Sarpur | ágúst, 2014

Píkur og typpi og rassgöt

31 Ágú

Allir eru með rassgat og píku eða typpi. Þú átt tilveru þína því að þakka að typpi rann inn í píku endur fyrir löngu. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Svæðið í kringum miðju mannsins er þó í flestum samfélögunum mikið tabú sem má helst ekki tala um og hvað þá sýna á almannafæri. Og náttúrlega ekki fermingabörnum á Selfossi því þau gætu sturlast og orðið glæpamenn og aumingjar við að sjá svona eðlilegan hlut. Þetta hefur aumingja Ninna Sif prestur á Selfossi komist að því sóknarbörnin hafa kært hana fyrir það sem þau segja sambærilegt við það að bera sig á almannafæri. Vesalings forpokaða fólkið á Selfossi.

Nei, Ninna var ekki með allt úti fyrir Jesúm, heldur bauð hún Siggu Dögg kynfræðingi að mæta til að fræða börnin um kynlíf og nánd. Sigga mætti auðvitað með ljósmyndir sem hún hefur verið að taka af íslenskum píkum og typpum. Sigga ætlar að gefa út bókina Kynfæri Íslendinga í september en hefur birt sýnishorn á heimasíðu sinni. Þetta eru kynfæri af bókstaflega öllum stærðum og gerðum. Gott mál.

Nú vaða uppi hreinræktaðir fávitar í öfgaviðurstyggðarhópnum ISIS. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í þessu annað en vestræna fjölmiðla og kannski er þetta allt saman einhver áróður frá Pentagon til að magna upp ástæðu fyrir næsta stríði. Ég segi nú engan veginn að ISIS sé „næsti bær við forpokaða fólkið á Selfossi“ en þeir eru a.m.k. pikkfastir í viðbjóðslegri kreddu sem þeir réttlæta með eigin túlkun á eldgamalli bók. Ég veit ekkert um þennan Múhammed sem ISIS eru svona hrifnir af eða hvort Jesús hafi verið til. Hann var örugglega ekki „sonur Guðs“ enda enginn Guð til (svo ég viti). Hippaspekin í Jesús var fín, en hvergi hefur maður rekist á trúarsöfnuð sem tekur hans speki til sín þótt allir noti hann sem afsökun fyrir forpokun, fésöfnun og eitthvað þaðan af verra. 

Sumir kvarta yfir því að ISIS sé ekki mótmælt nógu mikið af góðum múslimum. Nú hefur Aliaa Magda Elmahdy, femínisti frá Egyptalandi, tekið af skarið og gefið (bókstaflega) skít í viðbjóðsöfgana í ISIS í afar sterkum gjörningi. Ætli konugreyið þurfi ekki að fara huldu höfði það sem eftir er. Aliaa hefur áður verið með sterk verk eins og lesa má um á wikipedia og á heimasíðu hennar. 

 

Auglýsingar

Hvers vegna þessi heift?

29 Ágú

Nú þekki ég Reyni Traustason sem fínan náunga, fagmann, gönguhrólf og hattareiganda. Og kannast við Bjössa í World Class sem ásamt konu sinni rekur geðveikt næs dæmi út um allan bæ sem ég hef verið í áskrift hjá árum saman (eins og sést, ho ho). Veit ekkert um hann annað en að verkin tala og að hann fór geist í góðærinu og eitthvað þannig. Ég skil ekki afhverju þessi gríðarlega heift er á milli þeirra.

Reynir er sex árum eldri en Björn en þeir bjuggu skáhallt á móti hvorum öðrum á Flateyri af öllum stöðum. Einhverja skýringu hlýtur þetta opinbera hatur mannanna á hvor öðrum að eiga sér í fortíðinni. Slagsmál á böllum? Einelti? Hvað? Það er náttúrlega dæmi um algjöran ræfildóm íslenskra fjölmiðla að enginn hafi skýrt þetta út yrir manni. 

Annars skil ég ekki hvaða dauðahaldi menn halda í einhver pappírsblöð út um allan bæ. Þetta er fortíðin. Það er eins og menn séu að grenja út af einhverjum ritvélaborðafyrirtækjum. Svo er lítið mál að stofna nýjan fjölmiðil.

Ég fíla þara

26 Ágú

2014-08-19 17.29.36
Nú er svo komið að ég á þrjár tegundir af þara í skápunum, enda er fíla ég þara í botn. Þari er ekki bara góður heldur er hann hollur líka og frekar kaloríusnauður. Kirkland roasted seaweed kostar 199 kr í Kosti og er fínn, fremur hlutlaus á bragðið en þó með fínu fjörubragði. Asian Megamarket í Faxafeni er orðin helvíti fín búð, full af stöffi. Þar fann ég tvær tegundir af þara, eina með chili (ekki alveg að gera sig) og svo „Extra sheet“ sem er stærsta þynnan, og svaka fín á bragðið. Þessu til viðbótar á ég íslensk söl í poka. Alveg frábærar hægðir sem maður fær af því, en lyktin er frekar, ö, sérstök.

Mér lýst ágætlega á Nútímann, nýjan vefmiðil sem söngvari Haltrar hóru hefur sett í loftið. Það vantar alveg einhvern afgerandi stað á internetið þar sem maður fær það ferskasta og hressasta á einum stað. Þetta gæti orðið það.

Synthadelia netútgáfa

24 Ágú

167858_174509229256963_4249451_n
Synthadelia netútgáfa pumpar út stöffinu. Meðal nýjustu útgáfnanna er endurútgáfa af Inferno 5 plötunni Angeli Daemoniaque Omnigena Imbecilli Sunt, sem Skífan gaf upphaflega út 1996 og 30-laga Sjálfsfróunar platan Rise 2B Free + Extra, sem er hrátt pönkefni frá 1990. 

