Sarpur | ágúst, 2014

Píkur og typpi og rassgöt

31 Ágú

Allir eru með rassgat og píku eða typpi. Þú átt tilveru þína því að þakka að typpi rann inn í píku endur fyrir löngu. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Svæðið í kringum miðju mannsins er þó í flestum samfélögunum mikið tabú sem má helst ekki tala um og hvað þá sýna á almannafæri. Og náttúrlega ekki fermingabörnum á Selfossi því þau gætu sturlast og orðið glæpamenn og aumingjar við að sjá svona eðlilegan hlut. Þetta hefur aumingja Ninna Sif prestur á Selfossi komist að því sóknarbörnin hafa kært hana fyrir það sem þau segja sambærilegt við það að bera sig á almannafæri. Vesalings forpokaða fólkið á Selfossi.

Nei, Ninna var ekki með allt úti fyrir Jesúm, heldur bauð hún Siggu Dögg kynfræðingi að mæta til að fræða börnin um kynlíf og nánd. Sigga mætti auðvitað með ljósmyndir sem hún hefur verið að taka af íslenskum píkum og typpum. Sigga ætlar að gefa út bókina Kynfæri Íslendinga í september en hefur birt sýnishorn á heimasíðu sinni. Þetta eru kynfæri af bókstaflega öllum stærðum og gerðum. Gott mál.

Nú vaða uppi hreinræktaðir fávitar í öfgaviðurstyggðarhópnum ISIS. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í þessu annað en vestræna fjölmiðla og kannski er þetta allt saman einhver áróður frá Pentagon til að magna upp ástæðu fyrir næsta stríði. Ég segi nú engan veginn að ISIS sé „næsti bær við forpokaða fólkið á Selfossi“ en þeir eru a.m.k. pikkfastir í viðbjóðslegri kreddu sem þeir réttlæta með eigin túlkun á eldgamalli bók. Ég veit ekkert um þennan Múhammed sem ISIS eru svona hrifnir af eða hvort Jesús hafi verið til. Hann var örugglega ekki „sonur Guðs“ enda enginn Guð til (svo ég viti). Hippaspekin í Jesús var fín, en hvergi hefur maður rekist á trúarsöfnuð sem tekur hans speki til sín þótt allir noti hann sem afsökun fyrir forpokun, fésöfnun og eitthvað þaðan af verra. 

Sumir kvarta yfir því að ISIS sé ekki mótmælt nógu mikið af góðum múslimum. Nú hefur Aliaa Magda Elmahdy, femínisti frá Egyptalandi, tekið af skarið og gefið (bókstaflega) skít í viðbjóðsöfgana í ISIS í afar sterkum gjörningi. Ætli konugreyið þurfi ekki að fara huldu höfði það sem eftir er. Aliaa hefur áður verið með sterk verk eins og lesa má um á wikipedia og á heimasíðu hennar. 

 

Hvers vegna þessi heift?

29 Ágú

Nú þekki ég Reyni Traustason sem fínan náunga, fagmann, gönguhrólf og hattareiganda. Og kannast við Bjössa í World Class sem ásamt konu sinni rekur geðveikt næs dæmi út um allan bæ sem ég hef verið í áskrift hjá árum saman (eins og sést, ho ho). Veit ekkert um hann annað en að verkin tala og að hann fór geist í góðærinu og eitthvað þannig. Ég skil ekki afhverju þessi gríðarlega heift er á milli þeirra.

Reynir er sex árum eldri en Björn en þeir bjuggu skáhallt á móti hvorum öðrum á Flateyri af öllum stöðum. Einhverja skýringu hlýtur þetta opinbera hatur mannanna á hvor öðrum að eiga sér í fortíðinni. Slagsmál á böllum? Einelti? Hvað? Það er náttúrlega dæmi um algjöran ræfildóm íslenskra fjölmiðla að enginn hafi skýrt þetta út yrir manni. 

Annars skil ég ekki hvaða dauðahaldi menn halda í einhver pappírsblöð út um allan bæ. Þetta er fortíðin. Það er eins og menn séu að grenja út af einhverjum ritvélaborðafyrirtækjum. Svo er lítið mál að stofna nýjan fjölmiðil.

