Sarpur | júní, 2015

Enn meiri Popppunktur

30 Jún

20150401_151913
Við Felix ætlum að vera með smá Popppunkt í útvarpinu (Rás 2) í júlí. Fyrsti þáttur er kl. 17 á laugardaginn. Það eru átta 2ja manna lið sem keppa að þessu sinni, svona „bransa“ lið, ekki ósvipað fyrirkomulag og við vorum með í smá Popppunkti um páskana (sem Bræðslu-bræðurnir Áskell Heiðar og Magni unnu).

Liðin átta og þættrirnir (leikirnir) eru svona:

4. júlí kl. 17 (2 styttri leikir)
Record Records – Stelpur rokka
Fv. menntamálaráðherrar – Bandalag íslenskra listamanna

11. júlí kl. 17 (2 styttri leikir)
Kítón – Ístón
Rosenberg – Mengi

18. júlí kl. 17 (2 styttri leikir)
Undanúrslit

25. júlí kl. 17 (1 langur leikur)
Sérstakur „POPPNÖRDA“ þáttur

1. ágúst kl. 17 (1 langur leikur)
ÚRSLITALEIKUR!!!

Eins og sést, þá verður sérstakur „popp-nörda“ þáttur áður en úrslitaleikurinn fer fram um Verslunarmannahelgina. Núna erum við að leita að fjórum ofur góðum popp-nördum til að keppa. Þeir mega ekki hafa keppt í Popppunkti áður. Og samkv. jafnréttisstefnu Popppunkts þurfa að vera bæði kyn í báðum liðum. Áhugasamir vinsamlegast setji sig í samband!

Ég kalla á alla poppnörda til að setja sig í samband ekki seinna en strax!!!

Fáránlega feitt ATP

27 Jún


Tónlistarhátíðin ALL TOMORROWS PARTIES – ATP – verður haldin upp á gamla varnarsvæðinu um næstu helgi. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin. Ég mætti í fyrri tvö skiptin og það var helvíti næs. Ekki er útlit fyrir annað en að þessi hátíð verði álíka næs, enda allt vaðandi af atriðum sem fá kröfuharða tónlistaráhugamenn til að froðufella af æsingi. Látum okkur nú sjá, svona er hátíðin skipt upp eftir dögum:

11657378_10153361616213818_624043574_n (1)Miði á allt dæmið kostar 18.750 kr, en það er líka hægt að kaupa sig inn á staka daga á 7000 kall, sem er gjöf en ekki gjald. Miðasala.

Allar frekari upplýsingar má finna hér…

Grín speglar samtímann

22 Jún


Hef verið að glápa á („binge-watcha“) þættina Inside Amy Schumer. Hún er fyndin og gáfuleg og „femínískasta grínið í sjónvarpinu“ skv. fræðingum. Er á sinni 3ju seríu og verður alltaf betri og betri. Skestsinn hér að ofan þar sem hún er fengin til að lesa fyrir feitan jarðarkött er t.d. algjör snilld. Ég LMAO eða jafnvel ROFL. Hér er grein sem gerir að því skóna („gerir að því skóna“ – hvaða skósmiðalumma er þetta?) að hún og fleiri grínistar séu orðnir hugsuðir alþýðunnar og það er ágætt.

obama_maron1
Annar góður, en allt öðruvísi, er Marc Maron, sem er með sjónvarpsþætti „í anda“ vinar síns Louie CK. Ég hef fylgst með Marc nokkuð lengi. Hann er á aldur við mig, uppistandari og er með viðtals-poddkastið WTF. Þar tekur hann skemmtileg, gáfuleg og áhugaverð viðtöl við allskonar lið og hefur gert síðan 2009. Marc er vinnuþjarkur, birtir 2 viðtöl í viku. Það nýjasta, númer 613, er við engan annan en Barack Obama. 

