
Eins og alkunna er fékk Elliða Vignisson yfirburðakosningu sem bæjarstjóri Vestmannaeyja, 99.7% atkvæða, nú í vor. Elliði hefur tjáð sig eitthvað um listina og listamenn, t.d. spurt hvernig 320þ manna þjóð geti rekið þjóðleikhús, og með því aflað sér óvinsælda hjá menningarfólki (aka lopalepjandi lattétreflum o.s.frv.) og hálfpartinn gert sig að fánabera „and-menningarsinna af landsbyggðinni sem vilja bara fisk og peninga“.
Mér þótti spennandi að vita hvar Elliði stæði þegar kæmi að drottningu listanna, poppinu, og spurði hann einfaldlega á Facebook hvort hann gæti ekki sent mér topp 10 yfir uppáhaldslögin sín. Bæjarstjórinn brást vel við og sendi mér mikla ritgerð sem hér kemur með youtjúbhlekkjum og alles. Gjöriði svo vel: Uppáhaldslög Elliða Vignissonar.
„Tónlist skiptir mig miklu og ég er nánast öllum stundum með tónlist í kringum mig. Í mínum vinahópi er mikið af tónlistarfólki og tónlistaspekúlöntum. Samneyti og samhlustun með þeim hefur orðið til að dýpka bæði tónlistarsmekk minn og gert mig meðvitaðan um hversu mikill munur getur verið á hlustun milli tveggja aðila. Sérstaklega á milli þeirra sem eru blessaðir með tónlistarhæfileika og okkar hinna. Þannig er mín hlustun mikið „semantískari“ en flestra vina minna sem hafa meiri tónlistagetu en ég sjálfur. Þannig skiptir texti, boðskapur og saga laga svo langtum meira fyrir mig en það skiptir fyrir þá. Til að mér líki lag verður allt að falla saman og textinn skiptir mig alltaf alveg gríðarlega miklu. Ekki svo að skilja að textinn þurfi alltaf að vera djúpur með æðri tilgang (þótt slíkt hjálpi) heldur einnig að orðin falli að hljómfallinu og myndi sína eigin sinfóníu án hljóðfæraleiksins.
Slæmir textar geta gert mig fúlan og sorgmæddan og það getur jafnvel tekið mig langan tíma að fyrirgefa flytjandanum og taka hann aftur í sátt. Ég skil til dæmis ekki af hverju frábærir tónlistamenn eins og Red Hot Chili Peppers leyfa sér að setja hrinu af ning, nang nog rugli og gengisfella annars hið frábæra lag „Around the World“:
„All around the world
We could make time
Rompin’ and a-stompin’
’cause I’m in my prime
I know I know for sure
ning, nang, nong, nong, neng, neng, nong, nong, ning, nang
I know I know it’s you
ning, nang, nong, nong, neng, neng, nong, nong, ning, nang.”
Algerlega furðulegt.
Við Íslendingar eigum svo einnig okkar skerf af furðulegri textagerð. Svo ótrúlegt sem það er þá pirrar það mig þó minna en þegar heimsfrægir tónlistamenn sem geta valið úr textasmiðum falla í þá gryfju að bryðja tannsteina. Íslensku textarnir verða fyrir mér meira krúttlegir en pirrandi þegar ákveðnu frostmarki er náð. Ég get því ekki hætt þessu tuði án þess að nefna tvö Íslensk textabrot til þessa leiks.
Annarsvegar er það „Á móti sól“ og textinn við lagið „Sæt“ sem er einhvernveginn svona:
„Farðu til fjandans og taktu þennan síðhærða djöful með þér
Ég vil aldrei sjá þig aftur
og helst enga sem að líkist þér“
Hitt dæmið er textinn við lagið „Dóninn“ með Greifunum:
„Ó hvernig fer hann með malmikið
Litla sæta malbikið
Hann er tillitslaus dóni“
Mín 10 eftirlætislög eru annars sem hér segir en þó ekki endilega í þessari röð:
10. Bob Dylan – Man gave names to all the animals
Frábært lag með skemmtilegum texta. Einhver reggífílingur sem mér fellur vel í geð. Einfalt og notalegt. Endirinn á laginu og textaleysið þar alveg ferlega flott.