Ég fíla þara

26 Ágú

2014-08-19 17.29.36
Nú er svo komið að ég á þrjár tegundir af þara í skápunum, enda er fíla ég þara í botn. Þari er ekki bara góður heldur er hann hollur líka og frekar kaloríusnauður. Kirkland roasted seaweed kostar 199 kr í Kosti og er fínn, fremur hlutlaus á bragðið en þó með fínu fjörubragði. Asian Megamarket í Faxafeni er orðin helvíti fín búð, full af stöffi. Þar fann ég tvær tegundir af þara, eina með chili (ekki alveg að gera sig) og svo „Extra sheet“ sem er stærsta þynnan, og svaka fín á bragðið. Þessu til viðbótar á ég íslensk söl í poka. Alveg frábærar hægðir sem maður fær af því, en lyktin er frekar, ö, sérstök.

Mér lýst ágætlega á Nútímann, nýjan vefmiðil sem söngvari Haltrar hóru hefur sett í loftið. Það vantar alveg einhvern afgerandi stað á internetið þar sem maður fær það ferskasta og hressasta á einum stað. Þetta gæti orðið það.

Synthadelia netútgáfa

24 Ágú

167858_174509229256963_4249451_n
Synthadelia netútgáfa pumpar út stöffinu. Meðal nýjustu útgáfnanna er endurútgáfa af Inferno 5 plötunni Angeli Daemoniaque Omnigena Imbecilli Sunt, sem Skífan gaf upphaflega út 1996 og 30-laga Sjálfsfróunar platan Rise 2B Free + Extra, sem er hrátt pönkefni frá 1990. 

„VIð vorum tveir sem stofnuðum útgáfuna í byrjun árs 2011 með að gefa út okkar eigið stöff rafrænt – VIlmar Pedersen og Jón Schow og svo hefur kærastan mín hún Olga Jenný Gunnarsdóttir bæst við,“ segir Vilmar. „Við höfum sérhæft okkur í rafrænni útgáfu en útilokum ekki önnur form eins og vinyl en það er þá við sérstök tilefni. Við byrjuðum á að gefa eingöngu út raftónlist en í dag gefum við flestar tegundir en lítið pop. Við erum óháð og sjálfstæð og við reynum að gera allt sjálf (DIY) og viðhalda grænum viðhorfum í útgáfu.“

Þarna má líka finna efni með Bodies, Lokbrá, Rúnari Þórssyni (Grafík), Indigó og mörgum öðrum. Tékkaðu endilega á Synthadelia á http://synthadeliarecords.bandcamp.com/ Þar má hlusta á allar plöturnar og borga eitthvað smotterí viljirðu eiga efnið á mp3.

Snarl 3

23 Ágú

snarl3
Í „tilefni“ af Menningarnótt kemur hér stafræn útgáfa af safnkassetunni Snarl 3 sem Erðanúmúsík gaf út árið 1991. Þetta var lengsta og viðamesta Snarl spólan, 26 hljómsveitir með 26 lög. Allskonar stöff af því sem hæst bar 1991, eða:

01 Jonee Jonee – Eilíf eintala (ég spila á gítar)
02 Leiksvið Fáránleikans – Hanaat (Jói í Vonbrigðum syngur)
03 Sororicide – Unescapable past (Nýbúnir að vinna MT)
04 Ræsið – Veist þú hvað ljóminn (Frá Húsavík)
05 Drulla – Hass í rass (Óttarr Proppé sér um söng)
06 Exit – Spilafíkn (Frá Akureyri)
07 Daisy Hill – Demigod
08 Risaeðlan – Scandinavia Today
09 Paul & Laura – Heilagur maður
10 Reptilicus – Ónefnt (stytt)
11 Rotþróin – Ennið á Línu sprakk
12 Bless – Sunnudagamánuður (Lag eftir MOTO)
13 Dritvík – Comfortable
14 Rut+ – Dæmdur til að dreyma
15 The Human Seeds – Valhalla (Grínband með Braga, Þór og Sigtryggi úr Sykurmolunum og Sjón. Þeir voru að leika sér með þetta þegar Sykurmolarnir tóku upp Stick Around for Joy).
16 Dr. Gunni – Jóhann risi
17 B.R.A. – Adda (Frá Húsavík)
18 No Comment – Eymd (Hlynur úr Strigaskóm plús eitthvað lið)
19 Strangelove – Suicide Tunes (áður kölluðu þeir sig Rosebud og enn síðar Slowblow)
20 Saktmóðígur – Pervertinn
21 Majdanek – Black Snow
22 Graupan – Nei
23 Opp Jors – Farðu í hús (Barði í Bang Gang í unglingaflippi)
24 Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur – Apahöfuð (Frá Selfossi)
25 Lághjú – Vinur (hluti)
26 Down & Out – Garnabæla (Frá Húsavík)

SNARL 3 færðu rafrænt á ZIP-FÆL með því að ÝTA HÉR.