Grínistar eru sem sé hugsuðir alþýðunnar í dag. Þaðan kemur beittasta gagnrýnin, persónulegasta túlkunin og mesta fjörið. Á Íslandi geturðu líklega fengið betri samtíðarspegil og kropp á hrúður zeitgeistsins á uppistandi, t.d. hjá Mið-Íslandi, en á tónleikum. Meira að segja rappararnir, sem nú grassera í miklu magni á Íslandi, ná ekki grínistum í að spegla samtímann. Að því virðist væla íslenskir rapparar helst um einhver fyllirí og þynnkur og að ríða frænku sinni. Ég gæti náttúrlega haft rangt fyrir mér og ekki ætla ég að dissa íslenska rappara, í þeirra ranni er líklega ferskasta golan á Íslandi í dag. Úlfur Úlfur hefur til að mynda gefið út plötuna Tvær plánetur sem er toppnæs og persónuleg og spennandi. Þeir hafa gert hneggjandi fínt myndband við lagið Brennum allt.

Fötulisti langafa

20 Jún

1506665_10203292565341814_1781602856_n
Stundum finnst mér eins og ævin sjálf sé orðin söluvara sem okkur er ætlað að kaupa. Að þessi „pakki“ sem okkur er afhentur við getnað sé túpa sem okkur er ætlað að kreista sem mest úr. Allskonar bækur heita …before you die (1001 albums to listen to… / 1001 places to visit… o.s.frv.) og eins hefur komist í tísku að gera „bucket lista“ yfir það sem maður verður að gera áður en maður drepst. Oftar en ekki innihalda fötulistar höfrunga og sólsetur á exótískum stöðum, gott ef ekki þyngdarleysi og Dalai Lama líka. Svona er lífið orðið gott, nema náttúrlega hjá hinum 90% alheimsins eða hvað það er.

Hvernig var fötulisti árið 1900 þegar lífið var púl og leiðindi? Svo vill til að langafi minn bjó til fötulista aldarmótaárið, sem varðveist hefur í fjölskyldunni. Þetta er að sjálfssögðu haugalýgi. En listinn er svona:

Fötulisti Jóhannesar Sigurgeirssonar anno 1900
1. Heyra lesið eða sungið með talvél
2. Ferðast með sjálfrennireið
3. Prófa vatnssalerni
4.  Tóra til fimmtugs
5. Fara af þessu guðsvolaða nárassgati, helst til Kanada

Þetta tókst honum allt og hann lést 84 ára í Winnipeg 1957.

Út í Eyjum

19 Jún

Var í Vestmannaeyjum í gær. Spurði á Facebook hvað ég ætti að gera. Fékk ágæt svör, sem ég vissi svo sem flest enda með Eyja appið, og helmingurinn sagði að ég ætti að drífa mig sem fyrst til baka. Einn sagði að ég ætti að láta lemja mig. Svona er fílingurinn gagnvart Vestmannaeyjum, sem er náttúrlega rugl. Allir ættu að skella sér til Eyja enda fyrna fallegur staður og allir í fíling í sæluríki Elliða. Fuglarnir voru allsstaðar með læti í klettunum svo undirliggjandi sándtrakk í Eyjum er hávaði sem minnir á másandi hunda eða einhverja perverta á fremsta hlunni. 

2015-06-18 15.58.25-3
Margt hefur breyst síðan ég kom til Eyja síðast 1998, þá sérstaklega matarkúltúrinn. Slippurinn er frábær staður þar sem ég fékk mér 3ja rétta hádegistilboð á 3.490 kr. Í forrétt geðsjúk lúðusúpa. Aðalréttur ágætis steinbítur. Eftirrétturinn hrein klikkun, skyr með hundasúrukrapi, ristuðum höfrum og marenshjúpaðri hundasúru (sjá mynd). Mesta lostæti sem ég hef fengið á árinu.
2015-06-18 16.14.44
Nytja- og antíkbúðin Vosbúð hefur verið starfandi í 2 mánuði og er þrumu verslun. Mikið úrval af allskyns spennandi dóti. Ég keypti tvær 78sn danskar plötur með exótísku havaí fíli, djassplötu með Eddie „Locklaw“ Davis Quartet og Tunglið og túskyldingurinn eftir W. S. Maugham. Tvær Disney syrpur að auki fyrir Dabba, samtals 1.800 kr. Fólkið í Vosbúð ætlar að skella best of í sendibíl og vera í Kolaportinu um helgina. Talandi um spennandi grúsk um helgina þá verður fyrsti Bernhöfts Bazaar á morgun þar sem músík verður aðalmálið. Væntanlega allt vaðandi í plötum og fíniríi.