9. Iron Maiden – The Rime of the ancient mariner
Kröftugt og vandað rokk þar sem flottur texti flýtur með skemmtilegu riffi og sólóleik. Þetta lag og textinn eru fyrir mér nánast eins og hljóðmynd. Maður hlustar á það og sagan spilast fyrir augum manns. Einhverntímann var mér sagt að textinn væri að megninu til úr ljóði frá fyrrihluta þar seinustu aldar sem ort var af einhverju rómantísku skáldi sem ég kann ekki að nefna. Hvort sem það er satt eða logið þá gefur slíkt laginu enn meira vægi fyrir mér. Þetta lag er hér nefnt sem fulltrúi stórs mengis sem ég hlusta mikið á. Þar inni rúmast einnig Led Zeppelin, Thin Lizzy, Deep Purple, Metallica, Procol Harum, ACDC og fl.
8. Pink Floyd – Wish you were here
Trúr Fraudismanum í mér hættir mér til að halda að melankólían í þessu lagi gæli við einhverja dauðahvöt í mér. Hið sama á reyndar við um mörg önnur lög Pink Floyd. Eftir að hafa kynnst af eigin raun í gegnum nám og störf á sviði sálfræðinnar hvernig geðsjúkdómar geta leikið fólk þá hef ég heilast sérstaklega af framsetningu á slíkum tilfinningum og mannlegum harmleik í dægurmenningu. Textinn í þessu lagi þykir mér frábær og melódían gerir hann enn betri. Textabrotið „We’re just two lost souls swimming in a fish bowl, year after year“ þykir mér eitt af þeim betri.
7. Supertramp – The logical song
Þetta lag hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ég var unglingur. Auðvitað er tónlistin sem slik frábær eins og Supertramp var von og vísa en eins og svo oft þá var það textinn sem greip mig. Á námsárum mínum bæði í Reykjavík og þegar ég bjó erlendis hlustaði ég mikið á þetta lag. Mér fannst ég svo oft skilja hugsunina á bak við textann. Velti því jafnvel fyrir mér hvort ég væri að ganga götuna til góðs. Hvers miklu það myndi breyta mér til hins betra að velja nám sem leið til þroska þegar svo margar aðrar leiðir virtust algerlega jafn gildar.
There are times when all the world’s asleep
The questions run too deep
For such a simple man
Won’t you please, please tell me what we’ve learned?
I know it sounds absurd
Please tell me who I am.
6. John Lennon – Imagine
Það er nánast dónaskapur að ætla eitthvað útskýra af hverju þetta lag er í uppáhaldi. Það útskýrir sig sjálft, bæði lagið og textinn. Ég nefni þetta lag hér sem fulltrúa bæði Lennons og Bítlanna. Lög þeirra eru reyndar flest í miklu uppáhaldi hjá mér. Meira að segja einföldu prósaljóðin eins og „A day in the life“ verða prýðileg hjá þeim. Ekki margir sem gætu púllað það.
5. Guess Who – American Women
Kröftugt og hrátt Kandískt rokk með texta sem auðvelt er að túlka á skemmtilegan hátt. Sjálfur skipti ég ætíð út orðinu „Women“ fyrir „Culture“ þegar ég hlusta á þetta lag. Þannig fær maður allt aðra og skiljanlegri merkingu í lagið. Það verður þá ádeila á hvernig Amerísk poppmenning í víðum skilningi þeirra orða verður smitandi sýkill í framandi umhverfi.
4. Ferðalok – Óðinn Valdimarsson
Ég hef mikið dálæti á þessu lagi. Vissulega er það erlent en á sama tíma er einhver svakaleg íslensk sveitarómatík í melódíunni sjálfri. Manni liggur við að kjósa Framsóknarflokinn þegar maður hefur hlutsað á það. Það er nánast eins og maður heyri lóukvak, finni lykt af berjalyngi og langi að reka niður girðingastaur. Textinn eða öllu heldur ljóðið eftir Jón Sigurðsson er svo kremið á þessa tónlistarköku. Við hrokagikkirnir fellum tár yfir þeim kafla þar sem raddbönd eru þanin með orðunum: „Allt er bjart fyrir okkur tveim því ÉG er kominn heim.“ Magnað.
