Sarpur | ágúst, 2017

MANNGÆSKAN Á ÍSLANDI

29 Ágú

981706
Nú er von maður spyrji: Afhverju þarf Ísland að vera svona mikið Fasista- og Fávitaland? Er þetta lögmál sem við náum aldrei að sigrast á? Er enginn séns á breytingum?

Við erum bara 330.000 + sirka 2.000.000 ferðafólk á árs basis. Við búum við ótrúlega góð skilyrði á sjó og landi, ættum hreinlega að vera öfunduð af öllum heiminum fyrir að búa í vestrænni paradís. (Utan ramma er blessað veðrið – mér sýnist það vera ok í dag)

Auðvitað þarf fleiri hendur á dekk til að sinna öllu sem sinna þarf. Það er bullandi góðæri, krónan sterk svo við getum farið a.m.k. þrisvar til útlanda á ári með þokkalegri samvisku, keypt gott kaffi, keyrt um á glænýjum bíl og valið á milli eðalkosta í mat og drykk. Takk Costco! Takk allir þessir nýju staðir sem spretta upp eins og gorkúlur þökk sé fólksfjölguninni – Túristarnir eru vinir okkar, munið það.

En samt, SAMT, þarf alltaf allt að vera glatað. Nei nei, auðvitað ekki allt, og ekki alltaf, fólk er að gera sitt besta (skulum við vona), en samt er eins og enginn nenni í pólitík nema siðblindir skíthælar sem vilja hanga í gömlu XD/XB helmingaskiptareglunni og mata sjálfa sig við “Kjötkatlana”. Sorrí með klisjulegt orðalag, “Kjötkatlar”; en klisjur eru klisjur af því þær eru staðreynd.

Allavega: Þrátt fyrir allar forsendur fyrir paradísarlegri góssentíð er alltaf einhver viðbjóður á herðum okkar, og ef það er ekki rugl, augljós spilling og Mannanafnanefnd (eða það nýjasta: Hestanafnanefnd!) þá er það Útlendingastofnun, sem er eins og ríki í ríkinu. Og þá meina ég The Third Reich.

Nýjasta ógeðið sem Útlendingastofnun er nú að bjóða upp á hefur blaðamaður Moggans, Ingileif Friðriksdóttir, skrifað um á síðustu dögum. Síðast í gær, FJÖLSKYLDAN VERÐUR SEND ÚR LANDI og áður á föstudaginn, SEGJA DAUÐANN BÍÐA SÍN Í HEIMALANDINU.

Í stuttu máli segir tölva Útlendingastofnunar NEI og bætir við ÞIÐ VERÐIÐ AÐ DEYJA EÐA ÞJÁST ÞVÍ TÖLVAN SEGIR BARA NEI. Kannski veit ég ekki allt sem Hugo Boss-dressaðir starfsmenn Útlendingastofnunar vita. Kannski er pabbinn Sunday Iserien einhver voðalegur ISIS-öfgamaður og jafnvel morðingi, og mamman, sem heitir því kaldhæðnislega nafni Joy Lucky, einhver ægilegur skúrkur, en Hey! Dóttirin Mary er bara átta ára og hefur, að því ég best veit, ekki verið staðin að því að mæta með sprengjubelti í skólann.

Já auðvitað, hvernig læt ég. Þau eru dökk. Og kannski gyðingar líka? Íslandssagan sýnir að Kjötkatla-siðblindingjar fortíðar hafa alltaf gert sitt besta til að þvo hendur sínar af blökkumönnum, sent gyðinga út í opinn dauðann og síðast en síst, níðst á erlendu farandverkafólki, sem er að hjálpa til við að rústa landinu og svona, svo einhver kokteilapartí-kunningi græði aðeins meira – “Ekkert að sjá hér: Haldið bara áfram að taka myndir af matnum ykkar og grínast. Útlendingastofnun er með þetta undir kontról.”