Dabba finnst sund leiðinlegt en hann fílaði sundlaugina í Eyjum í botn enda með tveimur fítusum sem slógu í gegn: klifurvegg og rennibraut sem endaði í trampólíni. Mjög góð sundlaug þótt gufan væri lokuð.

Eftir að KR hafði rótbustað ÍBV 5-2 (Dabbi skoraði mark númer tvö) fór ég í Tangann og fékk skínandi góða fiskisúpu á 2.490 kr.
2015-06-18 19.48.54
Ég brunaði í rokið út í Stórhöfða en hafði ekki tíma til að gera ýmislegt sem ég ætlaði að gera eins og að skoða fiskasafnið og eldgosasafnið. Það verður því eflaust stutt þar til ég fer aftur til Eyja, enda er þetta ódýrasta „utanlandsferðin“ sem völ er á og mjög næs dæmi.

TV Smith í Reykjavík

12 Jún

tv-smith-uk-subs-chelsea-wien-2013
TV SMITH er gamall pönkari (59) sem ætlar að pönka fyrir landslýð um helgina. Hingað er TV SMITH kominn í boði Júlíusar Ólafssonar, kenndan við Silfurtóna, en Júlli er fimmtugur um þessar mundir og skellti því í gigg.

TV SMITH er aðalhrólfurinn í pönkhljómsveitinni THE ADVERTS sem þótti með aðal-pönkböndum, þá sérstaklega fyrir plötuna CROSSING THE RED SEA WITH THE ADVERTS (1978), sem jafnan er talið þeirra merkasta verk. Þar má finna helsta hittarann, Gary Gilmore’s Eyes:

Hljómsveitin kom aldrei hingað en trommarinn var hérna um hríð, gott ef hann eignaðist ekki fjölskyldu á klakanum.
En allavega, eftir að THE ADVERTS hætti hefur TV SMITH verið í ýmsum hljómsveitum og líka sóló.

Giggin veriða eftirfarandi:
* Í dag kl. 15 í LUCKY RECORDS
* Í kvöld kl. 20 á DILLON með Caterpillarmen
* Annað kvöld kl. 22 á GAUKNUM með Fræbbblunum og Gímaldin

 

20 tíma Rokk í Reykjavík

10 Jún

Maður er ekki fyrr búinn að búa til 32-laga mix af bestu íslensku lögum ársins (fyrri hluti) en að nýtt efni er tekið að dælast út, slíkt er framboðið. Ef Rokk í Reykjavík yrði gerð í dag þyrfti hún að vera svona 20 tímar að lengd til að halda utan um flóruna.

mafama-dog
Strákar frá Akureyri kalla sig MAFAMA og áttu gott lag á Snarli 4. Nú hafa þeir gefið út plötuna DOG sem er hnausþykkur pakki níu laga. Mafama eru Árni Þór Theodórsson, Victor Ocares, Þorgils Gíslason og Þórgnýr Inguson. Sveitin var stofnuð haustið 2013 á Akureyri. Ættaðir þaðan og gamlir kunningjar, fluttumst fyrir tilvijun aftur norður eftir nám og langa fjarveru, en allir komu þeir úr mismunandi greinum sköpunar. Fljótlega mættumst þeir í tónlist og lögin spruttu hratt. Áður höfðu þó tveir af þeim (Victor og Árni) spilað saman í nokkrum hljómsveitum (Kingstone, Baku Baku). Um upptökur á plötunni sá Toggi Nolem (sem sjálfur er með væntanlega plötu).

MAFAMA – CHAINGANG

nahafs
NÓTT Á HAFSBOTNI, nýja platan með DJ. FLUGVÉL OG GEIMSKIP er svaka skemmtileg. Sánd og hljóð er brakandi gott og lögin svona sjeddi fín. Hér er viðtal sem ég átti við Steinunni en hana ásamt Emmsjé Gauta og Agent Fresco verður hægt að berja augum á landsbyggðinni á næstu dögum á túr sem kallast Veðurskipið Lima.