Aðrar safnkassettur frá Erðanúmúsík hafa þegar verið settar hér á ZIP:

Rúllustiginn (1984)
Snarl (1987)
Snarl 2 (1987)

Timberlake í Hamraborg!

22 Ágú

justinhamrab
Stórstjarnan heimsfræga Justin Timberlake heldur sem kunnugt er stórtónleika í Kórnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Hann lenti á einkaþotu sinni í gær, en alls eru um 100 manns í hópnum með honum. Eftir vegabréfs- og líkamsskoðun var Justinni ekið í Kópavoginn til að athuga með Kórinn. Því íþróttahúsi hefur nú verið breytt í tónleikastað á heimsklassa og er mikið lagt upp úr bakherbergjunum. Justin verður í kvennaklefanum á meðan hann bíður eftir að stíga á svið, en upp á klefann hefur verið flíkkað með músastigum, stórri mynd af Obama og allskonar fíniríi. Kappinn er hógvær í kröfum sínum um mat og drykk og virkar mjög alþýðlegur á alla sem hafa umgengist hann til þessa. 

Eftir Kórinn spurði Justin hvort ekki væri hægt að fá bjór og jafnvel að komast í spilakassa í þessum frámunalega æðislega bæ, Kópavogi. Var því brugðið á það ráð að skreppa í Hamraborgina og beint á Café Catalínu. Þar undi Justin hag sínum vel við drykkju og spilakassa. Í dag er svo ætlunin að Justin skreppi í Bláa lónið (hann ætti að hafa efni á því!) og má búast við að rekast á hann í sturtunni um kl. 13 – 13:30.

Svipmyndir frá Kópavogi

21 Ágú

Kópavogur í gær. Nokkrar svipmyndir:
2014-08-20 13.18.04
Vítamín-húsið.

2014-08-20 13.19.59
Taktu bensín elskan.

2014-08-20 13.25.55
Hjá Steina Cruiser.

2014-08-20 13.33.46
Óvanalegt sjónarhorn á flugvöllinn. 

2014-08-20 13.39.16
Vettvangur fyrstu Stefánsveislunnar.

2014-08-20 13.39.28
KJG.

2014-08-20 13.39.44
14:40.

Töff kaggi #12

21 Ágú

Þessi var í Kópavoginum. Cadillac Eldorado af sjöundu kynslóð. Framleiddur í Detroit einhvern tímann á tímabilinu 1967-70, 2245 kíló af haltu kjafti.
2014-08-20 13.28.04 2014-08-20 13.28.36

Uppáhaldslög Elliða Vignissonar

20 Ágú

10264774_10152419211974181_8269204761027709226_n

Eins og alkunna er fékk Elliða Vignisson yfirburðakosningu sem bæjarstjóri Vestmannaeyja, 99.7% atkvæða, nú í vor. Elliði hefur tjáð sig eitthvað um listina og listamenn, t.d. spurt hvernig 320þ manna þjóð geti rekið þjóðleikhús, og með því aflað sér óvinsælda hjá menningarfólki (aka lopalepjandi lattétreflum o.s.frv.) og hálfpartinn gert sig að fánabera „and-menningarsinna af landsbyggðinni sem vilja bara fisk og peninga“.

Mér þótti spennandi að vita hvar Elliði stæði þegar kæmi að drottningu listanna, poppinu, og spurði hann einfaldlega á Facebook hvort hann gæti ekki sent mér topp 10 yfir uppáhaldslögin sín. Bæjarstjórinn brást vel við og sendi mér mikla ritgerð sem hér kemur með youtjúbhlekkjum og alles. Gjöriði svo vel: Uppáhaldslög Elliða Vignissonar.