Eitthvað hlýtur það að vera. Ég bara trúi því ekki að hjá þessari bévítans Útlendingastofnun starfi svo sálarlaust og siðblint fólk að það ætli bara sí svona að draga fólkið á náttfötunum út um miðja nótt til þess eins að rústa lífi þess enn og aftur. Kannski með fulltingi undirborgaðra og undirmannaðra lögreglumanna sem skammast sín fyrir land og þjóð og þurfa örugglega áfallahjálp eftir að hafa horft upp á aðfarirnar – og staðið fyrir þeim.

En (svo ég endi þetta alvörumál á kaldhæðnislegan máta): Sunday, Joy Lucky og Mary, átta ára, eru náttúrlega hvorki heimsmeistarar í skák, góð í handbolta (þá skipti litarhaft ekki máli) eða ruglaður maður frá Georgíu sem lærði skiljanlega íslensku upp á sitt einsdæmi og fékk því VIP meðferð með einu pennastriki Davíðs Oddssonar (eða hver sem það var) og urðu Íslenskir ríkisborgarar over night.

Ég er Íslendingur. Ég skammast mín fyrir þetta allt saman. Ef þú ert ekki algjör fáviti ættir þú að skammast þín líka.

PS: Nenni ekki að hlusta á “E gamla fólkið á Íslandi, geðveika fólkið og atvinnulausa fólkið (ef það er þá eitthvað atvinnulaust fólk ennþá til í góðærinu?)”-”svör”. Það er önnur umræða, önnur lota í verkefninu ÍSLAND BEST Í HEIMI 2020.

Ítarefni: Angela Markel er alvöru manneskja, ekki sálarlaust nasískt vélmenni – þótt hún sé þýsk.

Pink Hjöll – The Wall

17 Ágú

pinkhjoll-thewallPINK HJÖLL – THE WALL (2017 Redux)
Written by Hjörleifur Guttormsson
Produced by einhver gufa
Engineered by Bæjarvinnan

Tölvutækni Levono blús

12 Ágú

menu-2017-Baejarlind
Mér þykir fyrir því að vera að bögga ykkur, lesendur, með þessu röfli. Það er Gleðigangan mikla í dag og öll athyglin ætti að vera á því að njóta þess, sem mér finnst, Æðislegasti dagur ársins. Ég verð vonandi með tárin í augunum í mannfjöldanum á eftir (Gangan leggur af stað frá sirka Stjórnarráðinu kl. 14). Tárin í augunum því allt þetta húllumhæ og mannfjöldinn sem mætir, er að mínu mati stórkostlegasta sönnun þess að vér Íslendingar erum ekki algjör fífl (þótt margt annað sanni hið gagnstæða). Gleðin er líka sigurganga fólks sem hefur þurft að ganga þyrnum stráðan veg til þess eins að vera það sjálft. Baráttuandi hinsegin fólks hefur dregið aðra bælda og bugaða út úr sínum skápum; hvort sem það eru geðveikir eða offitusjúklingar o.s.frv. Miklu betra þjóðfélag er niðurstaðan og enginn þyrfti lengur að þurfa að bera harm sinn í hljóði. Við erum öll bara einhver slysaskot á leið í algleymið aftur. Njótum á meðan lífið varir.

Allavega. Röflið. Tölvutækni er eflaust ágætis fyrirtæki í „Kópavogi“, sem ég átti ágætis viðskipti við fyrir sirka 10-15 árum. Fékk alltaf toppþjónustu þar. Ég hef hinsvegar alfarið snúið mér að Tölvutek, en bara vegna þess að þeir eru ekki eins langt í burtu og frændi minn, Halldór Hrafn Jónsson, er þar einn af innstu koppum í búri. Tengdapabbi keypti hins vegar fartölvu hjá Tölvutækni og lenti í ömurlegri þjónustu sem varð á endanum til þess að hann strunsaði út skellandi hurðum og henti hinni ónýtu tölvu í mig. Þegar mitt gamla hlussudrasl gaf upp öndina fyrir viku fór ég loksins að nota Levonoið. Það var ekkert að fartölvunni og ég afskrifaði þetta hjá tengdó bara sem eitthvað rugl í gömlum manni (Tengdapabbi er 9 árum eldri en ég). Svo var það í gær að þetta ónýta fartölvuhelvíti neitaði að starta sig upp sama hvað ég hamaðist. 

