Sarpur | janúar, 2016

Ísland gaut talent í kvöld

31 Jan

glh365
Fyrsti þáttur Ísland got talent hefst í kvöld kl. 19.10 á Stöð 2, í þetta skiptið í opinni dagskrá. Ég er búinn að sjá þáttinn og gerði mig ekkert að svo miklu fífli. Þetta er raunar alveg príma fjölskylduefni þótt ég segi sjálfur frá.

Þetta er auðvitað aðkeypt hugmynd. Skúnkurinn Simon Cowell fann upp á þessu 2007 og vildi búa til svokallað „end of pier“ sjó, þar sem þorpsbúar troða upp á bryggjuendanum, sbr. fyrri tíma skemmtiefni. Sjóið er nú sýnt í um 60 löndum og er langvinsælasta sjóið í dag. Ísland er vitaskuld langminnsta landið sem er með sína eigin útgáfu.

Ýmsar hugmynd hafa komið upp hjá dómurunum varðandi þann möguleika að spara 365 þann pening sem fer í að nota fransæsið. Auðvitað má blása til hæfileikakeppni og kalla hana bara eitthvað annað og breyta lúkkinu. Ísland gaut talent, er ein hugmynd (Emmsjé Gauti yrði áfram kynnir) og Hæfileikarnir. Þar yrðu dómarar í Rómverjafötum og myndu gefa þumal upp eða niður standandi á gylltum hestakerrum. Pönkbandið hans Dr. Gunna er enn fjarlægur draumur, en þar myndu keppendur ekki geta neitt en samt vera ólmir í að vera í pönkbandi. Upptökur færu fram í skítugum bílskúr.

Hádegisbarinn gerði mig að rithöfundi

26 Jan

ikasti-olafurgunnarsson
Var að klára Syndarann eftir Ólaf Gunnarsson. Fín bók. Ólafur hefur lengi verið einn af uppáhalds svo ég hittann og tók viðtal, poddkast á Alvarpinu, sem er öllu frjálslegra form en útvarpsviðtal.
http://nutiminn.is/midaldra-karlar-a-hadegisbarnum-gerdu-mig-ad-rithofundi/
Við ræddum allskonar skemmtilegt. Bækurnar og rithöfundaferilinn, samtímamenn eins og Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka, Odd Nerdrum; drykkju, popp, læknabílinn og störf við sjónvarpsþættina The Vikings, en Ólafur starfar að handritaskrifum við þessa heimsfrægu þætti.
Gjörðu svo vel að heyra.
http://nutiminn.is/midaldra-karlar-a-hadegisbarnum-gerdu-mig-ad-rithofundi/

Spilaðu P&RSÍ hjá Quizup

23 Jan

pogrsi
Að hanga í Quizup er ágætis stuð þear maður er þannig stemmdur. Til að minna á að sjónvarpsþættirnir Popp og rokksaga Íslands hefjast aftur á Rúv í mars hef ég hent í einn risastóran spurningapakka á íslensku sem heitir það sama og þættirnir

Popp og rokksaga Íslands – Spurningar um íslenska tónlist.

Það var búið að sýna 5 þætti og það koma 7 í viðbót. Meiningin er að dekka söguna alveg inn í samtímann. Við byrjum þar sem við enduðum, um miðjan 8. áratuginn, sem má eiginlega segja að hafi verið einskonar gullöld íslenska poppsins. Stuðmenn, Spilverkið, Hljóðriti opnar og veldur byltingu, Gunnar Þórðarson framleiðir hverja metsöluplötuna af annarri, allir í stuði og brennsa. Verst að það þarf að bíða til 13. mars. En á meðan er sem sagt hægt að kanna poppvisku sína í þessum leik:

Popp og rokksaga Íslands – Spurningar um íslenska tónlist.

 

 

 

Gott holl í ABC

16 Jan

Komst í gott holl í Nytjamarkaði ABC barnahjálp í Víkurhvarfi (samtals: 1150 kr). Þar er þessi fíni nytjamarkaður með hagstæð verð. Nú, ég krafsaði til mín safnplötuna Hrif, plötuna Þuríður og Pálmi syngja lög Gunnars Þórðarsonar og síðast en ekki síst samnefnda 12″ plötu með DADA. Bjarni Sveinbjörnsson, Ívar Sigurbergsson og Jón Þór Gíslason voru DADA og þessi 4 lög á plötunni frá 1987 er eini vitnisburður um tilvist DADA. Ágætis eitíshárpopp á ensku. 

Fann 4 diska. Forgotten Lores, Frá heimsenda. Safnplötuna Kynjaveröld OZ sem kom út í kringum árshátíð MR 1994. Þarna eru menn eins og Barði Jóhannsson og Sölvi Blöndal að slíta barnsskónum, m.a. saman í laginu Teitistryllir. Þá var það diskurinn Dark Woo Man með gruggrokkbandinu Hippar í handbremsu, heimabruggun.