„Tónlist skiptir mig miklu og ég er nánast öllum stundum með tónlist í kringum mig. Í mínum vinahópi er mikið af tónlistarfólki og tónlistaspekúlöntum. Samneyti og samhlustun með þeim hefur orðið til að dýpka bæði tónlistarsmekk minn og gert mig meðvitaðan um hversu mikill munur getur verið á hlustun milli tveggja aðila. Sérstaklega á milli þeirra sem eru blessaðir með tónlistarhæfileika og okkar hinna. Þannig er mín hlustun mikið „semantískari“ en flestra vina minna sem hafa meiri tónlistagetu en ég sjálfur. Þannig skiptir texti, boðskapur og saga laga svo langtum meira fyrir mig en það skiptir fyrir þá. Til að mér líki lag verður allt að falla saman og textinn skiptir mig alltaf alveg gríðarlega miklu. Ekki svo að skilja að textinn þurfi alltaf að vera djúpur með æðri tilgang (þótt slíkt hjálpi) heldur einnig að orðin falli að hljómfallinu og myndi sína eigin sinfóníu án hljóðfæraleiksins.
Slæmir textar geta gert mig fúlan og sorgmæddan og það getur jafnvel tekið mig langan tíma að fyrirgefa flytjandanum og taka hann aftur í sátt. Ég skil til dæmis ekki af hverju frábærir tónlistamenn eins og Red Hot Chili Peppers leyfa sér að setja hrinu af ning, nang nog rugli og gengisfella annars hið frábæra lag „Around the World“:
„All around the world
We could make time
Rompin’ and a-stompin’
’cause I’m in my prime
I know I know for sure
ning, nang, nong, nong, neng, neng, nong, nong, ning, nang
I know I know it’s you
ning, nang, nong, nong, neng, neng, nong, nong, ning, nang.”

Algerlega furðulegt.

Við Íslendingar eigum svo einnig okkar skerf af furðulegri textagerð. Svo ótrúlegt sem það er þá pirrar það mig þó minna en þegar heimsfrægir tónlistamenn sem geta valið úr textasmiðum falla í þá gryfju að bryðja tannsteina. Íslensku textarnir verða fyrir mér meira krúttlegir en pirrandi þegar ákveðnu frostmarki er náð. Ég get því ekki hætt þessu tuði án þess að nefna tvö Íslensk textabrot til þessa leiks.

Annarsvegar er það „Á móti sól“ og textinn við lagið „Sæt“ sem er einhvernveginn svona:
„Farðu til fjandans og taktu þennan síðhærða djöful með þér
Ég vil aldrei sjá þig aftur
og helst enga sem að líkist þér“

Hitt dæmið er textinn við lagið „Dóninn“ með Greifunum:
„Ó hvernig fer hann með malmikið
Litla sæta malbikið
Hann er tillitslaus dóni“

Mín 10 eftirlætislög eru annars sem hér segir en þó ekki endilega í þessari röð:

10. Bob Dylan – Man gave names to all the animals
Frábært lag með skemmtilegum texta. Einhver reggífílingur sem mér fellur vel í geð. Einfalt og notalegt. Endirinn á laginu og textaleysið þar alveg ferlega flott.

9. Iron Maiden – The Rime of the ancient mariner
Kröftugt og vandað rokk þar sem flottur texti flýtur með skemmtilegu riffi og sólóleik. Þetta lag og textinn eru fyrir mér nánast eins og hljóðmynd. Maður hlustar á það og sagan spilast fyrir augum manns. Einhverntímann var mér sagt að textinn væri að megninu til úr ljóði frá fyrrihluta þar seinustu aldar sem ort var af einhverju rómantísku skáldi sem ég kann ekki að nefna. Hvort sem það er satt eða logið þá gefur slíkt laginu enn meira vægi fyrir mér. Þetta lag er hér nefnt sem fulltrúi stórs mengis sem ég hlusta mikið á. Þar inni rúmast einnig Led Zeppelin, Thin Lizzy, Deep Purple, Metallica, Procol Harum, ACDC og fl.

8. Pink Floyd – Wish you were here
Trúr Fraudismanum í mér hættir mér til að halda að melankólían í þessu lagi gæli við einhverja dauðahvöt í mér. Hið sama á reyndar við um mörg önnur lög Pink Floyd. Eftir að hafa kynnst af eigin raun í gegnum nám og störf á sviði sálfræðinnar hvernig geðsjúkdómar geta leikið fólk þá hef ég heilast sérstaklega af framsetningu á slíkum tilfinningum og mannlegum harmleik í dægurmenningu. Textinn í þessu lagi þykir mér frábær og melódían gerir hann enn betri. Textabrotið „We’re just two lost souls swimming in a fish bowl, year after year“ þykir mér eitt af þeim betri.