Ég sendi því eftirfarandi á Tölvutækni á Facebook og cc á Facebook vegg minn með cc á fjölmiðlafólk sem ég mundi eftir og cc á fleiri sem gætu haft áhuga á þessu. Ath að skilaboðin voru skrifuð á LG G6 síma og því lítið skeytt um stafsetningu. Bein útsending á Facebook-vegg mínum hefst svo klukkan 11-11:30 og verður gaman að sjá hvernig Tölvutæknimenn begðast við. Svo sem týpískt eitthvað að það væri „Lokað vegna Gaypride“.

„Í ágúst 2016 keypti Therapi Ehf, kt 670xxx-xxxx, af ykkur Levono Yoga 3.14. Þessi fartölva er ónýt. Þegar hún kom úr 2ja vikna „viðgerð“ frá Nýherja fór tengdafaðir minn (eigandi Therapi ehf) með hana til Hvammstanga þar sem hann á heima og hélt að tölvan væri loksins i lagi. Eftir nokkra daga datt allt i sama girinn og þetta mánudagseintak sem þið selduð honum kveikti ekki á sér. I staðinn fyrir að láta þjakaðan manninn fá nýja tölvu af sömu tegund reif eigandi Tölvutækni bara kjaft sem endaði með því að tengdafaðir minn strunsaði út og mun aldrei aftur stiga fæti inn i verslun ykkar.

Nylega eignaðist ég þessa hormungar Levono fartölvu og hafði notað i viku þar i dag þegar hun bara ræsir sig ekki.

Eg kem þvi til ykkar á morgun laugardag um kl 12 með þessa onytu tolvu sem þið rukkuðuð 99.900 kr fyrir. I stað hennar fæ eg samskonar tolvu að fullu uppsetta. Munu þá ekki verða fleiri eftirmalar ut af þessu mali að minni hálfu. Ef þið ætlið hins vegar að vera með einhvern skæting og senda tölvuna í enn eina gagnslausa 2ja vikna yfirhalningu þá eruði jafnvel enn vitlausari en þið hafið þegar sýnt fram á að vera.

Se ykkur kl. 12, 
Dr. Gunni fv. Neytendafrömuður.

Ps. Afrit af þessum skilaboðum eru send á alla stærstu fjölmiðla landsins. Heimsókn min til ykkar verður send ut beint á facebbok live.“

Jón smákrimmi < Séra jón nauðgari

10 Ágú

Out-of-Thin-Air-police-lineup
Sá OUT OF THIN AIR í gær. Stórgóð heimildarmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ég hef aldrei sökkt mér djúpt í það svarthol/mál, en myndin er skýr og skorinorð og „skemmtileg“ – hélt vel og er virkilega vel gerð. Aðdáendur Making a Muderer fá hér mikið fyrir sinn snúð í lókal bakaríinu. Auðvitað er þetta allt eitt megaklúður, hvernig staðið var að málum. Ég heyrði einhvern tímann eftir Sævari Ciesielski að á fylliríum játaði hann hálfpartinn að hafa verið nálægt drápi á Guðmundi, en Geirfinn hafði hann aldrei heyrst minnst á. Þetta er eflaust eitthvað kjaftasögurugl því enginn sekur maður myndi leggja á sig það erfiði sem Sævar gerði til að fá sín mál út af borðinu.

