Sarpur | september, 2012

Ritvélar fortíðarinnar

30 Sep

Allt er sem áður í svínastíunni Íslandi.  Dragúldnir embættismenn rotta sig saman í samsæri gegn alþýðu manna. Mannát er stundað á Alþingi, en öllum er sama og kjósa það samt. Spilling veður uppi og réttkjörnir fulltrúar lyfta ekki litla fingri nema þegar Kastljósið beinist að þeim – þá ríkir panikástand í þann hálftíma sem það tekur fávísa þjóðina að gleyma. Siðblindingjar pússa skó græðginnar með skósvertu almúgans. Sama belgsíða, brenglaða hyskið og ríkti hér fyrir hrun er að ná vopnum sínum með aðstoð Seðlabankans og Andrésar andar klúbbsins. Rotturnar í ræsinu klappa saman lófunum og skella sér á lær og allt í boði náhirðarinnar og LÍÚ. Ég skammast mín fyrir að tilheyra þessari fávitaþjóð.

ps. Hvenær skyldi Ríkissjónvarpið verða fullorðið og hætta að bjóða upp á ,,æskuævintýri galdrakarls“ á besta tíma á laugardagskvöldum eins og það gerir endalaust?

Sjóræningi ástarinnar

29 Sep


Litla Liverpool-zombíið og Fester frændi mættu á búningasýninguna á Comic Con í Bíó Paradís. Loksins kom undirhakan að einhverju gagni. Það var svoleiðis allt að gerast og allskonar uppáklædd sci-fi frík á svæðinu. Flottast fannst mér þegar Riff-filmukarlinn frá því í fyrra mætti á svæðið með ferðatöskuna og filmubútana danglandi á eftir sér. Það var löngu orðið uppselt á Comic Con svo við fórum stífmálaðir á safn stuttmynda (númer 2 af 3). Þetta var allt í lagi lengi framan af, en afburðarmynd þessa pakka er tvímælalaust Sjóræningi ástarinnar eftir Söru Gunnarsdóttur.

Svona lýsir plögglínan henni: Skrifaður geisladiskur kemst í umferð í Reykjavík. Honum var stolið úr skáp manns sem heitir kannski Daniel C. og er mögulega vörubílstjóri. Þetta er munnleg frásögn sem fylgir hjartnæmum lögum hans um ást, stolt og einsemd.

Myndin er bæði rosalega flott og skemmtileg og verandi músíknörd fer maður strax að spá í því hvort Daniel C sé „alvöru“ eða bara einhver vinur Söru að þykjast vera hann búandi til svona outsider músík. Ég held þetta sé reyndar „alvöru“ því það er erfitt að búa til jafn sannfærandi outsider músík, hefði ég haldið. Hér á Grooveshark eru lögin hans, platan The Pirate of Love; grípandi skemmtarastöff með ástar-ærðum textum. Goðsögnin lifir…

Eina „vonda“ við þessa mynd er hvað hún er stutt! Bara 10 mín en maður bíðar bara spenntur eftir því hvað Sara gerir næst.

Þess má svo geta að Sara gerir myndrænar skreytingar við tónleika Kira Kira í Hörpu í kvöld kl. 21. Kira Kira er að kynna plötuna Feathermagnetik sem kom út fyrr á árinu en einnig spilar Úlfur sem er að kynna plötuna White Mountain. Hér má sjá sýnishorn af skreytingum Söru.

Lúxusvandamál dauðans

28 Sep


Þá er RIFF rúllað í gang. Fólk stynur yfir gríðarlegu myndaúrvalinu og veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Rúmlega 100 eðalmyndir í boði á 10 dögum og valkvíðinn hellist yfir. Þegar svona lúxusvandamál kemur upp á er bara að gera sitt besta og ekki gefast upp! Mig hefur aldrei langað meir til að fá mér snjallsíma með appi en eftir að ég sá nýja app Riff og Símans. Nú naga ég mig í handarbökin fyrir að vera ekki meira tæknilega sinnaður og/eða áhugasamur um að hlaupa í hamstrakúlu kapítalismans. Vei þér hallærislegi Nokia sími með þinn applausa heila!

