sperringur í landsmönnum þetta ár. Þetta var Alþingishátíðarárið mikla. Kóngurinn var á leiðinni til að vera á Þingvöllum til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Þetta var einskonar 2007 fortíðar, allt á fullu, uppgangur, Ríkisútvarpið opnaði sama ár og aldrei höfðu komið út jafn margar plötur og 1930.

Maður meig á Núllinu, en skeit aldrei, enda kostaði það. Karl í bláum sloppi seldi smávöru og rukkaði fyrir lyklavöld að klósettinu. Hann seldi smokka, rifflaða og smurða og til í aksjón. Sem kom náttúrlega aldrei, svo smokkapakkinn lá ónotaður í vasanum á meðan maður sullaði í sig landa og kók.

Almenningsklósettin voru aflögð 2006 og hafa grotnað niður síðan. Karlasettið er allt í messi eins og sjá mátti í innslagi Jóhanns Kolbeins í sjónvarpsfréttum í gær. Kvennarýmið er miklu skárra, þar var haldin einhver listasýning fyrir nokkru. Múltimógullinn og meistarinn Guðfinnur Sölvi Karlsson (Finni í Dr. Spock) skrifaði undir leigusamning við borgina í síðustu viku svo nú er allt farið á hvínandi fullt við að gera safnið. Það þýðir ekkert helvítis hangs svo við stefnum á að opna í Airwaves vikunni með tilheyrandi offvenjúdagskrá og almennum stuðheitum.

Safnið verður svo troðið og æðislegt að það mun þurfa minnst fimm ferðir í að taka það allt inn. Við köllum það Pönksafn Íslands þótt hreinræktað pönk hafi nú bara verið lítill hluti af þeirri íslensku rokkbylgju sem nefnd hefur verið Rokk í Reykjavík tíminn. „Pönk“ er ekki bara hröð og reið tónlist, heldur líka attitjúd: beinskipt framkoma sem er ekki dúðuð í bómul meðvirkni; að segja hlutina eins og þeir eru; að ganga beint til verks án viðkvæmni. Málið er ekki hvað maður getur, heldur hvað maður gerir – stríðsöskur Einars Arnar er enn í fullu gildi.

Pönktímabilið hér byrjar 1978 með heimsókn The Stranglers og aðeins áður, með heimsókn hálf íslensku/þýsku Grund-bræðranna í hinu frábæra pönkbandið The Big Balls & Great White Idiot. Nýlistagengið Halló og heilasletturnar list-pönk-flippaði á Kjarnvalsstöðum um sumarið, en Fræbbblarnir hrelltu skólameistara MK á Myrkramessu MK í nóvember 1978. Fræbbblarnir héldu ótrauðir áfram 1979, létu diskólið púa á sig sem upphitunaratriði fyrir kóverbönd en voru engu að síður vissir í sinni pönksök. Annað band fór að spila með þeim, Snillingarnir. Þar voru innanborðs strákar frá Akureyri, Árni Daníel og Steinþór, sem höfðu flutt í bæinn eftir algjöra pönkniðurlægingu fyrir norðan. Báðir áttu eftir að verða þátttakendur í pönkinu mikla, Árni í Taugadeildinni og Q4U, en Steinþór gekk í Fræbbblanna og var alltaf langpönkaðastur þeirra á bassanum.

Fræbbblarnir héldu stundum pönktónleika í Kópavogsbíó og um páskana 1980 var blásið í enn eitt giggið. Þar komu Utangarðsmenn fram og voru óþekkt band. Fólk missti beinlínis andann þegar Bubbi, Pollock-bræður, Rúnar og Magnús brustu á með rokkið sitt. Þetta var svo sannfærandi að það varð ekki aftur snúið. Ári síðar var Bubbi Morthens orðinn stærsta rokkstjarna landsins og allt popplandslagið var á hvolfi. Fullt af nýjum æðislegum böndum hafði skotið upp og Friðrik Þór og félagar voru í óða önn að filma herlegheitin. Það er mín skoðun að 1981 sé frjóasta ár íslenskrar popp og rokksögu. Ekki það að almenningur hafi keypt þetta stöff í hrönnum, jafnvel Bubbi seldi helmingi minna en Haraldur í Skrýplalandi, eins og Steinar Berg upplýsti á dögunum.

Þið þekkið svo framhaldið. Kukl, Sykurmolar, Smekkleysa, Ham, Björk sóló, Sigur Rós, Of Monsters and Men, múm, Airwaves – Íslensk tónlist er þekkt stærð í alþjóðlegu samhengi. Við getum alveg logið því að okkur sjálfum og öðrum að The Big Balls & The White Idiot sé upphafið af þessu öllu – en sannleikurinn er auðvitað að allt vellur fram mann fram af manni, hljómsveit fram af hljómsveit. „Við erum tími,“ eins og pöknhljómsveitin The Pop Group söng svo eftirminnilega.

Hér er svo tilkynning: Ef þú átt eitthvað sem tengist „pönki“ áranna 1978-1992 hafðu þá samband. Við leitum að munum og myndum. Hundaól Sigga pönk? Plaggöt. Dreifimiðar. Myndir úr partíum. Myndir af vettvangi. Gamalt jötungrip í brúnum bréfpoka. Gamall landi í 1L kókglerflösku. Hárband frá Jonee Jonee. Því meira því betra.

Djöfull verður þetta safn mikil snilld. 

(Mynd að ofan: Steinþór Sigurðsson og Gunnþór Sigurðsson gantast við miðasölu Kópavogsbíós 1980. Myndina tók Birgir Baldursson)