Sævar rakst ég stundum á. Man eftir honum þegar Bless eða S.H,.Draumur var að æfa í Duus-húsi í Fischersundi og þá var hann bara fullur eða skakkur og vildi djamma með okkur. Ekkert ofbeldisrugl, en auðvitað var maður dáldið hræddur við hann. Svo þegar ég snapaði að fá að sitja í einum af köggum Ólafs Gunnarssonar með Dabba 5 ára eða svo, þá keyrðum við í Bæjarins bestu og Sævar rakst á okkur og var bara almennilegur þótt hann væri orðinn verulega sukkaður þá. Sem sé, bara hinn fínasti maður. OUT OF THIN AIR er þó meira um Erlu en Sævar og það helvíti sem á hana var dempt, nánast barn að aldri og með nýfætt barn.

Staðreyndir eru þessar: Engin lík hafa fundist. Enginn morðingi hefur fundist. Ungt fólk var beitt stjarnfræðilegu ofbeldi af fangelsishrottum Síðamúlafangelsis, sem voru ekki bara svona vegna þess tíma sem þeir lifðu í, heldur voru bara siðblindir og/eða fávitar. Það er líklega of seint að hundelta þessa ömurlegu menn uppi, þeir geta bara úldnað sig í hel og vonandi, þeirra vegna, skammast sín.

Hin staðreyndin er þessi: „Kerfið“ hleypur upp til handa og fóta til að veita barnaníðingi „uppreisn æru“ til að hann fái „sjálfssögð réttindi sín aftur“, en skellir áratugum saman skollaeyrum við bænum fólks sem á unga aldri var beitt áralöngu harðræði til að kreista út úr því játningar á einhverju sem það vissi ekkert, eða a.m.k. lítið, um. Bænum þessara fórnarlamba um endurupptöku málsins, eða „uppreisn æru“ hefur aldrei verið almennilega svarað af „Kerfinu“.

Það er ekki sama Jón eða Séra Jón? Nei, það er ekki málið. Við búum bara ennþá í Fávitalandi með fávitum og gagnslausum aumingjum sem við fávitarnir og aumingjarnir kjósum yfir okkur trekk ofan í fokking trekk.

(Myndin er komin í sýningar í Bíó Paradís)

Allt í drasli með Dr. Gunna

9 Ágú

Allt í drasli voru þættir á Skjá einum sem hófu göngu sína 2005. Heiðar Snyrtir og Margrét Húsmæðraskólastýra sáu um að niðurlægja stamandi skítablesa og taka til í allskonar saurholum og draslarakompum. Þetta var ágætis stöff, þótt ég hafi aldrei horft á heilan þátt, svo ég muni: Og jafnvel þótt fólk sem ég þekki væri í hlutverki hins niðurlægða. 

Þessa ágætu fávitaþætti hafði ég bak við eyrað þegar mín beið næstum ókleifur hamar nú á Frídegi Verzlunarmanna. Það var man ceifið mitt, sem liggur við hlið vistarvera okkar Dungang, en þar er að sjálfssögðu alltaf skínandi hreint og fágað þökk sé Lufsu og/eða aðkeyptu vinnuafli. Og ég legg mig stundum fram þar líka (segi ég, svo ég hljómi nú ekki eins og einhver karlpungur).

Til að gera mér djobbið léttara ákvað ég að gera Youtube „þátt“ um „ferlið“ og, sem sagt, sýna alheiminum hvers konar helvítis skítalúði ég er. Ég hef áður verið helvítis pempía og hræddur um almenningsálitið, en sú tíð er löngu liðin. If you don’t like what you see – fokk off! Einu sinni þorði ég varla að ganga um með svona „Hallgríms Helgarsonar“-hatt, sem ég átti þó, af ótta við að einhver bjáni út í bæ þætti það eitthvað skrýtið. Nú á gamalsaldri hef ég öðlast þá eðlilegu visku að vera drullusama um hvað einhverjum plebbum og bjánum út í bæ finnst um mig, og þannig, allt. Ekki skemmir fyrir þetta skemmtilega umburðarlyndi sem ríkir í dag þar sem annar hver maður er komandi „út úr skápnum“ með geðveiki sína, dinti, vandamál og offitu.