DJ. FLUGVÉL OG GEIMSKIP – HELLIRINN BÍÐUR


RUDDINN er samstarfsverkefni Bertels Ólafsson og Heiðu Eiríksdóttur. GULLNA STRÖNDIN er lag af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar MORE MUSIC THAN MUSIC sem er væntanleg í haust. Gullna Ströndin er fyrsta lag Ruddans sem er á íslensku. Lagið er samstarfsverkefni Bertels og Heiðu en Heiða sá um textagerð og söng. Gullna ströndin og platan öll er hljóðblönduð og mixuð af Aroni Arnarssyni. Myndbandið gerði Frosti Jón Runólfsson.

a3267287761_10
Fjórða lagið af tilvonandi breiðskífu VAX, IT’S ALL BEEN DONE, heitir SHE’S SO SAD  kom vefinn síðastliðinn föstudag. Lagið er óður til hafmeyju sem liggur á ströndinni og bíður. En eftir hverju ?
Vax bræður hafa nýlokið við að ræða við hákarla Halla ( Shark Chaser) eftir að hafa vaknaðu upp á ókunnugri strönd eftir erilsama nótt, sem þó lofaði svo góðu til að byrja með.  Allir voru í svo góðum fíling og til í hvað sem er, og partýið rétt að byrja. En þarna liggur hún eitthvað svo brothætt og berskjölduð í flæðamálinu.
She’s So Sad gerið þið svo vel: http://warenmusic.bandcamp.com/track/shes-so-sad
It´s All Been Done part 1-4: http://warenmusic.bandcamp.com/album/it-s-all-been-done-part-4-of-15
VAX mun gefa út eitt lag á viku þar til 15 lög liggja í valnum. Í framhaldinu verður gefið út Album og hver veit nema það verði double. Tíminn mun leiða það í ljós en þangað til verður eitt lag á viku að nægja. Útgáfudagur Its All Been Done verður 15/10/15

NyDonskRemix_moller-e1432064231884
Fyrsta júní seinastliðinn kom út 36. útgáfa Möller Records – platan DISKÓ BERLIN (REMIX) með NÝDÖNSK
Möller Records safnaði saman sýnum helstu raftónlistarsnillingum til að seta Diskó Berlín Nýdanskra í alveg nýjan hljóðheim og tókst aðgerðin afspyrnu vel. Remixarar á plötunni eru Tanya Pollock, Daveeth, Gunnar Jónsson Collider, Snooze Infinity, Steve Sampling, Bistro Boy, Orang Volante, Futuregrapher
og Mr. Signout.
Platan er bæði fáanleg og niðurhalanleg á vefsvæði Möller Records – og einnig á öðrum tónlistarveitum, s.s. iTunes, Spotify , Beatport og Juno.

NÝDÖNSK – NÝR MAÐUR (DEVEETH REMIX)

auglysing-tonlistarmarkadur
Að lokum er hér áríðandi tilkynning frá BERNHÖFTS BAZAAR: Bernhöfts Bazaar er nýr og skemmtilegur útimarkaður haldin á Bernhöftstorfunni í sumar. Markaðurinn fær mismunandi þemu þá 6 laugardaga (20.06 – 25.07) sem hann mun standa yfir. Bazaar, skemmtiatriði, uppákomur og kaldar veitingar verða til sölu í sólinni. Fyrsti sumarmarkaður Bernhöfts Bazaar er tileinkaður tónlist og nú er óskað eftir umsóknum frá áhugasömum tónlistarunnendum og fagfólki. Markaðurinn verður haldinn Laugardaginn 20 júní.
Viltu selja tónlist úr plötusafninu? Varstu að gefa út tónlist? Viltu selja varning, tónleikarmiða, boli, prentverk eða kynna þig, hljómsveitina eða jafnvel fyrirtækið þitt?
Umsóknarfrestur tónlistarmarkaðarins er 13. júní.
Hægt að sækja sér frekari upplýsingar um markaðinn, plássið og þátttökugjald á www.bernhoftsbazaar.net eða með því að senda okkur fyrirspurn á bernhoftsbazaar@gmail.com. Það er líka hægt að vera með tónlistaratriði yfir daginn. Senda okkur þá línu um þig eða bandið þitt og hlekk á tónlistina.

