Sarpur | júlí, 2022

Hljómsveitin tvítug

5 Júl

Í dag eru tuttugu ár síðan hljómsveitin Dr. Gunni kom fyrst fram opinberlega. Það var í Viðey 5. júlí 2002, en þar héldu krakkarnir í Rúnk tónleika og fengu okkur með. Þá höfðum við Grímur, Gummi og Kristján Freyr æft um nokkra hríð í kjallara undir bílskúr í Hlíðunum, en þar voru strákarnir í Maus með lyklavöldin. Hér er mynd af okkur að gægjast upp úr þessum kjallara.

Eftir Viðey vorum við komnir á flug og ákváðum að halda innihátíð um Verslunarmannahelgina, Innipúkann (Kristján Freyr á nafnið), og fengum auðvitað krakkana í Rúnk með og fleira fólk. Innipúkinn hefur held ég verið haldinn árlega síðan. Grímur var með þetta í nokkur skipti í Nasa með allskyns útlendu fíniríi en síðustu árin hafa allt aðrir aðilar haldið Innipúkann og okkur er alveg sama. 

Frumsamið efni varð til í hrönnum og Stóri hvellur var tekinn upp og gefinn út 2003. Curver sá um upptökur og ku þetta mikið meistaraverk. Seldist þó auðvitað bara í 200 eintökum eða svo, enda kom geisladiskurinn út á Þorláksmessu. 

Við vorum á fyrstu Aldrei fór ég suður um páskana 2004. Spiluðum skömmu síðar með Violent Femmes á Broadway. Þeir talast ekki við Gordon Gano söngvari og bassaleikarinn Brian Ritchie, en harka þetta af sér fyrir peninginn. Vorum með The Fall sem Grímur flutti inn af miklu harðfylgi í nóvember 2004. Tveir tónleikar, í Austurbæ og á Grand rokk. Eftirminnileg sjón að sjá vertinn á Grand leiða góðglaðan Mark E Smith upp á svið. Magnað að spila með The Fall í Austurbæ(jarbíói), en þar sá ég bandið öllu ferskara (eða Mark E Smith öllu heldur, eina manninn sem var líka þá), 1981 og 1983. 

Svo flosnaði smá upp úr þessu. Ég gerði plötuna Inniheldur án bandsins 2009 og barnaplötuna Alheiminn, en við vorum sameinaðir á ný 2015 á Í sjoppu sem kom út þegar ég varð fimmtugur 2015. Svo lá þetta aftur í láginni um hríð þangað í ársbyrjun 2021 þegar við ákváðum að taka þetta alvarlega, fórum að æfa vikulega í Helli TÞM með það að markmiði að gera 12-laga plötu á árinu. Nú nú, Nei, ókei kom svo út eins og til var sáð og hér erum við enn, nýbúnir að setja fram hinn snotrasta ópus, Faðir Abraham. Þetta hlýtur að enda með nýrri LP plötu á næsta ári.

Tuttugu ár, sem er samt eins og í gær. Þar á undan var ég búinn að spila í rúmlega tuttugu önnur ár, sem er samt eins og hrein eilíf miðað við þessi síðustu tuttugu. Ætli tíminn virki ekki svona. Lengi að líða fyrst og svo þýtur hann áfram og ég verð áttræður á morgun.

Í garðinum bakvið 12 tóna á föstudaginn. Það var geggjað stuð. Mynd: Davíð Ólafsson.