3. Afgan – Bubbi Morthens
Margt af því sem Bubbi hefur gert finnst mér stórkostlegt. Ég er sérstaklega hrifinn af Bubba sem ljóðskáldi. Sem unglingur þóttu mér lögin „Ráð til vinkonu“ og „Blindsker“ algerlega frábær. Í dag hefur lagið „Afgan“ skipað sér í sérstakan sess hjá mér. Seinasta ljóðlínan („Svartur afgan, drauma minna ég sakna“) þykir mér til dæmis endurspegla þá upplifun sem ég fékk af kanbisneyslu þegar ég umgengst slíka neytendur á námstíma mínum erlendis. Efnið yfirtók draumana sem fyrir voru og hjá þeim sem voru langt leiddir var holrúmið eftir, draumarnir horfnir. Gaman að sjá þegar tónlistamenn og textasmiðir geta sagt stóra sögu í fáum orðum og/eða hljómum.
2. Þar sem hjartað slær – Fjallabræður, Lúðrasveit Vestmannaeyja og Sverrir Bergman
Eyjalögin skipa af sjálfsögðu mjög sérstakan sess fyrir mér. Nánast svo mjög að ég gæti nefnd þau í öll þessi 10 sæti. Bæði náttúrulega vegna Eyjatengingarinnar en einnig líka vegna þess að ég hef lengi haft unun af staðarljóðum. Eyjalögin eru náttúrulega flest tær staðarljóð þar sem skáldin reyna að umfanga tiltekin stað og tvinna hann saman við eigin vitund, minningar og líðan. Þetta lag Halldórs Gunnars „Þar sem hjartað slær“ er ofboðslega stórt lag. Til að það nái fullri getu þarf lúðrasveit, karlakór og helst 16.000 bakraddir. Svo spillir það ekki fyrir að höfundurinn sjálfur er einstakt gæðablóð sem gefur mikið af sér bæði í tónlistina og til þess fólks sem verða á vegi hans. Jarl Sigurgeirsson stjórnandi Lúðrasveitar Vetmannaeyja og minn mikli vinur á stóran þátt í þessu lagi sem einnig skiptir mig máli. Textinn hjá Magnúsi spilar svo vel með laginu. Dulúð staðarljóðsins bergmálar í bassadrunum. Ég hef sérstakt dálæti á því þegar lög eiga sér góða og skýrann endi. Nánast þannig að maður verður allt í einu var við að þegar lagið er búið verður eftir þrumandi þögn og tómarúm. Það tekst Halldóri vel í þessu lagi.
1. My way – Sinatra
Furðulega gott lag með skemmtilega sögu. Auðvelt og áreynslulaust raul Sinatra gerir þetta franska meðalmennskulag bæði löðrandi af töffaramennsku og kemur því á þann stall sem það er fyrir mér. Mér þykir líka vænt um að textinn skuli hafa verið saminn af Paul Anka en lag hans „Lonely boy“ var eitt af fyrstu uppáhaldslögunum mínum og gætti þar af sjálfsögðu þess óformlega tónlistauppeldis sem ég hlaut af grammafóninum hjá pabba. Mér finnst algerlega magnað hvað Sinatra „púllar“ þennan sjálfhverfa texta. Hann var enda maður sem var búinn að upplifa hlutina, taka högginn, falla, standa upp og gera þetta allt á sínum eign forsendum. Textinn og flutningur Sinatra er algerlega stútfullur af hroka og skeytingaleysi fyrri pólitískum rétttrúnaði. Boðskapurinn einfaldur – vertu trúr eigin skoðunum og kærðu þig kollóttan um álit beturvitrana.
„For what is a man, what has he got?
If not himself, then he has naught.
To say the things he truly feels;
And not the words of one who kneels.
Með slíkt veganesti er fólk fært í flestan sjó. Jafnvel gæti manni sem algerlega gerilsneiddur af þekkingu eða hæfileikum á tónlistasviðinu dottið í hug að skrifa pistil um tónlist á vefsíðu Dr. Gunna ef hann fer eftir þessum boðskapi. Það væri þó glapræði fyrir bæði hann og það góða fólk sem les síðuna.“
Efnisorð:Uppáhalds