Dansari deyr

9 Jún


Gömludansameistarinn Gunnlaugur Guðmundsson hefur vakið athygli á vefnum fyrir þetta reffilega spjall sem hann átti við Helga Pétursson 1976. Gunnlaugur lætur allt flakka og er leiður yfir því sem hann telur vera hnignun gömludansanna. Í viðtali við Dagblaðið sama ár er hann á sömu nótum og er hundfúll út í „toppfígúrur“ sem eru að skemma gömlu dansana.
toppfigurur
Maður skyldi ætla að maður eins og Gunnlaugur væri fullur sjálfstrausts og ekki týpan til að ganga í sjóinn, en ekki er allt sem sýnist og allsstaðar einhver harmur á bakvið grímuna. Magnús Þór Hafsteinsson benti mér á það í framhaldi af bloggi mínu um örlagasögu Björns Braga að Gunnlaugur hafi skömmu eftir hið reffilega sjónvarpsviðtal horfið og síðan fundist látinn. Dánardagur hans er 26. nóvember 1976.
leithafin
gunnl

Þá veistu það.

Höfundur Hvítu máva drukknaði

8 Jún

bjornbragi
Í gær var Sjómannadagurinn og því heyrði maður auðkennislag Helenar Eyjólfsdóttur, Hvítu mávar, allnokkuð í útvarpinu. Lagið kom fyrst út árið 1959 á 4-laga lítilli plötu með Helenu sem Íslenzkir tónar gaf út – Helena Eyjólfsdóttir syngur metsölulögin frá Evrópu. Lagið er eftir Walter Lange, líklega vinsæll evrópskur vals (sem ég nenni ekki að fletta upp), en textann gerði Björn Bragi Magnússon. Hann gerði líka textann við tvö önnur lög á þessari plötu og átti nokkra aðra söngtexta á þessum árum (hann er til að mynda skrifaður fyrir Skapta ÓIafs-smellinum Allt á floti ásamt Gunnari Reyni Sveinssyni og Jóni Sigurðssyni). Hvítu mávar er hans þekktasti texti.

Lagið lifir von úr viti. Helena syngur þetta æðislega en textinn er líka góður. Setningin „Ég vil að þú komir og kyssir, kvíðan úr hjarta mér“ er sterk. Kannski var þetta í fyrsta skipti sem sungið var um kvíða í íslensku popplagi. Ekki sérlega vinsælt yrkisefni enda allir svo inn í sig og það mátti ekki tala um tilfinningar á þessum tíma. Tilfininingalíf landans var hulin bók, ekkert upp á borðum nema grímur en bakvið glansmyndina grasseraði allskonar viðbjóður, sbr. meðferð á krökkum á stofnunum. Blessunarlega er annað upp á teningnum í dag, eins og til dæmis þessi flotti pistill eftir Jóhann Óla Eiðsson ber vitni. Við erum ekkert nema tilfinningar og ekki sniðugt að loka þær inn í skáp.

En hver var þessi Björn Bragi, höfundur Hvítu máva? Þessi strákur hefur lengi vakið hjá mér áhuga af því örlög hans urðu svo hefí. Hann drukknaði þegar hann var 23 ára, að því virðist í tvöfaldri sjálfsmorðs-ferð. Ég tek það fram að ég veit ekkert um málið. Ég dreg bara mínar ályktanir af gömlum blaðagreinum. Ég hef aldrei talað við neinn sem þekkti Björn og gæti varpað ljósi á málið. Helena veit ekki neitt og kom af fjöllum þegar ég spurði hana að þessu.