Annars er auðvitað bara hægt að næla sér í dagskrárbækling úr hökkuðu tré eða skoða dagskrána á netinu. Næstu dagar kalla á skipulagningu og aga svo maður sjái alla þá snilld sem maður vill helst ekki missa af.

Ég brá mér í Hörpu í gær og sá opnunarmyndina Queen of Montreuil eftir Sólveigu Anspach. Myndin er ágæt og skemmtilegast að sjá Diddu og kó og Óttarr Proppé og Frosta Jr droppa inn í smáhlutverkum. Úlfur Ægisson, sonur Diddu, er ómenntaður í leiklist held ég, en stóð sig mjög vel. Ætti að leika meira. Hr. Borgarstjóri mætti sem Jedi riddari úr Star Wars og setti geimið. Ari Eldjárn var rosalega fyndinn að vanda og Elísabet Rónaldsdóttir talaði um viðvarandi skort á konum fyrir framan og aftan tökuvélina, en RIFF er reyndar að standa sig mjög vel í þessum efnum – í ár eru 1/3 leikstjóranna konur.

Held það verði ekki komist undan því að sjá Comic Con IV e. Morgan Spurlock á sérstakri búningasýningu í Bíó Paradís kl. 20 í kvöld. Ég er bara ekki viss hvort ég verði litinn hornauga af nördasamfélaginu ef ég mæti sem Uncle Fester úr Addams Family – ég meina, er það ásættanlegt á svona giggi? Hvað er rammi Nexus-nördismans víður? Væri gott að fá svar áður en ég geri mig að fífli!

Eðalbíó: Ef þú hyrfir, myndi einhver sakna þín?

27 Sep


RIFF veislan hefst í dag og stendur til 7. október. Hið stórkostlega gnægtarborð getur virkað yfirþyrmandi en þá er bara að forgangsraða og leggja sig fram. Mér skilst að nýja Riff-appið sé kjörið til skipulagningar (ég á ekki svona fínan síma, en ég held maður fari að hugsa sér til hreyfings í þeim efnum), nú eða riff.is eða bæklingurinn. Þetta er bara rúm vika og slímsetur í bíó framundan.

Myndin Dreams of a life eftir Carol Morley lítur mjög spennandi út og þeir sem hafa séð hana segja hana frábæra. Árið 2003 fundust leifar Joyce Carol Vincent, 38 ára, í íbúð hennar í Norður-London – þrem árum eftir að hún dó. Beinagrindin var í sófanum, sjónvarpið enn í gangi, jólagjafirnar óopnaðar. Myndin er að hluta til heimildarmynd, að hluta til leikin og að hluta til leynilögreglusaga sem reynir að leysa gátuna á bak við þennan einmannalega dauðdaga heillandi ungrar konu. Leikstjórinn kemur til landsins og mun sitja fyrir svörum á sýningum myndarinnar á föstudag og laugardag. Svokallað möst sí á ferð hér.

Átta í einu

26 Sep

Æsta dvergþjóðin ærist í plötuútgáfu fyrir „nýju jólin“ Airwaves. Hér er nánast allt vaðandi í snilld…


 Just Another Snake Cult – Turning Into Mud (Nolo remix)
Þórir Bogason er heilabúið á bakvið hina frábæru síðsækadelísku sveit Just Another Snake Cult, sem kom sem kunnugt er með plötuna Birds Carried Your Song Through The Night í vor. Nú er komin remix plata sem Justarinn bíður frítt til niðurhals og hlustunar hér. Efnið verður líka fáanlegt á kassettu, en eins og allir vita er kassettan það sem koma skal. Þann 4. okt ætlar Þórir/Just að kynna þetta allt saman á tónleikum í bókabúðinni Útidúr – sjá betur hér á Facebook-síðu viðburðarins. Svo verður Justarinn vitanlega á Airwaves. Couple of times.