7. Supertramp – The logical song
Þetta lag hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ég var unglingur. Auðvitað er tónlistin sem slik frábær eins og Supertramp var von og vísa en eins og svo oft þá var það textinn sem greip mig. Á námsárum mínum bæði í Reykjavík og þegar ég bjó erlendis hlustaði ég mikið á þetta lag. Mér fannst ég svo oft skilja hugsunina á bak við textann. Velti því jafnvel fyrir mér hvort ég væri að ganga götuna til góðs. Hvers miklu það myndi breyta mér til hins betra að velja nám sem leið til þroska þegar svo margar aðrar leiðir virtust algerlega jafn gildar. 

There are times when all the world’s asleep
The questions run too deep
For such a simple man
Won’t you please, please tell me what we’ve learned?
I know it sounds absurd
Please tell me who I am.

6. John Lennon – Imagine
Það er nánast dónaskapur að ætla eitthvað útskýra af hverju þetta lag er í uppáhaldi. Það útskýrir sig sjálft, bæði lagið og textinn. Ég nefni þetta lag hér sem fulltrúa bæði Lennons og Bítlanna. Lög þeirra eru reyndar flest í miklu uppáhaldi hjá mér. Meira að segja einföldu prósaljóðin eins og „A day in the life“ verða prýðileg hjá þeim. Ekki margir sem gætu púllað það.

5. Guess Who – American Women
Kröftugt og hrátt Kandískt rokk með texta sem auðvelt er að túlka á skemmtilegan hátt.  Sjálfur skipti ég ætíð út orðinu „Women“ fyrir „Culture“ þegar ég hlusta á þetta lag.  Þannig fær maður allt aðra og skiljanlegri merkingu í lagið.  Það verður þá ádeila á hvernig Amerísk poppmenning í víðum skilningi þeirra orða verður smitandi sýkill í framandi umhverfi.

4. Ferðalok – Óðinn Valdimarsson
Ég hef mikið dálæti á þessu lagi. Vissulega er það erlent en á sama tíma er einhver svakaleg íslensk sveitarómatík í melódíunni sjálfri. Manni liggur við að kjósa Framsóknarflokinn þegar maður hefur hlutsað á það. Það er nánast eins og maður heyri lóukvak, finni lykt af berjalyngi og langi að reka niður girðingastaur. Textinn eða öllu heldur ljóðið eftir Jón Sigurðsson er svo kremið á þessa tónlistarköku. Við hrokagikkirnir fellum tár yfir þeim kafla þar sem raddbönd eru þanin með orðunum: „Allt er bjart fyrir okkur tveim því ÉG er kominn heim.“ Magnað.

3. Afgan – Bubbi Morthens
Margt af því sem Bubbi hefur gert finnst mér stórkostlegt. Ég er sérstaklega hrifinn af Bubba sem ljóðskáldi. Sem unglingur þóttu mér lögin „Ráð til vinkonu“ og „Blindsker“ algerlega frábær. Í dag hefur lagið „Afgan“ skipað sér í sérstakan sess hjá mér. Seinasta ljóðlínan („Svartur afgan, drauma minna ég sakna“) þykir mér til dæmis endurspegla þá upplifun sem ég fékk af kanbisneyslu þegar ég umgengst slíka neytendur á námstíma mínum erlendis. Efnið yfirtók draumana sem fyrir voru og hjá þeim sem voru langt leiddir var holrúmið eftir, draumarnir horfnir. Gaman að sjá þegar tónlistamenn og textasmiðir geta sagt stóra sögu í fáum orðum og/eða hljómum.

2. Þar sem hjartað slær – Fjallabræður, Lúðrasveit Vestmannaeyja og Sverrir Bergman
Eyjalögin skipa af sjálfsögðu mjög sérstakan sess fyrir mér. Nánast svo mjög að ég gæti nefnd þau í öll þessi 10 sæti. Bæði náttúrulega vegna Eyjatengingarinnar en einnig líka vegna þess að ég hef lengi haft unun af staðarljóðum. Eyjalögin eru náttúrulega flest tær staðarljóð þar sem skáldin reyna að umfanga tiltekin stað og tvinna hann saman við eigin vitund, minningar og líðan. Þetta lag Halldórs Gunnars „Þar sem hjartað slær“ er ofboðslega stórt lag. Til að það nái fullri getu þarf lúðrasveit, karlakór og helst 16.000 bakraddir. Svo spillir það ekki fyrir að höfundurinn sjálfur er einstakt gæðablóð sem gefur mikið af sér bæði í tónlistina og til þess fólks sem verða á vegi hans. Jarl Sigurgeirsson stjórnandi Lúðrasveitar Vetmannaeyja og minn mikli vinur á stóran þátt í þessu lagi sem einnig skiptir mig máli. Textinn hjá Magnúsi spilar svo vel með laginu. Dulúð staðarljóðsins bergmálar í bassadrunum. Ég hef sérstakt dálæti á því þegar lög eiga sér góða og skýrann endi. Nánast þannig að maður verður allt í einu var við að þegar lagið er búið verður eftir þrumandi þögn og tómarúm. Það tekst Halldóri vel í þessu lagi.