Auðvitað var þetta cleaning djobb löngu, LÖNGU, tímabært, en þegar mér datt þetta í hug með „dokumentasjónina“ fann ég strax að ég nennti þessu. Ferlið er auðvitað ekki búið og ýmsir hamrar og ýmsar skráningar eftir. Þess má að lokum geta að lúkkið á man ceifinu er alveg eins og við því var tekið 2004. Sýruveggfóður, 60s litir á veggjum o.s.frv. Öll íbúðin okkar var svona, enda seldi gömul ekkja okkur íbúðina á algjöran slikk 2004 (15.6 mills minnir mig). Þarna hafði hún verið að marinera sig síðan örlí 60s. Þökk sé „íslensku leiðinni“ erum við að tala um 50 mills í dag. Takk óðaverðbólga, launaskrið, verðtrygging og hvað þetta heitir allt!

Skapti Ólafsson kvaddur

7 Ágú

Skapti Ólafsson; meistari, pabbi vinar míns, jazzgeggjari, rokklegend, prentari og öðlingur, liðaðist yfir móðuna miklu, sem bíður okkar allra, aðfaranótt þriðjudags, 1. ágúst. Hann var að verða 90 ára og því hafði móðan mikla verið yfirvofandi um hríð. Skapti greindist með Alzheimer 2015 og hafði tekið þennan venjulega rúnt gamalmenna, sem enginn veit hvað á að gera við (og allra síst “kerfið”!): Verið á Vífilsstöðum, Landakoti kannski (eða þessu er kannski að slá saman í hausnum á mér við mína eigin foreldra – pabbi dó á Vífilsstöðum 5. des 2016, mamma nennti þessu ekki ein og dó á Landakoti 16. mars 2017), en Skapti var kominn á Sóltún í lokin og undi þar vel til dauðadags, enda umvafinn ættingjum og því algjörlega frábæra fólki sem velst á þessar lokastoppistöðvar, og það þótt ummununarstörf séu verðlögð af þessu sjúka samfélagi á brotabrot af því sem gagnslaust kerfisfólk fær fyrir að klúðra öllu sem það tekur sér fyrir hendur. Áfram láglaunafólk! Stay in there!

Ég fór held ég ekki nema tvisvar-þrisvar með Steini Skaptasyni vini mínum að heimsækja pabba sinn. Ég hafði jú nóg með mitt deyjandi mapa og því fór ég t.d. aldrei með á Sóltún. Í fyrsta skiptið sem við Steinn fórum á Vífilsstaði tók ég mynd til að senda Kidda vini okkar, sem þá var kominn á 29. ár í ólöglegri þrælavist í New York City. Við vorum alltaf að reyna að fá Kidda heim, ég fékk t.d. Hr. Stefán Grímsson, leiðtoga lífs okkar Kóp-fríka, til að leika í litlu hvatningarvideói og þungt lóð á þessa eggjunar-vogaskál var að greina frá hrörnun Skapta – “Koddu heim áður en Skapti kveður”.

2016-02-04 14.18.57
Kiddi kom svo auðvitað heim á endanum, eins og frægt er orðið, og stóð algjörlega sína plikt með Skapta. Fór einn, eða með Steini, 2-3 í viku og síðast laugardaginn 29. Júlí.