 Biggi Hilmars – Save me from me
Biggi í Ampop er kominn með fyrstu sólóplötuna All we can be og hér er eitt þrælbítlað sýnishorn. Platan mun líta dagsins ljós þann 1. Október næstkomandi og inniheldur 11 frumsamin lög ásamt endurútsetningu á ‘Famous Blue Raincoat’ eftir Leonard Cohen. Platan hefur verið í vinnslu síðastliðin 3 ár og fóru upptökur fram í Lundúnum og París, en hljóðblöndun og eftirvinnsla í Reykjavík.
Birgir hefur undanfarin ár verið starfandi í London, Reykjavík, Los Angeles og New York. Til að nefna sem tónskáld hjá Universal Music í London og Pusher Music í Los Angeles við hin ýmsu kvikmynda-, sjónvarps- og auglýsingaverkefni, ásamt því að semja, útsetja og vinna við upptökur á nýju plötunni.
ÚTGÁFUTÓNLEIKAR BIGGA @ Fríkirkjan FIM 4. Okt kl. 20.00 – 21.30 – og svo Airwaves couple of times


 Lára Rúnars – Beast
Sá Láru Rúnars taka eitt gott lag á píanó í Ísafjarðarbíói á síðustu Aldrei. Ég er ekki frá því að það hafi verið þetta lag. En allavega: Lára Rúnars hefur sent frá sér smáskífuna BEAST en hún mun prýða fjórðu breiðskífu tónlistarkonunnar sem áætlað er að komi út í október. Platan mun bera heitið Moment en þessi fyrsta smáskífa sem við fáum að heyra gefur til kynna að dekkri og ögrandi hliðar Láru fái að njóta sín meira nú en áður. Við gerð plötunnar segist Lára hafa verið undir áhrifum frá sterkum tónlistarkonum eins og PJ Harvey og svo tónlistarmönnum eins og John Grant en þau áhrif eru augljós í melódísku en angurværu indí-poppi Láru.


 Þórir Georg – Afmæli
Tónlistarmaðurinn Þórir Georg var að senda frá sér lagið Afmæli. Lagið er að finna á væntanlegri breiðskífu hans, I Will Die and You Will Die and it Will be Alright, sem kemur út í lok október hjá Kimi Records. Lagið er tilraun Þóris til að semja hið klassíska ástarbréf til eiginkonu sinnar og varð til á afmælisdegi hennar, 4. september 2011, er Þórir beið eftir að hún kæmi heim úr vinnunni. Á smáskífunni er að auki að finna b-hliðar lagið Aldrei sem og fyrstu upptöku Þóris á Afmæli.
I Will Die and You Will Die and it Will be Alright kemur einnig út í Þýskalandi í samstarfi við Stargazer Records í tengslum við tónleikaferð Þóris þar í landi. Hún er alfarið tekin upp og unnin af Þóri sjálfum, allt frá hljóðblöndun til umslagshönnunar. Platan inniheldur níu gítarrokklög af ýmsum toga og sækir innblástur víða að, meðal annars frá Sun Kil Moon, Bonnie Prince Billy og Chad VanGaalen.