Björn Bragi var prentari og dútlaði við ljóðagerð. Hann var sonur Magnúsar Ástmarssonar, forstjóra Gutenberg og vann í prentsmiðjunni eftir nám. Það komu tvær ljóðabækur út eftir hann: Hófatak 1956 og Dögg í grasi 1958. Oftast orti Björn Bragi í bundnu máli en stundum abstrakt, eins og til dæmis í þessu dapurlega kvæði:

Allt líf mitt
hef ég leitað þín gleði,
en aldrei fundið þig.
Aðeins eitt andartak
hefur ásýnd þín birzt mér
þegar sorg mín varð til.

Það var í maí 1963 sem ógæfan brast á. Björn Bragi og Jón Björnsson, tvítugur skristofumaður, stálu neglulausri trillu (negla skilst mér að sé einskonar tappi í botni báta, sé neglan ekki á sínum stað lekur smám saman inn á bátinn þar til hann sekkur), hentu stýrinu í land og sigldu frá landi. Hver var pælingin? Sjálfsmorðsferð? Voru þeir orðnir fullsaddir á að geta ekki opinberað samkynhneigð sína og ást og tóku því til þessara ráða? Eða voru þetta bara tveir listrænir strákar á megabömmer yfir lífinu  og engin samkynhneigð í kortunum?

Þeir virðast ekki hafa verið í ölæði því svona er lýsingin á ferðum þeirra fyrr um kvöldið: Jón hafði nýlega fengið sér herbergi til afnota annars staðar í Reykjavík, en síðar kom í l’jós, að hann fór ekki þangað. Sömu nótt varð heimafólk í Granaskjóli 26 vart við heimsökn til Björns Braga. Björn fór út með gestinum og hefur ekki sézt síðan, en enginn í húsinu vissi hver komumaður var. Þeir Jón og Björn voru félagar og er því talið sennilegt, að það hafi verið Jón, sem kom að vitja hans.

2mennhverfa

Leitað var næstu vikur.

týndir ennúlpa

Eftir mikla leit um mánuði eftir að strákarnir sigldu út á haf fundust líkin sjóreknir í fjörum nálægt borginni. Björn var jarðaður 21. júní 1963. Rósa B. Blöndals, skáld og kennari, skrifaði mikla minningargrein í Alþýðublaðið, sem fjallaði aðallega um ljóð Björns. Eitt og annað má þó lesa á milli lína.

Þá veistu það næst þegar þú heyrir Hvítu mávana.

Viðbót: Walter Lance mun vera dulnefni hjá Gustav Winckler, en hér er hann að syngja Hvide mage.

Í kasti með Dj. Flugvél og geimskip

6 Jún

íkasti-djflugvel
Diskurinn (og síðar platan) NÓTT Á HAFSBOTNI með Dj. Flugvél og geimskip (Steinunn Harðardóttir) er að koma út um þessar mundir. Þetta er ævintýralega góður diskur þar sem Steinunn pússar enn betur sinn skemmtilega hljóðheim. Fullt af hitturum og góðu grúvi. Í nýjasta netvarpsþættinum af Í kasti með Dr. Gunna á Alvarpinu er Steinunn í löngu spjalli auk þess að velja óskalög og leika lög af nýju plötunni. Rætt er um margt, t.d. japanskar poppþrælabúðir, geðsjúklinga til forna, Mars-ferðir, konur í poppi, hugleiðslu, vandræðaleg augnablik með Sölva Blöndal og svo auðvitað músík og feril Steinunnar. Dúndur skemmtilegt þótt ég segi sjálfur frá. Viðtalið er hér!

DJ. FLUGVÉL OG GEIMSKIP SPILAR:
* Í dag kl. 16 í Reykjavík Records, Klapparstíg – Ókeypis inn!

* Veðurskipið Líma og Iceland Airwaves á ferð um landið (með Emmsjé Gauta og Agent Fresco):
10. júní Bolungarvík – Félagsheimilið
11. júní Grenivík – Grenivíkurskóli
12. júní Raufarhöfn – Félagsheimilið Hnitbjörg
13. júní Breiðdalsvík – Frystihúsið
14. júní Reykjanesbær – Hljómahöllin
Allir tónleikarnir hefjast kl. 20 – Ókeypis inn!