En aftur til 1980 þegar ég fór að kynnast Steini, Kidda og fleiri Kóp-fríks. Skapti var viðloðandi félagsskapinn from day one, enda Steinn óhræddur við að minnast á pabba sinn. Auðvitað vissi ég ekki neitt hver þetta var og hafði örugglega aldrei heyrt Allt á floti. Ég var líka ekkert svo spenntur fyrir “eldgömlu stöffi” enda á fullu við að njóta þess hlaðborðs sem samtíminn hafði upp á að bjóða. Man ekkert eftir þátttöku Skapta, nema i mesta lagi að maður sá pabbans Steins í eldhúsinu heima hjá þeim á Holtagerði 15. Mamman, Sveinfríður Guðrún Sveinsdóttir (Sísa 1929 -1993), var mun minnisstæðari þá, keðjureykjandi við eldhúsborðið. Svo var hún systir Gunnars Reynis, sem ég vissi eðlilega ekkert hver var, en Steinn og Kiddi minntust á oft, líklega til að hlæja sín á milli yfir því hvað ég, new comerinn, væri vitlaus. Við svona stundir sá maður Skapta hressann en kannski þreytann líka, því að hann var með prentaðstöðu í bílskúr við hliðina og dældi út nafnspjöldum og kvittunum fyrir kúnnana. Í baksýnisspegli sé ég að Skapti og pabbi voru á svipuðum stað í mörgu; „gamlir“ vinstri menn og báðir komnir í sjálfsstæðan atvinnurekstur, pabbi með Tempó innrömmun, Skapti með prentverkið.

Líða ár við leik og störf, pönk og síðpönk, fyllirí og almennt rugl og gleði. Þegar ég gerði Abbababb! 1997 (fyrir 20 árum!!!) fékk ég Skapta í glænýtt hljóðver Valgeirs Sigurðssonar, sem var í iðnaðarhúsnæði á Smiðjuvegi fyrst. Gott ef þetta var ekki fyrsta platan ever sem Valgeir tók upp. Þarna hafði Skapti ekki sungið inn á plötu síðan þessar þrjár 78sn fiftís (þá var hann með effi, Skafti), en mætti hress og reifur og söng Lalla lagið með stíl. Steinn söng líka í laginu, túlkaði Gilitrutt, kærustu Lalla, með álíka stíl og fullkomnun og Skapti.

Útkoman er hér enn, uppfærð á Youtube en með aðeins 35 views. Til samanburðar er Prumpufólkið, hittarinn mikli, sem fer með mér í gröfina, með 470þ views, og Glaðasti hundurinn, hinn barnahittarinn, er með 740þ views (sorri, þurfti bara aðeins að humblebragga í miðri líkræðu) Hér er mynd úr sessioninni, ég í QPR peysu.

2017-08-07 10.51.54
Þetta er úr bókinni 100 bestu plötur Íslandssögunnar (fín bók frá 2009 eftir vini mína Jónatan og Arnar Eggert) þar sem ég næ hæst #65 með Abbababb!, en myndi auðvitað ná miklu hærra í dag, enda nýjabrumsrykið af stöffi eins og Hjálmum og Diktu, sem eru fyrir ofan mig, löngu fokið út í veður og vind.

Næst þurfti ég að hafa nánari kynni af Skapta þegar ég var að vinna bókina Eru ekki allir í stuði 2001 (http://this.is/drgunni/studi.html). Heimsótti hann og nýju konuna, sem ég hafði unnið með í Landsbankanum, í stóra blokk í nýja “Kópavogi”. Hann var auðvitað öðlingur heim að sækja. Ég setti á rec og fyllti eina c90 kassettu, sem ég er með hérna einhvers staðar og mun hljóðjafna og fullvinna á stafrænt form við allra fyrsta tækifæri. Útkomuna – viðtalið við Skapta – má lesa í bókinni. Gott stöff!

Líða enn 11 ár og út kemur Stuð vors lands, stuðhlunkur mikill og miklu betur útlítandi en orginallinn, sem hafði hvort sem er verið sold out síðan 2002. Mér fannst ekki ástæða til að heimsækja Skapta aftur vegna nýju bókarinnar.