Epic Rain – Vanishing Moon
Hljómsveitin Epic Rain, sem er skipuð þeim Jóhannesi Pálmasyni, Bragar Eiríki, Stefáni Sampling, Guðmundi Rósusyni & Daða Jenssyni, fagnar um þessar mundir útgáfu á nýrri plötu sem nefnist Elegy, með því að leggja í tónleikaferð um Frakkland & Ítalíu. Byrjað verður  á Marsatac festivalinu í  Marseilles á Fimtudaginn  27.sept, , og endað á Alternatvie music festivali á Sardiníu fimmta october, með viðkomu á festivölum í Clearmont & Strasbourg í Frakklandi þar sem hljómsveitin hitar upp fyrir gömlu kempurnar í De La Soul.
Á þessari nýju plötu njóta Epic Rain aðstoðar mikilla fagmanna á borð við Roland Hartwell fiðluleikara, Magnúsar Elíassen trommuleikara , Héðins Björnsonar kontrabassaleikara og Elínar Ey söngkonu. Upptökur & Mastering var í traustum höndum Finns Hákonar.
Opinber útgáfudagur Elegy með Epic Rain   er 8. oktober

 Skúli Sverrisson & Óskar Guðjónsson – The Typist
Ofurmennin Skúli og Óskar hafa gefið út plötuna The Box Tree með rólegum stemmningum. Platan er í frábærlega flottu landabréfa-umslagi. (Lesa meira).


 Jóhann Jóhannsson – They fed the sparrows leftovers and offered grass to Scherfig’s turtle
Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson gaf nýverið út plötuna Copenhagen Dreams sem inniheldur frumsamda tónlist úr samnefndri mynd eftir Max Kestner. Myndin var meðal annars sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í fyrra og ætti því einhverjir að kannast við tónana sem prýða myndina, en nú er tónlistin loks fáanleg. 
Kvikmyndin varpar ljósi á höfuðborg Danmerkur og nánasta umhverfi íbúanna: bygginarnar, hraðbrautirnar, garðbekkina, fólkið í hinu daglega amstri. Myndin sýnir hvernig það hvernig fólk lifir sínu lífi hefur áhrif á okkar nánasta umhverfi. Fólkið sjálft er ekki í fókus eða í forgrunni í myndinni heldur frekar húsin, strætin og vatnið. Hún sýnir borgina sem heildstæða einingu og Kaupmannahöfn er því aðalpersóna myndarinnar ef svo má segja og mannfólkið eins konar aukaleikarar.
Samt er myndin langt í frá köld eða tilfinningalaus og þar leikur tónlist Jóhanns stórt hlutverk, en hún samanstendur af 19 styttri tónverkum sem saman töfra fram heildarmynd af borginni. Tónlistin við Copenhagen Dreams fer yfir víðan völl og hljóðheimurinn sem Jóhann skapar nær yfir alls kyns hljóð og tilfinningar; hún er lífleg og fjörug sem og róleg og melankólísk. Platan er ein svipmesta plata Jóhanns frá upphafi og er full af tregablandinni fegurð með framsæknum melódíum og glæsilegum útsetningum.
Það eru 12 Tónar sem gefa út Copenhagen Dreams á Íslandi, en erlendis er það plötuútgáfa sem Jóhann hefur stofnað sjálfur undir nafninu NTOV. Flytjendur á plötunni auk Jóhanns eru m.a. Hildur Guðnadóttir, Ólafur Björn Ólafsson, Una Sveinbjarnardóttir og Hrafnkell Orri Egilsson.
Platan hefur þegar fengið frábæra dóma, til að mynda í Pitchfork – en vefsíðan frumsýndi jafnframt myndband við eitt laga plötunnar – „Here They Used to Build Ships“ – í síðustu viku við góðar undirtektir. Myndbandið má sjá hér
Af öðrum fréttum af Jóhanni má nefna að á döfinni er afar sérstök útgáfa – Rework – sem er safn af endurhljóðblöndunum og endurgerðum af verkum meistarans Philips Glass í tilefni af 75 ára afmæli hans, en tónlistarmaðurinn Beck sá um að velja þáttakendur og bað Jóhann um að vera með. Aðrir listamenn sem eiga lag á plötunni eru t.d. Dan Deacon, Amon Tobin, Toro Y Moi, Cornelius, Tim Hecker, Pantha Du Prince og Beck sjálfur. 
Eins og vanalega er það þó ekki eina verkefni Jóhanns þessa dagana, en hann er nú önnum kafinn við að semja verk fyrir nokkra helstu flytjendur nýrrar tónlistar í heiminum á dag, þar á meðal bandaríska nýtónlistarhópinn Bang on a Can All Stars og Theater of Voices söngflokkinn sem stýrt er af Paul Hillier.