Síðasti diskarinn er algjört spurningamerki, sjö laga rafnaivismi með Globus. Ég hef ekkert í höndunum nema handskrifað umslag og sjö lög: Bruxelles Midi / Popcorn / Nunnurnar / Forsvundet Melodi / Nunnurnar 2 / Thor And The Sticks / Ísland úr NATO. Veit einhver hver þetta er?

 

Björgólfur minnist Lemmys

11 Jan

Það er skammt stórra högga á milli í rokkinu. Bowie dó í dag, Lemmy fyrir rúmri viku. Í gær var haldin minningarathöfn fyrir Lemmy á uppáhaldsstaðnum hans í Los Angeles, Rainbow Grill & Bar. Eins og von var á hópuðust rokkarar á staðinn eins og sjá má hér. Einn í hópnum sker sig nokkuð úr, enginn annar en stórgrósserinn Björgólfur Thor Björgólfsson. Ég segi nú bara eins og oft er sagt: WTF!?

motorhead, motörhead, lemmy kilmister, lemmy, ian lemmy kilmister, lemmy funeral, funeral, rainbow room, rainbow bar, the rainbow, sunset strip, sunset, vice, noisey, kim kelly, andrea domanick, melissa castro, m-castro photography, m-castro, rock n roll, lengend, jack and coke, jack daniels, lemmy is god, lemmy rules, ace of spades, motorizer, lemmy lives
Tja, nema þetta sé bara einhver sem er svona ótrúlega líkur honum?

David Bowie er dáinn

11 Jan

Það er aldeilis að maður er sleginn með blautri tusku lífsins í morgunsárið á mánudegi. David Bowie, af öllum mönnum, er dáinn.
davidbowie
Hann, sem nýbúinn var að senda frá sér nýja plötu sem allir voru að eipa yfir, hann sem var að halda upp á 69 ára afmælið sitt. Hann Bowie?!? Maður er orðlaus.

Hann Bowie?!? Best að hlusta á besta lagið hans og svo allt hitt. Það er Bowie dagur í dag.

Einangraðasta fólk í heimi

10 Jan

1373228422-0
Á North Sentinel eyju er „ósnert fólk“ – ættbálkur sem enginn hefur heimsótt. Þau brjálst ef einhver ætlar í land og vilja ekkert af umheiminum vita. Fólk sem reynir að nálgast þau er rekið burt með örvum og spjótum. Þau hafa aldrei farið á Twitter eða hætt á Facebook.

Það er eitthvað spennandi við svona lið. En samt ekki. Er þetta ekki allt orðið úrkynjað og búið að eiga börn með frænku sinni langt aftur í aldir? Myndi maður nenna að stara á tré allan daginn, ef maður getur farið á Facebook og lesið um annað fólk að stara á tré? Hvað er um að vera þarna? Hvernig eyða þau tímanum? Nennir þetta fólk ekki að vinna eins og venjulegt fólk? Ég myndi allavega ekki – vitandi af nútímaþægindum – nenna að safna kókoshnetum allt mitt líf, stara á tré og búa til nærbuxur (úr hverju eru þessar nærbuxur?) og aldrei fá að hlusta á pönk, láta mér hlakka til að fara til útlanda, drekka kaffi og fara í bíó, án þess að ég sé að fullyrða um að mitt líf sé eitthvað „betra“ en þeirra. Líf eins og það var fyrir 10.000 árum er bara ekkert sérlega spennandi. 

Samkvæmt Wikipedia er þetta einangraðasta fólk í heimi því það hefur beinlínis aldrei neinn annar komið þarna og kynnst lífsháttum eyjaskeggja. Wikipedia listar upp nokkra „ósnerta ættbálka“ en þessir eru taldir „the most isolated people in the world, and they are likely to remain so“ – Indlandsstjórn hefur allavega engin plön um að fikta við þeim. Viljum við að rík gamalmenni á lúxusskipum geti komið í land og keypt úrskornar tréstyttur af fólkinu? Þau eru líka svo næm fyrir sjúkdómum og myndu deyja ef þau fengju kvef.

Ég hef líkað Facebook-síðu eyjarinnar. Sjáum til hvað gerist næst. Líklega ekki neitt.

 

Halli og Laddi: Frumkvöðlar í pönki

9 Jan

hotice
Enska pönksveitin The Stranglers (eða Kyrjararnir eins og íslenskir fjölmiðlar kynntu sveitina til leiks) spilaði í Laugardalshöll 3. maí 1978. Steinar Berg og félagar stóðu að innflutningi bandsins í samráði við útgáfuna UA, en þar fannst mönnum gott flipp að halda útgáfutónleika fyrir þriðju plötu sveitarinnar, Black & White, á Íslandi og smala erlendum blaðamönnum á þetta flippaða sker. Giggið var rækilega kynnt og meðal annars var nýjasta smáskífulag Stranglers, Five Minutes, spilað í sjónvarpinu. Ég og fleiri sáum þetta og fengum pönk í æð í fyrsta skipti.