Enn líða nokkur ár og Skarphéðinn Guðmundsson, hinn frábæri dagskrárstjóri Rúv, flettir Stuð vors lands í bókabúð. Hann fær hugmynd að gera þætti upp úr bókinni og kallar á mig. Ég kalla á Markel bræður, sem bregðast strax við, enda höfðum við lengi velt álíka verkefnum fyrir okkar. Útkoman er Popp- og rokksaga Íslands, sem nú má fá á DVD setti. Við náðum flestum legends poppsögunnar á “filmu” og ég vildi auðvitað fá Skapta on camera. Talaði við Stein, sem bar þetta undir aðstandendur. Svar kom um hæl: Skapti er of langt genginn í sinni elligöngu til að við fáum go á spjall. Full mikil viðkvæmni fyrir minn smekk, ef Skapti mundi eitthvað þá voru það the good old days. En jæja – hæstráðandi réði þessu. Í staðinn fyrir sjónvarpsupptöku af rokklegend og jazzgeggjara er til kassetta og haugur af ljósmyndum, sem ég lagði mig í líma við að grafa upp. Sjáum nokkrar myndir að lokum, Skapti Ólafsson in ðe 40s/50s, stuðið uppmálað, góðmennskan og sósíalíski baráttuandinn alltaf á bakvið eyrað, öðlingsskapurinn og lífsgleðin í fyrirrúmi.

Þú sérð þetta aldrei Skapti minn góður, en samt: Takk fyrir sögurnar og fyrir að hafa verið til. Takk fyrir Skapti Ólafsson og bless á meðan.

0212-Með hljómsveit Jónatans Ólafssona í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó.Með hljómsveit Jónatans Ólafssonar í gamla Þórskaffi. Skapti, Róbert Þórðarson á Harmóníku og Jónatan á Píanó. Á þessum árum voru liðtækir menn út um víðan völl.

0212-Skapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirumSkapti í djammsessjón með Jóni Sig á bassa, Gunnari Ormslev, Magnúsi Randrup og fleirum frumkvöðlum jazzz á Íslandi.

0212-Skapti auglýstur í maí 1959
Skapti auglýstur í maí 1959. Auðvelt er að fullyrða að Fjórir jafn fljótir hafi verið “fyrsta rokkhljómsveit Íslands”. Gárungarnir kölluðu bandið auðvitað “Fjórir jafn ljótir”.

0212-Skapti plötumiðiSkapti söng 6 lög inn á þrjár 78sn plötur fyrir Íslenzka Tóna Tages Ammendrups 1957. Hér er umslag “erfiðustu” plötunnar og þeirrar einu sem Steinn á ekki. Ég á bara „Syngjum dátt og dönsum“. Fimm lög af þessum plötum, hafa gengið í endurnýjun lífdaga á ýmsum safnplötum í gegnum árin, en “Geimferðin” ekki og því er bara sjálfssagt að bæta úr því hér: SKAPTI ÓLAFSSON – GEIMFERÐIN.

0212-Við upptökur á Allt á floti
Við upptökur á „Allt á floti“. Fyrir plötuna/lagið gat Skapti keypt sér nýjan ísskáp.

0212-Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af Revíum Íslenskra tóna
Skapti, Soffía Karls og Jan Morávek grínast í einni af revíum Íslenzkra Tóna. Soffía er enn á meðal vor, en vill því miður ekki tala um the good old days.

0212-Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008Skapti kom loks með sína fyrstu sólóplötu í fullri lengd árið 2008. Hún er enn fáanleg.

 

Ævintýri í bílaporti

2 Ágú

Ég held áfram að vísa hér á bloggi yfir í athyglisvert efni sem er að gerast á Facebook. Ég á víst að heita verslunartstjóri í Fjallakofanum, Laugavegi 11 (#humblebrag) og skrifa annað slagið (eftir stuði) á Fjallakofa síðuna. Hér er það sem ég skrifaði í morgun, einhverjum ykkar vonandi til yndislesturs.