Kira Kira var með Jóhanni í Tilraunaeldhúsinu. Hún gaf út plötuna Feathermagnetik á dögunum og heldur sjónræna tónleika á laugardaginn: Laugardaginn 29. september kl. 21 mun Kira Kira halda sjónræna útgáfutónleika vegna hljómplötunnar Feathermagnetik í Kaldalónssal Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss. Með henni á tónleikunum leika Skúli Sverrisson, Úlfur Hansson og Pétur Hallgrímsson. Listamaðurinn Sara Gunnarsdóttir hefur gert hreyfimyndir (kannski til betra orð við e. animations?) við hvert einasta lag Feathermagnetik og mun þeim verða varpað á tjald á meðan tónleikum stendur. Tónlistarmaðurinn Úlfur kemur einnig fram á tónleikunum en hann kemur fram með stórri hljómsveit og leikur tónlist undir sjónhverfingum frá Arnljóti Sigurðssyni. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi kvikmyndahátíðina Reykjavík International Film Festival og hljómplötuútgáfuna Kimi Records. Miðaverð er 1.990 kr. og miðasala er á www.midi.is og www.harpa.is.

Eðalbíó: Ég er í bandi

25 Sep

Íslensk tónlist. Jadí jada. Þetta er náttúrlega algjört fenómen. Hvaða annað sambýli 320.000 síröflandi þunglyndissjúklinga hefur átt tvær plötur á topp 10 Billboard-listans með stuttu millibili (OMAM og SR 2012)? Á meðan brenglaðir bankaræflar skitu á sig með sitt ömurlega heimsyfirráðarplott blómstrar tónlistin sem aldrei fyrr og er eitthvað sem við getum í alvöru verið stolt af.

Á RIFF verður sýnd flúnkuný frönsk heimildarmynd um íslenska fenómenið, I’m in a band. Hún fylgist grannt með Kidda Hjálmi og Ara Eldon og fleirum og reynir að svara spurningunni margspurðu: Afhverju er Ísland svona æðisgengið þegar kemur að tónlist?

Eða eins og segir á vefnumGulla, Ari og Kiddi eiga tvennt sameinlegt: Þjóðernið og brennandi tónlistaráhuga. En þau eru samt jafnólík og þau eru mörg. Hér slæst áhorfandinn í för með leikstjóranum til Íslands þar sem hann kynnir sér tengslanet íslenskra listamanna. Georg Hólm úr Sigur Rós, Jón Sæmundur Auðarson úr Dead Skeletons og Páll Óskar eru meðal viðmælenda. Leikstjórinn Thomas Griffin hreifst ungur af Sigur Rós, Björk og múm. Hann kom fyrst til Íslands árið 2008.

Ófyrirgefanleg mistök í Djúpinu

24 Sep


Fór á Djúpið í gær. Baltasar er frábær leikstóri (fyrir utan A little trip to heaven sem var rugl) og Djúpið er sólidd. Rosa „þurr“ lýsing á atburðum og ekkert dramakjaftæði. Fulltrúi sjómanna á sýningunni, Steini Sleggja, var mjög sáttur við lýsingu á vinnulagi á sjó, en þegar við fórum á Brim var hann alveg brjálaður því allt var vitlaust og í rugli. Sjálfum fannst mér skemmtilegast að sjá vel skipaða vinýlplöturekka í húsi í Vestmannaeyjum og gaman var að Trúbrot-lagið What we believe in skyldi vera eins konar miðpunktur myndarinnar með sinni hippalegu djúpspeki: „I am nothing, we are nothing, till we react to what we believe in“.