„VIð vorum tveir sem stofnuðum útgáfuna í byrjun árs 2011 með að gefa út okkar eigið stöff rafrænt – VIlmar Pedersen og Jón Schow og svo hefur kærastan mín hún Olga Jenný Gunnarsdóttir bæst við,“ segir Vilmar. „Við höfum sérhæft okkur í rafrænni útgáfu en útilokum ekki önnur form eins og vinyl en það er þá við sérstök tilefni. Við byrjuðum á að gefa eingöngu út raftónlist en í dag gefum við flestar tegundir en lítið pop. Við erum óháð og sjálfstæð og við reynum að gera allt sjálf (DIY) og viðhalda grænum viðhorfum í útgáfu.“

Þarna má líka finna efni með Bodies, Lokbrá, Rúnari Þórssyni (Grafík), Indigó og mörgum öðrum. Tékkaðu endilega á Synthadelia á http://synthadeliarecords.bandcamp.com/ Þar má hlusta á allar plöturnar og borga eitthvað smotterí viljirðu eiga efnið á mp3.

Snarl 3

23 Ágú

snarl3
Í „tilefni“ af Menningarnótt kemur hér stafræn útgáfa af safnkassetunni Snarl 3 sem Erðanúmúsík gaf út árið 1991. Þetta var lengsta og viðamesta Snarl spólan, 26 hljómsveitir með 26 lög. Allskonar stöff af því sem hæst bar 1991, eða:

01 Jonee Jonee – Eilíf eintala (ég spila á gítar)
02 Leiksvið Fáránleikans – Hanaat (Jói í Vonbrigðum syngur)
03 Sororicide – Unescapable past (Nýbúnir að vinna MT)
04 Ræsið – Veist þú hvað ljóminn (Frá Húsavík)
05 Drulla – Hass í rass (Óttarr Proppé sér um söng)
06 Exit – Spilafíkn (Frá Akureyri)
07 Daisy Hill – Demigod
08 Risaeðlan – Scandinavia Today
09 Paul & Laura – Heilagur maður
10 Reptilicus – Ónefnt (stytt)
11 Rotþróin – Ennið á Línu sprakk
12 Bless – Sunnudagamánuður (Lag eftir MOTO)
13 Dritvík – Comfortable
14 Rut+ – Dæmdur til að dreyma
15 The Human Seeds – Valhalla (Grínband með Braga, Þór og Sigtryggi úr Sykurmolunum og Sjón. Þeir voru að leika sér með þetta þegar Sykurmolarnir tóku upp Stick Around for Joy).
16 Dr. Gunni – Jóhann risi
17 B.R.A. – Adda (Frá Húsavík)
18 No Comment – Eymd (Hlynur úr Strigaskóm plús eitthvað lið)
19 Strangelove – Suicide Tunes (áður kölluðu þeir sig Rosebud og enn síðar Slowblow)
20 Saktmóðígur – Pervertinn
21 Majdanek – Black Snow
22 Graupan – Nei
23 Opp Jors – Farðu í hús (Barði í Bang Gang í unglingaflippi)
24 Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur – Apahöfuð (Frá Selfossi)
25 Lághjú – Vinur (hluti)
26 Down & Out – Garnabæla (Frá Húsavík)

SNARL 3 færðu rafrænt á ZIP-FÆL með því að ÝTA HÉR.

Aðrar safnkassettur frá Erðanúmúsík hafa þegar verið settar hér á ZIP:

Rúllustiginn (1984)
Snarl (1987)
Snarl 2 (1987)

Timberlake í Hamraborg!

22 Ágú

justinhamrab
Stórstjarnan heimsfræga Justin Timberlake heldur sem kunnugt er stórtónleika í Kórnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Hann lenti á einkaþotu sinni í gær, en alls eru um 100 manns í hópnum með honum. Eftir vegabréfs- og líkamsskoðun var Justinni ekið í Kópavoginn til að athuga með Kórinn. Því íþróttahúsi hefur nú verið breytt í tónleikastað á heimsklassa og er mikið lagt upp úr bakherbergjunum. Justin verður í kvennaklefanum á meðan hann bíður eftir að stíga á svið, en upp á klefann hefur verið flíkkað með músastigum, stórri mynd af Obama og allskonar fíniríi. Kappinn er hógvær í kröfum sínum um mat og drykk og virkar mjög alþýðlegur á alla sem hafa umgengist hann til þessa. 

Eftir Kórinn spurði Justin hvort ekki væri hægt að fá bjór og jafnvel að komast í spilakassa í þessum frámunalega æðislega bæ, Kópavogi. Var því brugðið á það ráð að skreppa í Hamraborgina og beint á Café Catalínu. Þar undi Justin hag sínum vel við drykkju og spilakassa. Í dag er svo ætlunin að Justin skreppi í Bláa lónið (hann ætti að hafa efni á því!) og má búast við að rekast á hann í sturtunni um kl. 13 – 13:30.

Svipmyndir frá Kópavogi

21 Ágú

Kópavogur í gær. Nokkrar svipmyndir:
2014-08-20 13.18.04
Vítamín-húsið.

2014-08-20 13.19.59
Taktu bensín elskan.

2014-08-20 13.25.55
Hjá Steina Cruiser.

2014-08-20 13.33.46
Óvanalegt sjónarhorn á flugvöllinn. 

2014-08-20 13.39.16
Vettvangur fyrstu Stefánsveislunnar.

2014-08-20 13.39.28
KJG.

2014-08-20 13.39.44
14:40.