Sarpur | mars, 2014

Alltaf í bíó 1980

28 Mar

bio1980
Hér eru bíódómar ársins 1980. Ekki gæti ég rifjað upp söguþráð þessara mynda þótt líf mitt lægi við. Tja, nema kannski Wanderers. Hún er nokkuð eftirminnileg og þegar ég fór fyrst til New York hélt ég að allt yrði eins og í þeirri mynd. Það hefur verið mikið bíó á manni, þetta 14-15 ára gömlum, enda lítið annað að gerast nema hlusta á pönk og nýbylgjurokk. Tíminn fyrir internet er svo mikil fornöld eitthvað. Hvernig fór maður eiginlega að? Samt, mjög góður tími og allt það. Bara svo hrikalega óðruvísi. Þýðir auðvitað ekkert að malda í mó tækniframfarana. Og nú eiga allir að fara að ganga með google-gleraugu. Fuss og svei, ég hef enga trú á þessu! Samt spurning hvort það sé eitthvað verra að hanga í endalausri tímaeyðslu á netinu eða yfir sorpmyndum eins og H.O.T.S. og Starcrash? Jæja, maður var þá allavega innan um fólk á þessum myndum og hitti stundum á einhverja snilld. Og svo er nú ekki eins og það sé ekkert í bíó núna. Man ekki betur en ég hafi ætlað að fara meira í bíó á þessu ári, en svo klikka ég alltaf á því. Djös klúður.

(Þetta blogg er svokallaður vaðall)

Gos frá karabíska hafinu

27 Mar

2014-03-21 20.36.27
Sá einstaki atburður gerðist á dögunum að bláókunnugur maður (Kristinn Viggóson) færði mér tvær flöskur af súper exótísku gosi. Hann hafði verið á siglingu um Karabíska hafið, pikkað upp tvær flöskur og dröslað þeim í gegnum svaðilfarir sínar alla leið til mín. Ég er svoleiðis gapandi hissa og ánægður með þessa vinsemd. Gosið er frá Sparkle Tropical Magic verksmiðjunni sem gerir út frá eyjunum St. Kitts & Nevis. Þar búa 53.000 manns og eru ábyggilega aldrei að hugsa um skuldaniðurfellingu. 

Nú nú. Flöskurnar eru úr plasti og rúma 590 ml af gosi. Fyrst var tékkað á „Cream Soda“. Það smakkaðist eins og vatnsþynnt goslaust Póló. Hitt heitir „Sorrel“ og smakkaðist eins og einhvers konar kirsuberjagos, sætt, eldrautt og freyðandi. Það var mun skárra. Krakkar fengu að smakka og einn sagði að „Sorrel“ væri besta gos sem hann hefði smakkað á æfinni. 

Eflaust er þetta mun betra í brakandi blíðviðri í Karabískahafinu. Mér sýnist þó að þeir þarna í St. Kitts & Nevis séu ekkert á leiðinni að hljóta alþjóðlegar viðurkenningar á sviði gosframleiðslu. Cream Soda fær eina stjörnu og Sorrel þrjár, en atvikið sjálft fær auðvitað fimm stjörnur, enda ekki á hverjum degi sem maður fær svona svimandi exótískt gos.

Bara enn eitt snákaköltið

13 Mar

cupid tonleika flyer tall web
Ég vek athygli fágaðs smekkfólks á nýjustu plötu Just Another Snake Cult, Cupid makes a fool of me, sem kom út í fyrra. Þetta er með bestu plötum síðasta árs, sækadelískt urðarkattarpopp fullt af frábærum sprettum. Nú er komið að útgáfutónleikunum. Þeir verða haldnir á Kex Hostel á laugardagskvöldið.  Mr. Silla (Múm, Snorri Helgason) stígur fyrst á svið. Húsið opnar kl. 21 og tónleikarnir hefjast stundvíslega 21:30. Diskurinn verður til sölu á sérstöku tilboðsverði, 1.500 kr. Inn á tónleikana kostar 1000 kr. en frítt fyrir þá sem kaupa disk. Díll eða díll?

Glaðasti grænlenski hundurinn

12 Mar


Hér er Glaðasti hundur í heimi á grænlensku. Það voru þau Avijaja Tryggvadóttir og John Kristiansen sem þýddu textann. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem íslenskt popplag er sungið á grænlensku og því er um mikilvægan og sögulegan atburð að ræða. Lagið hlýtur nú að flengjast upp alla vinsældarlista á Grænlandi. Hér er svo textinn ef þú vilt spreyta þig á grænlenskunni, sem er tja, ekkert smá erfitt hrognamál!

Uanga nuannaarnerparpaavunga qimminit nunarsuarmi
Uanga nuannaarnerparpaavunga qimminit
Ullut tamaviisa pattalaarneqartuartarpunga
Nuannaarnerparpaavunga qimminit nunarsuarmi
Saanikorsuarmillu nerisassannik tunitsittarlunga

Pissikkumatuujuvunga
Qilukkimatuuvunga
Ullullu sinnera tarferujoortarluna
Sunngiffinnilu sorusunnanga
Asaqaanga nuannarillunga
Misilitsiffiit arlallit angusimallugit

Uanga nuannaarnerparpaavunga qimminit
Ullut tamaviisa pattalaarneqartuartarpunga
Nuannaarnerparpaavunga qimminit nunarsuarmi
Saanikorsuarmillu nerisassannik tunitsittarlunga

Neqaarniarfimmi utaqqivuna
Kunnalaat B Olelu
Inaluarsuarmillu tunisillunga
Sissamullu angalaarpunga
Allanik naapitaqarusullunga
Qimmeq takkuppoq
Imminerlu kunijorluta

Uanga nuannaarnerparpaavunga qimminit
Ullut tamaviisa pattalaarneqartuartarpunga
Nuannaarnerparpaavunga qimminit nunarsuarmi
Saanikorsuarmillu nerisassannik tunitsittarlunga

Það var Rán Flygenring sem teiknaði að vanda og fimmtán ára frænka hennar, Didda, sem gerði myndbandið.