Sýnt var í nærmynd þegar Gunn/Guðlaugur setur lagið undir nálina – á alveg réttum stað, annað lagið á hlið 2 á …lifun. En bíðum við. Platan sem sýnd er í Djúpinu er einhver önnur plata frá Tónaútgáfunni á Akureyri því í myndinni sést rangur  label-miði, svona blár einlitur, þegar …lifun var í raun með rauða og svarta label-miðanum hér að ofan. Þetta eru ófyirgefanleg mistök og ég get því ekki gefið myndinni nema þrjár stjörnur.

Djók, fjórar á þessa fínu mynd!

UPPFÆRT: Menn vilja meina að í myndinni sé lagið leikið af tvöföldu safn-plötunni BROT AF ÞVÍ BEZTA með Trúbrot, sem Steinar gaf út 1979. Það getur auðvitað vel verið. Ég hef aldrei séð þá plötu svo ég get ekki sagt til um það. Líklega er þessi ofurnördaða bloggfærsla því tóm steypa og hægt er að taka ofan hárkolluna fyrir leikmunadeild myndarinnar, sem lætur ekki nappa sig á svona smáatriðum.

Uppfært aftur: Hef séð skann af label-miða Brot af því bezta og það er ekki sami labelmiði og var í myndinni. Ég held að þessi færsla fáist því staðist. Þarf reyndar að leigja myndina á dvd og pausa á réttum stað til að vera alveg viss!

Eðalbíó: Erum við frjáls?

24 Sep

Ég sýndi öldruðum föður mínum snjallsíma sem var til staðar í afmælisveislu sem við vorum í í gær. Einna flottast er að sýna Google Earth og hann vildi náttúrlega fyrst sjá sitt eigið heimili.

Tækninni fleygir fram. Allt sem var rosalegt fyrir 10 árum er drasl í dag. Allt sem er rosalegt í dag verður drasl eftir tíu ár. Pabbi spáir því að bráðum verði eitthvað grætt í hausinn á manni svo allir geti talað við alla og verið í sambandi við alla. Ég meina, hversu lengi fara þrælar kapítalismans í biðröð eftir nýjum Æfón? Endalaust?

Myndin Fimm stjörnu tilvera (Five Star Existence) segir frá stöðu mála í tæknigeðveiki samtímans. Um hana segir á vef RIFF: Er tæknin að taka yfir? Ef við getum unnið hvar sem er, þýðir það að við séum alltaf í vinnunni? Leikstjórinn Sonja Lindén veltir fyrir sér upplýsingarþjóðfélaginu út frá eigin lífi. Skoðanir bæði með og á móti heyrast um hlutskipti nútímamannsins sem þarf að taka inn fimmfalt meira magn af upplýsingum en áður, en með taugakerfi sem hefur ekki breyst í þúsundir ára. Er öll þessi þróun að leiða okkur til raunverulegrar “fimm stjörnu tilveru?“ 

Mönnum er tíðrætt um „frelsi“. Frelsi til að gera hvað? Vafra um í mannlausum heimi, sofa úti og veiða sér til matar? Hornstrandir eru til þess. Ég er strax farinn að hlakka til næstu ferðar. Það sem er þó alltaf best við svona ferðir er að komast aftur til byggða og fimm stjörnu tilverunnar. Við erum heppin hér að geta skroppið á milli alda á svona einfaldan hátt.