Ég var bara tólf ára og fór ekki á tónleikana. Man ekki eftir að hafa saknað þess sérstaklega. Engin pönkhljómsveit var á Íslandi á þessum tíma (fyrsta gigg Fræbbblanna var ekki fyrr en í nóvember sama ár) svo Þursarnir, Póker og Halli og Laddi voru fengnir til að hita upp. Þursarnir fengu ekki sándtékk og komu því brúnaþungir á svið og afboðuðu sig. Póker með Pétur Kristjánsson í brúnni tók sitt rokk og Halli og Laddi göntuðust. Svo komu Stranglers, hækkuðu allt í botn og pönkvæddu fulla Laugardalshöll. Tveimur árum síðar sprakk svo loksins „pönk“ rokk út á Íslandi þegar Bubbi kom, sá og sigraði og allir hinir fylgdu í kjölfarið. 

Ef við undanskiljum Paradísarfugl Megasar og Spilverksins, sem vissulega er einhverskonar pönk með sýru feidádi, gáfu Halli og Laddi út fyrsta pönklag á Íslandi. Freistandi er að álykta að Stranglers hafi kveikt pönklosta í bræðrunum sem skilaði sér í hinu frábæra lagi Ladda, „Ég vil fá meira pönk“, sem kom út á þriðju plötu þeirra, Hlunkur er þetta, í júlí 1978. 

Framkölluð gæsahúð

6 Jan

Íslenskar útvarpsstöðvar eru allar fínar á sinn hátt. Þrír bestu útvarpsþættir landsins eru Langspil með Heiðu Eiríks, þar sem hún spilar bókstaflega alla „dægur“-tónlist, eins lengi og hún er íslensk; Harmageddon á X-inu og Víðsjá á Gufunni. Í Víðsjá í gær fjallaði Guðni Tómasson um fyrirbæri sem ég vissi ekki að gert væri út á: ASMR (Autonomous sensory meridian response), eða Ósjálfráð skyn viðbrögð (eða eitthvað svoleiðis). Þetta er tilfinningin að verða fyrir huglægu kítli, að renna kalt vatn milli skins og hörunds, að fá gæsahúð. Það er t.d. hægt að kalla þetta fram með því að einhver kítlar á þér eyrað með fjöður og jafnvel bara með því að einhver er að greiða á sér hárið við hliðina á þér. 

Þetta er svo sem fyrirbæri sem ég hef oft upplifað, en ég vissi ekki nafnið á því og ég vissi ekki heldur að það væri fólk á Youtube sem reynir að gangsetja þessa tilfinningu hjá áhorfendum sínum. Sé slegið upp ASMR á Youtube fyllist allt af (oftast) ungum konum að hvísla í míkrafóna, láta skrjáfa í hinu og þessu og kyssa út í loftið. Nokkrar „stjörnur“ eru í ASMR bransanum, t.d. Jellybean sem hér andar og smjattar í míkrafón í hálftíma. 

Ein íslensk kona er á meðal ASMR-ista og hefur hún fengið hrós fyrir hreiminn sinn. Hún heitir Elísabet og hefur birt mörg ASMR myndbönd. Hér er hún t.d. að hvísla með svamp.

ASMR er að sjálfssögðu ekki kynferðislegt fyrirbæri og ef þér finnst eitthvað sexí við að það að sjá ungar konur smjatta, hvísla og kyssa í míkrafón ertu bara sjúkur viðbjóður sem ætti að gelda.

Ínældur Geirmundur

2 Jan

T_123_Geirmundur_A
Árið byrjar vel. Ólafur Ragnar ætlar loksins að hætta og hefst þá æsispennandi keppni um hver ætlar að hreppa þetta þrælþægilega innidjobb með fríðindum á heimsmælikvarða. Forsetinn ínældi nokkra í gær og þar á meðal Geirmund Valtýsson, þann mikla h0fðingja frá Skagafirði. Fylgir hann þar með fast á hæla annarra ínældra poppara, sem eru:

Egill Ólafsson (2015), Magnús Eiríksson (2014), Tómas R. Einarsson (2014), Þórir Baldursson (2013), Ragnhildur Gísladóttir (2012), Björgvin Halldórsson (2011), Helena Eyjólfsdóttir (2010), Ingibjörg Þorbergs (2008), Ólafur Gaukur Þórhallsson (2008), Björn R. Einarsson (2007), Ragnar Bjarnason (2005), Bubbi Morthens (2003), Gunnar Þórðarson (2002), Björk Guðmundsdóttir (1997) og Haukur Morthens (1992).

Eftir að hafa verið starfandi Geirmundur í ýmsum ballsveitum gaf Tónútgáfan á Akureyri loksins út 4 lög á tveimur litlum plötu árið 1972. Gunnar Þórðarson sá um hljómsveitarstjórn, sem þýddi í raun að hljómsveitin Trúbrot spilaði undir. Byrjaði þá útgáfuferill Geirmundar með trukki og hefur staðið óslitið síðan.

Til hamingju með næluna, Geirmundur!