1.  My way – Sinatra
Furðulega gott lag með skemmtilega sögu. Auðvelt og áreynslulaust raul Sinatra gerir þetta franska meðalmennskulag bæði löðrandi af töffaramennsku og kemur því á þann stall sem það er fyrir mér. Mér þykir líka vænt um að textinn skuli hafa verið saminn af Paul Anka en lag hans „Lonely boy“ var eitt af fyrstu uppáhaldslögunum mínum og gætti þar af sjálfsögðu þess óformlega tónlistauppeldis sem ég hlaut af grammafóninum hjá pabba. Mér finnst algerlega magnað hvað Sinatra „púllar“ þennan sjálfhverfa texta. Hann var enda maður sem var búinn að upplifa hlutina, taka högginn, falla, standa upp og gera þetta allt á sínum eign forsendum. Textinn og flutningur Sinatra er algerlega stútfullur af hroka og skeytingaleysi fyrri pólitískum rétttrúnaði. Boðskapurinn einfaldur – vertu trúr eigin skoðunum og kærðu þig kollóttan um álit beturvitrana.

„For what is a man, what has he got?
If not himself, then he has naught.
To say the things he truly feels;
And not the words of one who kneels.

Með slíkt veganesti er fólk fært í flestan sjó. Jafnvel gæti manni sem algerlega gerilsneiddur af þekkingu eða hæfileikum á tónlistasviðinu dottið í hug að skrifa pistil um tónlist á vefsíðu Dr. Gunna ef hann fer eftir þessum boðskapi. Það væri þó glapræði fyrir bæði hann og það góða fólk sem les síðuna.“

OZ-ICE E.P.

20 Ágú

Á árum áður (fyrir internet) var þétt net tónlistaráhugamanna starfandi og naut póstþjónustunar. Ég datt inn í þetta upp úr 1980 og stóð í stórfeldum bréfaskriftum og músík-skiptum við fólk út um allan heim. Enginn vissi neitt um Ísland fyrir Sykurmolanna en svo varð hipp og kúl-mettun landsins sífellt meiri. Einn af pennavinum mínum var svo áhugasamur að hann ákvað að gefa út plötu. Hann var líka mikill Ástralíu-fíkill (eins og ég reyndar) svo niðurstaðan var 4-laga 12″ platan Oz-Ice þar sem Bless og Daisy Hill (áður Puppy Farm einnig) voru fulltrúar Íslands og 2 bönd fulltrúar Ástralíu. Eitthvað stóð platan á sér svo hún kom ekki út fyrr en 1993. Bless hafði tekið upp sitt lag 1991. Þetta var seinasta útgáfa bandsins, ég var kominn á bassa, Pétur Heiðar Þórðarson spilaði á gítar og Logi Guðmundsson var á trommur. Mér heyrist ég þó spila á gítar í þessari upptöku af laginu Sukk og svín. Tekið upp í Gný minnir mig. Bara þetta eina lag. Í öðru sessjóni tók svo sama læn-upp upp lagið „Heimavistin helvíti“ sem kom á Skífu-safnplötunni „Úr ýmsum áttum“, sem þótti nokkuð nýjabrum, sérstaklega þar sem „útgáfu-risinn“ borgaði fyrir upptökuna.

En allavega. Þessi tólftomma kom varla út. Ég fékk send örfá eintök og svo veit ég ekki meir. Varla hafa verið gerð fleiri en svona 500 stk. Ég er búinn að smella plötunni á stafrænt form, svo gjössovel bara…

Oz-Ice ep

1. BLESS – SUCK AND SWINE

2. DAISY HILL – RIVER PHOENIX

3. THE CRUSOES – CLOSER

4. PORCELAIN BUS – I’M NOT INSANE

Oz-ice ep2

linernotes
Skilaboð útgefanda, sem var Simon Proudman, minnir mig. En svo var annar pennavinur, Charlie Wertheim, sem kom eitthvað nálægt þessu líka.