Airwaves fitubrennsla 2012

23 Sep


Airwaves fitubrennsla 2012

Þá er komið að því, fimmta árið í röð AIRWAVES FITUBRENNSLA 2012 – mixið gjörðu svo vel! Nú geturðu á einfaldan hátt kynnst því besta á Airwaves sem framundan er og brennt nokkrum kalóríum í leiðinni. Aðferðin er einföld: Þú hleður niður mixinu hér að ofan, smellir því í spilarann þinn og tekur með í ræktina eða út að hlaupa. Lögin er vísindalega valin og sett saman út frá bpm og cardio og gert er ráð fyrir að þú hamist í klukkutíma. Ef þú hreyfir þig í nákvæmum takti með tónlistinni má búast við því að þetta mix hafi af þér a.m.k. 1/3 úr Hobnobs-pakka. Þetta er innihaldið:

1. Shearwater (US) – Immaculate
2. Caterpillarmen – End now
3. Django Django (UK) – Default
4. Friends (US) – I’m his girl
5. Dirty Projectors (US) – Offsprings are blank
6. The Foreign Resort (DK) – Take a Walk
7. Ewart & The Two Dragons (EE) – In the end there is only love
8. Diiv (US) – Doused
9. Ojba Rasta – Í ljósaskiptunum
10. TheeSatisfaction (US) – QueenS
11. Elektro Guzzi (AT) – Pentagonia
12. Gluteus Maximus + Högni Egilsson – Everlasting
13. Halleluwah – K2R
14. Gabríel + Björn Jörundur & Emmsjé Gauti – Gleymmérei
15. Þórunn Antonía – Too Late
16. M-Band + RetRoBot – Love Happiness
17. The Echo Vamper (DK) – Lover
18. Retro Stefson – (O) Kami
19. Ghostigital – Dark in Here
20. Futuregrapher + Fu Kaisha – Elísa
21. Shabazz Palaces (US) – Swerve the reeping of all that is worthwhile (noir not withstanding)
22. Rubik (FI) – World around you
23. TheVaccines (UK) – Norgaard
24. Jesuslesfilles (CA) – Cinema
25. Vacationer (US) – Trip
26. Haim (US) – Forever
27. Sometime – You & I
28. Polica (US) – Dark Star
29. Shiko Shiko (FR) – Aquapark
30. Kindness (UK) – Cyan
31. Purity Ring (CA) – Saltkin
32. Siinai (FI) – Finish line

Góðan svita.

Var Kári svanur myrtur?

22 Sep


Þessi mynd er tekin árið 1994 af mér með svaninum Kári, sem var frægasti svanur síðustu aldar í Reykjavík. Ég fór að hugsa um Kára þegar ég sá þetta ógeðslega fyndna myndband af gæs að ráðast á mann.


Kári komst fyrst í fréttirnar þegar Dröfn Ösp Snorradóttir (nú -Rozes) bjargaði honum í umferðinni. Lesið allt um það hér. Dröfn býr nú í LA en er oft með skemmtilegheit í morgunútvarpi Rásar 2.


Kári var oft með eitthvað vesen á Tjörninni.  Ferlega heimaríkur og böggandi lið, bítandi krakka og alveg snar. Svo fór hann að flækjast um allan bæ og birtast í húsagörðum. Hann birtist einu sinni í bakgarðinum hjá mér á Óðinsgötunni og fljótlega mættu tvær löggur til að handsama hann. Sú viðureign er með því fyndnasta sem ég hef séð, algjört bíó. Því miður var þetta fyrir tíma myndbandsupptökuvéla í símum.Árið 1994 bárust fréttir af Kára á Raufarhöfn.  Og skömmu síðar þetta…


Spurningin er því hvort lögreglan á Raufarhöfn hafi myrt Kára? Ef ekki, hvað varð þá um hann? Ég sé fyrir mér að einhver geðstyrð lögga hafi einfaldlega snúið hann úr hálsliðnum frekar en að vesenast með hann í einhverja tjörn í nágrenninu. Kári hefði hvort sem er alltaf komið aftur. Mér finnst Kári eiginlega eins og Helgi Hós dýraríkisins. Þrjóskari en andskotinn!


Keuhkot – Kári svanur
Myndina af mér og Kári tók finnski tónlisarjöfurinn Keuhkot, sem kom hingað til tónleikahalds 1994. Hann var svo snortinn af Kára að hann samdi lag tileinkað honum.