20170801_101354

Hæ frá Fjallakofanum, Laugavegi 11. Hér er háannatími en samt er búðin bókstaflega að springa af því eðalstöffi sem þið ættuð að þekkja. Allir sem nenna oní miðbæ (og eru t.d. ekki utan þjónustusvæðis) ættu því að renna til okkar og fylla í eyður útivistagræjanna, eða beinlínis að kaupa sér glæný föt eða græjur, frá t.d. Scarpa, Marmot, Sea to Summit eða Arc’teryx. Við sjáum alltaf slatta af Íslendingum sem eru í „útlandaleik“ reka inn nefið, því vitanlega er Laugavegurinn iðandi af erlendum áhrifum nú um stundir (og vonandi sem lengst).

Jæja. Við leggjum okkur fram við að aðstoða hina villuráfandi túristahjörð sem hingað rekst í Fjallakofarétt. Við fáum „alla flóruna“ inn, frá bláfátækustu unglingum, sem eru kannski í sinni fyrstu utanlandsferð, og spá í hverju grammi af gasi – til vellauðugra skemmtiferðaskipa-gesta eða lorda frá Bretlandi, sem horfa ekki einu sinni á verðin heldur kaupa allt sem þeim langar í. Báða hópa og alla þar á milli elskum við að fá hingað inn.

Oft, þegar tími vinnst til, gerast ævintýrin. Í gærmorgun kom þessi fyrir miðju myndar, inn í búðina að kaupa gas. Verslunarstjórinn (ég) var í stuði og enginn annar í búðinni, svo við hófum spjall. Stráksi er franskur, frá Strasbourg, en talar fína ensku. Sagðist vera einn á ferð og ætlaði að fara á puttanum til Húsavíkur að hitta franskan vin, sem þar vinnur við Hvalaferðir. Fransmaður var mjög spenntur, til í allt, með tjald og alles og ég sýndi honum á korti hvar skemmtilegast væri að tjalda á leiðinni.

Mitt í þessum bollaleggingum kemur brosmilt par inn og blandar sér í umræðuna. Sá gaur (frá Salt Lake City, Utah, ekki mormóni samt!), talar frönsku og þetta varð til þess að franski puttalangurinn og hann fóru að bera saman bækur sínar. Ekki mormónarnir eru á litlum bílaleigubíl og svona að spá í hvert þau ættu að fara á þessum 2 vikum sem þau hafa til að njóta landsins okkar æðislega. Eitt leiddi að öðru og verslunarstjórinn (ég) tók af skarið og stakk upp á því hvort ekki væri bara sniðugt að sameina þessi tvö Íslands-ævintýri í eitt. Einhverjar perur fóru þá að loga í frönskum og ekki-mormónískum hausum og þau fóru öll út með sitt hafurtask, auk gass og sporks og sundfata, nýkeyptu í Fjallakofanum.

Þegar (ég) átti leið á vörulager Kofans blasti þessi fallega sjón við mér í bílaportinu. Þau þrjú að reyna að troða öllu dótinu sínu í litla bílaleigubílinn, brosandi og peppuð fyrir ævintýrunum sem bíða þeirra! Ég veit engin deili á þessu fólki, nema ekki-mormónarnir eru með FB-síðuna non stop adventures.

Vona að öllum heilsist vel, hvar sem þau eru, og að veðrið hangi sæmilegt fyrir þau – og okkur hín auðvitað. 😀

„Minni spámenn“ (Pönkminningar)

1 Ágú

Fyrir áhugasama, sem kannski eru að missa af stuðinu, vil ég benda á að ég sé um þessa „viku“ pönks og minninga á hinu frábæra framtaki Sveinn Markússon (fokk þgf) / FB síðu, Pönkarar Íslands…Ræflarokk.. Fyrsta innlegg mitt (af 7) er nú brakandi ferskt hér.